Páll Scheving (Hjalla)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Páll Scheving

Páll Scheving fæddist 21. janúar 1904 að Steinsstöðum í Eyjum og lést 15. apríl 1990. Foreldrar hans voru Sveinn P. Scheving og Kristólína Bergsteinsdóttir. Þau fluttu síðar niður í bæ í húsið Hjalla við Vestmannabraut. Páll átti 6 systkini og þrjú, ásamt honum, komust til fullorðinsára.

Eiginkona Páls hét Jónheiður Steingrímsdóttir. Þau giftust árið 1929 og eignuðust þrjú börn: Helgu Rósu, Sigurgeir og Margréti. Jónheiður var driffjöður í starfi Leikfélags Vestmannaeyja. Hún lést árið 1974.

Nám og störf

Þegar Páll var 15 ára var hann ráðinn sem lærlingur í rafvirkjun og vélgæslu hjá Rafveitu Vestmannaeyja. Hann lauk iðnnámi 19 ára gamall, árið 1923, og starfaði eftir það í sjö ár hjá veitunni og reyndist vel.

Páll keypti vélbátinn Fylki VE-14 árið 1934 og gerði út í 3 vertíðir. Á þeim tíma var Fylkir stærsti og glæsilegasti bátur Eyjaflotans. Formaður á bátnum var Guðjón Tómasson og varð hann fiskikóngur á bátnum eina vertíð.

Árið 1936 hætti hann í útgerð og hóf störf hjá Ísfélagi Vestmannaeyja, þar sem hann vann í 7 ár.

Eftir að hafa unnið hjá Ísfélaginu byrjaði hann hjá Lifrarsamlagi Vestmannaeyja. Þar vann hann í 30 ár, fyrst sem verkstjóri og svo sem verksmiðjustjóri.

Félagsstörf

Páll vann mikið í þágu menningarmála Eyjamanna og var virkur í stjórnmálum. Hann var í Sjálfstæðisflokknum og fulltrúaráði flokksins í tugi ára. Páll sat í bæjarstjórn fyrir flokkinn tvö kjörtímabil. Þar að auki sat hann í alls kyns nefndum á vegum bæjarins. Þar vann hann gott starf með hagsmuni bæjarins að leiðarljósi.

Páll var einn af stofnendum Vélstjórafélags Vestmannaeyja en það var stofnað 29. nóvember 1939. Jafnframt var hann formaður félagsins til 1941 og aftur 1950-1953. Hann átti þátt í að skipuleggja fyrsta sjómannadag Vestmannaeyja árið 1940. Þá gekk hann í félagið Akóges skömmu eftir stofnun þess og var heiðursfélagi þess félags.

Páll tók þátt í að stofna Knattspyrnufélagið Tý og var gerðaur að heiðsfélaga í félaginu.

Menntamál sjómanna og vélstjóra voru Páli hugleikin og kenndi hann meðal annars við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum bæði bóklega og verklega vélfræði.

Páll lést að Hraunbúðum, þar sem hann hafði dvalið í tvö ár, 86 ára gamall.

MyndirHeimildir