Blik 1962/Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum, 3. kafli, I. hluti
Það er sem hitamagn færist um hug íslenzku þjóðarinnar, er hún tekur að hugsa til þjóðhátíðarinnar 1874 og undirbúa hana.
Með 8. tug 19. aldarinnar rís ný alda í íslenzku þjóðlífi til fræðslu og aukinnar menningar. Sú alda hafði í för með sér stofnun og starfrækslu barnaskóla víða í byggðum landsins, sérstaklega við sjávarsíðuna.
Í Garðinum á Reykjanesi var stofnaður barnaskóli 1871 og á Vatnsleysuströnd árið eftir. Hann hóf starf sitt með 30 nemendum. Rétt er að geta þess hér, að fyrsti kennari við Vatnsleysustrandarskólann var séra Oddgeir Þórðarson sýslumanns Guðmundssonar. En séra Oddgeir varð síðar (1889) prestur að Ofanleiti í Vestmannaeyjum og barnakennari þar og áhrifaríkur aðili í uppeldis- og fræðslumálum sveitarfélagsins.
Á Seltjarnarnesi var stofnaður barnaskóli 1875. Í Seyðisfirði eystra var barnaskólamálinu hreyft opinberlega 1878. Þar hefst fastur barnaskóli 1881. Eskfirðingar byggðu barnaskólahús 1875 m.a. fyrir fé, sem safnazt hafði við almenn samskot í kauptúninu*.
Fréttir af framtaki einstaklinga og sveitarfélaga í þessum fræðslumálum víða um land fóru ekki framhjá foringjum félagsmálanna og frumkvöðlum menningarmálanna í Vestmannaeyjum eins og t.d. séra Brynjólfi Jónssyni að Ofanleiti og Gísla bónda Stefánssyni í Hlíðarhúsi.
Eins og kunnugt er, þá ráða kosningar oft örlögum mála og málefna. Árið 1880, 22. júní, hlutu þessir menn kosningu í sýslunefnd Vestmannaeyja: Séra Brynjólfur Jónsson, Gísli bóndi Stefánsson, Árni hreppstjóri Einarsson á Vilborgarstöðum og
Ingimundur Sigurðsson bóndi í Draumbæ. Sýslumaður var sjálfkjörinn formaður sýslunefndar samkvæmt lögum. Sýslumaður í Eyjum var þá Daninn Michael Marius Ludvig Aagaard (1872—1891).
* Sjá sögu alþýðufræðslunnar á Íslandi eftir Gunnar J. Magnúss.
Allir höfðu þessir menn brennandi áhuga á aukinni barnafræðslu í sveitarfélaginu og stofnuðu barnaskóla í Eyjum til þess m.a. að fullnægja boðum hinna nýju laga (lög nr. 2, 9. jan. 1880) um aukna fræðslu barna í skrift og reikningi.
Eftir sýslunefndarkosningarnar 1880 boðuðu þessir menn til almenns borgarafundar í þinghúsi hreppsins og ræddu þar í áheyrn almennings skólahugsjónina.
Almenningur tók málinu feginshugar og samþykkti einum rómi, að stofna skyldi þá þegar fastan barnaskóla í Vestmannaeyjum, sem tæki til starfa það haust. Jafnframt var samþykkt á fundi þessum að efna þá þegar til byggingar nýs skólahúss handa barnaskólanum, sem byggt skyldi úr höggnu móbergi eins og Brydebúðin (Austurbúðin), sem þá var í byggingu vestan við Skanzinn.
Fundarmenn buðust til að höggva til grjótið í bygginguna í þegnskylduvinnu að haustinu, þegar ekkert var annað fyrir stafni, og flytja það á byggingarstað hreppnum eða sýslunni að kostnaðarlausu.
Séra Brynjólfi Jónssyni var falið að gera kostnaðaráætlun
um byggingu hins nýja skólahúss. Þá áætlun gerði hann fyrir sýslunefnd í samráði við hinn fyrirhugaða byggingarmeistara skólahússins, Sigurð Sveinsson í Nýborg, sem hafði þá á hendi yfirsmíði verzlunarhússins nýja fyrir hinn danska selstöðukaupmann í Eyjum, J.P.T. Bryde í Danska Garði.
Presturinn áætlaði, að nýja skólahúsið mundi kosta í peningum um 2.000 krónur. Gert var ráð fyrir, að sýslusjóður legði fram 500 krónur til byggingarinnar, en kr, 1.500,00 fengjust að láni hjá landssjóði.
Jafnframt byggingarmálinu var nú kostað kapps um að útvega viðunandi leiguhúsnæði handa hinum fyrirhugaða barnaskóla. Einnig þurfti að útvega hæfan kennara.
NÖJSOMHED. (Sjá Blik 1960).— Myndina gerði Engilbert Gíslason, málarameistari. Hún er af suðurhlið hússins og vesturgafli. Á gaflinum sést votta fyrir dyrunum, þar sem gengið var inn í skólastofuna. Sjá að öðru leyti greinina hér um barnafræðsluna.
Langt var liðið á haustið, þegar öllum undirbúningi var lokið að skólastofnuninni og skólinn gat hafizt. Sýslunefndin tók á leigu handa skólanum eina stofu í hinum gamla embættismannabústað í Eyjum, sem ekki var það nú lengur, Nöjsomhed. Stofan var við norðurvegg hússins og á henni tveir gluggar gegn norðri. Gengið var inn í skólastofuna um dyr á vesturgafli hússins norðanverðum, (Sjá hér mynd af Nöjsomhed). Innan við útidyrnar var lítill gangur eða anddyri. Þar inn af var kennslustofan. Þar mátti hola niður 15—20 nemendum, með því að engar sérstakar kröfur voru gerðar um lágmark loftrýmis á hvern nemanda, ef gólfrýmið reyndist viðunandi. Skólaborðin voru einskonar flekar á löppum og setubekkir úr tré með þrem rimlum í baki. Á hverjum bekk gátu setið 4—5 nemendur. Bekkur var hafður með suðurvegg í stofunni og þrír aðrir, sem sneru eins og hann, svo að allir nemendurnir sátu gegn gluggunum. Kolaofn var í hægra horni stofunnar, þegar inn var gengið. Kennarinn hafði stól sinn og lítið borð við norðurvegg innan við innri (eystri) gluggann.
Einar Árnason, frá Vilborgarstöðum, barnakennari í Vestmannaeyjum 1880— 1882. (F. 16. okt. 1852, d. 16. marz 1923):
Einar Árnason var fæddur á Vilborgarstöðum í Vestmannaeyjum, sonur hjónanna þar, Árna hreppstjóra Einarssonar og Guðfinnu Jónsdóttur prests Austmanns.
Á æskuárum stundaði Einar Árnason nám hjá Bjarna E. Magnússyni, sýslumanni í Eyjum, sem hélt unglingaskóla á heimili sínu og veitti nokkrum unglingum þar fræðslu árlega ókeypis. Eftir að Einar hafði verið barnakennari í fæðingarbyggð sinni í tvö ár, fluttist hann til Reykjavíkur (vorið 1882) og gerðist verzlunarmaður þar og á Suðurnesjum um skeið. Síðan sigldi hann til Kaupmannahafnar og lagði þar stund á verzlunarnám. Að því loknu gerðist hann verzlunarstjóri hjá Thomsen kaupmanni í Rvík, og vann hjá honum, unz hann stofnaði eigin verzlun þar í bæ og gerðist sjálfur kaupmaður.
Ungur að árum trúlofaðist Einar Árnason Rósu Brynjólfsdóttur prests Jónssonar að Ofanleiti, en missti hana áður en til giftingar kom.
Kona Einars kaupmanns var Guðrún Sigríður Lúðvíksdóttir Knudsen verzlunarmanns í Reykjavík, danskættuð. Heimili þeirra hjóna var að Vesturgötu 45 í Rvík. Börn þeirra: Árni kaupmaður (nafn hans er þekkt í fyrirtækinu Einarsson og Funk), Lúðvík málarameistari og Rósa. Öll ógift og barnlaus.
Fyrsti kennari við barnaskóla Vestmannaeyja 1880 var
Einar verzlunarm. Árnason bónda og hreppstjóra Einarssonar á Vilborgarstöðum og konu hans Guðfinnu Jónsdóttur prests Austmanns að Ofanleiti.
Á uppvaxtarárum sínum í Eyjum hafði Einar kennari notið kennslu hjá sýslumanninum, Bjarna Einari Magnússyni, sem starfrækti þar unglingaskóla að kvöldinu nokkra vetur. Kennsla var ókeypis. Í skóla þeim lærði Einar m.a. dönsku. Síðan æfði hann sig að tala málið við danska drengi, sem jafnan voru á dönsku kaupskipunum, er fluttu vörur til Eyja og lágu þar vikum saman á sumrin.
Einnig kenndi sýslumaður í skóla sínum skrift og reikning.
Þetta var það eina, sem Einar hafði lært fyrir utan þá tilsögn, er hann í bernsku hafði fengið í foreldrahúsum á Vilborgarstöðum.
Þegar barnaskólinn var stofnaður í Eyjum, bjuggu þar 558 manns. Af þeim voru 21% ólæsir á ýmsum aldri innan við tvítugt, þrátt fyrir tíðar húsvitjanir og ötult starf séra Brynjólfs sóknarprests.
Kennslugreinar í hinum nýja barnaskóla voru lestur, skrift, reikningur og kristin fræði. Ekki er mér nákvæmlega ljóst, hvenær skólinn hófst haustið 1880, en að öllum líkindum hefur það verið með nóvembermánuði, því að í okt. það haust er undirbúningi skólastofnunarinnar ekki lokið og hann til umræðu í sýslunefnd. Fullvíst er, að skólinn starfaði þá til febrúarloka eins og mörg fyrstu árin sín. Ekki þóttu tiltök að starfrækja hann lengur vegna vertíðarannanna, sem þá fóru í hönd. Þetta fyrsta starfsár fengu þeir einir inngöngu í skólann, sem eitthvað höfðu lært áður í skrift og reikningi. Þeirri reglu var haldið næstu 15 árin eða þar til yngri deild var stofnuð við skólann 1895.
Kennslan hófst hvern virkan dag kl. 10 að morgni og stóð í 4 stundir daglega eða fram að miðdagsverði, sem þá var venjulega snæddur kl. 2—3 e.h.
Milli kennslustunda, sem voru 50 mínútur, var gefið 10 mínútna hlé.
Nemendafjöldinn fyrsta árið (1880—1881) mun hafa verið 12—15 og aldur þeirra
10—15 ár, allir í einni deild.
Sýslunefnd ákvað skólagjöldin 15 krónur á nemanda allan skólatímann, en 25 krónur fyrir tvo nemendur frá sama aðila. Væru 3 nemendur frá sama framfæranda, skyldi hann greiða 32 krónur fyrir öll börnin. Þetta þóttu óhæfilega há skólagjöld. Þau urðu þess valdandi, að mörg börn urðu að vera án skólagöngunnar sökum fátæktar foreldranna eða annarra aðstandenda þeirra.
Séra Brynjólfur Jónsson lætur ekki mikið yfir þessum vísi að barnaskóla. Hann segir á einum stað, að þennan vetur hafi verið starfræktur „einskonar barnaskóli“ í sókninni.
Haustið 1881 hóf barnaskólinn annað starfsár sitt, líklega með októbermánuði. Skólanum var þá sem áður slitið í febrúarlokin og skólaárið því 5 mánuðir. Skólagjald var hið sama og árið áður. Einnig starfaði sami kennarinn, Einar Árnason frá Vilborgarstöðum. Í skólann gengu það skólaár 19 nemendur, flest drengir. Sökum skólagjaldsins voru nemendur aðeins börn og unglingar hinna betur stæðu foreldra í Eyjum. Börn efnalítilla bænda og svo flestra tómthúsmannanna gengu ekki í skólann sökum fátæktar.
Aldur nemendanna annað skólaárið var 9—17 ár. Allir námu þeir í einni deild, þrátt fyrir hinn mikla aldursmun og nutu sömu kennslu. Námsgreinir voru hinar sömu og árið áður.
Flestir þeirra nemenda, sem gengu í barnaskóla Vestmannaeyja þennan vetur voru þar einnig næsta vetur (1882—1883). Sumir þessara nemenda áttu þá eftir að verða langlífir og merkir menn í sveitarfélaginu og nafnkunnir, einnig utan þess. Fer hér á eftir skrá yfir þessa nemendur:
1. Árni Árnason, f. 14. júlí 1870 að Vilborgarstöðum, sonur Árna bónda þar Árnasonar, er drukknaði af opna skipinu Gauk 13. marz 1874. Móðir Árna og kona Árna eldra var
Vigdís Jónsdóttir, f. 1844. Þegar Gaukur fórst, tók Árni Einarsson hreppstjóri á Vilborgarstöðum og Guðfinna kona hans Árna Árnason til fósturs og dvaldist hann þar til tvítugsaldurs. — Árni giftist Jóhönnu Lárusdóttur á Búastöðum. Sjá nr. 11. hér á eftir.
2. Friðrik Gíslason, f. 11. maí 1870 í Hlíðarhúsi í Vestmannaeyjum. Hann var sonur Gísla bónda og verzlunarmanns Stefánssonar og konu hans Soffíu Lisbeth Andersdóttur Asmundsen frá Stakkagerði. Móðir hennar var Ásdís Jónsdóttir. Friðrik stundaði sjóróðra, en varð annars lærður ljósmyndari. Kona hans var Anna Thomsen. Friðrik var fimur, snarpur og fylginn sér og glímumaður ágætur. Hann kenndi um skeið glímu hjá Glímu- og sundfélagi Vestmannaeyja, sem stofnað var 7. nóv. 1894 með 16 félagsmönnum.
3. Eyvör Sveinsdóttir, fósturbarn hjónanna í Þórlaugargerði,
Hjartar bónda Jónssonar og k.h. Guðríðar Helgadóttur. Eyvör var 11 ára, er hún gekk í skólann.
4. Guðlaugur Jóhann Jónsson, f. 11. nóv. 1866, d. 25. apríl 1948. For.: Jón bóndi Jónsson í Presthúsum og k.h. Ingibjörg Stefánsdóttir, síðar hjón í Stóra-Gerði í Eyjum. Kona Guðlaugs var Margrét Eyjólfsdóttir bónda Eiríkssonar að Kirkjubæ í Eyjum. Guðlaugur og Margrét bjuggu lengi í Gerði.
5. Guðlaugur Vigfússon, f. 18. ág. 1864, d. 4. maí 1942. For.: Vigfús bóndi Einarsson og k.h. Guðrún Guðmundsdóttir, hjón á Miðhúsum. Guðlaugur var um mörg ár starfsmaður hjá Gísla J. Johnsen. Hann giftist Þórdísi, dóttur hjónanna Árna og Guðfinnu á Vilborgarstöðum og missti hana 1910 eftir 17 ára hjónaband. Síðari kona Guðlaugs Vigfússonar var Margrét Hróbjartsdóttir. Þau bjuggu lengi að Grafarholti við Kirkjuveg.
6. Guðjón Eyjólfsson, f. 9. marz 1872, d. 14. júlí 1935. For.: Eyjólfur bóndi Eiríksson og k.h. Jórunn Skúladóttir, hjón á Kirkjubæ. Kona Guðjóns Eyjólfssonar var Halla Guðmundsdóttir frá Vesturhúsum í Eyjum. Þau hjón bjuggu á Kirkjubæ.
7. Guðjón Ingimundarson. For.:
Ingimundur bóndi Sigurðsson, sýslunefndarmaður, og k.h. Katrín Þorleifsdóttir, hjón í Draumbæ í Eyjum. Þau hjón fóru til Ameríku árið 1891** með sonu sína Guðjón og Sigurð.***
** Leiðrétting (1963). Þau hjón fóru ekki til Ameríku. Þ.Þ.V.
*** Þeir Guðjón, Sigurður og Þorsteinn Ingimundarsynir fóru til Vesturheims, Guðjón 1892, Þorsteinn 1900 og Sigurður 1902. V-Skaftfellingar: (Björn Magnússon segir þar Ingimund hafa farið til Ameríku 1891 með fjölskyldu sína, en þau Ingimundur og Katrín finnast ekki í Vesturfaraskrá 1870-1914, en þessir synir eru þar. Þau Ingimundur og Katrín fóru ekki vestur. Þau eru grafin í Eyjum). (Heimaslóð, leiðr.).
Sonur Sigurðar, sem giftist Jónínu Bernharðsdóttur frá Fljótshólum í Árnessýslu, er dr. Ágúst Björgvin, Gimli í Man., Kanada.
8. Guðrún Bjarnadóttir, f. 1868.
Hún dvaldist á Vilborgarstöðum á heimili þeirra hjóna, Árna hreppstjóra og Guðfinnu konu hans. Móðir Guðrúnar hét
Margrét Guðmundsdóttir og var vinnukona hjá hjónunum, þegar
Guðrún gekk í barnaskólann. E.t.v. hefur Margrét móðir hennar verið ekkja.
9. Jes A. Gíslason, f. 22. maí 1872. Hann var því 9 ára, er hann hóf nám í barnaskóla Vestm.eyja og yngstur nemenda, d. 7. febr. 1961. Hann var albróðir
Friðriks Gíslasonar frá Hlíðarhúsi. Vonir standa til, að síðar verði skrifað um Jes A. Gíslason og konu hans, Ágústu Eymundsdóttur, í rit þetta, svo gagnmerkir þegnar voru þau hjón í þessum bæ.
10. Jóhanna Guðmundsdóttir tómthúsmanns Guðmundssonar og k.h. Jóhönnu Guðmundsdóttur, hjón í París (nú Stíghús eða Njarðarstígur 5).
11. Jóhanna Lárusdóttir, f. 23. sept. 1868 á Búastöðum, dóttir Lárusar hreppstjóra Jónssonar, bónda þar, og k.h. Kristínar Gísladóttur (Sjá nr. 1).
12. Jón Pétursson, f. 21. júlí 1868 að Búðarhóli í Landeyjum, d. 18. júní 1932. For : Pétur Benediktsson, sem fluttist til Vestmannaeyja úr Voðmúlastaðasókn 1868 þá 27 ára að aldri, og k.h. (1876) Kristín Guðmundsdóttir, hjón í Þórlaugargerði. Jón fékk byggingu fyrir annari Þórlaugargerðisjörðinni 1905 og bjó þar til dauðadags. Kona hans (1899) var Rósa Eyjólfsdóttir frá Kirkjubæ. (Sjá Blik 1961, bls. 196).
13. Jón Jónsson, f. 13. júlí 1869 í Vestmannaeyjum. For.: Jón hreppstjóri Jónsson og k.h. Jóhanna Gunnsteinsdóttir, sem bjuggu um skeið í Dölum í Eyjum, sjá bls. 236.
14. Jón Þorsteinsson, f. 12. okt. 1868 í Landlyst í Vestm.eyjum, sonur héraðslæknishjónanna í Eyjum, Þorsteins Jónssonar og
Matthildar Magnúsdóttur. Jón Þorsteinsson varð verzlunarmaður í Reykjavík. Einnig mun hann hafa stjórnað verzlun í Borgarnesi um skeið.
15. Júlíus Guðmundsson, f. 1868 í Vestm.eyjum. For: Guðmundur Ögmundsson í Borg á Stakkagerðistúni og
Margrét Halldórsdóttir, sem þá var bústýra hans. Þau giftust 1874. Júlíus var hálfbróðir Ástgeirs Guðmundssonar í Litlabæ og svili hans. Hann bjó lengi á Seyðisfirði eystra, stundaði þar verkamannavinnu; fluttist síðan til Reykjavíkur og dó þar fyrir fáum árum.
16. Kristján Ingimundarson, f. 26. júní 1867 að Gjábakka í Eyjum, d. 14. okt. 1952. For.: Ingimundur hreppstjóri og bóndi Jónsson á Gjábakka og k.h. Margrét Jónsdóttir. Kona Kristjáns var Sigurbjörg Sigurðardóttir, fædd á Raufarfelli undir Eyjafjöllum 3. maí 1861 og dáin í Eyjum 10. marz 1931. Hjónin Kristján og Sigurbjörg bjuggu lengi í tómthúsinu Klöpp.
17. Kristján Loftur Sighvatsson, f. 14. des. 1866, d. 20. maí 1890. For.: Sighvatur formaður Sigurðsson og k.h. (1858) Björg Árnadóttir, bóndahjón á Vilborgarstöðum.
18. Lárus Kristján Lárusson, f. 19. okt. 1874, d. 10. maí 1890. Hann var albróðir Jóhönnu Lárusdóttur, (nr. 11). L.K.L mun ekki hafa hafið námið í barnaskólanum fyrr en haustið 1882, þá 8 ára gamall.
19. Magnús Guðmundsson, f. 1. ág. 1867 í Vestmannaeyjum. For.: Guðmundur bóndi Þorkelsson og Margrét Magnúsdóttir, hjón í Háagarði í Eyjum. Kona Magnúsar Guðmundssonar var Guðbjörg Magnúsdóttir, d. 1940. Þau hjón bjuggu lengi að Hlíðarási við Faxastíg.
20. Magnús Guðmundsson, f. 27. júní 1872 í Vestmannaeyjum, d. 24. apríl 1955. For.:
Guðmundur bóndi Þórarinsson á Vesturhúsum og k.h. Guðrún Erlendsdóttir. Magnús Guðmundsson giftist
Jórunni Hannesdóttur hafnsögumanns Jónssonar. Þau hjón bjuggu allan sinn búskap á Vesturhúsum í Eyjum. Jórunn lézt 24. jan. 1962.
21. Oddur Árnason, f. 1866, d. 8. ág. 1896. For.: Árni Þórarinsson, bóndi á Oddsstöðum, og
k.h. Steinunn Oddsdóttir.
22. Steinvör Lárusdóttir, f. 12. júlí 1868, alsystir nr. 11 og 18.
23. Vigfús Jónsson, f. 14. júní 1871, d. 26. apríl 1943, sonur Jóns Vigfússonar, bónda og smiðs í Túni, og k.h. Guðrúnar Þórðardóttur. (Sjá Blik 1958).
(Mikið af tölum þeim, sem birtar eru í ofanskráðum nemendalista, eru fengnar hjá Árna Árnasyni, símritara, syni nemanda nr. 1).
Í aprílmánuði 1883 þreyttu 29 börn og unglingar próf í skrift og reikningi við barnaskólann í Eyjum, bæði voru það nemendur skólans frá vetrinum og svo þeir, sem notið höfðu einhverrar tilsagnar í heimahúsum um veturinn, ýmist hjá foreldrum sínum eða fósturforeldrum, sum hjá vinnuhjúum þeirra, sem eitthvað höfðu lært í bóklegum fræðum, og þó nokkur hjá prestinum, séra Brynjólfi, sem gerði sitt ýtrasta til að greiða götu barna og unglinga til náms ýmist með eigin starfi eða með því að útvega tilsögn hjá öðrum, sem einhverja þekkingu höfðu til brunns að bera.
Prófin sýndu þennan árangur:
3 börn stóðu sig með ágætum (einkunn 6). Það voru bræðurnir Friðrik og Jes Gíslasynir, og svo Jón Þorsteinsson læknis.
5 börn hlutu einkunnina dável, þ.e. 5.
10 börn hlutu einkunnina vel, þ.e. 4.
3 börn hlutu einkunnina sæmilega, þ.e. 3.
5 börn hlutu einkunnina laklega, þ.e. 2,
og 3 börn hlutu einkunnina illa, þ.e. 1.
Hin 8 síðasttöldu höfðu ekkert lært í reikningi. Auk þessa þreyttu 3 börn lestrarpróf. Þau hin sömu höfðu ekkert lært í skrift og reikningi.
Nemendur skólans frá vetrinum, sem þarna þreyttu próf sitt, voru á aldrinum
11—19 ára. Auk þeirra, sem prófið þreyttu, voru 10 börn í Eyjum á aldrinum
10—12 ára, sem ekki voru látin eða ekki fengust til að þreyta próf þetta vor, þótt þau hefðu eitthvað borið við nám í skrift og reikningi.
Þriðja árið, sem barnaskólinn var starfræktur (1882—1883), var annar Vilborgarstaðabróðirinn kennari við hann. Það var Kristmundur Árnason****.
**** Því miður hefur mér ekki tekizt að fá mynd af Kristm. Árnasyni.
Kristmundur var fæddur á Vilborgarstöðum 2. júní 1864 og þessvegna aðeins 18 ára, er hann tók að sér barnakennsluna í Eyjum. Hann hafði numið hjá séra Brynjólfi Jónssyni að Ofanleiti eins og svo margir unglingar gerðu þá í Eyjum.
Kristmundur var albróðir Einars kennara. Hann gerðist iðnaðarmaður og fór til Ameríku, bjó lengi í Los Angeles í Kaliforníu. Þar mun hann hafa kvænzt, en dáið barnlaus.
Jón Árnason (Vilborgarstöðum), barnakennari í Vestmannaeyjum 1883—1884, albróðir Einars Árnasonar kennara. (F. 21. maí 1855).
Á bernsku- og unglingsárum var Jóni Árnasyni komið til náms að Ofanleiti til séra Brynjólfs Jónssonar. Snemma bar á ríkri námshvöt hjá honum og las hann því og lærði mikið af sjálfsdáðum, svo að hann varð vel að sér. Jón reyndist snemma dugmikill og kappsamur og hóf þegar sjómennsku á ungum aldri á útvegi foreldra sinna. Brátt gerðist hann formaður á vertíðarskipinu Auróru, sem var á sínum tíma eitt af stærstu vertíðarskipum í Vestmannaeyjum.
Jón Árnason gerðist síðar verzlunarmaður í Reykjavík hjá J.P.T. Bryde, sem einnig rak verzlun þar. Jón Árnason stofnaði síðan eigin verzlun og gerðist kaupmaður í Reykjavík eins og Einar bróðir hans.
Jón kvæntist dóttur Péturs verzlunarstjóra Bjarnasen við Brydeverzlun (Austurbúð) í Vestmannaeyjum, Juliane Sigríði Margréti, sem fædd var í Eyjum 7. okt. 1859. Móðir Júlíönu og kona Péturs verzlunarstjóra var Jóhanna Karoline fædd Rasmussen, en hún var dóttir Johanne Roed veitingakonu í Eyjum og brautryðjanda þar í garðrækt.
Myndin er af þeim hjónum og sonum þeirra tveim, Pétri Jónssyni óperusöngvara t.h. og Þorsteini Jónssyni bankaritara.
Nemendatala skólans veturinn 1883—1884 var innan við 20 eins og undanfarna vetur.
Vorið 1884, 20. apríl, gengu nemendur skólans og fleiri börn undir próf í skrift og reikningi, enda þótt skólinn hætti störfum í febrúarlokin, eins og áður, og voru 33 börn prófuð á aldrinum 10—15 ára. Árangur varð þessi í skrift:
11 börn með dável, 9 börn með vel, 5 með sæmilega, 7 börn með laklega og 1 barn hlaut einkunnina afarilla, sem ekki nær einum í tölu.
Þetta vor urðu einkunnir í reikningi þessar:
10 börn hlutu dável, 10 börn vel, 1 barn sæmilega og 1 eink. illa, en 11 börn höfðu ekkert lært í reikningi.
Vorið 1884 komu 8 börn á aldrinum 10 ára og eldri ekki til prófs. Fæst þeirra höfðu lært að draga til stafs. Flest börnin og unglingarnir, sem þreyttu prófið, skrifuðu eftir forskrift, en höfðu lítið eða ekkert lært í réttritun.
Þegar barnaskólinn lauk 4. starfsári sínu 1884, kom í ljós, að einungis 11,9% af Eyjabúum, sem þá voru 504 að tölu, voru ólæs. Allir voru hinir ólæsu innan við 10 ára aldur nema 2. Þannig hafði hundraðshluti hinna ólæsu í Vestmannaeyjum lækkað um 9,1%, eða úr 21% í 11,9% fyrstu 4 árin, sem skólinn var rekinn þar.