Kirkjuból
Húsið Kirkjuból var einnig kallað Vestasti-Hlaðbær. Húsið stóð á austanverði Heimaey og var talið til Vilborgarstaða.
Guðjón Björnsson frá Norðurgarði byggði húsið árið 1910.
Hjónin Kristján Kristófersson og Þóra Valdimarsdóttir ásamt barnabarni sínu Kristjáni Þór Valdimarssyni bjuggu í húsinu þegar byrjaði að gjósa 23. janúar 1973.
Meðal frásagna í bók Guðjóns Ármanns Eyjólfssonar frá fyrstu gosnóttinni er frásögn Kristjáns Kristóferssonar og Þóru Valdimarsdóttur á Kirkjubóli. Þóra segir svo frá: „Ég var háttuð, en ekki sofnuð, seint um kvöldið. Ég vissi ekki hvað klukkan var. Þá verð ég allt í einu vör við ansi mikinn kipp, jarðskjálftakipp. Ég hentist fram úr rúminu og kveikti ljósið og lít á klukkuna. Þá er klukkan tíu mínútur gengin í tvö. Það var mitt fyrsta verk að fara niður í kjallara til að vita hvort þetta sé í „fýrnum“, af því alltaf er maður hræddur um miðstöðina. En þegar ég ætla að opna eldhúshurðina, sem liggur að stiganum niður í kjallara, þá finn ég strax, að eitthvað er að. Hurðin er orðin skekkt í og ég má taka fast í til að geta opnað. Þá bregður mér svolítið. Ég fór samt niður stigann og sé, að allt er í lagi með miðstöðina og fer upp. En mér líkar ekki þessi titringur á ofnunum. Það er þessi eilífi nötringur og einkennilegheit í „fýrnum“ og ég fer niður aftur.“ Kristján maður hennar segist þá vakna og fara niður og athuga með miðstöðina. „Ég heyrði nú eitthvað undarlegt hljóð sem ég kannaðist ekki við. Mér fannst hljóðið vera í ofnunum, eitthvert titringshljóð. Ég fer síðan norður í verkstæðisherbergi sem var við hliðina á miðstöðvarherberginu en heyri ekkert þar. Slekk ég síðan á „fýrnum“ og geng upp. Þetta heldur samt áfram og mér dettur nú í hug Katla. Geng að norðurglugganum og dreg frá honum, en þaðan er ekkert skyggni austur og norður til landsins, svo að ég fer aftur inn í kokkhúsið og dreg frá eldhúsglugganum að sunnan en þar er ekkert að sjá. Þá fer ég aftur inn í rúm. Þegar ég er rétt lagstur í rúmið heyrist mér fara þungavinnuvél eftir götunni, svo að ég fer enn fram úr til að athuga hvað sé á ferð eftir götunni. Það skiptir ekki mörgum mínútum; sem ég stend þarna við gluggann og þar til hljóðið er orðið líkast og í þotu; svo hækkar hljóðið all verulega og þá kemur fyrsti neistinn upp. Klukkan hefur þá verið svona um hálftvö. Ég kallaði í Þóru, en fyrstu sekúndurnar var þetta ekki svo mikið að sjá og við horfðum á þetta hjónin. Þetta var svona eins og þegar búið er að kveikja á góðum bletti í sinu, og stóð yfir augnablik.“
Heimildir
- Íbúaskrá Vestmannaeyja 1. desember 1972.