Jónas Guðmundsson (Grundarbrekku)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Jónas Guðmundsson.

Jónas Guðmundsson á Grundarbrekku, verkamaður, verslunarmaður fæddist 9. mars 1886 á Torfastöðum í Bergstaðaprestakalli í A-Hún. og lést 20. febrúar 1979. Foreldrar hans voru Guðmundur Þorkelsson bóndi á Torfastöðum, Refsstöðum og síðar á Miðgili í Langadal, A.-Hún., f. 4. maí 1846, d. 27. desember 1919, og kona hans Guðrún Einarsdóttir frá Bollagörðum á Seltjarnarnesi, húsfreyja, f. 4. apríl 1848, d. 6. júní 1921.

Jónas var með foreldrum sínum á Refsstöðum í A.-Hún. 1890, var hjú á Hamri í Svínavatnssókn þar 1901, en sótti vertíðir á Suðurnesjum. Hann var vinnumaður á Neðri-Mýri í Höskuldsstaðasókn þar 1910, hjú á Miðgili í Engihlíðarsókn þar 1920.
Hann fluttist til Eyja 1924, starfaði við Fiskimjölsverksmiðjuna til 1940. Þá réðst hann til Ársæls Sveinssonar og var m.a. afgreiðslumaður í timburverslun hans. Hjá honum vann hann til ársins 1954. Þá hóf hann störf hjá Hraðfrystistöð Vestmannaeyja, þar sem hann starfaði til ársins 1974.
Hann hafði lengi smá búskap á Grundarbrekku.
Þau Guðrún giftu sig 1930, eignuðust sex börn, misstu eitt þeirra á áttunda ári 1938.
Jónas lést 1979 og Guðrún 1987.

Kona Jónasar, (17. maí 1930), var Guðrún Magnúsdóttir frá Grundarbrekku, húsfreyja, f. 27. júlí 1906 í Fagradal, d. 20. maí 1987.
Börn þeirra:
1. Jóhanna Jónasdóttir, f. 15. júlí 1931, d. 2. október 1938.
2. Jóhann Hilmar Jónasson bifreiðastjóri á Bifreiðastöð Vestmannaeyja og hjá Vestmannaeyjabæ, f. 14. apríl 1934, d. 16. mars 2016. Kona hans Ester Árnadóttir.
3. Einar Guðni Jónasson múrari, f. 24. nóvember 1938. Kona hans er Halldóra Traustadóttir.
4. Jóhann Jónasson sorphreinsunarmaður, f. 5. maí 1940. Ókvæntur.
5. Sigurbjörg Jónasdóttir húsfreyja, skrifstofumaður, f. 7. febrúar 1942. Maður hennar er Viðar Óskarsson.
6. Magnús Þór Jónasson bókhaldari, kaupmaður, framkvæmdastjóri, f. 4. maí 1947, d. 24. apríl 2019. Kona hans Guðfinna Óskarsdóttir.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.