Leikfélag Vestmannaeyja

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Mynd frá uppfærslu hjá Leikfélagi Vestmannaeyja snemma á 20. öldinni.

Saga leiklistar frá 1852-1909

Árið 1852 var sýndur sjónleikur í Vestmannaeyjum og er talið að það hafi verið í fyrsta sinn sem leiksýning var í Vestmannaeyjum. Það sama ár greiða einhverjir leikendur ágóðann af leiksýningu til bæjarsjóðs. Ekki er vitað hverjir voru leikendur né hvaða verk var sýnt en ýmis er talið að leikritið hafi verið eftir Sigurð Pétursson skáld annars vegar en hins vegar að það hafi verið danskt og leikið á dönsku.

Árið 1852 flytur Séra Brynjólfur Jónsson til Vestmannaeyja og býr í Nöjsomhed ásamt konu sinni og ungri dóttur þeirra. Líklegt þykir að Brynjólfur hafi komið upp leiksýningum í samráði við fleiri aðila. Brynjólfur var menningarfrömuður og talið er fullvíst að hann hafi komið upp leikritinu "Narfi" eftir Sigurð Pétursson árið 1860-1861. Talið er að á meðal leikenda hafi verið Kristján Magnússon verslunarstjóri, Ingimundur Jónsson á Gjábakka, Gísli Lárusson og fleiri.

Árið 1864 var sett upp leikritið "Hrólfur" og talið er að leikendur hafi verið þeir sömu og í Narfa. Árin 1886-1888 var leikritið Hrólfur sýnt annað slagið í Kumbalda. Á meðal leikenda þá voru Árni Filippusson sem lék Hrólf, Sigurður Sigurfinnsson, Gísli Lárusson, Einar Bjarnason og fleiri.

Þessar tvær sýningar, Narfi og Hrólfur voru sýndar annað veifið fram til ársins 1890 eða 1891. Árið 1893 var "Tólfkóngavitið" leikið í Vestmannaeyjum og ári síðar "Hinn þriðji" sem var byggt upp á söngvum og tónlist. Á meðal þeirra sem stóðu að baki þessum sýningum voru Oddur Árnason, Guðlaugur Hansson Litlabæ, Guðrún Runólfsdóttir og Sigurbjörg R. Pétursdóttir. Var sagt að söngur þeirra Guðrúnar og Sigurbjargar hafi verið frábærlega góður og hans lengi minnst.

Um aldamótin 1900 var "Skugga-Sveinn" settur upp í Vestmannaeyjum. Þrátt fyrir að miðaverð hefði hækkað upp í 1,50 krónur, sem þótti hátt miðaverð, vakti það leikrit mikla ánægju á meðal bæjarbúa sem sumir sáu leikritið að minnsta kosti tvisvar. Á meðal leikenda voru Jón Filippusson Dalbæ, Jón Einarsson Garðsstöðum, Guðjón Guðjónsson Sjólyst, Sigríður Jónsdóttir Garðsstöðum og fleiri.

Á meðal annarra leikrita sem sett voru upp í kringum aldamótin 1900 í Vestmannaeyjum voru "Sálin hans Jóns míns", "Kaupmannsstrikið" og "Vesturfararnir". Árið 1909 var einnig sýnt í fyrsta skipti leikritið "Almannarómur" eftir Stein Sigurðsson skólastjóra Barnaskólans sem var í fimm þáttum. Líklegt er talið að leikendur þar hafi verið Helgi Guðmundsson í Dalbæ, Hjálmrún Hjálmarsdóttir og Jón Jónsson í Hlíð. Steinn skólastjóri var þekktur rithöfundur bæði á bundið og óbundið mál. Hann samdi meðal annars stórt leikrit sem heitir "Stormur" og barnaleikrit sem nefnt var í Eyjum "Átján barna faðir í álfheimum" en hét annars "Skyggnu augun". Í því leikriti voru það börn úr barnaskólanum sem fóru með öll hlutverkin. Þau eldri voru í aðalhlutverkum en þau yngri komu fram sem álfar og dansandi vættir sem meðal annars sýndu dans í búningum sem voru sérstaklega gerðir fyrir þetta tilefni.

Saga leiklistar í Vestmannaeyjum frá þessum tíma er þó að mestu leyti glötuð með bókum og skjölum félagsins en þó má styðjast við heimildir meðal annars úr bæjarblöðum sem bæta skaðann að nokkru leyti.

Sýningarstaðir

Í upphafi var leikið í Kumbalda. Kumbaldi var eitt af verslunarhúsum Bryde verslunarinnar. Þótti sá staður af mörgum kaldur og leiðinlegur en það var þó alls ekki algilt. Það var á þeim tíma besta leikhúsið. Leiksviðið var rúmt og það var sett upp og tekið niður eftir þörfum. Sætin þóttu vera góð þrátt fyrir að vera baklaus. Það var einnig kostur við Kumbalda að þar gátu leikendur æft sig á leiksviðinu þegar það hentaði. Einnig var leikið í Gúttó en ýmsum þótti sá staður hlýlegri. Gúttó var reyndar oft upptekið vegna skemmtana og mannfagnaða en bið eftir leiksýningum var þó almennt ekki löng. Þar gátu um 140 manns setið. Leiksviðið í Gúttó þótti þó þröngt og einnig var þröngt á bak við tjöldin. Helst gátu tveir ekki mæst þar án þess að faðmast eða renna sér mjög náið hvor meðfram öðrum. Sýningartjöldin voru með þeim glæsilegri en þau voru máluð af Engilbert Gíslasyni af mikilli snilld.

Stofnun Leikfélags Vestmannaeyja

Eftir að hætt var að sýna "Ævintýri á gönguför" veturinn 1910, sem sýnt var fyrir Kvenfélagið Líkn, kom leikurunum saman um að stofna leikfélag í Vestmannaeyjum. Þeir sem munu hafa staðið að þeirri hugmynd voru fyrst og fremst Halldór Gunnlaugsson læknir, A.L. Petersen og kona hans, Árni Gíslason, Valdimar Ottesen og fleiri. Voru undirtektirnar góðar og var leikfélagið formlega stofnað á stofnfundi þann 22. ágúst 1910. Fyrsta stjórn félagsins var skipuð eftirfarandi einstaklingum: Ágústa Eymundsdóttir var kosin formaður en hún var forstöðukona Kvenfélagsins Líknar, Aage L. Petersen símstöðvarstjóri sem kosinn var gjaldkeri leikfélagsins, Árni Gíslason í Stakkagerði sem kosinn var ritari félagsins, Ólafur Ottesen verslunarmaður var kosinn endurskoðandi, Valdimar Ottesen kaupmaður var kosinn varaformaður og Guðjón Jósefsson Fagurlyst var kosinn meðstjórnandi. Í lögum félagsins, sem stofnfundurinn samþykkti, var samþykkt að nafn félagsins væri Leikfélag Vestmannaeyja og að tilgangur félagsins væri fyrst og fremst að efla leikmennt í Vestmannaeyjum. Þar segir jafnframt að inngöngu í félagið gætu eingöngu þeir karlar og konur fengið sem voru tilbúin til þess að skuldbinda sig til þess að leika þau hlutverk sem þar til skipuð nefnd úthlutaði þeim. Ennfremur var ákveðið að aðalfundir yrðu haldnir tvisvar á ári, ársgjald yrði 1 króna, ekki væri heimilt að leika utan félagsins nema með fundarsamþykki og ekki væri heimilt að segja sig úr félaginu á meðan viðkomandi hafði hlutverk á hendi í leiksýningu.

Saga leiklistar frá 1910-1920

Sjónleikir voru sýndir á Þjóðhátíðinni 1912 og 1913 þegar Stefanía Guðmundsdóttir leikkona kom til Vestmannaeyja. Lék hún sjónleik ásamt Ólafi Ottesen sem bar nafnið "Hinrek og Pernella". Eftir að Leikfélag Vestmannaeyja var formlega stofnað komst starfsemin í fastari skorður en áður. Eftir stofnfundinn var farið í það að setja nýtt leikrit á svið og var leikritið "Ævintýrið" sýnt seint um haustið 1910 við ágætis aðsókn. Á fyrstu árum Leikfélags Vestmannaeyja tók leikfélagið fyrir mörg leikrit til meðferðar. Má þar nefna "Villidýrið" eftir E. Bögh og "Nei-ið" eftir Heiberg sem var danskur gamanleikur gjarnan nefndur "Hringjarinn frá Grenaa". Um miðjan desember 1913 setti leikfélagið upp leikritið "Malarakonan fagra" eftir Duveycier og "Sagt upp vistinni" og "Varaskeifan" Voru þessi verk undanfari stóra verkefnis félagsins, "Sherlock Holmes". Þetta var stærsta verkefni Leikfélagsins fram að þeim tíma og var ætíð nefnd "Týndi böggullinn". Sýningartími verksins var um 2,5 tími til 3 tímar með hléum og var það í þá daga lengsta verk sem leikfélagið hafði sett upp. Á meðal þeirra sem fóru með hlutverk í Sherlock Holmes voru Ólafur Ottesen sem lék Sherlock Holmes, Kristján Gíslason sem lék Dr. Watson, Þóra Vigfúsdóttir sem lék Alice Faulkner og Guðbjörg Gísladóttir sem lék Therese. Leikrit þetta var sýnt oftar en önnur á þessum tíma, að minnsta kosti 7 sinnum en margir segja 9 eða 10 sinnum.

Um þessar mundir starfaði Kvenfélagið Líkn mikið að leiklist til fjáröflunar fyrir verkefni og áhugamál sín. Setti kvenfélagið upp marga leikþætti til uppfyllingar á skemmtunum sínum. Til dæmis sýndu þær leikritið "Vinnukonu vantar" og fóru konur úr kvenfélaginu með öll aðalhlutverkin. Í helstu hlutverkum voru Matthildur Kjartansdóttir, Fríður Lárusdóttir á Búastöðum, Ólöf Jónsdóttir Byggðarholti og Guðný Guðjónsdóttir í Dal. Meðal annarra leikrita og leikþátta sem kvenfélagið setti upp var "Happadrættismiði nr. 101" þar sem Lára Guðjónsdóttir á Kirkjulandi fór með aðalhlutverkið, "Frúin sefur" eftir Holst og "Hinn setti eiginmaður" svo fáein séu nefnd.

Árið 1915 voru meðal annars sýnd verkin "Ærsladrósin", "Ungu hjónin", "Hermannaklettur" og "Best sem vitlausast". Árið 1916 setti leikfélagið upp verkið "Ímyndunarveikin" eftir Molier. Í því verki lék Guðbjörg Gísladóttir í síðasta sinn á leiksviði.

Á árunum 1915-1918 fór þó að halla undan fæti í starfi Leikfélags Vestmannaeyja. Fólkið sem hafið verið dugmikið í starfinu fór að draga sig til baka og sumir fluttust frá Vestmannaeyjum.

Helstu starfskraftar Leikfélags Vestmannaeyja 1910-1918

Oft er talið að blómaskeið Leikfélags Vestmannaeyja hafi verið frá 1910-1918. Margir velviljaðir einstaklingar voru boðnir og búnir til þess að leggja sitt af mörkum til að leiklistarlíf Vestmannaeyja væri sem best. Talið er að á þessum tíma hafi Leikfélag Vestmannaeyja ekki verið neinn eftirbátur annarra leikfélaga á Íslandi.

Á meðal þeirra sem voru helstu starfskraftar félagsins á þessum tíma voru bræðurnir Árni Gíslason og Georg Gíslason frá Stakkagerði, Bjarni Björnsson leikstjóri, Guðjón Jósefsson frá Fagurlyst, Guðjón Guðjónsson í Sjólyst, Karl Gränz í Karlsbergi (Heimagötu 20), Emilía Ottesen Dalbæ og Kristján Gíslason Hóli.

Nýja leikfélagið

Árið 1922-1923 var stofnað nýtt leikfélag í Vestmannaeyjum sem nefndist Nýja leikfélagið. Meðlimir þess og stofnendur voru Kristinn Ástgeirsson Miðhúsum, Valdimar Ástgeirsson Litlabæ, Filippus Árnason Ásgarði, Finnur Sigmundsson Uppsölum, Eyþór Þórarinsson Sólheimum, Yngvi Þorkelsson Eiðum, Karl Gränz Karlsbergi, Finnbogi Finnsson Íshúsinu, Nikólína Jónsdóttir Hásteinsvegi 4, Jónína Jónsdóttir Steinholti, Lilja Jónsdóttir Mjölni og Björn Sigurðsson frá Pétursborg.

Fyrsta verkefni þeirra varð að sýna leikritið "Almannarómur" sem Leikfélag Vestmannaeyja hafði sýnt nokkrum árum áður. Það var sýnt í Gúttó og þóttist takast alveg ljómandi vel. Eftir það sýndu þau "Nei-ið" og "Hringjarinn frá Grenaa". Árið 1924 sýndi Nýja leikfélagið "Thorkel Petersen". Aðalleikarar í þeirri sýningu voru Hjálmar Eiríksson frá Vegamótum, Yngvi Þorkelsson og Björn Sigurðsson frá Pétursborg. Upp úr þessi flosnaði félagið upp svo það varð óstarfhæft. Ástæður þess eru ekki alveg ljósar en þetta urðu Eyjamönnum mikil vonbrigði.

Saga leiklistar frá 1920-1929

Árin 1920-1922 var mikil mannekla í félaginu. Árið 1921 var auglýst eftir fólki til starfa fyrir félagið. Leiddi það til þess að nokkrir nýliðar bættust í hópinn. Á meðal þeirra sem gengu í félagið á fundi í Frydendal voru Bergþóra Árnadóttir Grund, Páll Scheving, Árni Árnason og fleiri. Við þessa fjölgun færðist líf í starf Leikfélags Vestmannaeyja á ný.

Árið 1922 sýndi Leikfélag Vestmannaeyja "Villidýrið" eftir E. Bögh sem var gamalkunnugt verk. Í aðalhlutverkum þar voru þau Margrét Jónsdóttir Johnsen, Haraldur Eiríksson og Jóhannes H. Long. Þótti söngur þeirra mjög góður en Haraldur var þekktur og góður tenórsöngvari. Á meðal fleiri verka sem leikin voru á þessum árum voru "Upp til Selja", "Ævintýrið í Rosenborgargarði" og "Thorvald Petersen" eftir Sigurbjörn Sveinsson. Árið 1922 sýndi Kvenfélagið Líkn einnig "Litlu stúlkuna með eldspýturnar" eftir H.C Andersen og var Bergþóra Magnúsdóttir í Dal í hlutverki litlu stúlkunnar.

Árið 1926 voru leikin tvö leikrit í Vestmannaeyjum eftir E. Bögh sem heita "Ofvitinn í Oddasveit" og "Háa-C". Þeir sem léku í þessum leikritum voru meira og minna að leika í fyrsta sinn á leiksviði en meðal þeirra voru Jóhanna Ágústsdóttir Kiðjabergi, Páll Scheving Hjalla, Jón Sigurðsson Pétursborg og Sigurgeir Jónsson frá Suðurgarði. Umsögn ritstjóra Skeggja um þessa leiksýningu var á þá leið að leikfélagið væri steindautt og alls ekki starfshæft.

Í kjölfarið var lítið um leikstarfsemi í bænum en helst var það Kvenfélagið Líkn sem lét að sér kveða. Það er ekki ofsögum sagt að leikstarfsemi Kvenfélagsins hafi verið afkastamikil. Árið 1929 sýnir Kvenfélagið "Upp til Selja" norskan söngleik. Stjórnandi þess var Ingibjörg Ólafsdóttir Símstöðinni. Leikarar voru meðal annars Stefán Árnason lögregluþjónn og Hjálmar Eiríksson Vegamótum. Sama ár sýndi Kvenfélagið einnig "Ævintýrið í Rosenborgargarði". Á meðal leikara í því verki voru Árni Árnason símritari, Ragnheiður Jónsdóttir Brautarholti og Ágústa Eymundsdóttir Hóli.

Um leikhússtarf í Víði

Þann 27. apríl 1929 segir í Víði: „Það má meira en merkilegt heita, að í svo stórum bæ, sem Vestmannaeyjum, skuli ekki vera til starfandi Leikfélag. Kvenfélagið Líkn hefur í vetur sýnt tvö leikrit og var aðsókn að þeim yfirleitt góð. Þar af sést, að fólk vill sjá sjónleiki. Kvenfélagið á þakkir skyldar fyrir þá viðleitni og væri óskandi, að það gæti haldið áfram þeirri starfsemi. Það er ekki langt síðan að hér var til leikfélag, þ.e Leikfélag Vestmannaeyja. Ég hygg, að það hafi staðið sig vel efnalega og verklega, því hér voru og eru enn allgóðir leikarar, þótt sumir séu farnir héðan og aðrir, sem ekki mundu aftur fara að gefa sig að slíkri aukavinnu. Einhverjir mundu þó verða til þess. Húsrúm er að vísu slæmt og verður í vali leikrita að taka tillit til þess. en svona hefur það verið undanfarin ár og gekk nokkurn veginn vel enda þó með köflum væri það erfitt. Það ætti því að vera hægt að notast við húsplássið enn eða þar til annað betra býðst, sem hlýtur að verða innan tíðar, ef einhvert félag tæki að sér framkvæmdina. Leikfélag Vestmannaeyja mun sennilega ekki hafa hætt störfum vegna húsnæðisins heldur af hinu, að menn hafi ekki getað gefið sig nægilega vel að leikstarfinu vegna anna, og kannski líka vegna stjórnleysis í félaginu. Til eru menn hér í bæ, sem stjórnað gætu leikfélagi af reynslu og þekkingu, ef þeir fengjust til þess. Að mínu áliti er engum betur fært að sigrast á öllum erfiðleikum, sem stofnun leikfélags eru samfara, en Kvenfélagið Líkn, eða einstökum meðlimum þess. Sönnun þess höfum við þegar séð.“

Saga leiklistar frá 1930-1936

Á árunum á undan hafði Leikfélagið ekki verið mjög virkt og lítið leiklistarstarf hafði verið í Eyjum. Árið 1932 tók sig saman hópur úr samfélaginu og sýndi kafla úr "Maður og kona" eftir Jón Thoroddsen. Á meðal leikara voru Þorsteinn Þ. Víglundsson, Finnur Sigmundsson Uppsölum, Kristinn Ástgeirsson og Friðfinnur Finnsson. Leikritið var að minnsta kosti sýnt þrisvar sinnum í gamla Goodtemplarahúsinu á Mylnuhól fyrir fullu húsi í öll skiptin.

Árin 1935-1936 var leikritið "Ævintýri á gönguför" sýnt enn einu sinni. Margir Eyjamenn héldu að það væri ómögulegt að setja þessa sýningu upp enn einu sinni og að aðsóknin yrði léleg. Svo varð ekki raunin. Leikritið gekk ágætlega og í hlutverkum voru nýjir einstaklingar sem leikhúsgestum þótti áhugavert að sjá hvernig myndu takast á við hlutverk sín. Á meðal leikara í þessari uppfærslu voru Árni Gíslason, Loftur Guðmundsson, Valdimar Ástgeirsson, Jóhannes Sigfússon og Ásdís Jesdóttir Hóli. Leikið var í Gúttó en þetta mun hafa verið í síðasta sinn er leikrit var sýnt þar, því húsið var rifið skömmu síðar. Í Víði þann 26. febrúar 1936 segir meðal annars um þessa sýningu: „Valdimar Ástgeirsson leikur Skrifta Hans sem að flestra dómi er erfiðasta hlutverk leiksins. Sumum hefir hætt við að misskilja þetta hlutverk og gera úr því hálfgerðan bjána, sem vitanlega er mjög fjarri sanni. Valdimar Ástgeirsson sýnir hér ágæta viðleitni til betri túlkunar hlutverksins og tekst það víða vel, þó að vitanlega megi ýmislegt að finna.“

Nýtt hús byggt

Þann 9. október 1936 héldu Sjálfstæðismenn fjölmennan fund í Gúttó. Efni fundarins var að stofna hlutafélag til þess að koma upp samkomuhúsi sem væri búið öllum þeim kostum sem nauðsynlegt væri til fundarhalda sem og almennra skemmtana. Undirtektir voru góðar og hlaut félagið nafnið Samkomuhús Vestmannaeyja hf. Þeir sem stóðu að Leikfélagi Vestmannaeyja sáu að þetta hlyti að bjóða upp á betri tíma hjá Leikfélagi Vestmannaeyja. Loksins ætti að rísa hús sem stæðist allar þeirra kröfur. Ekkert hús í Eyjum var þá með leiksviði þannig að bíða yrði eftir hinu nýja húsi. Á meðan lá starfsemin svo til niðri.

Árið 1936 var Gúttó rifið til grunna en Gúttó var eitt elsta og mest notaða leikhús Vestmannaeyja. Húsið reis fljótt á grunni Gúttós og var um að ræða stór og glæsilegt hús sem var stærsta samkomuhús utan Reykjavíkur. Aðeins Þjóðleikhúsið var stærra. Í húsinu var salur sem rúmaði 300 manns í sæti og í norðurenda hússins voru stórar svalir með sætum fyrir 250 manns. Í suðurenda hússins var stórt og mikið leiksvið og undir því búningsklefar, snyrtiherbergi og geymsluherbergi. Þar var einnig meðal annars skrifstofur, fatageymslur, svefnherbergi húsvarðar, hreinlætisaðstaða og stór og rúmgóður veitingasalur. Þetta hús var svo stórt og mikið að það var í daglegu tali nefnt "Höllin". Þetta samkomuhús var vígt þann 22. janúar 1938 að viðstöddum í kringum 800 manns.

Leikstarf í Höllinni

Leikfélag Vestmannaeyja hafði eins og áður segir gert sér miklar vonir um að nýja húsið yrði lyftistöng fyrir leikstarf í Vestmannaeyjum. Það kom þó fljótlega í ljós að húsið var einfaldlega alltof stórt fyrir starfið og aðbúnaður ekki eins góður og vonir höfðu staðið til. Leiksviðið var stórt og gott, en ekkert hátalarakerfi var í sambandi við það sem þýddi að leiksviðið var alltof stórt nema ef að öskra átti leikritið. Búningsherbergin voru of lítil og lýsingin á sviðinu var ekki góð. Salernið var auk þess bilað lengi vel. Leikfélagið gat auk þess helst ekki fengið að æfa á sviðinu nema seint á kvöldin eftir að lokið var að sýna kvikmyndir kvöldsins.

Sannleiksvitnið í Alþýðuhúsinu

Hér birtum við brot úr grein um Leikfélag Vestmanneyja sem birtist í Víði þann 31. desember 1936, rituð af Georg Gíslasyni. Úrdráttur þessi birtist auk þess í Bliki árið 1967. „Um nær 25 ára skeið hefir félag þetta, Leikfélag Vestmannaeyja starfað hér í bænum. Starf þess hefur verið misjafnlega mikið frá ári til árs, eftir því sem atvik stóðu til hverju sinni. Flest leikkvöld á einum vetri munu hafa verið 37. Vegna kostnaðar við leiktjöld, búninga o.fl. hafa þeir, sem leikið hafa, oftast borið lítið úr býtum og stundum ekkert. En áhugi meðlima félagsins hefur haldið því lifandi. Ávallt hefur verið leikið í Gúttó þó þar væri þröngt, mun á leiksviði þar hafa sést leiklist eins og best þekkist annars staðar hérlendis til dæmis meðan þeirra naut við Ólafs Ottesen og Guðjóns Jósefssonar. Á þessu hausti var ákveðið að starfa og undirbúningur hafinn. Þegar Gúttó var rifið en byggt var leiksvið við Alþýðuhúsið, sneri Leikfélagið sér til forráðamanna þess til þess að spyrjast fyrir um húslán til sjónleika í vetur. Var því vel tekið í fyrstu, sérstaklega af Ísleifi Högnasyni. En er til samninga kom, var hann utanlands. Tilboð húsnefndar hljóðaði upp á tæpan 1/3 hluta eða 30% af brúttótekjum félagsins auk leigu fyrir æfingar svo að þetta hefði orðið meira en 1/3. Tekjur hússins hafa eftir því verið á leikkvöldi, þegar leikið hefði verið fyrir fullu húsi, rúmar 200.000 krónur. Þar sem þurft hefði öll leiktjöld ný á leiksviðið, sá Leikfélag Vestmannaeyja sér ekki fært að ganga að þessum kröfum og samþykkti einróma að leika ekki í húsinu nema betri kjör næðust. Gerði þá stjórn félagsins gagntilboð, sem var hafnað án frekari tilrauna um samkomulag. Má skilja það á svarinu, að þar hafi mestu um ráðið hin misheppnaða tilraun þeirra að gera leikfélagið pólitískt. Listavinirnir þar hafa álitið heppilegra að koma upp pólitískum leikflokki. Það á bara eftir að sýna sig, hvort Vestmannaeyingar eru að sama skapi ginnkeyptir fyrir því, jafnvel þótt beitt verði öðru til að byrja með.“

Saga leiklistar frá 1938-1941

Fyrsta verk ársins 1938 var "Hnefaleikarinn" eftir Arnold og Bach. Það var frumsýnt á 2. páskadag í Samkomuhúsinu. Vel var mætt á sýninguna og talið var að almenningur hafi vel kunna að meta sýninguna. Á meðal leikara voru Georg Gíslason, Nikólína Jónsdóttir, Marinó Jónsson símritari og fleiri. Að þessari sýnungu stóð Kvenfélagið Líkn en ekki Leikfélag Vestmannaeyja. Það sama ár sýndi Félag ungra Sjálfstæðismanna leikritið "Frænka Charleys" í Samkomuhúsinu við ágætar undirtektir. Á meðal leikara í þeirri sýningu voru Stefán Árnason yfirlögregluþjónn, Óskar Kárason múrarameistari og Nanna Káradóttir Presthúsum. Þriðja sýningin árið 1938 var á vegum leikhóps sem eitthvað var tengdur Alþýðuhúsinu. Sú sýning hét "Eruð þér frímúrari?" og helstu leikarar voru Finnur Sigmundsson, Árni Guðmundsson og Valdimar Ástgeirsson frá Litlabæ.

Á þessum árum var mikið um að leikrit væru sett upp aftur, þar má nefna leikritin "Almannarómur" og "Apakötturinn". Næstu ár á eftir voru reglulega sett upp bæði ný og eldri verk og vel voru verkin sótt.

Saga leiklistar frá 1942-1950

Árið 1942 fékk Leikfélag Vestmanneyja leikstjóra frá Reykjavík í fyrsta sinn, Harald Á. Sigurðsson. Hans verk var að leiðbeina og stjórna uppsetningu á leikritinu "Þorlákur þreytti". Georg Gíslason sem var formaður Leikfélagsins á þessum tíma hafði margsinnis reynt að fá Harald til Eyja, en ávallt hafði Haraldur verið upptekinn við störf á fastalandinu. Árni Árnason símritari var beðinn um að fara með hlutverk í leikritinu. Sagði hann við Georg eftir að hafa lesið leikritið að þetta hlutverk gæti hann aldrei leikið auk þess sem að hann hefði líka verið hræddur við Harald Á, þennan stóra leikara ofan af fastalandinu. Georg svaraði Árna á þá leið að Haraldur væri alveg eins og aðrir menn en hann væri kannski dálítið feitari en almennt gerist. Árni sló því til og tók þátt í sýningunni. Á meðal annarra leikara voru Lilja Guðmundsdóttir, Heiðardal, Sigurður Scheving og Magnea Sjöberg. Sagt var að sýningin hafi tekist ákaflega vel og líf hafi komist í leikfélagið á ný. Haraldur skoraði síðan á Leikfélag Vestmannaeyja að taka gott leikrit til meðferðar og benti á "Maður og kona".


Tenglar


Heimildir

  • Árni Árnason. Blik ársrit Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum. 1962.
  • Árni Árnason. Blik ársrit Vestmannaeyja. 1965.
  • Árni Árnason. Blik ársrit Vestmannaeyja. 1967.