Þorlaugargerði eystra
Húsið Þorlaugargerði eystra stendur utan byggðar, fyrir ofan hraun. Þorlaugargerðisjarðirnar eru tvær, og aðgreindar sem eystra og vestra. Þorlaugargerði eystra var talin ein af betri bújörðunum á vestmanneyskan mælikvarða, með 3-4 kúgildi og um 50 ær. Getið er um búsetu þar langt aftur í aldir og hafa þar margir búið í tímans rás.
Árið 1905 fengu jörðina til ábúðar Jón Pétursson bátasmiður og formaður og kona hans, Rósa Eyjólfsdóttir. Byggðu þau húsið upp og bjuggu þar rausnarbúi. Uppeldissonur þeirra Jón Guðjónsson frá Oddsstöðum f. 1903 d. 1967, tók við búi eftir þau og bjó á jörðinni ásamt konu sinni Guðrúnu Jónsdóttur frá Suðurgarði f. 1906 d. 1953, fram yfir miðja síðustu öld.
Dóttir þeirra, Ingibjörg Jónsdóttir, hefur búið þar frá 1957 ásamt manni sínum, Garðari Arasyni. Búskapur hefur ekki verið stundaður í Þorlaugargerði eystra síðan 1966, nema frístundabúskapur en túnin sem fylgja jörðinni hafa verið nytjuð af frístundabændum í Eyjum.
Margir telja að Þorlaugargerði eystra standi á fallegasta bæjarstæði á Heimaey, þar sem bæði er fjölbreytt og fagurt landslag kringum húsið sem og ægifagurt útsýni yfir suðurhluta Heimaeyjar og suðureyjarnar.
Allmörg örnefni er að finna í landi Þorlaugargerðis eystra. Sethóll er norðan við íbúðarhúsið og teygir sig allt austur að jarðamörkum við Ofanleitisheiði. Austast í Sethól eru Kattaklettar, sérkennileg klettaþyrping en þar stundaði Jón Pétursson skipasmíðar fyrrum. Sunnan við Sethól er aflíðandi brekka er nefnist Guddukinn og þar fyrir sunnan er Fjárhúshóll; í klettum þar hefur líkast til fyrrum verið fjárhús. Enn sunnar er Hádegishóll, sem hefur verið eyktarmark, líkt og Nónhóll sem er vestar, í landi Þorlaugargerðis vestra. Rétt norðan og austan við íbúðarhúsið er Heitiklettur en þar er hitauppstreymi er veldur því að oft er snjólaust á vetrum við klettinn. Ekki er þó um eiginlegan jarðhita að ræða heldur loft er streymir upp úr neðri jarðlögum sem eru heitari en yfirborðið og bræðir snjó sem fyrir er.