Jóhann Þ. Jósefsson

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Jóhann
Jóhann og Jón Guðmundsson frá París.

Jóhann Þ. Jósefsson fæddist 17. júní 1886 og lést 15. maí 1961, 74 ára gamall. Foreldrar hans voru Jósef Valdason skipstjóri og Guðrún Þorkelsdóttir. Þ-ið í nafni Jóhanns stendur fyrir Þorkel en Jóhann notaði ávallt skammstöfunina.

Fyrri kona Jóhanns var Svanhvít Ólafsdóttir. Þau gengu í hjónaband 15. október 1915. Hún lést tæpu ári síðar, aðeins 22 ára gömul.

Seinni kona Jóhanns var Magnea D. Þórðardóttir. Þau gengu í hjónaband 22. maí 1920 í Reykjavík. Heimili Magneu og Jóhanns í Eyjum var í húsinu Fagurlyst sem Jóhann hafði látið reisa við Urðarveg. Í Fagurlyst ríkti menningarbragur og var þar gestkvæmt. Magnea og Jóhann eignuðust þrjú börn, Svönu Guðrúnu, Ágústu og Ólaf.

Jóhann var fastur þingmaður Vestmannaeyja á tímabilinu 1923-59. Á þessum árum gerði hann fjöldamargt fyrir hag Eyjanna.

Jóhann rak í félagi við Gunnar Ólafsson fyrirtækið Gunnar Ólafsson & co. frá árinu 1910 og höfðu þeir umsvifamikinn atvinnurekstur bæði í verslun og útgerð. Jóhann var frumkvöðull í atvinnulífi Eyjanna og beitti sér meðal annars fyrir stofnun Björgunarfélags Vestmannaeyja og kaupum á björgunarskipinu Þór, fyrsta varðskipi Íslendinga sem var vísir að Landhelgisgæslunni. Hann var ræðismaður Þýskalands frá 1919 og lengi síðan.

Hann var kjörinn í fyrstu bæjarstjórn Vestmannaeyja 1918 og átti sæti þar næstu tvo áratugi. Hann hlaut kosningu sem þingmaður Eyjamanna 1923 og sat á Alþingi allar götur til 1959. Hann var einn af stofnendum Íhaldsflokksins 1924 og Sjálfstæðisflokksins 1929. Jóhann var fjármála- og atvinnumálaráðherra í ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar 1947-49 og atvinnumálaráðherra í ríkisstjórn Ólafs Thors 1950.

Fjölskyldan fluttist búferlum til Reykjavíkur árið 1935 og bjuggu þau þar á Bergstaðastræti 86. Jóhann lést í Hamborg í Þýskalandi 15. maí 1961 eftir að hafa veikst skyndilega þegar þau hjónin voru á leið heim af þingi Evrópuráðsins í Strassborg.

Tenglar


Heimildir

  • Magnea Þórðardóttir, aldarminning, í Morgunblaðinu, 10. október 2001.