Saga Vestmannaeyja II./ III. Atvinnuvegir, 3. hluti, framhald 3

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Höfnin.


Vélbátaflotanum var lagt á innri höfninni. Bátar voru fyrst látnir liggja við eigin legufæri, um 15 metra langar keðjur. Sleit bátana þá upp í veðrum. 1908 voru landfestar lagðar eftir botninum og bátarnir festir með minni keðjum. Leiðarljós voru sett upp á Sjóbúðarhól og upp af Skildingafjöru, en áður hafði ljós verið haft uppi, þegar skip komu að í dimmu.
Lítil skipakví hafði verið byggð hér vestan undir Kleifum um 1880. Var hún ætluð þilskipum. Sér lítt til hennar nú.¹)

ctr


Vestmannaeyjar (myndina tók Ingimundur Sveinsson skömmu eftir 1900). Á myndinni sést: Austurbúðin austast, Miðbúðin og Tangabúðin vestast, — Básaskerin, þar sem nú er Básaskersbryggja, aðalbryggja bæjarins, Skildingafjaran, þar sem nú er Skipasmíðastöð Vestmannaeyja, Dráttarbrautin, Vélsmiðjan Magni o.fl.


Elzta höfnin hér var við Hafnareyri. Lágu skipin á hafnarlegunni festum bundin í báða enda. Var vestari taugin fest í akkeri innan við Leiðina, en hin í Hringskerið. Sjást þessa menjar enn í skerinu, sem fyrir löngu er komið í sjó og bryddir aðeins á því um stórstraumsfjöru. Skip máttu eigi rista djúpt til þess að geta komist inn á þessa höfn, 11 fet var hámarkið, og er þess getið á síðari hluta 18. aldar.²) Síðar var skipalegan færð inn á Botn. Til þess að komast þangað inn, máttu kaupskipin sæta sjávarföllum og þræða inn örmjótt sund milli Eyrarhálsins og Steinsins og varð að snúa skipum á inn- og útsiglingu norður fyrir Hrognasker. Steinrifið var 17 faðma langt og 3 álna djúpt með fjöru, frá Eyrartanganum hliðhallt út á Hrognasker. Annað sandrif var í útsuður frá Eyrarhálsinum, Hnykillinn, svo að þræða varð örmjóan ál milli sandrifsins og Eyraroddans. Þar fyrir innan er höfnin. Töluverð hætta stafaði og skipum af kastvindum frá Kleifum og Klettaskörðum. Steinninn á Leiðinni hafði borizt þangað með hafróti 1836. Var hann mikill farartálmi skipum. Uppdráttur er til af höfninni frá 1840 og lýsing hafnsögumanna.³) Steinninn var tekinn burtu úr siglingaleið 1928, en árinu áður hafði verið rutt burtu sandrifinu fyrir innan Leið. Siglingaleiðin hefir verið dýpkuð mjög og breikkuð og er orðin fær stærstu skipum, en sæta verður sjávarföllum. Strandferðaskipin koma ekki inn til stórmikils baga fyrir eyjamenn. Stór flutningaskip geta legið hér.
Fram af verzlunarstöðunum þrem voru litlar trébryggjur, er í fyrstu hafa náð skammt fram. Við þær lentu uppskipunarbátar. Bryggjur þessar voru reistar á hlöðnum steinbúlkum. Þær höfðu smám saman verið lengdar og endurbættar, og að síðustu var búið að koma upp steinbryggjum. Eigandi Godthaabsverzlunar (Gísli J. Johnsen) lét gera stóra steinbryggju, fyrstu eiginlegu bryggjuna, nokkru eftir aldamótin, og var hún stækkuð mikið síðan. Við hana gátu lagzt millilandaskip.
Bæjarbryggjan var reist á Stokkhellu 1907, og var ætluð vélbátum að leggjast við. Bryggjuna kostaði Lendingarsjóður eyjanna. Bryggjan hefir verið stækkuð mjög síðan, einkum 1925.
Elzta bryggjan hér, ef bryggju skyldi kalla, var Steinbryggjan, er svo er nefnd enn í dag, og er steinklöpp austur af Garðsverzlunarhúsum. Klöppin hafði áður verið notuð sem bryggja á fyrri tímum við útskipun og uppskipun, meðan gamla höfnin var notuð og seinna. Aðdýpi er þarna og voru plankar lagðir yfir rásina. Þarna lentu oft bátar, er komið var með fé úr úteyjum.
Eftir að fiskveiðarnar jukust hér upp úr aldamótunum, voru byggð mörg fiskhús á steinstöplum, er gerðir voru úti í sjónum fram af Strandvegi, því að allir vildu vera með fiskikrær sínar sem næst sjónum. Þessum fiskikróm er nú verið að rýma í burtu smám saman og færa til betra skipulags. Upp frá bæjarbryggjunni hefir verið rutt burtu króarhverfum og gerð hin myndarlega Formannabraut. Austan við Miðbúðarbryggju rís hin stóra og myndarlega hraðfrystistöðvarbygging Einars Sigurðssonar. Þar fyrir austan ber hátt Austurbúðina, sem er með elztu steinbyggingum landsins. Inni á Tanga blasa við miklar byggingar Tangaverzlunar, Gunnars Ólafssonar & Co.
Á seinni árum hafa verið gerð mjög mikil hafnarmannvirki hér í Vestmannaeyjum, bæði til varnar höfninni, þar sem bátaflotanum er lagt, og bætt mjög siglingaleiðin. Tveir sjóvarnargarðar bægja brimsjónum frá höfninni. Hinn eystri út af Hafnareyri og sá vestari á Norðureyrinni. N.C. Monberg í Khöfn annaðist byggingu hafnargarðanna. Stór steinbryggja hefir verið reist fram á Básasker. Hér geta legið fjöldi skipa og báta í senn og stórstaðarlegt hér um að litast. Skipakví (Friðarhöfn) hefir verið gerð inni í Botni. Skipalega er á Ytrihöfn og fyrir Eiðinu. Akkerum svo hundruðum skiptir hefir verið náð þar upp úr botninum. — Með dýpkunarskipi er unnið að dýpkun hafnarinnar.⁴) Fyrir hafnarvirkjuninni hefir staðið Finnbogi R. Þorvaldsson verkfræðingur.
Hafnsögumaður er Árni Þórarinsson, en afgreiðslumaður Eyvindur Þórarinsson.


Skipaábyrgðarsjóð fyrir opin skip.


stofnuðu eyjamenn 1862. Fyrsti formaður félagsins og aðalfrömuður að stofnun þess var Bjarni sýslumaður Magnússon. Um þessar mundir var risin mikil framfaraalda í Vestmannaeyjum, er átti upptök sín með hreyfingu þeirri, er sýslumaður von Kohl hafði vakið. Skipaábyrgðarfélagið þróaðist vel og hefir auk síns aðalhlutverks getað stutt að ýmsum menningar- og mikilsvarðandi málum hér, með framlögum til björgunarstarfsemi, lánum til Vestmannaeyjahafnar, sundlaugar, til að koma upp talstöðvum í bátum o.fl. Nafni félagsins var breytt frá 1907 í Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja. Félagið endurtryggir hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum hálfa áhættu sína vegna skiptapa og björgunarlauna. Skuldlaus eign félagsins nam 1935 krónum 299.399,81. 1932 var tekin upp sú regla í félaginu, að greiða félagsmönnum árlegan bónus, svo að með því hafa iðgjöldin raunverulega færzt niður í 3,5%.⁵) Formaður Bátaábyrgðarfélagsins er Jón Ólafsson útvegsmaður í Hólmi, tók við eftir Guðmund Einarsson í Viðey, er lézt 1943.


Bjargráðanefnd.


var stofnuð hér 1890, er beitti sér fyrir slysavörnum. Lýsi var notað hér um tíma til bjargráða og lýsis- eða olíuílát höfð í skipum, og þetta tekið upp í fiskveiðasamþykktir. Skyldu bátar hafa með sér í róðri 8 potta af lýsi, sbr. fiskveiðasamþykkt 20. maí 1893. Skömmu áður var það að tilhlutun Bjargráðanefndar gert að fastri reglu, sem og hafði tíðkazt fyrir löngu, að hafa báta til taks, nú tvö skip, í hrófum með öllum fargögnum milli vertíða til bjargráða. Formenn voru fljótir til taks að fara út og leita að skipum, er vantaði, og oft farið út í myrkur og tvísýnu. Útlend skip komu hér oft að stórmiklu liði og neituðu sialdan eða aldrei um hjálp, ef til þeirra var leitað, einkum enskir togarar, og fóru enda ótilkvaddir á vettvang oft og einatt. Hafa þessi skip mörgum mannslífum bjargað hér. Sumir eyjamenn lögðu og ótrauðir fram lið sitt í þessum efnum, til að leita til erlendra skipa, til þess að fá þau til hjálpar. Keðja var lögð upp úr Kópavík 1892, en þar var þrautalending.
Firmað Björgunarfélag Vestmannaeyja, sbr. lög þess 7. apríl 1919, skyldi annast bjargráð, eftirlit með veiðarfærum og landhelgisgæzlu við Ísland. Sigurður Sigurðsson lyfsali var erindreki félagsins við útvegun á björgunarskipi. 1920 keypti félagið björgunarskipið Þór, sem félagið svo seldi ríkinu, afhending 1. júlí 1926.⁶) Stofnun þessa félagsskapar var alveg sérstætt fyrirbrigði hér á landi.
Björgunarstarfsemi og sérstaka landhelgisgæzlu annast nú á vertíð hér varðskip ríkisins. Deild frá Slysavarnarfélagi Íslands starfar hér. Björgunarbátum hefir verið komið upp. Á Eiðinu er reist skýli með björgunarbát. Annar er heima í Sandi. Á Stórhöfða var reistur viti, Stórhöfðavitinn, 1906.⁷) Urðaviti var reistur 1925. Leiðarljós, rautt og grænt, er á sjóvarnargörðunum. Viti hefir nú verið reistur á Þrídröngum.


Fískveiðasamþykktir o.fl.


Sú mun hafa verið venjan hér lengstum, að menn réru með birtu. Harðsókn mikilli var jafnan beitt og kepptist hver við annan um að vera fyrstur á miðin. Ákvæði voru tekin upp með fiskveiðasamþykkt frá 29. apríl 1901 um það, hve snemma menn mættu róa að nóttu. Voru þau þannig: Í febrúar kl. 4, frá 1.—20. marz kl. 3, til 20. apríl kl. 2 og þaðan frá til vertíðarloka kl. 1 f.h. Breyting nokkur með samþykktum 18. des. 1905 og 20. apríl 1906. Róðrartíminn kl. 2 frá 20. apríl til loka. Þá var einnig ákveðið sérstakt gjald í svokallaðan Lendingarsjóð: 1 króna af hverjum hlut á vetrarvertíð og 50 aurar á vorvertíð. Hið síðartalda tillag fellt niður 1910. Með samþykktinni frá 1910 var svo ákveðið, að eigi skyldi seinna á sjó farið á degi, frá 1. janúar til 30. apríl, en kl. 4 síðdegis. Að nóttu í janúar og til 15. febrúar eigi fyrr en kl. 5. Frá 15. febrúar til 28. s.m. kl. 4½, frá 1.—15. marz kl. 4, frá 15.—31. marz kl. 3½, frá 1. apríl til 15. apríl kl. 2 og frá 15.—30. s.m. kl. 12. Í samþykktinni var ákveðið, að sýslunefndin fæli þrem formönnum til eins árs í senn að gæta þess, að fyrirmælunum væri hlýtt. Í samþykkt frá 20. febrúar 1917 um fiskveiðar á opnum skipum og þeim þiljuðu mótorskipum, sem eigi eru yfir 15 smál., eru ákvæði, er svo hljóða: Frá 1. janúar til 31. marz skal eigi róið seinna en kl. 4 e.h. og frá 31. marz til 30. apríl kl. 7 e.h.⁸)
Fiskveiðasamþykktin frá 1893, er fyrirskipaði að bátar bæru niður allt slor á miðum hér og skæru niður háf, sbr. breytingu 1894, var upphafin með samþykkt 24. marz 1897.
Mjög miklar breytingar hafa orðið á mörgu síðan útgerðin hér komst í stóriðjuhorf. Lögráðningar sjómanna fara fram milli félags útgerðarmanna og sjómannafélagsins Jötuns. Skipstjórar og stýrimenn hafa með sér félag, Verðandi. Vélstjórar hafa einnig félag fyrir sig, Vélstjórafél. Vestm.eyja. Lögskráning á skip hjá bæjarfógeta. Sjómannatrygging og stríðstrygging samkvæmt lögum. Hinir stærri bátar fara í útilegur. Á vertíðinni er hér mesti fjöldi aðkomumanna víðsvegar af landinu, er hingað sækir atvinnu. Aðkomubátum er stundum haldið hér úti, en lítið er um það. Margir eyjamenn fara með báta sína í aðra landsfjórðunga utan vetrarvertíðar og stunda þaðan fiskveiðar. Síldveiðar stunda eyjamenn og á bátum sínum mikið fyrir Norðurlandi, einkum á Siglufirði.
Höfnina í Vestmannaeyjum leggur aldrei. Hafís sést mjög sjaldan. Hefir komið fyrir, að smáhafíshrafl hefir borizt hingað austan með landinu, en horfið mjög fljótt án þess að gera tjón. 1615 þakti hafís sundið milli meginlands og Vestmannaeyja. Frá því segir, að 1694 hafi verið ófært milli lands og eyja í hálfan mánuð vegna hafísa.⁹) Sumarið 1766 tepptust landmenn í kauptíð í Vestmannaeyjum í hálfan mánuð sökum hafíss. Tókst þá með mestu gætni að verja kaupskipin áföllum. 9. febrúar 1881 kom hafíshrönn til Vestmannaeyja, og var það talið einsdæmi, að ís ræki svo snemma vetrar svo langt vestur með landi. Mánuði seinna kom aftur ís. Hafíshroði kom hér eftir aldamótin. Kötluhlaup valda stundum sjávarágangi hér og bera jökulstykki á land. Í Kötluhlaupinu 1721 braut sjávarólgan hér hjalla og setti jökulstykki 30 faðma á land.⁰)


Sjóslys.


Vestmannaeyingar hafa jafnan verið taldir afburða sjómenn og fiskimenn. Stjórn og röggvísi formanna viðbrugðið. Það er fullkunnugt, að óvíða er sjósókn jafn erfið og hættuleg sem í eyjunum. Ofdirfðar og ofurkapps hefir oft þótt kenna hjá eyjamönnum í sjósókninni. Voru formenn hér stundum fyrrum áminntir alvarlega af prédikunarstóli fyrir ofurkapp í sjósókn.¹¹)
Hér verður eigi lýst hinni römmu baráttu Vestmannaeyinga við Ægi, þar sem oft er á tvísýnu teflt á mótum lífs og dauða. Í þeim hildarleik hafa eyjarnar mest afhroð goldið í missi margra ágætra sona sinna.
Helztu frásagnir um sjóslys og skiptapa við Vestmannaeyjar er að finna í annálum. Um skiptapa, er eingöngu varða eyjarnar sjálfar, er þó mjög lítið skráð frá fyrri tímum, og verulega sést slíkra skiptapa eigi getið fyrr en í 17. aldar skrifum. Skiptapar, er hér hafa orðið með vissu á 16. öld t.d., finnast eigi skráðir.
Getið er þess 1227, að þrænskir menn, sem sigldu úr Þrándheimi, hafi komizt af með báti í Vestmannaeyjar. Mun skip þeirra hafa farizt nálægt eyjunum. — 1251 björguðu fiskimenn héðan 4 mönnum, er komizt höfðu á skipsflak, er skip þeirra Filippusar og Haraldar Sæmundssona frá Odda fórst vestur af Minþakseyri um Mikjálsmessu nefnt ár. Voru þeir bræður á heimferð frá Noregi og höfðu dvalið með Hákoni konungi. Týndust þeir báðir. Segir um atburð þennan í annálum, að bússuskip kafði milli lands og eyja.¹²) — Í Biskupasögum getur þess, að skip hafi farizt við Vestmannaeyjar og 18 menn komizt af.¹³) — Árið 1276 braut Knörr hinn mikla við Vestmannaeyjar.¹⁴)
Árið 1331 urðu miklir skipskaðar í Vestmannaeyjum; fórust þá 5 tugir karla, 3 konur og 3 börn. — 1360 fórst skip hér nálægt og varð af því mannbjörg. Skipið var norskt kaupfar á leið til Noregs, og fjöldi manna með því, þar á meðal Gyrður Skálholtsbiskup og hirðstjórinn Andrés Gíslason. Er skipið var komið skammt frá landi austur undan Vestmannaeyjum, sökk það niður með öllum farmi, en menn hlupu í bátinn. Tók báturinn 40 manns með jarteikn hins heilaga Þorláks, eins og í frásögninni segir, sá er eigi var vanur að bera nema hálfan þriðja tug manna. Kistu heila rak upp á Eyrum, er var í brennt silfur Skálholtskirkju og portificalia biskupsins. Næsta sumar ætlaði Gyrður biskup aftur til Noregs með Ólafssúðinni, er var allra skipa stærst. Voru 90 manns á skipinu, þar á meðal Helgi ábóti í Björgvin og fimm sæmilegir prestar og Gyrður biskup, en til skips þessa spurðist aldrei framar.
Hér að ofan getur um bússuskip, er fórst milli lands og eyja. Einkennilegt er, að hér hafði það tíðkazt fram á síðustu tíma, að fólk nefndi bæjarhóla, er líktust skipum í laginu, bússu, flt. bússur, t.d. Gerðisbússa, Nýjabæjarbússa. Nafnið er dregið af gömlu skipanöfnunum: Skálholtsbússu, Krossbússu o.fl. Annálar geta komu Krossbússunnar til Vestmannaeyja 1312.¹⁵)
Árið 1413 fórst skip við Drengi, drukknuðu þá 9 menn, en 3 komust af með miklum jarteiknum.¹⁶) Í Biskupasögum getur hrakninga skipa til og frá Vestmannaeyjum, og að menn hafi tíðum heitið á Þorlák biskup hinn helga til fulltingis sér, er jafnan kom að góðu liði.¹⁷)
Af bátaflota konungsverzlunarinnar á árunum 1570—1599 virðast hafa farizt allmörg skip, eða að minnsta kosti 5—6, eftir endurnýjun á bátunum að dæma, sbr. skrá yfir bátana og reikninga frá lokum 16. aldarinnar.¹⁸) Meðal þessara báta munu hafa verið fiskibátar þeir 3 að tölu, er getið er um í annál Gísla biskups Oddssonar í Skálholti að farizt hefðu í Vestmannaeyjum 1593. Létu hinir drukknuðu eftir sig 23 ekkjur.
Á 17. öld er getið í annálum margra skiptapa úr Vestmannaeyjum. 1614 drukknuðu 4 menn. 1629 fórust héðan 2 skip með 25 mönnum. 1632 drukknuðu 14 menn.¹⁹) — 57 menn drukknuðu við Vestmannaeyjar árin 1635 og 1636, 45 síðara árið, aðrir segja 42, af tveim teinæringum og einum tólfæring.²⁰) — 1641 varð skiptapi milli lands og eyja. — 1642 hrakti skip úr Vestmannaeyjum í Þorlákshöfn. Sama ár hrakti hingað skip undan Eyjafjöllum. — 1647 rak í Grindavík áttæring með rá og reiða, er farizt hafði í Vestmannaeyjum.²¹) — 1651 drukknuðu 7 menn við eyjar og 1635 fórust tveir teinæringar héðan. — 1656 fórust 33 menn og 1658 drukknuðu 12 menn.²²) — 1669 í desember fórst skip úr eyjum, er var á leið frá landi.²³) — 1681 björguðust skip úr Landeyjum til Vestmannaeyja, 10 að tölu.²⁴) — 1685 fórust 4 teinæringar í Vestmannaeyjum með 53 mönnum.²⁵) — 1699 er getið drukknunar í Vestmannaeyjum, 7 manna. — 1700 fórst bátur úr Vestmannaeyjum föstudaginn síðastan í Góu. Urðu þá skipaskaðar víða.²⁶) — 1704 drukknuðu 4 menn hér föstudaginn fyrir hvítasunnu.²⁷) — 1734 urðu miklir mannskaðar í Vestmannaeyjum, fórst þar tólfæringur með 18 mönnum, áttæringur með 16 mönnum og sexæringur með 10 mönnum.²⁸) — 1736 fórust tvö skip úr Vestmannaeyjum, annað teinæringur með 15 eða 16 mönnum.²⁹)— 1738 drukknaði við Vestm.eyjar Jakob Jónsson sýslum. Ísleifssonar. — 1743 drukknaði Jón Þórðarson landsþingsskrifari og settur sýslum. í Rangárvallasýslu í ferð úr Vestmannaeyjum við Fjallasand með skipverjum sínum.³⁰) — 1746 týndist skip úr Landeyjum með 16 mönnum, höfðu þeir komið úr eyjum.³¹) — 17. marz 1757 varð mikill skipaskaði í eyjunum, fórust þá 3 skip. Réru 20 bátar þann 16. marz, en aðeins 4 komust heim að kvöldi, hinir lágu úti. Fórust 3 af þeim með 42 mönnum við Sanda.³²) — 1763 fórst skip frá Breiðabólsstað í Fljótshlíð, er sent var til Vestmannaeyja, á því voru 12 manns.³³) — 1775 hröktu 5 skip úr Dyrhólahöfn til Vestmannaeyja. — 1795 drukknuðu í eyjunum 7 manns.³⁴)
Á síðara hluta 18. aldar og framan af 19. öldinni voru sjóslysin öllu færri, enda sjósókn og útgerð nú um langan tíma minni en verið hafði öldina á undan. En frá því fyrir miðja 19. öldina, er útgerðin færðist aftur verulega í aukana, og fram eftir öldinni fjölgar sjóslysunum.
1815 fórst bátur milli lands og eyja, drukknuðu þar 12 manns, þar á meðal Jón Þorleifsson fyrrverandi sýslumaður í eyjunum. — 1818 drukknuðu 8 menn af skipi milli lands og eyja.³⁵)
— 1821 fannst ensk skúta á hvolfi við Vestmannaeyjar og í henni fimm menn dauðir.³⁶) Mörg útlend skip munu hafa farizt við Vestmannaeyjar, þótt fregnir hafi eigi farið af. Á 19. öld strönduðu oft skip eða sigldu á land við Vestmannaeyjar, einkum franskar fiskiskútur, stundum á innsiglingu inn á höfnina; varð í flestum tilfellum mannbjörg. — 1822 drukknaði maður við Vestmannaeyjar. — Hinn 5. marz 1834 fórst eyjaskipið Þurfalingur, teinæringur, við Nausthamar, og fórust þá 11 manns. Formaður Jónas Vestmann. — Á vertíð 1842, hinn 26. marz, fórst bátur með 7 mönnum. Formaður Ellert Christian Schram. Hann var afi Ellerts Kr. Schrams skipstjóra í Reykjavík. 18. nóvember s.á. fórst bátur í fjárflutningaferð í Elliðaey með 6 mönnum. Formaður Vigfús Bergsson frá Stakkagerði. Vigfús var með duglegustu formönnum og sjósóknurum á sinni tíð. Hann var faðir Jóns bónda og smiðs Vigfússonar í Túni. Sigríður Einarsdóttir ekkja hans deyði 1897 nær 97 ára. — Vorið 1847, 13. maí, lagði hákarlajakt út frá eyjunum. Formaður Morten Eriksen við 6. mann. Til skips þessa spurðist aldrei síðan. Morten Ericsen var danskur og fyrri maður Johanne Roed veitingakonu. Hinn 1. okt. 1847 drukknaði Símon bóndi Jónsson í Norður-Garði með skipshöfn sinni í landferð. Fórst skipið í lendingu við Landeyjasand og drukknuðu 4 karlmenn og 2 konur. Þær voru Ragnhildur Jónsdóttir (Draumbæ) í Draumbæ og Guðríður Þorleifsdóttir. – Í marz 1852 drukknuðu hér 4 menn. — 1857 drukknuðu 2 menn. 6. febr. 1857 fórst skip, er lagði út frá Dyrhólaey í Mýrdal og ætlaði til eyja. Drukknuðu þar 19 manns. — 1858 drukknuðu tveir menn af smáferju skammt fyrir utan Klettsnef. — Bátur fórst 1859 héðan með 12—13 manns, flestum undan Eyjafjöllum. — 1861 tók mann út af skipi. — 1863 fórst þilskipið Hansína. Formaður Sæmundur Ólafsson (Stakkagerði) við 7. mann. Þann 17. júní sama ár fórust þrír menn af báti við Elliðaey. Formaður Helgi Jónsson frá Kornhól. — Í apríl 1867 fórst þilskipið Helga. Form. Magnús Oddsson lóðs frá Kirkjubæ við 6. mann. — 22. febr. 1869 fórst sexæringurinn Blíður með allri áhöfn, formaður Eiríkur Hansson bóndi á Gjábakka, á Breka milli Bjarnareyjar og Elliðaeyjar, í Útilegunni svokallaðri, er lengi var í minnum höfð. Komust skip þá ekki að landi fyrir norðvestan fárviðri og lágu lengi undir Bjarnarey í hörku frosti. Var mjög af mörgum dregið, er menn loks náðu landi, og tveir menn höfðu dáið, meðan legið var, úr kulda og vosbúð, gamall maður og unglingspiltur. — 13. marz 1874 fórst sexæringurinn Gaukur suður af Klettsnefi með 7 mönnum. — 10. apríl 1876 sigldi frönsk skúta á þilskipið Olgu frá Vestmannaeyjum, skipshöfnin bjargaðist. — 5. apríl 1881 drukknuðu 3 menn af bát austan undir Yztakletti. — 16. júní 1883 drukknuðu 3 menn af fiskiferju, er fannst á floti vestur af Stórhöfða. Var einn maður örendur í ferjunni, er var keypafull af sjó, og færi öll úti. Ætluðu menn, að illhveli hefði grandað skipinu. Formaður var Bjarni bóndi Ólafsson í Svaðkoti. — 12. jan. 1887 fórst bátur með 4 mönnum út undir Bjarnarey. Formaður var Jósef Valdason þilskipaskipstjóri.³⁷) — Í aprílmánuði 1888 fórst þilskipið Jósefína með 9 manna áhöfn. Formaður var Páll Bjarnason. — Á vertíð 1891 hvolfdi skipinu Blíðu við Klettsnef, og drukknaði þar einn maður, en öllum hinum var bjargað af öðrum bát. — 9. febr. 1895 drukknaði hér merkisbóndinn Lárus Jónsson hreppstjóri á Búastóðum, við annan mann. — 1893 fórst áttæringur frá Vestmannaeyjum, landskip, í útróðri með allri áhöfn. Formaður var Jón Brandsson, merkisbóndi í Hallgeirsey, og skipverjar úr Landeyjum. — 1896 drukknaði Guðjón Jónsson sýslunefndarmaður í Sjólyst.
Eins og áður segir urðu oft slys í ferðum milli lands og eyja. Stærsta þess konar slys, sem vitað er um í seinni tíð, varð á uppstigningardag 1901, er bátur undan Eyjafjöllum, Fjallaskip, fórst í eyjaferð með 27 manns, 21 karlmanni og 6 konum, skammt austur frá eyjum, nálægt Klettsnefi. Komst 1 maður af af 28, er á skipinu voru. Formaður var Björn Sigurðsson frá Skarðshlíð.
Lík manna, er drukkna við Vestmannaeyjar, reka mjög sjaldan þar á land, en það kemur fyrir, að lík sjódrukknaðra manna, er farizt hafa jafnvel fast uppi í landsteinum í eyjunum, rekur við Landeyja- eða Fjallasand.³⁸) Í Vestmannaeyjum eimdi eftir af hinum æfagamla sið hér á landi og trú á því, að hani vísaði á lík í sjó. Var því trúað, að haninn galaði þar, sem líkið lægi undir. Mun hafa tíðkazt í Vestmannaeyjum að „fara með hana“ og það fram yfir aldamótin síðustu, þótt að litlu gagni hafi komið. Mun síðast hafa verið róið með hana hér til þess að leita að líkum árið 1910.³⁹)
Eins og áður segir hafði verið horfið að því í Vestmannaeyjum, áður en björgunarstarfsemi á skipum var tekin upp hér á landi, að hafa bát í hrófum milli vertíða, búinn öllum vergögnum, sem hægt væri að grípa til, ef slys bæri að höndum. Eyjamenn voru og stöðugt reiðubúnir til að veita hver öðrum hjálp og liðsinni í nauðum á sjó, og yrði það langt mál, ef skrá skyldi allt hið mikla og fórnfúsa starf, sem þar hefir verið unnið og sem jafnvel hefir kostað suma hjálpendur lífið. Útlend skip veittu og hér hina mestu hjálp, franskar fiskiskútur og í seinni tíð þýzkir og einkum enskir togarar, og hefir hér mörgum mannslífum verið bjargað á þennan hátt. Á vertíð 1883 bjargaði frönsk fiskiskúta skipshöfn úr Þorlákshöfn og flutti til Vestmannaeyja.
Miklir skipaskaðar urðu og í Vestmannaeyjum á 2. og 3. tug 20. aldarinnar, eftir að vélbátaútgerðin hafði rutt sér til rúms. Var enn meiri harðsókn beitt á vélbátunum, svo að sjóferðir urðu oft hættulegri á þeim en á opnu bátunum.

Páll Oddgeirsson kaupm. og útgm. og kona hans Matthildur Ísleifsdóttir (d. 1945).

Fer hér á eftir skýrsla um bátaslys í eyjunum frá 1908—1942.
Árið 1908, á öðru árinu frá því að vélbátaútgerð hófst, fórust 4 vélbátar í eyjunum, og drukknaði öll skipshöfnin af einum þeirra, en hinum skipshöfnunum björguðu togarar, utan einum manni, er fórst. — 1909 fórust 3 vélbátar, mannbjörg varð af tveimur, en 2 menn fórust af hinum þriðja. — 1910 fórst einn vélbátur og drukknaði 1 maður. — 1912 fórst öll áhöfnin, 6 menn, af vélbát í byrjun vertíðar. Sami bátur fórst með allri áhöfn í apríl s.á. Sama árið fórst róðrarbátur með 4 mönnum, og 1 mann tók út af vélbát. — 1914 fórst vélbátur með áhöfn. Sama ár féll maður út af vélbát og drukknaði. — 1915 fórst vélbátur með áhöfn. — 1916 fórust 2 vélbátar með allri áhöfn. Sama ár féll maður út af vélbát og drukknaði. Sama ár drukknaði Guðmundur Þórarinsson í Vesturhúsum við fjárflutning í Álfsey.⁴⁰) — 1917 drukknaði 1 maður í höfninni. — 1918 fórust 2 vélbátar með allri áhöfn. Sama ár fórust 2 menn héðan með saltflutningaskipi á leið frá Spáni. — 1919 féll maður út af vélbát og drukknaði. — 1920 fórust 2 vélbátar með allri áhöfn. Sama ár drukknuðu og 3 menn aðrir. — 1922 féll maður út af vélbát og drukknaði. — 1923 fórst vélbátur með allri áhöfn. — 1924 fórst vélbátur, en áhöfninni var bjargað af enskum togara. Sama ár drukknuðu 2 menn af vélbát við heyflutning, og einnig maður héðan í lendingu við Þykkvabæjarsand. 16. des. s.á. drukknuðu 8 menn á leið út í skipið Gullfoss, þar á meðal héraðslæknirinn Halldór Gunnlaugsson, er var í embættiserindum, — þeim níunda var bjargað. — 1925 féll maður út af vélbát. — 1926 fórst vélbátur með allri áhöfn. Sama ár drukknuðu 6 menn af enskum togara við eyjar. — 1927 fórst vélbátur með allri áhöfn. Sama ár féll maður út af vélbát. S.á. rak vélbát héðan upp í Landeyjasand og drukknuðu 2 menn, en 3 meiddust. — 1928 fórst vélbátur, en áhöfnin bjargaðist í land upp hamra. Sama ár féllu 4 menn út af vélbátum, 1. marz, 8. marz og 4. maí, og drukknuðu allir. Sama ár drukknaði kona úr eyjunum við Fjallasand. — 1929 drukknuðu héðan 2 menn, annar í fjárflutningaferð við Eyjafjallasand. — 1930 fórst vélbátur með allri áhöfn. Sama ár fórst og annar vélbátur, en menn björguðust nema einn. Sama ár drukknuðu og 2 menn innan hafnar. — 1931 hrökk maður útbyrðis af vélbát og drukknaði. — 1934 drukknaði maður við bryggju. — 1935 drukknaði maður á leið til eyja frá Reykjavík. — 1937 drukknaði maður við bryggju. — 1939 fannst maður dauður við Eiðið. Sama ár fórust 2 menn héðan með norsku flutningaskipi. — 1940 fórst maður af vélbát. — Í ársbyrjun 1941 fórust 2 menn af vélbát á höfninni. Sama ár fórst vélbátur, er enskur togari sigldi á. Drukknaði 1 maður af vélbátnum. Sama ár drukknaði maður af vélbát í fiskiróðri. — 1. marz 1942 fórust héðan 2 vélbátar í fiskiróðri með allri áhöfn, 9 manns. Sama ár fórst maður héðan á flutningaskipi norðan eða austan lands. — 2. febr. 1943 fórust 2 vélbátar með allri áhöfn, 9 manns. — S. ár drukknaði maður af vélbát og maður héðan drukknaði í höfninni í Fleetwood.⁴¹) Ekknasjóð til styrktar ekkjum drukknaðra og hrapaðra manna stofnuðu Vestmannaeyingar 1891. Ekknasjóður Vestmannaeyja á eignir fyrir tæplega 30,000 krónur. Kapellu til minningar um sjódrukknaða menn, og þar sem skrásett eru nöfn þeirra, er í ráði að reisa fyrir samskotafé.⁴²)

Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
1) Hafnarlög Vestmannaeyja frá 10. nóv. 1913, með viðaukum 1927— 1929, 1930 og 1932. Hafnarreglug. 11. des. 1920, 30. ág. 1926, sbr. breytingar 1927, 1934 og seinni.
2) Bréf um siglingar, Isl. Jordekasseregnsk. 1773—1778, Þjóðskj.s.
3) Uppdráttur 1840, sbr. bréf stiftamtm. Bardenfleths 14. febr. s.á., Þjóðskj.s. Sjá og séra Jón Austmann: Útskýringartilraun yfir Vestmannaeyjar, 17. júlí 1843, Lbs. 44, fol.
4) Vesturhlið Básaskersbryggjunnar er 150 metrar á lengd, austurhlið 97 metrar, breiddin 60 metrar. Austan við bryggjuna er um 35 metra langur hafnarbakki. Vesturhluti bryggjunnar og um 12 metra breidd af bryggjuendanum var gert á árunum 1929, 1931 og 1933. Dýpi við bryggjuna um fjöru 5 metrar þar, sem mest er, en 2,5 metrar við hafnarbakkann.
5) Sýsluskjöl V.E., Nýja dagbl. 16. tbl., 1937, ritið Bátaábyrgðarfél. Vestmannaeyja 1862—1937.
6) Sjá ritið Björgunarfélag Vestmannaeyja, 10 ára starf, 1931.
7) Fyrsti vitavörður var Guðmundur Ögmundsson.
8) Síðari samþykktir 22. nóv. 1929, 4. apríl 1933 og 3. febr. 1939 (Stj.t. Ísl. B.).
9) Annálar 1400—1800, bls. 302.
10) Skýrslur um Kötlugos,, Safn t.s.Ísl. IV, 223, 229, 234, 244.
11) Fræg er áminningarræða séra Högna Stefánssonar, er var aðstoðarprestur í Kirkjubæ hjá séra Bjarnhéðni, er hann hélt í Landakirkju til tveggja formanna fyrir ofdirfsku þeirra í sjósókn og fyrir helgidagabrot. Ræða þessi er ennþá til.
12) Ísl. annálar 102, 121—122, Sturlunga III, 159, sbr. Ísl. árt.skrár 64.
13) Biskupas. I, 548.
14) Isl. Annaler, udg. 1888, II.
15) Isl. Annaler V.
16) Drengir heita tvö strýtumynduð sker austan undir Yztakletti. Brim hefir fyrir nokkru unnið á að sverfa ofan aðra strýtuna. Við Drengi heitir Drengjabót.
17) Biskupas. I, 307, 308, og II, 119. — Guðmundur biskup góði kemur og hér við sögu. Það bar til, að maður setti í lúðu eða flyðru, en sú er náttúra, að ef lúðan tekur í dráttinn, dugar eigi að þreyta við hana og skal gefa liðugt henni til rásar, svo oft sem fiskurinn beiðir, og mæðist hún þá og verður dregin að síðustu. En fátækur fiskimaður í eyjunum gáði þessa eigi, hét á Guðmund góða, og tveim nóttum síðar dró annar sjómaður flyðruna og var færi hins fátæka manns þar heilt og hlaðið, en þrjár vikur sjávar voru í milli staðanna, er færið fannst og tapaðist. (Biskupas. II, 179—180.)
18) Regnskaber for Vespenoe. — Samkvæmt bátaskránni yfir konungsbátana er nefndur Nýi Engill 1586. Hefir þessi bátur komið í stað bátsins Engill, er farizt hefir. Sést að algengast hefir verið við endurnýjun á bátunum, að láta nýja bátinn bera nafn hins gamla, er týnzt hefir, og bæta við „Nýi“. Nýi Davíð er 1599 kominn í stað bátsins Davíð, er var á skránni 1586. Nýi Salómon er 1599 talinn tveggja ára og kominn í stað bátsins Salómon, er talinn er á skrá 1586, og þannig mætti telja fleiri.
19) Annálar 1400—1800, Skarðsárannáll, 210, 230, 236.
20) Bréfabók Gísla Oddssonar biskups, Annálar 1400—1800, Fitjaannáll, Skarðsárannáll.
21) Annálar II, Fitjaannáll, 152.
22) Seiluannáll, Fitjaannáll 171, Vallholtsannáll 310, Fitjaannáll 178.
23) Þar drukknaði Páll Björnsson bróðursonur Brynjólfs biskups Sveinssonar (H.Þ.: Lærðra manna tal).
24) Annálar II, Hestsannáll.
25) Annálar I og II, Vallaannáll, Mælifellsannáll, Kjósarannáll og Hestsannáll, 470, 523, 402, 564.
26) Annálar II, 338.
27) Árb. Espólíns VIII, 85.
28) Árb. Espólíns VIII, 121. — Áttæringurinn var eign Brynjólfs Thorlaciusar á Hlíðarenda (Smæf. IV).
29) Árb. Espólíns VIII, 135. — Var annað það tjón eignað mannavöldum og járnaður húskarl Nikulásar Magnússonar sýslumanns í Rangárvallasýslu.
30) Árb. Espólíns X, 1.
31) Árb. Espólíns X, 18.
32) Sjá kvæði séra Guðmundar Högnasonar í Kirkjubæ, J.S. 30, 4to. Sjá og Ministerialb. V.E. frá lokum 18. aldar.
33) Árb. Espólíns X, 71.
34) Prestsþj.b. V.E., Þjóðskj.s.
35) Annáll 19. aldar, safnað hefir séra Pétur Guðmundsson í Grímsey.
36) 1809 brann upp enskt skip við Vestmannaeyjar (Annáll 19. aldar).
37) Jósef Valdason var kvæntur Guðrúnu Þorkelsdóttur. Voru þeirra synir: 1) Guðjón, búsettur í Vestmannaeyjum, látinn. 2) Gísli, fór til Ameríku, látinn. 3) Jóhann Þorkell konsúll og alþingismaður í Vestmannaeyjum. — Jósef Valdason var talinn með siglingafróðustu mönnum í eyjum á sínum tíma, greindur maður vel og í ýmsu á undan sinni samtíð.
38) Þannig hrapaði maður einn í Dufþekju norðan í Heimakletti 1858 og rak lík hans skömmu seinna á Krossfjöru í Landeyjum (Sýsluskjöl Vestmannaeyja). Lík manns, er drukknaði af vélbát við Urðir í Vestmannaeyjum, rak á land undir Eyjafjöllum.
39) Það er í frásögur fært, að þegar Sigurður Oddsson biskups Einarssonar drukknaði í Hvítá 1617, fannst lík hans með þeim hætti, að leitað var að því á skipi og hafður hani með (Fitjaannáll).
40) Guðmundur var hinn mesti merkisbóndi og sönn sveitarstoð. Sjá æfiatriði hans í Óðni 1918, 6. tbl.
41) Rit Páls Bjarnasonar um Björgunarfélag Vestmannaeyja, 10 ára starf, 1931; Prestsþjónustubók Vestmannaeyja; Mannskaðabók Vestmannaeyjakaupstaðar; einnig safnað víðsvegar að.
42) Forgöngu þess máls hefir Páll kaupmaður Oddgeirsson.

Til baka


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit