Saga Vestmannaeyja II./ III. Atvinnuvegir, 3. hluti, framhald 2

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Útgerð landmanna.


Landskip voru skipin af meginlandinu kölluð hér. Hefir orðið snemma verið notað, sést m.a. í umboðsreikningum frá 16. öld. Sjávarútvegurinn í Vestmannaeyjum útheimti jafnan mikinn mannafla af landi á eyjaskipin, svo hundruðum skipti. 2-3 hundruð manna munu hafa sótt hingað á blómaárum útgerðarinnar fyrrum af landi, mest úr Rangárvallasýslu. Útversmenn úr Skaftafellssýslu hafa verið hér lengstum, og einnig lengra að, jafnvel af Norðurlandi. Á aflaárunum á síðari hluta 17. aldar og undir lok 16. aldarinnar og jafnvel á 15. öld mun tala vermanna að líkindum hafa náð fyrrgetinni tölu. Á árunum 1840—1847 er talan um hálft þriðja hundrað.⁵⁹) Landmönnum var skipað niður í skiprúm á dögum konungsverzlunarinnar og síðar á einokunartímunum á innstæðubátana, eftir því sem þörfin var fyrir, og gerðar ferðir til lands eftir sjómönnum. Seinna, er skipastóllinn komst á hendur eyjamanna sjálfra á 19. öld, róa nokkrir landmenn á vegum eyjamanna á flestum skipum. Sókn vermanna hingað af landi hefir haldizt óslitið um aldaraðir og helzt enn þann dag í dag, og á seinni tímum meiri en áður. Bændur á landi, þ.e. úr nærsveitunum, hafa frá fornu rekið útgerð hér á eigin skipum árlega á vertíð, og hélzt við, þar til fram um aldamótin síðustu. Skálholtsstóll mun hafa haft hér útveg fyrrum lengi í tíð hinna katólsku biskupa. Af minnisgreinum Gissurar biskups Einarssonar sést og, að þá hafði stóllinn enn nokkra útgerð í eyjunum. Staðirnir á Breiðabólsstað og í Odda, og að líkindum fleiri, gerðu stundum út skip hér. 1504 er getið fiskeignar Breiðabólsstaðarkirkju hér, er mun hafa verið aflað á eigin útvegi. Útgerðarrekstur hér höfðu höfðingjar og valdsmenn á landi. Þannig átti Vigfús hirðstjóri og sýslumaður Erlendsson á Hlíðarenda einn teinæring og gamlan áttæring hálfan árið 1521, sama árið og hann lézt. Vigfús hafði og skip við Fjallasand og Eyjasand.⁶⁰) Páll lögmaður á Hlíðarenda, sonur Vigfúsar Erlendssonar, hafði og útgerðarrekstur hér á eigin skipum.
Á síðasta hluta 16. aldar var tala landskipa, eins og sést á umboðsreikningum frá þeim tímum, venjulegast 3—4 tein- og áttæringar.⁶¹) Svipað þessu mun hafa verið um útveg landmanna á 17. öldinni. Á tímabilinu kringum Tyrkjaránið stóðu landmenn betur að vígi en eyjabúar, er misstu skip sín. En landmenn hafa alltaf farið með sín skip til lands að endaðri vertíð. Útgerðarrekstur landmanna á einokunartímunum var oft allmikill. Samkvæmt skrám frá 18. öld gengu héðan 5 landskip á vertíð 1726, 1748 11 skip og 1756 5 skip, öll úr Austur-Landeyjum. Þá gekk ekkert skip þar fyrir Söndum. Árið 1761 gengu 8 skip af landi. Undir lok aldarinnar var þessi útgerð mjög lítil, enda var þá útgerðin í eyjunum þá um tíma, eins og áður segir, næstum komin í auðn. Upp úr aldamótunum eykst útgerðin smám saman aftur. 1827 var 9 skipum af landi haldið úti í eyjunum og 1829 átta skipum, er á voru 112 manns, aðallega úr Landeyjum og Fljótshlíð. Á þessum árum var minni sókn vermanna undan Eyjafjöllum til eyja.⁶²) 1832 gengu aðeins 3 stórskip af landi. 1855 voru landskipin hér 12, og svipað þessu oft síðan.⁶³) Vermenn höfðu leiðarbréf frá sýslumanni um að þeir væru frjálsir ferða sinna og óhindraðir að lögum. Fyrr á tímum annaðist umboðsmaður flutning útróðrarmanna af landi til eyjanna.
Venja var á síðari tímum, að landskipin kæmu út til eyja nokkru eftir byrjun vertíðar, stundum eigi fyrr en í miðgóu. Haustmenn af landi voru fengnir til haustróðra. Voru haustróðrar áður stundaðir fram eftir skammdeginu og fram að vertíð. Haustmenn voru allir teknir á konungsskipin, sjá kærumál eyjamanna frá 1583, og hver útróðrarmaður, er í eyjarnar kom, og fengu bændur eigi að halda þeim mönnum, er þeir höfðu vistað til sín að róa á sínum útvegi. Haustmenn og aðrir vermenn voru skyldir til að róa þar, sem þeim var af umboðsmanni niðurskipað, enda lét umboðsmaður sækja þá og mötur þeirra og föng, en þeir, sem fóru út í forboði, skyldu sæta sektum eða greiða öfundarbót eða fullrétti, sbr. Hvítingadóm Kláusar Eyjólfssonar frá 1635. Svo var hart eftir gengið, að höfuðsmaður skyldi sjálfur útvega sjómenn á útveg konungs í Vestmannaeyjum, ef nægilega margir fengust ekki til eyja úr nærhéruðunum á landi. Líkt hefir gilt á einokunartímunum, að allir haustmenn og aðrir útróðrarmenn af landi, er eigi töldust til skipshafna landskipanna, hafa verið teknir á innstæðubátana, og eyjamenn eigi haft þeirra not fyrr en fullskipað var á útvegi kaupmanna. Það er eiginlega fyrst á 19. öldinni, að veruleg breyting verður hér á.
Skipshafnir á landskipunum höfðust við í sjóbúðum, er stóðu í nánd við tómthúsin. Er þess stundum getið, að tómthús hafi verið byggð upp úr sjóbúðum. Sumar sjóbúðirnar voru hin mestu hreysi og furða, að menn skyldu halda lífi í þeim í vetrarhörkum. Rúmstæðin bálkafleti sængurfatalaus. Í miklum kuldum notuðu menn stundum segl sem ábreiður. Var ekki nema fyrir hraustleikamenn að þola þennan aðbúnað, en bótin var, að flestir vermennirnir voru hraustir og vaskir. Landmenn höfðu fiskigarða sína nálægt sjó, vestur frá Sjóbúðarklettum. Vermenn af landi voru gerðir út með mötur og föng að heiman, „mötustuttur, ef illa entist“. Í sjóbúðunum sváfu tveir og tveir saman í rúmum eða rúmfletum, andfætis, og stóðu mötuskrínur við hvern rúmsenda. Skipshafnirnar höfðu venjulega með sér ráðskonu af landi. Vermenn, sem gerðu sig út sjálfir, en réru á eyjaskipum, voru til húsa, „lágu við“, hjá eyjamönnum; lögðu þeir á borð með sér átmat allan og viðbit. Gjaldið var fyrir vertíðina ein ær loðin og lembd í fardögum. Húsaleiguupphæð, er getur um í dómi 1685, mun hafa verið í fiski, er vermenn af landi fengu af óskiptum afla upp í húsaleigukostnað sinn.
Landmenn stunduðu hér stundum vorfiski á smáferjum. Meðan fiskur var hertur voru jafnan nokkrir menn af landskipum eftir, að lokinni vertíð, til þess að annast verkun fiskjarins, og stunduðu á meðan fiskveiðar og slógu sér saman. Á einokunartímunum var landmönnum, er réru á útvegi kaupmanna, stundum bannað að fara til landsins eftir lokin, svo að þeir gætu stundað vorfiski á bátum kaupmanna. Hin fornu vertíðarlok, er í eyjunum voru talin 24. apríl, voru eftir miðja 18. öld færð fram til 11. maí, eins og síðan hefir haldizt.
Um vöruskiptaverzlunina milli eyjamanna og landmanna verður getið hér á öðrum stað.
Í sambandi við hinar tíðu ferðir milli lands og eyja, og fólkssókn á milli héraðanna, voru höfð uppi ýms merki eða leiðarvísir á báðum stöðum. Það var lengi siður, þegar búizt var til eyjaferðar af landi, að setja veifu á stöng á bæjum miðsveitis, þar sem vel sást til. Brennur voru og gerðar á landi, þegar landmenn vildu, að eyjamenn kæmu „upp“ til þess að sækja fólk. Sama hér. Þegar brenna sást á landi, eða í eyjum frá landi, var svarað á hinum staðnum með því og að gera brennu, til merkis um, að tekið hefði verið eftir brennunni.⁶⁴)
Það hefir verið talin gömul sjóregla, að fært sé að lenda við Landeyjasand, meðan ekki ganga þrír sjóir í röð yfir Nafarinn, smásker fyrir vestan Grasleysu. Þetta gildir þó ekki um lendingu við sandinn fyrir austan Tanga.⁶⁵) Brim hömluðu mjög tilfinnanlega samgöngum. Voru dæmi um afarlöng frátök, jafnvel fleiri mánaða. Þannig hafði það komið fyrir, að póstur tepptist hér á milli frá því í september og fram í marzmánuð næsta ár.


Fiskimið og róðrarleiðir.


Stefán Björnsson skipstjóri og útvegsmaður og kona hans Margrét Jónsdóttir.
Halldór Halldórsson skipstj. og kona hans Sigríður Friðriksdóttir.
Sigurður Oddsson skipstj. og útvegsm., (d. 1945), og kona hans Ingunn Jónasdóttir.

Óskar Eyjólfsson skipstjóri og útgm. og kona hans Ásta Þórðardóttir og barn þeirra.

Hér skal lýst helztu fiskimiðum og róðrarleiðum í Vestmannaeyjum á síðari hluta 19. aldar, og mun í þessu efni hafa verið líkt farið æfalengi og flest miðaheitin eru allgömul. Fyrsta mið frá höfninni: Krambúðarklakkur suður af Klettsnefi, þá Bergshúsaklakkur, er haldið var til suðurs.⁶⁶) Ef ekki varð vart á þessu miði, þótti sem fiskur myndi eigi kominn á önnur mið heldur, eða genginn, og var því stundum brugðið sér þangað, til þess að leita. Sunnar er Flugnahraun, Bótin, Siggamið, Freykjuklakkur, Hrútsbringsklakkur í suður-landsuður af Litlhöfða. Þá Klakkurinn djúpi og grunni Klakkur út af Hellutá í Stórhöfða. Smáeyjamið í Suðureyjarsundi, Helliseyjarrif, Pétursklakkar, Súlnaskersklakkur.

Ólafur Vigfússon skipstjóri og útg.m. og kona hans Kristín Jónsdóttir.

Snúum svo til austurs aftur: Þríhamradjúp, Þórarinshraun, Bessi og Grunnbessi, Holan, Flókamið, landsuður af Bjarnarey, Ólafshola, Mannklakkur heimari, Réttarklakkur, miðað við Réttardranga í Bjarnarey, Djúpamið í landsuður af Elliðaeyjartöngum, Elliðaeyjarhraun, svo kemur Drangamið, Eystri-Mannklakkur austur af Bjarnarey, þar næst Rófa austur af Elliðaey. Þetta allt, sem hér er talið, eru almenn nærmið, en Rófa þó eigi eiginlegt nærmið, því að hún er langt austur af Elliðaey.

Lárus hreppstjóri Jónsson á Búastöðum, (d. 1895), og kona hans Kristín Gísladóttir, (d. 1921).

Höldum vestur: Komum vestur á Danskahraun, þá Kúksklakkur, landnorður af Elliðaey, nýtt mið, Kirkjumið vestur af Elliðaey, Ingimundarklakkur í útsuður af Danskahrauni, Herjólfsklakkur, Presthúsaklakkur. Nú farið austur á við aftur: Innleira, Jónsmið, Álfseyjarklakkur, Langabergsklakkur, Skíthaugsmið, í Innflóa landnorður af Lögmannssæti Gjábakkamið, Sæfjallsklakkur nær Elliðaey. Þessi í flóanum og eru nærmið. Vestan við eyjar og norðan: Miðflói, þegar yddir á Litlhöfða út fyrir Flúðartanga, Innsta Flúð, Sandagrunn inn af, Faxaklakkur, Brandsflúð, Þorleifsmið, Þorsteinsklakkur, Hreiðarshraun, Bjarnahraun, Breki, Hænuklakkur, Álfseyjarrif, Breiðavík fyrir vestan Álfsey, Austustu Svið, Vestustu Svið og Miðsvið, Einarsklakkur, Hundaskersklakkur, Olguklakkur (ber nafn af þilskipinu Olga, er selt var úr eyjum), Grásteinsleira (lúðu- og þorskamið), Brandskjálkur, Suðureyjarrif. Hér með talin nærmið og hringmið kringum eyjarnar. Súlnasker syðst í hringferðinni, og helzt eigi farið lengra almennt á róðrarbátum, en allengstu leiðir á þeim suður fyrir Geirfuglasker. Ledd er t.d. heila danska mílu austur af Hellutá. Heitir réttu nafni Katrínarledd.⁶⁷) Á Ledd var eigi farið nema í völdu veðri. Leddarforir voru hákarlamið inn af eða til útnorðurs af Ledd. Holtsgrunn fram af Holti, Sandagrunn hér nær. Þegar vélbátar komu til sögunnar var sótt landnorður af Geirfuglaskeri, 2—3 tíma ferð.⁶⁸) Á seinni árum var mest róið á vesturleiðir, vestur fyrir Einidrang og Eyjólfsklöpp, NV og N af Einidrang um eins klukkutíma siglingu, en að Einidrang er þriggja tíma ferð.⁶⁹)
Sigling. Hákarlaskip leggst í landsuður af Jökulsá. Vestanveður og rekur fyrir vindi og drífur fyrir akkeri útsuður af Pétursey. Skipið er á 80 faðma dýpi. Sigldur innbógur, hálfan slag undir land, þar til komið var á 8—10 faðma dýpi. Þá tekinn útbógur aftur og haldið áfram langt í suðaustur af Súlnaskeri, síðan tekinn innbógur á Bjarnarey, svo aftur útbógur í suðvestur og náð Sigurðar-Rönku á Urðum, aftur siglt inn og náð rétt suður af Klettsnefi og þaðan tekinn landróður. Var oft erfiður barningur í vestanrokum inn Víkina, en hér ómögulegt að koma við seglum. Ef dróst á árar og nóg slagrúm var í sjó, var reynt á segl, en þreytandi kvöl var það sjómönnum að liggja logndauðir, byrlausir í rúmsjó. Full segl höfð uppi í litlum vindi. Austur var mikill, þegar verið var undir seglum. Segl voru minni meðan siglt var spritsiglingu, mun stærri eftir að lokortusigling var tekin upp. Siglt í austanlandnyrðingsroki lengst sunnan úr sjó, langt í útsuður af Geirfuglaskeri, siglt með tvírifuðu. Fyrst siglt í landsuður, næsta vindi, til þess að ná slag, bóg, og þá siglt sama slaginn frá því, skammt fyrir austan Geirfuglasker og farið fyrir innan Álfsey og alveg inn undir Sand, Útlandeyjar. Þaðan beygt og tekinn næsta vindi nýr bógur til suðurs og náð undir Álfsey, þaðan siglt aftur undir Sand og náð austur fyrir Krossfjörur, þá beygt á ný og tekinn með útfalli nýr bógur í suðaustur og náð Stafnnesi við Dalfjall. Þá aftur tekinn bógur undir Sand og þaðan loks náð Eiðinu. Þannig siglt allan daginn, og skipverjar dasaðir eftir margar andvöku- og útilegunætur í hákarlatúr, og vildu þá fyrir hvern mun ná austur fyrir Klett og inn á Höfn, í stað þess að lenda á Eiðinu og þurfa að setja skipið yfir Eiðið. Slakan tekin af togunum, hlétog og kultog, og seglin borin um og snúið. Siglt austur og náð Skelli, þá tekinn svolítill bógur og náð inn á Vík. Þaðan landróðurinn í land. Klettróðurinn svokallaður suðaustur gegnum Faxasund þótti allþungfær móti straumi og drangurinn Latur lengi að færast aftur fyrir skipið, þar af drangsnafnið. Haldið áfram heim með Kletti og fyrir Vámúlaskoru.
Þegar sigling var úti skipaði formaður að láta nær, þ.e. að fella mastrið með seglinu. Segltökumennirnir, skautsigling, skipuðu andófsmönnum að „skera stögin“, þ.e. að leysa stagundirgjörðina úr stagklónni. Leggja upp, hætta að róa. Undir árar, þ.e. að eiga að taka til róðurs. Taka til, þ.e. að reisa mastur og tilreiða tog og segl. Í Vestmannaeyjum var lítil alda, sem faldaði í toppinn, kölluð typplingur, sigalda, stóralda, bærlingur, þegar alda kom skáhallt á bátinn, mátti þá formaður gæta mikillar varkárni og skáskera bylgjuna. Skautaburður: siglt á árum.
Innsiglingin frá Víkinni og inn á höfnina, Leiðin svokölluð, hefir löngum verið talin torfæra skipum, vandrötuð og hættuleg, þá brim eru Leiðin byrjar, þegar Heljarstígur gengur að Miðkletti, og endar, þegar Stórató kemur undan Klifinu, og skal jafnan á út- og innsiglingu ydda á suðurhorni Elliðaeyjar undan Yztakletti.⁷⁰) Formenn máttu eigi leggja á Leiðina of nærri hver öðrum, né heldur leggja opnum skipum á hana hverju móti öðru, ef nokkuð var að Leið, en það skip hafði forgangsrétt, er af sjó kom, sbr. fiskveiðasamþykkt fyrir Vestmannaeyjar 20. maí 1893,⁷¹) er staðfesti gamlar venjur í þessu efni, — endurtekið í seinni samþykktum.
Þegar legið var til laga við Leiðina, var legið rétt norðan við Hringskerið, svo að kollinn á Kerlingu í Elliðaey bar í Klettsnef og Gjábakkahjallur við Axlarstein. Var þetta talin grynnsta lega, og mátti eigi leggja skipunum innar, ef nokkuð var að sjó og lag þurfti að taka inn yfir, en þá braut sjóinn frá Hrognaskeri og inn á Stein, svo að menn mættu föllunum, þ.e. brimrótinu, frá Hrognaskerinu, sem er út af eystra hafnargarðinum, milli Hringskersins og garðsins. Vildi bátum þá snúa til norðurs, þegar sjórinn skall á bakborðsskut, og var þá hætt við að skipið, ef það var eigi rétt í sjó, hlypi upp á bakborða, skakkreitis í sjónum, en eigi mátti snúa til stjórnborða eða til norðurs, því að þá lenti á Eyrinni, heldur varð að halda skipinu vel föstu í sjónum til bakborða og þá farið á boðabaki frá Hringskeri og inn fyrir Hrognasker, og reynt að vera á hálsunum á öldunum, utan við faldinn, og reynt að skekkja sér á hlið til útsuðurs eða á bakborða, eins og áður segir, til þess að komast í varið frá Hafnareyri. En hættan var mest að lenda upp á Norðureyrina. Milli Hringskers og Stóraskers er dýpra Músarsund, en Músarsund grynnra milli Stóraskers og lands. Þar austur af er Flóðsker.⁷²) Í stórbrimi gat brotið frá Hringskeri eða skerjunum austan við ytri hafnargarðinn og alveg inn í Bratta, og varð stundum að taka lag af höfninni og inn í Læk.
Þau veður gátu komið, að taka varð skip úr hrófum á vertíð og setja lengra upp. Í slíkum veðrum voru t.d. skip, er voru í uppsátrum við Bratta, sett alveg upp á hæðina og í geil eða lægð, sem var þar nálægt, er Tangabúðin er nú.⁷³) Um 1850, á öskudag, gerði svo mikið veður, að skip, er sett höfðu verið þarna upp á hæðina í geilina, felldu undan sér allar skorður og voru á floti í sjó, er gengið hafði upp í geilina, um morguninn, er komið var að. Það kom og fyrir í aftakabrimi, að sjór gengi yfir suðurhluta Yztakletts. Síðan hafnargarðarnir voru reistir er orðin hér mikil breyting innan hafnar. Einnig hefir verið rutt burtu steinum úr Leiðinni, er lengi hafði verið tálmi að. Höfnin dýpkuð. Hefir þannig miklu verið áorkað um hafnarbætur, þótt ennþá vanti mjög mikið á að fengin sé fullkomin hafskipahöfn.
Þegar legið var til laga fyrir utan Leið, skyldi gefa gát brotunum á Sólboða suður af Þvottatanga. Leiðarróður skyldi taka, er ólagið reið á boðann. Að tilhlutun Skipaábyrgðarfélagsins í Vestmannaeyjum var tekin upp sú nýbreytni, að flaggað var á Skanzinum með sérstökum flöggum, þegar Leiðin var talin aðgæzluverð eða ófær og bátar voru á sjó. Flaggað í hálfa stöng til merkis um aðgæzlu, og flaggið dregið alveg upp, er Leiðin var ófær. Síðan var reist flaggstöng á vörðu austur af Gjábakka og flaggað þar með einu flaggi, ef Leiðin var ófær, „tók af“. Ef eigi var fært inn fyrir Leið var róið inn fyrir Klett og lent á Eiðinu, annaðhvort austast nærri Hettugrjótum eða vestur við Almenning. Þrautalending var og í Stafnnesi og í Kópavík. Í víkinni við Stórhöfða mátti og lenda.


Skipahróf.


Róðrarskipum var eigi lagt í Vestmannaeyjum, heldur voru þau sett upp í hróf eftir hvern róður. Orðið hróf hefir haldizt hér í seinni tíð og ætíð verið haft um skipastæðin sjálf upp af lendingarstaðnum. Hin fornu hróf voru hleðslur utan um skipin. Munu eyjaskipin til forna hafa verið geymd í slíkum hrófum eða naustum, sbr. og örnefnið Nausthamar, þótt eiginlegar menjar þeirra sjáist ekki nú. Aðallendingarstaður skipa hefir bæði fyrrum og seinna verið það, sem kallað hefir verið inni í Læk, milli Stokkhellu og Nausthamars. Skip flutu þarna allvel um flóð og var þá stuttur setningur upp í hrófin. Uppsátur voru og fyrir vestan Læk og í Bratta og á Tanga, sem og fyrir austan Nausthamar. Á þessum síðastnefndu stöðum aðallega fyrir landskip. Með útföllnum sjó flutu skip mjög illa að. Var þá seilað úti fyrir. Um fjöru, einkum í stórstreymi, voru sandeyrar og grynningar uppi, langt út frá lendingarstaðnum, og setningur á skipum því mjög langur utan af leirunum út frá Læknum. Sérstaklega var erfiður dráttur eða setningur skipa, þegar lent var á Eiðinu, því að þá varð að tvísetja, fyrst yfir Eiðið og svo upp í hrófin heima í Sandi. Hefir það verið erfiði mikið og bakraun, að standa undir og draga stórskipin langar leiðir, enda töldu og margir sjómenn dráttinn á skipunum, er menn urðu að standa bökum að og leiða eða draga þannig og kallað var að setja, verra strangasta andófi.
Skipdrættir voru við uppsátrin, er nefnd voru, og á Eiðinu, einnig í Klauf, þar sem Ofanbyggjarar (þeir, sem búa fyrir ofan Hraun), höfðu vor- og sumarútgerð á smáferjum. Skipdrættirnir voru steinlagðir, settir stokkum og höggvin för í klappir. Eftir brimrót þurfti oft að laga skipdrættina, og voru menn kvaddir til þess sameiginlega af hreppstjórum. Hlunnar voru notaðir við dráttinn.
Skipahróf í Skipasandi: Bjargarhróf hét vestasta hrófið í Sandinum við Stokkalónið. Það létu byggja Jóhann J. Johnsen í Frydendal og Jón hreppstjóri Jónsson í Dölum, er áttu í skipinu Björg. Næst fyrir austan Bjargarhróf var Hafrúarhrófið. Þá Lisebetarhrófið, svo Gnoðarhrófið, næst þar fyrir austan Gideonshróf, þar fyrir austan Áróruhróf, svo Enokshróf, Farsælshróf og Blíðuhróf. Þá Mýrdælingshrófið, Svanshróf og Friðarhrófið og austast Bjargarhrófið, yngri Bjargar Ingimundar á Gjábakka, við Miðbúðarbryggju. Í Vestra Sandi þessi hróf: Halkionshrófið (austan og ofan við Nýjabæjarlón) og Lundahróf. Skip voru og sett í Fúlu og í Bratta. Í Bratta setti upp skip sitt formaður úr Útlandeyjum. Sigurður Þorbjörnsson á Kirkjulandi setti upp í Fúlu og fleiri formenn af landi. Fortúna var sett upp vestan við Austurbúðarbryggju. Hún var eigi vertíðarskip, en höfð til vorfiskveiða til Dranga. Einnig var hún notuð sem fjárbátur í úteyjar o.fl. Fortúnu tók út í útsynningsveðri miklu og á haf út. Rak upp á Berufjarðarströnd og var annað stefnið úr henni, en að öðru leyti lítið skemmd.


Helztu formenn á síðasta hluta 19. aldar og um aldamótin.


Jón Magnússon skipstjóri og sigam. frá Kirkjubæ og fjölskylda.
Magnús Guðmundsson skipstjóri og útvegsmaður og kona hans Jórunn Hannesdóttir.
Vigfús Jónsson útvegsmaður og skipstjóri, (d. 1943), og kona hans Guðleif Guðmundsdóttir, (d. 1922).

Með skipið Áróru:
Brynjólfur Halldórsson í Norðurgarði. — Jón Árnason frá Vilborgarstöðum, síðar kaupmaður í Reykjavík. — Lárus hreppstjóri Jónsson á Búastöðum. — Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri á Vilborgarstöðum, síðar á Heiði. — Vigfús P. Scheving bóndi á Vilborgarstöðum. — Sigfús Árnason póstafgreiðslumaður og alþingismaður á Löndum. — Skipið Áróra var seld sem uppskipunarbátur til Víkur í Mýrdal.
Með skipið Björgu:
Sæmundur Guðmundsson á Vilborgarstöðum. — Finnbogi Björnsson bóndi í Norður-Garði, faðir Björns útgerðarm. á Kirkjulandi og þeirra bræðra. — Sigurður Sigurðsson í Kirkjubæ. — Björg var keypt úr Þykkvabæ.
Með skipið yngri Björgu:
Ingimundur Jónsson bóndi á Gjábakka. — Kristján Ingimundarson á Klöpp.
Með skipið Blíðu:
Jón Hreinsson í Batavíu. — Ólafur Magnússon í Nýborg.
Með bátinn Dreka:
Ólafur Magnússon í London; bátinn smíðaði hann sjálfur.
Með skipið Enok:
Ólafur Magnússon í Nýborg. — Lárus Jónsson á Búastöðum.
Með skipið Eólus:
Björn Einarsson bóndi í Kirkjubæ. Björn var faðir Finnboga í Norður-Garði fyrrgetins og Guðjóns bónda í Kirkjubæ. — Bjarni Ólafsson bóndi í Svaðkoti. — Jón Jónsson hreppstjóri á Vilborgarstöðum, seinna í Dölum, faðir Jóns í Brautarholti, nú spítalaráðsmanns. — Eólus var seldur sem uppskipunarskip til Víkur. Var sexæringur.
Með skipið Farsæl:
Hjalti Jónsson skipstjóri. — Jón B. Jónsson bóndi í Ólafshúsum. — Stefán Gíslason í Ási.
Með skipið Frið:
Lárus Jónsson á Búastöðum. — Gísli Lárusson í Stakkagerði.— Gísli Eyjólfsson á Búastöðum.
Með skipið Gauk:
Sighvatur Sigurðsson bóndi á Vilborgarstöðum.
Með skipið Gideon:
Árni Diðriksson í Stakkagerði. — Hannes Jónsson hafnsögumaður í Miðhúsum.
Með skipið Gnoð:
Jón Einarsson á Garðstöðum.
Með skipið Haffrú:
Guðmundur Einarsson. — Sigurður Ögmundsson bóndi í Brekkhúsi. — Guðjón Jónsson sýslunm. í Sjólyst.
Með skipið Halkion:
Jón Jónsson eldri í Stóra-Gerði. — Jón Jónsson yngri í Stóra-Gerði, eftir að faðir hans fór til Ameríku. Jón eldri var og faðir Guðlaugs bónda í Stóra-Gerði, föður Stefáns s.st., útvegsbónda og skipstjóra.
Með skipið Hannibal:
Ólafur Magnússon í London, er hann smíðaði og var með færeysku lagi. — Magnús Guðmundsson Þórarinssonar í Vesturhúsum .
Með skipið Ingólf:
Magnús Guðmundsson í Vesturhúsum.
Með skipið Ísak:
Magnús Þórðarson í Sjólyst. — Þorsteinn Jónsson í Laufási.
- Ísak var keyptur af landi. Með hann var áður Oddur Pétursson á Krossi, faðir Sigurðar útgerðarmanns í Skuld. -
Með skipið Langvinn:
Brynjólfur Halldórsson bóndi í Norður-Garði. — Langvinnur var hákarlaskip, sem og hin stærri skip. Var hann smíðaður í Langvinnslág milli túnanna í Gvendarhúsi og Vestra-Þorlaugargerði niður af Sethól.
Með bátinn Lísebet:
Ágúst Gíslason Stefánssonar frá Hlíðarhúsi, síðar í Valhöll, — Jón Pétursson bóndi og skipasmiður í Eystra-Þorlaugargerði. — Stefán Gíslason frá Hlíðarhúsi, síðar í Ási.
Með skipið Lundann:
Sæmundur Guðmundsson á Vilborgarstöðum.Ingibjörg Hreinsdóttir kona Jóns Einarssonar á Garðstöðum, (d. 1922).
Jón Einarsson formaður á Garðstöðum, (d. 1906).

Með skipið Mýrdæling:
Þorsteinn Jónsson hreppstjóri og alþingismaður í Nýjabæ. — Jón Ingimundarson í Mandal.
Með skipið Skeið:
Sigurður Sigurfinnsson. — Guðjón Jónsson í Sjólyst.
Með skipið Skrauti:
Sigurður Sigurðsson í Frydendal. — Skrauti var teinæringur, er keyptur var sunnan með sjó, líklega úr Höfnum.
Með skipið Svan:
Jón Vigfússon bóndi í Túni. Hann var faðir Vigfúsar útgerðarmanns í Holti, Guðjóns bónda og trésmíðameistara á Oddsstöðum, Þórunnar veitingakonu og þeirra systkina. — Ástgeir Guðmundsson skipasmiður í Litlabæ.
Með skipið Trausta:
Friðrik Svipmundsson á Löndum. — Þegar Jakob Færeyingur kom hingað til að smíða hér báta, smíðaði hann stóran bát handa Friðriki með færeysku lagi.

Friðrik Svipmundsson útvegsmaður og skipstjóri á Löndum, (d. 1935)
Elín Þorsteinsdóttir, kona Friðriks Svipmundssonar.
Sigurður Sigurfinnsson skipstjóri og hreppstjóri, (d. 1916)
Guðríður Jónsdóttir, (d. 1944), seinni kona Sigurðar Sigurfinnssonar hrstj.
Oktavía Einarsdóttir, seinni kona Jóels Eyjólfssonar.
Jóel Eyjólfsson skipstjóri og útgerðarm. í Sælundi, (d. 1944).
Pálína Jónsdóttir, kona Guðmundar Einarssonar.
Guðmundur Einarsson útgerðarmaður í Viðey, (d. 1943).
Margrét Sigurðardóttir, kona Ólafs Auðunssonar útg.m. og kaupm.
Ólafur Auðunsson, (d. 1942), og dóttir hans Solveig.


Vélbátar í Vestmannaeyjum á vertíðinni 1935.


Ágústa, 36 smál. Skipstjóri: Guðni Jóhannsson, Eigandi: Eggert Jónsson. Áhöfn: 5 menn.
Ásdís, 13,64 smál. Skipstj.: Jónas Bjarnason. Eig.: Lúðvík Lúðvíksson. Áh.: 4 menn.
Atlantis, 13,45. Skipstj.: Ragnar Þorvaldsson. Eig.: Árni Sigfússon. Áh.: 5 menn.
Auður, 15 smál. Skipstj.: Ásbjörn Þórðarson. Eig.: Helgi Benediktsson. Áh.: 5 menn.
Bliki, 21 smál. Skipstj.: Júlíus Sigurðsson. Eig.: Sigurður Ingimundarson. Áh.: 5 menn.
Emma, 16 smál. Skipstj.: Eiríkur Ásbjörnsson. Eig.: Sami. Áh.: 5 menn.
Erlingur, 23 smál. Skipstj.: Sighvatur Bjarnason. Eig.: Sami og Gunnar M. Jónsson. Áh.: 5 menn.
Freyja, 23,85 smál. Skipstj.: Guðjón Jónsson. Eig.: Hannes Hansson, Jón Hinriksson o.fl. Áh.: 6 menn.
Friðþjófur, 13,30 smál. Skipstj.: Villum Andersen. Eig.: Friðrik Svipmundsson. Áh.: 5 menn.
Frigg, 21,07 smál. Skipstj.: Sigurður Bjarnason. Eig.: Kaupfélagið Fram. Áh.: 8 menn.
Fylkir, 39,84 smál. Skipstj.: Guðjón Tómasson. Eig.: Sigurður Bjarnason o.fl. Áh.: 5 menn.
Garðar, 59,51 smál. Skipstj.: Óskar Gíslason. Eig.: Sami. Áh.: 5 menn.
Gunnar Hámundarson, 20 smál. Skipstj.: Magnús Jónsson. Eig.: Vigfús Sigurðsson. Áh.: 5 menn.
Gotta, 34,71 smál. Skipstj.: Björgvin Jónsson. Eig.: Árni Böðvarsson. Áh.: 4 menn.
Geir Goði, 20,80 smál. Skipstj.: Sigurjón K. Ólafsson. Eig.: Gunnar Ólafsson & Co. Áh.: 5 menn.
Gissur Hvíti, 18,61 smál. Skipstj.: Alexander Gíslason. Eig.: Gunnar Ólafsson & Co. Áh.: 5 menn.
Glaður, 15,91 smál. Skipstj.: Eyjólfur Gíslason. Eig.: Guðlaugur Brynjólfsson. Áh.: 4 menn.
Gulltoppur, 21,99 smál. Skipstj.: Benóný Friðriksson. Eig.: Sæmundur Jónsson, Jóhann Vilhjálmsson o.fl. Áh.: 5 menn.
Happasæll, 12,06 smál. Skipstj.: Einar Jónsson. Eig.: Þorbjörn Guðjónsson. Áh.: 4 menn.
Herjólfur, 21,82 smál. Skipstj.: Sigurjón Sigurðsson. Eig.: Pétur Andersen, Lúðvík Lúðvíksson o.fl. Áh.: 4 menn.
Hilmir, 37,91 smál. Skipstj.: Haraldur Hannesson. Eig.: Runólfur Sigfússon, Jón Hinriksson, Gunnar Ólafsson & Co. Áh.: 5 menn.
Halkion, 14,08 smál. Skipstj.: Stefán Guðlaugsson. Eig.: Sami o.fl. Áh.: 5 menn.
Hjálpari, 12,65 smál. Skipstj.: Þórður Þórðarson. Eig.: Guðjón Runólfsson o.fl. Áh.: 5 menn.
Höfrungur, 12,60 smál. Skipstj.: Þórarinn Guðmundsson. Eig.: Jón Einarsson. Áh.: 4 menn.
Ísleifur, 29,96 smál. Skipstj.: Andrés Einarsson. Eig.: Ársæll Sveinsson. Áh.: 5 menn.
Kap, 27 smál. Skipstj.: Guðjón P. Valdason. Eig.: Jón Jónsson. Áh.: 5 menn.
Karl, 16,40 smál. Skipstj.: Ólafur Ingileifsson. Eig.: Sami o.fl. Áh.: 5 menn.
Kristbjörg, 15,41 smál. Skipstj.: Grímur Gíslason. Eig.: Sami, Magnús Magnússon o.fl. Áh.: 5 menn.
Lagarfoss, 22 smál. Skipstj.: Þorsteinn Gíslason. Eig.: Tómas Guðjónsson. Áh.: 5 menn.
Loki, 12,90 smál. Skipstj.: Bjögvin Vilhjálmsson. Eig.: Símon Guðmundsson. Áh.: 4 menn.
Lundi, 13,46 smál. Skipstj.: Þorgeir Jóelsson. Eig.: Jóel Eyjólfsson o.fl. Áh.: 5 menn.
Mýrdælingur, 16,53 smál. Skipstj.: Guðjón Hafliðason. Eig.: Sami og Ingvar Þórólfsson. Áh.: 5 menn.
Maggý, 16,98 smál. Skipstj.: Guðni Grímsson. Eig.: Árni Jónsson. Áh.: 4 menn.
Marz, 14,99 smál. Skipstj.: Sigurður Mikkelsen. Eig.: Markús Sæmundsson. Áh.: 5 menn.
Maí, 21,53 smál. Skipstj.: Jóhann Pálsson. Eig.: Sigfús Scheving o.fl. Áh.: 4 menn.
Muggur, 25,16 smál. Skipstj.: Páll Jónasson. Eig.: Helgi Benediktsson. Áh.: 5 menn.
Njörður, 14,64 smál. Skipstj.: Árni Finnbogason. Eig.: Gunnar Ólafsson & Co. Áh.: 5 menn.
Óðinn, 21 smál. Skipstj.: Ólafur Ísleifsson. Eig.: Kaupfélagið Fram. Áh.: 5 menn.
Óskar, 15,89 smál. Skipstj.: Karl Ó. Guðmundsson. Eig.: Sami og Ármann Guðmundsson. Áh.: 4 menn.
Olga, 13,91 smál. Skipstj.: Guðmundur Jónsson. Eig.: Sami o.fl. Áh.: 5 menn.
Pipp, 15,18 smál. Skipstj.: Kristinn Magnússon. Eig.: Bjarni Jónsson. Áh.: 5 menn.
Skíðblaðnir, 16,32 smál. Skipstj.: Guðmundur Tómasson. Eig.: Helgi Benediktsson. Áh.: 5 menn.
Stígandi, 21 smál. Skipstj.: Oddur Sigurðsson. Eig.: Kristmann Þorkelsson, Jón Magnússon o.fl. Áh.: 5 menn.
Stakksárfoss, 12,36 smál. Skipstj.: Ingibergur Gíslason. Eig.: Jón Hinriksson. Áh.: 5 menn.
Snyg, 25,55 smál. Skipstj.: Runólfur Sigfússon. Eig.: Gunnar Ólafsson & Co., Björn Guðmundsson o.fl. Áh.: 6 menn.
Snorri Goði, 23,62 smál. Skipstj.: Kristján Einarsson. Eig.: Gunnar Ólafsson & Co. Áh.: 5 menn.
Skallagrímur, 14,02 smál. Skipstj.: Ólafur Sigurðsson. Eig.: Stefán Björnsson. Áh.: 5 menn.
Sísí, 13,17 smál. Skipstj.: Sigurjón Jónsson. Eig.: Ársæll Sveinsson. Áh.: 5 menn.
Skógarfoss, 13,10 smál. Skipstj.: Jónas Sigurðsson. Eig.: Pétur Andersen. Áh.: 5 menn.
Skuld, 12,69 smál. Skipstj.: Jón Benónýsson. Eig.: Gunnlaugur Sigurðsson o.fl. Áh.: 5 menn.
Tjaldur, 14,98 smál. Skipstj.: Gísli Gíslason. Eig.: Halldór Jón Einarsson o.fl. Áh.: 5 menn.
Unnur, 13,80 smál. Skipstj.: Þorsteinn Jónsson. Eig.: Sami og Þorleifur Einarsson. Áh.: 4 menn.
Valdimar, 13,14 smál. Skipstj.: Haraldur Gíslason. Eig.: Auðunn Oddsson o.fl. Áh.: 5 menn.
Veiga, 23,83 smál. Skipstj.: Finnbogi Finnbogason. Eig.: Ólafur Auðunsson. Áh.: 5 menn.
Ver, 20,45 smál. Skipstj.: Jón Guðmundsson. Eig.: Sami, Guðjón Sveinsson o.fl. Áh.: 5 menn.
Víkingur, 12,94 smál. Skipstj.: Gísli Jónsson. Eig.: Sami o.fl. Áh.: 5 menn.
Vinur, 14,34 smál. Skipstj.: Hannes Hansson. Eig.: Sami. Áh.: 6 menn.
Viggó, 21,15 smál. Skipstj.: Guðjón Jónsson. Eig.: Þorvaldur Guðjónsson. Áh.: 5 menn.
Vonin, 25 smál. Skipstj.: Guðmundur Vigfússon. Eig.: Sami, Vigfús Jónsson og Jón Vigfússon. Áh.: 4 menn.
Þorgeir Goði, 37,84 smál. Skipstj.: Karl Sigurðsson. Eig.: Gunnar Ólafsson & Co. Áh.: 5 menn.
Þristur, 15,35 smál. Skipstj.: Jón Magnússon. Eig.: Ástþór Matthíasson og Gísli Fr. Johnsen. Áh.: 5 menn.

Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
59) Sjá bók Schleisners, Khöfn 1849. Á þessum árum var íbúatalan hér nær 500 manns.
60) Sjá skipareikning dánarbús Vigfúsar Erlendssonar, Ísl. fornbr.s., 1521.
61) Geta má þess, að á síðasta hluta 16. aldar var Þormóður Kortsson í Skógum undir Eyjafjöllum formaður hér á landskipi. Mun það vera sá sami og merkisbóndinn Þormóður Kortsson í Skógum.
62) Útræði var mikið undir Eyjafjöllum fyrrum, úr Holts-, Sanda-, Steina- og Miðbælisvörum.
63) Skýrslur hreppstjóra, Þjóðskj.s.
64) Brenna var tíðum hér á Mylluhólnum á Vilborgarstöðum og á Bakka í Landeyjum.
65) Sóknarlýsing séra Jóns Austmanns. — Rýnisklettar, skammt frá Alboga við veginn frá kaupstaðnum og upp fyrir Hraun, eru taldir bera nafn af því, að þaðan var gætt að sjó við Nafarinn, sem og af Brimhólum svokölluðum, og þaðan gætt að sjó við Landeyjasand. Sbr. og Þorkell Jóhannesson: Örnefni í Vestmannaeyjum, Rvík 1938. — Flöskupósturinn var og notaður, til þess að korna fregnum milli lands og eyja.
66) Bergshús hét tómthús eitt hér á 17. öld.
67) Nafnið Ledd er líklega dregið af ledda, sama og sakka.
68) Sumir kalla hér Geirfuglaskersbanka og Einidrangsbanka.
69) Netjaveiði er stunduð mest á tiltölulega litlu svæði utan landhelgi, og máttu varðskip einatt halda vörð um það vegna erlendra skipa, sem mjög sóttu þarna að, og til þess að halda uppi reglu yfirleitt. — Í sóknarlýsingu séra Brynjólfs Jónssonar er ítarlega lýst miðum í Vestmannaeyjum, og munu miðalýsingamar hafa verið teknar eftir uppskrifaðri miðabók Árna hreppstj. og alþingism. á Vilborgarstöðum, er mun vera glötuð.
70) Sóknarlýsing séra Jóns Austmanns.
71) Stjórnart. 1893, B, 57.
72) Svo segja kunnugir menn, að sjór muni hafa hækkað um 3 fet, miðað við stórstreymi, síðan þarna var flóðmark.
73) Þar stóð áður lengi fiskihjallur, Mandalshjallur.Framhald 3

Til baka


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit