Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1992/Minning látinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 5. apríl 2019 kl. 13:44 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 5. apríl 2019 kl. 13:44 eftir Valli (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Minning látinna


Sem venja hefur verið, verður látinna sjómanna í Vestmannaeyjum minnst hér nokkrum orðum. Ábyrgðarmaður þessa blaðs hefur aðhyllst þá stefnu að birta einungis minningargreinar um þá aðila sem hafa haft sjómennsku að atvinnu. Blaðið heitir Sjómannadagsblað Vestmannaeyja og því þykir ábyrgðarmanni það eðlilegt að þar sé rúm fyrir minningu látinna sjómanna. Minningargreinar um fólk úr öðrum starfstéttum eigi ekki heima í þessu blaði enda þótt margir tengist sjósókn og útgerð. Þessi afstaða hefur vissulega verið umdeild en ábyrgðarmaður blaðsins stendur enn fast á henni.

Sumar minningargreinanna hér hafa áður birst og eru undir nafni. Þær sem ekki eru undirritaðar eru blaðsins.
Ábyrgðarmaður blaðsins vill þakka prestunum séra Bjarna Karlssyni og séra Kjartani Erni Sigurbjörnssyni fyrir sérstaka lipurð og hjálpsemi við öflun upplýsinga.
Sjómannadagsblað Vestmannaeyja sendir ástvinum látinna sjómanna, sem um sárt eiga að binda, samúðarkveðjur.

Ragnar Þorvaldsson
F. 24.01. 1906 - D. 03.01. 1991
Ragnar var fæddur að Simbakoti Eyrarbakka, sonur hjónanna Þorvaldar Björnssonar og Guðnýjar Jóhannesdóttur, einn úr hópi margra systkina. Ólst Ragnar heitinn upp og dvaldist að mestu leyti sín bernsku og unglingsár á Eyrarbakka þar sem sjór var sóttur við brimóttar strendur og gnýr úthafsöldunnar var svefnhljóð íbúanna. Hann byrjaði ungur að árum að stunda sjó, fyrst aðeins 14 ára gamall á áraskipi frá Herdísarvík, síðan 17 -18 ára gamall fer hann á togara og er á þeim um nokkurt skeið, lendir m.a. í Halaveðrinu mikla 1925, þá skipverji á b/v Hilmi frá Reykjavík. Um tvítugsaldur heldur Ragnar til Vestmannaeyja til sjóróðra. Ragnar undi hag sínum vel í Eyjum, þar kynntist hann fljótlega ungri stúlku, móðursystur minni, Ingibjörgu Runólfsdóttur. Þau gengu í hjónaband 1929 og eignuðust fjögur börn. Lengst af bjuggu þau í Litla Hvammi við Kirkjuveg allt til þess er þau fluttu til Reykjavíkur til að vera í nálægð bárna sinna og barnabarna. Eins og að framan greinir hóf Ragnar ungur að árum að stunda sjó og mun strax hafa verið eftirsóttur í skipsrúm enda harðduglegur sjómaður, vel gerður með mikla líkamsburði, var talinn með sterkari mönnum. Náði Ragnar sér í skipstjórnarréttindi í Vestmannaeyjum og var um tíma með nokkra báta, m.a. Freyju og Atlantis en lengst af sinni sjómennsku var hann stýrimaður með miklum aflamönnum, svo sem Sighvati Bjarnasyni og Guðmundi Vigfússyni. Var alveg sama með hvaða veiðarfæri var verið; línu, net, dragnót, botnvörpu eða á síldveiðum. Var Ragnar annálaður í meðferð allra þessara veiðarfæra, einkum þó til viðhalds á netum. Þegar nýsköpunartogararnir komu til upp úr stríðslokum og bæjarútgerðir voru stofnsettar víðsvegar um landið, hóf Ragnar störf um borð í togurum Bæjarútgerðar Vestmannaeyja. Mun margur ungur maðurinn sem hóf sjómennsku á togurunum hafa fengið sína fyrstu tilsögn í að taka í kríulöpp hjá Ragnari. En Ragnar var alltaf einkar nærgætinn við unglinga, hjálpsamur og sagði þeim vel til. Hann var t.d. um tíma leiðbeinandi í verklegri sjóvinnu í landi meðan honum entist heilsa til. Margar á ég ljúfar minningar um Ragnar minn, mikið væri lífið snauðara ef manni hefði ekki auðnast að kynnast honum. Hann var glæsimenni, karlmannlegur á velli, greindur og handlaginn. Undir hrjúfu yfirborði að sumum fannst, sló eitt besta hjarta sem ég hef kynnst. Guð blessi minningu Ragnars Þorvaldssonar.
Runólfur Dagbjartsson.

Guðjón Gíslason
F. 13.08. 1912 - D. 25.10. 1991.
Guðjón fæddist í Suður-Nýjabæ í Þykkvabæ, sonur hjónanna Guðrúnar Magnúsdóttur og Gísla Gestssonar en þau eignuðust 13 börn og komust níu þeirra til fullorðinsára. Guðjón ólst upp við kröpp kjör þar sem baráttan um brauðið var oft óvægin og allir urðu að leggja lið í lífsbaráttunni. En Guðjón átti góðar minningar frá bernsku- og æskuárum og leitaði hugurinn oft á fornar slóðir. Samstaða og samheldni var mikil og alls góðs að minnast þrátt fyrir fátækt á uppvaxtarárum. Ungur að árum hleypti hann heimdraganum og fór á vertíð í Eyjum. Um margra ára bil stundaði hann sjó, ýmist frá Eyjum eða öðrum stöðum. Í Vestmannaeyjum kynntist hann Jónu Gunnlaugsdóttur frá Dölum, felldu þau hugi saman og stofnuðu heimili í Reykjavík árið 1937. Guðjón og Jóna eignuðust sjö börn, Guðrúnu, Ágúst, Gunnlaug Viðar, Gísla Guðgeir, Ófeig Reyni, Dagbjörtu Ernu og Stefán Sævar.
Þau Guðjón og Jóna slitu samvistum 1958 en vinátta var ævinlega með þeim þrátt fyrir það. Guðjón flutti á ný til Eyja 1967 og bjó ásamt Ágústi syni sínum hér til dauðadags. Hann stundaði sjó nokkur ár meðan heilsan leyfði, oftast sem matsveinn og þótti góður kokkur. Eftir að heilsan tók að bila fór hann í land og vann m.a. við smíðar og múrverk hjá bænum. Guðjón var ekki átakamaður en lipur og verklaginn og stundaði vinnu meðan aldur og heilsa leyfðu.

Johan Elias Martin Weihe
F. 11.11. 1913 - D. 11.01. 1992.
Johan var fæddur í bænum Porkeri á Suðurey í Færeyjum, sonur Elsabetar Helenu Nygaard og Johans Pauli Weihe. Porkeri er lítill bær sem stendur í miklum halla fram í sjó. Þar ólst hann upp, sjötta barnið í hópi 12 systkina. Æskudagarnir urðu ekki langir, daginn eftir að hann fermdist, 14 ára gamall, fór hann um borð í fiskiskútu til veiða á Grænlandsmiðum. Og sjómennska var aðalstarf hans allt fram til ársins 1935. Þá höguðu örlögin því þannig að hann hélt til Vestmannaeyja á vertíð. Og þar átti eftir að verða framtíðarheimili Johans. Hér kynntist hann konunni, sem átti eftir að verða lífsförunautur hans, Guðlín Guðnýju Guðjónsdóttur frá Framnesi. Þau gengu í hjónaband árið 1944 og hófu búskap í Framnesi þar sem heimili þeirra varð. Eftir að Johan kvæntist hóf hann störf í landi, fyrst hjá Helga Benediktssyni um nokkurra ára skeið en síðan hjá Vinnslustöðinni þar sem hann beitti kröftum sínum alla tíð síðan. Hann var vel látinn af samstarfsfólki sínu, þægilegur í allri umgengni og rólegur í fasi en glaðsinna undir niðri og félagslyndur. Með honum bjó rík réttlætiskennd og allmenn virðing fyrir fólki og þá skipti aldur ekki máli. Þau Johan og Guðlín, eignuðust tvö börn, Guðjón og Helenu en ólu einnig upp bróðurson Guðlínar, Kjartan Sigurðsson en hann lést í sjóslysi fyrir 20 árum. Johan þótti afburða verkmaður, varð aldrei misdægurt og sjötugur að aldri stóð hann flestum sér yngri mönnum betur að verki við flatningu og aðgerð. Hann var rammur að afli og sparaði ekki kraftana til vinnu. Þá var hann trúmaður og bar virðingu fyrir Guðs orði. Eitt sem hann ekki þoldi voru blótsyrði og illmælgi um annað fólk. Johan lést 11. janúar sl.

Bergsteinn Theódór Þórarinsson
F. 01.11. 1933 - D. 12.08. 1991
Bergsteinn Theódór, sem raunar var alltaf kallaður Kúti af vinum og vandamönnum var fæddur í Vestmannaeyjum, sonur Þórarins Magnússonar og Önnu Halldórsdóttur. Kúti missti föður sinn ungur en öldruð móðir hans lifir enn. Kúti byrjaði snemma að stunda sjó, þótti hörkuduglegur og var eftirsóttur verkmaður. En þá dundi ógæfan yfir. Á togara varð hann fyrir því slysi að missa annan handlegginn og þar með var framtíð hans sem sjómanns á enda. Þetta var Kúta mikið áfall og varð til þess að hann tók að halla sér æ meir að Bakkusi konungi. Hin síðari ár hafði hann sér til dundurs að dytta að trillu sem hann hafði fest kaup á lét og lét heita Sævar í Gröf eftir æskuvini sínum. Ekki entist honum þó aldur og heilsa til að sjá fyrir endann á því hugðarefni sínu. Andstreymi lífsins setti mark sitt á Kúta en hann átti einnig til að slá á létta strengi þegar svo bar undir og innst inni sló gott hjarta.

Sigurjón Jónsson
F. 21.10. 1923 - D. 08.10. 1991
Sjonni í Engey var þriðji yngstur sjö systkina sem öll voru kennd við Engey, sonur hjónanna Jóns Jónssonar og Sigríðar Sigurðardóttur. Nú er aðeins einn á lífi þessara systkina, Sigurður, sem býr í Eyjum. Sjonni byrjaði ungur að aldri að stunda þá atvinnu sem hann hafði að lífsstarfi alla sína tíð, sjómennsku. Hann byrjaði í útvegi Helga Benediktssonar og reri með kunnum aflamönnum svo sem Guðjóni Valdasyni og Binna í Gröf. 1947 kvæntist Sjonni Bjarnveigu Ólafsdóttur frá Siglufirði og eignuðust þau fimm börn, Sigríði Hörpu, Ragnar, Hrönn, Sigurjón og Bylgju. Bjarnveig lést 1964 og þá stóð Sjonni einn uppi með barnahópinn. En minnugur erfiðleika frá sinni eigin æsku, þegar heimilið um tíma leystist upp vegna veikinda húsmóðurinnar, ákvað Sjonni að slíkt skyldi ekki henda sig og sín börn. Honum datt aldrei í hug að leysa heimilið upp og koma barnahópnum fyrir hjá öðrum. Um þetta kvað Gylfi Ægisson, vinur Sjonna:

Þá sagði sveinn,
stoltur og beinn:
„Ég sé um börnin mín einn.“

Snemma stóð hugur Sjonna til að eignast sjálfur hlut í útgerð, þurfa ekki að vera öðrum háður með skiprúm. Fyrst stofnaði hann félag við Ögmund Sigurðsson en lengst af var hann með Sigurði bróður sínum á Björgvin VE 72. Og svo hin síðari árin meðan heilsa og kraftar leyfðu á trillunni Bjarnveigu VE 72. En svo bilaði heilsan og fjögur ár lá hann á sjúkrahúsinu hér þar sem hann naut góðrar umhyggju. Og ávallt hneigðist hugurinn að sjónum, sunnudagsbíltúrarnir voru ekki fullkomnaðir fyrr en búið var að fara bryggjurúnt. Sjonni í Engey var glaðlyndur maður í eðli sínu þrátt fyrir að lífsbaráttan hafi verið honum erfið. Á yngri árum var hann kunnur fyrir góða dansmennt, ásamt því sem hann átti til að taka upp munnhörpuna og spila hvort sem var í landi eða á sjó. Þá var hann barngóður svo af bar og þótti afburða sjómaður.

Jónatan Gísli Aðalsteinsson
F. 19.07.1931 - D. 04.02. 1992.
Jónatan var fæddur á Siglufirði, næstelstur fjögurra systkina sem öll eru enn á lífi. Foreldrar hans voru Sigríður María Gísladóttir og Aðalsteinn Jónatansson. Jónatan byrjaði ungur sjósókn. 1950 kom hann á vertíð til Vestmannaeyja eins og svo algengt var með Siglfirðinga. Hér hitti hann konuefnið, Önnu Sigurlásdóttur frá Reynistað, sem hann kvæntist árið 1953 og eignuðust þau þrjú börn, Sigþóru, Aðalstein og Þór Vilhelm.
Sjómennska var aðalstarf Jónatans alla tíð. Hann var lengi á Kára VE og síðan enn lengur á Stíganda VE hjá aflamanninum Helga Bergvins. 1962 lauk hann hinu minna fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Eyjum og var stýrimaður hjá Helga eftir það. 1968 fór hann í land, samkvæmt læknisráði og tók þá að sér umsjón sjóveitunnar á Skansinun. Að auki var hann kjörinn formaður Sjómannafélagsins Jötuns og gegndi hann því starfi allt fram til 1975. Þá var Jónatan alla tíð virkur félagi í Alþýðuflokknum og helgaði flokknum miklu af frítíma sínum og kröftum. Meðan á Gosinu stóð starfaði Jónatan framan af fyrir Viðlagasjóð en síðan um tíma hjá Álverinu í Straumsvík. En þegar heim kom, haustið 1974 réðist hann enn til sjós, nú á Glófaxa VE. Og 1980 hóf hann síðan störf um borð í Herjólfi þar sem hann vann allt þar til í fyrra er hann kenndi sér þess meins sem varð honum að aldurtila. Jónatan var félagsmálamaður og harðfylginn sér í flestu. Þá var hann ljóðelskur, dáði Davíð Stefánsson og Káin. Hann kunni ógrynni ljóða og átti það til í vinahópi að þylja einhver þau ljóðmæli er honum þóttu eiga við í heitum umræðum eða gamanmálum. Síðasta æviárið vann Jónatan í fiskvinnslustöðinni Eyjaberg, eftir að hann kom heim af sjúkrahúsi eftir hjartaþræðingu . Hinn 4. desember kenndi hann sér enn meins, var lagður inn á Sjúkrahús Vestmannaeyja og lést þar hinn sama dag.

Angantýr Elíasson
F. 29.4. 1916 - D. 18.6. 1991.
Angantýr Elíasson var einstakur maður. Fundum okkar Týra, en svo var hann gjarnan nefndur í vina- og kunningjahópi, bar fyrst saman er ég réðst sem löglærður fulltrúi við embætti bæjarfógetans í Vestmannaeyjum á árinu 1971. Týri var þá starfsmaður við embættið og hafði með höndum stjórnun lögskráningar en sinnti jafnframt tollútreikningum og tollafgreiðslu. Í afleysingum sinnti Týri gjaldkerastörfum. Ekki má gleymast að Týri var sérfróður meðdómsmaður í málum er snertu siglinga- og sjómannalög svo og í landhelgismálum, en Týri hafði skipstjórnarréttindi og átti að baki gifturíkan skipstjórnarferil. Til margra ára var Angantýr prófdómari við Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum. Hann var hafnsögumaður og síðar hafnarvörður. Öllum framangreindum störfum sinnti Týri af stakri prýði og kostgæfni.
Með okkur Týra tókst strax hin besta vinátta, sem náði langt út fyrir hin starfslegu daglegu samskipti í 15 ár. Týri var vinur vina sinna og það fékk ég oft að reyna. Hann var samviskusamur, glaðlegur, heiðarlegur og þegar það átti við hreinskilinn. Ekki sakaði, að hann Angantýr, þetta heilsteypta prúðmenni, var einnig hið mesta snyrtimenni. Síður en svo var Týri skaplaus maður en hann kunni þá list, mörgum betur, að stilla skap sitt.
Mannkostir Týra nutu sín vel í opinberum embættisstörfum. Og oft var ég aðnjótandi yfirgripsmikillar þekkingar hans í siglingarétti. Það var gott að hafa Týra sér við hlið við dómstörf. Hann Týri minn spurði gjarnan ekki margra spurninga í réttarsalnum en þá er hann kvaddi sér þar hljóðs voru spurningar hans hnitmiðaðar og skynsamar. Týri hafði sterka réttlætiskennd en honum var annt um að niðurstaða í hverju máli væri fengin eftir nákvæma skoðun og athugun. Angantýr Elíasson var þægilegur og góður samstarfsmaður.
Í fjölskyldulífi var Angantýr hamingjusamur maður. Sem ungur maður giftist hann eftirlifandi eiginkonu, Sigríði Björnsdóttur frá Bólstaðarhlíð í Vestmannaeyjum. Silla bjó Týra gott heimili, fyrst í Hlaðbæ þá í Grænuhlíðinni og eftir að það hús hafði farið undir hraun, var flutt á Ásaveginn en hin síðari ár var heimilið í Kleifahrauni. A heimili Týra var gott að koma þar sem snyrtimennska og myndarskapur blasti hvarvetna við augum og gestrisni og hlýhugur fyllti andrúmsloftið. Í öllu þessu var hið mesta jafnræði með þeim hjónum. Barngóður var Týri og barnaláni átti hann að fagna. Ég gleymi því ekki hve vænt honum þótti, þegar barnabörnin komu í heimsókn til afa, þá ljómaði Týri af gleði.
Hin síðari ár var Týri farinn að kröftum í baráttunni við erfiðan sjúkdóm. Hin mikla stoð hans og stytta í erfiðri sjúkdómslegu og veikindum var hans góða eiginkona og hans stóra og góða fjölskylda. Við sem álengdar stóðum eigum fyrir það mikið að þakka, því svo sannarlega átti Týri alltaf hið besta skilið.
Guð blessi minningu Angantýs Elíassonar. Sillu, börnunum og barnabörnum votta ég mína dýpstu samúð, en minningin um góðan dreng lifir með okkur öllum.
Jón Ragnar Þorsteinsson.

Þórarinn Guðjónsson
frá Kirkjubæ.
F. 20.1. 1912 - D. 7.5. 1992.
Þórarinn Guðjónsson var fæddur í Kirkjubæ í Vestmanneyjum, 20. janúar 1912, sonur hjónanna Guðjóns Eyjólfssonar Eiríkssonar og konu hans Höllu Guðmundsdóttur Þórarinssonar bónda að Vesturhúsum í Vestmannaeyjum.
Þórarinn eða Tóti á Kirkjubæ eins og hann var kallaður alla tíð ólst upp á fjölmennu heimili foreldra sinna, en þau eignuðust 12 börn og komust níu þeirra til fullorðinsára, 5 synir og 4 dætur, auk þess ólu þau upp frá 8 ára aldri Edvin Jóelsson bróðurson Guðjóns.
Guðjón, faðir Þórarins, átti eins og svo margir Eyjamenn á uppgangsárum vélbátaaldarinnar hlut í bát og gerði út vélbátinn Hansínu. Á vetrarvertiðum var auk heimilisfólksins fjöldi vertíðarmanna á heimilinu eins og þá var títt.
Tótí á Kirkjubæ vandist á mjög ungum aldri við úteyjarferðir og veiðiskap. Frá þeim þætti í lífi hans og í hópi bjargveiðimanna í Vestmannaeyjum á ég bestu minningar um Tóta. Ég var svo heppinn að fá að fara sem göngumaður í Súlnasker í síðustu súlnaveiðiferð, sem jarðabændur i Vestmannaeyjum fóru að fornum sið sumarið 1952. Ég var þá 17 ára gamall og naut frændliðs bæði í uppgöngunni og á bát þar sem var Þorgeir á Sælundi, formaður á mb. Lunda. Þessi ferð var farin við nokkuð erfiðar aðstæður til fjallaferða, rigningarsudda og brim svo að ganga varð upp a sokkaleistunum og var Tóti forystumaður eins og svo oft áður upp á Súlnasker. Það þótti ætíð virðingarstaða meðal fjallamanna og í þessari ferð voru sem fyrrum haldnir í heiðri gamlir og góðir siðir, beðin bæn á Bænabring við upphaf fjallaferðarinnar og síðan signdu menn sig. Þegar upp var komið var Skerprestinum offrað.
Eftir þessa ferð í Skerið þóttist ég maður að meiri og varð kunnugri Þórarni frænda mínum. Mér var ætíð mjög hlýtt til hans, þó að við færum ekki saman fjallaferðir eftir þetta, en í þeim var hann öllum hnútum kunnugur, sérstaklega lipur, laus og sem undirsetumaður, en fór ekki í bjargsig svo orð væri á gerandi. Á þjóðhátíðum var Tóti fastur maður í sigaliðinu á Fiskhellanefi með Eyjólfi föður mínum, Súlla Johnsen, Erlendi í Ólafshúsum, Sigga á Löndum, og því liði, en sigmenn voru í þann tíð oftast Jónas í Skuld og Skúli Theódórsson.
Þórarinn Guðjónsson dvaldi í foreldrahúsum á Kirkjubæ þar til Halla móðir hans andaðist haustið 1939, en þá hafði Guðjón andast nokkru áður. Þegar brugðið var búi á Kirkjubæ og jörðin seld óskyldu fólki flutti hann að Svanhól til Þórdísar systur sinnar og eignaðist hlut í mb. Kára VE 27 og síðar nýsmiðuðum stærri bát Kára VE 47 með mági sínum, Sigurði Bjarnasyni skipstjóra.
Hann var nokkur úthöld á Kára. bæði a síld og til þorskveiða, en seldi sinn hlut í útgerðinni nokkru eftir stríðið og keypti þá vörubíl og vann á Vörubifreiðastöð Vestmannaeyja. Nokkru fyrir 1960 var Þórarinn tvær vertíðir vélstjóri á mb. Bryngeiri með frændum sínum Torfa og Jóni Bryngeirssonum á Búastöðum, en Þórarinn tók ungur vélstjórapróf.
Síðustu árin áður en heilsa hans fór að bila var Þórarinn póstmaður. Eftir að Þórarinn hætti í útgerðinni flutti hann að Presthúsum og bjó hjá Jórunni systur sinni og mági, Guðmundi frá Oddsstöðum. Eftir lát Guðmundar árið 1969 héldu þau systkini heimili saman.
Tóti á Kirkjubæ tilheyrði þeirri kynslóð Vestmannaeyinga sem setti lit og líf á tilveruna um og eftir miðbik þessarar aldar. Hann kvæntist aldrei, en var börnum og þá sérstaklega systkinabörnum sínum hinn besti félagi og vinur.
Tóti fór ekki alltaf troðnar slóðir. Hann verður samferðamönnum sínum minnisstæður og eigi ég eftir að hverfa enn einu sinni stutta stund á vit úteyjalífsins mun ég sakna hans. Oft hefur verið glest á milli veiðimanna í austureyjum, Bjarnarey og Ellirey, og setti Tóti á Kirkjubæ þar krydd á lífið, svo að lengi verður í minnum haft.
Hann var örgeðja, en hjartahlýr, frændrækinn og félagslyndur og var þar engin hálfvelgja, þegar Knattspyrnufélagið Týr var annars vegar. Við gamlir og grónir Þórarar, sem eigum ættir að rekja til stofnenda þess félags máttum þakka fyrir að vera ekki reknir úr Kirkjubæjarættinni, þegar mesta harkan var í innanbæjarkeppnum á milli félaganna.
Allir sem þekktu Þórarin Guðjónsson, Tóta á Kirkjubæ, blessa minningu hans. Hann andaðist á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja hinn 7. maí sl. eftir mikla vanheilsu hin síðari ár.
Ég og fjölskylda mín sendum systrum hans og fjölskyldum þeirra hluttekningarkveðjur.
Guðjón Ármann Eyjólfsson

Guðjón Ólafsson
frá Landamótum
F. 30.1. 1915 - D. 4.5. 1992.
„Gaui-afi á Hóló“ hefur kvatt þennan heim eftir langan hetjulegan bardaga við veikindi sem buguðu hann að lokum. Það hefur ekki reynst afa auðvelt að láta deigan síga. Kraftmikill og þrautseigur sjómaðurinn gefur sig ekki svo auðveldlega þótt móti blási og það var fátt sem beit á hann afa okkar. Dugmikil barátta hans við veikindi og sjúkdóma sem á hann herjuðu undanfarið lýsa einmitt svo vel persónunni sem hann hafði að geyma. Viljugi sjómaðurinn sem bar fiskinn í land, þannig viljum við muna hann.
Á Hólagötu 29 í Vestmannaeyjum bjuggu „amma og afi á Hóló“ eins og við kölluðum þau, Guðjón Ólafsson, f. 30. janúar 1915 og Sigríður Friðriksdóttir f. 30. júní 1917. Ég undirrituð var ekki há í loftinu er ég lagði Heimaey þvera undir fót og stalst uppá Hóló, það var töluverður spotti fyrir stutta fætur. Flenging og skammir sem ég fékk er heim kom gleymdust fljótt því efst í huga var heimsóknin til ömmu og afa, svo miklu meira virði en að láta smá skammir skyggja á hana. Þær urðu líka óteljandi heimsóknir á Hólagötuna og síðar meir á Hjallabrautina í Hafnarfirði þar sem þau bjuggu í seinni tíð. Það var alltaf svo gaman að koma til ömmu og afa, það lögðu líka margir leið sína til þeirra því við munum að ætíð var margt um manninn á þeirra heimili. Sigga amma var óspör á veitingarnar og lumaði á ótrúlegustu kræsingum. Tertur og kleinur hjá ömmu hafa alla tíð laðað að svanga krakka og unglinga. Á öllum tímum sólarhringsins bauð amma uppá kaffi og gerir enn. Afi var ekki alltaf heima frekar en aðrir sjómenn, en hann hlýtur að hafa eytt miklu af sínum tíma í landi með okkur krökkunum því nú finnst okkur við eiga svo óskaplega margar minningar með afa. Fyrst kemur upp í hugann uppáhaldið okkar en það voru bíltúrarnir. Þeir hófust yfirleitt hjá „Magga á Kletti“ en þar fengum við ís og svo hófst rúnturinn sem var ætíð yfirfullur af fróðleiksmolum en af þeim átti afi nóg, því hann var bókhneigður maður og vel að sér í öllu. Leiðin lá niður á bryggju að sjálfsögðu og inná Eiði, þegar ísinn var búinn var síðan sungið um allt það er fyrir augun bar, inní Dal uppá Höfða og að ógleymdum ferðum á Skansinn. Afi þekkti alla bátana útá sjó svo langt sem augað eygði og sagði okkur merkilegar sögur sem gerst höfðu í gamla daga á þessum slóðum. Einhvern tíma ætluðum við að verða svona stór og klár eins og Gaui-afi og læra öll þessi blessuðu bátanöfn, úteyjanöfn, fuglanöfn og allt þetta sem afi fræddi okkur á en hann vissi bókstaflega allt. Er nema von við værum stolt og litum upp til hans afa okkar. Já eflaust vorum við góðu börnin hans eins og hann tjáði okkur svo oft nú í seinni tíð, vegna þess að við voguðum okkur ekki að óhlýðnast þessum merkilega manni. Mörg kvöld höfum við líka legið í kjöltunni hans afa sem var svo mjúk og hlý og horft á sjónvarpið. Afi var alltaf fljótur að sofna en þá klipum við í kinnina á honum. Afi var öllum svo góður og það voru fleiri en við barnabörnin hans sem sóttumst eftir að eiga Gaua-afa. Þegar við uxum úr grasi varð hann afi að finna sér krakka til að fá í heimsókn svo hann hefði nú einhverja að dekra við. Það hefur ekki verið erfitt fyrir hann því öll börn sem komu til þeirra vildu ólm eiga þau fyrir ömmu og afa. Hjá þeim lærði maður líka margt. Afi kenndi okkur að vinnan göfgar manninn og sýndi okkur það meira að segja í verki. Nú þegar þessar minningar hrannast upp í huga okkar. Nú þegar við fylgjum honum til grafar huggum við okkur við það að þurfa ekki að horfa uppá hann þjást lengur. Það var óskemmtileg reynsla að horfa uppá þennan sterka mann rúmfastan svo lengi á spítala. Við huggum okkur við að nú hefur góður Guð tekið við honum og dóttir hans sem þau amma og afi misstu svo unga. Amma og afi eignuðust þrjú börn og eru tvö þeirra eftirlifendur afa. Gréta, f. 6. apríl 1938 og Friðrik Ólafur, f. 4. janúar 1948, en Guðbjörg Ósk. f. 27. júlí 1943, lést 23. desember 1950.
Um leið og við kveðjum hann afa okkar í hinsta sinn viljum við biðja góðan Guð að styrkja hana Siggu-ömmu í þeirri djúpu sorg sem hún mun nú þola og alla aðra ættingja og vini hans.
Megi afi okkar fara í friði.
Guðbjörg Ósk og Ófeigur F.

Sigurður Þórðarson
Útvegsbóndi.
F. 10.3. 1918. - D. 9.9. 1991
Sigurður var fæddur á bænum Kolmúla í Fáskrúðsfirði þann 10. mars 1918 og var hann því rúmlega 73 ára er hann lést. Hann fór fyrst á vertíð til Vestmannaeyja um miðjan fjórða áratuginn og stundaði sjómennsku þar fyrstu árin, en sjómennsku kynntist hann fyrst 14 ára austur á Fáskrúðsfirði. Eftir að hafa verið til sjós nokkur ár í Eyjum, aflaði hann sér skipstjórnar- og vélstjórnarréttinda þar. Hann gerðist síðan skipstjóri og vélstjóri á ýmsum bátum sem gerðir voru út frá Eyjum.
Sigurður hóf útgerð árið 1951 og eignaðist fyrst vélbátinn Sæfara VE 104 með öðrum og eignaðist bátinn einn skömmu síðar. Hann réðst í það þrekvirki að láta smíða vélbátinn Eyjaberg VE 130 í Straalsund i Austur-Þýskalandi árið 1959. Reyndist báturinn mikið aflaskip og sá Sigurður um útgerð bátsins af miklum myndarskap.
Árið 1966 varð það óhapp að báturinn strandaði við Faxasker, en mannbjörg varð. Þá söðlaði Sigurður um og hóf byggingu frystihúss í Vestmannaeyjum sem bar nafnið Eyjaberg. Var Sigurður jafnan kenndur við Eyjaberg eftir það. Hann rak frystihúsið til ársins 1980, en þá seldi hann það ásamt vélbátnum Ölduljóni VE 130 sem hann hafði eignast nokkrum árum eftir að hann hóf rekstur frystihússins. Sigurður gegndi ýmsum trúnaðarstörfum tengdum sjávarútvegi. Hann átti sæti í stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva um skeið og tók virkan þátt í starfi SH sem framleiðandi. Þá átti hann sæti í stjórn Vinnslustöðvarinnar hf. og Stakks hf. í Eyjum. Auk þess sýndi hann starfi Útvegsbændafélags Vestmannaeyja mikinn áhuga.
Sigurður kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni Lilju Guðjónsdóttur frá Fáskrúðsfirði í desember 1941 og fluttu þau til Eyja og hófu búskap þar. Þau eignuðust fimm börn. Sigurður og Lilja byggðu myndarlegt hús á Hólagötu 42 í Eyjum um 1960 og bar það hús vitni um myndarskap húsráðenda, en húsið er í dag bústaður sóknarprestsins í Eyjum.
Lífshlaup Sigurðar Þórðarsonar var helgað sjósókn og fiskvinnslu og hafði hann brennandi áhuga á þeim málum. Hann verður samferðamönnum sínum minnisstæður vegna óbilandi elju og áhuga á viðgangi sjávarútvegs. Hann vildi öllum vel sem áttu við hann viðskipti og naut trausts þeirra sem störfuðu fyrir hann.
Sigurður og fjölskylda hans fluttu frá Eyjum til Mosfellsbæjar árið 1980, eftir að hann hafði selt atvinnurekstur sinn. Sigurður og Lilja eignuðust myndarlegt hús í Bjarkarlundi 3 í Mosfellsbæ og bjuggu þar síðan.
Að lokum sendi ég fyrir hönd frystihúsamanna í Eyjum eftirlifandi eiginkonu Sigurðar og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur. Með Sigurði Þórðarsyni er genginn merkur maður sem setti sinn svip á mannlíf og atvinnulíf í Vestmannaeyjum á miklum umbrotatímum í atvinnusögu Eyjanna.
Sigurður Einarsson