Jón Jónsson (hreppstjóri)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið nafnið „Jón Jónsson


Jón Jónsson ásamt Jóhönnu konu sinni og Dómhildi dóttur.

Jón Jónsson bóndi og hreppstjóri í Dölum fæddist 16. janúar 1843 á Þykkvabæjarklaustri og lést 17. apríl 1916.
Faðir hans var Jón bóndi á Þykkvabæjarklaustri, Lækjarbakka í Mýrdal, Varmá í Mosfellssveit og síðast í Vilborgarkoti þar, f. 13. ágúst 1805 á Geirlandi á Síðu, d. 9. maí 1872, Bjarnason bónda, síðast á Þykkvabæjarklaustri, f. 11. október 1781 á Eystri-Dal í Fljótshverfi, V-Skaft., d. 1852 á Þykkvabæjarklaustri, Jónssonar bónda lengst í Eystri-Dal, en flúði Eldinn, síðast á Arnardrangi í Landbroti, f. 1730, d. 10. febrúar 1795 á Arnardrangi, Jónssonar, og konu Jóns í Eystri-Dal, Þuríðar húsfreyju, f. 1736 á Núpstað, d. 17. júní 1817 í Skaftárdal, Jónsdóttur.
Móðir Jóns bónda á Þykkvabæjarklaustri og fyrri kona Bjarna bónda á Þykkvabæjarklaustri var Sigríður húsfreyja, f. 1780, d. 7. júlí 1829 á Þykkvabæjarklaustri, Gísladóttir bónda, síðast á Arnardrangi, f. 1745, d. 10. ágúst 1825 á Arnardrangi, Þorsteinssonar, og fyrstu konu hans, Rannveigar húsfreyju, f. 1736, d. 17. ágúst 1786 á Geirlandi, Þorgeirsdóttur.

Móðir Jóns í Dölum og kona Jóns Bjarnasonar var Dómhildur húsfreyja, f. 10. febrúar 1823 á Syðri-Steinsmýri í Meðallandi, d. 2. september 1877, Jónsdóttir bónda, síðast á Syðri-Steinsmýri, f. 1798, d. 20. ágúst 1823, Jónssonar prests í Langholti og Hnausum í Meðallandi, f. 22. ágúst 1767 á Mýrum í Álftaveri, d. 12. október 1822 á víðavangi í Meðallandi, Jónssonar, og konu sr. Jóns, Dómhildar húsfreyju, f. 1765, d. 23. júlí 1839 á Hnausum, Jónsdóttur.
Móðir Dómhildar á Þykkvabæjarklaustri og kona Jóns á Syðri-Steinsmýri var Margrét húsfreyja, f. 1789, d. 18. júlí 1876 í Langholti, Jónsdóttir bónda í Háu Kotey í Meðallandi, f. 1762, d. 27. janúar 1822 í Háu-Kotey, og konu Jóns í Háu-Kotey, Kristínar húsfreyju, f. 1758 í Hjáleigu á Berufjarðarströnd, d. 4. apríl 1847 í Háu-Kotey, Eyjólfsdóttur.

Kona Jóns bónda og hreppstjóra í Dölum var, (1869), Jóhanna Gunnsteinsdóttir húsfreyja, f. 23. mars 1841, d. 1. ágúst 1923.
Börn þeirra:
1. Jón Jónsson í Brautarholti, f. 13. júlí 1869, d. 4. september 1962. Kona hans var Guðríður Bjarnadóttir húsfreyja, f. 28. febrúar 1875, d. 3. september 1950.
2. Dómhildur Jónsdóttir, f. 2.október 1877. Hún fór til Vesturheims 1902.
3. Sonur Jóhönnu og stjúpsonur Jóns var Gunnsteinn Jónsson, f. 10. júlí 1863, d. 31. ágúst 1872, drukknaði austur á Urðum við murtaveiði.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.


Hreppstjórahjónin í Dölum.

Í maílok 1867 fékk Jón Jónsson, hafnsögumaður í Vestmannaeyjum, byggingu fyrir hinni svokölluðu Norðurjörð á Vilborgarstöðum. Í daglegu tali var hann kallaður “Jón lóðs” að hætti danskra Eyjabúa. Jón var kvæntur Veigalín Eiríksdóttur, bónda Hanssonar á Gjábakka. Þessi hjón, Jón og Veigalín, bjuggu á Vilborgarstöðum í tæp tvö ár, því 26. febrúar 1869 drukknaði Jón lóðs í útilegunni miklu. Hann var formaður á sexæringnum Blíð, sem fórst þá á Bjarnareyjabreka.

Veturinn 1869 var vinnumaður á Vatnsgarðshólum í Mýrdal, Jón Jónsson “yngismaður” frá Hvoli í Mýrdal. Hann átti heitmey um þessar mundir, og hét hún Jóhanna Gunnsteinsdóttir. Foreldrar hennar voru Gunnsteinn bóndi Runólfsson, Neðra-Dal í Mýrdal og kona hans Ragnhildur Jónsdóttir. Einhvernveginn fengu hjónaefnin Aagaard sýslumann til þess að leigja sér Norðurjörðina, ef Veigalín hætti búskap. Vorið 1869 fluttu þau til Vestmannaeyja, Jón og Jóhanna, og settust að á Vilborgarstöðum, Norðurjörðinni, sem Veigalín ekkja hafði sagt lausri. Þá var heitmey Jóns “yngismanns”, eins og séra Brynjólfur orðar það, þunguð af hans völdum og titluð “bústýra” mannsefnis síns og barnsföður. Með þeim kom til Eyja sonur Jóhönnu, Gunnsteinn, á 7. ári Jónsson, sonur unnusta hennar, sem fórst af slysförum. 13. júlí sumarið 1969 (skv. Kirkjubók, en réttara mun vera 15. júlí), fæddi Jóhanna “yngismanninum” son, vel gerðan og efnilegan. Um haustið, 29. oktober gaf séra Brynjólfur hjónaefnin saman í Landakirkju. Jóhanna var þá 28 ára og hann ári yngri.

Brátt færðist búskapur þeirra Jóns og Jóhönnu í aukana, því bæði voru þau hyggin og eljusöm. Hún var mikil myndar-húsmóðir, stjórnsöm og atorkusöm, og hann þótti framar flestum öðrum um mennilega framkomu í sjón og raun. Sonur þeirra hjóna var skírður nokkrum dögum eftir fæðingu og hlaut hann nafn afa síns Jóns. - Þessi Jón, sem fæddist á Vilborgarstöðum 1869, er nú 1962 elsti þegn Vestmannaeyjakaupstaðar, sem fæddur er í Eyjum, Jón Jónsson frá Brautarholti, fyrrverandi sjúkrahússráðsmaður í Eyjum. (Til gamans má geta þess að elsti þegn Vestmannaeyjakaupstaðar nú er Ragnheiður Jónsdóttir, dóttir Jóns í Brautarholti, en hún er nú í júlí 2006 orðin 100 ára og 7 mánuðum betur. (Innskot))

Skv. frásögn Ragnheiðar Jónsdóttur stóð til að Jón og Jóhanna flyttu til Brasilíu, þegar Jón sonur þeirra var lítll drengur. Ekki er ljóst hversvegna, en þetta mun hafa verið um svipað leiti og Gunnsteinn sonur þeirra lést af slysförum, en hann drukknaði á Urðunum og er ekki ósennilegt að sá sorglegi atburður hafi átt sinn þátt í því að þau ætluðu utan. Ekki varð þó úr þeim flutningum. (Innskot) Þorsteinn Jónsson, hreppstjóri og alþingismaður í Nýjabæ í Eyjum, lést 28. ágúst 1876.

Þegar skipa skyldi hreppstjóra í hans stað, komu þrír menn í Eyjum til álita og voru tilnefndir. Það voru þeir Jón Einarsson, húsmaður á Vilborgarstöðum, faðir Þorsteins í Laufási, síðar bóndi (1892) á einni Vilborgarstaðajörðinni, Vigfús Pálsson Scheving, bóndi á Vilborgarstöðum og Jón Jónsson, bóndi á Vilborgarstöðum, maður Jóhönnu Gunnsteinsdóttur. Hann var sá sem hlaut tignina og var skipaðir hreppstjóri eftir Þorstein Jónsson í Nýjabæ.. Árið 1877, 2. oktober varð þeim hjónum Jóni og Jóhönnu annars barns auðið. Það var meybarn og skírt Dómhildur. Hér er byggt á kirkjubókum um fæðingarár hennar. Um 1880 stóð búskapur þeirra hjóna með miklum blóma á Vilborgarstöðum. Undir honum stóðu taustar stoðir til lands og sjávar. Það ár höfðu þau hjón tvo vinnumenn og eina vinnukonu. Auk þess unnu hjá þeim öldruð hjón, sem voru hjá þeim í einskonar vinnumennsku. – Það ár tók þeim Jóni og Jóhönnu að þykja heldur þröngt um sig og búskap sinn í margbýlinu á Vilborgarstöðum og æsktu annarar jarðar í Eyjum.

Árið 1880 var önnur Dalajörðin laus til ábúðar. Þau fengu byggingu fyrir henni frá fardögum 1881 og fluttust þá þangað. Jón hreppstjóri átti hlut í áttæringnum Eolusi og var formaður með hann í eina vertíð. Honum fannst hann ekki fiska nægilega vel og hætti þessvegna formennsku eftir þá einu vertíð. Gerðist hann þá háseti hjá Hannesi Jónssyni (Hannesi lóðs) á Gideon. Með honum réri hann síðan í 30 vertíðir. Einnig réri Jón yngri þar í 13 vertíðir.

Eftir að þau hjón fluttu að Dölum, létu þau Ólaf smið Magnússon í London byggja sér fjögurra manna far. Sá bátur hlaut nafnið Dalbjörg. Dalbjörgu gerði Jón hreppstjóri út úr Klauf suður, stundum fyrir vertíðir eftir áramót, áður en Hannes dró út á Gideon, og svo á vorin og sumrin. Dalbjörg var milil happafleyta, svo að Jón hreppstjóri efnaðist vel á þeirri útgerð. Dalbjörgu tók út í Klaufinni í foráttubrimi og brotnaði í spón. Árið 1877, 2. júní, kusu Eyjabúar Jón bónda Jónsson í hreppsnefnd. Í henni sat hann þrjú kjörtímabil eða 18 ár (1877-1895). Einnig var hann kosinn varamaður í sýslunefnd 1898. Þá var Jón einnig meðhjálpari í Landakirkju í 18 ár.
Í Dölum bjuggu þau hjón samfleytt í 23 ár, eða til ársins 1904. Það ár brugðu þau búi í Dölum og fluttu í bæinn. Þau tóku sér þá leigt í húsinu Fagradal við Bárugötu, en það var þá nýbyggt. Við Dalajörðinni sem þau fluttu frá, tóku hjónin Jón Gunnsteinson, bróðir Jóhönnu og Þorgerður Hjálmarsdóttir. Börn þeirra: “Dalabræðurnir” Sveinbjörn, Matthías, Vilhjálmur og Hjálmar, og systur þeirra Þorgerður og Halla. Bræður þessir eru kunnir þegnar Eyjanna. Dómhildur Jónsdóttir fluttist til Ameríku um aldamótin og giftist þar.(eiginmaður hennar var ættaður frá Draumbæ) (Innskot.) Hún mun hafa látist árið 1956 eða 57. Um hana kvað Guðrún Pálsdóttir prests Jónssonar á Kirkjubæ, “Gunna Pála” þessa ferskeytlu:

Dómhildur er drósin fín,
Drengir vilja hana sjá.
Blómarósin blíðust mín
bið ég Drottinn leiði þá.

Hjónin Jón hreppstjóri og Jóhanna Gunnsteinsdóttir fluttu frá Fagradal að Bólstað við Heimagötu 18, árið 1908. Það hús var þá nýbyggt og voru þá að hefja búskap og hjúskap þar Margrét Sigurðardóttir og Ólafur Auðunsson, hin þekktu og mætustu hjón í Eyjum, síðar búandi um margra ára skeið í Þinghól við Kirkjuveg, þar sem Margrét býr enn, ekkja tæpra 82 ára. Árið 1908 byggði Jón yngri, sonur hreppstjórahjónanna, íbúðarhús sitt Brautarholt (Landagötu 3 b). Hann lauk því um haustið. Fluttu þá gömlu hreppstjórahjónin í það hús til sonar síns og tengdadóttur Guðríðar Bjarnadóttur frá Svaðkoti. Jón hreppstjóri lést 17. apríl 1916 í “Gamla spítalanum”, (Kirkjuveg 20), en Jóhanna kona hans lést 1. ágúst 1923 í Brautarholti.

Heimildir: Blik 1962. – Þorsteinn Þ. Víglundsson.

Munaði mjóu.

Oft er skammt milli lífs og dauða, þegar verið er til fuglaveiða í björgum á Heimaey eða í úteyjum. Einhverju sinni var Jón Jónsson, hreppstjóri í Dölum til fýla í Heimakletti. Slagveðursrigningu gerði á meðan hann var niðri í Kambinum. Það var farið á lærvað niður, fýllinn rotaður og honum hent niður, þar sem hann var hirtur af bát. Þegar eins viðrar og í þetta skipti, er kalt og ekki heiglum hent að lesa sig upp á bandi 30 faðma. Þegar Jón var nærri kominn upp á brún, var hann orðinn svo loppinn, að hann varð að grípa með tönnunum í bandið til þess að fá haldið sér og hrapa ekki niður.

Heimildir: Gamalt og nýtt, nóv. 1949.

Við löggæslu, þegar Eyjarnar voru hreppur.

Það var í verkahring hreppstjóra að halda uppi löggæslu í umboði sýslumanns. Eins var í Vestmannaeyjum, áður en kaupstaðurinn fékk bæjarréttindi. Voru Eyjarnar þá all fjölmennur kaupstaður, einkum á vetrarvertíð, þegar mikið var af aðkomumönnum. Róstursamt var þá oft og drykkjuskapur nokkur. Hreppstjórarnir voru þá oft kallaðir til þess að skakka leikinn. Einhverju sinni sem oftar var Jón hreppstjóri Jónsson frá Dölum við löggæslu. Verið var að ljúka dansskemmtum. Þá er það, að maður einn lætur ekki friðlega. Jón gengur til hans. Snýr maðurinn sér þá snögglega að honum og segir: “Hvað er það eiginlega fyrir þig maður minn, á ég að rétta þér einn á hann?. Ef þú hypjar þig ekki í burtu, slæ ég þig niður eins og fjaðrasófa.” Hummar þá ósköp rólega í Jóni, um leið og hann sýnir honum jakkabarminn. Glittir þar á málmplötu, eins og löggæslumenn bera. Slumar þá í ólátaseggnum. Fór svo hvor sína leið. Maðurinn var Bjarni Dagsson, dugnaðar sjómaður, en nokkuð ölkær.

Heimildir: Gamalt og nýtt, nóv. 1949.

Ríkustu bændur hér um aldamótin 1800/1900.

Laust fyrir síðustu aldamót 1800/1900 voru þessir bændur taldir ríkastir hér í Eyjum: Guðmundur Þórarinsson, Vesturhúsum, - Jón Jónsson, hreppstjóri í Dölum og Þorsteinn Jónsson, læknir.

Sendiförin.

Í árslok 1878 sótti Jóhann Jörgen Johnsen til landshöfðingja um vínveitungaleyfi í Eyjum. Tveir sóttu um veitingaleyfið. Hvor vildi verða fyrri til að koma umsókn sinni til lsndshöfðingja í Reykjavík. Nú voru góð ráð dýr. Ekki var að treysta á skipsferð til Reykjavíkur. Fangaráð yrði því að skjóta manni upp í Eyjasand. Hins vegar var ekki á vísan að róa með leið á þessum árstíma. Þegar hér var komið sögu bjó Jón Jónsson í Norðurbænum á Vilborgarstöðum .a móti Sveini Þórðarsyni, beyki á Löndum. Jón var Skaftfellingur að ætt, en fluttur til Eyja fyrir fáum árum. Árið 1880 flutti hann að Dölum, bjó þar á allri jörðinni, varð einn af efnuðustu bændum í Eyjum og hreppstjóri í mörg ár. Var hann sómamaður í hvívetna og mátti ekki vamm sitt vita.

Faðir minn fékk nú Jón Jónsson til farar með bréfið til landshöfðingja, enda voru þeir vinir góðir. Jón var vanur hverskyns volki á ferðalögum úr Skaftafellssýslu og á best aldri – hálffertugur. Jóhann og bræður hans á Vilborgarstöðum mönnuðu sexæringinn Þökk til Landferðar. Formaður var Sæmundur Guðmundsson, bóndi á Vilborgarstöðum. Allt fór það með mestu leynd, því að ekki skyldi keppinautnum berast njósnir af þessari ráðabreytni. Nú var beðið leiðis. Laugardaginn 14. desember var hann genginn í norðanátt og því brimlaust við Sandinn. Var þá ekki beðið boðanna, en ýtt úr vör laust fyrir láfnætti, enda þótt barningur væri framundan, móti hvössum norðanvindi að sækja.

Sæmundi sóttist ferðin seint yfir sundið, komið stólparok af norðri. Lent var í Bakkafjöru í Landeyjum. Jón fór einn upp í Sand, en hinir sneru heim. Enginn var í Sandu, enda engin merki send úr Eyjum að báts væri von. Jón fór að vörmu spori heim að Bakka. Þar var gestrisni að vanda og Eyjamenn hagvanir. Jón hvíldist þar örlitla stund, þreyttur og vansvefta eftir barninginntil lands. Út að Ljótarstöðum var hann samt kominn fyrir hádegi og þá þar beina. Magnús Björnsson, hreppstjóri bjó þar góðu búi. Magnús bóndi var við kirkju að Krossi, en prestur var séra Sveinbjörn Guðmundsson. Margrét húsfreyja bauð Jóni að hvílast og bíða Magnúsar, en hann vilsi ekki tefja, þótt góðkunningjar væru þeir Jón og Magnús. Frá ómunatíð höfðu verið miklar samgöngur milli Vestmannaeyja, Eyjafjalla og Landeyja. Kunningsskapur var því náinn milli Eyjamanna og íbúa þessara sveita. Frá Ljótarstöðum lá leið Jóns vestur Útlandeyjar sjónhending út í Þykkvabæ, því að allt var á haldi og færi sem best var á kosið. Að Háfi kom hann im gjafir. Þar þá hann beina og hvíldist um stund, en afþakkaði næturgreiða, þótt uppbúið rúm stæði til boða í stofu og Jón svefnþurfi. Kvaddi hann heimafólk, áður en vaka væri sett. Í þann mund er hann var að leggja af stað, heyrði hann traðk fyrir dyrum úti. Hélt hann þar vera kominn keppinaut sinn, sem hafði farið upp undir Austur-Eyjafjöll tveimur dögum fyrr. Átti sá maður að fara sömu erinda á fund landshöfðingja fyrir Sigurð Sveinsson. Þetta reyndist þó vera hestur að nasla sinustrá á bæjarkampinum. Ekki tók Jón í mál að leigja sér reiðskjóta. Þann kostnað vildi hann ekki baka vini sínum.

Frost fór harðnandi, en Jón hlýtt klæddur. Yst var hann í þykkum vaðmálsfötum. Nærföt voru úr ull. Hann var í tvennum sokkum með væna leðurskó á fótum, stóran ullartrefil sívafinn um hálsinn og lambhúshettu á höfði. Broddstaf ágætan hafði hann fengið léðan á Ljótarstöðum. Nesti var sem ekkert í förinni, né farangur, nema innsiglaða landshöfðingjabréfið í brjóstvasa úlpunnar og áttaviti. Jón kveið því ekki kulda, enda kunnu menn þá að klæða af sér kulda, og síst yrði kaldara en oft á sjótrjánum í útilegum. Gangfæri var hið besta, rifahjarn og glaða tunglskin. Jóni skilaði því vel áfram, enda hljóp hann stundum við fót. Hann hélt beint af augum út sveitir og linnti ekki fyrr en komið var upp á Hellisheiði. Þar skall á hann bylur, en hann óttaðist ekki að villast af leið, því að áttavitinn vísaði leiðina. Hann rambaði á sæluhúsið á Kolviðarhóli. Þar lét hann fyrirberast um hríð. Ekki var vistin þar aðlaðandi. Helkuldi inni ekki síður en úti og því ókleift ferðlúnum manni að fá sér þar blund. Nú rofaði svolítið til og grillti í Hengilinn. Jón tók upp vasaúrið, sem Jóhanna hafði lánað honum. Klukkan var fjögur að nóttu. Jóni fannst nú ekki til setunnar boðið, hann myndi halda stefnunni niður að Vilborgarkoti, en þangað höfðu foreldrar hans Jón bóndi Bjarnason og kona hans Dómhildur Jónsdóttir, flust með hann reifabarn austan úr Skaftafellssýslu. Sex ára að aldri hafði Jón svo flust aftur austur í átthagana.

Laust eftir miðjan morgun kom Jón að Vilborgarkoti. Þar voru fyrir Dómhildur móðir hans og Bjarni bróðir hans. Varð þar fagnaðarfundur, en skamma stund dvalist og notið beina. Ekki kenndi Jón þreytu og fór hratt yfir, því hann vildi ná fundi landshöfðingja á skrifstofu hans samdægurs. Hann gekk strax á fund landshöfðingja og afhenti bréfið. Spurðist hann fyrir, hvort annan sendiboða sama erindis hefði borið þar að garði. Það var sem þungu fargi væri létt af Jóni, þegar svo reyndist ekki. Jón kvaðst bíða eftir svari og leggja svo tafarlaust af stað.

Landshöfðingi braut upp bréfið og undraðist, þegar hann sá dagsetningu þess. Vissi hann aldrei nokkurn mann hafa verið svo fljótan í ferðum svo langa leið. Sagði Jón þá lauslega ferðasögu sína: Frá Vestmannaeyjum laust fyrir miðnætti laugardag 14. desember og upp í Eyjasand, að Háfi sunnudagskvöld þann 15., að Vilborgarkoti í Mosfellssveit mánudagsmorgun þann 16. og í Reykjavík upp úr hádegi samdægurs.

Landshöfðingja líkaði meðmælin með umsókn Jóhanns svo vel, að Jóni var sagt, að honum yrði veitt leyfið. Jón hafði látið í ljós þá ósk, að leyfisbræefinu væri hraðað sem mest, ekki væri að vita, hversu lengi norðanáttin héldist. Honum var sagt að sækja bréfið daginn eftir. Á tilsettum tíma sótti hann leyfisbréf fyrir veitingahúsrekstri í Vestmannaeyjum til handa Jóhanni Jörgen Johnsen, dagsett 17. desember 1878, undirritað af landshöfðingja og innsiglað.

Það er af sendimanni Sigurðar Sveinssonar, Húna Sigurfinnssyni að segja, að hann var lagður af stað suður. Í Hellnahólsgrjótum varð hann fyrir því óhappi að detta og meiðast svo, að hann treystist ekki til að halda ferð sinni áfram.

Jón dvaldist einn dag í Reykjavík. Í Vilborgarkoti dvaldist honum eitthvað. Ferðin austur í Landeyjar tók hann þrjá daga. Þangað kom hann á Þorláksmessu. Veður var ágætt, en áttin orðin vestlæg, svo að kominn var hornriði og ólendandi dögum saman.

Jón var ekki fyrr kominn austur en hann kynnti vita, eins og sagt var, en það var að kynda þurru spreki þar sem hátt bar. Þetta var merkjamál milli lands og Eyja og hafði svo verið aftan úr grárri forneskju. Með þessu gaf Jón Eyjamönnum til kynna, að hann væri kominn og sækja mætti hann. Það stóð heldur ekki á svarinu. Brennan á Þerrihóli á Vilborgarstöðum logaði glatt fram á nótt.

Sæmundur í Oddnýjarbæ gerði þrjár eða fjórar árangurslausar atrennur upp undir Sand. Aldrei var lendandi. Gilti einu þótt ekki örlaði við stein við Nafarinn, en af sjólagi við hann mátti ráða, hvort lendandi væri við Sandinn. Loksins tókst að ná Jóni um borð. Þegar Sæmundur lagði Þökk inn í Lækinn og lenti við Stokkhellu, voru þar Vilborgarstaðabræður, Jóhann, Jón faðir Péturs óperusöngvara og Einar, síðar kaupmaður í Reykjavík. Jóni var fagnað afburðavel. Þótti hann hafa rekið erindi sitt með dugnaði og atorku, s´erlega þótti suðurferðin hafa tekið stuttan tíma. Var það lengi í minnum haft. Vinátta þeirra Jóhanns hélst meðan báðir lifðu. Bar þar aldrei skugga á.

Heimildir: Yfir fold og flæði, Sigfús M. Johnsen.

Fisk dráttur

Útgerð var annar aðalatvinnuvegur Eyjamanna. Jón hreppstjóri í Dölum átti vertíðarskip í félagi með Jóhanni Jörgen Jophnsen.

Í mörg horn var að líta fyrir þann, sem útgerð rak. Útgerðarmaðurinn þurfti að eiga góða fiskikró, með timburþaki og timburþili. Krærnar voru meðfram endilöngum Strandvegi vestur að Nýborg. Vestast var kró Sigurðar Sveinssonar, stærðar kró, en af krónni mátti meta gildi útgerðarmannsins. Hver kró bar sitt nafn, t.d. Tangakró, Landlystarkró, Þorsteins lækniskró, Prests- eða Ofanleitiskró.

Þegar fiskur var kominn á land varð að bera hann upp í kró. Var það kallaður dráttur, því sporðarnir drógust, en fiskinum var haldið uppi með fiskikrókum, einum í hvorri hendi. Drátturinn var langur frá Stokkhellu upp í Frydendalskróna, en þó þurfti að beygja örlítið fyrir Bjargarhrófið, sem þeir sameignarmennirnir Jón hreppstjóri og Jóhann Jörgen höfðu byggt vestan við Lækinn. Í krónni var svo gert að fiskinum, síðan saltað, þorskur í stafla, stórlúða og stundum stórufsi í bútung í tunnur, eða keila og tros í sérstaka stafla og notað úrsalt. Mikið vandaverk var söltun, ef fiskurinn átti að verða fyrsta flokks vara.

Að vorinu var fiskurinn rifinn upp úr fiskistöflunum og borinn á handbörum að sjávarlónum. Áður var hann “plokkaður”, þ.e. þunnildishimnur teknar burtu. Síðan var honum dembt í lónið, en á klettabrúninni sátu skinnklæddir karlmenn og þvoðu. Síðan var þveginn fiskur borinn á ný á handbörum upp á stakkstæðið og stakkað þar.(Á stakkstæðunum var fiskurinn sólþurrkaður. Hann var breiddur á stakkstæðið að morgni, og síðan þurfti að snúa honum við, svo sól gæti þurrkað hann beggja megin. Síðdegis var svo fiskurinn tekinn saman og honum stakkað.) Allt var þetta kvenna og unglingaverk, nema þvotturinn.

Heimildir: Yfir fold og flæði, Sigfús Johnsen.


Myndir