Halldór Brynjólfsson

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Halldór Brynjólfsson fæddist 12. janúar 1873 í Norðurgarði vestri í Vestmannaeyjum og lést 28. janúar 1948. Faðir hans var Brynjólfur Halldórsson bóndi og móðir hans var Jórunn Guðmundsdóttir. Þau áttu 14 börn.

Halldór var öflugur og efnilegur drengur. Hugur hans hneigðist snemma að sjómennsku og hóf Halldór sjómennskuferil sinn 13 ára gamall.

Á 13. ári fór Halldór að finna til í öðru auganu. Hann leitaði til læknis en ekkert stoðaði. Sjónin var fljót að fara og missti hann alla sjón á öðru auganu á einu ári. Skömmu síðar rakst Halldór á hurð og meiddist á hinu sjáandi auga. Tók hann því að missa sjón á því auga einnig. Innan við tvítugt var Halldór orðinn alblindur.

Halldór var lengi að átta sig á hörmungum sínum og sætta sig við þá staðreynd að vera blindur. Að lokum ákvað hann þó, að hann skyldi verða sjálfstæður þegn og gera sitt allra besta til þess að verða ekki byrði annarra á meðan starfskraftar og heilsa leyfðu honum að vinna.

Hann stundaði því sjóinn í 35 ár, þar af var hann á hinu kunna skipi Gideon í 13 ár. Halldór var einnig vinnumaður í Gvendarhúsi. Fyrir dygga þjónustu í vinnumennsku sinni í Gvendarhúsi hlaut Halldór verðlaun frá Búnaðarfélagi Íslands árið 1928, silfurbúinn göngustaf. Sá stafur er nú geymdur í Byggðasafni Vestmannaeyja ásamt mörgum öðrum hlutum úr eigu Halldórs.

Árið 1907 fluttist til Eyja Kristín Vigfúsdóttir frá Rangárvöllum, f. 2. september 1865, d. 5. janúar 1936. Hún réðist sem vinnukona í Gvendarhúsi. Þar hafði hún ekki verið í langan tíma þegar hún og Halldór felldu hugi saman. Þau byggðu sér lítið hús nálægt höfninni sem bar nafnið Sjávargata. Um konuna sína segir Halldór meðal annars: „Aldrei sá ég konuna mína, en ég vissi svona hér um bil hvernig hún var. Og þó að ég hafi aldrei fyrir hitt nema gott fólk, þá hjálpaði konan mín mér mest og best gegnum þetta líf, þetta myrkur. Það þótti nú á sínum tíma heldur óaðgengilegt fyrir hana að eiga mig, en með guðs hjálp þurftum við aldrei að leita á annarra náðir í efnahagslegu tilliti og þegar öllu er á botninn hvolft þá hefur mér liðið alveg eins og vel og jafnöldrum mínum og æskufélögum sem fengu að halda sjóninni og sjá enn...“
Þau Kristín fluttust frá Eyjum 1920, settust að í Hafnarfirði.

Barn þeirra Kristínar var:
1. Brynjólfur Þórður Kristinn Halldórsson, f. 1. júlí 1909, dó ungbarn, en dd. óþekkt.
2. Barn Kristínar var Steinunn Sveinbjörnsdóttir, f. 24. maí 1892, d. 24. nóvember 1984.
Árið 1931 fluttu þau Halldór og Kristín í Hafnarfjörð. Kristín lést árið 1936 og Halldór lést árið 1948, og hafði hann notið hjálpar Steinunnar stjúpdóttur sinnar eftir lát Kristínar.


Heimildir