Engilbert Gíslason

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Click here for Engilbert Gíslason in English


Engilbert
Engilbert
Guðrún með börnin Ástu, Ragnar og Gísla

Engilbert Gíslason var fæddur í Vestmannaeyjum 12. október árið 1877 og lést 7. desember 1971. Hann var sonur hjónanna Gísla Engilbertssonar og Ragnhildar Þórarinsdóttur.

Kona Engilberts var Guðrún Sigurðardóttir frá Borg á Mýrum. Þau áttu 7 börn. Þau voru Gísli f. 1914 d. 1918, Sigurður f. 27. febr. 1916 d. sama dag, Sigurður f. 1917 d. 1918, Gísli f. 1919 d. 2002, Ragnar f. 1924, Berta Guðrún f. 1926 og Ásta f. 1922. Gísli og Ragnar fetuðu í fótspor föður síns og gerðust málarar.

Nám hóf hann við Lærða skólann en þurfti að hætta vegna veikinda. Engilbert vann að verslunarstörfum fram undir tvítugsaldur. Á því tímabili var hann heilsulítill en hann náði loks fullri heilsu eftir fjögurra ára veikindi.

Sumarið 1899 fór Engilbert til Kaupmannahafnar til þess að hefja þar nám við málaraiðn. Engilbert leið vel í Danmörku og dvaldist þar við námið í þrjú ár en framlengdi dvölina um eitt ár til þess að vinna hjá meisturum sínum og húsbændum.

Eftir að Engilbert sneri til landsins á ný fluttist hann til Eyja til að mála Landakirkju. Eftir það dvaldist hann í 6 ár við málarastörf í Reykjavík en fluttist svo til Eyja 1910 og var þar allar götur síðan.

Sagt er að Engilbert hafi ætíð vilja gera sem minnst úr málaralist sinni en mörg málverk hans bera þess vitni hversu góður listamaður hann var.

Málverk og teikningar hans af náttúru Vestmannaeyja, atvinnuháttum, mannlífi svo og sögulegar myndir hans, vöktu verðskuldaða athygli. Ferill hans sem listamanns náði yfir 70 ár, en hann lést 94 ára gamall þann 7. desember 1971.

MyndirHeimildir

  • Kristján Guðlaugsson. Íslenskir málarar. Reykjavík: Málarameistarafélag Reykjavíkur, 1982.