Guðmundur Einarsson (Viðey)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Guðmundur Einarsson og Pálína Jónsdóttir
Dætur Guðmundar
Sigurður og Kristinn

Guðmundur Einarsson, útvegsbóndi í Viðey í Vestmannaeyjum, f. 18/11/1885, í Rifshalakoti, Holtamannahr., Rang., d. 14/03/1943 í Vestmannaeyjum.

Foreldrar Guðmundar : Einar Guðmundsson, óðalsbóndi í Rifshalakoti og á Bjólu í Holtum, Rangárvallasýslu, f. 01/02/1860 í Hvammi, Landssveit, d. 29/ 11/1948 og kona hans Guðrún Jónsdóttir, húsfreyja, (gift 29/09/1883), f. 21/ 08/1857 (22/08/1857 í Isl.bók) á Eystri-Geldingalæk, Rang., d. 28/08/1945.

Eiginkona Guðmundar : Pálína Jónsdóttir, húsfreyja, f. 14/07/1880, í Nýjabæ, Þykkvabæ, d. 06/03/1963, í Reykjavík.

Foreldrar Pálínu : Jón Jónsson, óðalsbóndi á Nýjabæ, Ásahr. Rang. og póstmeistari, f.10/01/1849 í Búð, Háfssókn, Rang., d. 03/04/1945 og kona hans Þórunn Pálsdóttir, húsfreyja og ljósmóðir, (gift 21/10/1879), f. 12/05/ 1851 í Nýjabæ, d. 15/12/1934, í Páls-Nýjabæ.

Eftir að Guðmundur og Pálína gengu í hjónaband bjuugu þau fyrst í Rifshalakoti, síðan á Ytri-Hóli, Vestur-Landeyjum, Rang. (1911- 1920), en fluttu til Vestmannaeyja 1921 (Viðey, Vestmannabraut 30) og ráku þar sveitabúskap og útgerð. Þau eignuðust 12 börn saman, en Guðmundur eignaðist 3 önnur börn með Guðbjörgu Erlendsdóttur og barn með SteinunniGuðmundsdóttur, f. 5. júlí 1874, d. 10. maí 1938:

Börn Pálínu: Guðmunda Pálína, f. 08/07/1908 - Jónína, f. 01/12/1909 - Karl Óskar, f. 06/04/1911 - Jón Óskar, f. 30/03/1912 - Ármann Óskar, f. 28/05/1913 - Guðrún Ágústa, f. 02/08/1914 - Guðríður, f. 16/12/1915 - Ingibjörg, f. 19/04/1917 - Þórunn, f. 26/07/1918 - Geir Óskar, f. 18/12/1920 - Sigurður Óskar, f. 25/03/1922 - Kristinn Óskar, f. 02/11/1924

Börn Guðbjargar : Aðalheiður, f 25/11/1919 - Ólafía og Svava, f. 16/09/1921

Barn Steinunnar:
Helgi, f. 13. september 1902, d. 25. september 1932.

Guðmundur var með afbrigðum dugmikill og rak búskap sinn bæði til sjós og lands af hinum mesta myndarskap og röggsemi. Hann gegndi mörgum trúnaðarstörfum í Vestmannaeyjum: hann var formaður Sjúkrasamlags Vestmannaeyja tvö fyrstu starfsár þess, sat í niðurjöfnunarnefnd í nokkur ár og í skattanefnd hin síðari árin. Hann var varafulltrúi í bæjarstjórn eitt kjörtímabil. Hann var formaður hins merka Bátaábyrgðarfélags Eyjanna í mörg ár (allt til æviloka) og reyndist hann afkastamikill og úrræðagóður.

Guðmundur var einn af þeim er bar merki félagsins hátt og sparaði hvorki tíma né fyrirhöfn til þess að vinna þar gagn og efla veg þess. Fyrir forgöngu Guðmundar gekkst stjórn Bátaábyrgðarfélagsins meðal annars fyrir því árið 1937 (á 75 ára afmæli félagsins), að gefa út minningarrit þess. Er það hið ágætasta heimildarrit um þróun bátaútvegsins í Vestmannaeyjum og geymir auk þess margan fróðleik um menn og málefni í Eyjum.

Málefni það er Guðmundur bar mest fyrir brjósti og vann að með óþrjótandi elju snerti búskap í Eyjum, en búskapur var honum í blóð borinn. Hann kunni skil á skepnuhöldum, stærð og árlegum afrakstri hvers eins af lögbýlum Eyjanna. Ræktun alls óræktaðs lands í Eyjum taldi hann vera brýna nauðsyn og stærsta framtíðarverkefnið.

Hann var formaður Búnaðarfélags Vestmannaeyja um margra ára skeið og sýndi þar mikla forsjá og fyrirhyggju. Ekkert mál virtist honum eins mikið hugðarefni og það, að landið yrði sem best nytjað og kæmi sem flestum heimilum Eyjanna að réttum notum.

Pálína var honum stoð og stytta allt hans líf. Störfin voru mörg. Það þurfti að sjá um búskapinn, klæða alla fjölskylduna, fæða alla heimamenn og verkafólkið og sjómennina sem komu á vertíð í Eyjum. Það þurfti að verka allan mat, mjólka kýrnar og búa til mjólkurvörur, verka kjöt, búa til slátur á haustin, verka fiskinn á vertíðinni, rækta kartöflur og rófur, baka brauðið og kökur. Það þurfti að þvo allan þvott niðri í kjallara og bera hann svo upp á þurrkloftið. Krakkarnir hjálpuðu til strax og aldur leyfði, skóli var stuttur. Þau fóru mörg í sveitavinnu á suðurlandi á sumrin, sum barnanna voru alin þar upp meira og minna. Strákarnir fóru á bát eftir fermingu.

Guðmundur deyr á besta aldri. Pálína hættir búskap nokkrum árum seinna og flytur til Reykjavíkur.


Heimildir

  • Erla Sveinbjörnsdóttir Vautey, dótturdóttir Guðmundar og Pálínu, byggt á minningargrein eftir J. Þ. J. sem birt var í Morgunblaðinu 26. mars 1943