Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1957/ Ýmsir erfiðleikar
Orðið útilega hefur víst frá því land byggðist haft í sér fólgna dulda ógn, og mun svo ennþá, þó komið sé fram á 20. öldina. Er þetta að vonum, því svo margir menn og konur hafa á umliðnum öldum komizt í hann krappan við að liggja úti, og afdrifin fyrir alltof marga, sem í þá raun hafa ratað, hefur orðið aldurtili eða örkuml.
Þó hér í Eyjum sé nær óþekkt að menn hafi legið úti milli bæja, voru þó aðrar útilegur alltíðar, eftir að vélbátaútvegurinn hófst hér. Voru þessar útilegur ekkert skemmtiatriði, hvorki fyrir þá sem úti lágu, á litlum og illa útbúnum bátum án allra þæginda, þegar vetrarstormarnir hömuðust í öllu sínu veldi, og hamfarir sjávarins voru eftir því.
Þá ekki síður fyrir þá, sem í landi biðu á milli vonar og ótta um afdrif þeirra, sem ekki höfðu náð lendingu. Hef ég oft heyrt konur og fleiri segja, að þessar nætur hafi þeim orðið hinar lengstu og þungbærustu, sem þau hafi lifað, og þetta er eðlilegt, því óvissan heilar nætur um afdrif ástvina og meðbræðra er flestu geigvænlegra.
Til þess að menn nú á dögum skilji, hvernig á þessum útilegum stóð hér í Vestmannaeyjum á fyrstu árum vélbátaútgerðarinnar, skal bent á sem aðalorsakir, hinir litlu og veikbyggðu vélbátar, sem sótt var á af dæmafáu kappi og hörku, svo var við að etja hina tíðu og stríðu austanstorma, sem mjög herja á Vestmannaeyjar og eru sérlega hættulegir vegna staðhátta hér. En af austanáttinni stafar hin erfiða sjóleið fyrir Yztaklett, þegar vestan fyrir Eyjar er komið, sem endaði síðast á Leiðinni, sem varð fljótt ófær, þegar austanstormarnir voru í algleymingi, en það var einmitt í þeim, sem allar útilegurnar, að einni undanskilinni, áttu sér stað. Sama gegndi einnig um hin tíðu sjóslys og bátstapa, því að þangað til 12. apríl 1944, að tveir vélbátar fórust héðan í suðvestanátt, hafði öllum hlekkzt á í austanveðrum.
Það er fátt, sem gefur gleggri hugmyndir um þær miklu framfarir, sem orðið hafa hér í Eyjum á öllum verklegum sviðum, en einmitt sú breyting, sem orðið hefur hér á, því síðan 1928 hafa engar teljandi útilegur átt sér stað. En munurinn nú og áður, þó bátar nái ekki heimahöfn að kvöldi, að geta nú að mestu fylgzt með líðan áhafnarinnar, ásamt margvíslegu öryggi til hjálpar og leiðbeiningar, ef í harðbakka slær.
Þess í stað urðu menn á fyrstu 20 árum vélbátaútvegsins hér að berjast í þessum útilegum, flestir ljóslausir, sambandslausir við aðra, hálfsvangir og kaldir, og þó verst að vita af óttanum, sem grúfði yfir þeim, sem heima biðu.
Fyrstu vélbátaútileguna hér í Eyjum hreppti ég, sem þetta rita, ásamt fjórum hásetum mínum, aðfaranótt 6. júlí 1906. Komumst við illan leik upp undir Eiðið um kl. 12 um nóttina í stórviðri af austri. Ég gerði þó tilraun til að komast austur fyrir Yztaklett, því heimilisástæður mínar voru þær, að konan mín lá á sæng, — en varð frá að hverfa.
Þetta var á „Unni I“, sem var hálfopin og svo þægindasnauð sem mest mátti verða, ekkert skýli, nema afþiljaðir báðir endar, þó vatnsþéttir að mestu, í framendanum gátu fjórir menn haft skjól, tveir á bekkjum sitt hvoru megin, og tveir á gólfinu, engin hlýja, lítill matur, en nóg vatn. Aftur í bátnum gat einn maður setið hjá vélinni, sem alltaf var höfð í gangi, þó að við lægjum fyrir akkeri, fyrir innan Kambinn, svo nærri landi sem hægt var, þó á nógu dýpi.
Um morguninn fór að lygna, komum inn á höfnina um kl. 7, höfðum verið taldir af. Það var líka eðlilegt, því rokið var mikið og lítið álit á þessum fleytum í byrjun. Þar sem þessi fyrsta útilega átti sér stað um hásumarið og í hlýju veðri, er álitamál, hvort vert er að kalla þetta útilegu, enda líðan okkar góð, þótt ekki væri þurr blettur á nokkrum okkar, því slík hafði ágjöfin verið.
Ekkert bar svo sögulegt við á þessu sviði, þangað til 20. febrúar 1908; bar öskudaginn upp á þann dag, sem var blíður að morgni, svo allir bátar reru, en fór svo, að fjöldi báta lágu úti, flestir hér fyrir innan Eiðið. Veðrið var af austri og fór síharðnandi þá á daginn leið, svo að mörgum veittist örðugt að komast í landvar af Heimaey; var ég einn af þeim, en það voru um 20 vélbátar, sem ekki náðu höfn og neyddust því til að liggja úti, en áreiðanlegt er, að þeir nær 100 menn, sem úti lágu þessa nótt, voru ekki öfundsverðir og því síður aðstandendur þeirra, sem í landi biðu og flestir gjörðu sér vonir um, að þeir mundu koma fram, því svo var veðurofsinn mikill, þegar dimma tók, að ekkert sást. Menn í landi, sem brutust inn á Eiði, vissu, að nokkrir vélbátanna höfðu komizt upp undir um kvöldið, en hverjir það voru eða hvað margir, vissi enginn.
Ég hef þegar lýst að nokkru útbúnaði þeim, sem var á „Unni I“, þegar ég lá á henni innan við Kambinn í júlímánuði 1906, en nú, 1908, hafði verið sett þilfar í hana alla, en útbúnaður að öðru leyti óbreyttur, og þannig var útbúnaður hinna vélbátanna, sem úti lágu þessa minnisstæðu nótt. Sömuleiðis var stærð allra vélbátanna, sem úti lágu, svipuð, frá 6—9 tonnum, flestir með 8 hestafla vélum, þó einstaka með 10 hestöflum.
Þar sem þetta var eina útilegan, sem ég hreppti, að undanteknu því, sem fyrr er frá sagt, varð mér þessi nótt allminnisstæð. Þó höfðum við það á Unni miklu betra en allir þeir aðrir vélbátar, sem þarna lágu úti, því að við lágum fyrir akkeri innan við Kambinn, fast við bergið, því að alda af vestri var engin, en svo leiddi miklar hviður þangað sem við lágum, að allt ætlaði um koll að keyra.
Svo höfðum við líka góðan hlut, eða það þótti okkur, sem hinir bátarnir höfðu víst ekki, en það var ágætt togböjuljósker, sem logaði glatt alla þessa löngu nótt, en á hinum bátunum öllum, sem ég hafði þá enga hugmynd um, hve voru margir, sáust engin ljós, þó ég efi ekki, að flestir þeirra hafi haft kertaljósker, eins og ég hef hér fyrr lýst þeim. En hvað megnaði birta af einu kertaljósi í þeim ósköpum, sem á gengu, þegar sjóinn skóf eins og lausamjöll?
Á skipalegunni fyrir Eiðinu, þar sem markaður er akkerisstaður á flest sjókort yfir Vestmannaeyjar, lágu þessa nótt togarar með björt ljós. Einn þeirra var togarinn Mars frá Reykjavík, skipstjóri hans var Hjalti Jónsson. Hann hafði um kvöldið, áður en veðrið komst í algleyming, hitt vélbátinn Njál VE 120, með bilaða vél, og dró hann upp undir Eiðið og lagðist þar fyrir akkerum grunnt á legunni, því Hjalti Jónsson var vel kunnugur hér við Eyjar, en um nóttina sökk Njáll aftan í togaranum og tapaðist, en mennirnir björguðust. Njáll var alveg nýr, um 8 tonn að stærð með 8 hestafla vél; hann var með þilfari, en þó fór hann svona. Söm urðu einnig örlög Bergþóru VE 88 þessa nótt, vélin í henni hafði einnig bilað, kom enskur togari henni til hjálpar og dró hana upp undir Ofanleitishamar, hvar hún sökk og tapaðist aftan úr togaranum, en mennirnir björguðust.
Svo var rokið mikið um nóttina, að togararnir, sem voru fyrir Eiðinu, lágu fyrir tveimur akkerum, og urðu þó að hafa hálfa ferð áfram á vélum sínum til að haldast þarna við. Það voru því aðeins ljósin á togurunum og svo ljósið á Unni, sem útilegubátarnir höfðu sér til leiðbeiningar; gekk það næst kraftaverki, að ekki skyldu verða árekstrar þarna um nóttina.
Þegar komið var fram undir morgun og veðrinu dálítið farið að slota, bilaði vélin í Portland VE 97; rak það óðfluga að landi, en áður en það rakst á klettana, tókst vélbátnum Austra VE 99 með frábæru snarræði að koma bandi yfir í Portlandið og draga það frá landi; munaði þarna mjóu að illa færi.
Formaður á Portlandi var Friðrik Benónýsson í Gröf, en á Austra Helgi Guðmundsson í
Dalbæ. Annars varð ekkert manntjón í þessu veðri; mátti það teljast Guðs mildi, eins og menn stóðu þá höllum fæti gegn ofviðrunum að öllu leyti.
Fjárhagstjónið, sem hlauzt af tapi hinna tveggja vélbáta, sem fórust þessa nótt, og svo hins þriðja, sem fórst með allri áhöfn þann 1. apríl, varð svo mikið, að nærri hafði riðið Bátaábyrgðarfélaginu að fullu; hefur það aldrei á sínum langa starfsferli komizt jafnhætt fjárhagslega.
Þá var ekki síður tilfinnanlegt tjón þeirra, sem misstu farkosti sína snemma á vertíðinni og þar með atvinnuvonir sínar.
Sú lýsing, sem hér hefur verið gefin af þessum fyrstu útilegum vélbáta hér við Eyjar, getur einnig að mestu leyti átt við þær aðrar útilegur, sem Eyjasjómenn urðu að sætta sig við öðru hvoru næstu 20 árin. Þó varð þegar eftir hina miklu útilegu 1908 breyting til batnaðar á útbúnaði vélbátanna, því farið var að setja í hásetaskýlið lítil hitunartæki, bæði til að hita kaffi við dagleg störf og ylja upp hinar þröngu og köldu vistarverur. Svo þegar vélbátarnir stækka, er farið að setja rekkjur í þá, batnaði við þetta að mun líðan manna, og þá ekki sízt þegar úti var legið.
Það sem hér eftir verður skráð um útilegur og hrakninga vélbáta héðan úr Eyjum, er að mestu eftir minnisblöðum Jóns Sigurðssonar, sem hefur lagt mikla rækt við að halda til haga ýmsum fróðleik um vélbátaútgerðina hér á liðnum árum.
Þann 20. febrúar 1911 reru allir vélbátar hér í Eyjum, því veður var gott. Er á daginn leið, skall á austan rok með mikilli fannkomu, voru bátarnir að koma inn á höfnina fram eftir deginum. Um kvöldið vantaði þó fimm vélbáta, vonuðu menn að þeir hefðu náð upp undir Eiðið. Þó sást nær ekkert til skipa sem þar lágu, þó farið væri þangað, svo var veðrið og bylurinn mikill, og hélzt þetta við sama alla nóttina, þangað til um morguninn, að veðrið lægði og birti. Komu þá fjórir vélbátanna eftir langa og stranga nótt. Þeir voru: Eros VE 121, formaður Sigurður Sverrisson, Lundi VE 141, formaður Guðleifur Elíasson frá Brúnum, Farsæll VE 134, formaður Bergsteinn Bergsteinsson frá Tjörnum og Ásdís VE 144, formaður Þórður Jónsson, Bergi.
En þá vantaði einn vélbátinn, sem var Norröna VE 131, formaður með hana var Jóhann Einarsson á Gjábakka. Þegar tíminn leið og hún kom ekki fram, var hún talin af. En á þriðja degi kom enskur togari með hana í eftirdragi, hafði hann fundið hana á reki vestur á móts við Selvog. Var áhöfnin furðu hress, þó skipverjar væru bæði matar- og vatnslausir í þessum hrakningum. Báturinn var með bilaða vél, olíulaus, hafði verið notuð til að lægja sjó, brotið mastur og rifin segl, svo að ástand hans, sem aðeins var 8 tonn að stærð, mátti ekki verra vera. Geta má nærri, hvernig aðstandendum þessara manna sérstaklega hefur liðið þessa daga.
Þann 6. marz 1913 hvessti af austri með mikilli snjókomu; allir vélbátarnir náðu þó höfn, nema Kristbjörg VE 112. Formaður með hana var Magnús Magnússon á Felli. Hann treysti sér ekki til að taka land, andæfði því alla nóttina hér vestur af Eyjum. Þótti mikið afrek að skila áhöfn og bát heilu í höfn daginn eftir, því veðrið var með afbrigðum vont, en Kristbjörg aðeins 8 tonn að stærð og útbúnaður að flestu lélegur.
Snemma í febrúar 1914 vantaði úr róðri v.b. Jóhönnu VE 148, fór því v.b. Gammur VE 174 að leita hennar, fann hana hér vestan Eyja með bilaða vél, kom með hana morguninn eftir. Veður ekki mjög vont, formaður með Jóhönnu var Jakob Sigurðsson, en með Gamminn var Illugi Hjörtþórsson.
Aðra útilegu í febrúar hreppti v.b. Trausti VE 175, vélin í honum var í ólagi, hann komst þó án hjálpar undir Eiðið og lá þar um nóttina í vondu veðri. Formaður með Trausta var Guðmundur Helgason.
Þriðju útileguna seint í febrúar 1914 fengu vélbátarnir Enok VE 164 og Olga VE 139. Tildrögin voru þau, að v.b. Enok vantaði úr róðri, fór því Olga að leita hans og fann hann fyrir vestan Eyjar, dró hann upp undir Eiðið, lágu báðir bátarnir þar yfir nóttina, komu inn á höfnina þá bjart var orðið, austan stormur. Formaður á Enok var Þórður Jónsson á Bergi, en á Olgu var formaður Guðmundur Jónsson Háeyri.
Þá skeði það einnig 1914, laugardaginn fyrir páska, þegar v.b. Agða VE 146 var á heimleið úr fiskiróðri austan fyrir Eyjar, að vélin bilaði, rak bátinn fyrir straumi um nóttina, því veður var stillt. Fór þá að hvessa af austri, svo þeim tókst að sigla undir Ofanleitishamar og leggjast þar fyrir akkeri. En nokkru síðar slitnaði báturinn upp, því komið var ofsarok, rak nú Ögðu undan stormi og sjó. Þegar komið var vestur fyrir Einidrang, kom enskur togari, sem bjargaði mönnunum, en skeytti ekkert um bátinn. Á öðrum degi kemur enskur togari heim til Eyja með Ögðu í eftirdragi, sem hann hafði fundið á reki, vonuðu menn þá, að áhöfn bátsins hefði verið bjargað, sem og síðar kom í ljós, þegar annar enskur togari kom með mennina heila á húfi. Formaður með bátinn var Gunnar M. Jónsson.
Þann 20. marz 1915 reru flestir vélbátar héðan úr Eyjum. Er á daginn leið hvessti mjög af norðri og gjörði hörkufrost. Allir náðu þó höfn, nema v.b. Höfrungur VE 138. Þar sem enginn vissi, hvar leita skyldi bátsins, og veðurofsinn mjög mikill, fór enginn að leita hans. En enskur togari kom með bát og áhöfn síðla dags daginn eftir, fann hann Höfrung undir seglum, með brotinn sveifarás, djúpt út af Dyrhólaey. Þeir voru sannarlega heimtir úr helju, því þeir höfðu haft vonda og erfiða nótt, sérstaklega vegna þess mikla íss, sem nær hafði sökkt bátnum. Varð áhöfnin, með lélegum áhöldum, að hamast við að brjóta klaka alla nóttina; kom sér vel, að þarna voru hraustir drengir að verki. Formaður með Höfrunginn var Björn Erlendsson frá Vík í Mýrdal.
Þann 6. janúar 1916 lá úti í afspyrnuveðri af austri v.b. Happasæll VE 162. Formaður Árni Finnbogason. Happasæll ásamt v.b. Íslending VE 161 höfðu farið til að bjarga v.b. Sæfara VE 157, sem var á reki með bilaða vél. V.b. Íslendingur fórst í þessari ferð með allri áhöfn, en Happasæl hrakti undan Eyjum með Sæfarann í eftirdragi. Um nóttina urðu þeir á Happasæl að sleppa Sæfaranum eftir að hafa bjargað áhöfn hans. Áttu þeir á Happasæl hina erfiðustu nótt, en komust þó til Eyja daginn eftir.
Árið 1916, þann 9. apríl, gjörði afspyrnurok af austri með mjög mikilli fannkomu. Lágu þá úti tveir vélbátar. V.b. Ásdís VE 144 var fyrir vestan Geirfuglasker, dró hún ekki á móti veðrinu, andæfði því þar um nóttina. En v.b. France VE 159 komst undir Eiðið og lá þar til morguns. Formaður með Ásdísi var Ólafur Ingileifsson, en með France Sigurður Sverrisson. Í þessu veðri lenti v.b. Haffari VE 116 upp í Flugur, fórust þar þrír menn, en tveir björguðust.
Sunnudaginn 3. marz 1918 var róið seint vegna norðanstorms um morguninn, urðu því margir seint fyrir, þegar austan ofviðri með bleytuhríð skall sviplega yfir þegar á daginn leið. Tveir vélbátar fórust í þessu veðri, en tveir lágu úti um nóttina. Annar þeirra, Elliði VE 96, formaður Sigurður Hermannsson, Melstað, andæfði hér norðvestur af Eyjum alla nóttina, kom í höfn daginn eftir. En hinn, sem var France VE 159, formaður Sigurður Sverrisson, komst undir Eiðið og lá veðrið þar af sér. Þar sem þetta var með allra verstu veðrum og sjórinn eftir því mikill, mátti það undur heita, að þessir bátar skyldu komast heilir á húfi að landi, sérstaklega þó Elliði, sem var aðeins rúm 7 tonn að stærð.
Þá lágu úti þann 3. marz 1920 v.b. Hekla VE 115 og v.b. Litla-Unnur VE 186. Skall á með austan rok og blindbyl þegar á daginn leið. Bátarnir andæfðu fyrir vestan Eyjar þangað til veðrinu fór að slota. Kom Hekla snemma morguns, en Litla-Unnur þegar á daginn leið. Formaður með Heklu var Ólafur Vigfússon, en með Litlu-Unni Guðlaugur Þorsteinsson. Báðir þessir bátar voru með þeim minnstu, sem héðan gengu, aðeins 6—7 tonn að stærð.
Í byrjun marz 1920 kom það fyrir, að v.b. Ófeigur VE 217 fékk þorskanet sín í skrúfuna, gat þó af eigin rammleik komizt upp undir Eiðið, var þá komið ofsaveður af austri, lá því úti um nóttina, en náði höfn daginn eftir. Formaður með Ófeig var Jón Ólafsson á Hólmi.
Miðvikudaginn 16. marz 1921 voru flestir bátar á sjó, en er á daginn leið brimaði sjóinn svo, að fágætt má telja, varð Leiðin ófær. Allir bátar höfðu þó inn á höfnina nema v.b. Hlíf VE 166 og Mínerva VE 241, sem komst þó inn á höfn um nóttina. Hlíf lá úti undir Elliðaey, kom heim daginn eftir. Formaður með Hlíf var Valdimar Árnason í Vallanesi, en með Mínervu var Þórður Þórðarson á Sléttabóli.
Þá skeði það einn dag í marz 1921, að vélin bilaði í v.b. Frið VE 156, voru því dregin upp segl. Hélt báturinn sér við á þeim alla nóttina, því veður var ekki vont. Næsta morgun fann björgunarskipið Þór bátinn og dró til hafnar. Formaður með Frið var Þórður Stefánsson.
Einn dag í byrjun febrúar 1923 bilaði vélin í v.b. Austra VE 99, gat hann komizt á seglum undir Ofanleitishamar, og lá þar um nóttina aftan í enskum togara, sem þar hafði leitað í var af Heimaey, því veður var allhvasst af austri, komst heim næsta dag. Formaður með Austra var Eiður Jónsson.
Það bar við 15. febrúar 1923, að um kvöldið var einn bátur ókominn í höfn, en veður orðið vont, var það v.b. Svanur VE 152. Hann hafði komizt upp undir Eiðið um kvöldið, en ekki treyst sér austur fyrir Yztaklett, því kominn var austanstormur. Þegar leið á nóttina lægði veðrið, fór Svanur þá að leita að línu, sem hann hafði ekki getað dregið daginn áður. Þar sem full ástæða var til að óttast um bátinn, voru tveir vélbátar sendir að leita hans, mættu þeir honum hér fyrir vestan Eyjar, því þar hafði hann verið að veiðum. Formaður með Svan var Björn Magnússon frá Víkurgerði.
Á öskudaginn, sem bar upp á 5. marz 1924, fóru allir bátar á sjó, því afli var mikill, sérstaklega í þorskanet. Þegar á daginn leið, gjörði mikið austanveður, vantaði um kvöldið marga báta, höfðu flestir þeirra komizt upp undir Eiðið, og lágu þar, því alófært var austur fyrir Yztaklett. En þó vantaði tvo báta undir Eiðið, og vissu menn þá ekkert um þá. Það voru v.b. Höfrungur VE 138, sem andæfði af sér veðrið vestur af Eyjum, og lítill vélbátur, undir 5 tonnum, sem Björg hét, er hrakti vestur að Einidrang, en þar bar að enskan togara, sem bjargaði mönnunum á síðustu stundu. Formaður á Björgu var Jón Hafliðason á Bergstöðum, en með Höfrunginn var Guðjón Jónsson á Reykjum. Hina bátana, líklega 15 að tölu, sem undir Eiðinu lágu, sakaði ekki, þrátt fyrir mjög vont veður. Komust þeir í höfn, sumir um morguninn og aðrir þá á daginn leið. Þar sem óvíst er nú um nöfn allra þeirra báta, sem úti lágu í þetta skipti, verður sleppt að telja þá, sem um er vitað.
Þá varð önnur útilega í marz 1924. Lá þá úti undir Eiðinu í austanstormi v.b. Enok VE 164, formaður Gunnar Ingimundarson frá Hellukoti. Náði höfn næsta dag.
Dag nokkurn í febrúar 1926 bilaði vélin í v.b. Marz VE 149, er hann var að veiðum vestur af Eyjum, voru þá sett upp segl og bátnum haldið við á þeim um nóttina. Daginn eftir hitti togarinn Jón forseti frá Reykjavík bátinn og dró hann til Eyja. Formaður með Marz var Björgvin Jónsson í Úthlíð.
Þá skeði það einnig í febrúar 1926, að v.b. Hilmir VE 182 lá alla nóttina undir Eiðinu, vegna þess að svo mikið sterkviðri var af austri, að vélina skorti afl til að knýja bátinn austur fyrir Yztaklett. Formaður var Runólfur Sigfússon.
Þann 11. febrúar 1928 fóru allir bátar héðan úr Eyjum í róður, því gott veður var að morgni. Er á daginn leið fór að hvessa, og um kvöldið var kominn austan rokstormur með svo mikilli fannkomu, að einsdæmi þótti. Þeir bátar, sem farið höfðu stutt eða voru fyrir austan Eyjar, náðu í höfn áður en rokið og bylurinn náðu hámarki, sem hélzt fram undir dögun.
Í þessu veðri náðu ekki landi 19 vélbátar, sumir þeirra héldu sér við þar sem þeir voru komnir, þegar bylurinn skall á. Björgunarskipið Þór var með vélbát með bilaða vél í eftirdragi og treystist ekki til að taka Eyjar. Þeir, sem úti lágu þessa óvenju dimmu nótt, voru þessir:
Bliki VE 143, form. Sig. Ingimundarson, Skjaldbreið.
Emma VE 219, form. Eiríkur Ásbjörnsson, Urðav. 41.
Enok VE 164, form. Sig. Bjarnason frá Stokkseyri.
Garðar VE 111, formaður Eyjólfur Gíslason, Görðum.
Glaður VE 270, form. Sigurður Þorsteinsson, Nýjabæ.
Gulla VE 269, formaður Benóný Friðriksson, Gröf.
Hansína VE 200, form. Eyj. Gíslason, Bessastöðum.
Ísleifur VE 63, form. Ársæll Sveinsson, Fögrubrekku.
Kristbjörg VE 70, formaður Grímur Gíslason, Felli.
Ófeigur VE 217, formaður Jón Ólafsson, Hólmi.
Pipp VE 1, formaður Magnús Jónsson, Sólvangi.
Rap VE 14, formaður Sigurður Bjarnason, Hlaðbæ.
Sigríður VE 240, formaður Eiður Jónsson.
Sísí VE 265, formaður Guðmundur Vigfússon, Holti.
Skallagr. VE 231, form. Ólafur Vigfússon, Gíslholti.
Skógafoss VE 236, formaður Jónas Sigurðsson, Skuld.
Sleipnir VE 280, form. Sveinn Jónsson, Landamótum.
Svala VE 274, formaður Guðmundur Tómasson, Hól.
Stakksárfoss VE 145, formaður Finnbogi Halldórsson frá Siglufirði.
Allir þeir 19 vélbátar, sem hér hafa verið taldir, náðu heilir í höfn næsta dag, en á þeim voru milli 80 og 90 menn, sem lágu úti þessa nótt. Vegna stórviðris og blindhríðar sást ekkert til bátanna; munu því flestir geta hugsað sér, hvernig aðstandendum og öðrum, sem í landi biðu fullir óvissu, hefur verið innanbrjósts þessa nótt, eða aðrar þessari líkar. Það var enginn fagnaðaróður fyrir Eyjabúa, þegar austan óveðragnýrinn var í almætti sínu, líka má hafa það í huga, að sjóslysin voru ærið tíð á þessum árum og því mönnum ofarlega í huga.
Það var því sannarlegt fagnaðarefni öllum þeim, sem þessa Eyju byggja, að þessi 19 báta útilega varð sú síðasta, eða svo má heita, fram á þennan dag. En að þessum álögum létti af Vestmannaeyjum, var í fyrsta lagi björgunarskipunum að þakka, í öðru lagi því, að þegar eftir 1928 hafði Leiðin verið dýpkuð svo um munaði, og í þriðja lagi, að þegar kemur fram um 1920, eru flestir vélbátarnir orðnir svo traustir og með svo aflmiklar vélar, að þeir drógu fyrir Yztaklett í nærri hvaða austanroki sem var, ef sjórinn var ekki því meiri.
Hér hafa verið taldar upp þær útilegur, sem Jón Sigurðsson hefur skrifað hjá sér, en auk þessa telur Jes A. Gíslason í ritinu Björgunarfélag Vestmannaeyja 10 ára, að tveir vélbátar hafi legið úti, annar aftan í togara, nóttina milli 16. og 17. febrúar 1919. Þess er einnig getið í Eyjablaðinu frá 1920, að 17. apríl hafi tveir vélbátar legið úti.
Að lokum skal frá því sagt, að v.b. Síðuhall VE 285, formaður Auðunn Oddsson, hrakti í austan ofviðri þann 12. febrúar 1929 héðan frá Vestmannaeyjum og vestur fyrir Þorlákshöfn. Kom björgunarskipið Þór með hann hingað tveim dögum síðar. Talið er eftir góðum heimildum, að björgunarskipið Þór hafi dregið að landi 40 vélbáta þau rúm sex ár, sem hann var í eigu Vestmannaeyinga, og þar með forðað mörgum þeirra frá útilegu eða öðru enn verra.
Samkvæmt því, sem hér hefur verið skráð, hafa því frá 1906 til 1930 legið úti, oftast í ofviðrum undir Eiðinu, 87 vélbátar með eftir því sem næst verður komizt 456 mönnum, og á þessu sama tímabili farizt 28 vélbátar og drukknað 124 menn, en af þeim nær 20 við annað en sjóróðra.
Eyjólfur Gíslason skipstjóri á Bessastöðum hér á Eyjum skrifaði í Sjómanninn 1956 grein um útileguna, sem átti sér stað þ. 11. febrúar 1928 hér í Eyjum. Þessi grein vakti mikla athygli; hef ég því birt þennan kafla, sem hér kemur fyrir almenningssjónir, úr bókinni „Aldahvörf í Eyjum“, ágripi af útgerðarsögu Vestmannaeyja 1890—1930, sem vonir standa til, að gefin verði út á þessu ári. Það er líka ekki illa til fallið, þar sem á þessu ári eru liðin 50 ár, síðan vélbátaútvegur hófst almennt héðan frá Eyjum.