Hásteinn
Hásteinn stendur neðan við Austur-Há. Í daglegu tali er aðeins sagt Há en í raun eru þær þrjár; Há-Há, vestur af Dalfjallshrygg og gegnt Klifinu. Blá-Há, blágrýtishöfði austur úr Há-Há. Austur-Há, stendur næst byggðinni við Hástein.
Gömul þjóðtrú sagði að gerðust þrír atburðir samtímis í Vestmannaeyjum, myndu Tyrkir ræna þar á ný. Þessir atburðir voru: 1) Að byggð færi vestur fyrir Hástein. 2) Að vatnsbólið í Vilpu legðist af. 3) Að biskupssonur vígðist til prests í Vestmannaeyjum.
Árið 1973 hafði tvennt af þessu gerst, byggðin var komin vestur fyrir Hástein og fyllt hafði verið upp í Vilpu. Og stutt var í þriðja atburðinn, þar sem séra Karl Sigurbjörnsson, biskupssonur, hafði sótt um prestsembætti í Eyjum. Raunar rændu Tyrkir ekki en annar atburður átti sér stað, eldgosið í Heimaey, og vildu einhverjir tengja það við hjátrúna gömlu. Í raun stenst það ekki þar sem séra Karl hafði ekki vígst hingað þegar gosið hófst.