Blik 1967/Söngfélagið Vestmannakór

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit Bliks 1967ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


IV. Brynjólfur Sigfússon organisti og söngstjóri


Þessi grein birtist í greininni um Brynjólf Sigfússon organista og söngstjóra í Blik 1967.


Söngfélagið Vestmannakór


Þriðjudaginn 4. maí 1937 komu fjórir kunningjar Brynjólfs Sigfússonar, og samstarfsmenn og félagar í söngkór hans, heim til hans í því skyni að undirbúa stofnun nýs söngfélags, sem skyldi verða arftaki þess kórs, er söngstjórinn hafði stjórnað um tugi ára og borið hafði nafnið Vestmannakór síðan árið 1925. Þessir söngfélagar Brynjólfs Sigfússonar voru þeir Ragnar Benediktsson frá Borgareyri í Mjóafirði eystra, Sigurður Bogason frá Búðardal, Sigmundur Einarsson frá Drumboddsstöðum og Þorsteinn Sigurðsson frá Melstað í Eyjum. Allt voru þetta gamlir samstarfsmenn og söngfélagar söngstjórans, vinir hans og velunnarar og skilningsríkir á gildi hins mikla hugsjóna- og fórnarstarf, - hugsjóna- og listamanninum ómetanleg stoð og hjálparhella.
Þessir fimm-menningar sömdu þarna á heimili söngstjórans uppkast að lögum fyrir kórinn. Þar var að sjálfsögðu byggt á reynslu söngstjórans sjálfs, sem þá undanfarin 30 ár hafði stjórnað almennum söngkór í Vestmannaeyjum. Að sjálfsögðu voru einnig höfð til hliðsjónar lög sumra hinna merkustu söngkóra í landinu.
Fimmtudaginn 20. maí 1937 var stofnfundur hins „nýja söngfélags“ haldinn í húsi K.F.U.M og K. við Vestmannabraut. Þeir, sem sátu þann fund, voru taldir stofnendur Vestmannakórs hins nýja. Auðvitað var hér aðeins byggt á gömlum, traustum grunni og efniviðirnir kunnir og þekktir, traustir og tryggir.

Á stofnfundi Vestmannakórs flutti söngstjórinn þessa ræðu, sem er á ýmsan hátt athyglisverð og söguleg heimild um hið merka starf hans í þágu söng- og tónlistar í bænum undanfarin 30 ár. Söngstjóranum mæltist þannig:

„Mér hefur verið falið að vera hér málshefjandi í kvöld. Í raun og veru þarf ég því að halda ræðu yfir ykkur, góða ræðu í góðum tilgangi, sem hefur góð og varanleg áhrif á ykkur.
En sá er gallinn á, að ég er því lítt vaxinn, hefi aldrei tamið mér ræðuflutning. Þess vegna verðið þið að taka viljann fyrir verkið.
Hér hefi ég skrifað hjá mér það helzta, sem mér finnst ég þurfa að segja ykkur. Það stóð til í haust að kalla ykkur saman á fund, en þá reyndist húsnæði hér til funda, og þó sérstaklega æfinga, hvergi fáanlegt vegna niðurrifs gamla Goodtemplarahússins. Þetta hús, K.F.U.M. og K., var þess vegna alltaf upptekið. Eitt hið helzta skilyrði þess, að söngfélag geti starfað, er það, að það hafi ákveðið húsnæði til afnota, hentugt húsnæði, og þurfi því ekki að hrökklast stað úr stað.
Þá skal fyrst á það minnzt, að ég hefi stöku sinnum verið að kalla ykkur til söngæfinga á undanförnum árum. Tilefni hafa venjulega verið hátíðahöldin 17. júní, 19. júní og 1. desember, að ógleymdri Þjóðhátíð Vestmannaeyinga ár hvert. Æfingar höfum við þá haft 5-10 sinnum fyrir hver hátíðahö1d. Svo höfum við hætt, lagt starfið á hilluna eftir hvert tilefnið, þegar við höfum náð lítilsháttar votti af samæfingu og samhreim í sönginn. Starfið hefur sem sé til þessa verið reglulaust, því að söngflokknum hefur aldrei verið sett lög eða starfsreglur, enda aldrei haft neitt ákveðið markmið annað en það að fylla upp í skemmtiskrár fyrir aðra, - unnið fyrir aðra.
Nú hafa komið fram raddir frá ýmsum ykkar að starfa meir og betur en áður. Sérstaklega létu þessar raddir til sín heyra eftir þjóðhátíðina í fyrra sumar. Þess vegna skrifaði ég Salomoni Heiðar, formanni Sambands íslenzkra karlakóra, á s.l. hausti og spurðist fyrir um það, hvort blandaðir kórar væru teknir inn í sambandið.
Vissulega hefur það kostnað í för með sér að vera í Kórasambandinu, en ég álít, að ekki sé horfandi í þann kostnað, því að ég efast ekki um, að það mundi margborga sig. Þess vegna tel ég sjálfsagt, ef kostur er á því, að kórinn okkar sé í þeim samtökum.
Það fyrsta, sem vakir fyrir mér, er að fá okkur söngkennara, - kennara til að þjálfa raddirnar. Það er einkum það atriði málsins, sem hefur verið mesta hjálp Karlakórsins hér. S.H. segir það undravert, hversu mikið kennaranum Sigurði Birkis hafi orðið ágengt í þessum efnum úti um land. Söngfólkið lærir að beita röddinni rétt, lagfæra, auka og fegra o.s.frv. Hver og einn, sem eitthvað ber úr býtum við kennslu þessa, fær aukið sjálfstraust, meira álit á sjálfum sér og þorir fremur að koma fram. Fyrir söngstjórann getur þetta orðið ómetanleg hjálp, náist góður árangur.
En til þess að allt þetta megi takast, þarf að mynda félagsskap á venjulegum grundvelli með lögum, - góðum lögum. Að því búnu þarf að sækja um inngöngu í S.Í.K. Svo þarf að fá kennarann á hentugum tíma. Umsókn um inntöku þarf helzt að senda bráðlega til þess að hún berist nógu snemma fyrir aðalfund S.Í.K.
Vegna alls þessa, sem ég hefi nú drepið á, höfum við, sem stöndum að fundarboði þessu, samið uppkast að lögum fyrir þetta væntanlega söngfélag okkar, ef þið getið aðhyllzt þá stofnun. Til hliðsjónar lagauppkasti þessu höfum við haft bæði lög Karlakórs Reykjavíkur og Söngfélagsins Heimis. Við höfum eiginlega tekið upp orðréttar sumar greinar í lögum þessara söngfélaga og lög þeirra eru byggð á reynslu.
Því er ekki að leyna, að félagsskapurinn hefur kostnað í för með sér, t.d. inntökugjald og ársgjald. En það yrði ekkert nýtt í þessu félagi. Öll félög verða að leggja slík gjöld á félaga sína.
En svo er hin hliðin á málinu, - sú, að gerast félagi, - góður félagi, - sem vill offra sér fyrir málefnið, - listina. Hún er veigameiri,- skiptir mestu máli. Þar dugir engin hálfvelgja hjá félagsmanni. Annaðhvort er að vera eða vera ekki. Ennfremur er ein hliðin enn á máli þessu og hún er sú að vanda val á félagsmönnum. Það er veigamikið atriði. Og þó að þið, sem við höfum kvatt hingað til okkar í kvöld, viljið öll vera með í nýja söngfélaginu okkar, þá þarf samt að auka félagatöluna, einkum þurfum við fleiri góðar kvenraddir og 2-3 tenóra. Flokkurinn má ekki vera minni en 40 manns. Þá viðbót væri bezt að fá strax, ef tök væru á því. Að öðru jöfnu kysi ég þó heldur þá, sem vinna í landi en á sjónum, sökum fjarveru þeirra síðarnefndu eða bindingar við sjósóknina.
Þið vitið það öll, að ykkur er meira og minna ábótavant hvað sönginn snertir og raddir ykkar þurfa lagfæringar við. Þeirrar endurbótar og lagfæringar þyrfti ég sjálfur ekki síður með. Reynslan sannar okkur það, að jafnvel lélegir söngkraftar geta með æfingum og ástundun, góðum vilja, náð merkilega góðum árangri, ef söngurinn er hreinn, sem er alltaf fyrsta og sjálfsagðasta skilyrðið.
Ég hefi fengið margar og ítrekaðar áskoranir að stofna hér karlakór, en ég hefi hummað það fram af mér. Ástæðurnar fyrir því eru aðallega þær, að fyrsti kór minn var karlakór með nálega 20 mönnum. Með þeim æfði ég 5 ár í röð, og við héldum samsöngva fleirum sinnum. En ég var þá alltaf óánægður með árangurinn, sem stafaði af því, hversu fyrsti tenór var lélegur. Þá var líka alltaf verið að skora á mig að æfa heldur blandaðan kór. Og ég lét tilleiðast. Síðan hefi ég alltaf hallazt að blönduðum kór, eins og þið vitið. Um eitt skeið voru rúmlega 40 manns í kórnum. Og stöku sinnum héldum við samsöngva, alltaf vel sótta, og var þeim vel tekið. Jafnvel þó að mér stæði til boða að stjórna hér sæmilega völdum karlakór, þá vil ég þó heldur, að svo komnu máli reyna að hressa upp á blandaða kórinn okkar, ef þátttakan yrði góð og nægileg. Svo er ég orðinn honum svo vanur. Og vegna þeirrar karlakóraöldu, sem nú fer um landið, vil ég heldur hlúa að blönduðum kór. Einhliða kórar skapa of einhliða söngmennt, finnst mér. Báðir hafa auðvitað sína kosti. Og báðir eiga að lifa, blómgast og dafna.
Nú sem stendur eru aðallega tveir blandaðir kórar í landinu, sem eitthvað ber á, sem sé Heimir í Reykjavík og Kantötukór Akureyrar. Og svo erum við eins og peð á sama lista, af því að við höfum ekki staðið nógu oft og þétt saman. Hinir hafa aftur á mót æft, - æft af kappi, og stefnt að vissu marki og náð góðum árangri.
Sennilega er ætlan S.Í.K. sú, með því að taka blandaða kóra inn í Sambandið, að báðar tegundir kóranna komi saman - til leika í framtíðinni, - ýmist með fjórðungsmótum eða landsmótum. Þannig skilst mér það hugsað í bréfinu frá formanni S.Í.K.
Ef við stofnum nú hér á þessum fundi nýjan kór, þá er m.a. einn bagalegur galli á mér sjálfum sem söngstjóra. Gallinn er sá, að heilsan er aldrei góð, - oft blátt áfram slæm, þó að ég að vísu liggi sjaldan rúmfastur. En þrátt fyrir það vil ég leggja mína krafta fram eftir því sem þeir frekast leyfa. Hingað til hefur mest öll fyrirhöfnin við að halda uppi kórnum legið á mínum herðum t.d. að útvega hús til æfinga, kalla ykkur saman o.s.frv. Með myndun félags ætti fyrirhöfnin að dreifast á ýmsa félaga samkvæmt lögunum. Það hafa líka verið mér þrautir, að þurfa oft að bíða eftir söngfólkinu, jafnvel allt að hálftíma, því að ég mæti alltaf stundvíslega.
Þegar æfingar hafa gengið miður hjá okkur, hefur það oft leið áhrif á mig. En gangi þær aftur á móti sæmilega eða vel, þá geta þær haft svo góð áhrif á mig, á heilsu mína, að ég verð sem allt annar maður. Það er eitur í mínum beinum að finna áhugaleysi eða hálfvelgju í starfi hjá einhverjum söngfélaganna eða flokksmanni.
Eins og þið hafið heyrt á því, sem ég hefi sagt, þá á markmiðið að vera meira og hærra en áður, eins og líka kemur berlega fram í uppkasti því að lögum, sem hér liggur fyrir, t.d. að syngja á fjórðungsmótum og landsmótum, halda samsöngva hér og ef til vill annars staðar, ef ástæður þykja til.
Þegar ég í fyrsta skiptið kom í konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn, varð mér starsýnt á 4 orð, sem stóðu skráð yfir leiksviðinu. Þau voru þessi: „Ej blot til Lyst“, það þýðir: Ekki aðeins til skemmtunar.
Mér skildist það svo, að jafnframt skemmtuninni ætti maður líka að læra af því, sem fram fer á leiksviðinu. Og það er auðvitað bæði gaman og alvara, sem þar er sýnt og fram fer. Eins er því háttað með söngstarfið. Það má gjarnan vera til skemmtunar og ánægju, en jafnhliða verður það líka að búa yfir eða veita lærdóm og alvöru, - já, miðla lærdómi og menntun.“


Stofnendur Vestmannakórs voru:


 1. Brynjólfur Sigfússon, söngstjóri og organisti.
 2. Bergþóra Árnadóttir, frá Litlu Grund.
 3. Alda Björnsdóttir frá Kirkjulandi.
 4. Guðríður Haraldsdóttir frá Garðshorni.
 5. Guðrún Loftsdóttir frá Vilborgarstöðum.
 6. Jóhanna Ágústsdóttir frá Kiðjabergi.
 7. Margrét Gestsdóttir, kona Sigmundar Einarssonar (nr. 27).
 8. Margrét Jónsdóttir Johnsen frá Suðurgarði.
 9. Theódóra Ólafsdóttir, Hvítingavegi. (leiðr.)
 10. Ingveldur Þórarinsdóttir.
 11. Njála Guðjónsdóttir frá Oddsstöðum.
 12. Guðrún Ágústsdóttir frá Kiðjabergi.
 13. Ása Torfadóttir frá Áshól.
 14. Ásta Guðmundsdóttir frá Heiðardal.
 15. Elín Loftsdóttir, Kirkjuvegi 27.
 16. Ingrid Sigfússon, kona söngstjórans.
 17. Júlíus Þórarinsson.
 18. Kjartan Jónsson frá Búastöðum.
 19. Þorgils Þorgilsson, verzlunarmaður.
 20. Sigurður Sæmundsson frá Hallormsstað.
 21. Hannes Hreinsson frá Hæli.
 22. Ármann Guðmundsson frá Viðey.
 23. Ingólfur Guðmundsson frá Hábæ.
 24. Vilhjálmur Jónsson rafstöðvarstjóri.
 25. Ragnar Benediktsson.
 26. Sigurður Bogason.
 27. Sigmundur Einarsson.
 28. Þorsteinn Sigurðsson.

Allir stofnendur búsettir í Eyjum.

Lög fyrir Söngfélagið Vestmannakór í Vestmannaeyjum


1. gr.

Félagið heitir Vestmannakór.

2. gr.

Tilgangur félagsins er að æfa og efla söng í blönduðum kóri í Vestmannaeyjum og syngja opinberlega þar og jafnvel annars staðar, ef ástæður þykja til, þegar söngstjóra í samráði við stjórn félagsins þykir fært.

3. gr.

Í stjórn félagsins eru þrír menn, formaður, ritari og féhirðir, kosnir á aðalfundi til eins árs í senn. Formaður kveður til funda og stjórnar þeim. Féhirðir annast fjárreiður félagsins og sér um bókfærslu þess. Engan reikning má féhirðir greiða nema formaður samþykki. Ritari gegni venjulegum ritarastörfum, semur félagsskrá, ritar bréf-handrit og annað að nótum undanskildum. Starfsár félagsins skal telja frá 1. september (síðar breytt: 1. okt.) til 1. apríl og lengur, ef ástæður mæla með því.

4. gr.

Félagi getur hver sá orðið, sem hefur sönghæfileika, og að undangengnu söngprófi hlýtur meðmæli söngstjóra og tveggja eða fleiri dómara (innan eða utan félags) tilnefnda af söngstjóra. Innsækjandi starfi ekki í öðru söngfélagi eða söngflokki. Þetta skilyrði gildir einnig fyrir félaga, þó má stjórnin í samráði við söngstjóra veita undanþágu, ef sérstök ástæða er til. Sönghæfileikar skulu prófaðir, þegar söngstjóra þykir þess þörf, og framkvæmi hann þá prófun, en heimilt er honum að kjósa sér tvo félaga eða aðra til aðstoðar. - Nú fullnægir félagi ekki kröfum söngstjóra og aðstoðarmanna hans að afloknu prófi, skal hann þá færður til í aðalrödd, ef þess er kostur, en reynist hann óhæfur í hvaða rödd, sem er, skal honum tilkynnt, að hann teljist ekki lengur félagi. Úrskurðinn ber stjórninni að tilkynna.

5. gr.

Skylt er hverjum félaga að mæta stundvíslega á öllum boðuðum æfingum og samsöngvum. Geti félagi ekki mætt, er honum skylt að tilkynna forföll söngstjóra eða raddformanni. Lögleg forföll eru: Veikindi, fjarvera úr bænum og skyldustörf, sem ekki má fresta. Óheimilt skal félaga að fara burt af æfingu, nema með leyfi söngstjóra.

6. gr.

Mæti félagi ekki á þrem fyrirfram ákveðnum æfingum og tilkynni ekki lögleg forföll samkv. 5. grein, skal stjórninni skylt að senda honum skriflega áminningu, - en beri sú áminning engan árangur, skal stjórninni heimilt að víkja honum úr félaginu. Heimild þessi nær einnig til þess, ef félagi hvað eftir annað mætir ekki nema á annarri og þriðju hverri æfingu. Sama gildir, komi félagi ekki fram með fullri prúðmennsku, hvort heldur er á æfingum, samsöngvum, eða ef hann á annan hátt verður til þess að spilla áliti félagsins eða vekja þar sundrung. Geti félagi ekki sótt æfingar meiri hluta starfsársins skal stjórninni heimilt að víkja honum úr félaginu.

7. gr.

Hver rödd kýs sér á aðalfundi raddformann fyrir árið. Raddformenn halda skrá yfir meðlimi hverrar raddar og hvernig mætt er.

8. gr.

Söngstjóri ákveður viðfangsefni félagsins í samráði við stjórnina (síðar breytt: söngmálanefnd). Hann kveður á um æfingar og tilkynnir þær raddformönnum, en þeir tilkynna hver sinni rödd. Söngstjóri hafi jafnan aðgang að fundum stjórnarinnar.

9. gr.

Aðalfund skal halda fyrri hluta september (síðar: október-) mánaðar ár hvert. Skulu þá lagðir fram reikningar félagsins endurskoðaðir, kosin stjórn, varastjórn, endurskoðendur og varaendurskoðendur. Formann, varaformann, meðstjórnendur og varameðstjórnendur ber að kjósa sinn í hvoru lagi leynilegri kosningu. Kosning formanns skal því aðeins teljast gild, að hann hljóti meiri hluta atkvæða fundarins. Aðalfundur er lögmætur, þegar tveir þriðju hlutar félagsmanna eru mættir, og ræður afl atkvæða úrslitum. Verði fundur ekki lögmætur, skal stjórnin boða til fundar á ný. Skal sá fundur teljast lögmætur, hversu fáir sem mæta, enda skal þess getið í síðara fundarboðinu. Stjórnin skal boða til aðalfundar skriflega með viku fyrirvara.

10. gr.

Aukafundi skal halda, þá er stjórnin telur þess þörf eða ef einn þriðji hluti félagsmanna óskar þess.

11. gr.

Inntökugjald í félagið er kr. 5,00 - fimm krónur -. Árstillag í félagið er kr. 5,00 (síðar breytt: kr. 3,00), og fellur það í gjalddaga 1. september (síðar breytt: 1. okt.) ár hvert.

12. gr.

Allur nettó-ágóði af tekjum félagsins skal renna í félagssjóð.

13. gr.

Komi til þess að slíta þurfi félaginu, skulu 3/4 starfandi félaga samþykkja það, og skal sá fundur einnig ráðstafa eignum félagsins og skuldum, ef nokkrar eru.

14. gr.

Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi félagsins.

15. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.


Fyrstu stjórn Söngfélagsins Vestmannakórs skipuðu þessir menn:

Formaður: Ragnar Benediktsson frá Borgareyri í Mjóafirði eystra.
Gjaldkeri: Sigmundur Einarsson.
Ritari: Sigurður Bogason frá Búðardal.
Varastjórn í sömu röð:
Þorsteinn Sigurðsson frá Melstað (Faxastíg 8B).
Kjartan Jónsson.
Ingólfur Guðmundsson.

Um þessar mundir var í undirbúningi stofnun Landssambands blandaðra kóra. Hvatningarorð þeirra, er þar fóru í fararbroddi, höfðu leitt af sér fast skipulag á tilveru og starfi Söngfélagsins Vestmannakórs. Á stofnfundi kórsins 20. maí var sú samþykkt gjörð að sækja um upptöku í samband blönduðu kóranna í landinu. Þannig varð Vestmannakór einn af 5 söngkórunum, sem taldir eru stofnendur Sambands blandaðra kóra. Vissu metnaðarmáli var fullnægt og það var ágætt. Aumur er sá einstaklingur, sem engan á sér metnaðinn. Sú tilfinning hefur mörgu góðu og gagnlegu til leiðar komið. Svo var hér.
Samkvæmt 7. gr. söngfélagslaganna skyldi hver raddflokkur kjósa sér á aðalfundi svokallaðan raddformann. Fyrstu raddformenn Vestmannakórsins voru þessir:

Sopran: Margrét Johnsen
Alt: Ingveldur Þórarinsdóttir
Tenór: Kjartan Jónsson
Bassi: Þorgils Þorgilsson

Síðar smám saman gerðist þetta fólk söngfélagar í Vestmannakór:

 1. Sveinn Ársælsson frá Fögrubrekku.
 2. Anna Þorsteinsdóttir frá Laufási.
 3. Lóa Ágústsdóttir frá Kiðjabergi.
 4. Margrét Eiríksdóttir.
 5. Laufey Eyvindsdóttir.
 6. Magnea Hannesdóttir frá Hæli.
 7. Gísli J. Árnason Johnsen
 8. Jóhann Ágústsson frá Kiðjabergi.
 9. Kristinn Friðriksson frá Látrum.
 10. Oddgeir Hjartarson, rafvirki.
 11. Ragnheiður Árnadóttir Sigfússonar.
 12. Sigurður Gissurarson.
 13. Ásta Sigurðardóttir frá Oddgeirshólum.
 14. Konráð Bjarnason úr Selvogi.
 15. Elísa Jónsdóttir frá Berjanesi við Faxastíg.
 16. Sigríður Steinsdóttir frá Múla.
 17. Sveinn Guðmundsson, Arnarstapa.
 18. Björn Sigurðsson frá Hallormsstað.
 19. Sigurbjörg Jónsdóttir frá Hlíð.
 20. Árni J. Johnsen frá Frydendal.
 21. Sesselja Einarsdóttir frá London.
 22. Torfhildur Sigurðardóttir frá Hallormsstað.
 23. Birna Björnsdóttir Guðjónssonar frá Kirkjubóli.
 24. Vigfús Jónsson járnsmiður frá Seljavöllum undir Eyjafjöllum.
 25. Anna Jónsdóttir frá Hólmi.
 26. Ágústa Helga Jónsdóttir.
 27. Fanney Ármannsdóttir frá Þorlaugargerði.
 28. Svanhvít Hjartardóttir frá Geithálsi.
 29. Kjartan Jónsson frá Seljavöllum undir Eyjafjöllum.
 30. Hermann Guðjónsson frá Ási í Ásahr. í Rang.
 31. Ragnhildur Eyjólfsdóttir.
 32. Freyja Kristófersdóttir Guðjónssonar frá Oddsstöðum.
 33. Guðrún Kristófersdóttir Guðjónssonar frá Oddsstöðum.
 34. Vilborg Guðjónsdóttir Guðjónssonar frá Oddsstöðum.
 35. Anna Jóhannesdóttir.
 36. Erlendur Jónsson, Ólafshúsum.
 37. Lárus Ársælsson frá Fögrubrekku.


Hér verða greindir stjórnendur Vestmannakórs frá 1937-1957. Það gefur auga leið, að þetta fólk hefur verið hin styrka stoð söngstjórans öll þau ár, sem kórinn starfaði, létt honum starfið á ýmsa lund, veitt honum þrek og hvatningu, eflt hann til dáða og dugs, svo sem góður og trúrækinn félagi getur verið öðrum, sem hann á samhug og samleið með.

Formenn:


Gjaldkerar:


Ritarar:


Brynjólfur Sigfússon organisti og söngstjóri, III. hluti, framhald Vestmannakórs.