Kristín Gísladóttir (Búastöðum)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Kristín Gísladóttir
Hjónin á Búastöðum, Lárus Jónsson, hreppstjóri, og Kristín Gísladóttir.

Kristín Gísladóttir húsfreyja á Vestri Búastöðum, fæddist 13. janúar 1843 í Pétursey í Mýrdal og lést í Eyjum 30. desember 1921.
Faðir hennar var Gísli bóndi í Pétursey, f. 30. ágúst 1806 í Pétursey, d. 19. nóvember 1856 þar, Gíslasonar bónda í Pétursey, f. 1774, d. 23. júní 1819 þar, Guðmundssonar bónda á Ketilsstöðum í Mýrdal, f. 1741, Þorvaldssonar, og konu Guðmundar á Ketilsstöðum, Þorbjargar húsfreyju, f. 1743, Árnadóttur.
Móðir Gísla Gíslasonar og kona Gísla Guðmundssonar var (1802) Jórunn húsfreyja, f. 1769, d. 22. desember 1826 í Pétursey, Einarsdóttir bónda í Fagradal í Mýrdal, d. 1730, líklega á lífi 1801, Oddssonar og konu Einars, Sigríðar húsfreyju, f. 1730, Jónsdóttur.
Móðir Kristínar og kona (1833) Gísla Gíslasonar var Steinvör húsfreyja, f. 20. nóvember 1809 í Bólstað í Mýrdal, d. 30. maí 1846 í Pétursey, Markúsdóttir bónda í Bólstað og Pétursey, f. 1764, d. 18. febrúar 1837 í Pétursey, Árnasonar bónda á Götum í Mýrdal, f. 1766, Þorsteinssonar, og konu Árna á Götum, Þórdísar húsfreyju, búandi á Giljum í Mýrdal 1756, á Götum 1765 og 66, Jónsdóttur.
Móðir Steinvarar og kona Markúsar í Bólstað var Elín húsfreyja, f. 1766, d. 16. október 1840 í Pétursey, Skúladóttir bónda, síðast í Norður-Hvammi í Mýrdal, d. 23. apríl 1798, Gíslasonar bónda í Háu-Kotey í Meðallandi, f. 1712 á Syðri-Steinsmýri í Meðallandi, d. 17. júní 1785 á Litlu-Heiði, Jónssonar og konu Gísla í Háu-Kotey, Guðrúnar Vigfúsdóttur húsfreyju.
Móðir Elínar Skúladóttur og kona Skúla var Auðbjörg húsfreyja, f. 1725, ekkja hjá dóttur sinni í Bólstað 1801, Oddsdóttir, f. 1701, Eyjólfssonar.
Maður Kristínar á Búastöðum (2. október 1862) var Lárus Jónsson bóndi, hreppstjóri, hafnsögumaður, formaður og meðhjálpari, f. 30. janúar 1839 á Dyrhólum, drukknaði 9. febrúar 1895.

Börn þeirra Lárusar:

  1. Ólöf húsfreyja á Kirkjubóli, f. 20. desember 1862 í Pétursey í Mýrdal, d. 16. nóvember 1944 í Eyjum, gift Guðjóni Björnssyni.
  2. Gísli gullsmiður í Stakkagerði, f. 16. febrúar 1865 í Kornhól, d. 27. september 1935, kvæntur Jóhönnu Sigríði Árnadóttur, Diðrikssonar.
  3. Steinvör húsfreyja, f. 12. júlí 1866 í Kornhól, d. um 1940 í Blaine í Washington-fylki í Bandaríkjunum, gift (28. október 1887) Einari Bjarnasyni frá Dölum.
  4. Jóhanna húsfreyja á Grund í Eyjum, f. 23. september 1868 í Kornhól, d. 8. desember 1953, gift Árna Árnasyni. Áður átti hún barn með Oddi Árnasyni, en hann var sonur Árna Þórarinssonar bónda á Oddsstöðum og Steinunnar Oddsdóttur húsfreyju. Barnið var Árni Oddsson á Burstafelli.
  5. Auðbjörg, f. 28. sept. 1871, d. 6. des. sama ár úr barnaveiki.
  6. Auðbjörg Jónína, f. 16. júlí 1873, d. 27. sept. sama ár úr „almennum barnaveikleika“.
  7. Jóhann Pétur á Búastöðum, f. 16. desember 1876, d. 18. október 1953, kvæntur Júlíönu Sigurðardóttur.
  8. Lárus Kristján, f. 19. okt. 1874, d. 17. febr. 1890.
  9. Jórunn Fríður húsfreyja í Stakkagerði, síðar á Hvassafelli, f. 17. apríl 1880, d. 6. október 1959, gift Sturlu Indriðasyni.
  10. Ingunn Katrín, f. 27. nóv. 1885, d. 17. febr. 1888.

Þau Kristín og Lárus voru í vinnumennski í Pétursey síðustu árin fyrir Eyjaför sína 1863, og elsta barn þeirra Ólöf fæddist þar. Þau fengu í fyrstu inni í Kornhól, en fengu byggingu fyrir Vestri Búastöðum 1870, þegar Sigurður Torfason hreppstjóri lést. Þar byggðu þau upp hús og jörð.
Kristín fæddi amk. 9 börn, missti fjögur þeirra í æsku. Hún var húsfreyja á stóru landbænda- og sjávarbændaheimili, þar sem aðdrættir voru geysimiklir í formi landbúnaðarafurða, fisks, fugls og eggja.
Hún var ekkja 52 ára og má segja, að hún hafi haldið heimili meðan aldur og heilsa leyfðu.
Eftir lát Lárusar var Pétur sonur þeirra ráðsmaður hjá henni, auk þess að stunda verslunarstörf við J.P.T. Brydeverslun. Síðar bjó hún með þeim hjónum, Pétri og Júlíönu. Hún lést 1921.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.