Ritverk Árna Árnasonar/Fríður Lárusdóttir

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search




Úr fórum Árna Árnasonar


Fríður Lárusdóttir


FRÁ BÚASTÖÐUM


fædd 17. apríl 1880 - dáin 6. október 1959


Fríður Lárusdóttir.

Þann 6. október 1959 lézt á sjúkrahúsinu hér frú Fríður Lárusdóttir frá Búastöðum, nær áttræð að aldri. Með henni hvarf af sjónarsviðinu síðasta systkinið af börnum þeirra Búastaðahjóna, Lárusar og Kristínar.
Sú ætt festi hér rætur við komu þeirra hjóna til Eyja 1863. Má með sanni segja, að hún hafi verið meðal hinna traustu og dugmiklu íbúa byggðarlagsins, sem kallaðir hafa verið „kjarnafólk Eyjanna“. Það var fólkið, sem mest barðist fyrir frelsinu úr viðjum fátæktar og hverskonar þróunarhafta, til bættra og mannsæmandi lífskjara, fram til menningarbrauta 20. aldarinnar.
Hvert af öðru hefur þetta framsýna dugnaðarfólk horfið til liðinna feðra sinna hin síðari árin. Það skilur eftir sig fjölda áþreifanlegra dæma um langt og erfitt ævistarf, hlýjar minningar frá langri samleið, og okkur eftirlifandi furðu lostna yfir frábærri þrautseigju þess, nægjusemi og harðfylgi í lífsbaráttunni. Við dauða þess sjáum við oft, þá fyrst, hvílík mikilmenni hafa verið að verki fyrir framtíðarheill Eyjanna og niðjanna:

Þroskaglæður Eyja arfs
öðrum gæði tryggja...

Þá fyrst sjáum við, hversu vel þau hafa búið okkur í haginn með þróttmiklu starfi. Bætt lífskjör þessa fyrr aðþrengda fólks, voru ekki unnin án hverskonar fórna. Einungis það að temja sér sparnað og nægjusemi á öllum sviðum, iðjusemi og fórnfýsi, að ógleymdri órjúfanlegri samheldni gegn erlendu þvingunarvaldi, sem hneppt hafði alla viðleitni almennings til menntunar og menningarþroska í kyrrstöðuviðjar, færði því loks sigurinn.
Margt af því lifði það að sjá hilla undir betri og bjartari tíma í Eyjum. Það sá árroðann vaxa og röðulinn loks rísa úr Rökkurmóðu hinna erfiðustu tíma. Þá fyrst fóru geislar ljóss og yls að lýsa og verma brautir þessara forfeðra okkar, gegnum skin og skúrir, eins og blóma í frjórri jörð:

En árröðull blikar
yfir bládjúpi
brotna bráleiftur
á bárufeldi.
Skin er fegurst
í skúradrögum
er merlar gull sitt
í morgundögg...

Til þessa kjarnfólks heyrði Fríður Lárusdóttir. Hún var dóttir Lárusar hreppstjóra á Búastöðum, f. 1839, Jónssonar bónda að Dyrhólum Ólafssonar. Móðir Lárusar var Ólöf, f. 1811, dóttir Eiríks bónda að Höfðabrekku Sighvatssonar og konu hans Sigríðar Þorsteinsdóttur.
Kona Lárusar var Kristín, f. 1843, Gísladóttir bónda í Pétursey Gíslasonar, en móðir Kristínar var Steinvör Markúsdóttir bónda Árnasonar að Bólstað og konu hans Elínar Skúladóttur frá Litlu-Heiði. Var Steinvör yngst 5 systkinanna, en Þórdís, móðir Markúsar í Hjörleifshöfða, næstyngst.
Lárus og Kristín fluttu til Eyja, sem fyrr getur, 1863. Með þeim kom elzta barn þeirra, Ólöf, þá eins árs. Árið eftir kom svo Ólöf móðir Lárusar og Bjargey systir hans, (hún giftist síðar Einari í Steinum undir Eyjafjöllum).
Lárus hóf búskap hér í Kornhól og var þar til 1869, að hann flutti að Búastöðum, hvar hann dvaldi síðan. Þau hjónin eignuðust 10 börn, en aðeins sex þeirra komust til fullorðinsára:

1. Ólöf, fyrrnefnd, kona Guðjóns Björnssonar á Kirkjubóli Einarssonar,
2. Gísli gullsmiður í Stakkagerði, kvæntist Jóhönnu Árnadóttur þar Diðrikssonar.
3. Steinvör, giftist Einari frá Dölum Bjarnasyni, bróður Guðríðar í Sjólyst. Þau fóru til Ameríku og létust þar.
4. Jóhanna, giftist Árna frá Vilborgarstöðum Árnasyni, síðar að Grund.
5. Pétur, síðar bóndi að Búastöðum og verzlunarmaður, kvæntist Júlíönu Sigurðardóttur frá Nýborg Sveinssonar.
6. Fríður Lárusdóttir.

Yngsta barnið, sem upp komst var Fríður. Hún ólst upp með foreldrum sínum að Búastöðum. Það var stórt heimili, sem framfleytti um og yfir 2o manns, en talið efnað að þess tíma mati.
Uppvaxtarár þeirra Búastaðasystkina voru hörð og ströng sem hjá fleiri samtíðarmönnum þeirra. Aflaleysisárin dundu yfir, farsóttir og harðæri til lands ollu miklum erfiðleikum, sem knésettu margan manninn.
En Búastaðaheimilið komst þó allvel af. Jörðin góð, nytjar hennar miklar, Lárus formaður fyrir stórskipi og góður aflamaður. Hann var góður smiður og gegndi tveim embættum, þ.e. hreppstjóri og lóðs, sem gáfu nokkrar tekjur í aðra hönd.
Lárus á Búastöðum drukknaði af skipinu Hannibal á innsiglingunni 9. febr. 1895. Var hann mörgum harmdauði og héraðinu mikill hnekkir að fráfalli hans, sem einum af dugmiklum forystumönnum þess.
Eftir fráfall Lárusar bjó Kristín ekkja hans með börnum sínum, þeim Pétri og Fríði, en síðar með þeim systkinum í sambýli. Hún lézt 30. desember 1922, tæpra 80 ára gömul. Hún var mikilhæf kona, gáfuð vel og fróðleiksbrunnur um menn og málefni.
Þegar Fríður var um fermingu fór hún að „ganga í Sandinn“, sem kallað var, þ. e. að vinna að fiski og við út- og uppskipun á vörum úr kaupskipunum, sem þá tíðkaðist um kvenfólk.
„Börn og unglingar ólust í þá tíð upp við mikla vinnu og aðhald heimilanna og voru látin gera sitt til þess að létta undir. Ekkert vinnuafl var látið ónotað, og innan heimilanna eða utan voru ávallt störf við getu hvers eins. Heimilin voru skólinn, sem hverju barni var nauðsynlegt að notfæra til hins ýtrasta, meðan foreldratilsagnar naut við. Lífið var annað meira en leikur og mikils krafizt af hverjum og einum í sjálfsbjargarviðleitninni, góðum siðum, dugnaði og iðjusemi. Það voru dyggðir þátímans í daglegu lífi.“
Þannig fórust Fríði sjálfri orð um æsku sína og unglingsár.
Um aldamótin tíðkaðist talsvert, að stúlkur, jafnvel giftar konur, færu til Austfjarða í atvinnuleit yfir sumartímann og ynnu þar fiskvinnu og eða húsverk. Fríður fór austur ásamt fleirum. Þar líkaði henni vel að vera, góður aðbúnaður, mikið umleikis til lands og sjávar og gott fólk. Hún var á Mjóafirði hjá Konráði Hjálmarssyni, síðar á Fáskrúðsfirði og undi vel hag sínum.
Eitt sinn var hún fimm dægur á leiðinni frá Fáskrúðsfirði til Eyja á „Hjálmari" í aftakaveðri. Sagðist hún lengi myndu muna heimkomudaginn þá, en það var 5. des. 1897. Sagðist hún hafa fundið vel, að heima var bezt. Hún var þá rúmlega 17 ára gömul.
Árið 1902 fór Fríður til Reykjavíkur að læra fatasaum. Var hún hjá Thomsens Magasin og lauk þaðan prófi 1903 með góðum vitnisburði. Var henni boðin þar atvinna, en hún kaus að fara heim, enda þá farin að hyggja til búskapar.
Árið 1904 giftist Fríður Sturlu Indriðasyni frá Vattarnesi. Bjuggu þau fyrst að Búastöðum í sambýli við Kristínu og Pétur, en síðar Pétur og Júlíönu Sigurðardóttur.
Sturla flutti til Eyja 1904. Hann var sonur Indriða á Vattarnesi Sturlusonar og konu hans Bjargar Einarsdóttur frá Tungu við Fáskrúðsfjörð, en móðir Indriða var Úlfheiður Björnsdóttir Ámundssonar frá Hlíð í Lóni. Eru þetta kunnar ættir, sem eiga fjölmarga niðja eystra, hér og í Reykjavík.
Að Búastöðum voru þau Fríður og Sturla til 1923. Þá fluttu þau í nýhýsi sitt við Helgafellsbraut, Hvassafell. Þar bjuggu þau til ársins 1941. Þá seldu þau húsið, en fluttu í hús dóttur sinnar og tengdasonar, Vestra Stakkagerði. Þar lézt Sturla 1. jan. 1945.
Hann var einn af dugmiklum mönnum Eyjanna, harðfrískur og umbótafús, léttlyndur og sérstakur maður, sem systkini hans, fyrir prúðmennsku í allri framkomu. Þau hjónin voru því, þessara mannkosta vegna, mjög samvalin og var sambúð þeirra eftir því. Það var gaman að koma i heimili þeirra, þar sem ávallt ríkti ánægja og gleði og húsmóðirin, að allri framkomu og veitingum, hinn mesti skörungur:

Hún stóð vel í stöðu
og studdi makann,
börnum blíð móðir
beindi að góðu.
Ráðdeild og röggsemd
regla og framkvæmd
héldust í hendur
heimili að prýða.

Fríður var mjög léttlynd kona, kvik á fæti, hreinlunduð og fáguð í framkomu. Í viðræðum ákaflega skemmtileg, stórfróð í sögu Eyjanna og íbúa þeirra og skarpgreind. Henni var leikur að læra og minnug með fádæmum. Sérstaklega einkennandi fannst mér með Fríði, að hún sá ávallt bjartari hliðar manna og málefna og eyddi þeim dekkri með nærri móðurlegri umhyggju. Aldrei hallmælti hún neinum manni, allir voru góðir í hennar vitund, aðeins misjafnlega góðir. Í sorgum og erfiðleikum vina sinna tók hún ætíð þátt af hjálparhlýju og hjálpfýsi. Og þótt hún hefði oft sjálf sínar þungu sorgir að bera, gat hún ávallt miðlað sorgmæddum glaðlyndi, trú og traust.

Lagði lið veikum
og lítilmagna
göfgi og góð störf
gleði veittu.
Hjúkrandi hendur
hjúin æ minnast
gestrisni ei gleyma
grannar og vinir.

Fríður og Sturla áttu 4 börn, er upp komust:
1. Lára, kona Þorgeirs Frímannssonar kaupmanns. Hjá þeim var Fríður i ástúðlegri umönnun síðustu 15 árin.
2. Indíana Björg, kona Más Frímannssonar bifreiðaeftirlitsmanns, Valhöll,
3. Alfreð, málarameistari í Reykjavík, kvæntur Steinunni Jónsdóttur af Akranesi,
4. Pétur, vélameistari í Reykjavík, kvæntur Guðríði Friðriksdóttur frá Þórshöfn.

Þessí minningarorð um Fríði Lárusdóttur eru ekki saga hennar, hún er ósögð eins og saga systkinanna, heldur kveðja til hennar, sem var mér ávallt sem bezta móðir, uppfræðari og vinur. Mörg sporin átti ég heim til hennar. Þau urðu mér til góðs og ánægju, spor, sem mig iðrar aldrei að hafa gengið.
Því fækkar nú óðum gamla kjarnafólkinu, sem setti svip á þorpið hér kringum aldamótin síðustu. Hver hóll og hver laut, hver steinn og hver götuslóði nær og fjær æskuheimilum þess, á sína sögu og heiti. Allt minnir það á líf og starf liðinnar kynslóðar. En einnig örnefnin, fögur túnin og troðnar slóðir á Heimey, standa nú höllum fæti fyrir örlögum sínum, breytingum nútímans. Engu er þyrmt, allt verður að víkja af gamla sjónarsviðinu fyrir sviðstjöldum framtíðarinnar. Aðeins gömlu býlin standa enn um stund, til að sjá sem fagrar vinjar í landi minninganna.

Árni Árnason


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit