Þorsteinn Víglundsson

From Heimaslóð
(Redirected from Þorsteinn Þ. Víglundsson)
Jump to navigation Jump to search
Þorsteinn Þ. Víglundsson.
Þorsteinn Þ. Víglundsson.

Þorsteinn Þórður Víglundsson fæddist 19. október árið 1899 að Melum í Mjóafirði og lést 3. september 1984. Foreldrar hans voru Jónína Guðrún Þorsteinsdóttir og Víglundur Þorgrímsson. Á barnsaldri var hann tekinn í fóstur að Hóli í Norðfirði til hjónanna Stefaníu Guðjónsdóttur og Vigfúsar Sigurðssonar. Eftir nám í Barnaskóla Norðfjarðar lá leiðin í Búnaðarskólann á Hvanneyri og varð hann búfræðingur, tvítugur að aldri. Þorsteinn stundaði nám í Noregi árin 1921-1923 í lýðháskóla nálægt Björgvin, Noregi og ári seinna lauk hann lokaprófi í nokkrum greinum í menntaskóla á Suður-Mæri. Eftir heimkomuna fór Þorsteinn í Kennaraskóla Íslands og tók hann lokapróf þar árið 1927. Strax um haustið 1927 flutti hann til Vestmannaeyja ásamt konu sinni, Ingigerði Jóhannsdóttur, en þá voru þau nýgift.

Þangað fór hann til þess að taka við stöðu skólastjóra Unglingaskóla Vestmannaeyja. Hann sinnti því starfi þar til árið 1963. Auk skólastjórnar sinnti Þorsteinn fjölmörgum störfum og áhugamálum þ.á.m. gaf hann út tímaritið Blik annað hvert ár í 44 ár, var virkur í Verkamannafélaginu Drífanda, safnaði ýmsum forn- og menningarmunum í Byggðasafn Vestmannaeyja, samdi norsk-íslenska orðabók, vann að stækkun Gagnfræðaskólans, var sparisjóðsstjóri og þannig mætti lengi telja. Á efri árum hlaut Þorsteinn heiðursborgaranafnbót í Vestmannaeyjum fyrir framlag sitt til menningarmála.

Unglingaskólinn

Ingigerður og Þorsteinn á tvítugsaldri.

Þorsteinn tók við stöðu skólastjóra Unglingaskólans í Vestmannaeyjum árið 1927. Skólinn var starfræktur í fimm mánuði á ári og voru aðeins níu nemendur skráðir í skólann nokkrum dögum fyrir skólasetningu en alls voru um 200 unglingar í Eyjum á þessum tíma. Þorsteinn kynnti fyrirhugaða starfsemi skólans fyrir félögum Verkamannafélagsins Drífanda og á fundi Bindindisstúkunnar Báru og tókst þannig að fjölga skráðum nemendum í 22. Innan skamms stóðu nemendur fyrir undirskriftasöfnun til að hvetja til að skólaárið yrði lengt um einn mánuð og var það samþykkt af bæjaryfirvöldum. Þorsteinn var snemma umdeildur enda aðkomumaður með ákveðnar skoðanir á menntamálum í Eyjum og áhugi yfirvalda jafnt sem almennings var takmarkaður líkt og tíðkaðist í mörgum sjávarplássum á þessum tíma. En þrátt fyrir mótbárur gekk skólastarfið vel frá upphafi. Nemendum fjölgaði stöðugt, félagsstarf var blómlegt og árið 1930 varð skólinn að Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja með lagabreytingu. Þorsteinn hélt stöðu sinni þrátt fyrir nokkra andstöðu í hans garð. Þrautseigja hans og metnaður bar árangur því fáeinum árum eftir að hann tók við stjórn skólans fengu nemendur í skólanum hæstu meðaleinkunn á landsprófi.








Þorsteinn ásamt nokkrum meyjum úr þriðja bekk 1950-1951.


Efri röð frá vinstri: Jóhanna Guðrún Sveinsdóttir frá Sléttaleiti í Borgarhafnarhreppi, A-Skaft., Jóhanna Stefánsdóttir, Höskuldssonar, frá Neskaupstað, Jessý Friðriksdóttir, Jessonar, frá Hól, Þorsteinn Þ. Víglundsson skólastjóri, Ingibjörg Karlsdóttir (Ingólfshvoli) Kristmanns, frá Ingólfshvoli, Hervör Karlsdóttir Jóhannssonar (frá Brekku) Jóhannssonar, Ásta Haraldsdóttir frá Fagurlyst, Margrét Andersdóttir, Bergesen, frá Þinghól.
Fremri röð frá vinstri: Birgit Andersdóttir, Bergesen, frá Þinghól, Dóróte Oddsdóttir, skósmiðs, Þorsteinssonar, Árndís Lára Óskarsdóttir, Lárussonar, frá Neskaupstað, Þuríður Selma Guðjónsdóttir frá Gvendarhúsi.




Störf og áhugamál

Fyrir utan kennslu vann Þorsteinn ýmsa verkamannavinnu og sinnti að auki áhugamálum sínum af mikilli atorku þar sem skólastarf lá niðri meirihluta ársins. Hann gekk í Verkamannafélagið Drífanda þar sem hann lét pólitískar skoðanir sínar í ljós en það stuðlaði að enn frekari tortryggni í hans garð. Þorsteinn var þá harður alþýðuflokksmaður sem boðaði nauðsyn þess að sjómenn og verkafólk stæðu saman.

Þorsteinn lagði kapp á frá upphafi að vernda skyldi menningarverðmæti og fékk aðstoð nemenda sinna við að safna ýmsum munum eftir fyrirmynd norskra byggðasafna. Hann gaf út Blik, blað Málfundafélags Gagnfræðaskólans, en fyrsta tölublaðið kom út 1936 og urðu árgangarnir alls 34. Árið 1942 stóð Þorsteinn ásamt öðrum fyrir því að Sparisjóður Vestmannaeyja yrði stofnsettur og varð Þorsteinn sparisjóðsstjóri.

Árið 1952 tók hann sér eins árs leyfi og hélt til Noregs í því skyni að kynna land og þjóð í 50 byggðum í Noregi. Eftir heimkomu hófst hann handa við að semja norsk-íslenska orðabók sem kom út 15 árum seinna. Þorsteinn sneri sér í auknum mæli að bæjarmálum og lagði m.a. fram frumtillögu um rafkapal milli lands og Eyja. Hann átti þátt í að stofna Kaupfélag alþýðu og Kaupfélag Vestmannaeyja mörgum árum seinna.

Árið 1956 varð langþráður draumur Þorsteins loks að veruleika þegar nýtt 8,500 fermetra húsnæði Gagnfræðaskólans var tekið í notkun, 25 árum eftir að Þorsteinn lagði fyrst fram drög að hugmyndinni til bæjastjórnar. Hugmyndinni var þó ekki vel tekin í upphafi, þannig að Þorsteinn kom henni í framkvæmd með því að smala saman öllum nemendum skólans, útbýta skóflum, og saman hófust nemendurnir, ásamt Þorsteini, handa við að grafa fyrir grunni skólans. Í dag er byggingin notuð fyrir Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum

Enn vantaði húsnæði fyrir alla þá menningarmuni sem Þorsteinn hafði séð um að varðveita og geymdir voru uppi á hanabjálka í Goðasteini, heimili Þorsteins og Ingigerðar um árabil. Árið 1963 var byggðasafni komið fyrir í almennilegum húsakynnum, á þriðju hæð nýja Sparisjóðshússins. Þetta sama ár hætti hann skólastjórn Gagnfræðaskólans eftir 36 ára starf.

Í eldgosinu í Eyjum 1973 urðu Þorsteinn og Ingigerður að yfirgefa Eyjarnar eftir 46 ára dvöl í Vestmannaeyjum, og settust að í Hafnarfirði. En Þorsteinn hélt áfram skrifum sínum um menningu og sögu Eyja og uppbyggingu Byggðasafnsins.
Hann barðist fyrir byggingu safnahúss í Eyjum. Byggingu þess var lokið 1978 og hýsir nú bókasafn, héraðsskjalasafn, listasafn og byggðarsafn Eyjanna.

Viðurkenningar

Þorsteinn 10 ára.

Þorsteinn Þ. Víglundsson fékk á efri árum margar viðurkenningar fyrir ævistörf sín. Til að mynda hlaut hann heiðursborgaranafnbót Vestmannaeyjakaupstaðar fyrir framlag sitt til menningarmála og St. Olav orðuna frá Ólafi Noregskonungi fyrir vináttu við Noreg.

Höggmynd af höfði Þorsteins stendur á annarri hæð Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum til minningar um hann.

Þorsteinn var kjörinn heiðursfélagi í Sögufélagi Vestmannaeyja í virðingar- og þakklætisskyni fyrir framlag hans.

Þorsteinn var mjög harður bindindismaður. Hann lést 85 ára gamall í Reykjavík 1984 og kona hans, Ingigerður Jóhannsdóttir, níu árum síðar, 91 árs að aldri.

Myndir