Blik 1967/Brynjólfur Sigfússon organisti og söngstjóri, I. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit Bliks 1967


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


IV. Brynjólfur Sigfússon organisti og söngstjóri
(1. hluti)


Elzti sonur hjónanna á Vestri-Löndum fæddist 1. marz 1885 og var vatni ausinn 12. apríl s.á. Hann hlaut nafn móðurafa síns, séra Brynjólfs JónssonarOfanleiti.
Snemma bar á ríkri tónlistargáfu hjá þessum sveini foreldrum hans til mikillar gleði og hamingju. Þau unnu sjálf þessari list listanna, eins og söng- og tónlistin er stundum nefnd, dáðu hana og iðkuðu, og þá alveg sérstaklega kirkjutónlistina. Henni hafði frú Jónína Brynjólfsdóttir kynnzt á æskuheimili sínu að Ofanleiti, þar sem faðir hennar söng og spilaði sálmalög á hin „óæðri hljóðfæri“, svo sem einfalda harmóniku og langspil, þar sem ekkert var til orgelið.

Innilegt samband var ríkjandi á milli frændsystkinanna á Vestri-Löndum og í Frydendal. Bræðrasynirnir voru sérstaklega samrýmdir.
Aftari röð frá vinstri: Árni J. Johnsen, Brynjólfur Sigfússon, Alexander Jóhannesson, (síðar próf.), Lárus Johnsen, Árni Gíslason, læknir. -
Fremri röðin: Benedikt Friðriksson frá Gröf, Sigurjón Kristjánsson frá Klöpp, Árni Sigfússon, Sigfús M. Johnsen, Kristján Gíslason, Hóli.

Sigfús Árnason organisti lagði sig því snemma í líma með að kenna þessum söngna og áhugasama syni sínum, Brynjólfi, lög og tónlist.
Þegar Brynjólfur Sigfússon hafði lokið barnaskólanámi hjá þeim kennurunum séra Oddgeir Guðmundsen og Eiríki Hjálmarssyni, og svo stundað framhaldsskólanám hjá einstaklingum í Eyjum, réðist hann innanbúðarmaður hjá J.P.T. Bryde, þ.e. í Austurbúðina eða Garðsverzlun. Það mun hafa verið 1901. Þá var Brynjólfur 16 ára gamall.
Eftir fárra ára starf innan við búðarborðið gerðist hann „bókhaldari“ eða skrifstofumaður við sömu verzlun og hélt þeim starfa, þar til hann hvarf frá Bryde kaupmanni að fullu og öllu árið 1913.
Öll uppvaxtarár sín stundaði Brynjólfur Sigfússon tónlistarnám og orgelspil hjá föður sínum heima á Löndum. Að öðru leyti nam Brynjólfur tónlistina af sjálfum sér þar sem náttúran var náminu ríkari, vakinn og sofinn við þetta sitt hjartans áhugamál. Frændur hans í Reykjavík sendu honum nótnabækur, kæmu þær út, og Ragnheiður systir hans var honum hugulsöm í þessum efnum, þegar hún dvaldist hjá frændfólkinu í Reykjavík.
Nýjar hugsjónir fæðast, þróast og rætast í tónlistarmálunum í Vestmannaeyjum. Fleiri Eyjabúar fundu innra með sér eigindin og hvötina til iðkunar á tónlist en Brynjólfur á Löndum. Dásamlegt væri það að geta verið því vaxnir að lofa Eyjabúum í heild að njóta tónlistar og söngs, hugsuðu nokkrir ungir menn í sveitarfélaginu. Og þessi göfuga ósk þróaðist og efldist.
Rétt eftir aldamátin impruðu svo nokkrir ungir menn á því sín á milli, hvort engin tök mundu á að stofna lúðrasveit, og var þar fyrst og fremst treyst á unga tónlistarmanninn á Vestri-Löndum. Þeir, sem helzt stungu saman nefjum um þetta, voru þeir Gísli Jóhannsson (G. J. J.) í Frydendal, Gísli Lárusson gullsmiður í Stakkagerði, Kristján Ingimundarson formaður í Klöpp, Magnús Jónsson, bæjarfógeti og Jón Ingimundarson frá GjábakkaMandal). Auðvitað var svo Brynjólfur á Löndum með í hópi þessum til skrafs og ráðagerða. Hann var einmitt hinn fyrirhugaði stjórnandi „hornaflokksins“, ef úr stofnun hans yrði.

Brynjólfur Sigfússon og síðari kona hans Ingrid og elzta barn þeirra Aðalsteinn.

Loks var kosin nefnd til þess að afla fjár til lúðrakaupanna og hrinda málinu í framkvæmd. Afla þurfti fjár úr vasa almennings. Þá var eina ráðið að halda „tombólu“. Það var gert og allt tókst vel. Fjáröflunin lánaðist býsna vel, því að Eyjabúar skildu þessa ungu hugsjónamenn, og loks voru fest kaup á lúðrum hjá umboðsmanni erlendrar hljóðfæraverksmiðju haustið 1903. Tíminn leið og lúðrarnir voru væntanlegir til landsins með „Scotlandinu“, millilandaskipi Thorefélagsins, sem lagði af stað frá Kaupmannahöfn til Íslands 7. febrúar 1904. Skip þetta strandaði við Færeyjar 8 dögum síðar eða 15. febrúar s.m. Ekki var annað vitað, en að Ægir hefði þar gleypt öll hljómlistarhornin hinna ungu Eyjaskeggja, eins og Eyjapóstinn, sem í skipinu var.

Nú voru góð ráð dýr. Skotið var á fámennum fundi. Þann fund sat m.a. Gísli Jóhannsson í Frydendal, kaupmaður á Miðbúðareigninni. Hann hafði þá nýlega náð sér í umboð fyrir erlenda hljóðfæraverksmiðju. Afráðið var á fundi þessum, að hann pantaði þá þegar lúðra handa hinni fyrirhuguðu „hornasveit“ í þorpinu. Og svo gjörði hann hið bráðasta.
Stundum rætist betur úr en á horfist. Svo varð og hér. Árið eftir (1905) komu hinir fyrri lúðrarnir sendir frá Færeyjum. Þeim hafði þá verið bjargað úr hinu strandaða skipi, en ekkert hirt um það mánuðum saman að koma þeim í áfangastað. Um svipað leyti og fyrri lúðrarnir komu til Eyja, komu þangað einnig lúðrar þeir, sem Gísli kaupmaður hafði pantað. Hann seldi þá bráðlega burt úr Eyjum, því að víðar á landinu var vaknaður áhugi fyrir hljómlist.
Fyrst í stað var enginn í Vestmannaeyjum því vaxinn að kenna á þessi töfratæki, lúðrana eða hornin. Þess vegna var ráðinn til þess maður úr Reykjavík. Sá hét Gísli Guðmundsson. Engin deili veit ég önnur á honum. Hann kenndi svo um skeið þessum hugsjónamönnum og tónlistarunnendum í Eyjum að þeyta lúðrana. Jafnframt kenndi hann Brynjólfi Sigfússyni að stjórna lúðrasveit eða hornaflokki eins og lúðrasveit þessi var þá jafnan nefnd.
Í Hornaflokknum voru 6 menn, sem mega með sanni kallast brautryðjendur hér á þessu hljómlistarsviði. Hér skulu greind nöfn þeirra og lúðragerðin, er þeir léku á hver um sig:

  1. Pétur bóndi Lárusson á Búastöðum, - Piccolo.
  2. Lárus verzlunarmaður Johnsen frá Frydendal, - Sólótenor.
  3. Árni Árnason, tómthúsmaður á Grund við Kirkjuveg, - Cornet.
  4. Guðni verzlunarmaður Johnsen frá Frydendal, - Althorn
  5. Páll verzlunarmaður Ólafsson, ?
  6. Brynjólfur Sigfússon, bókhaldari, - Túba. (Þessa túbu Brynjólfs eigum við Eyjabúar í Byggðarsafni Vestmannaeyja).


Lúðrarnir kostuðu allir í innkaupi kr. 320,00.
Þessi fyrsta lúðrasveit Vestmannaeyja naut mikillar vinsældar í byggðarlaginu, enda lék hún á flestum útisamkomum, svo sem á þjóðhátíð Eyjabúa, og við önnur hátíðleg tækifæri. Dagar hennar entust í 12 ár eða til ársins 1916. Þá lognaðist þetta menningarstarf út af. Ástæður eru mér ókunnar.
Áður en Brynjólfur Sigfússon hvarf til framhaldsnáms í tónlist sumarið 1911, og dvaldist við nám í Kaupmannahöfn í 9 mánuði, lærði Sæmundur Jónsson Sighvatssonar í Jómsborg að leika á bassatúbu þessa, og lék hann síðan á hana í fjarveru Brynjólfs hljómsveitarstjóra.
Þegar Sigfús organisti Árnason, faðir Brynjólfs, sagði af sér organistastarfinu við Landakirkju 1904, sóttu tveir um stöðu þessa, Brynjólfur sonur organistans og Jón Ágúst Kristjánsson, söngstjóri „Principalskórsins“ í Eyjum. Sóknarnefndin mælti með Brynjólfi Sigfússyni til starfsins eða réði hann. Þá var hann aðeins 19 ára gamall. Jafnframt gerðist þessi ungi maður fyrirvinna móður sinnar og systkina, er foreldrar hans skildu þetta ár og faðirinn fór til Ameríku.
Næstu tvö árin var svo Brynjólfur Sigfússon fyrirvinna móður sinnar og systkina, með því að Ragnheiður systir hans, sem var að vísu eldri en hann, var bundin heimilinu sökum lasleika móðurinnar, sem var brjóstveik og mátti lítið eða ekkert starf á sig leggja. Brynjólfur og þau systkinin öll reyndust móður sinni í alla staði vel í heilsuleysi hennar, raunum og mótlæti, voru henni umhyggjusöm og nærgætin, ástrík og einlæg.
Jónína húsfreyja á Löndum lézt 16. nóv. 1906 eins og greint er í 3. kafla þessarar greinar.
Næsta ár (1906-1907) bjuggu sytskinin þrjú saman á Löndum, en Árni tók sér ferð á hendur til Kaupmannahafnar haustið 1906 nokkru áður en móðir þeirra lézt. Þar dvaldist hann næstu 2-3 árin við verzlunarnám og skrifstofustörf.
Sumarið eða haustið 1907 hættu systkinin á Vestri-Löndum sameiginlegu heimilishaldi. Ragnheiður fór þá til Danmerkur til hjúkrunarnáms, Leifur bjó sig undir menntaskólanám í Reykjavík, en Brynjólfur hélt áfram störfum í Austurbúðinni. Stuttu fyrir jól (17. des.) 1907 fluttist Brynjólfur frá Vestri-Löndum í herbergi, sem hann hafði tekið á leigu í Frydendal hjá frú Sigríði Árnadóttur veitingakonu þar, ekkju Jóhanns Jörgen, og keypti hann þar jafnframt fæði og þjónustu. Fyrir húsnæði, fæði og þjónustu greiddi Brynjólfur þá kr. 1,25 á dag eða kr. 456,25 yfir árið.
Ekki hafði Brynjólfur Sigfússon rækt lengi organistastörfin í Landakirkju, er hann varð þess fullviss, að hann skorti framhaldsnám í orgelspili til þess að geta með myndugleik og af leikni fullnægt öllum kröfum um það mikilvæga starf. Þess vegna skrifaði hann föðurbróður sínum, Jóni Árnasyni frá Vilborgarstöðum, sumarið 1905 og beiddist þess, að hann mæltist til þess við Brynjólf Þorláksson, organleikara við dómkirkjuna í Reykjavík (1902-1912), að hann veitti honum framhaldskennslu í organleik.
Jón Árnason svaraði bréfi Brynjólfs Sigfússonar 28. sept. 1905. Brynjólfur Þorláksson sagði organistann í Vestmannaeyjum velkominn til sín til frekara náms, en hafa skyldi hann með sér vottorð frá sóknarpresti og sýslumanni, að hann væri organisti í Eyjum.
Brynjólfur Sigfússon dvaldist síðan við þetta framhaldsnám hjá nafna sínum hluta úr vetrinum 1906 (eða haustið 1905) og gat sér mikinn orðstír fyrir tónlistargáfur og leikni í orgelleik.
Enginn í Eyjum var því vaxinn að taka að sér organistastarfið, meðan Brynjólfur Sigfússon dvaldist við framhaldsnámið í Reykjavík. En kunnur söngmaður í Eyjum og fyrrum hjálparhella Sigfúsar söngstjóra Árnasonar þau ár, er hann stjórnaði „Söngfélagi Vestmannaeyja“, gerðist nú forsöngvari í Landakirkju, meðan organistinn var fjarverandi. Sá maður var Sveinn Pálsson Scheving, bóndi á Steinsstöðum, síðar hreppstjóri í Eyjum og síðast lögregluþjónn, eftir að sveitarfélagið öðlaðist bæjarréttindi (1918).
Brynjólfur Sigfússon ávann sér mikið álit og traust hins mæta manns, Brynjólfs organista í Reykjavík. Til sönnunar því er bréf Brynjólfs Þorlákssonar dags. 28. ágúst 1907 til Brynjólfs Sigfússonar.
Séra Oddgeir Guðmundsen, prestur að Ofanleiti hafði skrifað vini sínum, Brynjólfi Þorlákssyni organista, og beðið hann að kenna syni sínum, Þórði, organleik. Prestssonurinn hafði lítið sem ekkert lært í list þeirri. Þá var það, sem organisti Dómkirkjunnar í Reykjavík skrifaði Brynjólfi Sigfússyni, fyrrv. nemanda sínum um stutt skeið, og bað hann að veita prestssyninum að Ofanleiti undirstöður í organspili, áður en hann kæmi suður til sín. „Ég hefi svo góða trú á þekkingu yðar og kunnáttu í orgelspili, og ég býst ekki við að þurfa að taka hann upp í fyrstu æfingunum, heldur taka við, þar sem þér endið,“ skrifaði organistinn.
Jafnframt því að stjórna lúðrasveit, sem stofnuð var í Vestmannaeyjum, stofnaði Brynjólfur Sigfússon söngflokk þar nokkrum árum eftir að hann gerðist organisti við Landakirkju. Að sjálfsögðu var nokkuð af söngfólkinu í kirkjukór hans einnig þátttakendur í söngflokki þessum, sem var einskonar arftaki karlakórs Söngfélags Vestmannaeyja (1894-1904), sem faðir hans stjórnaði og var lífið og sálin í, meðan Söngfélagið var og hét.
Allt þetta tónlistar- og sönglistarstarf hins unga manns vakti óskipta athygli málsmetandi manna, er til Eyja komu. Nemandi í prestaskólanum, sem kynnzt hafði Brynjólfi og starfi hans við dvöl í Eyjum 1907 skrifar honum 2. október um haustið:
„Hvaða maður 22 ára skyldi geta sagt, að hann hefði fleiri ár stjórnað söngflokkum og lúðrafélagi eða haldið uppi fegurstu list í heilum bæ.“
Hér á bréfritarinn við Kirkjukórinn og karlakór Brynjólfs hinn fyrsta.
Þessi söngflokkur Brynjólfs Sigfússonar bar ekkert nafn um margra ára skeið. Hann söng á þjóðhátíðum Vestmannaeyinga og við ýmis önnur hátíðleg tækifæri. Hann hafði hins vegar engar fastar starfsreglur, engin lög, engar samþykktir. Hann æfði ekki söng stöðugt, heldur þegar hátíðahöld eða tyllidagar voru framundan. Sem dæmi má nefna konungskomuna 1907. Hver vissi þá, nema kóngsi leggði lykkju á leið sína til Reykjavíkur og stigi á land í Eyjum með fríðu föruneyti? Vitað var og er, að fleiri vegir eru órannsakanlegir en vegir sjálfs himnakonungsins. Færi svo, að kóngur heimsækti Vestmannaeyjar, þótti ráðandi mönnum þar ekki annað betur sæmandi, en að æfður kór syngi þjóðsöng Danmerkur og svo t. d. fyrsta erindið af „Eldgamla Ísafold“, þótt öðru yrði þar sleppt af gildum ástæðum! Þess vegna æfði Brynjólfur Sigfússon kórinn sinn oft vorið 1907. En þessi von eða ætlan um heimsókn kóngs til Eyja sumarið 1907 brást gjörsamlega. En hvað um það? Brynjólfur Sigfússon hafði æft dálítinn söngkór og við það öðlazt traust og trú á eigin getu á þessu sviði. Það var sannarlega mikilvægt fyrir allt hans sönglistarstarf síðar í Eyjum.
Og áfram var haldið í starfi og stöðu. Söngflokkur Brynjólfs Sigfússonar hélt almennan samsöng í Goodtemplarahúsinu á Mylnuhól 10. febrúar 1910. Þar söng karlakór hans 3 lög, og svo söng þar blandaður kór mörg lög undir stjórn hans. Í blandaða kórnum söng einsöng frú Guðrún S. Þorgrímsdóttir, kona Edvards Frederiksen bakarameistara. Annan samsöng hélt kórinn í sama húsi nokkru síðar.
Fyrir notin af Goodtemplarahúsinu í bæði skiptin greiddi kórinn 22 krónur eða 11 krónur fyrir hvorn samsöng. Söngæfingar hafði kórinn haft í Goodtemplarahúsinu haustið 1909 og eftir nýárið 1910, alls 17 æfingar. Hann greiddi fyrir þær samtals kr. 12,75 eða 75 aura fyrir æfingu hverja.
Þess er getið í dagbókum frá fyrstu 12 árum aldarinnar, að söngflokkur Brynjólfs Sigfússonar hafi sungið á Þjóðhátíð Vestmannaeyja hátíðargestum til óblandinnar ánægju. Víst er um það, að blandaður kór undir stjórn Brynjólfs söng við hátíðarhöldin í Eyjum 17. júní 1911 á 100 ára afmælisdegi Jóns forseta Sigurðssonar.
Eftir 1919 bættist svo 1. desember við þá tylli- og hátíðadaga í Eyjum, er söngflokkur Brynjólfs Sigfússonar söng og gladdi samkomugesti.
Fyrir þjóðhátíðina sumarið 1913 æfðu tveir flokkar kappsamlega í Vestmannaeyjum. Annar flokkurinn var hinn nafnlausi söngflokkur Brynjólfs Sigfússonar, en hinn var algjör nýlunda í sveitarfélaginu. Það var íþróttaflokkur Guðmundar Sigurjónssonar íþróttakennara í Reykjavík, sem kenndi þá ungum sveinum í Eyjum ýmiskonar íþróttir um mánaðartíma eða svo sumarið 1913. Sú dvöl hans í Eyjum leiddi til stofnunar Íþróttafélagsins Þórs, svo sem mörgum Eyjabúum er kunnugt.
Fyrstu 7 árin, sem Brynjólfur Sigfússon var organisti við Landakirkju, var starfsamningur hans við sóknarnefnd í lausara lagi. Nú hugði hann á framhaldsnám í tónlist í Danmörku og vildi því áður fá fastan starfssamning við sóknarnefnd, áður en hann hyrfi til framhaldsnámsins. Í júlí 1911 var þessari mikilvægu þjónustu organistans við Landakirkjusöfnuðinn komið í fast mót með einskonar yfirlýsingu sóknarnefndar svohljóðandi:

„Herra Brynjólfur Sigfússon organisti er ráðinn af sóknarnefnd Vestmannaeyjasóknar organleikari við Vestmannaeyjakirkju. Árslaun skulu vera 200 krónur (tvö hundruð krónur). Starfið er bundið við áramót. Uppsögn ógild nema komin sé skrifleg til sóknarnefndarinnar fyrir 1. september ár hvert.
Í sóknarnefnd Vestmannaeyjasóknar 30. júlí 1911.
Sveinn P. Scheving
Br. J. Hannesson
J. Lárusson
Þorsteinn Jónsson
Kristján Ingimundsson
Samþykkur: Brynj. Sigfússon.“

Sumarið 1911 fékk Brynjólfur leyfi frá starfi hjá Brydes-verzlun til þess að sigla og fullnuma sig í söng og tónlist í Danmörku.
Þann 23. ágúst 1911 sigldi Brynjólfur Sigfússon áleiðis til Kaupmannahafnar. Þar dvaldist hann síðan til vorsins 1912 eða í 9 mánuði og stundaði bæði tónlistarnám og las verzlunarfræði. Hann nam tónfræðina hjá einhverjum kunnasta tónlistarmanni Dana á þeim tíma, Júlíusi Foss. Hinn 7. okt. um haustið gerðu þeir með sér námssamning. J. Foss tók að sér að kenna Brynjólfi „Orgelspil og Teori“ 2 tíma í viku hverri gegn 15 króna greiðslu á mánuði. Brynjólfur leigði sér orgel til að æfa sig á og greiddi fyrir það 5 krónur á mánuði.
Jafnframt tónlistarnáminu stundaði Brynjólfur Sigfússon verzlunarnám, gekk í verzlunarskóla í Höfn. Þar nam hann m.a. dönsku, þýzku, ensku og reikning.
Kennslan fór bar fram alla virka daga kl. 6-10 e.h.
Úr þessari námsferð til Hafnar kom Brynjólfur heim 21. maí 1912 og hóf aftur „bókhald“ hjá Bryde 1. júní eða á 10. degi frá heimkomu.
Á hvítasunnudag, 26. maí, eða 5 dögum eftir heimkomu, lék hann aftur á orgelið í Landakirkju.
Sem fyrr var enginn Eyjabúi því vaxinn að leysa Brynjólf Sigfússon af hólmi við kirkjuorgelið veturinn 1911-1912. Þá bjargaði Sveinn P. Scheving bóndi aftur söngnum í kirkjunni, annaðist þar forsöngvarastörf, meðan organistinn var erlendis.
Árið eftir eða hinn 7. nóvember 1913 lagði Brynjólfur Sigfússon niður öll störf í Austurbúðinni. Gerðist hann þá starfsmaður hjá Árna bróður sínum um tveggja mánaða skeið, en Árni rak þá bæði verzlun og útgerð í Eyjum og var æði umfangsmikill athafnamaður í fæðingarsveit sinni. Verzlun sína rak hann að Heimagötu 1, þar sem síðar voru vistarverur Útvegsbankans.
Frá aldamótum og til þess tíma að Brynjólfur Sigfússon hætti störfum í skrifstofu Austurbúðarinnar, hafði búðar- eða skrifstofumönnum þar verið gert að skyldu að færa dagbók, skrá þar veðurfar, skipakomur og aðra helztu viðburði í þorpinu. Þessi dagbók var haldin þar í 13 ár a.m.k. Skrifarar hennar voru Árni Filippusson, Páll Oddgeirsson, Kristinn Ólafsson, Arinbjörn Ólafsson auk Brynjólfs Sigfússonar. Allt kunnir menn í Eyjum og mætir á sínum tíma.
Þegar Brynjólfur hvarf frá starfi í skrifstofu Austurbúðarinnar, lauk dagbókarfærslunni þar. Þá hafði líka J. P. T. Bryde sjálfur legið í gröf sinni í 3 ár og húsbóndaskipti framundan í Danska-Garði.


Fyrsti slökkviliðsstjóri í Eyjum


Hinn 3. september 1913 héldu Vestmannaeyingar mikilvægan og markverðan fund í þinghúsi sínu Borg við Heimagötu. Þar var þéttsetinn þingsalurinn. Tilgangur fundarins var að stofna slökkvisveit í byggðinni. Allt tókst þetta eftir áætlun. Slökkvisveit kjörin og slökkvisveitarstjóri. Kosningu í það mikilvæga starf hlaut Brynjólfur Sigfússon bókhaldsmaður hjá Bryde kaupmanni og organisti Landakirkju.
Hversu lengi Brynjólfur gegndi þessu slökkvistjórastarfi veit ég ekki. En í hans hlut féll það starf að gera innkaup á ýmsum þeim áhöldum, sem slökkvisveitinni voru nauðsynleg og í tízku voru þá. Fæst eða engin þeirra höfðu sést í Eyjum áður og notkun þeirra þar því alveg ókunn. En mörg timburhús höfðu risið í Eyjum þá á undanförnum árum með sívaxandi fólksstraumi til Eyja, vaxandi vélbátaútgerð og batnandi efnahag.

Stofnar eigin verzlun


Verzlunarhús Brynjólfs Sigfússonar að Kirkjuvegi 21.

Brynjólfur Sigfússon hafði lengi alið þá hugsjón með sér að stofna til eigin verzlunarreksturs í heimabyggð sinni, Vestmannaeyjum. Til þess að búa sig sjálfan sem bezt undir það starf, las hann m.a. verzlunarfræði í Höfn og aflaði sér verzlunarsambanda við danska kaupmenn og útflytjendur.
Brynjólfur Sigfússon var enginn veifiskati eða dægurflugudindill, þess vegna rættust hugsjónir hans. Hugsunin var föst og skír og ályktanirnar rökum studdar. Fast og örugglega var stefnt að settu marki. Stofnun eigin verzlunarreksturs í Eyjum var rækilega undirbúin.

Búð Brynjólfs Sigfússonar.
Brynjólfur Sigfússon lengst til hægri. Búðarmanninn Kristófer Guðjónsson frá Oddsstöðum ber yfir peningakassann á búðarborðinu.

Hinn 4. apríl um vorið (1914) hóf Brynjólfur eigin verzlunarrekstur. Hann hafði tekið á leigu neðstu hæð húseignarinnar nr. 19 við Kirkjuveg, sem þá og enn ber nafnið Þinghóll. Þarna hóf hann verzlun með matvörur og nýlenduvörur svo kallaðar. Þá voru ýmsir erfiðleikar framundan með verzlunarrekstur hér á landi, t.d. peningaleysi almennings, heimsstyrjöldin fyrri í aðsigi, lítið um öll þægindi, sem nú þykja bráðnauðsynleg og ekki hægt að vera án í atvinnurekstri. T.d. fékk Brynjólfur Sigfússon ekki afnot af síma í búðinni fyrr en um haustið 1914. Efnisleysi og ýmislegt annað olli því, að hann fékk ekki símann fyrr lagðan til sín. Í Þinghól rak Brynjólfur Sigfússon síðan matvöru- og nýlenduvöruverzlun sína í 11 ár eða þar til hann flutti í nýja verzlunarhúsið sitt við Kirkjuveg (nr. 21), næsta hús sunnan við Þinghól. Undirbúning að byggingu þessari hóf Brynjólfur haustið 1924 eða nokkrum mánuðum eftir að hann kom frá Danmörku. En þangað sigldi hann vorið 1924 til þess að leita sér lækninga Byggingarframkvæmdirnar hófust hins vegar ekki fyrr en sumarið 1925. Ágúst Árnason, kennari, sem var þá í rauninni byggingarfulltrúi bæjarstjórnar um árabil, mældi fyrir verzlunarhúsinu 29. júní um sumarið. Þá hafði Brynjólfur lokið við að kaupa upp ýmsa smá-lóðarbletti, sem þarna voru og hinir og þessir áttu. Þarna var t.d. sjókofi, sem Hansínuútgerðin átti og hann þurfti að kaupa vegna lóðarinnar. Þá átti bæjarsjóður þarna lóðarblett með slökkviliðsskúr, sem staðið hafði þar, síðan slökkvisveit var mynduð í Eyjum (1913). Það tók sinn tíma að fá keypt réttindi á lóðarblettum þessum. En nú gátu líka byggingarframkvæmdirnar hafizt af ódeigum vilja og þrótti. Ekki hlífði kaupmaðurinn sjálfum sér við erfiðisvinnunni, er því var að skipta. Látlaust var unnið að byggingu verzlunarhússins fram undir jól 1925.
Þann 19. desember 1925 var byrjað að flytja vörur úr verzluninni í Þinghól í nýju búðina og því lokið á tveim dögum. Þá var hinu fyrirhugaða marki náð: Nýja búðin opnuð 21. des. 1925. Síðan rak Brynjólfur Sigfússon verzlun sína að Kirkjuvegi 21 til hinztu stundar við góðan orðstír og mikið traust í viðskiptum. Hann þótti ávallt sérstaklega áreiðanlegur í viðskiptum, samvizkusamur og réttsýnn. Viðbrugðið var, hversu verzlun hans hafði jafnan á boðstólum góðar og snyrtilegar vörur. Enda hélt Brynjólfur kaupmaður sömu viðskiptavinum sínum árum saman, svo að þeir litu helzt ekki við annarri verzlun, væru vörurnar fáanlegar hjá Brynjólfi Sigfússyni. Verzlun hans var nær einvörðungu matvöru og nýlenduverzlun, sem seinni kona hans rak eftir fráfall hans til haustsins 1966, er hún flutti til Reykjavíkur, eftir að hafa selt verzlunar- og íbúðarhúsið þeirra að Kirkjuvegi.