Saga Vestmannaeyja II./ III. Atvinnuvegir, 3. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
III. Atvinnuvegir, 3. hluti


Útgerð, sjósókn o.fl.


Að atvinnuvegum þeim, er áður er lýst, fengu eyjabúar að standa og rækja sjálfir eftir beztu getu. Höfum vér séð, hversu þeir fylktu sér saman og tókst með ágætri skipulagningu að notfæra sér allar nytjar jarðanna, draga sér björg í bú, oft með miklum erfiðleikum í harðri úteyjasókn og sjósókn. Aðalatvinnuvegur eyjabúa hefir þó verið fiskveiðarnar, þorskveiðar einkum, og útgerð stunduð í ríkum mæli frá fyrstu tímum. Til þessa atvinnuvegar lögðu eyjamenn til mannaflann að miklu leyti, en aðrir áttu skipin og önnur útgerðartæki og fleyttu hér mestallan rjómann, eins og sýnt verður.
Í Landnámu er getið veiðiskapar í Vestmannaeyjum og mun þar vera átt við útgerð aðallega. Segir um eyjarnar, að þær hafi verið veiðistöð, en veturseta engin eða lítil. Þá mun hafa tíðkazt, að menn sæktu hingað af landi á vorin snemma og framan af sumri, og legið þá við og stundað fiskveiðar og einnig fuglaveiðar. Vetrarseta landmanna til fiskveiða hér mun hafa hafizt um leið og eyjarnar byggðust. Útgerðin í eyjunum hefir þá fljótt færzt í aukana, stunduð af eyjamönnum sjálfum og með þátttöku manna úr nærsveitunum á landi, þótt útræði væri stundað þar og allmikið fyrir Söndum. Aðalveiðitíminn hefir verið vetrarvertíðin, eins og tíðkaðist alltaf síðar. Vorfiski hefir og verið stundað og haustróðrar. Á sumrin öfluðu menn sér mest matfiskjar til heimilisþarfa.
Eigi er kunnugt um skipastól eyjamanna fyrrum. En fyrir því má fyllilega gera ráð, að þeir hafi sjálfir átt skip eftir þörfum. Hafa það verið efnaðri bændurnir, er skipin áttu, og oft í samlögum. Þá er Englendingar tóku að stunda útgerð í Vestmannaeyjum, að minnsta kosti á öndverðri 15. öld og að líkindum fyrr, mun útgerðin smám saman hafa færzt nokkuð yfir á þeirra hendur og samlagsútgerð rekin með þeim og eyjamönnum. Útgerðarrekstur hafa þeir og haft hér, er eyjarnar höfðu að léni. Ef sögnin um hin háu afgjöld af eyjunum til forna er rétt, hlýtur þar að hafa verið snemma mikill útgerðarrekstur og skipastóll mikill. Víst er, að þegar á 13. og 14. öld hefir útgerð hér verið mikil. Þá var og skreið orðin algeng útflutningsvara.
Fram undir lok 15. aldar hafa Englendingar haldið áfram að gera út á eigin skipum í Vestmannaeyjum og að sumu leyti í samlögum við eyjamenn. Og er útlendingum með Píningsdómi 1490, og endurtekið síðar, var bönnuð vetrarseta hér á landi og fiskveiðarekstur á eigin útróðrarskipum, stofnuðu enskir útgerðarmenn til fullrar samlagsútgerðar með eyjamönnum og fóru þannig kringum lögin. Gengu dómar um hina ólöglegu samlagsútgerð á Vilborgarstaðaþingi í Vestmannaeyjum, og eru tveir kunnir, annar frá árinu 1528 og hinn frá 1543. Af hinum fyrrnefnda má sjá, að um þær mundir hefir verið aðstreymi mikið af fólki til eyjanna og aflaár því góð. Þrátt fyrir það, þótt dómar gengju og menn væru dæmdir í háar sektir fyrir að gera út í samlagi við Englendinga, og skip gerð upptæk, hélzt launútgerðin samt, og undir lok 16. aldar áttu enskir kaupmenn ennþá fiskibáta í eyjunum. Eftir stofnun konungsverzlunarinnar á seinni hluta 16. aldar tók Danakonungur í sínar hendur nær alla útgerð hér og lét smíða til þess báta, vertíðarskip, undir 20 að tölu, er nefndir voru konungsbátar. Voru þeir nú og lengi síðan aðalskipastóll eyjanna og lokið að mestu öllum sjálfstæðum útgerðarrekstri eyjamanna um lengri tíma.
Með þessu hyggst nú konungur að notfæra sér sem allra bezt alla gagnsemi eyjanna, er eigi varð gert með öðru móti en því, að ná undir sig útgerðinni. En sem útgerðarstaður þóttu eyjarnar taka öllum öðrum stöðum fram og er þess getið í opinberum skrifum. Kemur þetta víða fram. Svo nefnd séu nokkur dæmi: Í bréfi sendimanns Englandsdrottningar 15. okt. 1590 eru eyjarnar rómaðar sem fiskveiðastöð. Í kærumálum Hannesar Pálssonar segir, að í Vestmannaeyjum sé betra útræði en annars staðar á landinu.
Til þess að konungsútgerðin gæti þrifizt varð að kveða niður alla útgerð Englendinga hér, og tókst nú hörð barátta milli forstöðumanna konungsverzlunarinnar og enskra kaupmanna um yfirráðin yfir atvinnuvegunum í eyjunum. Reyndi konungur með samningagerðum milli ríkjanna og ströngum bönnum að hefta framsókn Englendinga, er tókst um síðir, eða undir lok 16. aldar, en skömmu seinna kemur einokunarverzlunin til sögunnar. Þessi bönn snertu og mjög hag og atvinnulíf eyjabúa sjálfra, er haldið var á ströngum klafa.
Af togstreitu þeirri um yfirráðin yfir atvinnurekstrinum í eyjunum, er framfylgt var af beggja fyrrnefndra aðilja hálfu af mesta kappi, má bezt sjá, hversu mikils hagnaðar var vænst t.d. af fiskveiðunum. Hitt er aftur deginum ljósara, að það voru eigi eyjabúar sjálfir, sem fleyttu rjómann, heldur unnu þeir sífellt öðrum, hlaðnir ýmis konar kvöðum, og máttu stöðugt búa við hið mesta ófrelsi, en mestur arðurinn af striti þeirra rann í konungssjóð og til kaupmanna. Um 300 ár er útgerðarreksturinn í höndum þessara aðilja, en eyjamenn mega leggja til áhafnirnar á skipin.
Eftir að konungsútgerðin komst á laggirnar, máttu eyjabændur leggja niður sína útgerð að mestu. Stórskip, eiginleg vertíðarskip, eiga þeir ekki framar, aðeins fáa, 1—4 sexæringa, þegar bezt lét, er mest hafa verið notaðir til vor- og haustveiða. Bændur eru skyldaðir til að róa á útvegi konungs, á konungsskipunum, eða vinnumenn þeirra. Helztu bændur, er mest var sýnt um sjómennsku, gerðust formenn á konungsskipunum, og var þeim greitt allhátt formannskaup. Svipað fyrirkomulag mun hafa gilt, er Englendingar ráku hér útgerð á eigin skipum, og síðar, er samlagsútgerð þeirra hófst, en þá áttu og bændur hlutdeild í skipshlutum. Góð afkoma útgerðarreksturs Englendinga hér mun hafa ýtt undir stofnun konungsútgerðarinnar. Með henni hefjast hin fyrstu verulegu kynni af útgerðinni í eyjunum.
Útgerð konungs mun eigi hafa hafizt að ráði fyrr en um 1570. Kemur þetta heim við það, er elzti báturinn í skipaflota konungs hér er talinn 28 ára 1599.¹) Hefir eigi þegar orðið af framkvæmdum eftir ákvæðum konungsbréfsins 29. des. 1560²) til eins af lénsmönnum konungs í Noregi um að útvega efnivið í báta, er sendast skyldu til Íslands, sennilega til Vestmannaeyja. Bátarnir munu hafa verið smíðaðir í Vestmannaeyjum og smiðir komið frá Noregi sumir.³) Konungsbátarnir voru lengstum 16 að tölu, á síðari tímum flestir um 20, en svo margir munu samt sjaldan eða ekki hafa gengið í einu.⁴) 1586 voru konungsbátarnir 17. 5 voru tólfæringar og hétu þeir: 1) Morgunstjarnan (Morgenstjernen), form. Pétur List skipasm. og bóndi í Stakkagerði. Af Pétri er komin fjölmenn ætt. — 2) Davíð (Davidt), formaður Jón Sigmundsson bóndi á Eystri-Gjábakka. — 3) Salomon (Sallomon), formaður Eysteinn Jónsson bóndi á Búastöðum. — 4) Vonin (Haabett), formaður Snorri Eyjólfsson bóndi í Kirkjubæ, síðar formaður með Morgunstjörnuna. — 5) Móses (Moyses), formaður Oddur Jónsson bóndi á Vestri-Gjábakka. Oddur var aflahæsti formaður í eyjum umgetið ár. Helgi Arason bóndi í Þorlaugargerði var formaður á Móses 1599. — Formenn á teinæringunum, er voru 8 að tölu og hétu: 1) Sankti Morten, 2) Sankti Kristófer, 3) Nýi Engill, 4) Jósúa, 5) Fortúna, 6) Ísak, 7) Jónas og 8) Pétur postuli, — voru eyjabændur frá Vilborgarstöðum, Kirkjubæ, Nýjabæ, Miðhúsum, Norður-Garði og Höfn. Með áttæring, er konungur átti, var Björn Nikulásson í Höfn, talinn meðal skattbænda um þessar mundir. — Formenn á 3 sexæringum, er konungsverzlunin hélt úti 1586, voru húsmenn í Höfn. Hélzt það út allan einokunartímann, að eyjabændur væru formenn á stórskipunum.⁵)
1599 eru bátarnir fleiri. Þó eru sumir bátanna frá 1586 úr sögunni, hafa að líkindum farizt, en nýir bátar eru komnir í stað þeirra: 1) Björninn, 9 ára; formaður á Birninum eftir Tyrkjaránið var Oddur Pétursson List (Oddur, er kenndur var við Hána; hann fórst með Birninum 1636, og hefir skipið þá verið 46 ára, 2) Morgunstjarnan, 16 ára, 3) Sankti Pétur, 5 ára, 4) Vonin, 19 ára, og 5) Móses, 28 ára. Þetta eru allt tólfæringar. Bátarnir Davíð og Salómon eru úr sögunni, en aðrir komnir í þeirra stað. Af teinæringum eru: Sakarías, 5 ára, Gabríel, 5 ára, Nýi Davíð, 6 ára, Pétur postuli, 19 ára, Jónas, 14 ára, Nýi Salómon, 2 ára, Ísak, 15 ára, Martíníus, 25 ára, Sankti Kristófer, 21 árs, Nýi Engill, 14 ára. Einnig 2 áttæringar.
Konungsbátarnir, er síðar voru kallaðir innstæðubátar (Inventariebaade) fylgdu með í verzlunarleigu eyjanna frá því fyrsta að eyjarnar voru leigðar kaupmönnum eftir upphaf konungsverzlunarinnar, sbr. konungsbr. 29. okt. 1600 og síðari samninga. Hélzt því alveg sama fyrirkomulagið áfram um útgerðina í eyjunum. Kaupmenn skyldu halda bátunum við og skila þeim með fullri tölu jafngóðum við lok hvers leigutímabils. Matið var framkvæmt af bændum undir umsjón konungsfógeta og umboðsmanns, síðar sýslumanns. Sama bátatalan hélzt því alltaf, en útgerðin hafði dregizt mjög saman undir lok einokunartímans, svo að fáum af bátunum var haldið úti þá, sbr. tilsk. 13. júní 1787. 1715 var aðeins haldið úti 2 tólfæringum og um nokkur ár á eftir, en síðan eigi haldið úti nema 1 tólfæring, Rafael, er var eini tólfæringurinn, er gekk 1761. Bátsins fyrst getið á skipaskrá 1715. Þessi bátur var enn við lýði 1790. 1726 voru tólfæringarnir 2, er haldið var úti, og 7 teinæringar. 1761 voru teinæringarnir 8⁶) og 2 sexæringar.
Eftir lok einokunartímans voru konungsbátarnir seldir. Hafði sýslumaður látið fara fram mat á bátunum áður, samkvæmt fyrirlagi stiftamtmanns. Mörg skipanna höfðu staðið ónotuð í allmörg ár og voru orðin mjög úr sér gengin. Bátarnir skyldu samt eigi seldir undir 30 rd. hver. Uppboðið var auglýst í Gullbringu-, Skaftafells-, Rangárvalla- og Árnessýslum, og fór að því búnu fram 25. júní 1790, og seldist aðeins einn bátanna við ákvæðisverði, en boðin í hina voru svo lág, að fresta varð sölu á þeim. Var síðan endurtekið uppboðið á bátunum tvisvar sinnum, síðast 3. sept. 1791.⁷)
Um skipastól eyjamanna sjálfra er fyrst kunnugt frá síðari hluta 16. aldar. Var hún þá 4 sexæringar og 1 áttæringur. Fjögramannaför hafa og verið nokkur og minni bátar. Eigi er að sjá, að skipaeignin hafi aukizt undir lok aldarinnar og er stundum minni. Konungsbátarnir voru á þessum árum 16—18. Af landi gengu oftast 3—4 bátar. Ofanleitisprestur átti á þessum árum 1 sexæring. Ásbjörn Snorrason í Vestra-Stakkagerði átti og sexæring. Oddur Koch bóndi á Vestri-Oddsstöðum átti og sexæring í samlagi við Snorra Eyjólfsson bónda í Kirkjubæ. Helgi Arason bóndi í Þorlaugargerði, hann hafði báðar Þorlaugargerðisjarðir, átti og sexæring í samlögum við Jón Bygott, sem virðist hafa verið enskur maður, búsettur í eyjum, eða af enskri ætt. Áttæring áttu þeir saman séra Jón Jónsson í Kirkjubæ og Björn Nikulásson bóndi í Höfn. Margir hértaldra bænda, er skipin áttu, voru sjálfir formenn á vetrarvertíð á konungsskipunum. Meðal þeirra er og að finna skattbændurna, og er svo oftast síðar.⁸)
Á einokunartímunum voru konungsskipin, innstæðubátarnir, eigi færri en 14 stórskip, er kaupmenn héldu úti. Auk þess bættu þeir og stundum við skipum, er þeir áttu sjálfir. Tala eyjaskipanna, er haldið var úti á vertíð, hefir að jafnaði á nefndum tímum verið frá 16—20 og jafnvel þar yfir, meðan útgerðin stóð í blóma, og landskip frá 5—12. Skipatalan helzt fram yfir miðja 18. öld. 1748 gengu 16 eyjaskip og 11 landskip. 1749 17 eyjaskip og 11 landskip. 1756 20 eyjaskip og 6 landskip.⁹) Útilokað var, að eyjamenn kæmu sér upp skipum, meðan þeir voru skyldaðir til þess að róa á útvegi kaupmanna, meðan þar var eigi fullskipað. Lýsir Árni Magnússon þessu í skýrslum til konungs um ástæður manna í Vestmannaeyjum, er hann gerði 1704. Segir þar, að eyjamenn geti ekki gert út skip, nema með sérstöku leyfi kaupmanna, og taki kaupmenn hlut af skipunum fyrir. Jafnvel á vor- og sumarvertíð verði bændur að láta skip sín standa uppi. Líkt þessu mun ástandið yfirleitt hafa verið á dögum einokunarinnar. Eyjamenn alveg mergsognir af kaupmönnum. Er afli brást ríkti hér hið mesta hörmungarástand. Umbótatillögur Árna Magnússonar, um að bændur yrðu leystir frá skipsáróðurskvöðinni og takmörk sett útvegi kaupmanna, fengu enga áheyrn, enda risu kaupmenn þar öfluglega á móti.
Skipaeign Vestmannaeyinga hefir helzt verið smáfleytur, fjögramannaför, nokkrir sexæringar og einn eða tveir áttæringar, þegar bezt lét. Undir lok 18. aldarinnar fer skipastóll eyjamanna heldur að aukast. 1787 er tala vertíðarskipa eyjamanna 1 áttæringur og 3 sexæringar, eða svipað og 1587. Þá er smáskipaeignin eigi talin. Fjögramannaför eru hér talin 15 árið 1787, og þá stundaðir á þeim róðrar á vertíð, með því að sjósókn á stórskipunum hefir að mestu um stund lagzt niður á hinum miklu fiskileysisárum á seinni hluta 18. aldar.¹⁰) Bátana áttu bændur í samlögum, eins og alltaf hafði tíðkazt hér.
Undir lok 18. aldarinnar var ástand hið versta, fólksfjöldinn kemst þá töluvert niður fyrir 200, aðeins 2—3 tómthús voru þá í byggingu, en voru 9 um 1760, flest um 40.
Höfðu fiskileysisár gengið 10—12 ár í röð, svo að hætt var að halda úti stórskipunum. Í tillögum ráðamanna stjórnarinnar viðvíkjandi ástandinu í eyjunum er því haldið fram, að auka beri útveginn, því að eigi sé unnt að gera bátana út með eyjamönnum einum, sökum fátæktar þeirra og dáðleysis.¹¹) Var eigi laust við, að kaupmenn og stjórnarvöld vildu kenna eyjamönnum um fiskileysið, en undirkaupmaðurinn, er þá var H. Klog, bar eyjamönnum hið bezta orð sem fiskimönnum og siglingamönnum, þó að þeir samt stæðu að baki forfeðrum sínum í harðsókn á sjónum, en það var sízt furða, því að á þessum tímum voru eyjamenn beygðir af margra ára harðrétti. Bráðlega breyttist til batnaðar og aflabrögð jukust, þótt hægt færi í fyrstu, og útgerðin stækkaði smám saman.
Árið 1811 gengu hér 4 áttæringar á vetrarvertíð, sbr. kansellíbr. 17. júlí 1813. Síðan fjölgar vertíðarskipunum fram undir 1820, en fækkar aftur síðan, sbr. rentuk.br. 29. ágúst 1829. 1831 áttu 19 bændur í samlögum 2 teinæringa og 3 áttæringa. Hæsta hlutareign var 3/10 í teinæring, er séra Jón Austmann á Ofanleiti átti. Smáferjur voru þá um 20. Tólfæringar voru hér engir síðan fyrir lok 18. aldar. Þeir höfðu þótt þungir mjög til róðra og setnings, en ágætir fyrir seglum. Var hætt með öllu að halda þeim úti á síðari hluta 18. aldar. Teinæringunum fór og sífellt fækkandi. 1829 gengu 4 teinæringar í eyjunum, 1831 2 og 1832 aðeins l.¹²) Kaupmenn gerðu og út nokkur þilskip héðan til hákarla- og þorskveiða, sjá síðar. Útgerð eyjanna óx, er leið á öldina, og var orðin mikil um miðbik hennar. Á vertíð 1855 gengu 25 vertíðarskip, þar af voru 13 eyjaskip og 12 landskip.¹³) 1884 var skipaeignin 5 áttæringar, 10 sexæringar og 36 fjögramannaför. 1892 gengu 26 skip á vertíð úr eyjum.¹⁴) Um aldamótin 1900 var skipastóll eyjamanna, samlagseign að miklu leyti, um 20 áttæringar, 30 sexæringar og 16 fjögramannaför. Nokkru seinna byrjar vélbátaútgerðin, og opnu bátarnir hverfa úr sögunni.
Um þilskip getur eigi fyrrum í Vestmannaeyjum. Þau voru engin notuð hér til fiskveiða á dögum konungsverzlunarinnar. Verið getur, að enskir útgerðarmenn hafi haft hér þiljubáta, en þó munu aldrei hafa verið mikil brögð að því. Á einokunartímunum höfðu kaupmenn sama skipastól og verið hafði áður, en engin þilskip, að því er bezt verður séð. Tólf- og teinæringarnir voru og ærið stórir, burðarmiklir sem þiljubátar og mikið hentugri hér vegna hafnleysisins. Munu og tólfæringarnir upphaflega hafa verið miðaðir við útlenda þiljubáta. Við lok einokunarinnar fylgdi verzluninni hér eitt þilskip, Sejen, sem sennilega mun hafa verið notað til hákarlaveiða og ef til vill þorskveiða.¹⁵) Á fyrri hluta 19. aldar áttu kaupmennirnir við Garðsverzlun og síðar Godthaabskaupmenn einnig nokkur þilskip, er gerð voru út til hákarla- og þorskveiða. Jens Benediktsen kaupmaður gerði hér út tvær fiskiskútur, er hann hafði keypt af fyrirrennurum sínum, Jacobsen & Simonsen, og stundum þriðja skipið, Joseph. P.C. Knudtson kaupmaður hafði og 3 þiljubáta til fiskveiða eftir 1831.¹⁶) 1857 keyptu nokkrir eyjabændur þilskipið Olgu, 70,19 smál., er gerð var út héðan.¹⁷) Tvö þilskip voru byggð hér um 1862—1863, 8 og 6 d. lestir. Eyjamenn fengu lán til þilskipaútgerðar 1865 úr ríkissjóði. Var lánið 1200 rd og skyldi greiðast á 4 árum, sbr. bréf dómsm.ráðun. til stiftamtm. 18. marz 1865.¹⁸) Þilskipaútgerðin heppnaðist afar illa. Fórust 7 þilskip úr eyjunum á árunum 1835—1888, og varð aðeins mannbjörg af einu þeirra. 1892 voru hér 2 þilskip. Síðast 1906 gekk þilskip, Reaper, héðan til fiskjar.
Sömu nöfnin og voru á konungsskipunum héldust hér við lengi og voru sum við líði fram eftir 19. öldinni. Þessa gætti og um nokkra báta á landi. Þannig var lengi við líði gamla nafnið Jesúbátur, en svo hét einn konungsbátanna á 16. öld, á vertíðarskipi undir Eyjafjöllum. Var yfirleitt mikil rækt lögð við endurnýjun skipsnafnanna og höfðu margir góða trú á því, ef um happaskip var að ræða.
Tólfæringarnir voru um 30 fet á kjölinn, breidd þeirra var um 12—13 fet. Teinæringarnir voru 24—26 fet á kjölinn og náðu því varla kjalarlengdinni á áttæringunum á 19. öld.
Vertíðarskipin í eyjunum, stórskipin, er menn kölluðu, hafa að mestu verið byggð úr eik, traustbyggð og sterk, svo að þau gátu, að vísu með gagngerðum endurbótum og viðhaldi, undir stöðugu eftirliti, enzt eða gengið til fiskjar um marga áratugi. Voru dæmi til þess, að skip gengju um 70 vertíðir eða jafnvel meira.¹⁹)
Tveir teinæringar, Daníel og Fortúnatus, voru í eyjum fram um miðbik 19. aldar, og munu hafa verið síðustu teinæringarnir, en á þessum tímum og síðar voru nær öll vertíðarskipin áttæringar. Voru þeir að vídd jafnstórir teinæringunum, en oftast nokkuð styttri milli hnýfla. Það kom fyrir, að bætt var rúmi í skip, barkarúmi eða barkaróðri, og t.d. sett í áttæring tíunda rúmið,²⁰) eða sett var áttunda rúmið í sexæring.²¹) Skipin voru eftir sem áður, þrátt fyrir rúmaukann, talin eftir sínu upprunalega horfi, áttæringur eða sexæringur, sem hafði sína þýðingu með tilliti til skipshlutanna.
Gömlu tólfæringarnir og teinæringarnir voru stærri og þyngri í vöfunum en tíðkaðist um vertíðarskip annars staðar hér á landi. Sá hefir verið siður hér snemma, er og hélzt ætíð síðan, að menn hjálpuðust með að setja skip í hróf. Talið er og, að það hafi verið venja fyrrum, að tvö skip fylgdust að og kæmu samtímis að landi.²²) Eigi er kunnugt um, að neitt hafi verið gert til þess að létta undir með sjómönnum í þessu efni. Seint á 18. öld var stjórnin þó með ráðagerðir um að gerð yrði hér bátahöfn, en fljótt var horfið frá því ráði, er upplýstist um kostnaðinn. Niels Rydberg, er var umsjónarmaður konungsverzlunarinnar fyrri 1759—1763, mun hafa farið út í eyjar og rannsakað þessi mál, og voru það tillögur hans, að komið yrði upp dráttartækjum við naustin eða lendingarstaðina til þess að draga upp bátana. Var ráð fyrir gert, að í þau færu tvær tylftir af 18 álna plönkum m.a., og að hvert slíkt tæki kostaði rúma 122 rd., sjá konungsúrskurð 9. febr. 1762.²³) Eigi þótti samt tiltækilegt, að ráðast í þessar fullu framkvæmdir, en látið þar við lenda, að komið var fyrir tveim smáum dráttartækjum, er smíðuð voru hér og kostuðu 40 rd. hvort. Skyldu þau síðan fylgja konungsbátunum.²⁴) Þessi tæki munu hafa komið að litlu gagni og hafa átt sér skamman aldur, og hefir ekkert verið kunnugt um þetta síðan. En líklegt er, að merki þau eftir eins konar dráttarbraut, er virðast hafa verið sýnileg við Stokkhellu og Stokkalón, stafi frá þessum tímum.
Frá öndverðri 18. öld var, eins og áður segir, að mestu hætt að halda úti tólfæringum, og á síðari hluta aldarinnar gekk aðeins einn. Tólfrónir bátar munu eigi hafa verið mikið notaðir hér á landi utan Vestmannaeyja, að minnsta kosti eigi, er komið var fram á 18. öld. Þannig eru aðeins taldir á skrá yfir bátaeign landsmanna 1771 2 tólfæringar og 10 teinæringar, er mun koma heim við tölu innistæðubátanna.²⁵)
Skautasegl, spritsigling, var notuð í Vestmannaeyjum fyrrum og fram um miðja 19. öld, en þá var tekin upp svokölluð lokortusigling. Seglaumbúnaður á eyjaskipum fyrrum var með greindum hætti: Segl fylgdi hverju mastri, með tveim togum í hvora síðu og stögum fram í stafnlokið, drapreipi og undirgjörðum. Var fremsta undirgjörðin kölluð stagundirgjörð, því að hún gekk upp í stagklóna, en togundirgjarðirnar upp í togklærnar, er voru tvær, sín hvorum megin, framarlega á hástokknum í barkanum. Þær gengu upp í skautklóna, þegar siglt var í topp, eða mátulegan toppbyr, en ef hvessti lét formaður segltökumanninn setja á barkaklærnar, og voru þá undirgjarðirnar, sem festar voru í rengurnar niður við kjölinn, dregnar upp í barkaklærnar. Ef enn herti storminn, voru miðklærnar settar niður á þóftur og jaðarklóin niður í sax. Og undir sjóina „hryggjuðu“ segltökumennirnir inn seglið, en dragreipismaðurinn, er sat á fasta bitanum, sagði til um sjó og vind, og hagaði fyrirsögnum sínum eftir því. Rakki, bogið tré yfir um mastrið, hélt ránni og seglum að mastrinu, þegar nær var látið, eða uppdregið í vindi. Setja á saxið, þ.e. herða skautaklóna niður á borðstokkinn, svo að seglið standi stíft að framan. Leggja á staginn, þ.e. upp að stagnum og jaðarklóna yfir um mastrið og svo niður í hlésaxið.²⁶)
Strigi var hafður í segl, en landmenn notuðu einskeptu. Um 80 álnir af striga þurfti á tólfæringana í segl.²⁷)
Við lokkortusiglingar var hafður klýfur, framsegl og stórsegl. Í afturseglið fór um 65—70 álnir af mjóum dúk. Þessi seglaútbúnaður var tekinn hér eftir frönskum fiskimönnum. Bandið í seglinu var nefnt skaut, og skautbolti, þar sem það var fest. Snærin, sem rifað var með, voru kölluð rif. Þegar tvírifað var, var eigi nema hálft seglið uppi. Lý var kaðallinn nefndur, er saumaður var utan um seglið, og sagt, að lýja seglið. Afturmastrið var tveggja manna byrði og miklu þyngra en frammastrið. Stellingar hétu þar, sem möstrin stóðu.
Heiti í skipum: Stefni, framstafn, afturstafn, skutstafn, hnýfill, fótatré, pallur og skorbiti aftan við skutinn, framan við formanninn, þiljur niður úr og listi að ofan. Byrði. Formannssæti, biti og yfirbiti, bithús í bitanum, þar geymdu menn sjóbitann o.fl. Skutur og miðskutur. Barki, fremst í barkanum: krús. Sog með öllum röngum, þau neðstu kjölsog. Drag, járnið undir kjölnum, kjölbekkur, kjölur, kjalarhæll, stokkar, stokkaspor, „kjölur í stokkasporum“, kjalsíða. Framskot voru nefnd neðstu borðin í byrðingnum, háls og hálsaskeyti, vinduskeyti, vinduhálsar, skipsbrjóstin. Ofan á rengurnar voru sett svokölluð bönd og rangaskeyti með hnoðnöglum í miðjunni og reknöglum í endunum. Trélisti var negldur með göddum og reknöglum, og í gegnum hann gaddur upp í hástokkinn. Uppistöðutré undir þóftum. Skipin voru kölluð mjóbyrt og breiðbyrt. Breiðbyrt voru skipin, ef borðið var ca. 7—8 þuml. frá saumfari og út á borðbrún. Mjóbyrt skip þóttu öllu betri í sjó og lyftu sér meir. Skip gátu verið breiðbyrt að ofan og mjóbyrt að neðan. Austurmál kallað á skipi, þegar þörf var að ausa. Austurstrog, negla, neglugat, keipar, keipsnef, árar, árablöð, áraskautar. Stýri, stýrissveif, stýrislykkja. Taumastýri voru áður á skipum og kallaður stjórnvölur, þar sem taumarnir voru festir í stýrið. Hlunnar og skorður. Kolluband, bandamaður, framanundirmaður, skipsstjaki. Blöndu- eða drykkjarkútar voru jafnan á skipum. Dregill hét í skutnum, þar sem kringingin er á skipunum og byrjar að beygja að stafninum.
Á gömlu vertíðarskipunum, stórskipunum, mun hafa verið hátt á annan tug manna, eða svipuð tala, þó eigi hlutfallslega eins há, og á stærstu áttæringunum seinna. Á þeim voru: 5—6 í barkanum frammí, 2 í andófinu, 2 í fyrirrúminu, 2 miðskipa og 2 í austurrúmi, 2 á bitanum eða í skut. Voru oftast til þess valdir heldri bændur.²⁸) Á gömlu tólfæringunum hétu rúmin: Fremst við barkann var andófið, þá fyrirrúm, kerlingarrúm eða stellingarúm, þar næst krapparúm, svo slógrúm og aftast við skutinn austurrúmið. Skipað var í öll rúmin. Frammá eða í barkanum hafa verið færri menn en á áttæringunum.
Hálfdrættingar voru í skut undir umsjón og handarjaðri bitamanna og formanns og þeim til vika, svo sem með að rétta tóbaksbaukinn á milli. Skipsdrengir voru hálfdrættingar nefndir fyrrum. Frammámenn voru þeir kallaðir, er voru frammá, og andófsmenn í andófi. Segltökumenn og dragreipismenn voru nefndir fyrrum. Segltökumennirnir voru tveir og voru valdir menn að afli. Þurftu þeir að geta reist mastrið. Dragreipismaður mátti hins vegar vera gamall og burðarlítill, en hann varð að vera vanur sjómaður, eftirtektarsamur og eigi æðrufullur. Hann sagði til um sjó og vind og mátti eigi láta hina hásetana sjá á sér minnsta ótta, hvernig sem blés. Segltökumennirnir sögðu hásetum fyrir um ýms handtök, meðan verið var á siglingu.²⁹)
Hin almennu hlutaskipti voru fólgin í mannshlutum og skipshlutum. Skipshlutanna, er bæði var mikill og fljóttekinn arður af, er vel gekk, nutu skipaeigendur. Hér var skipaeignin um langa tíma á erlendum höndum. Skipshlutir konungs eftir konungsbátana eru taldir aðeins tveir af hverju skipi, án tillits til stærðar skipanna, svo og lönguhlutur, er eigi nam miklu. Átti konungur þannig 30—40 hluti, er nam á vetrarvertíð 5—8 lestum af þorski eða meiru eftir tölu bátanna, auk 2—3 lesta af trosfiski. Hér er eigi talinn tíundarhluturinn, kóngstíundin, er goldin var af hverju skipi, bæði eyja- og landskipum. Vegna skipshlutanna voru haldnar sérstakar hlutabækur, og þær staðfestar af hreppstjórum á manntalsþingum. Í kærumálum eyjamanna frá 1583 er kært yfir því, að Simon Surbech hafi sett aukahluti á skipin. Þeirra sést eigi getið í umboðsskilagreinunum og geta því hafa verið felldir niður aftur fyrir 1586, eða að hér er um að ræða, sem er líklegra, sams konar aukahluti og reiknaðir voru af skipunum auk sjálfra skipshlutanna á einokunartímunum, og hefir forstöðumaður þá tekið þessa hluti sjálfur og þessi óvenja þannig komizt snemma á. Einokunarkaupmenn reiknuðu af innstæðubátunum skipshluti (Skibs Abatter), konungshluti, eins og áður, en nú voru teknir af skipunum fleiri hlutir, af stórskipum 4—5 dauðir hlutir; af þeim voru 2 skipsaukahlutir, er kaupmenn töldu sér sem útgerðarmenn. Voru eyjamenn ætíð mjög óánægðir með þetta, en fengu litlu um þokað, þrátt fyrir kærur og gengna dóma. Sjá áður um kærumál eyjabúa 1583. Um aukahlutinn „Tóm“, er Jens Hasselberg umboðsmaður hafði sett á eyjaskipin, innstæðu- eða konungsbátana, í þágu kaupmanna, var úrskurðað með Alþingisdómi 28. júlí 1651. Hlut þennan hafði Gísli lögmaður Hákonarson, er þá hélt Rangárvallasýslu, dæmt af eyjaskipum með Lambeyjardómi 2. maí 1628, en samt hélzt umgetinn hlutur, „Tómur“, áfram á skipunum. Leigan af skipunum var mjög há, svo að kaupmenn hafa leitað allra bragða til þess að draga sem mest undir sig, og fengið til þess samþykki hærri valda, heldur en að leigan lækkaði; komu og síðan þessum aukahlut á landskipin, er gerð voru út í eyjum. Í dómnum frá 1651 er vísað til dóms Páls Stígssonar hirðstjóra frá 1564 og Hvítingadóms Kláusar Eyjólfssonar frá 1635.³⁰) Sjá og Hvítingadóm Einars sýslumanns Eyjólfssonar 17. júní 1685, er dæmdi af skiphaldsfiska og skriffiska.³¹) Fram eftir 18. öldinni var skipt af tólfæringunum 5 dauðum hlutum, sem sé 2 skipshlutum, 2 aukahlutum, er skiptust jafnt milli kaupmanna og formannanna, fimmti hluturinn var tíundarhlutur. Sérstakur lönguhlutur er nú eigi reiknaður, en skipsfiskur eða þurfamannafiskur eins og áður. Af teinæringunum voru greiddir 4 dauðir hlutir og af áttæringunum 4.³²) Í tilskipuninni 16. apríl 1714 segir, að konungshlutirnir séu 2—3, en hér mun blandað málum að nokkru og þriðji hluturinn hér tíundarhluturinn. Á seinni tímum voru skipshlutir eftir stærð skipanna: 5 hlutir af teinæringum, 4 af áttæringum og 3 af sexæringum. Leigan af bátunum, er eyjamenn máttu greiða kaupmönnum, mun í heild hafa numið frá fimmtungi og upp í fjórða hluta aflans. Af hákarlaskipunum voru reiknaðir 4 skipshlutir og 3 beituhlutir.
Viðgerð á skipum, bikun og seglaumbúnað kostuðu skipseigendur. Sjómenn kostuðu sjálfir hlunna og dráttartré. Þessari kvöð var létt af þeim og færð yfir á skipseigendur, sbr. rentuk. bréf 25. marz 1701.³³)
Aukahlutir þeir, er settir voru á skipin, munu að sumu leyti hafa átt að koma móti kvöðum þeim, er á útgerðinni hvíldu af hendi hásetanna, en vissulega komu þessar kvaðir þyngst niður á bændum, er áttu mannshluti á skipunum, t.d. eftir vinnumenn sína. Svo er að sjá, sem einkum eftir Tyrkjaránið, er nýir menn tóku að flytjast til eyjanna og sjálfsagt allerfitt að manna skipin, hafi hásetar farið að færa sig upp á skaftið, því að þá eru ýms fríðindi í fiski af óskiptum afla reiknuð hásetum: drykkjufiskar, tóbaksfiskar, hrófölsfiskar, skiphaldsfiskar fyrir þá, er fóru upp með kollubandið, húsaleigubætur o.fl., án þess að þetta hafi stoð í lögum eða venjum. Ýmsir dómar gengu um þessi efni, og er þeirra helztur dómur Kláusar Eyjólfssonar, er dæmdur var á Hvítingum 16. apríl 1635, og fyrrnefndur Hvítingadómur frá 1685. Með dómum þessum voru dæmdar af fiskagjafir, er hásetar nutu af óskiptum afla. En þótt afdæmt væri drykkjufiskar, hrófölsfiskar og húsaleigubætur, risu kvaðir þessar upp í nýjum myndum: skipsáróður, veizlur og glaðningar, er sjómönnum var haldið og tíðkaðist fram um aldamótin síðustu og lýst er annars staðar. Dómur Kláusar Eyjólfssonar fyrrnefndur frá 1635 hljóðar um fartekju, hásetaóhlýðni, haustmannafar og óleyfilega drykkjufiska. Dómur þessi lýsir mörgu um sjómennskuhætti hér á þessum tímum, og kvartað er yfir, að margt fari nú aflaga og í bága við gildandi reglur og venjur, sem eigi var heldur furða, er öllum þorra hinna gömlu og reyndu formanna og sjómanna í eyjunum hafði svo skyndilega verið á burtu kippt við ránið.³⁴)
Einar Eyjólfsson útnefndi í dóm um drykkjufiska og háttalag í umboði Markúsar sýslumanns Snæbjörnssonar í Vestmannaeyjum. Gekk sá dómur, eins og fyrr getur, á Hvítingum 17. júní 1685. Hljóðaði dómur þessi, er staðfestur var á Alþingi, um drykkjufiska háseta í Vestmannaeyjum, einnig um hrófölsfiska, skipti á happadráttum, húsaleiguupphæð, skriffiskum og skiphaldsfiskum, er var dæmt af með téðum dómi, svo og um skipti á sjálfri fiskkösinni; um þetta atriði voru og sett ströng forboð í dómi Kláusar. Þrátt fyrir bönn þau, er staðfest voru með téðum dómum, gegn fiskatilgjöfum til háseta og hluttöku þeirra í afla af óskiptu, svo sem drykkjufiskanna og hrófölsfiskanna, héldust þær þó áfram með öðrum hætti, og eins eftir að útgerðin komst á hendur eyjamanna sjálfra, en nú voru það skipseigendur, sem kostuðu þetta sjálfir. Hér skal og nefndur Hvítingadómur frá 28. júní 1651, er fjallar um þetta efni og um aukahluti af skipunum. Með þessum dómi var svo ályktað í samræmi við dóm Kláusar Eyjólfssonar, að skiptast skyldi allur afli, er á skip kæmi, jafnt á háseta alla og í skipshluti, en afdæmdir burtgjafarfiskar, aðrir en eiginlegir ölmusufiskar, fátækrafiskar og kirkjufiskar. Þessi dómur var, eins og áður segir, staðfestur af lögmanni og lögréttumönnum á Alþingi. Sama er að segja um skipsáróðurinn eða skipsáróðursgjaldið, sem hélzt hér fram um lok 19. aldar. Forna merkingin um skyldu leiguliðanna til að róa á vegum landsdrottins var fyrir löngu horfin með breyttum aðstæðum, en orðið nú notað um gjaldið sjálft.³⁵)
Ráðning háseta í skiprúm fór fram inni á skrifstofu kaupmanna („Skriveriet“ eða „Skriffuet“) með skriflegum skuldbindingum, og þær síðan færðar inn í veðmálabækur hjá sýslumanni til þinglesturs. Hér af mun dregið orðið skriffiskur. Á seinni tímum var það oft siður, að menn fengu greiddan hluta af skipsáróðursgjaldinu um leið og ráðning fór fram, og voru það kallaðir festupeningar. Voru þeir oftast greiddir í tóbaki og brennivíni. Eimdi þannig eftir af hinum gömlu siðum um drykkjufiska og tóbaksfiska. Á seinni tímum fór ráðning háseta oft fram í sumardagsveizlunni, er hásetum var haldin.
Skipsáróðursgjaldið mun lengi hafa verið 2 rd., og kostuðu skipseigendur færi og öngla. Síðar 4 krónur.
Að gömlum hætti voru það talin full lagaráð við háseta, eftir hinum gömlu réttarbótum, farmannalögum og Alþingissamþykktum, að hásetar væru ráðnir með vitnum og handsölum, eða að landsdrottinn tilsagði landseta sínum eða húsbóndi þjóni sínum að róa á skipum sínum. Það gilti sem samþykki háseta um ráðningu í skiprúm, ef hann gekk á skip og bætti sér þar niður með þeim færum, er þar tilheyrðu, og réri á sama skipi í þrjá daga.³⁶)
Köllun eða kvaðningu háseta til róðurs í hvert skipti annaðist formaður. Máttu formenn oft vera snemma á ferli til þess að kalla háseta sína saman til skips. Hásetar voru skyldir til að fylgja sínu færi og hlýða lögkalli formanns, hvort heldur hann kallaði þá til sjóróðra eða til að búa um skipið, setja það eða festa, sbr. farmannalög, og skyldu menn sæta sektum, er heima sátu án löglegra forfalla. Þessar sektir töldust meðal sakeyris konungs. Á dögum konungsverzlunarinnar voru slíkar sektir greiddar með 10—20 fiskum.³⁷)
Formannskaup var fyrr á tímum goldið með 1 hndr. 30 fiskum.³⁸) Seinna var formannskaupið allmisjafnlega reiknað á skipshlutina í heild, viss fiskatala, 124 f., 96 f. og minna, en komst upp í heilan hlut stundum af tólfæringum og hálfan af teinæringum og hélzt það lengi. 4 rd. á skipshlut var og goldið í formannskaup og síðar sama krónutala. Formennirnir voru á seinni tímum flestir meðeigendur með öðrum að skipunum.
Kasarmaður svonefndur skyldi vera á hverju skipi, sbr. Hvítingadóminn 18. apríl 1635. Umboðsmaður réði kasarmanninn með samþykki formanns og háseta. Átti hann að sjá um að allt, sem á skipið kom, kæmi til réttra skipta. Hafa kaupmenn, er tóku skipshlutina, komið þessari ráðstöfun á til þess að þeir yrðu eigi afskiptir, og til þess að hafa hemil á, að hásetarnir tækju ekki um of af óskiptu, drykkjufiska og happdrætti. Af fyrrnefndum dómi frá 1635 sést, að hásetar hafa þótt djarftækir um að skammta sér af óskiptum afla, og er með dóminum ætlazt til, að ráðin yrði bót á þessu, sem þó eigi tókst, sbr. dóminn frá 1685, er staðfestur var á Alþingi, til þess „að afmá staðlegan óvana og ófærilega meðferð guðs gáfu, fiskjarins, innbyggjurum lands og eyja til útörmunar“.³⁹) Formenn fengu stundum hjá kaupmönnum brennivínsanker í uppbót.


Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
1) Regnskaber for Vespenöe 1586—1601.
2) P.E.Ó.: Menn og menntir III, 102.
3) Peter List, seinna bóndi í Stakkagerði, skipasmiður, mun þá líklega hafa komið frá Noregi.
4) Sjá tilsk. 16. apríl 1714.
5) Skv. skipaskrá 1761 eru aðeins 2 bátar með elztu nöfnunum, Jósúa og Davíð.
6) Gideon, Gabríel, Jósúa, Samson, Davíð, Daníel, Fortúna, St. Andreas (Umboðsreikn. V.E. 1715—1726 og 1761, Þjóðskj.s.).
7) 5 af þeim 9 bátum, er seldir voru eyjamönnum, hétu: Abraham, Sankti Andreas, Jósúa, Gabríel og Ísak. 4 bátar voru seldir landmönnum. — Síðasti kóngsbáturinn hér er af mörgum talinn að hafa verið báturinn Þurfalingur, er fórst 1834. Nafninu mun hafa verið breytt.
8) Umboðsskilagreinir Vestmannaeyja 1586—1601.
9) Skýrsla Böðvars sýslumanns Jónssonar, apríl 1749, Spítalareikn., Þjóðskj.s.
10) Skýrsla Jóns sýslumanns Eiríkssonar 1787.
11) C. Pontoppidan, J.S. 31, fol.
12) Vestmanöernes ökonomiske Tilstand 1832, sýsluskj. V.E. 1829—1831, Þjóðskj.s.
13) Sýsluskj. V.E., Þjóðskj.s.
14) Sýsluskj. V.E., Þjóðskj.s.; O.G. í Ísafold 1892.
15) Stiftamtm. og amtm. bréfab. 1761—1820, Þjóðskj.s.
16) Veðmálab. 1832—1873 og skrá 1830—1890. Sjá og kans.br. til stiftamtm. 24. maí 1836, Canc. I. Dep. Brevb. 1836, Nr. 1480, Lovs. X, 750.
17) Afsal fyrir skipinu Olgu er þingl. 10. júní 1870, og hljóðar upp á 2750 rd.
18) Isl. Copieb. 1865, Nr. 176; Stjórnarmálefni Íslands II, 159; Lovsaml. XIX, 238. Sjá og fjárlög 1865—1866.
19) Gideon, smíðaður 1836, Ísak og Halkion, báðir smíðaðir í eyjum á 19. öld. Tólfæringsins Rafaels, sem var við líði fram undir lok 18. aldar, er getið 1715.
20) Þetta var gert t.d. við skipið Áróru.
21) Skipið Mýrdælingur. Bæði þessi skip voru vertíðarskip á seinni hluta 19. aldar.
22) Sjá umsögn Magnúsar Gíslasonar amtmanns, sbr. konungsúrskurð 9. febr. 1762.
23) Lovs. III, 441.
24) Norske Relat. Resol. Prot., 44, Nr. 47; Lovs, III, 459.
25) C. Pontoppidans Deduktion over Handelen paa Island 1786; skýrsla stiftamtmanns til h. kgl. landsnefndar, J.S. 31, fol.
26) Sjá sóknarlýsingu séra Gissurar Péturssonar.
27) Umboðsskilagr. V.E. frá lokum 16. aldar. „Lybskt Boldanit“ var mikið notað til segla.
28) Kunnur er talshátturinn: „Það er gott að hafa einhvern á bitanum“, sem sé, að eiga sér góðan bakhjarl.
29) Sóknarlýsing séra Gissurar Péturssonar. — Drengjum var snemma haldið til sjósóknar og veiðiskapar. Fóru þeir og með lundamönnum í úteyjar, og var kennt að fara með háf og að taka lunda í holu. Bráðþroska unglingar um og innan við fermingu voru látnir róa á vertíð og læra sjómennsku, og voru oftast hluttækir sem hálfdrættingar. Á sumrin réru unglingar einir sér á smáferjum til fiskjar. Drengir veiddu og mikið murt (smáufsa) við klappir og stungu kola. Kolastingurinn var tréskaft, 4—5 álnir á lengd, og neðan í því járnfleinn með agnhaldi. Á vertíðinni gengu börn með smákassa og tínur og „tíndu lifur“ í slógi við fiskikrær og þar, sem skipt var. Mun þetta hafa verið siður hér lengi. Börnin áttu sjálf skildinga þá, er þau fengu fyrir lifrina, og safnaðist þeim dálítil upphæð yfir vertíðina. Þetta voru þeirra hagalagðar. Ef unglingum voru gefnar gjafir, voru það helzt fiskagjafir eða þorsklifur.
30) Alþingisbækur 1650, 1654, 1654—1657, VI, 4 og 5. Sjá og Dómabók, Lbs. 58, 4to.
31) Dómabók, Lbs. 68, 4to, og Alþ.b. 1685, 6.
32) Lbs. 20, fol., 31.
33) Rentek. Færö og Island, Copieb. L.N. 518; Lovs. III, 432.
34) Um þennan merkilega dóm hefir lítt verið kunnugt áður, enda er hann eigi að finna í Alþingisbókum og hans eigi getið í Tyrkjaránssögunni né í Sýslumannaæfum. Dómurinn er í dómabókarsafni Steingríms biskups Jónssonar í Landsbókasafninu.
35) Sjá dóma frá 17. öld um skipsáróður.
36) Hvítingadómur frá fyrri hluta 17. aldar.
37) Sjá og opið bréf 28. febr. 1758.
38) Umboðsreikningar V.E. 1586—1601.
39) Alþingisb. 1685, nr. 6.

3. hluti, framhald 1

Til bakaSaga Vestmannaeyja efnisyfirlit