Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Óskar Kárason í Bjarnarey og víðar

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Óskar Kárason í Bjarnarey og víðar


Bjarnareyjarför 1952


Það var síðari hluta laugardagsins 2. ág. 1952, að ég hitti Lárus Árnason bifreiðastjóra á Búastöðum. Hann var í lundafötunum, og var asi mikill á honum.
Eftir venjulegar heilsanir, spurði ég hann, hvað nú stæði til hjá honum. Hann sagðist vera að fara austur í Bjarnarey, hefði skroppið heim þaðan, ásamt félögum sínum. Þeir ætluðu suður í Geldung að laga þar veginn upp á eyna og vera þar yfir nóttina. Sjálfur kvaðst Lárus ætla austur í Bjarnarey, ásamt Bjarna Jónssyni í Garðshorni.
Ég hafði lengi haft hug á að vera yfir nótt í Bjarnarey, svo að ég spurði Lárus, hvort ég mætti koma með honum austur í ey og vera eina nótt. Hann kvað það velkomið. Sagði hann, að það væri einmitt tilvalið núna, því að nóg væri rýmið í kofanum, þar sem þeir væru bara tveir, hann og Bjarni. Sagði Lárus, að ég gæti komið eins og ég stæði, því að nægur matur væri úti í ey og sængurföt í hverri koju. Sagðist hann að lokum fara eftir hálftíma. Það er svo ekki að orðlengja það frekar. Ég þaut heim og lét vita, að ég væri að fara austur í Bjarnarey og yrði þar yfir nóttina. Tók ég svo með mér 2 ginflöskur og neftóbak, kvaddi heima og fór til skips í snatri.
Þegar niður á bryggju kom, voru þar fyrir allir Bjarnareyjarmenn, ásamt Jóni Þórðarsyni og Sveini Hjörleifssyni. Þessir tveir áttu skipið, sem átti að flytja okkur út í eyna. Það var stór trilla, blá að lit og var hún nefnd Bláskjár.
Auk Lárusar og Bjarna voru eftirtaldir í Bjarnarey þetta sumar: Hlöðver Johnsen, Saltabergi, Sigfús bróðir hans, kennari, og Sigurður Guðlaugsson kaupmaður á Laugalandi. Þessir 3 síðast töldu ætluðu suður í Geldung, ásamt Sveini í Skálholti.
Þegar ég kom niður á bryggju, ráku veiðimenn upp óp mikið, sem átti að tákna kveðju þeirra, og svaraði ég á sama hátt. Síðan var haldið austur að Bjarnarey. Þá var kl. 18. Bláskjár gekk vel og komum við að steðjanum á Hvannhillu eftir 20 mínútna siglingu frá bryggju. Veður var mjög gott, logn og blíða.
Á leiðinni austur var aðeins dreypt á ginmiðinum, en heldur voru þeir Geldungsfarar linir við það, sem von var til. Þeir áttu fyrir höndum mesta hættuverkefni, að laga veginn upp á Geldunginn, sem nú var talinn lítt fær. Ég var líka tregur á mjöðinn við þá þess vegna. Ég vissi, að betra var að vera alls gáður við slíkt verk. Ég hafði farið upp á Geldung og var þess vegna fullkunnur vegleysunni, sem þangað var orðin. Var vegurinn síst betri en vegurinn upp á Súlnasker, sem lengi var talinn einn versti fjallavegur á Íslandi.
Vegurinn upp á Geldung var lagður um aldamót af þeim Gísla Lárussyni og Magnúsi Guðmundssyni, sem þá voru taldir með bestu fjallamönnum Eyjanna. Áður fyrrum var vegurinn eftir steinboga, sem lá af Litla-Geldung upp á Stóra-Geldung, en sá bogi hrapaði af í jarðskjálftunum 1896.
Ég vík þá aftur að frásögninni. Þegar við komum að steðjanum á Hvannhillu, fórum við þegar upp, Lárus, Bjarni og ég, en þeir Geldungsfarar héldu á Bláskjá sína leið. Þeir hörmuðu það mjög að geta ekki komið með okkur upp í Bjarnarey, en það var ekki hægt eins og sakir stóðu. Þeir vildu svo gjarnan geta skálað við okkur í hinu tæra gini. Lárus sagði, að það gerði nú minnst, við hefðum því meira að drekka.
Það er all óhægur vegur upp Hvannhillurnar, því að eyjan er mjög há og hæst af úteyjunum eða 164 metrar. Boltar eru góðir og ágætt band á þeim. Þó þótti mér vissara að fá mér einn lítinn, áður en ég lagði til uppgöngu. Ekki vildi Bjarni sjússinn, en Lárus fékk sér einn með mér. Okkur gekk ágætlega upp veginn upp á eyna.


Við ból í Bjarnarey (þ.e. við kofann.)


Það verð ég að segja, án þess að ég vilji í nokkru rýra fegurð hinna úteyjanna, að þá er engin þeirra fegri við ból, en Bjarnarey.
Veiðimannabólið er snotur skúrbygging, gerð úr járni og timbri og stendur vestan á eynni við rætur Bunka. Á vesturhlið hússins eru dyr og stór gluggi. Inni eru stór stofa, eldhús og lítill gangur eða forstofa. Í stofunni eru fjórar kojur og eitt rúm. Rúmið er við suðurhlið. Þar sefur Lárus. Kojurnar eru við austurhlið, tvær af þeim eru hákojur. Í norðurendanum er þiljað eldhús og gangurinn. Bólið, þ.e. kofinn, er allur málaður í ljósbláum lit og allt hið snyrtilegasta.
Þegar til bóls kom, fór Lárus strax að hita kaffi, en Bjarni fór þegar út með háfinn að veiða. Af mér er það að segja, að ég tók mér sæti við gluggann og virti fyrir mér hið töfrandi útsýni. Við mér blasti Heimaey í sínum fegursta síðdegis sumarkjól. Sannarlega var hún töfrandi í allri sinni dýrð, umvafin hvítum faldi stilltra og brosandi dætra hafsins hjóna. Það er ekki á mínu færi að lýsa þeirri töframynd, sem við mér brosti þetta himneska ágústkvöld.
Ég varð sannarlega snortinn af útsýninu frá Bjarareyjarkofanum (bólinu). Það var ekki fyrr en Lárus bauð mér kaffið, að ég áttaði mig á því, hvar ég var staddur. Þá varð mér óvart á að segja:

Bjarareyjar-bóli frá
birtist mönnum lífið fegra.
Útsýni ég aldrei sá
annars staðar dásamlegra.

Nú mundi ég eftir gininu og fengum við Lárus okkur vel út í kaffið. Það var enginn veiðihugur í Lárusi, og var hann hinn rólegasti, enda farið á kvöld að líða. Við drukkum margar könnur af kaffi og spjölluðum saman.
Hann sagði mér, að hann væri nú búinn að vera í útey 50 sumur. Hann fór fyrst í Elliðaey sem drengur og var þar í nokkur sumur og síðan í Bjarnarey, og þar hefir hann verið óslitið síðan. Hann hélt, að enginn hefði verið lengur í útey, nema Guðjón á Oddsstöðum Jónsson, sem ávallt hefur verið í Elliðaey frá því hann var drengur. Lárus taldi því Guðjón hafa metið í að stunda lundaveiði með því að hafa viðlegu í útey.
Lárus kvaðst nú ætla að sjóða okkur reyktan lunda og fór hann fram í eldhús. Á meðan fór ég að skoða mig um í híbýlum veiðimanna. Á veggjum voru myndir af léttklæddum fegurðarpíum. Við eina kojuna sá ég þrjár myndir slíkar og rétt þar hjá mynd af Sigríði (Bíu), konu Hlöðvers. Þótti mér hún bera af öllum hinum þótt alklædd væri. Þessi sjón varð mér að yrkisefni:

Ýmsir eiga alveg nóg
eina meður píu.
Súlli hefur þarna þó
þrjár fyrir utan Bíu.

Svo fór Lárus að velja mér koju, því að hann sagði plássið vera nóg, mætti ég vera, hvar ég vildi. Ég svipaðist um og leist best á hákoju í suðausturhorninu. Í henni var dýna og sæng. Mynd var þar á hillu við kojuna, og var myndin af heitmey Sigfúsar Johnsen eða frómt frá sagt Kristínu Þorsteinsdóttur, skólastjóra Víglundssonar. Mér þótti kojan nokkuð mjó, en Lárus sagði, mér væri engin vorkunn að sofa þarna, þar eð þar hefðu þau Kristín og Sigfús sofið, þegar hún kom að heimsækja unnusta sinn. Að vísu hefði þeim þótt þröngt og sagðist Lárus alltaf hafa vaknað, er þau voru að snúa sér í kojunni, því að þá hefði Sigfús alltaf þurft að fara fram á gólf, meðan snúningurinn fór fram. Þetta hefði þó verið sök sér, ef þau hefðu ekki alltaf verið að rífast um sængina. Það hefði verið leiðindajag um eina yfirsæng.
Ég fór nú upp í þessa koju og lagði mig út af. Líklega hef ég blundað, því að ég hrökk upp við það, að Lárus kallaði á mig í matinn. Ég þaut fram úr kojunni, því að enginn getur staðist það að finna glóðvolgan og sætan ilminn af reyktum lunda. Við tókum líka vel og hraustlega til matar, og þegar stóð í okkur, skoluðum við matnum niður með ginblöndu. Mér datt svo í hug, að ekki mætti minna en að ég borgaði kojulánið með vísu. Hún varð svona.

Sofið hef ég Siffi minn,
sæll á þinni dýnu.
Þar hefir verið, það ég finn,
þröngt um ykkur Stínu.

Þegar við Lárus vorum að ljúka við að eta síðasta lundann, kom Bjarni úr veiðiför sinni og hafði veitt nokkra fugla. Hann sagði, „að eldur væri við“ af fugli. Við fórum að afsaka við hann, að maturinn væri allur búinn. Hann sagði, að það gerði ekkert, þareð hann ætti nokkra lunda í mal sínum. Ég bauð honum þá einn lítinn, en það kom þá á daginn, að hann hafði aldrei smakkað vín og kvaðst ekki fara að byrja á því hér. Við Lárus töldum hann heldur ekkert á það, því að satt að segja töldum við það, sem eftir var á pyttlunni lítið og okkur ekkert veita af því.
Það var farið að skyggja, þegar Bjarni hafði komið, og var hann í mesta veiðihug. Hætti hann ekki fyrri en hann hafði okkur Lárus út líka með háfinn. Sem betur fór var ekki langt að fara. Við settumst í Bunka rétt fyrir ofan kofann. Ég sá ógrynni af fugli, og þegar tveir „komu á skot“, sló ég upp, en háfurinn lenti á milli þeirra, - svona fór í tvígang.
Þá varð mér litið til Lárusar. Sá ég ekki betur en að hann væri með tvo í, eða var hann kannske með tvo háfa?? Þá hætti ég veiðinni og Lárus líka, enda var þá orðið dimmt, allt of dimmt til veiða. Við fórum svo til bóls.
Nokkru síðar kom Bjarni, og hafði hann veitt 20 lunda. Mér þótti þetta góð veiði hjá honum, þegar þess er gætt, að þetta var í fyrsta sinn, sem hann reyndi að veiða. Lárus veiddi 2 eða 3, en ég engan.
Var ekki laust við, að við værum hálf daufir eftir veiðitúrinn. Þá minntist ég þess, að dálítið var enn eftir í flöskunni minni, og fengum við Lárus okkur góða hressingu. Bjarni dreif sig í koju, dauðþreyttur eftir veiðina, sem von var, enda sofnaði hann fljótt og leyndi sér ekki þreytan, því að hann hraut mikinn.
Það var nú komið fram yfir miðnætti og dimmt orðið. Kveikti Lárus þá á kerti. Við höfðum engan hug á að fara í koju, en sátum hinir rólegustu og spjölluðum saman yfir kaffibollunum, sem við létum drjúpa í fáa dropa í einu, allt í hófi. Talið barst meðal annars að skáldskap.
Lárus sagði mér, að hann hefði aldrei getað ort vísu í vöku, en fyrir nokkrum árum skeði það undarlega fyrirbrigði, að hann fór að yrkja í svefni. Hafa margir heyrt hann þylja það, er hann var steinsofandi. Hann sagði mér, að hann væri búinn að yrkja mörg kvæði, og þá hefði hann ekkert fyrir því, en í vöku kæmi hann ekki saman óbjagaðri stöku. Ég bað hann lofa mér heyra eitt kvæði, en hann sagðist því miður ekki geta það, þareð hann gleymdi öllu jafnharðan, og enginn hefði skrifað niður eftir honum á nóttunni. Ég trúði honum vel, enda mörg dæmi um að menn yrki í svefni. Það er líka merkilegt, að menn, sem yrkja í svefni, skuli ekki geta gert vísu í vöku. En þó er þetta staðreynd.
Í gestabókinni í Bjarnarey er staka eftir Árna Árnason símritara, bróður Lárusar, og er hún svona:

Lítið er um lunda enn
líst mér rétt að halda,
að gjörningar og galdramenn
geri þessu valda.

Lárus sagði mér, að Árni hefði komið í heimsókn til þeirra í Bjarnarey og þá verið sérlega tregur fugl. Orti Árni þá vísuna í tilefni þessa eins og hún ber með sér.
Lárus sagði mér margar skemmtilegar sögur. Einu sinni var hann að veiða suður í Stórhöfða. Lygndi þá snögglega, svo að hann hætti veiðum og gekk upp að vitahúsinu. Þá sá hann kött á túninu fyrir vestan húsið. Um leið kom hrafn. Hann dembdi sér fyrir köttinn, hremmdi hann í klærnar og flaug síðan beint í loft upp. Lárus horfði á þessar aðfarir alveg undrandi. Þegar krummi hafði flogið hátt með kisa svo að þeir báru við Heimaklett, sleppti hrafninn takinu á kisa, og féll hann með dynk miklum niður á túnið. Maður skyldi nú halda, að kisi hefði drepist, en svo var ekki. Lárus sagði, að kisi hefði sprottið strax upp og hlaupið inn í hús eins og ekkert hefði í skorist. Þetta er gott dæmi um það, hve kettir eru lífseigir og verður ekki ofsögum af sagt.
Það var nú orðið áliðið, svo að við fórum í koju. Ekki var mér nokkur leið að sofna fyrir hrotunum í Bjarna, svo að ég fór fram úr aftur. Vaknaði Lárus þá og innti eftir, hvert ég ætlaði. Ég sagði sem satt var, að ég gæti ekki sofið fyrir hrotunum í Bjarna. Þá sagði Lárus: „Þetta er nú ekki mikið, en þú ættir að heyra í honum Siffa, þegar hann sefur og tekur að hrjóta. Þá sef ég aldrei dúr, enda held ég, að allur fugl fljúgi á sjóinn, og rollurnar hlaupi í hópa eins og í þrumuveðri.“ Ég var undrandi yfir þessum orðum Lárusar, en sagði ekkert. Hann fór svo að sofa, en ég fór út á hlað. Það var logn, döggvott grasið bleytti skó mína. Ég hélt uppi í Bunka. Töluvert var við af fugli, og sat hann hinn rólegasti í lundabyggðinni. Ærnar voru að vakna eftir næturblundinn, lömbin sugu þær af mestu ákefð, þótt státin væru.
Bjarnarey er hæst af úteyjunum, 164 metrar eða 3 metrum hærri en Suðurey og 20 metrum hærri en Álsey. Þegar ég nú kom upp á Bunka, var ég mest undrandi yfir því, hve gígurinn er stór um sig. Hann er lítið minni en eldgígur Helgafells á Heimaey, en miklu grynnri. Hann er allur grasi gróinn, og er víða þétt lundabyggð í brekkum hans. Það er skoðun mín, að hann sé eldri en gígur Helgafells, og bendir hinn þykki grassvörður til þess, enda er og moldarlagið víðast hvar þykkt og djúpt á lundaholunum.
Engin leið er að lýsa þeirri hrifning, er maður verður fyrir, standandi einn um hánótt í dásamlegu veðri uppi á Bunka á Bjarnarey í ágústmánuði, og sér eyjarnar greyptar í spegilsléttan hafflötinn, fjöllin og jöklana í fjarska. Þokuslæðan, er verið hafði í hlíðum Bunka, er ég gekk upp, var nú komin hátt upp, og var ég hulinn þoku upp undir hendur, og sá ég þess vegna ekki eyna, sem ég stóð á. Ég var eins og upphafinn af jörðinni. Á þessari stundu var sólin að koma upp fyrir jökulinn, og austurhiminninn með skýjum sínum uppljómaður í öllum regnbogans litum. Ekki veit ég, hve lengi ég stóð þarna og starði á þessa töfrandi undurfögru mynd skaparans, en ég áttaði mig á því, hvar ég var staddur, er þokan var allt í einu horfin. Mér varð þá á að líta til bóls og hugsaði til Lárusar og Bjarna, sem sváfu vært inni í kofa. Þá datt mér í hug þessi vísa:

Sólin bestan býr til lit
börn þá jarðar sofa.
Enginn lítur árdags glit
inni í dimmum kofa.

Þegar ég kom til bóls, ræsti ég Lárus og Bjarna. Bjarni fór strax út með háfinn, en við Lárus fengum okkur smáhressingu, „morgenbitter“.
Eftir hádegið kom Jón Ólafsson bankagjaldkeri út í ey með fullan bát sinn, Kóp, af krökkum. Með honum kom Þorsteinn Sigurðsson á Blátindi. Það var komin austanbræla, en þó höfðum við að koma krökkunum upp að austan. Þau komu svo upp í kofa og fengu kaffi ásamt Steina.
Þegar svo skyldi halda heim, var orðið ófært að austan, og urðum við því að fara með krakkana niður Hvannhillu. Mér fannst þetta allglæfralegt ferðalag. En það fór allt vel. Við höfðum krakkana fyrir framan okkur á lærvaðnum, þegar við fórum niður Hilluna. Ég man að Súlli færði dóttur sína í svellþykkar ullarnærbuxur, sem hann var með úti í ey. Það kom í minn hlut að koma dóttur Jóhanns Gíslasonar í Uppsölum niður, en ekki kunni ég við að færa hana í nærbuxurnar mínar. Þær voru heldur ekki hreinar, (því að ég var víst búinn að vera í þeim einn mánuð), og auk þess þunnar búðarbuxur. En þetta fór allt vel hjá okkur, að minnsta kosti kvartaði blessuð stúlkan ekkert. Yfirleitt voru krakkarnir ekkert hræddir í þessari glæfraför. Rétt er að geta þess, að Geldungsfararnir komu út í Bjarnarey um hádegið, en þá vorum við Lárus búnir með allt ginið. Mjöðurinn var þrotinn. Það gekk vel að komast á bát, og Kópur litli skilaði okkur öllum heilum í höfn undir öruggri stjórn Jóns Ólafssonar.
Þar með var lokið minni fyrstu för í Bjarnarey. Mun ég aldrei iðrast þess tíma, sem ég eyddi í það að gista þessa fögru ey. Þess ber þó að geta, að Elliðaey er fyrst og fremst úteyjan mín, þar eð þar hef ég lifað mínar yndislegustu stundir. Í þakklætisskyni fyrir góða gisting í Bjarnarey gerði ég vísur um hina prýðilegu drengi, er þar voru til lundaveiða og friðsæld hinnar töfrandi náttúru. Þessar vísur fara hér á eftir:

Heimsókn í Bjarnarey:
Ég brá mér austur í Bjarnarey
og birgði mig upp af landa,
með flöskur þrjár og fagra mey
þeim fyglingum til handa.
Það símaði mér Súlli heim,
að skyrið væri upp étið
og fjárans bölvuð þynnka í þeim,
þeir gætu varla setið.
Og meyjunnar er mikil þörf,
menn eru á vonarbrautum.
Það vinnur enginn veiðistörf,
en veina og stynja af þrautum.
Nú á þig vinur treystum við,
ég veit þú ekkert segir
við Saltaberg um símtalið
og stúlkuna... og þegir.
Á steðjanum var fjári skreipt
og slæmt að varast þangið,
en Hlöðver fannst þó hvergi sleipt
hann meyna þreif í fangið.
Þeir Siffi og Jonni störðu á
og skulfu af þrá og bræði,
því helvíti var hart að sjá
þau hlæja og trukka bæði.
Upp Hilluna var klifrað kátt
og kíkt í laumi á sprundið,
því pilsin voru upp á gátt
og efra illa bundið.
En Lárus þögull fyrstur fór
og fannst þeim ekkert ganga.
Hann vildi ekkert stelpuslór
og steinhættur að spranga.
En ferðin upp á eyna gekk
að óskum, fannst þeim hinum,
og margt að reyna meyjan fékk
á mörgum grasbekkinum.
Hann Lárus kúrði í léttum blund,
því löngu var mál að sofa,
er Jonni, Siffi og seimahrund
skjögruðu inn í kofa.
Ketillinn var keyrður á
og kaffi í skyndi mallað,
á meðan út sér meyjan brá
því mjög hafði Súlli kallað.
Þá rauk hann Lalli úr rúminu
og reif sitt hár og klæði,
er hann þau leit í húminu
hamast að rokka bæði.
Nóttin ljúf með söng og leik
leið án þess nokkur vissi,
margoft skálað, etin steik
og skyr með Eyjapissi.
En loks er sól á lofti brann
og lýsti upp næturhúmið,
tryllti telpan kennarann
og trítlaði með hann í rúmið.


Veiðimannavísur:
Lárus veit ég vaskan mann
veiða lunda grúa,
stillir eyjar stílast hann
stöðum frá er Búa.
Listamann ég líka þann
ljóðaskáldið nefni
öll sín ljóð þó yrki hann
aðallega í svefni.
Útvarpsstjóra eyjar má
iðinn Hlöðver kalla.
Saltabergi segist frá
seggur góður fjalla.
Súlli listum öllum ann
öl við kátur drekkur.
Fyrðurinn er fyrir því
flinkur veiði-rekkur.
Siffa angrar ótíðin,
ef það kemur teppa,
heitbundinn er halurinn,
heim þarf oft að skreppa.
Sigga Laugalands ég má
liðann kátan greina.
Fjöllin traustur fetar sá
frækinn meðal sveina.
Háfnum vaskur veifa kann
veiðigarpur lunda.
Lífið fjalla heillar hann,
hreinn, sem faðmur sprunda.
Gutta frægan finna má
fyrðum meður glöðum.
Er hann kunnur eyjar á
öllum veiðistöðum.
Soninn Bjarna Mugg ég má
mærðar skrá í letur.
Eyna gisti einnig sá,
ýmsum veiddi betur.
Reyni Másson mun ég hér
meður köppum greina.
Eyna gisti á undan mér
ekki má því leyna.
(Endavísur...)
Ekki fleiri um ég veit
eyjar nýta gróður.
Veiðimanna vaskri sveit
verði aflinn góður.
Eitt mig hryggir bóls í bæ,
bölvað er að tarna.
Engan dúr ég fengið fæ
fyrir hrotum Bjarna.
Lalli sagði sæll við mig,
svo skal hér að vikið.
Svona varla þreytir þig,
þetta er ekki mikið.
Ærnar fælast flestar lúr
fugl á sæinn þýtur.
Aldrei sef ég sætan dúr
Siffi, þegar hrýtur.
Þetta eru undur stór
ansaði ég stúrinn.
Síðan ég á fætur fór,
fyrða skrá er búin.


Bjarnareyjarferð árið 1953


Laugardaginn 25. maí kl. 1 eftir hádegi fórum við Magnús Bjarnason, Garðshorni austur í Bjarnarey. För minni að þessu sinni var heitið til þess að múrhúða og skreyta minnismerki það, sem Bjargveiðimannafélagið hafði látið reisa til minningar um hinn fræga Sigurgeir Jónsson frá Suðurgarði, en hann hrapaði í Bjarnarey sem kunnugt er í blóma lífsins.
Það var Friðrik Hjörleifsson í Skálholti, sem með okkur fór. Hann var á trillunni Bláskjá og háseti hans var Valur Oddsson, 10 ára gamall, sonur Odds í Dal, dugnaðarstrákur.
Eftir hálftíma sigling gegn allþungri austanöldu og stormbrælu, náðum við undir Hvannhillu á Bjarnarey. Við Hvannhillusteðjann var sæmilega dautt og gekk okkur vel að komast upp. Þar var fyrir Hlöðver Johnsen, ásamt Lárusi Árnasyni, Búastöðum, til að taka á móti okkur.
Þá er upp á eyna kom, tók Lárus á móti okkur með því að gefa okkur kaffi og kökur með. Ég var með dálitla lögg á pela, og lét ég aðeins drjúpa út í kaffi þeirra, er vildu.
Að afloknum kaffidrukknum, fór ég að gera við minnismerkið, sem var fremur illa farið og víða brotið úr brúnum þess. Er viðgerðinni var lokið, varð ég að bíða, þar til múrinn þornaði, svo að hann þyldi efni það, sem átti að skreyta hann með, þ.e. minnisvarðann, en það var með kvartsi, hrafntinnu og silfurbergi. Við undirbjuggum allt undir síðara verkið og fórum síðan til bóls.
Það var enginn fugl við, svo að ég tók lífinu með ró, ásamt Súlla og Lalla. Muggur fór út til veiða. Um kvöldið borðuðum við steiktan lunda, ásamt brúnuðum kartöflum, grænmeti og sultutaui. Þetta var konungleg máltíð, enda eru þeir Súlli og Lalli engir viðvaningar í matartilbúningi.
Eftir kvöldverðinn drukkum við kaffi, og lét ég nú allvel út í bollana. Urðum við brátt kátir, og tók Súlli þá fram gítarinn og var þá tekið lagið heldur betur. Þeir Hlöðver og Lárus eru ágætir söngmenn. Á milli sönglaga vorum við alltaf að skreppa vestur að merkinu og athuga, hvort það væri orðið nógu hart, svo að hægt væri að hefja vinnuna aftur.
Það var ekki fyrr en kl. 01 um nóttina, sem ég taldi öruggt að hefja verkið. Það féll í hlut Súlla að aðstoða mig, og sýndi hann bæði dugnað og áhuga fyrir starfinu. Við unnum hvíldarlaust til kl. 05 um morguninn, en þá var líka verkinu lokið. Þá var yndislegt veður og svo hafði verið alla nóttina. Lárus vakti með okkur. Hann undraðist mest, hvað ég gat gert með einni múrskeið. Muggur lagði sig á undan okkur, enda hafði Súlli vel við að aðstoða mig.
Það voru þreyttir menn, sem lögðust til hvíldar þennan morgun í Bjarnarey. Við sofnuðum líka fljótt og sváfum til hádegis. Þegar ég vaknaði, var ég allþunnur og framlágur, því að engin afrétting var til. Ég hafði heldur ekki fyrir vana að drekka vín til afréttingar, en þegar Lárus kom með hálfa koníaksflösku og sagði mér að súpa vel á henni, gat ég ekki staðist freistinguna. Það er svo ekki að orðlengja það, ég varð þegar eins og nýr maður.
Þegar ég kom út, var Lárus búinn að flagga, en það er siður í úteyjum að flagga á sunnudögum. Veður var ágætt, sólskin og blíða. Þess má geta, að Lárus kvartaði mikið undan ágangi kindanna. Rollurnar sækja svo mikið í að klóra sér upp við kofann. Lárus svaf því lítið, - hann var alltaf að stugga frá. Var hann með forláta hrossabrest. Er það sá eini, sem ég veit um að til sé í eyjum.¹) Ég lærði á þessa vél hjá Lalla og fór svo að stugga fénu frá. En það var engu líkara en hrossabresturinn hefði þá náttúru að kalla á rollurnar. Leið ekki á löngu, þar til að allt varð fullt af fé við kofann. Þá kom Lalli út, tók af mér hrossabrestinn, labbaði svo dálítið frá kofanum og notaði þar hrossabrestinn. Brast í honum svo gífurlega að undir tók í bjarginu. Þá brá svo við, að allar rollurnar eltu hann. Þannig höfðum við að verja okkur fyrir ágangi kindanna. En gæta urðum við þess að hætta að bresta, þegar við snerum heim til bóls, og vissast þótti að stinga brestinum í barminn svo að rollurnar yrðu hans ekki varar.
Við fengum sauðasteik til miðdags og allt henni tilheyrandi. Þetta var dýrindis máltíð, enda át Muggur litli með bestu lyst. Ég var hins vegar ekki vel lystugur og hálfþyrstur, svo að ég hélt mig að koníakinu.
Kl. 17 kom báturinn að sækja mig. Þá voru strákarnir farnir út með háfa sína. Ég þreif í snatri verkfæri mín og þaut niður Hvannhillu. Það stóð heima. Þegar ég var kominn á bát, komu strákarnir fram á Landnorðursnefið. Þá vorum við að leggja frá steðjanum. Ég rak þá upp þrjú húrrahóp, en fremur var ég rámur. Þau heyrðust samt og var svarað á sama hátt af Bjarnareyingum. Þannig eru kveðjur úteyjamanna.
¹) Þetta skal leiðrétt. Álseyingar hafa ávallt hrossabrest til að reka frá með og gefst mjög vel. Þann hrossabrest smíðaði Hjálmar frá Dölum líkl. 1947-48. Á.Á.


Minnismerkið í Bjarnarey afhjúpað


Það var 1. ágúst 1953, sem sá einstæði atburður gerðist. Minnismerkið var gert til minnigar um Sigurgeir Jónsson, Suðurgarði, er hrapaði í Bjarnarey á uppstigningardag 1935.
Lagt var af stað frá bryggju austur í Bjarnarey á mb Gísla Johnsen VE-100 kl. 17 e.m. Upp á eyna vorum við komin kl. 18:00. Það var vestan kula, heiður himinn og glampandi sólskin.
Í eynni voru fyrir, þegar við komum, veiðimennirnir: Lárus Árnason, Búastöðum, Hlöðver Johnsen, Saltabergi, Sigfús Johnsen, bróðir hans, Magnús Bjarnason, Garðshorni og Reynir Másson, Valhöll. Enn fremur voru þá fyrir í eynni Jón Guðjónsson, bóndi og smiður í Þorlaugargerði, Ólafur bóndi Þórðarson í Suðurgarði. Af kvenfólki var komið austur í ey Sigríður Haraldsdóttir, kona Hlöðvers, Svala, kona Ólafs Þórðarsonar og dóttir Hlöðvers og Sigríðar. Með á Gísla Johnsen var skátaflokkur, sem ætlaði í Elliðaey.
Þegar báturinn hafði skilað af sér skátunum í Elliðaey, fór hann suður í Suðurey að sækja þangað veiðimennina, sem þar voru og ætluðu að vera viðstaddir minningarathöfnina.
Úr Elliðaey mættu þessir veiðimenn: Kristófer Guðjónsson, Pétur Guðjónsson, Guðmundur Guðjónsson, Guðlaugur Guðjónsson allir frá Oddsstöðum.
Úr Álsey voru mættir Jónas Sigurðsson, Skuld, kona hans Guðrún Ingvarsdóttir, Sigurgeir Jónasson frá Skuld og unnusta hans Jakobína Guðlaugsdóttir, Hjálmar Jónsson frá Dölum, Jóhannes Gíslason frá Eyjarhólum.
Einnig var mættur í Bjarnarey Árni J. Johnsen kaupmaður, Ingibjörg dóttir hans og maður hennar Bjarnhéðinn Elíasson, Þorsteinn Víglundsson skólastjóri, frú hans og Kristín dóttir þeirra, Sveinn Guðmundsson forstjóri, Jónas Jónsson verslunarstjóri á Tanganum, Friðrik Jesson, Hóli, Þorsteinn Sigurðsson, Blátindi, undirritaður Óskar Kárason Sunnuhól, Eyjólfur Martinsson, drengur, Hannes Haraldsson, drengur.
Eftir að komið var til bóls, var nokkur bið eftir, að Suðureyingar kæmu, en þeir mættu svo eftir um eina klst. Þeir voru: Skúli Theódórsson húsasmiður, Ágúst Ólafsson, Gíslholti, Gunnar Stefánsson, Gerði, Bárður Auðunsson skipasmiður og Jens Kristinsson, Miðhúsum. Með þeim kom einnig upp í eyna skipstjórinn á Gísla Johnsen, hr. Sigurjón Ingvarsson.
Þar með voru allir komnir upp í Bjarnarey, sem við athöfnina ætluðu að vera eða samtals 37 manns. Athöfnin hófst með því, að allir gengu í einum hóp norður að minnismerkinu. Þegar þangað kom staðnæmdist hópurinn skammt frá því.
Þá gekk fram Sigfús Johnsen og hélt stutta ræðu. Hann tilkynnti, að vegna veikindafjarveru formanns Bjargveiðimannafélags Vestmannaeyja, Árna Árnasonar símritara frá Grund, mundi Hlöðver Johnsen flytja vígsluræðuna og afhjúpa minnismerkið. Ennfremur gat hann þess, að eftir athöfnina yrði öllum viðstöddum boðið upp á veitingar við bólið (Kofann). Þegar Sigfús hafði lokið máli sínu, sungu allir sálminn: „Ó, þá náð að eiga Jesúm.“
Að því loknu flutti Hlöðver Johnsen ræðu sína. Hann þakkaði öllum, sem að minnismerkinu hefðu unnið og sérstaklega Árna Árnasyni, sem teiknað hefði og ráðið gerð merkisins. Þá þakkaði hann og Þorsteini Sigurðssyni, sem slegið hafði upp mótum þess. Ennfremur þakkaði hann Óskari Kárasyni, sem séð hafði um að skreyta það með kvartsi, hrafntinnu og silfurbergi og lagfært margt, sem aflaga hafði farið. Hlöðver gat þess og, að Árni Árnason hefði átt hugmyndina að minnismerkinu og unnið vel og mikið að þeirri hugmynd sinni, sem nú væri orðin að veruleika.
Á eftir þessum orðum, las Hlöðver upp minningargrein, samda af Árna Árnasyni, og var hún um Sigurgeir Jónsson frá Suðurgarði, er hrapað hafði á uppstigningardag 1935.
Minningargreinin var prýðilega samin og ágætlega flutt. (Þess má geta að greinin er skráð í Gestabók Bjarnareyjarveiðimanna.) Eftir að Hlöðver Johnsen hafði lokið máli sínu var sunginn sálmurinn „Hærra minn guð til þín“ og minnismerkið þá afhjúpað. Þá var þessari athöfn lokið, er fór í alla staði vel og mjög hátíðlega fram.
Síðan var gengið til bóls, en þar var komið fyrir borði úti undir berum himni. Var borðið hlaðið alls konar kökum og kræsingum. Gengu þar allir að glerkönnum, sem þegar voru fylltar sjóðandi og góðu kaffi. Borðhald þetta mun algjörlega einstæður viðburður í sögu úteyjanna, og aldrei hef ég notið veitinga í stórkostlegra og fegurra umhverfi.
Meðan á borðhaldinu stóð, voru sungin ættjarðarljóð, en að því loknu var gengið aftur að minnismerkinu. Þar mælti Árni J. Johnsen nokkur orð, en síðan sungu allir þjóðsönginn.
Þar með var þessari virðulegu og sérstöku athöfn að fullu lokið. Hafði þarna á verðugan hátt verið minnst frægasta fjallamanns Eyjanna, Sigurgeirs Jónssonar í Suðurgarði.
Dásamleg veðurblíða var allan daginn, sól og hiti. Friðrik Jesson filmaði athöfnina og mun myndin geymd í fórum Vestmannaeyingafélagsins.
Báturinn kom að sækja okkur um tíuleytið um kvöldið og heim var komið klukkan rétt fyrir ellefu. Það eitt skyggði á þessa virðulegu athöfn, að Árni Árnason, formaður Bjargveiðimannafélagsins, gat ekki verið viðstaddur vegna veikinda, en hann átti ekki hvað síst þátt í, að þetta fyrsta minnismerki um hrapaða fjallamenn var reist.


Tveir fróðleiksmolar sem tengjast Bjarnarey
(skráð af Óskari Kárasyni)


Einn af þeim, sem oft voru í Bjarnarey, var Guðjón Eyjólfsson á Kirkjubæ. Hann var mörgum fremri í því að vera þeim minni máttar stoð og stytta með hlýjum orðum og viðmóti. Fjallamaður var Guðjón í allra fremstu röð, hugrakkur og fimur og hikaði því hvergi. Það var oft í fjallaferðum, að hann lagði líf sitt beinlínis í hættu til þess að gegna sem best sínu fyrirliðastarfi, t.d. í leigumálum Kirkjubæjarjarða o.fl. Viðbrugðið er hugrekki því, er hann sýndi, er hann reyndi að bjarga tengdaföður sínum, Guðmundi Þórarinssyni bónda á Vesturhúsum, frá drukknun við Álsey, en fullvíst er talið, að með snarræði sínu og hugdirfsku hafi hann komið í veg fyrir frekari slys á mönnum í það skiptið.
Guðjón var sérlega skemmtilegur viðlegufélagi, enda var hann mjög eftirsóttur sem slíkur, auk hans miklu veiðimanns- og bjarggönguhæfileika.
Þar sem Guðjón var, þar var og sungið mikið, sungið af hjartans list, því söngurinn var hans yndi. Honum var gefin í vöggugjöf, sem þeim bræðrum og ættmennum fleirum, fögur söngrödd. Þá sérgáfu þroskaði Guðjón, m.a. undir handleiðslu Sigfúsar Árnasonar. Ungur gekk Guðjón í söngkóra hans, bæði utan kirkju og innan og söng um margra ára bil í karlakór og Kirkjukór Vestmannaeyja undir stjórn Sigfúsar og síðar Brynjúlfs Sigfússonar.

————


Á Hvannhillu í Bjarnarey hefir verið all gamall bjargstokkur og þar upp dregið ýmislegt, er upp í eyna skyldi fara. Hins vegar hefir lengi tíðkast að kasta niður öllum fugli þar og eru þá 5 eða 10 fuglar bundnir saman og í sjó kastað, hvar sókningsbáturinn tínir þá upp jafnótt og niður er kastað. En það er langur og erfiður dráttur að draga farangur upp á Hvannhillunefinu. Hæðin mun vera um 80 faðmar. En þar er hreint loft, svo að hvergi kemur við berg á leiðinni upp það, sem dregið er.
Rétt eftir 1930 var skipt um bjargstokk þarna, þar eð sá gamli var orðinn ótraustur og slitinn mjög. Var sá nýi úr baulu af stóru seglskipi og nokkuð boginn, en sterklegur og viðurinn ágætur. Sá bjargstokkur er þar ennþá.
Það mun hafa verið 1932/33, að þeir Bjarnareyingar komu upp hjá sér dráttarspili. Var það úr snurpunótarbát, ágætt spil og all kraftgott. Létti það mikið uppdráttinn móts við það að draga allt upp á handaflinu einu saman. Þetta dráttarspil er enn í fullri notkun. Þar er allur farangur og aðrar sendingar út í eyna til veiðimanna dregnar upp.
Fé allt er hins vegar sett upp við austursteðjann. Þar er góð uppganga, en löng grasbrekka og erfið til uppgöngu fyrir menn. Þeir kjósa þá fremur að fara upp við Hvannhillusteðjann. Þar þarf helst að nota band til uppgöngunnar, en er miklum mun styttra til bóls en fara upp við austursteðjann. En segja má, að þarna við Hvannhillusteðjann sé upp standberg með skútum, hillum og bekkjum að fara. Það telja menn ekki eftir sér og má segja, að það sé nú aðaluppganga í eyna.


Tátubræðraþula


Óvíst er, af hvaða tilefni þessi gamanþula er ort og hvert heitið „Tátubræður“ er sótt. Nær fullvíst má telja af niðurlagi hennar, að höfundurinn sé Óskar Kárason, þó svo að rithöndin á handritinu sé Árna Árnasonar. En hér er minnst á marga mæta menn úr bæjarlífinu í Vestmannaeyjum. (Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012).

Úti er mildur aftanblær,
áfram í gráðið bóndinn rær.
Táta á bræður tíu nær,
taldi hún mér þá upp í gær.
Einn er þar í ölið kær,
ástargosinn Richard mær.
Fúsi hefur tungur tvær,
talar um ást og konulær.
Langspilið Ási ólmur slær,
óðalið hans er Litlibær.
Lúðvík bakar, burstar, þvær,
á brauðunum fálma rottuklær.
Einar nú vestra flugur fær
og Franklín D. reynsluvit sitt ljær.
Gísla stílslistin standi oss fjær
og straumlínumagavitspínan glær.
Baldur skuldafantinn flær
og fyllir upp bankans auraþrær.
Friðþjófur á sér telur tær,
tuttugu jafnan reynast þær.
Hlöðvers í Eden grasið grær,
þar gúrkurnar fylla allar krær.
Gandí er jafnan gegnum glær
og gugginn sem 5-lembd mjólkurær.
Á endann hér hnoðar Óskar rær,
undir niðri skrattinn hlær.


Skýringar:
Richard. Líklega Richard Pálsson, Oddgeirssonar.
Fúsi. Líklega Vigfús Ólafsson frá Gíslholti.
Ási. Ási í Bæ.
Lúðvík. Lúðvík Jónsson, var um tíma bakari í Eyjum.
Einar. Einar Sigurðsson, oft nefndur hinn ríki.
(Franklín D. Franklín Delano Roosevelt, Bandaríkjaforseti).
Gísli. Gæti verið Gísli Þ. Sigurðsson, rafvirki.
Baldur. Baldur Ólafsson, bankastjóri Útvegsbankans.
Friðþjófur. Friðþjófur G. Johnsen, lögfræðingur.
Hlöðver. Hlöðver Johnsen, Saltabergi, oftast nefndur Súlli.
Gandí. Gísli Gíslason, stórkaupmaður.
Óskar. Óskar Kárason, höfundur ljóðsins.
Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit