Jón Jónsson (Brautarholti)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Jón í Brautarholti
Jón níræður

Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið nafnið „Jón Jónsson“


Jón Jónsson í Brautarholti fæddist 15. júlí 1869 í Norðurbænum á Vilborgarstöðum og lést 4. september 1964. Jón fluttist með foreldrum sínum að Dölum árið 1880.
Foreldrar hans voru hjónin Jón Jónsson hreppsjóri í Dölum og kona hans Jóhanna Gunnsteinsdóttir. Eina systur átti hann, Dómhildi, en hún flutti ung til Ameríku.

Eiginkona Jóns var Guðríður Bjarnadóttir í Svaðkoti, f. 1875. Þau eignuðust 5 börn, Bjarna f. 1896, dó ungur, Jónu Jóhönnu, f. 1899, dó í Canada, Bjarneyju Ragnheiði f. 1905 í Canada, Jónu Jóhönnu f. 1907, d. 2005 og Ólaf Gunnstein f. 1911, d. 1984.

Jón og Guðríður hófu búskap í Svaðkoti hjá móður Guðríðar, en byggðu síðan nýtt Svaðkot á svipuðum stað og Suðurgarður stendur núna. Þetta var lítið einlyft hús.

Jón og Guðríður fluttu til Kanada um aldamótin og bjuggu í Selkirk. Þau fluttu aftur heim árið 1907 og byggðu Brautarholt við Landagötu 3b árið 1908.

Jón stundaði sjómennsku, þar af 13 ár á Gideon, gerði út báta, vann við byggingu Fiskimjölsverksmiðjunnar og vann þar síðan til ársins 1933, en gerðist þá ráðsmaður á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja í fjölda ára.

Jón var heiðursfélagi í Bjargveiðifélagi Álseyinga. Hann hélt upp á áttræðisafmæli sitt í Álsey. Veiðistaður einn í eynni er nefndur eftir honum, heitir hann Jónsnef.

Jón lést árið 1964, 93 ára að aldri.

Sjá nánar um Jón við fiskveiðar á Austfjörðum með Magnúsi á Vesturhúsum, - í Bliki 1969/Endurminningar, II. hluti og áfram.

Myndir