Gunnar Ólafsson (kaupmaður)
Gunnar Ólafsson, kaupmaður, var alþingismaður Vestur-Skaftfellinga 1908-1911 og síðar landskjörinn þingmaður 1925 til 1926. Gunnar var fæddur í Sumarliðabæ í Holtum þann 18. febrúar 1864 og lést í Vestmannaeyjum 26. júní 1961. Foreldrar hans voru Ólafur Þórðarsson (fæddur 20. ágúst 1829, dáinn 29. apríl 1898) bóndi í Sumarliðabæ og Guðlaug Þórðardóttir (fædd 22. september 1839, dáin 13. mars 1920). Gunnar kvæntist þann 1. september 1898 Jóhönnu (f. 18. október 1870, d. 19. júlí 1944) dóttur Eyþórs Felixsonar kaupmanns og Kristínar Grímsdóttur.
Gunnar sótti sjó á vetrum og vann sveitavinnu á sumrinn í æsku. Gunnar hóf nám í kvöldskóla verslunarmanna í Reykjavík árið 1888 og lauk honum árið 1889. Hann starfaði sem verslunarmaður í Reykjavík 1889-1896 og síðar starfsmaður Brydesverslunar í Vík í Mýrdal. Gunnar starfaði sem bókhaldari 1896-1899 og seinna meir verslunarstjóri 1899-1908. Hann fluttist til Vestmannaeyja árið 1909 og hóf rekstur á verslun og útgerð og var lengi í félagi við Jóhann Þ. Jósefsson alþingismann. Hann var oft settur sýslumaður í Vestmannaeyjum. Gunnar var vararæðismaður Norðmanna 1916.
Myndir
Heimildir
- Guðlaugur Gíslason: Eyjar gegnum aldirnar. Frásagnir af mannlífi og atburðum í Vestmannaeyjum frá gamalli tíð og nýrri. Reykjavík, 1982.