Herjólfsdalur

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Herjólfsdalur

Herjólfsdalur er líklega þekktasti dalur Vestmannaeyja. Hann stendur norð-vestarlega á Heimaey og er umlukinn fjöllum norðan- og austanmegin — Dalfjall og . Í dalnum eru mörg þekkt kennileiti svo sem Saltaberg, Fjósaklettur, Kaplagjóta og Torfmýri. Á toppi Dalfjalls að vestanverðu stendur Blátindur, en Fiskhellanef stendur hæst á vestan megin, rétt ofan við Fiskhella. Syðst í Herjólfsdal má finna Hundraðmannahelli og vestast er Mormónapollur rétt suður af Kaplagjótu. Í miðjum dalnum má finna Tjörnina, sem tengd er við vatnslind, nokkru austar.

Horft yfir Herjólfsdal úr suðvestri 23.maí 1958

Í mörgum gömlum heimildum er dalurinn kallaður Dalver.

„Dalur þessi er á þrjá vegu luktur hamrafjöllum 6-700 feta háum. Neðan undir hömrunum eru víða grænar brekkur og tjörn í miðjum dalnum.“ (Þjóðólfur, 26. árgangur, bls 196)

Bær Herjólfs

Sjá aðalgrein:Herjólfsbær

Í Herjólfsdal er talið að fyrsta býli Heimaeyjar hafi verið reist af landnámsmanninum Herjólfi Bárðarsyni, sem dalurinn er við kenndur. Sagt er í Landnámu (Melabók og Hauksbók):

Herjólfur son Bárðar Bárekssonar, bróðir Hallgríms sniðbaka, byggði fyrst Vestmannaeyjar og bjó í Herjólfsdal fyrir innan Ægisdyr, þar sem nú er hraun brunnið. Hans son var Ormur auðgi, er bjó á Ormsstöðum við Hamar niðri, þar sem nú er blásið allt, og átti einn allar eyjarnar. Þær liggja fyrir Eyjasandi, en áður var þar veiðistöð og engra manna veturseta.

Sturlubók segir að Ormur hafi verið fyrsti landnámsmaður Vestmannaeyja, en ekki Herjólfur faðir hans. Flestir telja þó frásögn Melabókar og Hauksbókar réttari.

Sagan um Vilborgu og hrafnana er ein þekktasta þjóðsagan úr Herjólfsdal, en hún segir frá miklu grjóthruni undan Molda sem lagði þar byggð í eyði. Rannsóknir hafa bent til þess, að sagan eigi við lítil rök að styðjast, þar sem að byggð gat varla verið svo ofarlega í brekkunni.

Vatnslindin

Vatnslindin í Herjólfsdal er ein þriggja náttúrulegra vatnslinda á Heimaey, hinar tvær Vilpa, sem nú er undir hrauni, og lindin í Stórhöfða, sem gefur lítið af sér. Árið 2005 fundust gamlir farvegir frá lindinni sem leiddu vatnið í tjörnina, en þeirra er getið í ýmsum gömlum heimildum.

Þjóðhátíð

Þjóðhátíð í blíðskaparveðri

Þjóðhátíð hefur ætíð verið haldin í Herjólfsdal þegar hún hefur verið haldin á annað borð, að undanskildum árunum 1973 og 1974, þegar hún var flutt að Breiðabakka vegna þess hve dalurinn var illa farinn eftir gosið.

Á fyrstu Þjóðhátíðinni, sem haldin var árið 1874 í tilefni af 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar og þess að Kristján IX, Danakonungur færði Íslendingum sína fyrstu stjórnarskrá, var veisluborð hlaðið úr torfi og grjóti, og má enn sjá leifar af því í vestanverðum dalnum. Eftir það var Þjóðhátíð haldin öðru hvoru fram til upphafs 5. áratugar 20. aldar, en frá þeim tíma hefur hún verið haldin árlega.

Barnastúkan Fanney á skemmtigöngu í Herjólfsdal ca. 1940

Heimildir

  • Árbók Ferðafélags Íslands 1948.
  • Þjóðólfur, 31. ágúst 1874. af timarit.is