Ritverk Árna Árnasonar/Gunnar Stefánsson (Gerði)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
(Endurbeint frá Gunnar Stefánsson (Gerði))
Fara í flakk Fara í leit
Gunnar í Gerði.

Kynning.
Gunnar Stefánsson smiður og sjómaður í Gerði fæddist 16. desember 1922 og lést 27. desember 2010.
Foreldrar hans voru Stefán Sigfús formaður og útgerðarmaður í Gerði, f. 6. desember 1888, d. 13. febrúar 1965 og kona hans Sigurfinna, f. 21. júlí 1883, d. 13. nóvember 1968.

Kona Gunnars var Elín Árnadóttir húsfreyja, f. 18. september 1927, d. 7. október 2003.
Þau Gunnar byggðu hús að Helgafellsbraut 36 1953 og bjuggu þar til Goss.
Þá fluttust þau til Kópavogs og bjuggu þar að Birkigrund 70 til ársins 1991. Fluttust þau þá aftur til Eyja.

„Gunnar lærði húsasmíði hjá Guðmundi Böðvarssyni og varð meistari árið 1954. Gunnar lærði einnig til vélstjórnarprófs 1968. Gunnar varð meðeigandi að útgerð Halkion VE ásamt föður sínum og bræðrum árið 1960 þangað til þeirri útgerð var hætt árið 1975. Eftir það rak Gunnar, ásamt Stefáni bróður sínum, heildsölu eða þar til 1991 að hann flutti aftur heim til Eyja. Gunnar var góður íþróttamaður á yngri árum og vann til fjölda Vestmannaeyjatitla í greinum frjálsra íþrótta, auk þess varð hann Íslandsmeistari í tugþraut 1945 og 1946. Eftir að Gunnar hætti í útgerð átti golfíþróttin hug hans allan og stundaði hann þá íþrótt allt til 86 ára aldurs. Gunnar keppti fyrir Íslands hönd í landsliði eldri kylfinga í USA og Evrópu. Gunnar var félagi í Akóges frá árinu 1953.
Gunnari hlotnaðist margs konar heiður fyrir sitt ævistarf: Gullmerki GSÍ, gullkross ÍBV. Hann var heiðursfélagi í Bjargveiðimannafélagi Vestmannaeyja og heiðursfélagi í Akóges.“ (Mbl.)

Börn Gunnars og Elínar eru:
1. Leifur fyrrum stýrimaður, rannsóknamaður hjá Hafrannsóknastofnuninni og skipaskoðunarmaður, f. 16. febrúar 1947. Kona hans er Ingibjörg Birna Sigursteinsdóttir Marinóssonar, f. 21. september 1947.
2. Stúlka, f. 8. desember 1949, d. 15. desember 1949.
3. Árni Gunnar rafvirkjameistari, f. 22. desember 1950. Kona hans er Erna Ingólfsdóttir Eiríkssonar, f. 24. október 1952.
4. Stefán Geir fyrrum sjómaður, starfsmaður við Íþróttamiðstöðina í Vestmannaeyjum, f. 1. febrúar 1953. Kona (skilin) var Aðalheiður Ingibjörg Sveinsdóttir Tómassonar, f. 7. apríl 1954.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Gunnar er lágur vexti og fremur smávaxinn, mjög ljóshærður, nærri alhvítt hár, óhært. Léttur er hann á velli og léttur í lund, kátur og ræðinn.
Veiðimaður er Gunnar allgóður, enda snar í hreyfingum, fylginn sér og kappsfullur. Hann þykir góður úteyjafélagi og hefir verið í Suðurey og Álsey.
Þess utan hefur hann verið við aðrar veiðar og eggjatöku, góður liðsmaður í hvívetna. T.d. er hann afhaldinn matreiðslumaður Suðureyinga og skákar þar jafnvel margri húsmóðurinni í bakstri og steikum. Smiður er hann að iðju, en hefir að jöfnu verið til sjós.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.