Ingigerður Jóhannsdóttir

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Ingigerður Jóhannsdóttir húsfreyja, fæddist 6. september 1902 á Krossi í Mjóafirði eystra og lézt 10. desember 1993 á Jósefsspítala í Hafnarfirði.

Ætt og uppruni

Faðir Ingigerðar var Jóhann bóndi og sjómaður á Reykjum og Krossi í Mjóafirði eystra, f. 21. september 1860 í Sandvík í Norðfjarðarhreppi, S-Múl., d. 3. maí 1924 á Eskifirði, Marteins bónda í Sandvík, f. 13. september 1824 í Sandvík, d. 12. maí 1861, Magnússonar bónda í Sandvík, f. 1796, Marteinssonar og bústýru Marteins bónda, Dagbjartar, f. 14. apríl 1819 í Keldudal í Hegranesi í Skagafirði, d. 13. marz 1904 að Krossi í Mjóafirði eystra, Eyjólfs bónda í Keldudal, f. um 1741 á Litlu-Seylu á Langholti í Glaumbæjarsókn, d. 5. des. 1821, Gunnlaugssonar og seinni konu Eyjólfs bónda í Keldudal, Þórönnu húsfreyju, f. 1781 í Litlu-Hlíð í Goðdalasókn í Skagafirði, Magnúsar bónda á Starrastöðum í Fremribyggð, f. um 1759, d. 22. sept. 1813, Magnússonar.

Móðir Ingigerðar og kona Jóhanns bónda var Katrín húsfreyja, f. 2. október 1862 á Krossi í Mjóafirði eystra, d. 30. október 1950 í Goðasteini, Gísla bónda á Krossi, f. 20. marz 1832, d. 5. marz 1904, Eyjólfs bónda síðast í Stóru-Breiðavík í Reyðarfirði, f. 1796, d. 10. október 1842, Guðmundssonar og konu Eyjólfs bónda, Katrínar húsfreyju, f. 1796, d. 6. júlí 1862, Árbjartsdóttur.
Móðir Katrínar og kona Gísla bónda á Krossi var Halldóra húsfreyja og ljósmóðir, f. 27. júlí 1837, d. 3. janúar 1927 í Neskaupstað, Eyjólfsdóttir, Péturssonar og konu Eyjólfs, Sigríðar „yngri“ húsfreyju, f. 12. maí 1815, Guðmundsdóttur.

Æviferill

Ingigerður ólst upp hjá foreldrum sínum á Krossi. Hún hlaut stutta en haldgóða skólagöngu hjá Steini Jónssyni kennara í Mjóafirði, sem mótaði hjá henni jákvæð lífsviðhorf og beindi huga hennar til lesturs og ljóðrænu. Ekki var um frekari skólagöngu að ræða enda lífsbjörgin dýrmætust þar.
Hún leitaði sér atvinnu í Reykjavík, þar sem hún vann m.a. sem „stuepige” á heimili Jóns Þorlákssonar þáverandi landsverkfræðings, síðar forsætisráðherra. Einnig lærði hún fatasaum. Hún veiktist af berklum og var um skeið á Vífilsstaðaspítala, þar sem hún náði fullum bata á skömmum tíma.

Ingigerður og Þorsteinn um tvítugt


Þau Þorsteinn giftu sig 1. jan. 1926.
Hann var sendur til Eyja 1927 til að reka þar unglingaskóla. Þau fengu inni í risinu í Bólstaðarhlíð hjá Ingibjörgu Ólafsdóttur og Birni Bjarnasyni. Þar fæddist Stefán Vigfús elzta barn þeirra hjóna 26. júní 1928.
Það ár fluttu þau leigjendur að Grímsstöðum við Skólaveg, en um 20. maí 1930 fluttu þau leigjendur að Þingeyri við Skólaveg 37 og þar fæddist Kristín Sigríður 27. maí.
Í sömu viku kom til þeirra í fóstur Anna Pálína Sigurðardóttir, f. 30. ágúst 1920, d. 5. des. 2004, Jóhannssonar, bróðurdóttir Ingigerðar, síðar kona Guðlaugs Guðjónssonar trésmíðameistara og forstjóra Smiðs h.f. Hún ólst upp hjá þeim, unz hún hleypti heimdraganum.

Bólstaðarhlíð
Grímsstaðir
Þingeyri
Brekka
Háigarður um 1942

Þau hjón keyptu húsið Brekku við Faxastíg 2. júní 1932. Þar fæddist Víglundur Þór 24. júlí 1934. Ekki tókst þeim að halda Brekku, en seldu hana 1936 og keyptu Háagarð við Austurveg. Þar fæddist Inga Dóra 2. maí 1946.
Í Háagarði ráku þau hjón nokkurn búskap með kúm og stundum sauðfé. Mest bar þó á garðrækt. Þau sáðu til garðávaxta, kartaflna, gulrófna, gulróta og kálplantna, seldu plöntur úr vermireitum til ræktunar og ræktuðu sjálf. Reistu þau rúmgott jarðhús til geymslu jarðarávaxta til eigin nota suður af jaðri gamla bæjarstæðisins, en hluta seldu þau, einkum á Sjúkrahúsið.
Um skeið gerðu þeir Einar Sigurðsson (Einar í Vöruhúsinu, kallaður síðar ríki) með sér félag um garðrækt, en það félag þótti Einari ekki nógu arðbært og datt það upp fyrir.
Nokkuð af mjólk seldu þau föstum viðskiptavinum í kaupstaðnum. Ingigerður vann bæði rjóma, smjör og skyr.
Auk tveggja kvenna, fóstru Þorsteins og móður Ingigerðar, og barna þeirra hjóna, dvöldu margir unglingar hjá þeim hjónum í Háagarði við nám á vetrum. Var hér einkum um skyldfólk þeirra af Austfjörðum að ræða, sem þau tóku til sín ýmist vegna munaðarleysis eða aðstöðuleysis. Oftast var þar einn, en stundum tveir í senn og gat þá orðið þröng á þingi. Einum óskyldum man skrifari eftir. Sá hafði verið í skólanum, en fékk nú ekki þann styrk frá frændfólki í Eyjum sem áður. Þegar hann kom hnugginn til Þorsteins til að segja sig úr skóla var kennaranum nóg boðið. „Bíddu í bænum, ég þarf að athuga þetta frekar”. Hann ræddi málin við konu sína, sem var auðvitað reiðubúin að bæta einum á sig. Nemandinn lauk gagnfræðaprófi með glans. Þá var stundum tuskast í risinu um veturinn, þegar þeir félagar, sem þar gistu, voru í glímuham. Skalf þá stundum gamli Háigarður. „Ég hélt stundum hann mundi hrynja”, sagði Ingigerður síðar.
Búskap hættu hjónin 1947.
Þá var hafin bygging hússins Goðasteins við Kirkjubæjarbraut 11, en hana vann Þorsteinn að mestu leyti sjálfur með börnum sínum nema þar sem nauðsyn var á strangri sérhæfingu iðnaðarmanna.

Kirkjubæjarbraut 11 (Goðasteinn) fyrir gos

Goðasteinn fyrir gos.

Þau seldu Háagarð Guðmundi Jóelssyni frá Sælundi 7. ágúst 1946, en fengu að búa á efri hæðinni, unz þau fluttu í Goðastein 1948 og bjuggu þar til goss 1973. Þá flýðu þau til lands eins og aðrir. Húsið var dæmt ónýtt vegna skemmda af völdum jarðhitans og þakskaða, þó að síðar væri það selt til íbúðar.
Þau settust að í Hafnarfirði, en fengu að skrá sig til heimilis í Eyjum fram að andláti Þorsteins. Vegna starfa hans í Eyjum voru þau þar tíðum og stundum langdvölum.
Ingigerður átti sterkan þátt í áhugamálum, hugsjónum og störfum eiginmanns síns og þau færðu sameiginlegar fórnir. Þau hýstu vísi að Byggðasafni í Háagarði og enn frekar í Goðasteini. Risrýmið þar var troðfullt af munum og eitt herbergið á hæðinni var hálffyllt ljósmyndaplötum Kjartans Guðmundssonar. Í skrifstofu hans voru geymd málverk Kjarvals, sem hann hafði fengið Sigfús fyrrum bæjarfógeta til að selja bæjarfélaginu og varð uppistaðan í Listasafninu.
Þar starfaði einnig byggðasafnsnefndin á sunnudögum við greiningu á ljósmyndum Kjartans. Var þá margt spjallað við sunnudagskaffiborðið hjá Ingigerði, þegar þeir Eyjólfur á Bessastöðum, Árni símritari, Oddgeir Kristjánsson og Guðjón Scheving voru í essinu sínu.
Eftir lát Þorsteins bjó Ingigerður í nokkur ár í íbúð sinni í Hafnarfirði, en fluttist að Hrafnistu þar 1992. Hún lézt af heilaáfalli 10. desember 1993.Heimildir

  • Upphaflega grein ritaði Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Einar Jónsson: Ættir Austfirðinga. Reykjavík: Austfirðingafélagið í Reykjavík, 1953-1968.
  • Ingigerður Jóhannsdóttir, munnleg heimild.
  • Kennaratal á Íslandi. Reykjavík: Prentsmiðjan Oddi, 1958-1988.
  • Pers.
  • Skagfirzkar æviskrár 1850-1890. Akureyri: Sögufélag Skagfirðinga, 1981-1999.
  • Þorsteinn Víglundsson: Dagbækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.