Torfi Bryngeirsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Torfi Bryngeirsson.

Torfi Nikulás Bryngeirsson frá Eystri Búastöðum, sjómaður, lögreglumaður, útgerðarmaður, byggingaverktaki, afreksmaður í frjálsum íþróttum fæddist þar 11. nóvember 1926 og lést 16. júlí 1995.
Foreldrar hans voru Bryngeir Torfason sjómaður, skipstjóri á Búastöðum, f. 26. september 1895, d. 9. maí 1939, og kona hans Lovísa Gísladóttir húsfreyja á Búastöðum, f. 18. júní 1895, d. 30. mars 1979.

Börn Lovísu og Bryngeirs:
1. Jóhann Þórir Bryngeirsson, f. 6. september 1924, d. 8. apríl 1932.
2. Ingibjörg Bryngeirsdóttir, f. 6. október 1925, d. 1. júní 2002.
3. Torfi Nikulás Bryngeirsson, f. 11. nóvember 1926, d. 16. júlí 1995.
4. Gísli Bryngeirsson, f. 13. maí 1928, d. 10. júní 2014.
5. Bryngerður Bryngeirsdóttir, f. 3. júní 1929, d. 2. nóvember 2019.
6. Jón Bryngeirsson, f. 9. júlí 1930, d. 7. ágúst 2000.
7. Drengur, f. 11. apríl 1934, d. 17. maí 1934.

Torfi var með foreldrum sínum, en faðir hans lést, er Torfi var á þrettánda árinu.
Hann hóf snemma störf, vann við hafnargerðina í Eyjum 15 ára, síðan við sjávarútveg, reri og beitti.
Torfi var lögreglumaður í Reykjavík 1948-1955. Í árslok árið 1955 flutti hann með fjölskyldu sína til Eyja. Þar gerðist Torfi útgerðarmaður og stundaði sjómennsku á eigin báti í nokkur ár. Frá 1962-1971 var hann verkstjóri hjá Einari Sigurðssyni í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja. Árið 1971 flutti hann aftur til Reykjavíkur, þar sem hann setti á stofn verktakafyrirtæki í byggingariðnaði og bjó þar síðan til dánardægurs.
Torfi var meðal fremstu frjálsíþróttamanna í Evrópu um og eftir 1950 og Íslandsmethafi í langstökki og stangarstökki. Hann varð Norðurlandameistari í langstökki árið 1949. Árið 1950 varð hann Evrópumeistari í langstökki og meistari í stangarstökki á bresku heimsveldaleikunum árið 1951.
Torfi hóf frægðarferil sinn sem íþróttamaður á heimsmælikvarða, þegar hann tók þátt í Ólympíuleikjunum í London árið 1948, en í hinni frægu þriggja landa keppni í Osló, hinn 29. júní 1951, þegar Ísland bar sigurorð af Norðmönnum og Dönum var Torfi fræknasti íþróttamaður keppninnar. Hann var sigurvegari í langstökki og stangarstökki og hljóp endasprettinn í boðhlaupssveitinni, sem vann 4x100 metra hlaupið.
Þau Jóhanna giftu sig 1950, eignuðust þrjú börn og eitt kjörbarn. Þau bjuggu í Reykjavík í nær 10 ár, en fluttu þá til Eyja, bjuggu þar á Fífilgötu 5 og við Suðurveg, en fluttu aftur til Reykjavíkur 1971.
Jóhanna lést 1983.
Þau Erla voru í sambúð.
Torfi lést 1995.

I. Kona Torfa, (1950), var Jóhanna Pétursdóttir frá Selshjáleigu í A.-Landeyjum, húsfreyja, f. þar 5. september 1922, d. 8. janúar 1983.
Börn þeirra:
1. Ormur Njáll Torfason, kjörbarn, verktaki, aflraunamaður, f. 28. febrúar 1950. Kona hans Kristín Ársælsdóttir.
2. Bryndís Torfadóttir sjúkraliði, f. 2. febrúar 1957. Maður hennar Hólmgrímur Þorsteinsson.
3. Bryngeir Torfason tölvutæknir, f. 22. apríl 1959. Kona hans Sigrún Soffía Hreiðarsdóttir.
4. Guðmundur Halldór Torfason viðskiptafræðingur, starfsmaður Íþróttafélagsins Fylkis, knattspyrnumaður, f. 13. desember 1961 í Eyjum. Kona hans Björg Jakobína Þráinsdóttir.

II. Sambúðarkona Torfa var Erla Þorvarðardóttir frá Ólafshúsum, húsfreyja, matartæknir, f. 2. nóvember 1929.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.