Jónas Einarsson Vestmann

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Jónas Einarsson Vestmann smiður og formaður fæddist 20. október 1797 og lést eftir Þurfalingsslysið 5. mars 1834.
Foreldrar hans voru Þuríður Högnadóttir, síðar húsfreyja í Kornhól, f. 1767, d. 12. september 1801, og Einar Þorvaldsson skósmiður í Reykjavík, f. 1762.

Jónas kom til Eyja með móður sinni, þá gift Bjarna Björnssyni í Kornhól.
Hann ólst upp með þeim, lærði smíðar í Danmörku og stundaði þær í Eyjum. Bjó hann í fyrstu með systrum sínum á Miðhúsum.
Á síðari hluta þriðja áratugar aldarinnar fékk hann byggingu fyrir Vesturhúsum. Hann kvæntist Ingibjörgu Jakobsdóttur ekkju sr. Snæbjarnar Björnssonar á Ofanleiti 1828. Hún fluttist að Vesturhúsum með 3 börn sín af fyrra hjónabandi.
Jónas var formaður á áraskipinu Þurfalingi, er honum hlekktist á á Leiðinni nálægt Nausthamri 5. mars 1834. Talið var, að báturinn hefði tekið niðri á Hnyklinum, sem var sandrif skammt frá Nausthamri, og stafnstungist. Þar fórust 13 menn, en Ólafi Guðmundssyni bónda og smið á Kirkjubæ tókst að bjarga 4 mönnum með harðfylgi. Jónas fannst látinn við Löngu. Hann mun hafa synt þangað eða hrakist, en látist er á land kom.

I. Kona Jónasar, (8. febrúar 1828), var Ingibjörg Jakobsdóttir frá Ofanleiti, f. 3. febrúar 1795. Hún var ekkja eftir sr. Snæbjörn Björnsson prest að Ofanleiti, f. 12. maí 1800, d. 17. janúar 1827.
Þau voru barnlaus.
Börn Ingibjargar og stjúpbörn Jónasar:
1. Sigríður Snæbjörnsdóttir húsfreyja, f. 2. september 1823, d. 29. mars 1913, kona sr. Þorvaldar Böðvarssonar í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.
2. Jón Snæbjörnsson sýslumaður í Höfn í Melasveit í Borgarfirði, f. 30. september 1824, d. 31. ágúst 1860.
3. Snæbjörn Snæbjörnsson kaupmaður í Reykjavík, f. 4. ágúst 1827, drukknaði 1857.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.