Guðrún Kristín Ingvarsdóttir

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Guðrún í Skuld og Ingunn dóttir hennar.

Guðrún Kristín Ingvarsdóttir húsmóðir í Skuld, síðast að Foldahrauni 40, fæddist 5. marz 1907 og lézt 26. marz 2005.

Ætt og uppruni

Faðir Guðrúnar í Skuld var Ingvar bóndi í Koti á Rangárvöllum 1893-1895, síðar steinsmiður í Reykjavík, f. 5. febrúar 1863, d. 30. nóvember 1915, Sveinsson bónda á Vestri-Torfastöðum í Fljótshlíð, f. 4. júlí 1833, d. 15. september 1891, Árnasonar bónda á Arngeirsstöðum þar, f. 3. júlí 1799, d. 4. júlí 1860, Jónssonar, og konu Árna bónda, Guðrúnar húsfreyju, f. 14. nóvember 1805, d. 6. október 1860, Jónsdóttur.
Móðir Ingvars steinsmiðs og kona Sveins á Torfastöðum var Ingibjörg húsfreyja, f. 6. desember 1829, d. 1. mars 1898, Gísladóttir bónda á Brekkum á Rangárvöllum 1823-1869, f. 22. júní 1799 í Gunnarsholti, d. 17. júlí 1869 á Brekkum, Árnasonar, og konu Gísla á Brekkum, Ingiríðar húsfreyju, f. 10. október 1790, d. 21. janúar 1868, Finnsdóttur.

Móðir Guðrúnar í Skuld og kona (18. október 1893) Ingvars steinsmiðs var Guðrún húsfreyja, f. 18. júní 1873, d. 21. júní 1959, Jónsdóttir bónda á Þorleifsstöðum á Rangárvöllum, f. 19. október 1822 í Kotmúla í Fljótshlíð, d. 16. desember 1899 á Þorleifsstöðum, Þorvarðssonar bónda í Kotmúla, skírður 11. ágúst 1777, d. 30. janúar 1845, Sveinssonar, og konu Þorvarðar, Kristínar húsfreyju, f. 1780, d. 30. september 1852, Þorsteinsdóttur.
Móðir Guðrúnar húsfreyju og kona Jóns á Þorleifsstöðum var Ingibjörg húsfreyja, f. 8. ágúst 1833, d. 7. mars 1893, Böðvarsdóttir bónda á Reyðarvatni á Rangárvöllum, f. 25. febrúar 1800 í Gunnarsholtshjáleigu þar, d. 18. júní 1870 á Reyðarvatni, Tómassonar, og konu Böðvars á Reyðarvatni (1. nóvember 1832), Guðrúnar húsfreyju á Reyðarvatni, í hjónabandi þeirra Böðvars 1851-1870 og í síðara hjónabandi með Helga Bjarnasyni 1871-1882, f. 16. júní 1816, d. 22. júli 1906 á Reyðarvatni, Halldórsdóttur.
Bróðir Guðrúnar í Skuld var Böðvar Ingvarsson verkstjóri á Ásum, f. 29. ágúst 1893, kvæntur Ólafíu Halldórsdóttur húsfreyju.

Guðrún í Skuld.

Lífsferill

Guðrún Kristín ólst upp við Grettisgötuna og Bergstaðastræti í Reykjavík. Hún flutti tvítug til Eyja.
Þau Jónas bjuggu á Hásteinsvegi 28, Bergsstöðum, Hlaðbæ og að síðustu í Skuld við Vestmannabraut.
Guðrún rak stórt heimili með miklum myndarbrag. Þegar Jónas maður hennar var skipstjóri, þjónaði hún aðkomnum sjómönnum hans með fæði og fatnaðarþrifum. Hún starfaði að auki við síldarsöltun og aðra fiskvinnu og vann við þrif í Gagnfræðaskólanum.
Ekki má heldur gleyma þjónustustörfum eiginkonunnar við bjargveiðimanninn mikla, reytingu og frágang á lunda, fýl og eggjum og matarsendingum á sókningsdögum.

Í janúarmánuði 1928 giftist Guðrún Jónasi Sigurðssyni skipstjóra frá Skuld, f. 29. mars 1907, d. 4. janúar 1980, og eignuðust þau fimm börn og ólu upp einn dótturson:
Börn þeirra:
1. Ingunn, fædd 12. maí 1928, dáin 24. febrúar 2013.
2. Guðrún, fædd 17. janúar 1930, d. 18. júní 2016.
3. Sjöfn, fædd 5. febrúar 1932.
4. Sigurgeir, fæddur 19. september 1934.
5. Sigurjón Ingvars, fæddur 22. febrúar 1940, d. 11. september 2022.
6. Uppeldissonur þeirra Jónasar og Guðrúnar er Jónas Þór, f. 2. október 1946. Hann er dóttursonur þeirra, sonur Guðrúnar Jónasdóttur og Sigurðar Steinars Júlíussonar.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.