Eldeyjar-Hjalti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Hjalti Jónsson.

Hjalti Jónsson skipstjóri og framkvæmdastjóri fæddist 15. apríl 1869 á Fossi á Síðu og lést 5. júlí 1949 á Hjaltastað í Mosfellssveit.
Foreldrar hans voru Jón Einarsson bóndi, f. 24. ágúst 1823, d. 25. mars 1880, og kona hans Guðný Jónsdóttir húsfreyja, f. 23. október 1828, d. 22. mars 1906.

Hjalti var bróðir Jónatans Jónssonar vitavarðar.

Hjalti var með foreldrum sínum í bernsku, en faðir hans lést, er hann var 11 ára.
Hann var með ekkjunni móður sinni til 1882, var tökubarn og síðan vinnumaður í Kerlingardal í Mýrdal 1882-1888.
Hann sótti vertíðir í Eyjum, en var vinnumaður hjá Gísla Engilbertssyni í Juliushaab 1888 til 1893, fékk verslunarleyfi og var ,,borgari“ í Frydendal í lok árs 1893, með Guðrúnu konu sinni í Uppsölum 1894. Hjalti rak verslun í Eyjum um eins árs skeið.
Þá kenndi hann sund 1892 og 1893.
Hann var bátsformaður og átti bátshluta meðan hann var í Eyjum. Einnig lét hann ásamt Gísla Engilbertssyni smíða fyrir sig 4 manna far, sem þeir nefndu Elínborgu. Hann eignaðist bátinn að fullu við brottför úr Eyjum og flutti með sér til Hafna á Reykjanesi.
Kunnastur var hann í Eyjum fyrir að klífa Eldey 1894 og ,,leggja veg“ með Ágústi og Stefáni Gíslasonum frá Hlíðarhúsi og voru þeir taldir fyrstir manna til þess. Það varð til þess að menn sóttu súlu í Eldey áratugum saman, síðast 1939.
Hjalti fluttist úr Eyjum 1895, var hafnsögumaður í Höfnum um skeið, fluttist til Reykjavíkur 1899 og starfaði þar síðan.
Hann lærði tungumál, lauk meira fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum 1899, var skipstjóri á þilskipum og togurum og útgerðarmaður.
Þá var hann forsprakki stofnunar Fiskveiðafélags Íslands, einn af stofnendum Vélsmiðjunnar Hamars og verslunarinnar Kol og Salt og var framkvæmdastjóri hennar 1924-1930. Hann stóð að byggingu kolakranans við Reykjavíkurhöfn. Hann sat í stjórn Olíuverslunar Íslands hf., Slippfélagsins í Reykjavík, Hamars hf.
Hann var ræðismaður Pólverja.
Hjalti kvæntist Guðrúnu 1894 og eignaðist með henni þrjú börn, en hún lést 1920. Hann kvæntist Sigríði 1922 og eignuðust þau tvö börn.
Hjalti lést 1949 og Sigríður 1967.

Hjalti var tvíkvæntur.
I. Fyrri kona hans, (1. desember 1894), var Guðrún Ólafsdóttir húsfreyja frá Tungu í V-Landeyjum, f. 12. ágúst 1871, d. 17. febrúar 1920. Foreldrar hennar voru Ólafur Magnússon bóndi, f. 6. ágúst 1831, d. 19. janúar 1917, og kona hans Marín Einarsdóttir húsfreyja, f. 6. febrúar 1832, d. 19. febrúar 1898.
Börn þeirra voru:
1. Guðný María Hjaltadóttir húsfreyja, f. 11. apríl 1896, d. 20. júní 1969.
2. Ragnhildur Hjaltadóttir húsfreyja, f. 29. apríl 1899, d. 16. maí 1972.
3. Lilja Hjaltadóttir verslunarmaður, f. 9. október 1901, d. 24. janúar 2001.
Fósturdóttir þeirra var
4. Guðrún Jónsdóttir húsfreyja, f. 17. janúar 1890 í Útskálasókn, d. 21. mars 1970. Hún var bróðurdóttir Hjalta, hafði misst föður sinn 1891.

II. Síðari kona Hjalta, (1922), var Sigríður Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 24. mars 1892 í Reykjavík, d. 26. febrúar 1967. Foreldrar hennar voru Guðmundur Sigurðsson sjómaður, f. 23. ágúst 1858, d. 17. september 1923, og kona hans Sigríður Bergsteinsdóttir húsfreyja, f. 20. júlí 1866, d. 15. nóvember 1955.
Börn þeirra voru:
5. Guðmundur Jón Hjaltason skipstjóri, f. 21. september 1923, d. 27. maí 1989.
6. Svava Hjaltadóttir húsfreyja, f. 30. nóvember 1925, d. 30. nóvember 2007.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 24. nóvember 1949.
  • Prestþjónustubækur.
  • Saga Eldeyjar-Hjalta. Guðmundur G. Hagalín. Ísafoldarprentsmiðja 1939.
  • Skipstjóra- og stýrimannatal. Guðmundur Jakobsson. Ægisútgáfan 1979.
  • Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.