Sigurjón Jónsson (formaður)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið nafnið „Sigurjón Jónsson


Sigurjón

Sigurjón Jónsson fæddist á Brimnesi í Ólafsfirði 2. janúar 1903 og lést 9. apríl 1978. Foreldrar hans voru Guðfinna Sigurðardóttir ljósmóðir og Jón Friðriksson. Hann var ungur er hann missti móður sína, og mun það hafa skilið eftir djúp spor í sál hans.

Sem ungur maður réðst hann á norskt fiskiskip og var svo heppinn að lenda hjá góðum skipstjóra sem tók honum sem einum úr fjölskyldu sinni og opnaði heimili sitt fyrir honum. Með honum er Sigurjón svo ýmist á fiskveiðum eða á sel- og bjarndýraveiðum í Norður-íshafinu.

Hugur hans leitaði þó til Íslands og hann fór á vetrarvertíð í Vestmannaeyjum. Þar kynntist hann konu sinni Maríu Kristjánsdóttur frá Reykjadal. Þau gengu í hjónaband 14. maí 1927. Heimili sitt stofnuðu þau á Ólafsfirði og bjuggu þar tæp 10 ár. Þar fæðast þeim þrír drengir. Þau verða fyrir þeirri þungbæru sorg að missa frumburð sinn aðeins 7 mánaða gamlan. Leið þeirra liggur til Vestmannaeyja og setjast þau að í Reykjadal, þar sem foreldrar Maríu bjuggu á neðri hæð og þau á efri hæð. Hér fæðist þeim fjórði sonurinn. Um1958 festa þau kaup á húsi því að Kirkjuvegi 70B, er verður heimili þeirra fram að gosi.

Hann var formaður á Örninni VE 173. Hann varð farsæll skipstjóri og sinnti starfi sínu mjög vel, hvort heldur sem báturinn var í annarra eigu eða hann var sinn eigin húsbóndi eins og hann var lengi vel hin síðari ár. Sigurjón veiktist af kransæðastíflu um 58 ára aldur og varð starfsþrek hans skert frá því. Hugur hans leitaði alltaf til sjávar og fram á síðasta dag fylgdist hann með sjósókn og aflabrögðum.

Synir Sigurjóns er náðu fullorðinsaldri:

  • Guðfinnur, kvæntur Helgu Bachmann, bjuggu í Keflavík og áttu 3 börn;
  • Kristján, kvæntur Margréti Ólafsdóttur, bjuggu í Vestmannaeyjum, áttu 10 börn;
  • Jón Ármann, kvæntur Sigríði Kristjánsdóttur, eiga þau 2 dætur og búa í Kópavogi.
Sigurjón


Eftir gos bjuggu Sigurjón og María að Kleppsvegi 32 í Reykjavík.

Loftur Guðmundsson orti formannsvísu um Sigurjón:

Harður í dáð með hug og þrótt
hvergi um linkind semur
á Örninni hefir Sigurjón sótt
sæinn mörgum fremur.

Óskar Kárason samdi einnig formannavísu um Sigurjón:

Sjonni valinn sonur Jóns
setur Örn á dýnu.
Oft í hlíðum fiski fróns
falar afla á línu.Heimildir

  • Óskar Kárason. Formannavísur. Vestmannaeyjum, 1950.
  • Sjómannadagsblað Vestmannaeyja. 1995.
  • Minningargrein í Morgunblaðinu, 16. apríl 1978.