„Ritverk Árna Árnasonar/Lundaveiðarnar í Vestmannaeyjum“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ekkert breytingarágrip
m (Verndaði „Ritverk Árna Árnasonar/Lundaveiðarnar í Vestmannaeyjum“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
 
(Enginn munur)

Núverandi breyting frá og með 31. ágúst 2013 kl. 21:50




Lundaveiðarnar í Vestmannaeyjum


Þetta erindi mun Árni hafa flutt í Akóges, líklega á 5. áratug síðustu aldar.
Önnur erindi Árna, sem og greinar, er hann skrifaði í blöð og tímarit, eru, að því er virðist, flest byggð á þessu erindi, en þær greinar eru að mun styttri.

Fram um síðustu aldamót var aðalatvinnan hér að sumrinu til fuglaveiðarnar. Þær voru stundaðar af ungum og gömlum, konum og körlum, af hinu mesta kappi, bæði á Heimalandinu og í úteyjunum.
Heimaey, heimalandinu, er skipt í 48 jarðir. Heyra þar af 4 undir Ofanleitisprestakall. Þó voru og eru ekki ætíð 44 búendur á jörðum, því að sumir bændur höfðu hver það, sem nefnist „völlur“. Sá bóndi hafði því tvöfaldar nytjar, bæði af ,„Heimaey“ og leigumálum úteyjanna. Má þar tilnefna, t.d. Dali, Vesturhús, Stakkagerði o.fl.
Snemma voru unglingar vandir við fjallaferðir, eggja- og fuglatekju, enda urðu margir Eyjamenn frægir af þeim ferðum sínum, bæði sem veiðimenn og sigamenn og mun þeirra síðar getið í erindi þessu.
Fyrstu ferðirnar voru eggjaferðirnar. Þær voru og eru farnar, þegar 6-7 vikur eru af sumri og þá aðallega í úteyjarnar; þær ferðir vöruðu í 1-5 daga. Var þá farið bæði „laust“ og svo „sigið“, eftir því sem þurfa þótti. Eggjatekjan var mjög misjöfn og fór það eftir veðurfari um varptímann.
Næst var svo farið að snara svartfuglinn, þá 9 til 11 vikur voru af sumri. Þær ferðir stóðu yfir í eina til tvær vikur. Snaran var 5 til 7 álna langt skaft með snöruteini úr járni á endanum. Á þeim teini var svo snörustrengurinn, sem oftast var úr hrosshári. Bestur þótti hann úr fiðlustreng, en slíkir strengir voru ekki í hvers manns eigu.
Vitanlega var fuglinn mjög misjafnlega styggur og stundum erfitt að eiga við hann. Venjulegast var snarað um háls fuglsins, en ef það gekk ekki vegna styggðar varð að snara þá verstu og órólegustu á fótum. Ef það tókst, gekk allt betur á eftir, því að þeir órólegustu höfðu forystuna í styggðinni. Þegar þeim var náð, spektust hinir eftirsitjandi fuglar. Nánar skal að snörunni víkja síðar í erindinu.
Lengi fram eftir 19. öldinni var lundinn einungis veiddur í holunum og voru þá notaðir hinir svonefndu „greflar“, „langgrefill“ og „stuttgrefill“. Var það verkfæri með krók í enda og lundinn kræktur út með honum. — (Sjá síðar).
Á þessari veiði var byrjað 9 vikur af sumri og verið að til fýlaferða, þ.e. til miðs ágústmánaðar og lengur.
Um miðja 19. öldina var svo farið að nota net við lundaveiðina, en sú veiðiaðferð varaði aðeins nokkur ár, en var þá bönnuð, þar eð til útrýmingar á fuglinum virtist stefna. Svo óhemju mikið var af honum drepið.
Fýlatekjan byrjaði sem sagt 15.-25. ágúst og stóð yfir í 8-10 daga. Var ýmist sigið efir unganum, farið laust, farið laust með bandi um fýlabyggðina, bundið með bandi og annað haft laust o.s.frv., og svo farið svo langt til hliða sem unnt var frá niðurstöðu sigabandsins. Unginn var rotaður með svonefndum „fýlakepp“, sem var um einnar álnar langur úr góðu efni, t.d. eik. Um þessar veiðar vísast nánar seinna í þessu erindi, sem og um súluveiðar hér og í „Eldey“ af Eyjamönnum.
Þegar mest var drepið af lunda hér í Eyjum 1840-1868, voru 32 menn í Elliðaey, 16 í Bjarnarey, 16 í Álsey, 8-16 í Suðurey, 8-16 í Ystakletti, 8 í Heimakletti og mjög margir á „Heimaeyjunni“, en þar voru þó mest unglingar og eða kvenfólk eða gamlir menn.
Hér vantar síðan hluta inn í erindi Árna um lunda- og svartfuglsveiðar, óvíst, hve langan, en næst kemur að því, er hann ber saman veiðar í Vestmannaeyjum og á fastalandinu:
...Sumir menn, er ég hef rætt við um þetta, vilja hækka veiðar hér um allt að því helming vegna tíundarsvika. En það er óhugsandi; eftir því sem veiddist hér 1901, ættu Eyjamenn að hafa veitt nær helming af öllum þeim lunda, sem veiddist þá á landinu. Það kemur ekki til og má þó áætla tíundarskekkjur á meginlandinu eins og hér. Enda þótt önnur byggðarlög á landinu séu ekki eins kunn af veiðum lunda eins og Eyjarnar, þá sjáum við, að mjög mikið er veitt annars staðar, t.d. í Breiðafjarðareyjum, á Vesturlandi og Austurlandi, t.d. árið 1901 veiðast í öðrum byggðarlögum landsins 188.600 lundar, en hér 50.988 stk. Hvernig það hefir verið á fyrri árum, veit ég ekki, t.d. 1840-1865, en gæti hugsað mér, að þá hefðu jafnvel Eyjarnar verið langsamlega hæstar að veiðimagni. Hin síðari ár, t.d. 1898 til 1906 lítur þetta þannig út: (skjalfest tíundarskrá). [?=vantar upplýsingar. Ísl.=Allt landið með Eyjum].

Ár Lundi Svartfugl Fýll Súla
Vm. Ísl. Vm. Ísl. Vm. Ísl. Vm Ísl.
1898 57.394 ? 4.113 ? 22.637 ? 470 ?
1899 34.567 ? 717 ? 26.451 ? 942 ?
1900 34.548 ? 3.044 ? 27.854 ? 916 ?
1901 50.988 239.588 2.176 109.954 19.701 44.656 176 241
1902 40.363 225.499 3.468 44.478 23.513 51.289 546 546
1903 48.130 237.812 1.716 72.772 24.058 53.737 521 541
1904 ? 239.975 ? 61.652 ? 54.331 ? 880
1905 61.350 250.317 4.100 63.336 24.390 57.207 653 653
1906 39.620 ? 12.518 ? 18.250 ? 444 ?

Þessar tíundir eru allar í tíð háfsins, en netin þá hætt. Ef við tvöföldum tíundirnar héðan þessi árin, fáum við hæst 122.700 stk. eða 1.227 kippur á móti landssveitinni þá 250.317. Það fær ekki staðist, finnst mér, að Eyjamenn veiði helminginn af landssveitinni. Trúlegri fyndist mér 1/3, því að meiri tíundarsvik áætla ég ekki veiðimönnum nefndra ára. Þessi árin fyndist mér sannsýnileg veiði hér 90 til 100 þúsund stykki, meira ekki, þótt tíundarskrárnar séu eins og að ofan sýnir. Og þó einhver firnindi hafi veiðst 1860-1880, finnst mér sem sagt varhugavert að áætla það meir en 200 til 300 þúsund, alls ekki 500 til 600 þúsundir eins og sumir vilja gera, sem reikna veiðina út frá fiðurmagninu, sem alveg eins hefir getað verið samandregið áramagn sem eins árs magn.
Allt fuglakjöt, sem ekki var étið nýtt, var saltað í stærri og smærri tunnur og svo étið yfir haustið og veturinn. Það þóttu engin undur, þótt búandinn ætti 2-3 tunnur óétnar af saltfugli, þegar nýmetið kom. Eggin voru afar mikið étin meðan þau voru æt. Þá voru þau og oft látin til bænda á fastalandinu, ásamt miklu af fugli. Má með sanni segja, að „Heimaey“ hafi oft verið matarbúr um fugl og fiskmeti handa landsmönnum, þ.e. nærsveitamönnunum.
Fuglinn var hagnýttur hér til hins ýtrasta, saltaðir fýlshausar þóttu allt fram á síðustu ár (t.d. 1914-1918 í stríðinu) herramannsmatur. En æði úrgangssamur var hann. Lifrarpylsa úr súlu þótti lostæti hið mesta, svírinn og krakarnir. Hausar og lappir súlunnar þóttu bestu svið, o.fl., o.fl. Það þóttu fjandann engir búmenn, sem ekki áttu alls lags fuglakjöt langt fram á nýmetistímann. Og blessaður fýllinn með alla sínu góðu feiti, sem þótti hreinasti dýrindis fengur í búið, betri en margt annað feitmeti og máske það eina, sem sumir tómthúsmenn höfðu.
Fuglaveiðarnar voru vitanlega hættulegur atvinnuvegur, en um það var og er enn lítt hugsað, meðan á veiðum stendur. Margir fórust í fjöllum fyrr á árum og allt fram á þennan dag, miklu fleiri en skýrslur eru til um. Hér set ég aðeins þá, sem farist hafa við veiðar frá því á öndverðri 19. öld:

Úr Heimakletti 7 menn, úr Ofanleitishamri 12,
úr Ysta-Kletti 3 menn, úr Stórhöfða 10,
úr Stóra-Klifi 4 menn, úr Hellisey 1,
úr Háenni 3 menn, úr Bjarnarey 2,
úr Lágenni 1 maður, úr Geirfuglaskeri 1,
úr Dalfjalli 4 menn, úr Elliðaey 4 og
úr Flugunum 5 menn.

Þetta er mikið tap og sannar hættuna við starfið. Nokkrir hafa hrapað, en komist lífs af, en það eru hreinustu undantekningar. Má þar til nefna hrap Davíðs bónda Ólafssonar á Kirkjubæ, er hann hrapaði í Súlnaskeri 300 fet í sjó niður. Hann teygðist við fallið, lá í eitt ár og varð að mestu jafngóður. Hann fór síðar til Ameríku.
Jón dynkur hrapaði hátt úr Hábarði í Elliðaey, aðrir segja úr Langvíuréttum í Bjarnarey, í sjó niður. Skaut honum upp við legubátinn. Kallaði hann þá til bátsmanna „Heyrðuð þið ekki dynk piltar“, og fékk hann þar af nafnið „dynkur“. Tóbaksbaukur Jóns flaut rétt hjá, og bað Jón þá á bátnum að hirða baukinn fyrst. Þótti mönnum Jóni farast hraustlega og æðrulaust.
Þá hrapaði og Hannes lóðs Jónsson á Miðhúsum í Hrútaskorum í Bjarnarey, sem kunnugt er og óþarft er að rekja nánar hér, þar eð allir kannast við þann atburð. Fleiri hafa hrapað og komist lífs af, t.d. Hjálmar Jónsson, sem hrapað hefir 3svar og slasast mikið, en þó sloppið lifandi.

————


Ég mun nú víkja nánar að fuglaveiðum, lundaveiðunum, fyglingum og veiðiáhöldum fyrr og nú hin síðari ár.
Lagnetin voru 12-14 faðma löng, strengd yfir lundabyggðina og niðurfest með hælum og látin liggja þar, t.d. yfir nóttina. Þegar svo fuglinn ætlaði inn í holu sína eða út, ánetjaðist hann. Var hann því oft og tíðum búinn að þvælast í netinu alla nóttina eða lengur og kveljast, svo að stundum var hann steindauður, er að var komið, eða allur meiddur af þráðunum og blóðugur. Með þessari aðferð var nálega allur vaxinn fugl drepinn og mikið af pysjunni, því að vitanlega endaði það með því, að hún drapst úr hungri; svo ört var yfirlagt byggðina, að tími gafst ekki að fæða ungann.
Brúnanetin eða fyrirsláttarnetin voru hengd í fjallabrúnirnar, þar sem lundinn hafði setu. Voru netin látin hanga í sköftum niður fyrir brúnina. Veiðimennirnir voru tveir, sem unnu að þessari aðferð. Fóru þeir frá á meðan fuglinn settist á brúnina fyrir ofan netið, læddust síðan, sinn að hvorum enda netsins og drógu það upp með snæristaumunum fyrir fuglinn, sem þeir styggðu um leið, svo að hann flaug upp og lenti vitanlega í netinu.
Uppistöðunetunum var öðruvísi fyrir komið. Í hlíðar, þar sem lundinn sat mikið í byggð, var fyrir komið 2 staurum á hæð við bátsmastur með töluverðu millibili. Í toppinn á trjám þessum var fyrirkomið hjóli, sem snæri eða mjór kaðall var í dreginn. Var sín taug fest í hvort horn efra teins í netinu, en neðri teinn netsins var festur niður með hælum. Var taugin höfð svo löng að veiðimennirnir, er voru tveir, gætu verið hæfilega langt frá með tilliti til að styggja ekki fuglinn.
Þegar netið hafði verið uppsett milli trjánna og fuglinn hafði sest nokkuð í brekkuna fyrir ofan það, gerðu þeir hávaða, svo að fuglinn flaug upp og lenti í netið. Með þessum veiðiaðferðum var stefnt til algjörrar útrýmingar á fuglinum, svo að árið 1859 voru þær bannaðar.
Grefillinn var ekki síður ómannúðlegt veiðiáhald en svartfuglasnaran, nema ef frekar væri, og kvaldi fuglinn óskaplega. Það var 1 ½ til 2ggja álna langt skaft. Á öðrum enda þess var spaði sem á skóflu hjá þeim, sem mest höfðu við, en í hinn endann var festur járnkrókur. Var holan stungin upp eða sparkað niður úr henni og fuglinn svo dreginn út með króknum, sem vitanlega gekk á hol í skrokk hans.
Oft og tíðum rifnaði svo krókurinn út úr skrokknum, svo að fuglinn var mikið særður, þegar hann náðist út, því að vitanlega læsti hann kjafti og klóm í jarðveginn til þess að reyna þar við að forða sér, en þar við rifnaði krókurinn úr holdinu. Þetta var grimmdarleg, ómannúðleg og í alla staði svívirðileg veiðiaðferð. En mennirnir þekktu enga aðra betri.
Holuferðirnar án grefla voru bestar, þótt erfiðast væri það. Menn spörkuðu niður úr holunum með því að hlaupa í loft upp og reka hælinn niður úr holunni með þunga sínum og krafti. Var þetta erfitt, því að misdjúpt var á holunum. En flestar létu undan högginu í 2. til 3. sinn. Ráku þeir síðan höndina inn í holuna og tóku lundann. Þannig gátu karlarnir fengið 100-300 lunda á dag og jafnvel meira.
Eftir að hafa tekið fuglinn úr holunni, gengu þeir frá henni aftur, þ.e. settu kökkinn í gatið aftur. Svo fóru þeir í holuna aftur og aftur og náðu öðrum. Einu sinni vissi ég til, að í Suðurey voru þannig teknir 17 hundruð (dag eftir dag) í röð, en á 18. degi kom enginn í holuna, og tóku þeir þá pysjuna og ólu hana upp. Þetta er ein sönnun af mörgum fyrir því, að margir lundar hugsi um sömu holu að öllu leyti, það er byggingu hennar og viðhald og síðar um pysjuna. Það er sagt, að þeir duglegustu og bestu í þessum holuferðum hafi þannig sparkað niður úr holum, sem voru 7-8 tommu þykkar, og er það býsna vel gert. En karlarnir voru líka þungir, sterkir og iðnir við veiðina og ekki vantaði heldur kappið, ef út í það fór. Sóðalegt hefir þetta verið í meira lagi, enda sást stundum ekki í karlana fyrir bleytu, mold og fugladriti.
Ávallt heyrði ég talað um þá, sem sérlega duglega að veiðum þessum, Árna Diðriksson í Stakkagerði, móðurföður Georgs Gíslasonar kaupmanns, Jón Ingimundsson, Mandal, tengdaföður Stefáns Gíslasonar, Ási, Óla í Nýborg, Sigga Fúsa, Magnús bróður hans o.fl.
Háfurinn kom hingað frá Færeyjum um 1865-70, og mun Árni Diðriksson hafa fengið þann fyrsta. Mönnum gekk hálfilla að venjast honum og læra að meðhöndla hann, svo að allt fram undir 1885 höfðu margir enn sínar gömlu aðferðir, grefilinn og holustungurnar. En fyrir aldamótin hefir þó háfurinn algjörlega útrýmt öðrum veiðitækjum, og menn þá orðnir slyngir veiðimenn. Þá voru og þeir, sem gamlir voru, þegar hann kom, og voru vegna getuleysis síns og stirðleika, innilega á móti honum, farnir að sjá ágæti hans sem veiðiáhalds, og hve miklu mannúðlegri meðferð fuglinn hlaut í honum heldur en með greflinum. Að sumum hafi gengið háfveiði illa, bendir þessi vísa Ólafs í Nýborg Magnússonar:

Veiðin mín er voða smá,
víst er það ei gaman.
Til helvítis ég henda má,
háf með öllu saman.

Í Suðurey hefir þeim og ekki gengið vel, ef dæma skal eftir vísu Sigurðar Sigurfinnssonar, hreppstjóra. Jón á Hrauni Einarsson var að henda lunda upp úr bátnum, sem sótt hafði til Suðureyinga og féll Jón í sjóinn. Þá sagði Sigurður:

Súrt er fyrir Satans börn,
Suðurey að stunda.
Í Ægisdjúp fór Axlar-Björn,
eftir sínum lunda.

„Axlar-Björn“ mun benda til, að Jón hafði aðra öxlina hærri en hina. En sem sagt, um aldamót 1890 eru komnir til sögunnar ágætis háfsveiðimenn, enda er aflinn í þá tíð orðinn mikill, þótt meiri yrði eftir aldamótin. Er þá legið við í öllum stærstu úteyjunum 4 til 5 vikur til lunda- og svartfuglaveiða, og komust færri að en vildu. Það þótti góður fengur og björg í bú að fá fugl svo hundruðum skipti. Það þótti ekkert undravert, þótt búandinn næði svo vel saman með fuglakjöt að ein eða tvær tunnur væru óétnar af saltfugli, þegar nýmetið kom um sumarið. Þó var borðað mikið af fugli, þar eð sauðfé var aldrei mikið og þá ekki nema hjá bændunum svo teljandi sé. Fuglakjöt var því mikið til aðalkjötmeti þurrabúðarmannsins og velflestra smærri bænda aðalbúdrýgindi.
En nú er eitthvað annað uppi á teningunum, hvað fuglakjöt og fyglinga snertir. Nú er tæpast hægt að fá 2-3 menn í stærstu eyjarnar þrjár og þykir ágætt, ef einn vanur maður fer með tvo óvaninga og prýðilegt, ef 2 vanir með einn óvaning. Þeir eru svo í eyjum þessum 10-14 daga, lifa þar í vellystugheitum og praktugleika, hreinasta sport og bílífi, taka á móti skemmtiferðafólki flesta daga vikunnar í öllu mögulegu og ómögulegu ásigkomulagi, dansa, ralla og tralla við víf og vín alla nóttina, sofa svo eða liggja fyrir og hlusta á útvarp næsta dag, þunnir og þreyttir fram á eftirmiðdag. Og þó veiðast þetta 5 til 8 þúsund lundar yfir lundatímann eða 2 til 4 þúsund á hvert hálfsmánaðar „holl“. Fæstir eru þar lengur, en þá taka við aðrir 2-3 menn og eru 7 til 14 daga.
Hvað haldið þið að veiðast mundi, ef úteyjalifnaðarhættirnir væru nú sem fyrir 25-30 árum og farið væri í allar úteyjarnar, Heimaklett og Ystaklett, með góðum veiðimönnum. Það yrðu vissulega margir tugir þúsunda. Ekki fækkar lundanum hér, heldur vex viðkoma hans svo að segja árlega, svo að ekki er því til að dreifa um aflaleysi manna í honum, nei, heldur er ástæðan sú, að veiðimenn vantar tilfinnanlega, — og fyrrnefndir lifnaðarhættir viðlegumanna. Þó skal framtekið þessu til málsbóta, að misjafnt er þetta og sums staðar ágætt viðlegulíferni á ýmsum tímum veiðitímabilsins.
Vitanlega geta svo fyrirkomið aflaleysisár, sbr. 1943 og 1944, en ástæður til þess geta verið margar eins og t.d. kuldar, bleytutíð eða ætisleysi kringum Eyjar eins og 1942, er unginn lá í þúsundatali hungurmorða við holurnar.
Nú skulu taldir veiðimenn úteyjanna, sem verið hafa á tímabilinu 1910 til ‘20, og sjáið þið þá, hversu mannað var þá og getið borið saman við veiðimenn síðustu ára, t.d. 1930 og fram á þennan dag. Sjáið þið ábyggilega muninn á aflamöguleikum fyrr og nú. Einnig skal hér og minnst á fyrri ára meðalveiði og hinna síðari, skiptingu aflans o.fl. Meðaltala viðlegumanna til grundvallar.

Álsey á fyrri árum:
Veiðimenn:
Sveinbjörn Jónsson, Dölum, d. 6. apríl 1930,
Árni Árnason, Grund, d. 19. jan. 1924,
Kristinn Sigurðsson, Löndum, [d. 4. mars 1966]],
Haraldur Eiríksson, Vegamótum, [d. 7. apríl 1986],
Ársæll Sveinsson, Fögrubrekku, [d. 14. apríl 1969],
Jón Magnússon, Kirkjubæ, [d. 3. desember 1964],
Jón Jónsson, Brautarholti, [d. 4. september 1962].
Lærlingar:
Hjálmar Eiríksson, d. 18. ág. 1940,
Hjálmar Jónsson, Dölum, [d. 25. júlí 1968],
Árni Árnason yngri, Grund, [d. 13. október 1962].

Veiðin:
Meðaltal: 5 veiðimenn í 33 daga
Afli í mannspart 1700, gerir samtals 8.500 stk.

Jarðarhluti, 1/3; 8 jarðir @ 355 stk. — samtals 2.840 stk.
Sókningsgjald; 10 ferðir @ 200 stk. — samtals 2.000 stk.
Setningsgjald, þ.e. hálft sókningsgjald— samtals 100 stk.
Ýmis gjöld, t.d. bönd, viðlegubátur — samtals 300 stk.
Utanfélagsmenn, þ.e. lærlingar samtals 800 stk.
Veiði alls —– 14.540 stk.


Sama ey, hin síðari ár:

Veiðimenn 3. Mannspartur 1500 — samtals 4.500 stk.
Veiðitími 20 dagar; 6 sókningsferðir @ 200 — samtals 1.200 stk.
Jarðarhlutur nú orðið ¼; 8 jarðir @ 140 — samtals 1.120 stk.
Setningsgjald 100 stk. Önnur gjöld 200 — samtals 300 stk.
Meðalveiði alls –—–—— 7.120 stk.


Um eftirfarandi úteyjar mun ég aðeins tiltaka heildartölur meðalveiðinnar fyrr og nú, því að skipting aflans er lík í öllum eyjunum, nema hvað sóknings- og setningsgjaldið hækkar eftir fjarlægð úteyjanna frá Heimaey, er t.d. langsamlega hæst í Álsey eða 200 stk. af lunda fyrir hverja sókningsferð þangað.

Bjarnarey – á fyrri árum: Veiðimenn:
Sæmundur Ingimundarson, Draumbæ, dáinn 1. sept. 1942,
Sigurður Sveinbjörnsson, Brekkuhúsi, dáinn 11. júní 1933,
Ólafur Svipmundsson, Löndum, [d. 1. júní 1946],
Snorri Þórðarson, Steini, drukknaði við Eiðið 16. des. 1924,
Sigurjón Sigurðsson, Brekkuhúsi, [d. 8. júní 1959],
Árni Finnbogason, Norðurgarði, [d. 22. júní 1992].
Lærlingar:
Kristmundur Sæmundsson, Draumbæ, [d. 21. ágúst 1981],
Sigurgeir Jónsson, Suðurgarði, hrapaði í Bjarnarey á uppstigningardag, [30. maí] árið 1935, rétt norðan við Hrútaskorunefið.
Ásmundur Friðriksson, Löndum, [d. 17. nóvember 1963].
Meðalveiði áður alls 13.870, nú alls 5.880 stk.

Elliðaey á fyrri árum:
Veiðimenn:
Jón Pétursson, Þorlaugargerði, dáinn 18. júní 1932,
Guðjón Jónsson, Oddsstöðum, [d. 25. október 1959],
Sigurður Helgason, Götu, hrapaði í Miðkletti [24.] júlí 1935,
Sigurður Einarsson, Norðurgarði, hrapaði í Geirfuglaskeri [1. júní] 1929,
Einar Einarsson, Norðurgarði, [d. 21. mars 1967],
Björn Finnbogason, Kirkjulandi, [d. 4. apríl 1964],
Lárus G. Árnason, Búastöðum, [d. 15. febrúar 1967].
Lærlingar:
Ármann Jónsson, Þorlaugargerði, dáinn 1. desember 1935,
Kristófer, [d. 11. apríl 1981]; Pétur, [d. 21. ágúst 1982]; og síðar Guðmundur, [d. 18. desember 1969], Guðjónssynir, Oddsstöðum,
Óskar Kárason, Presthúsum, [d. 2. maí 1970].
Meðalveiði áður alls 15.200, nú alls 6.870 stk.

Ysti-Klettur á fyrri árum:
Veiðimenn:
Stefán Gíslason, Ási, [d. 11. janúar 1953],
Jón Ingimundsson, Mandal, dáinn 21. apríl 1937,
Kristján Ingimundsson, Klöpp, [d. 14. október 1952],
Gústaf Stefánsson, Ási, [d. 24. janúar 1943],
Jóel Eyjólfsson, Sælundi, dáinn 28. des. 1947,
Ólafur Ástgeirsson, Litlabæ, [d. 8. apríl 1966].
Lærlingar:
Jón Stefánsson, Mandal, d. 6. júní 1969,
Guðmundur Stefánsson, Ási, [d. 31. ágúst 1980],
Valdimar Ástgeirsson, Litlabæ, [d. 26. júlí 1978].
Meðalveiði áður alls 12.980, nú alls 5.830.

Suðurey á fyrri árum:
Veiðimenn:
Guðni J. Johnsen, Ásbyrgi, dáinn 18. jan. 1921,
Þorsteinn Johnson, Jómsborg, [d. 16. júní 1959],
Ágúst Gíslason, Valhöll, dáinn 24. des. 1922,
Matthías Finnbogason, Litlu-Hólum, [d. 9. júní 1969].
Lærlingar:
Jóhann Jörgen Sigurðsson, Frydendal, [f. 2. ágúst 1899, d. í Vesturheimi].
Síðar:
Jóhannes H. Jóhannsson, nú á Heiði, [d. 7. mars 1948],
Eyjólfur Gíslason, Búastöðum, [d. 7. júní 1995].
Meðalveiði áður alls 9.830, hin síðari ár 8 til 10 hundruð.


Brandurinn á fyrri árum:
Veiðimenn:
Árni J. Johnsen, Frydendal, [d. 15. apríl 1963],
Björn Guðjónsson, Kirkjubæ, [d. 27. janúar 1949],
Arngrímur Sveinbjörnsson, Kirkjubæ, [dáinn 11. febrúar 1937].
Lærlingar:
Bergur Guðjónsson, Kirkjubæ, d. 4. maí 1940,
Síðar:
Gísli Fr. Johnsen, Breiðabliki, [d. 8. október 2000].
Meðalveiði áður alls 4.800, nú ekkert.


Heimaklettur og Miðklettur (sami leigumáli):
Veiðimenn:
Magnús Guðmundsson, Hlíðarási, [d. 2. ágúst 1949],
Loftur Jónsson, Háagarði, [d. 2. maí 1981],
Magnús Vigfússon frá Presthúsum, nefndur Dalli), [d. 13. ágúst 1926].
Lærlingar:
Guðbergur Magnússon, Hlíðarási, [d. 1. júlí 1963].
Meðalveiði áður alls 4.400, nú alls 950 stk.
Fyrri ára meðalveiði verður þá í úteyjum 75.620 lundar á móti 2.770 hin síðustu ár.
Heildarútkoma veiðimagnsins er dálítið hærri hjá mér en t.d. í Landhagsskýrslum, en sá mismunur stafar af því, að við tíundir til hreppskila komu aldrei öll kurl til grafar, of lítið tíundað, tíundarskránni skilað, annaðhvort aldrei eða í ótíma. Þó er aldrei meðtalinn til tíundar fugl sá, sem lærlingar veiða, fugl, sem greidd eru með bein útgjöld viðlegumanna, t.d. fyrir bönd, viðlegubát o.fl. Þá eru og sókningsgjöldin tekin af óskiptum afla og koma því vitanlega aldrei til tíundar, en það er stór liður, t.d. í Álsey, 10 ferðir @ 200 stk. eða 2.000 lundar yfir veiðitímann.
Um veiði á heimalandinu er erfitt að segja, þar eð engar skýrslur eru til um hana, sem nokkuð mark er á takandi. Bæði er það, að miklu fleiri hafa veitt en leyfi höfðu og svo tíundarsvik hin gífurlegustu.
Eftir síðasta friðunartímabil heimalandsins veiddist mjög mikið. Mun óhætt að áætla veiði á Stórhöfða að meðaltali 9.500 til 10.500 og annars staðar á heimalandi 1.500 til 2.500 eða um 12.500 stk. En á seinni árum mun veiðin þar varast fara yfir 3 þúsund stk., en um þetta verður þó ekkert sagt með vissu.
Í Hellisey, Smáeyjum og Súlnaskeri mun aflinn hin síðari ár vera alls um 2.500 stk. að meðaltali; fyrri ára afli þar aldrei uppgefinn.

Um heimalandsveiðina er það að athuga, að hún er svona mikið minni vegna rányrkju, sem felst í því, að menn sitja í veiðistöðunum nær því allan sólarhringinn. Fuglinn hefir því aldrei næði og kemst aldrei að byggðinni, sem honum er þó nauðsynlegt. Þarna sitja menn, margir hverjir grátlegir klaufar, berja háfnum í gríð og erg, hvort sem nokkur veiðiátt er fyrir staðinn eða ekki; sitja án þess að hafa svo mikið sem 10 fugla allan daginn. Þegar þeir svo loks fara heim, um miðnóttina, þeytist annar niður í staðinn. Og ef með þarf, sefur hann svo hjá eða í staðnum til sólaruppkomu, til þess að aðrir komist ekki í hann. Svo byrjar hann ef til vill sömu barsmíðina, ef um óvaning er að ræða, sem fyrirrennari hans og situr fram á kvöld.
Það er því varla von, að vel fari með veiði. Gullvægar reglur góðra fuglamanna eru:
a. Góður veiðimaður situr ekki í stað í áttleysu.
b. byrjar ekki að veiða í litlum fugli, þ.e., þegar fuglinn er lítið kringum veiðistaðinn.
c. lofar fuglinum að setjast upp eða koma vel að, áður en hann byrjar að veiða, og síðast en ekki síst:
d. góður veiðimaður slær helst aldrei upp án þess að fuglinn komi í háfinn, þ.e. á veiðimannamáli, „slær helst aldrei feilskot“.
Af veiðimannalistanum er ég nefndi áðan sést, að hér hafa verið margir góðir veiðimenn og sumir með afbrigðum að dómi allra skynbærra manna.
Hiklaust eru þessir fimm taldir veiðikóngar Eyjanna fyrr og síðar:
Jón Pétursson, Þorlaugargerði, f. 21. júní 1867, d. 18. júní 1932; Gísli Lárusson, Stakkagerði, f. 16. febrúar 1865, d. 27. september 1935; Árni Árnason, Grund, f. 14. júlí 1870, d. 24. janúar 1924; Sveinbjörn Jónsson, Dölum, f. 16. mars 1889, d. 6. apríl 1930; Stefán Gíslason, Ási, f. [6. ágúst 1877] og er hann enn á lífi hér í Eyjum, [d.11. janúar 1953].
Margir hafa og verið og eru enn í dag veiðimenn með ágætum, eins og t.d. Ólafur Ástgeirsson frá Litlabæ, Guðni J. Johnsen, Ásbyrgi, Björn Finnbogason, Kirkjulandi, Sigurjón Sigurðsson frá Brekkuhúsi, Gústaf Stefánsson frá Ási, Jóel Eyjólfsson frá Sælundi, Vigfús Jónsson, Holti, Guðjón Eyjólfsson, Kirkjubæ, Ársæll Sveinsson, Fögrubrekku, Haraldur Eiríksson frá Vegamótum, Árni J. Johnsen, Frydendal, o.m.fl.
Þetta er mikið og frítt veiðimannalið með hina fimm fyrst nefndu í broddi fylkingar. Svo það var síst að undra, þótt mikið veiddist af fugli á bestu tímum þeirra. Þeir voru til fugla af brennandi áhuga, í starfinu með lífi og sál og kepptu að því að afla, að verða góður veiðimaður, og að því að gera sitt úteyjarfélag öðrum betra, aflahærra og afburðamest í hvívetna. Margir þessara manna eru enn á lífi og taka þátt í fuglaveiðum, en öllum gömlum fer aftur. Og þar eð þeir svo stunda ekki veiðarnar, heldur máske aðeins „leggja háfinn“ tvisvar eða þrisvar á sumri, hlýtur þeim að fara aftur í listinni, og er því veiðin eftir því.
Það er ekki hægt að ræða svo um veiðimenn eða skilja við efni þetta, nema að minnast á góða veiðimenn síðari ára, afburðasnjalla.
Tvímælalaust skipa ég þeim í öndvegi Sigurgeir sáluga Jónssyni, Suðurgarði; Ólafi Ástgeirssyni frá Litlabæ og Hjálmari Jónssyni frá Dölum, að hinum ógleymdum og ólöstuðum, t.d. Jóni Stefánssyni, Mandal; Jónasi Sigurðssyni frá Skuld; Lárusi Árnasyni, Búastöðum; Pétri Guðjónssyni, Kirkjubæ; Árna Stefánssyni, Sigríðarstöðum; Gísla bróður hans; Árna Finnbogasyni frá Norðurgarði; Ólafi Jónssyni fyrrum í Háagarði; Óskari Kárasyni frá Presthúsum; Ásmundi Friðrikssyni á Löndum, svo að einhverjir séu tilnefndir.
En margir eru enn góðir, t.d. Hjálmar Eiríksson frá Vegamótum; Kristinn Sigurðsson á Eystri-Löndum; Gunnar Stefánsson; Gerði, Kristófer Guðjónsson frá Oddsstöðum; Valdimar Ástgeirsson frá Litlabæ; Svavar Þórarinsson frá Suðurgarði; Gísli Fr. Johnsen; Jón Hannesson frá Brimhólum; Anders og Ágúst Stefánssynir frá Sigríðarstöðum; Loftur Jónsson, Vilborgarstöðum o.m.fl. Sumir nefndra manna eru með ágætum veiðimenn, enda flestir haft góða kennara og fyrirmyndir, þar sem feður þeirra eða bræður voru. Góð tilsögn er frumskilyrði til þess að geta orðið góður veiðimaður.
Ég verð þó að segja, að hjá sumum þessara manna vill við brenna, að þeir slái mikið upp, en það þykir ávallt ágalli. Afbragð annarra veiðimanna slær helst aldrei reglulegt „feilskot“, þó að smá óhöpp geti hins vegar valdið feilskoti, t.d., að netið festist á steinnibbu, veiðimaður renni í sæti eða spori o.fl.
Það er gullvæg regla góðs veiðimanns að slá ekki á þann fugl, sem maður er ekki viss um, að sé á „skoti“, því að í flestum tilfellum flýgur hann aftur fyrir veiðistaðinn og kemur þá máske á betra færi. Þá er og nauðsynlegt að veiða helst alltaf í jafn langan háf, því að misjafnlega langur háfur hlýtur að valda „feilskotum“.
Sem keppadrelli upptalinna veiðimanna verð ég að telja sjálfan mig, því að við lundaveiði hef ég verið síðan 1907 og í félagi sem fullgildur síðan 1908, svo að óvaningur get ég varast talist. Mér hefir fram á þennan dag heppnast að lafa í öðrum með veiði, enda þótt byggðarstaðirnir hafi oftast orðið mitt hlutskipti í úteyjum.
Til þess að vera góður veiðimaður þarf glöggt auga, skjótar, já, eldfljótar hugsanir og hreyfingar, þ.e. að vera fljótur að sjá, hvort fuglinn er nógu nálægt til þess að háfurinn nái til hans, hvar svo sem sú passandi fjarlægð verður út frá manninum, beint upp yfir honum, upp með brekkunni, fyrir framan hann eða aftan við hann, slá háfnum á fuglinn nákvæmlega á réttum tíma, vera ekki of seinn eða fljótur. Þá er og vandinn að ruglast ekki í ríminu, þegar margir fuglar koma í einu fyrir veiðistaðinn, en það fyrirkemur oftast í góðum veiðiaðstæðum, því að fuglinn flýgur í stórhópum og mjög þétt. Þá koma margir á skot í einu, máske alltof nálægt og öllu megin við mann. En þessi list kemur með vananum hjá flestum.
Þegar hugsun og hreyfingar veiðimannsins starfa saman með leifturhraða, augað hefir vanist hinu hraða flugi og hreyfingum fuglsins, verður glöggskyggnin á fjarlægðina til á broti úr sekúndu. Háfurinn þýtur upp, snöggt og ákveðið, svo hvín í loftinu, en um leið og hann lendir á fuglinum, er dreginn sem allra mestur kraftur úr uppslættinum til þess að forða frá skafts- eða spækarbroti, sem oft vill fyrir koma, þegar fuglinn kemur í netið á feikna hraða. Líka verður að forðast, að háfurinn lendi í jörð niður. Þá er í flestum tilfellum óumflýjanlegt brot. Það er því nauðsynlegt, að háfurinn komi sem allra liðlegast, léttast á fuglinn. Sá léttleiki er afar misjafn hjá mönnum, sumir hafa mjög mikið fyrir uppslættinum, en hjá öðrum er eins og þeim verði ekkert fyrir honum, svo létt er uppslagið. Fuglinn flækist strax í netinu, og ef hægt er aðstæðna vegna, lætur maður nú háfinn renna sem allra fljótast gegnum léttlokaðar hendurnar (lófana), upp að högld eða maður handlangar hann að sér. Fuglinn er greiddur úr netinu með fljótum og ákveðnum tökum, þ.e., að vinstri höndin grípur ofan frá yfir mjóbak hans undir vængjunum, en úrgreiðslan framfer með hægri, og með hægri hendinni er honum kippt úr hálsliðnum, svo snöggt sem klippt sé.
Þetta getur gengið ótrúlega fljótt, enda er betra að vera snar í snúningum, þegar um góðar veiðiaðstæður er að ræða, góð átt og mikið við af fuglinum. Það er staðreynd, að þá er síst tími til að vera þreyttur eða blása í kaun, nei, heldur haldið áfram stanslaust, meðan tækifærið varir.
Misjafnt er vitanlega, hve mikil dagsveiðin er. Fer það eftir kostum veiðimanns, veiðistaðar og síðast en ekki síst eftir því, hvort vindstaða er rétt fyrir staðinn. Býsna oft kemur fyrir, að „á skammri stund skipast veður í lofti“ og gerir veiðistaðinn ónothæfan, þótt fugl sé nógur. Gott þykir að veiða 3-4 hundruð á dag, sem oft kemur fyrir, en afbragðs gott 5 til 6 hundruð og þar yfir.
Það eru ekki mjög margir, sem veitt hafa yfir 700 í einum og sama stað á einum degi, en það er oftast vindstaðan, sem hamlar því.
Þó er mér kunnugt um eftirtalda menn: Jón Stefánsson, Mandal, 840 árið 1924 í „Landnorðurstaðnum“ í Álsey; Hjálmar Jónsson frá Dölum í sama stað og sömu ey, 780; Pétur Guðjónsson frá Oddsstöðum í „Skorunni“ í Elliðaey 1942, 710; Árni yngri Árnason frá Grund, 740 á „Eyfanefi“ í Álsey 1918. Mestar lundaveiðar veit ég um 1.040 á Útsuðursnefinu í Suðurey 1908, veitt af Árna Árnasyni eldra, Grund; 1.020, veitt í Bjarnarey 1923 af Sigurgeiri Jónssyni frá Suðurgarði.
Mest svartfugladráp veit ég um hér í Eyjum 2.100 stk. snarað í Bládrangnum 1907 af Árna Árnasyni eldra; og 1.800 stk. snarað á Bjarnabæli í Bjarnarey sennilega um 1875-80. Þar var að verki Bjarni Ólafsson í Svaðkoti. Ekki urðu margar ferðir farnar slíkar í Bládranginn, því að 1907, um haustið, hrundi hann í sjó af sjávarróti. Veg upp á hann lagði Árni Árnason um vorið 1907, (sbr. vasabók hans þá).

Úteyjalífið er gott og heilnæmt líf, hressandi, styrkjandi sálar- og líkamlega, frjálst og óþvingað veiðimannalíf, sem allir, er reynt hafa, gleyma aldrei, líf sem allir unna, sem nær daglega býður upp á einhverjar nýjungar, einhver æsandi tilbrigði, sem hrífa alla, unga og gamla.
Veiðiskapurinn lokkar mann fram á fremstu brún, tæpustu og smæstu snös eða syllu, brattasta bergfláa eða illa grónar grastætlur, þar sem hættan og dauðinn lúrir yfir hverri manns hreyfingu, þar sem lítilfjörlegustu mistök eða feilspor hæglega geta kostað mann lífið og í flestum tilfellum gera það, ef þau annars koma fyrir. Eins og t.d. þegar Sigurður Helgason í Götu hrapar í Miðkletti í júlí árið 1935. Hann hefir sennilega stigið í buxnaskálm sína, runnið í spori eða þúfukollur bilað, sem hann hefir stigið á. Það kostaði hann lífið.
Og Sigurgeir Jónsson í Suðurgarði hrapar í Bjarnarey norðan við Hrútaskorunefið 1935 á uppstigningardag. Líklega hefir hann runnið í spori og hrasað um leið, var of nálægt brún til þess að honum tækist að stoppa sig í brattri brekkunni. Og svona dæmi mætti mörg upp telja, því að býsna margir hafa hrapað hér í Eyjum við fuglaveiðar fyrr og síðar. En þessi hætta við fuglaveiðarnar gleymist fljótt, að öðru leyti en því, að hver góður fjallamaður og veiðimaður temur sér að fara ávallt sem varlegast, enda þótt hjá sumum vilji það gleymast, þegar veiðiæsingurinn hefir hrifið þá. Sá, sem varlega fer, kemst engu síður áfram að settu marki en hinn, sem æðir áfram án allrar aðgæslu, nema ef frekar væri. Boðorð góðra fjallamanna er: Það er aldrei of varlega farið.
Þá er að svara þeim, sem halda því fram, að í úteyjum geti ekki verið gaman að vera; það sé allt of lítill blettur og einangraður til að þar geti nokkuð skeð skemmtilegt, þar sé bestur staður fyrir værukæra menn og letingja. Þetta er hinn mesti misskilningur. Í úteyjunum kemur margt skemmtilegt fyrir, ef menn hafa opin augu og eyru fyrir því, og skal ég víkja að nokkru leyti að því síðar í grein þessari, og ef félagsskapurinn er góður, sem raunar allt byggist á.
Að vera við fuglaveiðar í úteyjum er mjög svo ónæðissamt verk og erfitt í öllum greinum og síst starf fyrir letingja eða værukæra ístrubelgi, ef menn eru þar til að afla. Þá er þar ekki sofið út á morgnana, heldur farið á fætur og út til veiða með sólaruppkomu, kl. 3 til 4, klifið upp snarbrattar brekkur, sest að veiðum, oftast við brún, í kaldri morgungolunni og svo setið langt framyfir miðdegi, matar og kaffilaus, ef til vill, og mjög oft í rigningu og þunga vindi. Síðan er sest og „kippað“ í 80 til 100 (stykkja) fuglakippur og borið á bakinu, oft upp snarbrattar og af lundanum sundurgrafnar brekkur, svo að þúfnakollarnir brotna eða rugga allir til, ef stigið er á þá, svo að maður hrasar í öðru hverju spori, þar til maður loks kemst slituppgefinn, stynjandi og löðrandi sveittur upp á brekkubrúnina eða á geymslustað fuglsins, sem oftast er við „steðjann“, þ.e. uppgöngustaðinn á eyna. Hugsið ykkur þessar aðstæður, t.d. í Álsey, þar sem alls staðar eru brekkur til og frá veiðistað og bústað og þar, sem allt fram á síðustu ár, þótti sjálfsagður hlutur að bera allan þann fugl, sem veiddist, úr veiðistaðnum niður að steðja, upp brekkur, sem einna líkastar eru brekkunni í Heimakletti að sunnan. Haldið þið, að ykkur langaði að bera 80 til 100 lunda á herðunum af „Efri-Kleifum“ og upp á Hákolla á Heimakletti, og fara máske 3-4 slíkar ferðir, eftir að vera búnir að sitja með háfinn allan daginn og veiða þrjú til fimm hundruð? Ykkur langaði máske að reyna eina ferð, svona til að prófa burðarþol ykkar, en aðra og þriðju ferðina mynduð þið helst vilja losna við að fara. Og er það að vonum, því að slíkar burðargöngur eru gífurlega þreytandi og hafa sannarlega svitað og þreytt margan vanan, lipran og harðgeran viðlegumann.
Eftir að hafa borðað miðdegismat, er aftur farið út, ef aðstæður leyfa, og þá setið fram á kvöld, til kl. 8 eða 9, fuglinn þá borinn á sinn stað, — og ég segi ykkur satt, það eru oft slituppgefnir menn, sem leggjast til hvíldar og svefns í úteyjakofunum um kl. 10 til 11 á kvöldin. Og svo byrjar næsti dagur um sólaruppkomu, með sömu störfum og sama erfiði, ef veiðiveður er.
En svo koma líka óveðursdagar, rokstormar eða úrhellisrigningar, sem orsaka inniteppudaga; þeir eru hvíldardagarnir, notaðir til mikils svefns og matar, til lagfæringar á háfunum og til að „draga í slag“. Þá er spilað af hjartans lyst „síðasta stikk“ um stúlkur, hlegið dátt og gamnað sér að ýmiss konar sögum, fyndni og söngvum, sem aðeins passa fyrir fámennan vinahóp karlmanna, sem ekki kalla allt ömmu sína í orðaleik. Ekki skuluð þið samt halda, að alltaf sé legið inni yfir slíku, þótt rigning sé eða stormur, nei, ef nokkur leið er að ráða við háfinn vegna veðurs, og ef fuglinn er við, er farið að veiða, algallaður frá toppi til táar, ef með þarf vegna rigningar. Er þá veiðimanninum stundum fært kaffi til hressingar af þeim, sem ekki hafa veiðistað, og er það vel þegið, því að venjulega er maður kaldur og blautur undir slíkum kringumstæðum.
Oft er það, að ekki hafa allir veiðistað, og eru þeir þá heima „við ból“, þ.e. í kofanum eða þeir þá bera fuglinn frá þeim, sem við veiði eru. Ef þeir eru heima við, má búast við, að þeir finni upp á einhverjum galsafullum strákapörum.
Ekki var það óvenjulegt, að þegar þeir, sem úti voru, komu heim í kofa, fundu matarkassa sinn svo rígnegldan aftur að lítt mögulegt var að komast í hann, eða þeir fundu hann úti á einhverjum þúfukollinum í brekkunni með viðnegldri stöng, þar sem nærbuxur þeirra eða bolir blöktu við hún. Einu sinni negldu þeir, Kristinn á Löndum og Ársæll Sveinsson, svo rösklega saman matardall Jóns í Brautarholti Jónssonar, að hann varð að mölbrjóta hann allan.
Haraldur Eiríksson dáðist eitt sinn mjög að fögrum og biturlegum dolk, sem hann hafði fengið að heiman. Notaði hann dolkinn óspart til eins og annars, t.d. skar hann brauð sitt með honum. En eitt sinn fór svo, að hvernig sem hann sargaði á brauðinu beit dolkurinn ekki, enda varast við að búast, því að þegar hann aðgætti hið merkilega brauð, fann hann 4 tommu nagla, sem stungið hafði verið í miðju þess, en hnífinn hefði vel mátt nota sem sög á eftir.
Nú vildi hann launa lambið gráa, þar eð hann vissi gjörla, að hér hafði frændi hans á Löndum verið að verki.
Kristinn hafði þann sið, sem margir fleiri, er drekka mikið kaffi eða aðra vökva undir svefn, að hann vaknaði oft á næturnar og þurfti að kasta af sér vatni. Þurfti hann þá að fara út, en þótti það slæmt, því að oft gekk honum illa að sofna strax á eftir. Til þess að fyrirbyggja þetta tók hann heljarmikla ávaxtadós og notaði sem náttpott og hafði undir koju sinni. Þetta hafði gengið prýðilega nokkrar nætur, og dáðist Kristinn mjög að snjallræði sínu. En einmitt þarna fann Haraldur ráðið til að koma fram hefndum við Kristin. Tók hann dósina og barði nokkur smágöt á botninn og lét hana svo á sinn stað. En um nóttina vakna menn við vondan draum. Er Kristinn þá að bölva og formæla klaufaskapnum í sér, að pissa alltaf utan við dósina. Fóru þá sumir að hlæja alldátt, en Kristinn þaut bálvondur fram á gólf með koppinn allan götugan og þeytti sængurfötum sínum út í horn illa meðförnum af bleytu. Varð hann svo að sofa undirsængurlaus, sem eftir var nætur og kopplaus var hann eftir þetta.
Að sjálfsögðu hugði Kristinn á hefndir og hugði, að hér hefði Ársæll verið að verki, því að oft eltu þeir og grátt silfur saman og stríddu hvor öðrum með ýmsum æringjahætti. Eitt sinn, er Ársæll var úti að veiðum, tekur Kristinn vatnsfat (vaskafat) lætur vatn í það og lætur undir rekkjuvoð Ársæls og gengur vel frá.
Ársæll hafði þann sið að hlamma sér í koju sína, er inn kom, og svo gerði hann og í þetta skipti. En fljótur var hann að rísa upp aftur, er vatnið bleytti allt bak hans og sitjanda, og rúmföt hans urðu síst minna blaut en Kristins.
Allt var þetta græskulaust gaman, sem fáir reiddust af, þó að vísu fyrir kæmi slíkt. En það var sjaldan og varð oftar til að vekja hlátur og gleði. Var viðkomandi eggjaður fast til hefnda og enda hjálpað til að koma þeim, sem sniðuglegast fyrir, og svona gekk það koll af kolli út veiðitímann.
Úteyjalíf fyrri tíma hefir engu síður verið skemmtilegt en seinni tíma, þó ekki væri þá þeim þægindum til að dreifa, sem nú eru hjá viðlegumönnum.
Þá var sofið í lélegum kofum eða tjöldum á moldargólfi og í einni flatsæng við teppi og brekán, en undir sig reyttu menn gras til mýktar. Einstaka maður hafði og yfirsæng. Matardallinn höfðu þeir við höfðalag sitt, en undir höfði kodda, fatnað sinn og sokkaplögg. Oft var heldur sóðalegt í þessari allsherjar flatsæng. Menn fóru upp í hana blautir og ekki ávallt sem hreinastir til matar og hvíldar. Hver göslaði yfir annars bæli, og rúmfötin þvældust fyrir löppum þeirra.
Ég hygg, að lítið hafi verið um olíu og olíuvélar, en hitað á hlóðum og gekk misjafnlega. Þá var ekki útvarpið til skemmtunar og tafar og yfirleitt ekkert, sem til þæginda gat talist.
Einhver munur eða nú, þegar menn búa í fínustu sumarbústöðum með öllum hugsanlegum þægindum. Þar er baðstofa með 5 til 8 kojum, allt málað í hólf og gólf, stór og rúmgóð eldhús með öllum hugsanlegum áhöldum til matreiðslu, og forstofa. Kojurnar eru með öllum venjulegum rúmfatnaði, hreinum og þokkalegum. Nú er útvarp í hverri útey og mikið notað til skemmtunar og tafar, þ.e. í tíma og ótíma.
Jafnvel eru úteyjakofarnir raflýstir, með vatnsleiðslum út og inn, matardallarnir, þ.e. skrínukosturinn er nú alveg að hverfa, en mikið til upptekið sameiginlegt mötuneyti, sem gefst prýðilega. Kokkur er sinn hver eða hver sá, sem færastur er að brasa og malla í pönnum og pottum. Annars skiptast menn á um þetta og þá helst að hita kaffið og ræsa mannskapinn á morgnana.
Fyrr meir voru þetta 7 til 12 fuglamenn á öllum aldri í úteyjunum, en þess utan voru sumsstaðar 5 til 8 manns, konur og karlar að slætti og lá það þá í tjaldi. Vitanlega virkaði kvenfólkið, sem oftast voru ungar blómarósir, sem lífgrös á karlmennina, fyglingana eigi síður en sláttumennina, enda var oft glatt á hjalla og gengið á milli tjalds og kofans í heimsóknir.
Að sjálfsögðu fauk oft í kviðlingum í úteyjunum fyrr meir, en mest allt mun það nú gleymt og týnt. Einu sinni hafði Pétur Pétursson í Vanangri hengt skinnbrók sína til þerris við kofann. Um kvöldið hvessti og fauk þá brókin á tjald heyfólksins, skemmdi það eða reif. Í tjaldinu var þá meðal annars Óli í Nýborg Magnússon og kvað hann um þetta, þ.e. brókina og Pétur:

Ef hún skaða oftar gerir
og eyðir manna frið,
Pétri ber að bæta fyrir
bölvað skinnhaldið.
En ef hún skaða engan gerir
og eflir manna frið,
okkur ber að bæta fyrir
blessað skinnhaldið.

Þá er eftirfarandi gert um hey-fólkið í Elliðaey, en um höfund þess veit ég ekki:

Í tjaldinu Sveinn vill sofa,
húrra, húrra.
Bergur með læradofa,
húrra, húrra.
Rósa vill engum lofa,
húrra, húrra.
Guðbjörg vill aldrei sofa,
húrra, húrra.
Guðrún vill fegin fá það,
húrra, húrra.
Steini, sem aldrei má það,
húrra, húrra.

Enn mætti segja margar sögur úr úteyjalífinu fyrr og nú, en þetta verður að nægja til sönnunar því, að margt skemmtilegt hafi komið fyrir og komi fyrir í úteyjum.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit