Einar Markús Einarsson skipherra

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Einar Markús Einarsson.

Einar Markús Einarsson vinnumaður á Vesturhúsum, síðar skipherra fæddist 2. maí 1892 í Ólafsvík og lést 18. september 1977.
Foreldrar hans voru Einar Markússon verslunarstjóri í Ólafsvík, síðar ríkisbókari, f. 11. júlí 1864, d. 30. apríl 1951 og Guðrún Lýðsdóttir, síðar ráðskona í Reykjavík, f. 19. september 1862, d. 23. júní 1934.

Einar Markús hóf sjómennsku á skipi föður síns, Sleipni frá Ólafsvík, 13 ára gamall, var háseti, vélamaður og formaður á ýmsum bátum í æsku.
Hann stundaði nám í trésmíði í Reykjavík 1906-1908, kom að Vesturhúsum 1911, var vinnumaður þar, kvæntist Magnúsínu 1912 og eignaðist með henni 2 börn í Eyjum. Þau skildu.
Einar Markús lauk farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum 1918, var stýrimaður á seglskipinu Harry frá Reykjavík, stýrimaður og skytta á varðskipinu Óðni.
Hann fór til Noregs, Danmerkur, Þýskalands og Bretlands 1928 til að kynna sér björgun á sjó og vann um skeið hjá björgunardeild breska sjóhersins.
Hann tók við varðskipinu Ægi og var þar skipherra í 7 ára eða til 1937.
Einar Markús vann við björgun á Norður-Atlantshafi á vegum breska sjóhersins öll stríðsárin 1940-1945 og hafði miðstöð í Reykjavík.
Eftir stríðið vann hann við björgunarstörf í Frakklandi, en hafði síðar eftirlit með smíði skipa fyrir Íslendinga erlendis og sat í Kaupmannahöfn.
Einar Markús hlaut ýmsar sæmdir fyrir störf sín.
Hann lést 1977.

Einar Markús var tvíkvæntur.
I. Fyrri kona hans, (22. desember 1912 í Eyjum, skildu), var Magnúsína Eyjólfsdóttir húsfreyja frá Vesturhúsum, f. 16. september 1897, d. 9. febrúar 1968.
Börn þeirra hér:
1. Jón Einarsson forstjóri, kennari, kaupmaður í versluninni Vogue í Reykjavík, f. 21. júlí 1912 á Vesturhúsum, d. 26. maí 1968.
2. Einar Kristinn Einarsson, f. 16. desember 1913 á Vesturhúsum, d. 7. júlí 1929.

II. Síðari kona Einars Markúsar, (1925, skildu), var Anna Petra Helgadóttir húsfreyja. Þau skildu.

III. Barnsmóðir Einars Markúsar var Margrét Jónsdóttir.
Barn þeirra var
3. Jón Þór Einarsson loftskeytamaður, f. 6. apríl 1926, d. 19. maí 1992.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Prestþjónustubækur.
  • Skipstjóra- og stýrimannatal. Guðmundur Jakobsson. Ægisútgáfan 1979.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.