Sjómannadgsblað Vestmannaeyja 1978/ Minning látinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 6. mars 2019 kl. 16:05 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 6. mars 2019 kl. 16:05 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Minning látinna


Guðbjörn Þórarinsson
f. 5. maí 1959 - d. 10. maí 1977.


Hann fæddist í Vestmannaeyjum, sonur hjónanna Guðríðar Haraldsdóttur og Þórarins Þorsteinssonar, kaupmanns. Móðir hans dó, er hann var enn kornungur, og ólst hann þá upp einvörðungu á vegum föður síns. Gefur auga leið, að með þeim hafa tekizt miklir kærleikar, og því sárari verður missirinn.
Guðbjörn heitinn var nýorðinn 18 ára, er hann lézt af afleiðingum bifreiðaslyss hér suður á eyju. Hann átti því framtíðina fyrir sér, og hann sem önnur ungmenni átti sér að sjálfsögðu sína drauma um batnandi tíð. En „á snöggu augabragði afskorið verður skjótt“, segir sálmaskáldið, og það voru orð að sönnu. Með svo ungum manni hverfur hin óráðna gáta, fyrirheitið, út í veður og vind og verður aldrei meira en gusturinn, sem fór um skóginn og braut greinina.
Eftir stendur meiðurinn sjálfur, laskaður, en þó með græðimáttinn í sér fólginn, því að ekki gerast öll sár banvæn. Mörg þeirra má græða, svo að nær verður heilt eftir.
Þeim, sem um sárt eiga að binda við svo skyndilegt fráfall æskumanns í blómalífsins, kemur styrkur til að standast raunina. Góður Guð blessar þá og græðir öll þeirra sár.

Kristinn Gíslason
f. 2. júlí 1898 - d. 20. maí 1977.


Kristinn Gíslason var Þykkbæingur að uppruna, sonur þeirra Guðrúnar Jónsdóttur og Gísla Gestssonar. Strax við fæðingu tók amma hans, Ingibjörg Ólafsdóttir, að sér að fóstra hann ásamt Gísla, föður hans, og ólst hann upp til 6 ára aldurs í Suður-Nýjabæ. Þá kvæntist faðir hans Guðrúnu Magnúsdóttur, sem gekk drengnum í móðurstað. Kristinn dvelst að Suður-Nýjabæ til tvítugsaldurs.
Hann hóf vertíðarferðir til Vestmannaeyja á fjórtánda ári, en um tvítugt flytur hann alfarið hingað, og hér átti hann heimili æ síðan.
Kristinn kvæntist Margréti Gestsdóttur, hinni mætustu konu, og eignuðust þau 5 börn. Af þeim létust tvö í æsku, en hin þrjú eru öll búsett hér í bæ. Áður en hann gekk að eiga Margréti, eignaðist Kristinn dóttur, sem nú er búsett í Keflavík.
Kristinn var mikill og góður starfsmaður, meðan honum entist líf og heilsa.
Margréti, konu sína, missti Kristinn 17. desember 1956, og var þá stórt skarð höggvið í fjölskylduna, sem nærri má geta. En 1963 kvæntist hann aftur Ingiríði Friðriksdóttur, sem er þýzk að ætt og uppruna og kom til Kristins nokkrum árum áður sem ráðskona. Reyndist hún honum stoð og stytta á síðustu æviárunum, en þá átti hann við mikið heilsuleysi að stríða, sem gerði honum mjög erfitt og um síðir ókleift að ganga til vinnu.
Kristinn var lengst af starfsmaður í Fiskimjölsverksmiðjunni í Vestmannaeyjum, og muna flestir núlifandi menn eftir honum þar sem prýðilegum starfskrafti, duglegum og samvizkusömum. Því fyrirtæki vann hann, meðan hann hafði þrek til að ganga á vinnustað. Kristinn var einn af þeim mönnum, sem gefst ekki upp, lætur ekki undan, fyrr en allt er þrotið, öll orka upp urin og ekki lengur neitt aflögu til að ganga síns verka á vit.
Kristinn bjó lengst af í sama húsinu, sem hann reisti að Herjólfsgötu 7. Þar undi hann vel við gott atlæti. Hann andaðist á sjúkrahúsinu 29. maí s.l.

Stefán Arnason
Hraunbúðum
f. 19. sept. 1897 - d. 23. maí 1977.


Nokkru eftir stríðslok flutti fjölmenn fjölskylda hingað norðan úr landi. Var það fjölskylda Stefáns Arnasonar, sem settist hér að og átti síðan heimili hér. Stefán var trésmiður að atvinnu og snéri hann sér að þeim störfum strax eftir hingaðkomuna. Man ég eftir honum í vinnu hjá Bæjarsjóði fyrst framan af að minnsta kosti, en síðar hjá öðrum, m.a. hf. Smið. Þótti hann jafnan góður verkamaður, vandvirkur og duglegur. Stefán stundaði smíðar allar götur til þess er hann hætti störfum sakir aldurs og heilsubrests. Nokkur barna hans fluttust aftur héðan eftir gos, en þau hjónin, Stefán heitinn og kona hans, Ragnheiður settust hér að á ný, og áttu síðustu ár Stefáns heima í Hraunbúðum. Stefán byggði ásamt syni sínum og tengdasyni húsið Kirkjuveg 31, eða Grund, eins og menn kalla það gjarnan, en það er á sama stað og Litla Grund stóð áður. Bjuggu þau hjón lengi á neðstu hæð þessa húss, þar til þau fóru að Hraunbúðum.
Stefán heitinn var iðinn maður og vandvirkur. Hann var traustur maður og skoðanafastur, hélt vel á sínu máli við hvern sem var að eiga. Hann hafði ekki hátt um sig, en gekk sína götu án áreitni við aðra. Með honum hverfur af sjónarsviðinu maður, sem tekið var eftir, hvar sem hann kom, þau kynni, sem ég hafði af honum, munu geymd í minni mínu.

Oddur Guðlaugsson
f. 22. marz 1945 - d. 18. júní 1977.


Oddur í Lyngfelli er dáinn. - Þessi fregn barst um bæinn að morgni mánudagsins 19. júní. Hann hafði þá látizt af slysförum kvöldið áður.
Oddur hafði fengizt við margt á stuttri ævi. Hann ólst upp hjá fósturforeldrum sínum, Guðbjörgu Jónsdóttur og Guðlaugi Guttormssyni í Lyngfelli, en hann var dóttursonur Guðbjargar. Kom hann þangað nýfæddur, og frá Lyngfelli fór hann ekki, fyrr en hann var borinn til grafar í Landakirkjugarði.
Oddur starfaði hjá fósturföður sínum, og var jafnan gott félag með þeim. Hann var harðduglegur að hverju, sem hann gekk, og ósérhlífinn. Auk þess sem hann vann við búskapinn, stundaði hann sjó á ýmsum skipum. Þá reri hann og á trillubát sínum. Hann var fjallamaður mikill og vílaði ekki fyrir sér að klífa kletta fimlega, þegar því var að skipta, enda djarfur og hugrakkur. Hann kom vel fram í öllu dagfari, var ljúfur og glaðlegur, þegar hann var tekinn tali, og gat verið hinn skemmtilegasti í viðræðum.
Oddur var í raun hinn bezti drengur, þótt ýmislegt færi öðruvísi en æskilegt hefði verið, og aldrei veit ég hann hafa látið nokkurn mann synjandi frá sér fara, hafi hann mátt með einhverjum hætti veita honum úrlausn.
Oddur var tvíkvæntur. Fyrri kona hans, Kristín, var frá Færeyjum. Eignaðist hann með henni þrjár dætur. Þau slitu samvistir. Síðari kona hans var Ingibjörg Sveinsdóttir frá Hafnarfirði, og eignuðust þau þrjá drengi. Þau höfðu einnig slitið samvistir skömmu fyrir andlát Odds.
Guðbjörg, fóstra Odds, er látin fyrir allmörgum árum, en Oddur var eftir andlát hennar hjá fóstra sínum Guðlaugi, og aðstoðaði hann við búreksturinn. Guðlaugur er nú farinn að reskjast og orðinn slitinn maður, og var honum því mikill missir að fóstursyninum á bezta aldri. En gott samband ríkti jafnan með þeim, fósturfeðgum, og að því er virtist gagnkvæmur skilningur á lífsþörfum og viðhorfum hvors um sig.
Með Oddi er horfinn dugandi og vaskur maður, drengur hinn bezti í raun.

Kjartan Eggertsson
f. 27. sept. 1954 - d. 28. júlí 1977.


Kjartan heitinn andaðist á ljúfasta skeiði ævinnar, þegar framtíðin virðist brosa við ungum manni, hraustum og drenglyndum, æskuárin að baki, en manndómsárin að hefjast. En vegir Guðs eru órannsakanlegir, og við, sem eftir lifum, eigum svo oft erfitt með að skilja hið fornkveðna, að þeir deyja ungir, sem guðirnir elska. Við hljótum þá að spyrja, hvers vegna þetta sé svona. Hitt væri nær venjulegum mannlegum rökum, að slíkir ástmegir guðanna ættu langt og gifturíkt líf fyrir höndum, réttandi vanmáttugum samferðamönnum hjálparhönd og styðjandi þá, sem stuðnings þurfa með. Kjartan var fæddur og alinn upp í Vestmannaeyjum, sonur hjónanna Svanhvítar Kjartansdóttur og Eggerts Sigurlássonar, húsgagnabólstrara. Kjartan hneigðist ungur að árum að starfsemi skátahreyfingarinnar og varð með auknum þroska og vaxandi afli einn í hinni vösku Hjálparsveit skáta í Vestmannaeyjum. Sveitin var orðin landskunn fyrir þrek og dugnað við æfingar við hin erfiðustu skilyrði. Þeir höfðu glímt við ýmsa fjallatinda og torfærur hér innanlands, drengirnir, og létu ekki þar við sitja, heldur klifu þeir hin hæstu fjöll í Evrópu og torfærustu, m.a. Mont Blanc o.fl.
En þjálfunin ein, hversu góð sem hún er, verður aldrei einhlít. Á hverri göngu leynast hættur, hvort sem er á sléttri götu eða á krosssprungnum jöklum. En jökullinn er því varhugaverðari sem snjórinn breiðir oft og tíðum slæður sínar yfir gjár og hyldýpi. Það var einmitt á einni slíkri ferð á Eyjafjallajökul, sem farin var í þjálfunarskyni, að slysið varð. Skyndilega brast eitthvað undir fótum fjallgöngumanna, og þá var það, sem Kjartan heitinn meiddist svo, að hann komst aldrei, að því er merkt varð, til meðvitundar. Þetta var 6. nóvember 1977. Hjálpin barst eins fljótt og nokkur kostur gat verið á. Var hann þegar fluttur á sjúkrahús, þar sem hann lá síðan í dái, þar til hann andaðist - líf hans fjaraði út hinn 28. júlí 1977. Hafði hann legið rúmfastur og hvergi mátt sig hræra í 32 vikur.
Kjartan heitinn var mikill vinur vina sinna, ágætur félagi og dugandi efnismaður. Er mikill skaði að slíkum mönnum á ungum aldri.

Stefán Árnason
fv. yfirlögregluþjónn
f. 31. desember 1892, d. 29. júlí 1977.


Stefán Árnason - eða Stebbi pól, eins og samborgarar hans nefndu hann jafnan í daglegu tali - var Skaftfellingur að ætt og uppruna. Hann bar líka alla ævi hlýtt hugarþel til æskustöðva sinna á þeim slóðum, en hann ólst upp í Jórvík í Álftaveri hjá Ísleifi bónda Jónssyni. Nefndi hann Ísleif jafnan fóstra sinn, og var honum þakklátur, ekkert síður en hefði hann verið hans eigin sonur.
Stefán fluttist alkominn til Vestmannaeyja árið 1920. Gerðist hann þá næturvörður hér, en löggæzlan varð síðan hans aðalstarf um rúmlega fjögurra áratuga skeið. Móðir hans, Gyðríður Stefánsdóttir, eða Gyða í Mandal, átti hér einnig heimili, og var mjög gott samband þeirra á milli alla tíð, meðan hún lifði.
Stefán var mjög vel greindur maður, þótt ekki hlyti hann skólagöngu. En hann nam í skóla lífsins og aflaði sér víðtækrar þekkingar á áhugamálum sínum. Hann var hafsjór af fróðleik og stálminnugur á menn og málefni, enda veittist honum létt að bregða sér í gervi ýmissa góðborgara. Kom þar fram leiklistarhæfileikinn, sem Stefáni nýttist á bezta veg, enda var hann um langt árabil og fram á áttræðisaldur góður og gildur starfskraftur Leikfélagsins.
Mörg eru þau hlutverk, sem Stefán tók að sér, og er það allra manna mál, að þeim hafi hann skilað með prýði. Enn var það eitt í fari Stefáns, sem gerir hann eftirminnilegan, en það voru þeir hæfileikar hans að bregða svip léttleika og gamansemi yfir fjöldasamkomur, eins og Þjóðhátíðina og fleiri stór mannamót, hvort sem þau voru í Herjólfsdal eða á Stakagerðistúni. Hann var kynnir á ekki færri en 55 þjóðhátíðum, þeirri síðustu 1977. Kunnugt var, að Stefán þráði mjög að geta verið í þessu starfi 1978, á fyrstu þjóðhátíðinni, sem haldin var í Herjólfsdal eftir gos. Því miður entist honum ekki aldur til þess. Hann andaðist eftir nokkra sjúkdómslegu á Sjúkrahúsinu hér 29. júlí, réttri viku fyrir þjóðhátíð. Hann var jarðsunginn frá Landakirkju degi fyrr en hátíðin hófst í Dalnum, og var hans rækilega minnzt við það tækifæri, svo sem verðugt var og hann átti skilið.

Kolbeinn Stefánsson
f. 21. nóvember 1914, d. 25. ágúst 1977.


Kolbeinn Stefánsson var fæddur í Vestmannaeyjum, sonur hjónanna í Skuld, Stefáns Björnssonar og Margrétar Jónsdóttur, sem enn lifir háöldruð. Hann ólst upp í foreldrahúsum við þau skilyrði, sem þá var títt um ungmenni hér í bæ. Snemma fór hann til sjós og réri um langt árabil með föður sínum, Stefáni í Skuld, sem vélstjóri. Eftir það fór Kolbeinn í land og vann um áratug að verzlunarstörfum hjá mági sínum, Helga heitnum Benediktssyni, lengst af í Verzlunarfélaginu, sem stóð við mót Formannabrautar og Njarðarstígs, en er nú orðið hrauni að bráð.
Síðan fór hann aftur til sjós og var um nokkurt skeið viðriðinn útgerð m/b Græðis, sem áður hét Kristbjörg. Vann hann við hana um nokkurra ára bil, en fór þá í land og stundaði almenna vinnu. Síðustu árin vann hann í Eyjabergi hjá Sigurði Þórðarsyni.
Kolbeinn var maður óáleitinn í öllu sínu dagfari. Hann var rólyndur geðprýðimaður og vel liðinn, hvar sem hann gekk til starfa. Ávann hann sér vinsældir og eignaðist kunningja, sem héldu tryggð við hann allt til endadægurs.
Kolbeinn kvæntist árið 1945 Ólöfu Sveinsdóttur. Eignuðust þau eina dóttur barna, Margréti, sem nú er gift kona hér í bæ. Ennfremur ólst upp hjá þeim dóttir Ólafar, Hildur Marinósdóttir, og reyndist Kolbeinn henni sem væri hún hans eigið barn.
Þau hjón slitu samvistir árið 1963. Eftir það bjó Kolbeinn einn sér.
Kolbeinn var mikill Vestmannaeyingur og unni því mannlífi, sem hann hafði kynnzt frá upphafi síns lífshlaups, og stórbrotna náttúrufegurð kunni hann vel að meta. Hann snéri líka heim, eins fljótt og tök voru á, eftir eldhrynuna miklu, því að hér vildi hann una sína ævidaga.

Ágúst Þórðarson
f. 22. ágúst 1893, d. 26. ágúst 1977.


Ágúst á Aðalbóli var nýorðinn 84 ára gamall, er hann andaðist í Reykjavík, þar sem hann hafði átt heimili síðan 1973. Hann var fæddur í Ámundakoti í Fljótshlíð sonur hjónanna Kristólínu Gísladóttur og Þórðar Magnússonar, sem þá bjuggu þar. Systkini Ágústar voru 11 talsins, og var því fyrir stóru heimili að sjá, enda komu börnin til aðstoðar, þegar þau höfðu líkamsþroska til.
Á unga aldri varð stóri systkinahópurinn og móðirin fyrir því áfalli, að heimilisfaðirinn lézt, og var þá vítt skarð fyrir skildi. Ágúst fór þá eftir andlát föður síns að Bakka í Austur-Landeyjum og ólst þar upp. Tveir bræður Ágústar, þeir Magnús Þórðarson í Dal og Gísli Þórðarson, voru komnir hingað út til Eyja á undan honum, ennfremur systir þeirra í Stakagerði. Ágúst flutti fyrst til Magnúsar, bróður síns, sem þá var orðinn formaður og útgerðarmaður hér í Eyjum. Magnús var í fremstu röð sjósóknara á sínum tíma, harðsækinn og duglegur.
Magnús í Dal fórst í róðri og öll áhöfn báts hans 1917. Varð það Ágústi mikið áfall, eins og nærri má geta, og um leið öðrum, sem um sárt áttu að binda við þann hryggilega atburð. Fór hann þá til systur sinnar í Stakagerði og dvaldi næstu árin á því heimili. Hún missti mann sinn 1920, og var Ágúst þá áfram hjá henni.
Árið 1918 kvæntist Ágúst Viktoríu Guðmundsdóttur, hinni mestu myndarkonu. Hún var Árnesingur að ætt og uppruna. Hófu þau sinn búskap í Stakagerði, en 1923 byggðu þau sér húsið Aðalból gegnt Stakagerði, og þar bjuggu þau æ síðan, allt til þess að þau sem aðrir bæjarbúar hröktust á aðrar slóðir undan eldi og eimyrju 1973, eða um 50 ára skeið. Settust þau hjón að í Reykjavík og bjuggu í einni íbúðinni við Brekkulæk í Reykjavík, þar sem Viktoría býr enn.
Þeim hjónum varð 6 barna auðið, og eru öll á lífí, nema dóttirin Ester, sem andaðist í blóma lífsins fyrir nokkrum árum, og varð þeim hjónum, sem og öðrum er hana þekktu, mikill harmdauði, langt um aldur fram.
Ágúst stundaði almenna vinnu í Vestmannaeyjum, eins og hún gerðist um hans daga, en hóf fljótt störf við fiskmat, sem hann stundaði síðan meginhluta ævi sinnar, varð yfírfískimatsmaður í Vestmannaeyjum um árabil og skilaði þeim vandasömu störfum af mikilli sæmd og vandvirkni, enda mátti hann ekki vamm sitt vita í nokkrum hlut.
Ágúst var einnig virkur þátttakandi í verkalýðsbaráttunni um sína daga og hafði jafnan mikinn áhuga á þeim málum. Hann var t.d. um skeið formaður í Verkalýðsfélagi Vestmannaeyja og vann þar mikið og gott starf. Auk þess tók hann talsverðan þátt í félagslífí hér í bæ, hafði mikla ánægju af því að taka í spil og virkur á þeim vettvangi. Hann var og félagi í Oddfellowreglunni og gekk að þeim störfum sem hverjum öðrum, með áhuga.
Ágúst hætti störfum við fiskmat á venjulegum aldursmörkum opinberra starfsmann, en þrátt fyrir aldurinn lagði hann ekki árar í bát, en fékk sér störf við sitt hæfi. Hann var heilsuhraustur fram á síðustu ár, en hafði um skeið fyrir andlát sitt átt við nokkra vanheilsu að stríða.
Með Ágústi á Aðalbóli er horfinn af sjónarsviðinu maður, sem lagði marga steina í þá lífsgæðahöll, sem við, hinir eftirlifandi, búum að í dag. Hann hafði lokið miklu dagsverki á reynsluþungum æviferli, en kvaddi heiminn sáttur við allt og alla.

Hafþór Pálmason
f. 22. feb. 1954 - d. 10. sept. 1977.


Hafþór var fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum, sonur hjónanna Stefaníu Marinósdóttur og Pálma Sigurðssonar frá Skjaldbreið. Hafþór ólst upp við þau skilyrði sem aðrir í sínum heimabæ. Hann var efnilegur maður, duglegur að hverju, sem hann gekk. Í foreldrahúsum dvaldist hann alla tíð, en eftir eldgos settust foreldrar hans að í Garðabæ, en Hafþór dvaldi meira og minna í Vestmannaeyjum.
Hann tók þátt í músiklífi bæjarins, og var a.m.k. um skeið hljóðfæraleikari í hljómsveit þar.
Hafþór hafði unnið að því að byggja upp heimili í Vestmannaeyjum, en áður hafði svo ráðist, að hann færi skemmti- og hressingarferð til sólarlanda, eins og nú gerist svo títt, bæði meðal ungra og gamalla. Hann hafði hlakkað mjög til þessarar ferðar, eins og svo margir gera, sem fara í fyrsta sinn á þessar slóðir. En úr þessari ferð átti hann ekki afturkvæmt lifandi. Hann lést af slysförum á Majorca 10. september 1977, aðeins 23 ára að aldri.
Með Hafþóri er höggvið stórt skarð í fjölskyldu hans - skarð, sem stendur opið og ófyllt. Hann var dulur og bar ekki tilfinningar sínar eða hugsanir á torg, en hann var hverjum manni raunbetri og trúr vinur vina sinna. Við slíkum ráðstöfunum almættisins, að hrífa unga menn burtu af sjónarsviðinu á svo ungum aldri og með svo sviplegum hætti, sem raun er á, eigum við, máttvana menn, engin svör. Ef til vill hefur Davíð, konungur, rétt fyrir sér, þegar hann segir: Ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn. Við 10. september 1977 stóð: Hingað - og ekki lengra. Hér lýkur lífi þínu, ungi maður. Þér er ætlað annað hlutverk á öðrum sviðum - æðri jarðnesku lífi.
Með þessum orðum kveð ég Hafþór, vin minn, og bið öllum aðstandendum hans blessunar Guðs og þess styrks, sem hann veitir í nauðum.
X.

Einar M. Einarsson
f. 2 maí 1892 - d. 18. sept. 1977.


Einar M. Einarsson, fyrrum skipherra á varðskipum ríkisins, var fæddur í Ólafsvík, sonur Einars Markússonar, síðar ríkisféhirðis, og konu hans Guðrúnar Lýðsdóttur. Einar hélt ungur maður til Reykjavíkur, þar sem hann stundaði trésmíðanám í tvö ár, en hafið heillaði, og réðist hann því á vertíð í Vestmannaeyjum. Stundaði hann sjóinn héðan um skeið á ýmsum bátum, og þótti duglegur og harðsækinn.
Einar lauk farmannaprófi 1918, og réðist hann þá sem stýrimaður í millilandasiglingar. En 1920 gerðist hann stýrimaður á v/s Þór, sem Björgunarfélag Vestmannaeyja hafði þá fest kaup á til gæzlustarfa. Var hann á Þór allt til ársins 1926. Var hann skipherra í afleysingum á þessu tímabili, og kom þá fljótt fram dugnaður hans og harðfylgi við landhelgisgæzluna. Á einum mánuði tók hann ekki færri en 10 togara og færði til hafnar, og annaðist svo veiðarfæragæzlu af stakri kostgæfni og árvekni. Þegar varðskipið Ægir, hinn fyrsti með því nafni, kom til landsins nýsmíðaður 1929, tók Einar við stjórn á honum. Fór fljótlega orð af honum við landhelgisgæzluna, og hann var ekki síður duglegur og snjall við að bjarga skipum, ýmist úr beinum sjávarháska eða ná strönduðum skipum á flot.
En einhverra hluta vegna hætti Einar skyndilega - eða var látinn hætta - skipstjórn, og er ekki enn í dag ljóst, hvað því olli.
Á eftirstríðsárunum hafði Einar eftirlit með smíði fiskiskipa fyrir Íslendinga í Svíþjóð, en þaðan voru í stríðslok keyptir allmargir bátar, sem síðan settu svip sinn á fiskimið við Íslandsstrendur á næstu árum. Eru sumir þeirra enn í fullum gangi.
Einar M. Einarsson var mjög grandvar maður og heill að hverju sem hann gekk, æðrulaus í andstreymi. Um hann stóð mikill styrr á sínum tíma, en öldurnar hefur nú lægt, og það verður verkefni við skráningu á sögu Landhelgisgæzlunnar að minnast Einars rækilega og meta störf hans að verðleikum.

Gísli Brynjólfsson
f. 2. okt. 1903 - d. 24. okt. 1977.


Gísli var fæddur að Kálfsstöðum í Vestur-Landeyjum og ólst þar upp í stórum systkinahópi. Hann vandist að sjálfsögðu þeim verkum, er þá var títt að vinna til sveita, en 14 ára gamall fór hann að heiman í fyrsta skipti í atvinnuleit. Lagði hann land undir fót og fór til Suðurnesja, þar sem hann stundaði jöfnum höndum störf við sjóróðra og vinnu í landi. Fór hann á næstu árum á hverri vertíð suður þangað, en dvaldi síðan heima á sumrum og vann sínu heimili.
Snemma mun hugur Gísla hafa stefnt að því að fara á vertíð í Vestmannaeyjum, en það var ekki fyrr en 1930, að úr því varð. Varð það upphaf að fleiri vertíðarferðum hingað út á næstu árum. Flytzt hann búferlum til Vestmannaeyja árið 1940 og átti hér heimili síðan til ársins 1973, er hann yfirgefur Vestmannaeyjar, eins og aðrir í janúarmánuði það ár. Gísli átti ekki afturkvæmt hingað, en settist að í Keflavík, þar sem hann lézt af afleiðingum vinnuslyss.
Á fyrstu árum sínum í Eyjum hóf hann nám í trésmíði á verkstæði Ársæls heitins Sveinssonar. Hjá Ársæli og síðar sonum hans vann Gísli síðan alla tíð, meðan hann dvaldi hér. Hafði hann þar á hendi verkstjórn og smíðavinnu og fór gott orð af honum sem góðum smið. Taldi Gísli sig mikinn lánsmann að hafa lent hjá Ársæli og bar mikla virðingu fyrir honum. Mun sá trúnaður er milli þeirra myndaðist, hafa verið gagnkvæmur og Ársæll heitinn og synir hans kunnað vel að meta handbragð Gísla við smíðar og lagfæringar.
Gísli kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðrúnu Þorsteinsdóttur, og var sú sambúð til fyrirmyndar á allan hátt. Guðrún var þá ekkja með sjö börn, og gekk Gísli þeim í föðurstað. Guðrún átti við nokkra vanheilsu að stríða, og lét hann sér mjög annt um að reyna með öllum ráðum að ráða bót á þeim vandkvæðum.
Gísli var mikill trúmaður og einlægur stuðningsmaður hvers konar starfsemi, sem horfði í þá átt. Hann var um langt árabil félagi í Kirkjukór Landakirkju og lét sig aldrei vanta við messugjörðir. Hann var einnig mikill stuðningsmaður starfsemi K.F.U.M. & K. hér, og ómældur er sá skerfur, er hann lét renna til starfsins, sem íslenzkir kristniboðar hafa rekið í Konsó í Eþíópíu til skamms tíma. Eftir að hann fluttist til Keflavíkur, hélt hann uppteknum hætti með kirkjuferðir og slakaði í engu þar á, þótt ekki sækti hann þá kirkju, sem honum var sennilega hjartfólgnust.
Eins og fyrr segir, lézt Gísli af afleiðingum vinnuslyss í Keflavík 24. október 1977, og þar er hann grafinn.

Gísli Jónsson frá Arnarhóli
f. 23. jan. 1883 - d. 26. okt. 1977.


Gísli á Arnarhóli lézt í Vestmannaeyjum 26. október 1977, tæplega 95 ára að aldri. Hann var fæddur að Arnarhóli í Landeyjum 23. janúar 1883, sonur Sólveigar Gísladóttur og Jóns Brandssonar. Er Gísli síðastur barna Jóns Brandssonar, sem kveður þennan heim, en hann átti 30 hálfsystkini, sem öll eru látin. Er afkomendahópur þeirra fjölmennur, eins og gefur að skilja.
Gísli átti við ýmsa erfiðleika að stríða í uppvexti, eins og ljóst má vera af því, að hann hafði vist á 16 bæjum fram að fermingu í Sigluvíkurkirkju. Ekki varð það þó séð á Gísla í daglegri umgengni við samtíðarmenn sína, að hann bæri beiskju til þessara tíma, en þessum erfiðleikum létti, er hann fluttist til Vestmannaeyja og hóf þar störf, sem hann fékkst hvað lengst við.
Gísli hóf sjóróðra frá Landeyjasandi á bátnum Gæfu, sem þá stýrði Einar Þorsteinsson frá Arnarhóli, síðar tengdafaðir hans. En hann var ekki lengi við þau störf, því fljótlega réðst hann í skipsrúm til Ástgeirs í Litlabæ á róðrarskipinu Herjólfi. Síðar réri hann á Ísak með Guðmundi Magnússyni á Löndum og fleiri skipum.
Gísli gerðist sameignarmaður Vilmundar Friðrikssonar á v/b Víkingi. Var Gísli síðan formaður á þeim báti, en um 1925 lætur hann smíða nýjan Víking, sem hann stýrir síðan um langt árabil. Auk þess var hann formaður á fleiri bátum milli þess, sem hann fór með Víking.
Eftir að Gísli hætti sjómennsku eftir meira en 40 ára glímu við Ægi, gerðist hann starfsmaður Vestmannaeyjabæjar. Vann hann þau störf af sömu alúð og af sama kappi og áður, meðan honum entist starfsþrek.
Gísli kvæntist Guðnýju Einarsdóttur frá Arnarhóli, en hún var dóttir Einars Þorsteinssonar, þess, sem Gísli hóf að róa með frá Landeyjasandi. Þau hjón voru því bæði frá Arnarhóli og því ekki að undra, að þau nefndu sitt eigið hús í Vestmannaeyjum því nafni.
Guðný andaðist árið 1956, og eignuðust þau hjón alls 6 börn. Fimm þeirra eru á lífi, og eru þrjú þeirra búsett utan Vestmannaeyja, þ.e. Einar Jóhannes, forstöðumaður Fíladelfíusafnaðarins, Salóme, sem var gift Vigfúsi heitnum Jónssyni, vélsmið, og Þyrí, sem gift er Haraldi Steingrímssyni, rafvirkja. Hér í Eyjum eru Svava, gift Óskari P. Einarssyni, fyrrv. lögregluþjóni, frá Búðarhóli í Landeyjum og Óskar Magnús, kvæntur Kristínu Þorsteinsdóttur.
Gísli á Arnarhóli var léttur og kvikur í spori, spaugsamur í viðræðum við menn og léttlyndur, en undir niðri var hann mikill alvörumaður og ljúfmenni. Er því sérstaklega við brugðið, hve barngóður hann var, sem einkum kom fram í hlýleika, en þó festu, við þau ungmenni, sem réðust í fyrsta skipti í skiprúm til hans. Veitti hann þeim gott veganesti á lífsbraut þeirra þannig, að allir komust þeir til nokkurs þroska. Hann var líka einlægur trúmaður, sem dáði sálmaskáldið Hallgrím Pétursson og las predikanir Jóns meistara Vídalín sér og öðrum til andlegrar uppbyggingar. Hann var tíður gestur við messugjörðir, og taldi heldur ekki eftir sér að ganga niður Faxastíginn og hlýða á Guðs orð í Betel, en þar urðu synir hans forystumenn í starfi þess safnaðar.
En svo bar til að morgni 23. janúar 1973, að eldgos hófst í Vestmannaeyjum, en þann dag varð Gísli á Arnarhóli níræður. Var hann mjög tregur til að yfirgefa Eyjarnar, en hlaut þó að láta undan um síðir. Dvaldi hann þá hjá dóttur sinni í Reykjavík, unz hann kom aftur til Eyja. Eyddi hann síðustu ævidögunum við gott atlæti á Dvalarheimilinu Hraunbúðum.
Með Gísla er horfinn af sjónarsviðinu einn þeirra ágætu manna, sem lögðu sig alla fram um að bæta sitt umhverfi og fegra það mannlíf, sem þeir hrærðust í. Hann var mikill félagsmaður, enda átti hann sæti í stjórnum ýmissa félagasamtaka hér í bæ og studdi þau drengilega. Það var alltaf gaman að ræða við Gísla um daginn og veginn og raunar hvað sem var. Hann fylgdist vel með gangi mála og var jafnan lifandi maður, hvar sem hann fór.

Sigurður Scheving
f. 9. apríl 1910 - d. 10. nóv. 1977.


Hann var fæddur í Vestmannaeyjum, sonur hjónanna Kristólínu Bergsteinsdóttur og Sveins P. Scheving. Sigurður ólst upp í foreldrahúsum, en hóf um 1930 nám í Samvinnuskólanum. Varð hann eftir það skrifstofumaður á Bæjarskrifstofunum, þar til hann fluttist héðan 1946. Flutti hann þá til Reykjavíkur og starfaði um nokkurra ára skeið hjá Bílasmiðjunni h.f., en fluttist síðan til Ólafsvíkur. Þar var hann skrifstofustjóri hjá Hraðfrystihúsi Ólafsvíkur, en fór þaðan árið 1963 og settist að á Hellu. Vann hann hjá Kaupfélaginu Þór, meðan honum entist heilsa til þess. Flutti hann síðan til Reykjavíkur 1976 og átti heima þar til dauðadags. Sigurður Scheving var á Vestmanneyjaárum sínum viðriðinn fjölþætt störf. Hann var um árabil ritstjóri vikublaðsins Víðis og þótti harðskeyttur penni á þeim árum, enda var þá talsvert meiri hiti í kolunum en nú er orðið, þótt sumum finnist stundum æði heitt. Hann tók virkan þátt í starfi Leikfélags Vestmannaeyja og var formaður þess um skeið. Stýrði hann oft leiksýningum auk þess sem hann lék mörg hlutverk á fjölum gamla Gúttós og síðar Samkomuhússins.
Sigurður kvæntist Margréti Skaftadóttur frá Fossi í Mýrdal 1937. Eignuðust þau 5 börn, sem öll hafa komizt vel áfram í lífinu og er myndarfólk.
Sigurður þótti mjög fær bókhaldari og skrifaði fallega hönd. Var hann og vandvirkur, og er frágangur á bókum þeim, sem hann fór höndum um, glöggt vitni þar um.
Sigurður var maður léttlyndir og kátur í góðum hópi, greindur vel og góðviljaður og vildi hvers manns hag.
Hann andaðist í Reykjavík 10. nóvember 1977.

Eiríkur Ásbjörnsson
f. 21. maí 1893 - d. 24. nóv. 1977.


Eiríkur var fæddur á Eyrarbakka, sonur hjónanna Sæfinnu Jónsdóttur og Ásbjörns Eiríkssonar. Föður sinn missti hann 6 ára gamall. Skömmu síðar flutti móðir hans ásamt tveim börnum sínum, þeim Eiríki og Jónínu, til Stokkseyrar. Þar ólst Eiríkur upp með móður sinni og fóstra sínum, Þórði Sigurðssyni. Hálfbróðir Eiríks, Hinrik Þórðarson, bóndi í Útverkum, hefur skráð endurminningar hans, og birtust þær í Sjómannadagsblaðinu 1976. Er því ekki ástæða til að tíunda þann feril Eiríks, svo skemmtilega hefur hann sjálfur rakið hann í nefndri grein.
Hingað til Vestmannaeyja kom Eiríkur 1918, er hann réðist háseti á m/b Unni frá Stokkseyri, en formaður á þeim báti var Bryngeir heitinn Torfason. Árið eftir er hann ráðinn í skiprúm á m/b Emmu, sem þá var í smíðum vestur á Ísafirði fyrir Reyndal, bakara. Þannig skipaðist þá málum, að Eiríkur keypti bátinn ásamt Birni Bjarnasyni í Bólstaðarhlíð, og gerðu þeir hann út saman um langt árabil, eða þar til Björn andaðist. Varð Eiríkur þá einkaeigandi Emmu eftir það og gerði hana út, þar til hann seldi hana, en keypti í staðinn stærra skip, Emmu II. Þeim báti hélt hann úti um nokkurra ára skeið, en seldi hana síðan og hætti þá útgerð.
Eiríkur var um langt skeið sjálfur formaður á Emmu eldri og Björn var vélstjóri. Þótti útgerð þeirra traust og farsæl sakir góðs afla og ráðdeildar og hirðusemi á öllu, er snerti útgerðina.
Eiríkur verkaði sjálfur þann fisk að langmestu leyti, sem aflaðist á Emmurnar. Átti hann fiskverkunarhús við Skildingaveg. Hafði hann nokkrum árum áður en hann hætti útgerð stækkað húsið og endurbætt.
Eiríkur kvæntist á jóladag 1921 Ragnheiði Ólafsdóttur, eða Heiðu í Eiríkshúsi, eins og vinir þeirra hjóna og kunningjar nefndu hana. Hún var frábærlega vel gerð kona og stóð við hlið eiginmanns síns í blíðu og stríðu og studdi hann með ráðum og dáð. Eignuðust þau þrjú börn, tvo syni, Ólaf, sem lézt í bernsku, og Ingólf, sem látinn er fyrir nokkrum árum, og Erlu, sem gift er Sigurgeir Ólafssyni, skipstjóra.
Eiríkur tók mikinn þátt í félagsstörfum útvegsmanna í Vestmannaeyjum. Sat hann í stjórnum margra félaga og þótti nýtur maður sakir víðtækrar reynslu og þekkingar á útgerð. Hann var líka sjálfur áhugasamur um allt það, er honum þótti til heilla horfa fyrir stétt sína og byggðarlagið í heild, því að honum var það ljóst, eins og auðvitað mörgum öðrum, að án fiskveiða og útgerðar hefði orðið fátæklegt mannlíf hér í Eyjunum.
Með Eiríki Ásbjörnssyni er horfinn af sjónarsviðinu maður, sem um langt árabil setti svip á bæinn, maður, sem tekið var eftir, hvar sem hann fór. Hann andaðist á sjúkrahúsinu 24. nóvember 1977.

Guðjón Tómasson
f. 29. ágúst 1925 - d. 2. des. 1977.


Guðjón heitinn var fæddur í Vestmannaeyjum, sonur Guðrúnar Árnadóttur og Tómasar M. Guðjónssonar í Höfn. Guðjón ólst upp hjá móður sinni í Vestmannaeyjum og vann þá þau störf, sem títt var um ungmenni á þeim árum. Um tvítugsaldur hóf Guðjón störf hjá Landsímanum fyrst sem línumaður, síðan á radioverkstæði símans. Lauk hann prófi í símvirkjun árið 1949 og vann einkum á næstu árum við fjarskiptabúnað Flugmálastjórnar, sem Landsíminn hafði eftirlit með á þeim árum. Starfaði hann m.a. með nefnd á vegum Alþjóða flugmálastofnunarinnar að uppsetningu tækja, er gerðu kleift blindflug innanlands. Tók Guðjón síðan að sér forstöðu sérstakrar radiodeildar, sem sett var á stofn á vegum Flugmálastjórnar.
Guðjón heitinn var sérstaklega vel látinn í starfi, og átti það jafnt við um yfirboðara hans sem samstarfsmenn. Hann var trúr og traustur vinur vina sinna og jafnan fús til að rétta fram hönd sína, ef eitthvað bjátaði á. Hann lét sér mjög annt um, að starfsmenn þeir, sem undir hann voru settir, ættu jafnan kost á endurhæfingu og þjálfun í starfsgrein sinni. Var þetta ekki síður nauðsynlegt á sviði flugferða en annars staðar, þar sem slíkt viðgengst á annað borð.
Guðjón hafði jafnan gott og náið samband við hálfsystkini sín. Í minningarorðum, er Sigurður Sigurgeirsson skrifaði um Guðjón látinn, segir svo:
„Radíovitar senda frá sér merki og vísa þannig vélum rétta leið milli staða og niður á flugvellina. Flestir hafa setið í flugvél, þegar ekki sást út úr augum fyrir myrkri, byl og skýjum, og kannske verið órótt innanbrjósts. Það er þá, sem flugmennirnir setja traust sitt á vitana hans Guðjóns og hans manna.“ Haft er eftir Guðjóni sjálfum: „Tæknin er góð.“ En það eru orð að sönnu, að ekki er sama, með hvaða hugarfari þar er gengið um dyr. Það var venja Guðjóns, að við hvern áfanga vígði hann verkin, áður en frá var gengið með krossmarki og bænarorðum.
Guðjón heitinn Tómasson var kvæntur Margréti Ólafsdóttur, en hún andaðist skömmu áður en andlát Guðjóns bar að. Liðu aðeins átta dagar milli andláts þeirra hjónanna. Guðjón heitinn fékk hjartaáfall undir stýri á bifreið sinni, og var ekki unnt að bjarga lífi hans. Hann kvaddi heiminn sáttur við Guð og menn.

Guðmundur Helgasson
f. 5. febr. 1884 - d. 15. des. 1977.


Guðmundur Helgason var Landeyingur að uppruna, fæddur að Grímsstöðum í Vestur - Landeyjum, sonur Helga bónda Árnasonar og Sigríðar Eiríksdóttur, sem þá bjuggu þar. Helgi, faðir hans, stundaði sjóróðra með búskapnum, eins og þá var ekki ótítt þar í sveitum. Átti hann jul og fjögramannafar. Fékk Guðmundur oft að fljóta með á sjóinn, eftir að hann hafði aldur til, og er það fyrsta reynsla hans á sviði sjómennskunnar, sem átti síðar eftir að verða mun meiri.
Þegar Guðmundur var á 16. ári dó Helgi faðir hans, og fór hann þá að Skúmstöðum, þar sem hann dvaldi næstu árin. Sigurður, bóndi á Skúmsstöðum, réði Guðmund til sjóróðra í Þorlákshöfn, en Guðmundur fór hvergi í það skiprúm. Hann réðist á eina af skútum Ásgeirsverzlunar á Ísafirði, og var hann síðan næstu árin í Reykjavík. Guðmundur flutti til Vestmannaeyja um 1910 og réðist í skiprúm hjá Stefáni heitnum í Gerði, sem þá var í þann mund að hefja sinn frægðarferil á sjónum.
Árið 1912 gerðist Guðmundur formaður á Geysi, danskbyggðum báti, sem kom til Eyja um 1907, 8 tonn að stærð. Eigendur bátsins voru m.a. Ágúst Gíslason í Valhöll og séra Jes A. Gíslason, ennfremur Sigríður í Vertshúsinu, sem fékk Guðmund til að taka að sér stjórn á bátnum. Var Guðmundur með fleiri báta á næstu árum og farnaðist ávallt vel á sjó.
Guðmundur tók þátt í fyrsta stýrimannanámskeiðinu, sem Sigfús heitinn Scheving í Heiðarhvammi hélt 1918. Hann hætti þá formennsku, þótt enn væri hann á sjónum allt til ársins 1924, en hætti þá sjómennsku og fór í land.
Á stríðsárunum hafði Guðmundur á hendi stjórn við lestun ísfisks í skip til útflutnings. Var það vandasamt verk og mikið undir því komið, að rétt væri að hlutunum staðið. Jafnframt var hann vigtarmaður, og var engu að síður nauðsynlegt, að tilskilin vottorð væru rétt og vel frágengin. Öll þessi störf vann Guðmundur af hinni mestu samvizkusemi og árvekni.
Eftir að Vinnslustöðin hf. tók til starfa, var Guðmundur vigtarmaður þar um langt skeið, unz hann fyrir aldurs sakir hætti störfum.
Guðmundur var vel greindur maður, skemmtilegur í viðræðum og fjölfróður. Hann hóf snemma þátttöku í félagsmálastarfi sjómanna og var einn af stofnendum Sjómannafélagsins Jötuns, gjaldkeri um langt skeið og formaður. Hann var eldheitur baráttumaður, og snerist hann á sveif með Alþýðuflokknum. Þeim flokki vann hann meðan hann hafði heilsu til, stjórnaði kosningaskrifstofum hans og vann af alefli að framgangi stefnumála hans. Þá var Guðmundur í essinu sínu, er nálgaðist kosningar.
Guðmundur var kvæntur Guðrúnu Kristjánsdóttur, og eignuðust þau þrjú börn. Síðar bjó hann með Ástu Vilhjálmsdóttur, en þau slitu samvistir.

Sveinbjörn Hjartarson
f. 4. nóv. 1951 - d. 5. jan. 1978.


Sveinbjörn Óskar hét hann fullu nafni. Hann fæddist hér í Vestmannaeyjum 4. nóvember 1915 og ólst upp í foreldrahúsum. Foreldrar hans voru hjónin Katrín Sveinbjörnsdóttir, sem látin er fyrir allmörgum árum, og Hjörtur Einarsson, sem lengstum var kenndur við Geitháls, en hann lézt 30. desember 1975.
Sveinbjörn, en það nafn notaði hann í daglegum skiptum, ólst upp í foreldrahúsum í stórum systkinahópi, en ungur að árum hóf hann sjóróðra með Oddgeiri Þórarinssyni á m/b Höfrungi, var síðan með Eyjólfi á Búastöðum um skeið, vélstjóri á Gullveigu, en gerðist formaður á Hilmi 1945. Síðan réðist hann á m/b Frigg, sem þá var eign Einars heitins Sigurðssonar, en þann bát keypti hann síðan ásamt bróður sínum Alfreð, sem var vélstjóri á bátnum. Áttu þeir bræður þennan bát til ársins 1952, en þá seldu þeir hann vestur á land.
Sveinbjörn og skipshöfn hans unnu mikið björgunarafrek á gömlu Frigg, er þeim tókst að bjarga 7 mönnum af m/b Veigu, en hún fórst í aftakaveðri 1951. Komust þessir sjö skipverjar í gúmbjörgunarbát, og er þetta í fyrsta skipti, sem slíkt björgunartæki kemur að fullum notum við slíkar aðstæður. Sýndi Sveinbjörn mikla lagni og dugnað við þær erfiðu aðstæður, sem þá voru.
Árið 1952 stofna þeir bræður hlutafélagið Geitháls, sem kaupir bát frá Danmörku, 49 lestir að stærð, og nefndu þeir hann Frigg, eins og hinn fyrri. Gerðu þeir bátinn út með miklum krafti og dugnaði og öfluðu oft vel á hann.
Þessi bátur sökk út af Krísuvíkurbergi snemma árs 1973, en þá höfðu þeir vegna eldgossins flutt útgerð sína til Grindavíkur. Mannbjörg varð, er báturinn fórst.
Sveinbjörn hóf skömmu eftir bátstapann störf í Álverinu í Straumsvík, en flutti síðan heim og gerðist starfsmaður á grafskipinu. Síðustu mánuðina hafði hann þó snúið sér að sjómennskunni á ný á lítilli fleytu, sem einnig var nefnd Frigg, eins og hinir fyrri bátar. Átti hann hlut í bátnum ásamt syni sínum, Guðmundi.
Sveinbjörn andaðist á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja eftir nokkra sjúkdómslegu þar.
Sveinbjörn var kvæntur Guðrúnu Guðmundsdóttur, sem ættuð var að austan. Eignuðust þau þrjú börn, sem öll eru á lífi, en þau eru Helga, nú búsett í Hafnarfirði, Guðmundur, skipstjóri í Vestmannaeyjum og Hjörtur, netagerðarmaður á Stokkseyri.
Guðrún átti um langt árabil við sárustu vanheilsu að stríða. Var því jafnan viðbrugðið, hversu eiginmaðurinn lét sér annt um hana og heimilið í langvinnum veikindum hennar. Enda er það samdóma álit allra, sem kynntust Sveinbirni, að þar hafi verið góður drengur á ferð. Hann var dugandi sjómaður og aflamaður, þótt ekki yrði hann sæmdur tignarheitum, enda honum allfjarri skapi að láta hlaða slíku á sig. Hann var mjög laginn sjómaður, sem bezt kom fram, þegar mest á reyndi, þ.e. við björgun áhafnarinnar af Veigu.
Með Sveinbirni á Geithálsi er genginn maður, sem samtíðarmenn hans munu minnast fyrir drengskap, dugnað og atorku.

Svavar Þórðarson
f. 11. feb. 1911 - d. 10. jan. 1978.


Svavar á Tanganum var hann venjulega kallaður manna á milli í Vestmannaeyjum. Svo nátengt var starf hans á vegum þess fyrirtækis honum sjálfum, að þar mátti ekki á milli sjá, enda kom það greinilega fram í nafngiftinni.
Svavar var fæddur á Seyðisfirði, sonur hjónanna Halldóru Ólafsdóttur og Þórðar Tómassonar. Barn að aldri flutti hann til Vestmannaeyja, og þar átti hann síðan heimili allt til ársins 1973. Eftir jarðeldana átti Svavar ekki afturkvæmt til Eyja, þótt vissulega stefndi hugur hans í þá átt að koma þangað aftur til starfa.
Svavar ólst upp hjá fósturforeldrum á Litlu-Grund, þeim Guðríði Halldórsdóttir og Guðmundi Jessyni. Hann hefur vafalaust átt svipaða bernsku og önnur börn og ungmenni í Vestmannaeyjum á þeim tíma og naut þeirrar skólagöngu, sem þá var títt, en telst ekki löng á nútímamælikvarða. Svavar var samt vel að sér um margt og vel metinn, hvar sem hann lagði hönd að verki.
Daginn eftir fermingu réðist hann til starfa á Tanganum, þ.e. fyrirtækinu Gunnar Ólafsson & Co. hf. og þjónaði því allt til 1973, er hann varð ásamt öðrum Vestmannaeyingum að hrekjast á aðrar slóðir af alkunnum ástæðum. Hafði Svavar, svo lengi sem ég man eftir, á hendi vöruafgreiðslu fyrir fyrirtækið, en það hafði um langan aldur haft á hendi skipaafgreiðslu fyrir Eimskip og Ríkisskip um tíma. Vann hann við þetta óslitið um nær hálfa öld, og er það líklega fátíður starfstími hjá einu og sama fyrirtæki. Svavar gat sér að sjálfsögðu mjög gott orð í starfi sínu, svo þægilegur og jafnframt áreiðanlegur sem hann var. Gilti þar einu, hvort í hlut áttu viðskiptamenn eða verkamenn, sem undir hans stjórn unnu. Mikið var um það á öllum árum, einkum að sumarlagi, að unglingar réðust í skipavinnu. Nutu þeir leiðsagnar Svavars og bjuggu margir að hollráðum hans alla tíð síðan. Hann gleymdi ekki þeim, sem vel unnu og sýndi þeim ávalt góðvild, þótt leiðir skildust.
Eftir eldsumbrotin í janúar 1973 starfaði Svavar á vegum Eimskipafélagsins hér í Reykjavík. Vann hann á vöruafgreiðslum þess, ýmist í Sundahöfn eða Skúlaskála. En eins og fyrr segir, stefndi hugurinn heim í Vestmannaeyjar, þótt heimkoman yrði með öðrum hætti en til var ætlast. Hann andaðist á sjúkrahúsi í Reykjavík 10. janúar s.l.
Eftirlifandi eiginkona Svavars er Þórunn Sigurjónsdóttir, sem hann kvæntist í september 1938. Þau bjuggu fyrst að Litlu-Grund, sem nú er horfin, en reistu sér síðar myndarlegt íbúðarhús að Heiðarvegi 11. Þar bjuggu þau rúmlega tvo áratugi, en heimili þeirra stóð síðast að Hólagötu 5. Þau hjónin eignuðust sex dætur, sem allar eru á lífi.
Þórunn átti lengi við heilsuleysi að stríða, og lét Svavar sér mjög annt um, að henni liði sem bezt, og sparaði ekki það, sem hann mátti vinna til þess, að svo yrði.
Svavar var hinn bezti drengur og minnilegur maður þeim, sem honum kynntust.

Friðrik Halldór Magnússon
f. 15. apríl 1904, d. 15. janúar 1978.


Halldór eða Halli á Grundarbrekku, eins og hann var oftast nefndur manna í milli, var fæddur að Nýjabæ í Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru Þorbjörg Jónsdóttir frá Norðurgarði í Mýrdal og Magnús Eyjólfsson frá Tobbakoti í Þykkvabæ. Þau bjuggu lengst af í Vestmannaeyjum og á Grundarbrekku, húsi, sem þau reistu 1913. Þau voru alsystkin, Guðrún, sem nú er húsfreyja á Grundarbrekku, Magnús Þórarinn, sem andaðist 9 dögum síðar en bróðir hans, en hálfsystkini hans voru Gísli heitinn Magnússon, útgerðarmaður, og Guðrún, sem lifir háöldruð í Nýjabæ í Þykkvabæ.
Á unga aldri réðist Halldór til starfa í Fiskimjölsverksmiðju þeirri, er Gísli J. Johnsen hafði látið reisa í Vestmannaeyjum, ein fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Hjá þessu fyrirtæki vann hann síðan nærfellt allan sinn aldur, utan skamms tíma, er hann bjó að Ingólfshvoli í Ölfusi.
Á starfsferli Halldórs í Fiskimjölsverksmiðjunni var hún endurbyggð a.m.k. þrisvar sinnum, og þrátt fyrir húsbændaskipti starfaði hann þar áfram. Er alkunnugt, að húsbændur hans á öllum tíma virtu hann og mátu mikils störf hans hjá fyrirtækinu, svo sem þeir munu líka hafa sýnt í verki.
Halldór hætti störfum árið 1969, enda orðin slitinn maður og heilsan tekin alvarlega að bila.
Hann kvæntist Jónu Gísladóttur frá Þorgrímsstöðum í Ölfusi, og eignuðust þau fjögur börn, sem öll eru á lífi, tvö þeirra búsett hér í bæ, en hin hafa tekið sér bólfestu annars staðar. Halldór var mikill og einlægur trúmaður. Hann var dugandi starfskraftur í Betel-söfnuðinum hér í meira en hálfa öld og kunnur prédikari, auk þess sem hann annaðist sunnudagaskólann af mikilli kostgæfni. Halldór andaðist eftir erfiða sjúkdómslegu 15. janúar s.l. og var jarðsettur 23. sama mánaðar, en þá voru liðin 5 ár frá upphafi eldgossins.

Þórarinn Hallbjörnsson
f. 7. ágúst 1916, d. 3. febrúar 1978.


Þórarinn Hallbjörnsson var ættaður frá Seyðisfirði, en fluttist þaðan 12 ára gamall með foreldrum sínum til Reykjavíkur. Þar lærði hann matreiðslu, sem síðan var hans ævistarf. Var hann lengi matsveinn á skipum, síðustu árin hjá Hafskip.
Þórarinn var kvæntur Hildi Þóru Þórarinsdóttur Gíslasonar á Lundi í Vestmannaeyjum, en Þórarinn heitinn var kunnur borgari hér á sinni tíð. Þau hjónin hófu búskap sinn í Vestmannaeyjum og áttu þá lengst af heima á Löndum. Fæddust tvö elztu börn þeirra hér. Konu sína missti Þórarinn árið 1975, en hún hafði þá átt við vanheilsu að stríða síðustu árin.
Meðan Þórarinn átti heimili hér, stundaði hann sjóinn, var matsveinn á skipum, m.a. á Sæfellinu og hann mun um skeið hafa verið matsveinn á Helga. Var hann vel látinn sem slíkur, hinn bezti drengur í allri umgengni, drenglyndur og ljúfmannlegur í framkomu. Hann var óáreitinn maður, sem gekk síns verka á vit og lagði sig allan fram við skyldustörf sín.
Eins og fyrr getur vann hann síðustu starfsár sín hjá Hafskip, gerðist matsveinn þegar á fyrsta skipi þessa félags, Laxá, sem skrásett var frá Vestmannaeyjum, og fór síðan yfir á önnur skip félagsins, eftir að þau komu til sögunnar.

Hjálmar Jónsson
f. 26. júní - d. 16. feb. 1978.


Hjálmar á Enda var fæddur að Hlíðarenda í Ölfusi, sonur hjónanna Jóns Jónssonar, yngri, frá Hlíðarenda og Þorbjargar Sveinbjarnardóttur frá Hjálmholti. Afi Jóns, Jón eldri á Hlíðarenda, var nafnkunnur formaður í Þorlákshöfn á sinni tíð, reri þaðan 43 vertíðir, og hefur saga hans verið skráð af Sigurði Þorsteinssyni frá Flóagafli.
Hjálmar var yngstur 6 systkina. Meðal þeirra var Jón, flugmaður, sem fórst með flugvélinni Hrímfaxa í aðflugi að Fornebu flugvelli við Osló 1964. Hann kvæntist aldrei, en hélt um árabil heimili með systur sinni, Þórunni, í húsi þeirra, Hlíðarenda eða Enda, eins og það var nefnt í daglegu tali.
Hjálmar tók snemma að stunda sjóinn og aflaði hann sér menntunar á því sviði með námi við Stýrimannaskólann í Reykjavík. Lauk hann prófí þaðan 1946. Hann þótti góður „navigatör“ og sigldi oft skipum og bátum milli landa í söluferðum. Hjálmar var að öðru leyti sjálfmenntaður, var góður tungumálamaður, talaði bæði enska og þýzka tungu af mikilli lipurð, auk Norðurlandamála.
Hjálmar sigldi lengi á Helga og var um skeið stýrimaður á því skipi. Þá var hann og á togurum, t.d. um langt skeið með Ásmundi heitnum Friðrikssyni á Elliðaey, og sigldi þá oft skipinu í söluferðum til Evrópulanda. Lengst af stundaði hann þó sjóróðra á heimamiðum, og var hann þá mjög lengi á Erlingi, sem Gunnar Marel og synir hans gerðu út til skamms tíma. Hann var duglegur sjómaður og lánsamur, kunni afarglögg skil á fiskimiðum, og á sumum svæðum, t.d. í Háfadýpinu var hann jafnkunnugur og eldhúsgólfinu heima hjá sér. Hann var alltaf traustur og trúr starfsmaður, enda voru honum fengin á hendur ábyrgðarmikil störf, eins og að framan er getið, og víst er, að leiðarreikningar hans, sem hann framkvæmdi gjarnan áður en lagt var úr höfn á leið til framandi landa, stóðust í flestum tilfellum. En það var ekki hans sök, ef eitthvað bar út af.
Hjálmar var vinsæll maður, einbeittur og hafði ákveðnar skoðanir á hlutunum. Hann hlífði sjálfum sér hvergi og lagði oft mikið á sig við störf sín, og bezt mun honum hafa liðið, eins og fleirum auðvitað, er hann kom með hlaðafla að landi.
Hjálmar andaðist í sjúkrahúsinu hér 16. febrúar s.l.

Magnús Þórarinn Magnússon
f. 24. maí 1912 - d. 20. feb. 1978.


Tóti á Grundarbrekku er dáinn. Þessi fregn boðaði héðangöngu manns, sem fetaði ævispor í kyrrð og friði við allt og alla, hljóðlátur maður og hógvær, en drengur hinn bezti. Hann var fæddur í Fagradal í Vestmannaeyjum 24. maí 1912, og hér átti hann síðan heima alla tíð.
Foreldrar hans voru hjónin Þorbjörg Jónsdóttir og Magnús Eyjólfsson. Fáum mánuðum eftir fæðingu Þórarins fluttu foreldrar hans að Grundarbrekku, sem enn stendur við Skólaveg, og við þann stað var Þórarinn æ síðan kenndur - Tóti á Grundarbrekku. Tvö voru alsystkini Þórarins, bæði kenndi við Grundarbrekku, þ.e. Guðrún, kona Jónasar Guðmundssonar, og Friðrik Halldór - Halli á Grundarbrekku. En hann lézt skömmu á undan bróður sínum. Hálfsystkini Þórarins voru þau Gísli heitinn Magnússon, annálaður dugnaðar- og athafnamaður í Vestmannaeyjum um langt skeið, og Guðrún, sem enn lifir háöldruð í Þykkvabænum.
Þórarinn ólst upp hér í Eyjum, hér var starfsdagur hans allur, hér háði sína baráttu við erfiðan sjúkdóm, unz hann lauk sínum ferli 20. febrúar s.l. Um nokkurt skeið stundaði hann sjóróðra, en í blóma lífs síns starfaði hann í Fiskimjölsverksmiðjunni undir verkstjórn bróður síns, Halldórs. Hann var ágætur starfsmaður og mjög vel látinn af samverkamönnum sínum og félögum. Á miðjum aldri varð hann fyrir alvarlegu áfalli, sem hann beið aldrei bætur eftir allt til æviloka. Ágerðist sjúksómur hans með árunum og bugaði vinnuþrek hans. Varð hann langtímum saman að dveljast á sjúkrahúsi, eða í full 12 ár. Er það mikil reynsla mönnum, sem eru fullir af vilja til starfa, en finna, að þá skortir þrek. Samt tók hann þessu mótlæti með karlmennsku og rólyndi hugans, a.m.k. á yfirborðinu.
Þórarinn var hinn bezti drengur, barngóður var hann sérstaklega, og ein mesta gleði hans í lífinu var á þeirri stundu, er systursonur hans nefndi barn sitt í höfuðið á honum. Litli drengurinn var augasteinninn hans og eftirlæti.
Tóti á Grundarbrekku er nú horfinn af sjónarsviðinu. Hann gekk hægt um gleðinnar dyr, fór sér að engu óðslega, en sýndi að því skapi meiri trúmennsku í þeim störfum, sem honum féllu í hendur á lífsleiðinni.

Þorsteinn R. Guðjónsson
f. 1. maí 1909, d. 21. febrúar 1978.


Ég man fyrst eftir Þorsteini Guðjónssyni akandi á bíl sínum um götur bæjarins. Um Iangt árabil gengdi hann þjónustustörfum sem leigubílstjóri, um skeið sá eini í Vestmannaeyjum. Var að því mikið hagræði að vita af honum, reiðubúnum til aksturs, þegar á þurfti að halda, einkum meðan bílaeignin var fátækleg í Vestmannaeyjum.
Auk þess að annast þessa bifreiðaþjónustu stundaði hann ökukennslu um árabil, og eru margir af nemendum hans kunnir bifreiðastjórar í bænum og raunar annars staðar líka. Er mér kunnugt um, að þeir, sem lærðu að aka bíl undir hans stjórn, minnast hans fyrir ljúfmannlega framkomu og hollar leiðbeiningar í meðferð þessara tækja, sem geta verið hættuleg, þrátt fyrir þægindin, sem þau skapa. Þorsteinn vann um árabil að netagerð og netavinnu, fyrst á verkstæði Arnmundar Þorbjörnssonar, en síðan annars staðar, eftir að hann hætti akstri. Hann gekk hljóðlega um mannlífsins dyr, sinnti sínum störfum en tróð ekki illsakir við nokkurn mann. Það fór ekki mikið fyrir honum í dagfari, en hvarvetna kom hann fram af prúðmennsku og sanngirni í annarra garð.
Kona hans var Bára Karlsdóttir. Eignuðust þau einn son, Karl Vigni, sem nú er búsettur í Reykjavík. Um langt árabil bjuggu þau hjón að Hásteinsvegi 28, í húsi Guðjóns í smiðjunni, en síðustu árin áttu þau heimili að Faxastíg 35. Þorsteinn andaðist í febrúarmánuði s.l.

Jón Einarsson
f. 15. apríl 1885 - d. 26. feb. 1978.


Jón Einarsson var ættaður undan Eyjafjöllum, fæddur að Steinum, sonur hjónanna Þorbjargar Jónsdóttur og Einars bónda Einarssonar þar. Á unga aldri fluttist Jón með foreldrum sínum að Raufarfelli og þar ólst hann upp ásamt systkinum sínum, en þau voru 6 alls, börn Þorbjargar og Einars. Á þessum árum var lífsbaráttan hörð, og börn og unglingar urðu af nauðsyn að taka til hendinni, svo fljótt sem þroski þeirra leyfði. Þetta varð og hlutskipti Jóns, mikil vinna frá því fyrsta til hins síðasta.
Hugur Jóns beindist snemma út fyrir fjöruborðið til hafs. Hann var ekki gamall, er hann fór fyrst til sjóróðra á sumrin austur á firði, eins og títt var á þeim árum.
Hann fór á vertíð í Vestmannaeyjum í fyrsta sinn árið 1907 við upphaf vélbátaútgerðar, og hér tekur hann fasta búsetu árið 1909. Hann hafði ekki dvalið hér lengi, er hann snéri sér að útgerð af dugnaði og áhuga. Hófst hans ferill á því sviði þegar árið 1910, og stóð sú útgerðarþátttaka allt til 1950, eða um fjögurra áratuga skeið.
Jón var athafnamaður, áhugasamur eljumaður, sem lét sér sjaldan eða aldrei verk úr hendi falla. Farnaðist honum yfirleitt vel, enda sameignarmenn hans hinir ágætustu. Meðal þeirra var Guðmundur Tómasson á Bergsstöðum, svo að dæmi séu nefnd.
Eftir að Jón hætti þátttöku sinni í útgerð, hóf hann störf hjá Vinnslustöðinni og starfaði þar framundir 1970. Komu þar greinilega í ljós þeir eiginleikar Jóns, að finna sér ávallt eitthvert viðfangsefni, eitthvað til að fást við fremur en að sitja auðum höndum og bíða eftir fyrirmælum verkstjóra. Slíkir starfsmenn eru hverju fyrirtæki ómetanlegir.
Jón bjó svo að segja alla sína tíð í Vestmannaeyjum í sama húsinu, þ.e. Höfðabrekku, Faxastíg 15, sem hann reisti. Ber það að sjálfsögðu vott um dugnað og bjartsýni að ráðast í slíkt þá þegar, en allt fór það honum vel úr hendi.
Árið 1926 réði hann til sín sem ráðskonu Sesselju Stefánsdóttur. Bjuggu þau síðan saman alla tíð fram að andláti hennar, 25. maí 1971. Eignuðust þau eina dóttur, Ásu, sem jafnan hefur verið í föðurhúsum og annaðist föður sinn af stakri prýði eftir andlát Sesselju.
Einn son eignaðist Jón, Karl Jónsson núv. starfsmann hjá Áhaldahúsinu.
Ása, dóttir hans, á son, sem ber nafn afa síns. Var mikið og alúðlegt samband þeirra nafnanna, og var hann sem ljósgeisli á heimilinu.
Jón var einn þeirra manna, sem lagði drjúgan stein í samfélagsbyggingu í Vestmannaeyjum á þessari öld, drýgri en margan grunar, miðað við það, að hann tíundaði ekki afrek sín eða taldi þau á borðið. Við leiðarlok gat hann því litið yfir farinn veg með sæmd í huga sínum verið þakklátur fyrir þau tækifæri, sem hann fékk til að láta gott af sér leiða. Hann var hógvær maður, sem hvergi hallaði máli samferðamanna sinna, óáleitinn við aðra, en gekk að þeim störfum, sem hann tók að sér og honum voru falin af eljusemi og árvekni þess manns, sem veit, hvers virði vinnan er - veit, að hún er ekki aðeins undirstaða að velgengni einstaklingsins, heldur og þess samfélags, sem einstaklingurinn er hluti af. Af slíkum mönnum er aldrei nægilegt framboð.

Jónas Bjarnason
f. 21. júní 1899 - d. 24. marz 1978.


Jónas Bjarnason var Stokkseyringur að ætt og uppruna, sonur hjónanna Arnlaugar Sveinsdóttur og Bjarna Jónassonar, sem þar bjuggu um langt skeið og lögðu Vestmannaeyjum til dugandi sjómenn og afburðaverkmenn til lands og sjávar.
Jónas fæddist að Útgörðum í Stokkseyrarhreppi, en átti heima í Bjarnaborg á Stokkseyri allt til þess, er hann flytur til Vestmannaeyja.
Jónas vandist snemma við sjóinn og fangbrögðin við hann, sem áttu eftir að verða rauði þráðurinn í lífshlaupi hans. Hann fór til vertíða í Vestmannaeyjar, en fluttist hingað alkominn um tvítugsaldur, og hér átti hann heima æ síðan. Hann stundaði sjóinn og gerðist formaður á bátum hér, eftir að hann fékk skipstjórnarréttindi 1929. Var hann ötull og aflamaður í góðu lagi, einkum á síldveiðum, sem á hans blómaskeiði voru stundaðar fyrir Norðurlandi á sumrum.
Jónas háði að sjálfsögðu marga glímu við Ægi, eins og allir aðrir sem sjóinn hafa stundað frá Vestmannaeyjum. Sneiddu brotsjóir ekki hjá hans garði fremur en annarra. Jafnan hafði hann þó betur í þeim átökum. Má í þessu sambandi t.d. geta um það, er hann í stórviðri 1. marz 1942 lenti báti sínum, Öldunni, eftir mikla hrakninga í Grindavík. Mannbjörg varð, og var bátnum síðan náð út aftur. Frá þessu segir í 3. bindi ritverksins „Þrautgóðir á raunastund“, bls. 14 o. áfr.
Eftir að Jónas hætti sjósókn, gerðist hann á sumrum starfsmaður Síldarverksmiðja ríkisins á Sigluflrði, m.a. við löndunartækin þar, en vann ýmis störf hér heima að vetrinum. Þá var hann og um skeið starfandi við síldarleitina út af Norðurlandi, og kom sér þá sérstaklega vel þekking hans og reynsla frá síldveiðunum sjálfum. Vann hann við þetta í ein 6 sumur og farnaðist vel.
Jónas vann í Vinnslustöðinni frá árinu 1955, eða um 20 ára skeið. Sýndi hann þar sem annars staðar eljusemi og dugnað, enda honum fjarri lagi að slóra eða svíkjast um.
Árið 1933 kvæntist Jónas Valgerði Björnsdóttur. Var hún færeysk að uppruna. Eignuðust þau fjögur börn, tvo syni, sem eiga sín heimili hér, og eina dóttur, búandi í Þingvallasveit. Eitt barn sitt misstu þau. Þau hjón slitu samvistir árið 1955, eftir 22 ára sambúð. Réðist þá sem ráðskona til Jónasar Magðalena Einarsdóttir, en henni hafði Jónas kynnst áður og höfðu þau eignast barn saman, sem dó í æsku. Stóð sambúð þeirra fram að andláti Magðalenu 30. desember 1970.
Jónas bjó að Boðaslóð 5 hér í bæ, en þar stóð heimili hans í 43 ár. Hann fékk snert af heilablæðingu 1975 og var eftir það ekki fær til vinnu. Síðasta tímabil ævi sinnar dvaldi hann ýmist á sjúkrahúsi eða að Hraunbúðum, en hann andaðist á sjúkrahúsinu 24. marz s.l.
Jónas öðlaðist mikla lífsreynslu, enda var ævi hans ekki neinn dans á rósum. Hann var fámáll og dulur um eigin hagi, en víst er, að hann átti sínar erfiðu stundir, ekki síður en þeir, sem kveina og kvarta undan höggum, en það var ekki í hans eðli að bera tilfinningar sínar á borð og sýna öðrum.
Hann var í tölu þeirra manna, sem ríkulegan skerf hefur lagt af mörkum til að bæta og byggja upp það mannlíf, þá lífshætti, sem nú ríkja hér í dag, og hann lét hvergi hlut sinn í því dáðríka starfi.

Sigurjón Jónsson
f. 2. janúar 1903, d. 9. apríl 1978.


Sigurjón var Ólafsfirðingur að ætt. Foreldar hans voru hjónin Guðfinna Sigurðardóttir, ljósmóðir, og Jón Friðriksson. Ungur missti hann móður sína, og varð honum söknuðurinn eftir hana allsár. Sigurjón hóf ungur maður að stunda sjóinn. Réðist hann m.a. á norskt fiskiskip, og lenti hann þar í góðra manna höndum. Á þessu skipi voru stundaðar bæði fisk- og selveiðar og meira að segja bjarndýraveiðar í Norður-Íshafinu. Eru ekki margir Íslendingar, sem hafa getað sagt frá þeirri reynslu og veiðisögur af þessum slóðum, því að selveiðar að ekki sé minnst á bjarndýraveiðar hafa Íslendingar lítt stundað, ekki svo verulegt orð sé á gerandi.
Sigurjón kom á vertíð í Vestmannaeyjum í fyrsta skipti 1923 og réðst þá á Skúla fógeta. Hér kvæntist hann Maríu Kristjánsdóttur frá Reykjadal, og hófu þau búskap fyrst á Ólafsfirði, en síðan í Vestmannaeyjum, þar sem þau áttu heimili síðan allt til 23. janúar 1973. Þau hjón fluttu ekki aftur heim, en bjuggu í einni íbúðanna við Brekkulæk. Sigurjón andaðist á Landakotsspítala 9. apríl s.l.
Sigurjón stundaði sjó í Vestmannaeyjum allt til ársins 1962, en þá var heilsubrestur farinn að segja til sín. Á þessum sjómennskuárum var hann á ýmsum bátum, keypti hlut í báti með öðrum og átti síðan sjálfur einn „Örninn“, sem menn kenndu hann oft við síðustu sjómannsár hans, nefndu hann Sigurjón á Örninni. M.a. átti hann um tíma m/b Sævar, sem frægur varð síðar undir stjórn Binna í Gröf.
Þau hjónin, María og Sigurjón eignuðust 4 syni. Einn þeirra dó í bernsku, en hinir þrír eru allir á lífi, tveir þeirra búsettir utanbæjar.

Einar Þorsteinsson
f. 19. ágúst 1921 - d. 14. apríl 1978.


Hann var alltaf nefndur Einar rakari, og undir því nafni þekktu bæjarbúar hann. Hann flutti hingað til Vestmannaeyja upp úr 1945 og átti hér síðan heimili allt fram að eldgosi, 23. janúar 1973. Einar heitinn hafði þó sterkan hug á að koma hingað aftur, en vafalaust hefur heilsubrestur, sem gert hafði alvarlega vart við sig síðustu árin, komið í veg fyrir það. Hann bjó síðustu æviárin með fjölskyldu sinni í Hafnarfirði, en þar hafði hann eignast eitt af Viðlagasjóðshúsunum.
Einar var Skaftfellingur að ætt, en flutti ungur með foreldrum sínum til Suðurnesja. Hann hóf nám í rakaraiðn hjá Sigurði Ólafssyni, sem á þeim árum var einn kunnasti maður sinnar stéttar í Reykjavík. Að loknu námi starfaði Einar við iðn sína í Reykjavík, en settist síðan að í Vestmannaeyjum sem fyrr segir. Hér rak hann síðan stofu alla tíð í Kaupangi, húsi sem hann keypti og bjó í fyrstu árin. Síðar eignaðist hann Fífilgötu 3, en byggði nýtt íbúðarhús við Fjólugötu 13, og átti hann þar heimili allt þar til sköpum skipti í lífi hans sem margra annarra 1973.
Einar tók virkan þátt í félagslífi í bænum. Hann var mikill áhugamaður í golfíþróttinni, og flestir bæjarbúar gleyma honum varla á leiksviði, svo virkan þátt sem hann tók í leiklistarlífi bæjarins. Einar var gæddur góðum hæfileikum á því sviði, og hefði hann eflaust náð langt, ef hann hefði rækt þann hæfileika frá upphafi.
Einar kvæntist Henný Sigurjónsdóttur, en hún er systurdóttir Friðfinns frá Oddgeirshólum. Eignuðust þau tvö börn, sem enn eru á unga aldri, en hin mannvænlegustu.
Einar heitinn var hinn mesti drengskaparmaður, einstaklega ljúfur og þægilegur í framkomu og vildi hverjum manni vel.