Finnbogi Finnsson (Fagurhól)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Finnbogi Finnsson.

Finnbogi Finnsson fæddist 7. nóvember 1898 og lést 7. ágúst 1926. Hann var sonur Finns Sigurfinnssonar og Ólafar Þórðardóttur en þau áttu 13 börn. Á meðal bræðra Finnboga var Friðfinnur Finnsson.

Finnbogi lést af slysförum í Ísfélaginu.

Myndir


Heimildir

Frekari umfjöllun

Finnbogi Finnsson vélgæslumaður í Íshúsinu fæddist 7. nóvember 1898 í Stóru-Borg u. Eyjafjöllum og lést af slysförum 7. ágúst 1926.
Foreldrar hans voru Finnur Sigurfinnsson frá Ystabæliskoti u. Eyjafjöllum, bóndi á Stóru-Borg þar, f. 1855, d. 16. maí 1901, og kona hans Ólöf Þórðardóttir vinnukona, síðar húsfreyja á Stóru-Borg u. Eyjafjöllum, f. 20. janúar 1862 í Hvammi u. Eyjafjöllum, d. 16. apríl 1935.

Föðurbróðir Finnboga var Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri, útgerðarmaður, skipstjóri á Heiði.
Barn Ólafar með Einari Jónssyni, síðar í Norðurgarði:
1. Jónína Einarsdóttir húsfreyja á Seljalandi, f. 25. mars 1885, d. 22. september 1968.
Börn Ólafar og Finns hér:
2. Sigrún Finnsdóttir, f. 17. júlí 1887, d. 20. júlí 1887.
3. Þórður Finnsson, f. 6. ágúst 1888, d. sama dag.
4. Jóhann Kristinn Finnsson sjómaður í Hlíð 1910, f. 30. júlí 1889, d. 11. janúar 1915.
5. Þórfinna Finnsdóttir, (kölluð Þóra), húsfreyja í Eyjum, f. 28. maí 1891, d. 15. nóvember 1976.
6. Einar Finnsson, f. 27. maí 1893, d. 1. júlí 1893.
7. Sigrún Finnsdóttir húsfreyja í Sólhlíð 24, síðast í Reykjavík, f. 13. júlí 1894, d. 7. mars 1972.
8. Helga Finnsdóttir húsfreyja í Eyjum og Reykjavík, f. 28. september 1895, d. 25. apríl 1989.
9. Ingibjörg Finnsdóttir vinnukona, f. 17. september 1896, d. 9. mars 1924.
10. Finnbogi Finnsson vélgæslumaður í Íshúsinu, f. 7. nóvember 1898, d. 7. ágúst 1926 af slysförum.
11. Sæmundur Finnsson, f. 21. nóvember 1899, d. 14. desember 1899.
12. Friðfinnur Finnsson kafari, kaupmaður á Oddgeirshólum, f. 22. desember 1901, d. 6. september 1989.

Finnbogi missti föður sinn 1901, er hann drukknaði við Klettsnef.
Ólöf móðir Finnboga gat ekki séð börnum sínum farborða og varð að koma flestum þeirra í fóstur.
Finnbogi var með móður sinni í Stóru-Borg í fyrstu, en síðan í Hólakoti og fluttist þaðan til Eyja 1906 með móður sinni og Friðfinni bróður sínum.
Friðfinnur fór í fóstur að Brekkuhúsi, en Finnbogi var vikadrengur í Þorlaugargerði 1907, með vinnukonunni móður sinni í Hvammi 1908, með húskonunni móður sinni í Fagurhól 1909 og 1910. Þau voru leigjendur í Garðhúsum 1911 og 1912.
Finnbogi var vinnumaður í Garðhúsum 1913, leigjandi á Lögbergi 1914, leigjandi í Pétursborg 1915, á Rafnseyri 1918 og 1919.
Hann bjó með móður sinni í Íshúsinu 1920-1923, með henni, Sigrúnu systur sinni og fósturbarni hennar Ingibjörgu Finns og Finni Sigurfinnssyni Sigurjónssyni 1924.
Finnbogi byggði Nýjaland við Heimagötu 26 og þar bjó hann 1925 með móður sinni, Friðfinni bróður sínum, Helgu systur sinni og Sigurjóni Pálssyni ásamt þrem börnum þeirra. Eitt þeirra Finnur Sigurfinnsson Sigurjónsson var talið fósturbarn Ólafar og Finnboga.
Finnbogi var vélgæslumaður hjá Ísfélaginu í 7-8 ára. Hann lést af sprengingu, sem varð þar 1926.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.