Ritverk Árna Árnasonar/Leikir unglinga í Eyjum, síðari hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 30. ágúst 2013 kl. 20:30 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 30. ágúst 2013 kl. 20:30 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Ritverk Árna Árnasonar/Leikir unglinga í Eyjum, síðari hluti“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Leikir unglinga í Eyjum,
(síðari hluti)


Skylmingar


Ein besta skemmtun drengja um og eftir aldamótin síðustu var sú að berjast með trékorðum og fleiri slíkum vopnum. Hélst sú skemmtun allt fram um 1920. Þessi skemmtun mun eflaust runnin frá áhrifum vegna Herfylkingar Vestmannaeyja. Var skemmtunin mjög vinsæl, sennilega allt frá þeirri tíð.
Aðal „herstöðvarnar“ voru grasrofin inni á Póstflötum. Þau voru sérlega vel fallin til þessara leikja, allt að 2ja metra há, en misjafnlega stór og all erfitt að komast upp á þau úr mjúkum sandinum.
Margir strákar mættu þarna ávallt til leiks. Var þá hópnum skipt í tvö lið, sóknar- og varnarlið, og barist um eitthvert rofið. Sóttu liðin ýmist til uppgöngu eða vörðu rofin af mikilli ákefð, jafnvel svo að kom til alvarlegra átaka milli einstaklinga. Var þá barist af mestu hörku og hlutust þá oft meiðsl, t.d. á höndum, andliti og jafnvel handleggs- og nefbrot. Harðskeyttir þóttu þeir á sínum tíma Einar Tjörvi, Georg Gíslason, Jóhann Pálmason, Gísli Þórðarson, Kjartan Árnason, Jómsborgarhúsi, Haraldur Eiríksson o.m.fl.
Helstu vopnin voru sverð, spjót og svo nokkrir atgeirar. Þó hygg ég, að sverðin hafi verið almennust. Vopn sín munu, a.m.k. þeir elstu, hafa smíðað sjálfir að mestu leyti, en hinir yngri notið aðstoðar feðra sinna eða eldri bræðra og kunningja.
Mitt eigið sverð var smíðað úr olíutunnustaf, semsé úr eik, og dálítið bogið. En það var hið besta og sérlegasta vopn. Eggjar þess og oddur var málað rauðri málningu, sem vitanlega átti að tákna blóð, en hjöltun voru úr eik og varin járni. Mig minnir, að Guðmundur Ástgeirsson í Litlabæ hafi smíðað það fyrir pabba handa mér. Mörg sverð og spjót andstæðinganna braut ég með þessu góða vopni, sem alltaf kom óskaddað frá sérhverjum hildarleik, hversu harður sem hann annars var. Í sannleika sagt biturlegt vopn og óbrjótandi, enda nefndi ég það Snarvendil.
Eitt sinn eftir að Skuggasveinn hafði verið leikinn hér sem oftar, mætti Jóhann Gunnar Ólafsson á Reyni til rofaorustu með mikinn og ásjálegan atgeir. Var hann í líkingu við atgeir Skuggasveins. En svo fór, að þetta glæsilega vopn þoldi ekki hörð átök orrustunnar og brotnaði. Mikið hefir Jóhanni Gunnari eflaust þótt þetta sárt, að missa vopn sitt í fyrstu orrustunni, en svona fór oftar og fyrir fleirum. Af því sést, að barist hefir verið af töluverðri hörku, jafnvel þegar þetta var, sem mun hafa verið um 1920-21.
Skildi höfðum við sumir strákarnir, sérstaklega, ef um einvígi var að ræða. Margir höfðu stóra potthlemma, sem vitanlega voru teknir traustataki í eldhúsum mæðranna. Þeir þóttu bestir úr járni, þar eð tréhlemmarnir vildu brotna og voru nokkuð þungir í leik. Oft vorum við með kastspjót. Þau voru alllöng, líklega um 4 álnir, og mjó eins og kústasköft, en með yddum framenda. Spjótunum köstuðum við á milli okkar tveir og tveir saman og vörðumst þá spjótinu með skildinum. Þetta var hættulegur leikur, en ekki man ég, að til slysa kæmi. Skjöldurinn verndaði vel fyrir slíkum köstum. Einn allra slyngasti spjótkastari var Hafliði Gíslason á Eyjarhólum Geirmundsson. Hann kastaði fast og langt, og var mjög slyngur í þeirri íþrótt að bera annað hvort skjöld sinn fyrir eða slá spjótið frá sér með sverði sínu. Þetta lékum við oft tveir, og fannst sumum það nokkuð glannalegt framferði.
Haraldur Eiríksson átti oft góða boga og var ágæt bogaskytta. Einum boga hans man ég vel eftir. Hann var búinn til úr göngustaf og hafði mjög mikinn spennikraft, – skotstyrk. Örvar Haraldar voru hreinasta meistarasmíði. Voru þær járnyddar með fjaðurstýringu. Skaut Haraldur leikandi létt frá Vegamótum og niður að Godthaab, þar sem hann var oft mjög nálægt því að hitta flaggstöngina. Mikinn kraft þurfti til þess að spenna bogann, en Haraldur var sterkur vel og varð ekki mikið fyrir slíku. Aldrei vissi ég, hvaða efni var í stafnum, sem boginn var smíðaður úr. En eitthvað góðefni hefir það verið.
Nokkrir aðrir áttu boga, en þeir voru ekkert í samanburði við boga Haraldar. Strákarnir reyndu að nota eik, hvítbauju, ask og jafnvel regnhlífarteina. En allt kom fyrir ekki. Bogi Haraldar var ávallt bestur.


Langbolti


Meðal vinsælustu leikja unglinga og jafnvel fólks um 20 til 25 ára, var langbolti, þ.e. slagbolti. Voru þátttakendur oft mjög margir, kvenfólk og karlmenn, þó fyrst og lengi fram eftir árum, voru stúlkur helst með, er skólakrakkarnir voru að þeim leik á Péturstúninu austan barnaskólans (Borgar) norðan við Haga og Merkistein. Aðrir unglingar voru annars mest á Nýjatúninu.
Oft var verið í langbolta á Vertshússtúninu, sem var vestan við Nýjatún, inni á Póstflötum, uppi við Landakirkju, inni á Brimhólum og þó helst á Nýjatúni. Krakkar uppi á bæjum voru helst í Níelsarlág, en komu þó stöku sinnum „niður í Sand“ og slógust þá í hóp „Sandkrakkanna.“ Oft urðu nokkrar ryskingar, þar eð strákarnir uppi á bæjum voru stundum uppvöðslusamir og miklir fyrir sér. Á árunum 1910 til 1920 var það alsiða, að ungt fólk færi á sunnudögum suður í Lyngfellisdal, þ.e. Ræningjaflöt í langbolta eða aðra fjöldaleiki, svo sem „Að hlaupa í skarðið“, „Öll skip úr höfn“, „Eitt par fram fyrir ekkjumann“ o.m.fl. leiki.
Inn á Brimhóla var oft farið á sumarkvöldum í góðu veðri. Var venjulega farið um kl. 8 og verið til kl. 11 eða svo, við allskonar leiki. Stundum var dansað eftir grammófón, farnar gönguferðir um nágrennið. Þátttakendur voru fjölmargir, einkum verslunar- og skrifstofufólk, en einnig þó nokkuð af öðru fólki, sem vildi skemmta sér úti í góðviðrinu. Fólk hafði ekkert fyrir þessu. Það var og kostnaðarlaus skemmtun, en mjög skemmtileg samvera fólksins, ekki síst þess, sem ef til vill var snortið örvum Amors, en átti ekki völ margra staða til samveru.
Einmitt á slíkum skemmtiferðum út um Eyjuna fékk Örn Arnarson, (þ.e. Magnús Stefánsson sýsluskrifari) hugdettuna í sínu gullfagra kvæði, þar sem hann talar við stúlkuna sína og segir m.a.:

Manstu, hvað ég með þér fór
marga skemmtigöngu
inn í Dal og upp í Kór,
undir Stóru-Löngu?
Upp að Hvíld og Löngulág
lágu stundum sporin.
Kannast þú við Klif og ?
Komstu þar á vorin?
Inn um Flatir oft var kátt
— æskan fór með völdin —
hlaupið, leikið, dansað dátt,
draumblíð sumarkvöldin.
Fuglinn upp í fjallató,
hann fékk ei næturró.

Uppi á Kirkjuflöt var oft býsna margt um manninn. Þar var leikinn langbolti pilta í íþróttafélögunum K.V. og Þór, auk fjölmargra annarra eldri og yngri. Um þá skemmtun kvað Magnús Stefánsson árið 1912:

„Ekki vantar félögin og félagsandann hér,
framkvæmdin er eftir því, sem vonlegt þykir mér.
Sýslufélag og önnur félög sofna aldrei blund,
og svo er nú þetta mannfélag, sem aldrei heldur fund.
Eitt er kennt við íþróttir og orðið víðfrægt senn,
í því er nú doktorinn og heldri búðarmenn.
Þeir mæta upp á Kirkjuflöt með kústaskaft í hönd
á klaufajökkum og sandölum og æfa sig á strönd.“ ¹)

¹) Klaufajakkar voru jakkar með skarði í að aftan. Að „æfa sig á strönd“, þ.e. vera svolítið hreifur af víni, innanhéraðsorðtak frá þeim tíma. Sandalar, þá hæstmóðins, flatbotna mjög opnir ilskór.


Útreiðar


Ein var sú skemmtan unglinga, jafnvel fullorðinna, að fara í útreiðartúra um Heimaey. Þá voru hér allmargir hestar, og sumir hverjir mjög góðir reiðhestar. Annars voru flestir hestar hér reiðingshestar eða vagnhestar, en margir þeirra voru góðir reiðhestar eigi að síður. Var ekki óvanalegt, að tíu eða fimmtán unglingar slægju sér saman og færu í útreiðartúr. Var farið þangað, sem lengst var, t.d. út í Stórhöfða, inn í Herjólfsdal, þaðan suður fyrir Fell og austur á milli Fella, niður á Kirkjubæina, þaðan inn á Eiði, síðan inn með Klifi og Skiphellum og suður á Brimhóla.
Þar var gjarna hvílst, en síðan farið upp fyrir hraun, suður að Ömpustekkjum og þaðan austurfyrir Helgafell og svo í bæinn. Þetta var góður túr, þar eð víða var komið og hvílt um stund, t.d. inni í Dal og úti í Stórhöfða.
Margir áttu góða hesta og lánuðu þá gjarna. Þá voru og nokkrir strákar, sem tóku sér hesta í bessaleyfi út á beitilandinu, brugðu upp í þá snæri og fengu sér smá útreiðartúr suður á Heimaey, þar sem ekki var mikið um mannaferðir. Illa mæltist þetta fyrir að vonum, ef upp komst, en við strákarnir spurðum sjaldnast að leikslokum, aðeins var hugsunin tengd við upphaf leiksins.
Á síðari árum var ekki óvanalegt að söngflokkur kirkjunnar færi í útreiðartúra um Heimaey, og þótti fólki það mjög gaman. Nú eru engir hestar á Heimaey lengur, og saknar margur vina í stað. Síðustu góðhesta munu hafa átt hér Guðmundur Böðvarsson trésmíðameistari og Jóhannes Sigfússon lyfsali. Það voru aðeins reiðhestar, sem þeir höfðu sér til skemmtunar, mjög góðir hestar, er báru eigendur sína vítt um Heimaey á góðviðriðskvöldum.
Það kom alloft fyrir, að ungt Eyjafólk fór skemmtiferðir upp til meginlandsins, nærsveitirnar, og fór þá nokkuð víða um á hestum. Var það bæði ungt og gamalt fólk, sem slíkar skemmtiferðir fór og lét vel yfir. Það var alltaf nokkur nýlunda að koma á hestbak, og geta verið máske heilan dag á hestbaki og kannað nýjar slóðir í veðurblíðu sumarsins.
Var þá farið með bátum upp í t.d. Landeyja-eða Eyjafjallasand, þar sem hestarnir biðu uppsöðlaðir. Var þá farið t.d. úr Landeyjunum austur undir Eyjafjöll eða þaðan og austur til Víkur. Einnig var oft farið upp í Fljótshlíð og upp á Rangárvelli eða inn á Þórsmörk. Oft voru 10 til 15 manns í þessum skemmtiferðum og skemmti sér mjög vel. Að vísu gátu menn komið hér á hestbak og tekið skemmtitúra á hestum um Heimaeyjuna, en það var fljótt yfirfarið, þar eð vegalengdir voru stuttar. Þó var þetta mjög oft gert, og skemmti fólk sér einnig hið besta við slíkar skemmtiferðir á Heimaey. Hér voru oftast allmargir góðir reiðhestar, þótt þeir væru annars mest notaðir sem dráttarhestar með vagna.


Að skopra gjörð


Krakkar skemmtu sér mikið við að rúlla tunnugjörðum eftir götunum. Fóru þau í langri halarófu um allar götur á harða hlaupum, og höfðu prik í hendi til þess að slá og stjórna gjörðinni. Þetta var kallað „að skopra gjörð“. Léku þau stundum skipaleik með þessu eða bátaleik. Var þá hver og einn einhver Eyjabáturinn. Þeir fóru í róður út frá einhverjum ákveðnum stað, týndu sér fiskikvarnir, þar sem hausar höfðu verið höggnir upp og hengdir á trönur, og komu svo að með fulla vasa af kvörnum. Stundum var líka einn úr hópnum kjörinn varðskipið „Fálkinn“, en hinir voru togarar, sem áttu að vera að fiska í landhelgi. Hver strákur hafði ákveðið togaranafn, sem þeir þekktu af afspurn, svo sem Queen Alexandra, Lord Nelson, Humber o.fl. Síðan lagði skarinn af stað. „Fálkinn“ elti þá hvern einstakan og reyndi „að stíma á“ gjörð hans, svo að hún félli. Þá var togarinn tekinn í landhelgi og varð út með svo og svo mikið af hausakvörnum til „Fálkans“.


Gönguferðir


Allt fram um 1925 hélt unga fólkið uppi skemmtigöngum út um Heimaey. Þetta varð að þegjandi samkomulagi, að hittast hjá Guttó og fara þaðan eitthvað sér til skemmtunar. Var þá stundum haft með bolti og kústaskaft og farið í langbolta eða aðeins setið úti í hrauni, sagðar sögur og saman rabbað. Sumir höfðu með sér eitthvað nesti og veittu þá öllum, eftir því sem til hrökk.
Myndir voru teknar af ýmislegu, sem kom fyrir, og eru margar þeirra til ennþá og gefa góða hugmynd um ágætt félagslíf unga fólksins.
Aldrei sást nokkur þátttakenda með vín í þessum ferðum og er ég hræddur um, að það hefði mælst illa fyrir, ef svo hefði verið. Um þetta leyti voru bíó hér í algleymingi, en það hafði engin áhrif á þessar skemmtiferðir. Félagsandi fólksins var mikill, og það vildi alveg eins vera úti að skemmta sér við ýmsa leiki. Fólk var ekkert að fárast í því, þó að komið væri í bæinn svo seint á fögrum sumarkvöldum að bíótíminn væri liðinn hjá.


Skemmtifélagið Smári


Skemmtifélagið Smári var stofnað hér 1923. Það hafði á stefnuskrá sinni að halda við þessum félagsanda og útiskemmtunum, en kom þess á milli saman í Gúttó til ýmissa skemmtiatriða og að dansa. Í félaginu var fólk á ýmsum aldri, allt frá 16 til 30 ára, og skemmtanir þessar voru rómaðar fyrir heilbrigði, góðan félagsskap og fjör. Ekki man ég, hvort félagið hafði bindindi á stefnuskrá sinni, en þar var fjöldi bindindisfólks, og vín sást þar aldrei með höndum haft. Formaður þess félags var lengst Jóhannes H. Jóhannesson Long, sem fórst í flugslysi 7. mars 1948.


Söguferðir


Rétt fyrir 1920 var í tísku hjá ungu fólki hér að fara síðla sumars, t.d. um miðjan ágúst, í svonefndar söguferðir á kvöldin. Þær voru þannig, að farið var t.d. upp í Strembuhelli, 15 til 30 manns á öllum aldri, frá 15 til 25 ára, sumir jafnvel giftir. Farið var með kerti og ýmiskonar nesti.
Þegar niður í Hellinn kom, var gengið til norðurs, en síðan farið inn í álmuna og upphækkunina til austurs. Þar var sest og stundum þröngt setið.
Síðan var ljósið slökkt eða aðeins látið lifa á einu kerti. Þá hóf einhver einn sögufróður frásagnir um drauga og dulræn fyrirbrigði, og rak svo hver sagan aðra, eftir því sem hver kunni. Voru sagðar svo magnaðar sögur, að hárin risu á höfðum fólks, það fékk gæsahúð og kuldahrollur fór um bak þess og brjóst. Ó já, það var stundum heldur óhugnanlegt, en þó spennandi. Maður hallaði sér fast að sessunaut sínum og vildi helst halda í hönd hans í myrkrinu.
Síðasta söguferðin var farin um miðjan ágúst 1920. Þá voru þátttakendur um 35, þar á meðal 14 knattspyrnumenn úr Reykjavík (Framarar og Víkingar), er þá höfðu verið hér á þjóðhátíðarkappleik. Þá voru allmergjaðar sögur sagðar, svo magnaðar, að sumir heimtuðu, að farið væri upp úr hellinum. Sumar stúlkurnar nærri grétu af hræðslu, aðrir stundu við, skulfu frá hvirfli til ilja, og tennurnar heyrðust glamra í munni margra. Var það einkum sagan um drauginn í Strembuhelli, sem kom fólkinu úr jafnvægi. Það var svo margt, sem vakti hræðslu þetta kvöld. Sumir voru með vindlinga, og sást glóðin í fjarska og lýsti upp fölt andlitið, er reykt var. Sumum fannst þeir verða draugsa varir, jafnvel sjá hann norður í ganginum. En þetta var tóm vitleysa. Enginn draugur, bara hræðsla við glóðaraugu vindlinganna eftir að luktar- eða kertaljósið hafði verið slökkt.
[Á lausu blaði:]
Eftir að ljósið hafði verið slökkt, færðu menn sig fast að sessunaut sínum. Hár stúlknanna straukst þá ef til vill mjúklega við vanga þess, er hjá þeim sat, og fannst honum þá sem eitthvað einkennilega dularfullt strykist við andlit hans. Fólkið var fegið að komast upp aftur og sjá kvöldroðann frá sígandi sól

„gylla Heimalandsins hæstu prýði,
Heimaklettinn tignarlegastan...“

[Á lausu blaði:]
Þetta var sennilega síðsta söguferðin. Hennar minntust Reykvíkingar lengi, sem einum af skemmtilegasta þættinum úr ferð þeirra til Eyjanna 1920. Mörgum árum seinna kom ég til Reykjavíkur og hitti þá einn af þátttakendum þessarar ferðar. Eitt af því fyrsta, sem hann sagði við mig var: „Manstu Strembuhellisferðina forðum? Mikið asskoti var gaman þá, og þó var ég lafhræddur þarna niðri. En svona eruð þið Eyjamenn. Þið kunnið að skemmta ykkur“...


Skólaskemmtanir


Ég hef ekki minnst á skólaskemmtanir barna og unglinga fyrrum. Þær settu oft sinn svip á skemmtanalífið í þorpinu, þ.e. meðal unglinga. En þar eð ég geri ráð fyrir að segja nokkuð frá því á öðrum stað, fer ég ekki að endurtaka það hér. Þó skal minnst á, að árið 1908-09 léku nemendur eldri og yngri leikritið „Skyggnu augun“ eftir skólastjórann Stein Sigurðsson á Sólheimum.
Leikritið var sýnt oft og þótti ákaflega skemmtilegt, vel með farið og vandað til þess á allan hátt. Efni þess er sótt í íslenskar þjóðsögur, söguna um „Átján barna föður í álfheimum“. Börnin, sem með aðalhlutverkin fóru, voru:

Georg Gíslason, Stakkagerði,
Haraldur Eiríksson, Vegamótum,
Ísleifur Högnason, Baldurshaga,
Guðjón Helgason, Dalbæ,
Lárus Árnason, Búastöðum,
Sólveig Jesdóttir, Hóli,
Kristín Gísladóttir, Stakkagerði,
Jónína Jónasdóttir, Dal, - frá Helluvaði á Rangárvöllum,
Guðbjörg Þórðardóttir, Dal,
Kjartan Ólafsson, Miðhúsum,
Helga Finnsdóttir.

Auk þessara lék mikill fjöldi yngri barna álfa og dansandi vættir. Þegar Jónína í Dal fór héðan tók við hlutverki hennar Ingibjörg Bjarnadóttir, Hlaðbæ.
Leikritið var fyrst sýnt í Tangahúsinu en síðan í Gúttó við sérlega góðar undirtektir Eyjamanna.
Milli þátta lásu börnin upp ýmislegt, svo sem kvæði og léttar sögur. Var börnum óspart klappað lof í lófa og skólastjóra þakkað hans mikla framlag til heilbrigðrar skemmtunar og starfs skólabarnanna.

Barnaskólinn hélt og annað slagið skólaball, sem ekkert kostaði. Dansað var í leikfimisal hússins. Dansað er reyndar nokkuð fínt orð, þar eð fæstir krakkarnir kunnu þá list að dansa sem heitið gat, þegar ég var í skóla 1910-15. Helst voru það stúlkurnar, sem sporið kunnu. En það var hoppað og híað um gólfið eitthvað, sem átti að heita dans.
[[Á lausu blaði, „brot“]:
Þar vorum við strákarnir framarlega í þeirri list. Mest var það einhverskonar snarpolki með allskonar sprikli og hristingi, sem var all umsvifamikill. Best lærðu stúlkurnar kunnu víst að dansa vals, polka og marsera. Helst aldrei fengu þær næði til þess að dansa við stráka, þótt einhverjir þeirra vildu gjarna reyna að læra af þeim sporið, vegna annarra, sem ekkert kunnu, en stríddu parinu, hengu aftan í því, og settu það alveg út af laginu. Þessir ólátagemsar voru of feimnir til þess að reyna að dansa við stelpurnar, svo að þeir dönsuðu eða sprikluðu saman einn eða fleiri. Þó fór svo, að danslistinni kynntust krakkarnir betur með hverju árinu, sem leið.
Kennarar voru ávallt með á skólaskemmtunum og sáu um, að allt færi vel fram og fleira væri haft til skemmtunar en dans.
Þá var t.d. lesið upp af börnunum, farið í ýmsa innanhússleiki og sungnir skólasöngvar. Fyrir „dansinum“ spilaði Dóri blindi eða Jakob Tranberg, allt þar til skólastrákarnir fóru sjálfir að spila á tvíraða harmonikur, t.d. þeir Hjálmar í Dölum, Jóhann Jörgen í Vertshúsinu, Árni Árnason, Grund og Valdimar Tranberg. Eftir hverja slíka skemmtun var þeim skólabörnum, sem heima áttu út úr bænum, fylgt heim og fylgdist kennarinn með, þar til allir voru komnir heim. Oft voru það kennararnir Ágúst Árnason, Baldurshaga, Eiríkur Hjálmarsson, Magnús Kristjánsson, Steinn Sigurðsson skólastjóri eða bróðir hans Markús söngkennari.
Skólinn fór oft í göngur út um eyjuna í góðviðri. Voru það um leið ágætar kennslustundir um sögu hennar, því að kennarar sögðu okkur frá helstu örnefnum, sýndu börnunum gróður, sérstakar jarðmyndanir, t.d. hella, steintegundir o.fl. Síðar voru svo börnin látin skila ritgerð um ferðalagið, skýra frá örnefnum og sögu þeirra o.fl., sem í ferðinni hafði verið spjallað um og skoðað.
Verðlaun voru veitt fyrir bestu ritgerðina, og voru það bækur, pennastokkur eða fallegt pennaskaft. Steinn skólastjóri þótti strangur, en hann var góður kennari, sérstaklega laginn og fundvís á aðferðir til þess að námsgreinin festist vel í minni barnsins. En það var ekki verra að hlýða og sýna eftirtekt í kennslustundunum. Hann fór fram á steinhljóð í kennslustundunum og fékk það skilyrðislust, svo að stundum hefði mátt heyra saumnál falla á trégólfið.


Blysfarir og grímudansleikir


Á þrettándanum hélt barnaskólinn blysför. Var farið inn á Flatir eða Brimhóla í skrúðgöngu frá skólahúsinu. Þátttaka var almenn yfir skólann. Stjórnuðu kennarar göngunni og söngnum.
Allir blysberar báru grímu og voru klæddir á ýmsan hátt. Fæstir voru þó í góðum eða fínum fötum, nema álfakóngurinn og drottning hans. Þau voru í skrautklæðum. Inni á Flötum var svo brenna og gengið í kringum hana og sungnir álfasöngvar. Eftir blysförina var haldinn grímudansleikur, annað hvort í skólahúsinu eða Gúttó, og voru þá margir vel grímuklæddir. Ekki voru kennararnir grímuklæddir, en þeir stjórnuðu öllu og litu eftir, að allt færi fram með friði og spekt, og slys hlytust engin af blysunum. Af álfakóngum skólabarna mætti nefna í minni skólatíð Guðna Ingvarsson, Hvanneyri og drottningar, Kristjönu Þorsteinsdóttur, Hóli, Ingu á Hóli og líklega einu sinni Soffíu Friðriksdóttur, Hlíðarhúsi. Kóngur var og eitt sinn Edvard Frederiksen yngri og drottning hans Jóhanna Ágústsdóttir frá Kiðjabergi.
Í sambandi við blysfarir og grímu er rétt að minnast á eina skemmtan unglinga. Hún var í því fólgin, að nokkrir piltar og stúlkur slógu sér saman, klæddust grímubúningum og grímu og gengu milli húsa í þorpinu. Voru þau stundum 10 til 15 saman í hóp eða færri. Þetta var rétt eftir áramótin, um þrettándann. Þau höfðu með sér túlk, sem var ógrímuklæddur. Hafði hann orð fyrir grímufólkinu og spurði, hvort grímufólk mætti koma inn. Það var alltaf auðsótt mál. Fólk heimilisins fór svo að reyna að þekkja grímufólkið af málrómi eða hreyfingum, en það vildi oft ganga illa, því að sumir sögðu ekkert og höfðust lítið að til þess að verða ekki þekktir. Að lokum var gríman felld eftir heilmiklar getgátur, hlátur og glens, fólkinu gefið kaffi eða veittar aðrar góðgerðir, en til þess var leikurinn raunverulega gerður, svona í og með. Þetta þótti góð skemmtun, sem hélst líklega allt til 1909/10.
Grímufólkinu þótti mest gaman, meðan heimilisfólkið var að spreyta sig á því að þekkja það. En sem sagt, það reyndist ekki svo auðvelt, því sumir steinþögðu, en aðrir þvöðruðu með annarlegum málrómi og höfðu í frammi allskonar tilburði til þess að villa fyrir um daglega takta og málróm.
Svo byrjuðu getgátur heimafólksins eitthvað þessu líkt:
„Þetta er Gummi Jóns“.
„Nei, nei“, sagði annar, „þetta er ekki hann, það er hann Svenni Péturs“...
„Nei aldeilis ekki. Það er ábyggilega hann Óli Jóns. Sjáið þið ekki, hve fæturnir eru gildir niðurundan kjólnum? Það er kjóllinn hennar Stínu systur hans“.
„Jæja, ef svo er, þá er það líka hún Stína, sem er þarna fyrir framan, þessi í bláu fötunum“.
„Nei, ekki hugsa ég það,“ sagði einhver. „Það trúi ég, að sé hún María í Koti, en þessi við kistuna inni í horni, það er hún Stína“...
Svona gengu getgáturnar manna á milli og mátti grímufólkið gæta sín vel að skella ekki upp úr og hlæja. Þetta var allt svo ljómandi gaman.
Þessi grímugöngusiður er mjög forn og eflaust kominn til Eyja frá Danmörku. Þar er talið, að hann hafi tíðkast allt frá miðri 16. öld, en muni vera frá því um 3-400 e.Kr. Helst hefur þessum forna sið verið viðhaldið í afskekktum byggðarlögum og eyjum í Danmörku, þar sem fámennið skapaði persónulega kynningu allra íbúanna. Með þessum forna sið vildi fólkið vera dulið öllum og frjálst frá öllum daglegum venjum, frjálst og óþvingað, og með saklausri og kostnaðarlítilli skemmtun hressa upp á fábreytilegt skemmtanalíf eyjunnar eða hins afskekkta byggðarlags.
Ég hef á öðrum stað nokkuð talað um þessar grímugöngur hér og ræði þær því ekki frekar, en hér mun siður þessi hafa gripið um sig snemma á árum. Enginn af þeim, er ég hef talað við, veit nú orðið, hvenær það var.
Þegar nú fólkið hafði þegið góðar veitingar, setti það upp grímuna aftur og lagaði sig til undir næstu heimsókn, ef til vill hjá nágranna hins heimsótta eða eitthvert annað úrleiðis. Þar endurtók skemmtunin sig á sama hátt og hér er frá sagt. Hélt svo hver til síns heima, heimilisfólkið kvatt og þakkað veittar velgjörðir, en það þakkaði fyrir góða skemmtan og heimsóknina. Eftir að Halldór Gunnlaugsson héraðslæknir kom til Eyja árið 1906 og settist hér að, þótti sérstaklega gaman að heimsækja heimili hans vegna glaðværðar þar og mikilla og góðra veitinga. Annars var unglingum, sem skemmtu sér með þessu móti yfirleitt alls staðar mjög vel tekið og þá ekki síst uppi á bæjum. Þar var víða uppi fótur og fit við slíkar heimsóknir, bornar fram veitingar og jafnvel í sumum húsum „slegið upp“ dansi eða farið í ýmsa innanhússleiki. Var það t.d. ekki óvanalegt á Eystri-Búastöðum við slík tækifæri og önnur, en þar bjó Gísli Eyjólfsson og Guðrún Magnúsdóttir. Svo var það einnig á Kirkjubæ hjá Ólöfu og Guðjóni Björnssyni og víðar. Já, þar var oft glatt á Hjalla.
Trúlega þætti unglingum nú til dags þetta harla ómerkilegar skemmtanir. En skyldu þær ekki hafa verið heilbrigðari, heldur en sjoppusetur, gengdarlausar bíóferðir og kaffihúsadansar?


Bátasmíðar stráka


Eins og áður var drepið á voru skip og bátar góðar fyrirmyndir að smíðisgripum stráka á árunum 1909–1915. Margir voru mjög uppteknir af því að smíða sér báta heima við húsið. Þeir voru ekkert smásmíði, allt að því 3 metrar á lengd og 80 cm á breidd eða meira. Þetta voru reyndar bátalaga kassar, smíðaðir úr allskonar timburdrasli. Þeir voru með þilfari, lest og lúkarskompu, vélarhúsi og auðvitað með stýrisgati. Þeir höfðu stýri og pústurrör o.fl. Oft voru kassabátarnir klæddir utan með striga og þótti það mjög fínt. Í vélarhúsinu var komið fyrir alls konar drasli, svo sem gömlum gashausum o.fl. vélahlutum og járnadrasli. Best þótti, ef hægt var að hafa eitthvert eldstæði, svo að hægt væri að hafa eld og framleiða reyk upp úr pústurrörinu. Vitanlega þurftu að vera einhverjir skellir í vélinni, og voru þeir framleiddir á ýmsan hátt. Einn hafði til dæmis framhlið úr gamalli eldvél. Hann leiddi svo snúru úr bakaraofnshurðinni upp í þilfarið og þaðan niður í stýrisgatið, þar sem formaðurinn stóð. Með því svo að toga í snúruna, lyftist hurðin frá og skelltist aftur, þegar snúrunni var sleppt. Þetta framleiddi allháa skelli af mismunandi hraða.
Frægastur allra slíkra báta held ég að Litlabæjarbáturinn hafi verið. Valdimar Ástgeirsson var auðvitað eigandi og formaður, en oft var skipt um skipshöfn, þ.e. háseta og vélarmann.
Vélarmenn gegndu tignarstöðu, og þóttu þeir bestir, sem mest gátu látið rjúka og voru skítugastir á höndum og andliti. Það tilheyrði stöðunni. Báturinn stóð í kálgarðinum í Litlabæ, sunnan við heimaganginn að húsinu. Þar var oft mesta örtöð af strákum, sem vildu vera með, en formaðurinn var vandur að vali og ekki gátu allir verið á einum bát.
Fleiri strákar áttu kassabáta niðri í Sandi og uppi á bæjum, t.d. Vesturhúsabræður, Jón Vestmann og Eyjólfur Eyjólfssynir, og voru þeir bátar vitanlega mismunandi að stærð og gæðum. Einu sinni var strákur að lýsa fyrir félögum sínum bát vinar síns. Er sú lýsing enn í fersku minni margra og varð héraðsfræg: „Mikið gríðarlega er báturinn hans Júlla góður. Það er lykill fyrir mótorhúsinu og allt...!“


Steinkast


Einn leikur drengja var sá að kasta steinum úr fjörunni á sjó út, keppa um, hver kastaði lengst, láta steinþynnur fleyta kerlingar eftir haffletinum og keppa um það, hver væri hæfastur að hitta með steini í mark. Sumir strákar voru hreinustu meistarar í þessum greinum, köstuðu óskiljanlega langt og léku sér að því að hitta mark, t.d. dós eða flösku á 10 til 15 metra færi.
Sumir voru og mjög fræknir í því að hitta fugla á flugi, en þá íþrótt sína vildu þeir ógjarna láta sjá til sín. Hún mæltist mjög illa fyrir. Þeir sem lengst köstuðu steinum voru þeir Bergur Guðjónsson, Gísli Þórðarson í Dal, Einar Tjörvi, Kjartan Árnason, Jómsborgarhúsi, sonur Elínar Runólfsdóttur, síðar í Brekkuhúsi og víðar, Guðjón Tómasson, Gerði, Marinó Einarsson, Hólshúsi, Gunnar Einarsson, Sandprýði, Árni Árnason, Grund, Jónas Sigurðsson, Skuld, Helgi Pétursson, Stakkahlíð og Jóhann J. Sigurðsson, Frydendal, svo að einhverjir séu nefndir, er mjög framarlega voru í þessari íþrótt.
Það var ekkert einsdæmi, að þeir köstuðu sumir hverjir frá bræðsluhúsi Bryde við Austurbúðina og út í Hörgaeyri og úr Botninum og langt út fyrir leguból uppskipunarbátanna. Það voru löng steinköst.
Sést af því, að steinköst gátu verið misjafnlega löng, þar eð aðeins bestu steinkastararnir léku þetta, en aðrir varast til hálfs. Hvernig ber þá að skilja, hve langt var í Rauðhelli? Við skulum heldur nefna hann Jónshelli eða Píslarhelli, þar eð sagt er, að hann hafi verið tvö steinköst frá Kirkjubæ í austur. En þar var Jón Þorsteinsson píslarvottur myrtur af Tyrkjum 1627.
Þessi umræddu steinköst unglinga um 1920 miðast ekki við að slöngva steinum með slöngu, heldur aðeins að kasta með höndunum. Þótt sumir ættu slöngur og notuðu þær eitthvað, þótti ekkert afrek að kasta langt með þeim. En sumir slöngvuðu stórum nöglum. Það þótti gaman, þar eð svo mjög söng í nöglunum, er þeir þutu með ofsahraða gegnum loftið.


Kartöfluslagur


Þótt strákar væru allmiklir fyrir sér, er þeir voru að leik, lentu þeir ekki oft í illdeilum við bæjarbúa. Þó kom þetta fyrir.
Það var eitt haust, að stór skari stráka hafði verið austur um Miðhúsa - og Gjábakkatún, niður í lónum á Urðunum, Gyðugati og Miðhúsakletti og víðar. Þeir voru svo á heimleið og fóru Gjábakkastíginn. Þegar að Steinum kom var Guðmundur, sonur Helga trésmiðs Jónssonar, er þar bjó, úti í kálgarði að bjástra við kartöflukassa, en hann hafði verið að taka upp úr garðinum.
Það þótti nú sjálfsagt að heilsa upp á Gumma. Var eitthvað samanspjallað, en brátt fóru umræður að hitna eitthvað, því að sakaður var Gummi um að taka ekki sem best upp, skilja mikið eftir o.fl. Hann þoldi illa stríðnina, tók kartöflumóður og kastaði framan í Óskar Bjarnasen. Spýttist innihald kartöflunnar út um allt andlit Óskars og rann í falleg föt hans. Hann var alltaf vel klæddur enda kaupmannssonur, sonur Antons Bjarnasen.
Nú var allt í uppnámi. Tóku margir upp hanskan fyrir Óskar og gerðu hríð að Guðmundi með kartöflumæðrum. Varð brátt allt logandi í illindum. Snerust sumir til hjálpar Guðmundi, en aðrir stóðu með Óskari. Varð þarna einhver sá mesti kartöfluslagur, sem margur minntist. Þegar allar finnanlegar mæður voru þrotnar, var ráðist á kartöflukassana og kastað úr þeim. Kom þá Helgi smiður, sá aðfarirnar, og varð að vonum reiður mjög. Tóku þá allir sprettinn í burtu. Sumir létu þó nokkrar kartöflur dynja á þeim feðgum, áður en þeir yfirgáfu orustuvöllinn.
Var hlaupið hjá Nýjahúsi, þar sem Ísleifur bróðir Helga bjó. Kom Ísleifur í sama mund þarna að, öllum að óvörum, náði í einn óróaseggjanna og bjóst til að lúskra á honum. En það fór á annan veg. Var gerð hörð hríð að Leifa með kartöflum og njólum, svo að hann neyddis til að sleppa herfangi sínu og verjast aðsókn okkar strákanna. Voru þeir þá ekki lengi að hverfa vestur hjá barnaskólanum, er félagi þeirra var laus, - og tvístrast.
Engin eftirmál urðu vegna þessa kartöfluslags önnur en þau, að Helgi talaði víst við Anton Bjarnasen kaupmann, sem trúlegast hefir beðið gott fyrir okkur strákaskömmunum. Ef til vill hefir Anton þóknað Helga einhverju kartöfluskaðann. Hann var manna vísastur til þess.
Við Guðmund son Helga var sæst heilum sáttum, og urðu allir strákarnir vinir aftur sem áður. Við Helga og Ísleif voru sumir okkar strákanna hálfsmeykir fyrst í stað, en það var ástæðulaus ótti. Þeir bræður létu okkur alla afskiptalausa og hugðu síst á eftirmál. Þáði margur óróaseggjanna eftir þetta sem undanfarið, margan bitann á heimilum þeirra, hjá þeim Þórunni í Steinum og Þórunni í Nýjahúsi.


Glíma og aðrar íþróttir


Eftir að Ungmennafélagið var stofnað hér og síðar íþróttafélagið Þór og K.V., voru íþróttir allskonar og glímur mjög mikið iðkaðar af yngri mönnum, sem settu svip sinn á bæinn öðrum fremur. Menn æfðu af kappi og eyddu í það miklu af tómstundum sínum. Knattspyrna var mjög ofarlega á baugi og var mikið til æft á hverju kvöldi yfir sumarið, langt fram á haust. Voru það unglingar og eldri menn, sem þar sameinuðust að leik. Alltaf voru einhverjir að sparka inni á vellinum við Hástein, K.V eða Þór og svo Týr eftir árið 1921. Árið 1920 var aðalkapplið Eyjamanna í knattspyrnu, sem gat sér m.a. góðan orðstír í höfuðstaðnum það ár:

Georg Gíslason, Stakkagerði,
Hjálmar Eiríksson, Vegamótum,
Lárus G. Árnason, Búastöðum,
Sigurður Sveinsson, Sveinsstöðum,
Árni Árnason, Grund,
Filippus G. Árnason, Ásgarði,
Kristinn Ólafsson, Reyni,
Ólafur Ólafsson, Reyni,
Jón Jónasson, Múla,
Óskar Bjarnasen, Dagsbrún,
Jóhann A. Bjarnasen, Dagsbrún,
Guðmundur Helgason, Steinum,
Magnús Stefánsson/Örn Arnarson, sýsluskrifari,
Gunnar H. Valfoss verslunarmaður, Edinborg.


Handskrifuð aths. á spássíu: ,,Sér frásögn um ferð þessa kappliðs til Reykjavíkur 1920, ásamt myndum, er hjá Þ.Þ.V.“ Greinin var birt í Bliki 1962/Eftirminnileg knattspyrnukeppni. (Heimaslóð).

Glíma var sem sagt mikið iðkuð, og voru hér margir ágætir glímumenn. Þeirra á meðal má nefna þá Stakkagerðisbræður, Árna og Georg Gíslasyni, Jón Ingileifsson, Reykholti, Árna Þórarinsson, Oddsstöðum, Gísla Þórðarson, Dal, Jón Jónasson, Múla, Sigurð Högnason, Vatnsdal, Einar Björn Sigurðsson, Pétursborg o.fl. Síðar komu hér aðfluttir menn, sem mikinn þátt tóku í glímu, t.d. Minnahofsbræður, Sigurður og Steinn Ingvarssynir, Bryngeir Torfason, Búastöðum, Runólfur Runólfsson, Bræðratungu, Sigurður Jónsson frá Þykkvabæjarklaustri o.m.fl.
Mörg glímumót voru haldin og keppni mikil. Síðar komu svo íþróttamenn Knattspyrnufélagsins Týs til sögunnar. Gerðust þeir margir bráðsnjallir glímu- og íþróttamenn á mörgum sviðum og hafa verið það allt til síðustu ára. Hafa margir Eyjamenn fyrr og síðar komist fyllilega jafnfætis íþróttamönnum meginlandsins í fjölmörgum íþróttagreinum.
Um skeið voru kenndir hér á vegum íþróttafélagsins Þórs hnefaleikar, og fenginn til þess danskur kennari, Strömberg að nafni. Ekki náði sú íþrótt, ef íþrótt skyldi kalla, neinni útbreiðslu hér, og var því kennsla þessi lögð niður eftir einn vetur.
Varðandi glímuíþróttina, þá var hún t.d. ein af helstu skemmtunum sjómanna fyrir og eftir aldamótin, hinar svonefndu flokkaglímur, sem oft voru haldnar í landlegum, þ.e. bændaglíma. Á þjóðhátíðum var og að sjálfsögðu alltaf sýnd glíma.
Snjallir glímumenn fyrir og um aldamótin voru m.a. Jónas Jónsson, Múla, Sigurður Sveinbjörnsson, Brekkuhúsi, Finnbogi Björnsson, Norðurgarði, Vilborgarstaðabræður, þeir Einar, Jón, Kristmundur og Sigfús Árnasynir, auk uppeldisbróður þeirra Árna Árnasonar, síðar að Grund o.m.fl. Unglingar glímdu og mikið, en þeir voru í sérflokkum, og margir urðu síðar mjög góðir glímumenn, t.d. Árni Gíslason, Stakkagerði, svo að einhver þeirra sé nefndur.


Sund


Sundkennsla hófst hér snemma miðað við önnur þorp. Var mikill áhugi ríkjandi fyrir þessari hollu íþrótt meðal unglinga, sem eyddu ekki svo fáum frístundum sínum til æfinga. Það var árið 1880, sem sýslusjóður greiðir fyrst þóknun vegna sundkennslu. Voru það 20 krónur og kennari þá Lárus Árnason stúdent á [Vilborgarstaðir|Vilborgarstöðum]], sonur Árna Einarssonar þar. Þegar miðað er við það, að árið 1880 eru tekjur sveitarsjóðs aðeins 300 krónur, er það ekki svo lítil upphæð að verja kr. 20,00 til sundkennslunnar.
Trúlegast þætti mér og, að Lárus hefði verið fyrsti reglulegi sundkennarinn hér í Eyjum. Einnig var hann hér barnakennari um tíma. Síðar fór hann til USA og gerðist lyfsali þar vestra.


—————


Niðurlag


Hér að framan hafa verið taldar nokkrar skemmtanir unglinga um aldamótin og allt fram um 1925. Þó er ýmsu sleppt, sem hefði máske verið ástæða til að minnast á, svo sem skemmtiferðir unglinga sjóleiðis kringum Heimaey og út í nærliggjandi úteyjar. Það voru jafnan mjög fjölsóttar skemmtiferðir og lærdómsríkar, því að ávallt voru einhverjir eldri menn fengnir með, sem fróðir voru um örnefni eyjanna. Ferðir þessar voru ódýrar, og var öllu stillt í hóf um kostnað. Oftast þurfti ekki annað að borga en olíueyðslu bátsins. Eigendur hans tóku ekkert í leigu fyrir hann, og skipshöfnin gaf venjulega vinnu sína og fyrirhöfn.
Auk þessara ferða, voru skemmtiferðir unglinga í heimsókn til veiðimanna í úteyjunum. Þar var margt haft til skemmtunar ferðafólkinu og veiðimönnum. Alltaf var farið með eitthvað nesti, kaffi og kaffibrauð, og lagt á borð með sér, en veiðimenn hituðu og lögðu oftast eitthvað til. Gengið var um eyjuna, hið markverðasta skoðað og rætt í fylgd með veiðimönnum, og þeir sýndu fólkinu veiðiaðferðir sínar við fuglinn. Síðan var farið í ýmiskonar leiki, og tóku veiðimenn gjarna þátt í þeim gleðiskap gestanna.
Renni maður huganum til þessara æskustunda, rifjast upp æði margt unaðslega skemmtilegt, ævistundir þrungnar ljúfum minningum. Maður skilur varla, hvernig börn og unglingar fengu tíma til leikja. Það var alla tíma ársins nóg að starfa við heimilið og utan þess.
Unglingar þurftu t.d. að vinna í heyvinnu, breiða og taka saman fisk, sem breiddur var til sólþurrkunar, reka kýr og sækja þær, leita að hestum og flytja á þeim neðan úr sandi það, sem þurfa þótti. Þeir þurftu og að pæla og setja niður í kálgarðana, bera á túnin og vinna áburðinn með öðru heimafólki, taka upp kartöflur og rófur, flytja heim af bryggjunni fuglinn, sem kom úr úteyjunum o.m.fl. Utan heimilisins var svo skipavinnan, útskipun á fiski, sem fluttur var laus, en stúfaður í lestir skipanna, uppskipun á timbri, kolum, salti og öðrum vörum. Svo var það pakkhússvinnan við fiskinn o.s.frv. Á veturna var það svo skólinn, og flestir fengu alls ekki að fara út fyrr en búið var að læra til næsta dags.
Þá þurfti einnig að færa kaffið á ýmsum tímum í Sandinn og fylgjast með, þegar bátur heimilisins kæmi að. Þá þurfti að hlaupa heim eftir kaffinu.
En þrátt fyrir þetta allt og margt fleira, fengu unglingar oftast einhvern tíma afgangs til að leika sér, á hvaða tíma árs, sem var. Sá tími var líka notaður til hins ýtrasta, en hins jafnframt gætt, að vera ekki lengur úti en leyfi var gefið til. Að sjálfsögðu gátu fyrirkomið smávegis vanefndir í þessu, en ekki var það oft og ekki almennt. Heimilisaginn var all strangur víða hér og gaf fullt tilefni til hlýðni.
Af ofanrituðu er auðsætt, að ungmenni hér hafa haft meir en nóg við frístundir sínar að gera, og að þeir hafa eytt þeim yfirleitt sjálfum sér til gagns og ánægju. Það var á þeim tímum, sem hér um ræðir, meira hugsað um að skemmta sér á heilbrigðan hátt, þannig, að hver skemmtistund, er gafst frá skyldustörfum heimilanna, færði hverjum og einum fágaðar og fagrar endurminningar, heldur en hitt, að hugsa um það eitt að eyða peningum og tíma í augnabliks áhrif svalls og óreglu. [Innskot af lausum miða:]
Skemmtanir miðuðust við fjöldann, en ekki einstaklinga, - við gott samfélag.
Þær voru uppbyggðar á þann hátt, að fjöldinn gæti tekið þátt í þeim án þess að kosta nokkru til nema tíma og sjálfsagðri fyrirhöfn við að gleðja sjálfan sig og aðra.
Þetta var leiðin til skemmtanalífs unglings þá.
- Það er lóðið. –

Á.Á.


Til baka


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit