Þorlaugargerði vestra
Fara í flakk
Fara í leit
Húsið Þorlaugargerði vestra er utan byggðar, fyrir ofan hraun. Þorlaugargerðisjarðirnar voru tvær og aðgreindar sem eystra og vestra. Báðar þóttu jarðirnar ágætar bújarðir á vestmanneyskan mælikvarða og er í heimildum greint frá ábúð á þeim fyrir árið 1500.
Síðasti ábúandi í Þorlaugargerði vestra var Húnvetningurinn Páll H. Árnason frá Geitaskarði, er flutti til Eyja rétt eftir miðja síðustu öld, ásamt konu sinni Guðrúnu Aradóttur og börnum þeirra. Páll rak allstórt kúabú á jörðinni, stóð í nýrækt og endurbætti húsakostinn.
- Páll var mikill bóndi en einnig víðlesinn og fróður og ágætlega skáldmæltur. Hann lenti í útistöðum við Einar J. Gíslason í Betel vegna trúmála og var upphaf þess það að Einar sagðist hafa séð Pál vera að bera skít á tún á hvítasunnudag þegar flestir sannkristnir menn hefðu verið í kirkju. Páll svaraði þessu svo eftirminnilega að ekki var á það framar minnst. Hann sagði: -Hvort finnst þér eðlilegra að ég sé að vinna í skít og hugsa um guð eða að ég sé í kirkju að hugsa um skít?
Bjarni Sighvatsson frá Ási keypti Þorlaugargerði vestra á níunda áratug síðustu aldar og hefur haldið þar bæði sauðfé og hross.