Guðrún Þórðardóttir (Túni)
Guðrún Þórðardóttir húsfreyja í Túni fæddist 11. desember 1839 og lést 27. ágúst 1890.
Faðir Guðrúnar var Þórður Árnason húsmaður í Götu í Eyjum 1839-1849, síðar í Hallgeirseyjarhjáleigu í A-Landeyjum 1849-1851, f. 1816, en Þórður drukknaði 30. nóvember 1851 undan Landeyjasandi.
Faðir Þórðar í Götu var Árni bóndi í Holti og Garðakoti í Mýrdal, f. 8. marz 1786, d. í Garðakoti 9. júlí 1837, Þórðarson bónda í Árbæ í Holtum, Jónssonar prests Oddssonar að Eyvindarhólum, en Árni var fóstraður hjá sr. Oddi föðurbróður sínum að Felli í Mýrdal og konu hans Guðfinnu Þorsteinsdóttur, sem áður var gift sr. Þórði Sveinssyni í Kálfholti.
Kona Árna í Holti og móðir Þórðar var Guðrún yngri húsmóðir, f. um 1792, d. 1830, Þorsteinsdóttir bónda á Vatnsskarðshólum og Ketilsstöðum í Mýrdal, f. 1746, Eyjólfssonar og fyrstu konu Þorsteins, Karítasar Jónsdóttur, f. um 1745.
Móðir Guðrúnar í Túni og kona Þórðar (4. október 1839) var Guðríður Ingimundardóttir, fyrr í Götu, en í Hallgeirseyjarhjáleigu í Landeyjum 1849 til 1852 og síðast í Húsagarði á Landi, f. 23. júlí 1818 í Ystabæliskoti undir Eyjafjöllum, d. 9. september 1880 í Húsagarði. Foreldrar hennar voru Ingimundur bóndi í Ystabæliskoti, f. 1783, d. 27. ágúst 1818 og kona hans Guðrún húsfreyja, f. 9. desember 1788, d. 23. mars 1827, Þorkelsdóttir bónda í Steinum Þorsteinssonar og konu Þorkels Guðríðar Brandsdóttur.
Guðríður Ingimundardóttir flutti eftir lát Þórðar að Húsagarði á Landi og giftist (27. júlí 1852) Sigurði Ólafssyni bónda þar.
Sigurður Ólafsson barnaði Guðrúnu stjúpdóttur sína, sem þá var 16 ára, og fyrir það voru þau dæmd til dauða 1857, staðfest af hæstarétti, samkv. lagabókstafnum, sem þá var enn í gildi, en slíkum málum var skotið til konungs og hann mildaði dómana.
Guðrún varð vinnukona í Túni hjá Ingibjörgu Þorvarðardóttur ekkju Karls Möllers verslunarstjóra.
Þau Jón Vigfússon bjuggu í París 1866, í Fagurlyst 1867. Þegar Ingibjörg gaf upp jörðina Tún 1868, fékk Jón Vigfússon byggingu fyrir henni. Varð Guðrún bústýra hans og síðan eiginkona.
Maður Guðrúnar, (6. janúar 1871), var Jón Vigfússon bóndi í Túni, f. 12. september 1836, d. 1. mars 1908.
Börn Guðrúnar og Jóns voru:
1. Þórunn Jónsdóttir, tvíburi, húsfreyja, saumakona og veitingakona í Þingholti, f. 26. nóvember 1870, d. 11. apríl 1951.
2. Jónína Jónsdóttir, tvíburi, f. 26. nóvember 1870, d. 18. desember 1871 úr kíghósta.
3. Vigfús Jónsson útgerðarmaður og formaður í HoltI, f. 14. júní 1872, d. 26. apríl 1943.
4. Guðjón Jónsson bóndi og líkkistusmiður á Oddsstöðum, f. 27. desember 1874, d. 25. október 1959.
5. Jóhann Jónsson útgerðarmaður, formaður og smiður á Brekku, f. 20. maí 1877, d. 13. janúar 1931.
6. Guðríður Karítas Jónsdóttir, f. 15. júlí 1879, d. 5. október 1886.
7. Sigurlín húsfreyja í Túni, f. 21. júlí 1882, d. 8. september 1935.
Sonur Guðrúnar með Sigurði Ólafssyni bónda í Húsagarði í Landsveit, Rang.:
7. Friðrik Sigurðsson sjómaður á Kalmanstjörn í Höfnum, Gull. 1910, f. 15. janúar 1857 í Húsagarði í Landsveit, d. 25. desember 1918.
Auk þessara barna þeirra Jóns, fóstraði Guðrún tvær dætur Jóns Vigfússonar frá fyrra hjónabandi hans. Þær voru:
8. Pálína Jónsdóttir í Túni, f. 23. mars 1860 í Stóra-Dalssókn, d. 1882 í mislingafaraldri.
9. Sigríður Jónsdóttir í Túni, f. 1861 í Stóra-Dalssókn, d. 1882 í mislingafaraldri.
Frekari lesning: Blik 1958/Traustir ættliðir, síðari hluti.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Blik 1958. Blik 1958/Traustir ættliðir, síðari hluti.
- Íslendingabók.is.
- Landmannabók – Landsveit. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Rangárþing ytra, Hellu 2003.
- Manntöl.
- Prestþjónustubók.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.