Bjarnarey

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Bjarnarey, loftmynd

Bjarnarey liggur skammt suður af Elliðaey og er næst henni í stærð, 0.32km². Eyjan er mjög hálend og þverhníptir klettahamrar umlykja eyjuna alla nema á litlu svæði norðaustan megin. Þar er uppgangur á eyjuna. Annar uppgangur er norðvestan á eynni, á Hvannhillu, og þykir mun erfiðari. Á miðri eyjunni er afar hár grasivaxinn fjallhnúkur og í miðjum hnúknum er dæld. Fjallhnúkurinn nefnist Bunki og er gjallgígur líkt og á Elliðaey, hæsti punktur þar er 161 m yfir sjávarmáli. Bjarnarey myndaðist í eldgosi um svipað leyti og Elliðaey eða fyrir 5-6 þúsund árum. Veiðikofi Bjarnareyinga er sunnan við Bunka og er sá eini á eyjunni. Graslendi þekur alla eyjuna og lundi hefur grafið sér holur mjög víða. Mikill og fjölbreyttur gróður er í eyjunni. Talsverðum fjölda sauðfjár er beitt í Bjarnarey og lundi er veiddur yfir sumartímann, ásamt eggjatöku að vorlagi.

Jón dynkur

Bjarnarey séð ofan af Heimakletti

Margir menn hafa fengið viðurnefni í Vestmannaeyjum í gegnum tíðina. Ein sagan segir frá því að einhverju sinni var Jón nokkur, mikill fjallamaður, uppi í Bjarnarey að síga niður eggjum í bát sem var við eyna. Mennirnir á bátnum kipptu ógætilega í bandið þannig að Jón féll niður úr eynni og í sjóinn u.þ.b. 14 faðma. Öllum brá auðvitað mikið við en um leið og Jón skaust upp úr kafinu sagði hann: „Heyrðuð þið ekki mikinn dynk, piltar?" Eftir þetta var hann alltaf kallaður Jón dynkur.

Úr örnefnaskrá Gísla Lárussonar

Bjarnarey í vetrarbúningi

Bjarnarey liggur suður af Ellirey ca ½ mílu frá Heimaey. Er hún að beit helmingi minni en Ellirey, er þar slægjuland, sem nálega 100 hestar af heyi fást af. Lundatekja á ári um 16.000 og svartfugl 3.-5.000 (og hefir hún mestan svartfugl af öllum eyjunum). Við útnorðursnef eyjarinnar er uppganga erfið, nefnd Hvannhilla, en norðausturnefið Brekaflá, dregið af grunni, sem er þar skammt út frá nefnt Breki ; en milli nefjanna er nefnt Hvannhillubringir. Á austurjaðri eyjanna nyrst er vik, nefnt Höfn ; er uppganga beggja vegna, grasbekkur og nefnt Hafnarbrekka að norðan, en efst í henni og upp af Brekaflá, Hafnarbrekkuhaus.

Fyrir botni Hafnarinnar er urð með einum drang, Hafnardrang ; en upp af er allstór hamar, Glóraveiðar. En þar norður af Réttarhaus, dregið af fjárrétt þar skammt frá. Syðri brekkan við Höfnina er nefnd Suður-Hafnarbrekka og efst í henni Ingimundarflái. Góður veiðistaður; nýtt nafn (1880). Þar fyrir sunnan er hátt standberg, sem myndar hvilft. Er nyrst á þessu svæði nefnt Skora. Landsuðursnefið er nefnt Eystra-Haganef, og er vestan í því hellir við sjó niður, Brynjólfshellir. En efst í nefinu er stór bekkur, Álkustallur. En upp af nefinu er Hagaskoruhaus og enn ofar Hagaskorulágar. Suðvesturnefið er nefnt Vestra-Haganef, en milli Haganefja eru Bringir nefndir, grasivaxnir stallar. Fyrir norðan Vestra-Haganef er Fálkató, dálítil hvilft í bergið með grasteygingum. Þar niður af í berginu eru Bergsteinsofanferðir og þar niður af Stórabæli, stærsti bekkur er svartfugl hefir verpt á hér.

Kringum 1860 var fyrst snarað þar, svo menn viti og höfðust þar 1800 svartfuglar – hér fyrir norðan eru Hrútaskorur, gildrög grasivaxin. Þá kemur Matarkrókur, sem liggur að Hvannhillu, er áður er nefnd (matur dreginn þar upp af fuglamönnum, þegar ekki verður lagt að Steðja). Uppi á háeyjunni er hóll, Bunki, með stórum eldgíg, er nefnist Bunkalág. Vestan í honum og neðan við hann er slægjuland, Slægjan.

Myndir



Heimildir