Guðjón Ármann Eyjólfsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Guðjón Ármann Eyjólfsson
Guðjón Ármann Eyjólfsson

Guðjón Ármann Eyjólfsson er fæddur 10. janúar 1935 og uppalinn í Vestmannaeyjum. Hann er sonur Guðrúnar Brandsdóttur og Eyjólfs GíslasonarBessastöðum í Vestmannaeyjum. Eyjólfur var um áraraðir einn fremsti formaður Eyjanna og aflamaður mikill og Guðrún var listfeng hannyrðakona.

Guðjón Ármann lauk barnaskólaprófi í Vestmannaeyjum og lauk prófi úr Gagnfræðaskólanum árið 1951 með góða einkunn. Hann hóf þá nám í Menntaskólanum í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi vorið 1955 úr máladeild. Ári síðar lauk hann svo stúdentaprófi úr stærðfræðideild sem hann leit á sem undirbúning fyrir frekara nám.

Guðjón Ármann fór erlendis til náms í sjómannafræðum, við Sjóliðsforingjaskóla danska sjóhersins, sem hann lauk seint á árinu 1960. Að loknu námi hélt Guðjón Ármann heim til Íslands og starfaði hann fyrir Landhelgisgæsluna um skeið en 1962 var hann skipaður skólastjóri við nýstofnaðan stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum. Því starfi gegndi hann allt til ársins 1975. Í gosinu fluttist Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum í húsnæði Stýrimannaskólans í Reykjavík og þaðan útskrifuðust nemendur skólans úr Eyjum. Guðjón Ármann sneri ekki aftur til Eyja en hélt áfram kennslu við Stýrimannaskólann í Reykjavík og varð skólastjóri hans árið 1981. Því starfi gegndi hann til ársins 2003.

Eftir Guðjón Ármann liggur mikill fjöldi ritaðra greina í blöðum og tímaritum. Hann var ritstjóri Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja árin 1965 til 1975 og út hafa verið gefnar tvær bækur eftir hann. Stjórn og sigling skipa sem er kennslubók og handbók fyrir sjómenn og Vestmannaeyjar, byggð og eldgos sem bæði er lýsing á eldgosinu 1973 og afleiðingum þess sem og aldarfarslýsing frá byggðinni sem varð eldi og ösku að bráð í náttúruhamförunum. Sú bók er mikil og góð heimild um hús og bæi sem horfin eru, sem og fólkið sem þar bjó.

Kona Guðjóns Ármanns er Anika Jóna Ragnarsdóttir, fædd 14. desember 1934, og eiga þau fjögur börn; Ragnheiði, Ragnar, Eyjólf og Kristínu Rósu.

Myndir


Heimildir

  • Sjómannadagsblað Vestmannaeyja. 1961.
  • Kennaratal á Íslandi. III bindi. 1985