Saga Vestmannaeyja I./ VI. Heilbrigðismál og læknar, síðari hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Læknar í Vestmannaeyjum


Carl Ferdinand Lund, danskur að ætt, var fyrsti skipaði læknirinn í Vestmannaeyjum. Hann hafði áður verið læknir í Nyköbing á Sjálandi, sjá konungsúrskurð 23. jan. 1828 og rentuk.bréf 25. febr. s.á.¹) Fyrir tilmæli læknisins lagði stjórnin til embættisins töluvert af læknisáhöldum ókeypis, og lækninum var leyft að útvega sér nauðsynleg lyf beint frá Kaupmannahöfn. Lund læknir var vel látinn, en hann varð eigi langgæður hér. Hann deyði hér 7. des. 1831, eftir rúmra þriggja ára veru.
Sá skriður var nú kominn á læknismálin, að stjórnin í Kaupmannahöfn sá sér eigi annað fært en að framlengja konungsúrskurðinn frá 6. júní 1827 um sex ár, með því að ginklofaveikin geisaði ennþá sem áður hér, og einnig taldi stjórnin nokkra hættu á því, að kólera, sem þá gekk erlendis, kynni að berast með erlendum skipum til eyjanna. Fólki hafði fjölgað hér þessi árin, eins og venjulega er útgerðin jókst, og leigugjöld aukizt, og var stjórnin því fúsari til að samþykkja læknisskipunina; mun og stjórnin heldur eigi hafa búizt við, að læknis myndi þurfa við hér lengur en næstu sex árin og læknirinn þá kallaður heim og embættið lagt niður.²)
Carl Hans Ulrich Balbroe hét næsti læknirinn. Var hann herlæknir í Kaupmannahöfn. Kjör Balbroe voru hin sömu og fyrirrennara hans, 300 rd. silfurs í árslaun og fylgdi fyrirheit um betra embætti eftir vissan árafjölda, og 2/3 af laununum, unz fengið væri betra embætti. Balbroe læknir sótti um það til stjórnarinnar, að fá hér embættisjörð til afgjaldalausrar ábúðar og vildi hann fá Miðhús, Gjábakka eða Kornhól. Þessu neitaði stjórnin og bar það fyrir, að læknisembættið hér myndi brátt lagt með öllu niður. Engin af þessum jörðum var heldur laus úr ábúð um þessar mundir. Stjórnin gaf lækninum samt það loforð, að ef embættinu yrði haldið uppi myndi jörðin fást.³) Svo fór og, að Balbroe fékk seinna syðri Gjábakkajörðina til ábúðar 1839. Balbroe læknir gegndi sýslumannsstörfum hér nokkurn tíma í fjarveru Abels sýslumanns 1835. Eftir að hafa verið starfandi læknir áskildan tíma, sex ár, lét Balbroe af embættinu og fór til Danmerkur. Stjórnin ákvað að framlengja enn á ný tilsk. frá 6. júní 1827⁴) í sex ár, sbr. tilsk. 8. maí 1839. Mun þessu hafa orðið framgengt aðallega fyrir forgöngu Abels sýslumanns, en bæði landlæknir og stiftamtmaður voru þessu mótfallnir og töldu litla gagnsemi að hafa sérstakan lækni hér, þar sem eigi tækist að lækna ginklofann, minnsta kosti samanborið við kostnaðinn, er af því leiddi. En Abel sýslumaður telur, að ginklofinn hafi minnkað mjög eftir að læknar tóku að starfa hér.
Iversen Haaland hét læknirinn, er eyjamenn fengu nú. Var hann hinn áhugasamasti og tók þegar, er hann var setztur hér að, að rannsaka ginklofaveikina af miklum áhuga og orsakir hennar, en þessu virðist hafa verið lítið sinnt af fyrirrennurum hans. Haaland tókst að fá hjá stjórninni styrk nokkurn til verkfærakaupa, smásjár o.fl., sbr. tilsk. 17. apríl 1840. Styrkur þessi var 200 rd. eða sama upphæð og stjórnin hafði áður veitt læknum á Grænlandi í sama skyni. Haaland hafði eigi verið hér lengi læknir, er hann kom fram með þá tillögu, að reist yrði fæðingarstofnun fyrir barnshafandi konur, sbr. kansellíbréf 15. des. 1840. Segir Haaland, að ginklofanum, sem að vísu sé nú orðinn miklu minni en áður fyrir tilverknað læknanna, er starfað höfðu í Vestmannaeyjum nú um 15 ára skeið, muni samt eigi verða útrýmt, fyrr en þessum málum sé komið í það horf, að reist verði fæðingarstofnun, og konum gert að skyldu að leggjast á fæðingarstofnunina og fæða þar börn sín og dvelja þar 3—4 vikur eftir barnsburðinn og njóti þar hjúkrunar og aðhlynningar, og læri þar af lækninum rétta meðferð á ungbörnum. Hann leggur það og til, að ung stúlka úr eyjunum verði send á fæðingarstofnun í Kaupmannahöfn til þess að læra yfirsetukvennafræði, og að hún að afloknu námi starfi við fæðingarstofnunina í eyjunum. Haaland læknir telur, að ginklofaveikin muni mest stafa af því, að konur hér hafi eigi börn sín á brjósti, heldur sé börnunum gefin óblönduð kúamjólk þegar eftir fæðinguna. Hafði lítið batnað í þessum efnum hér frekar en annars staðar á landinu, þrátt fyrir umbótatilraunir stjórnarinnar, sbr. áðurnefnt bréf til amtmannsins í Vesturamtinu, Ludviks Ericsen, 16. júlí 1803, um að brýna fyrir konum að hafa börn sín á brjósti. Haaland tilfærir hið sama um orsakir ginklofans og Sveinn læknir Pálsson hafði gert fyrir 40 árum. Verður honum mjög tíðrætt um hið slæma drykkjarvatn hér og um slæma umgengni og óþrifnað í híbýlum margra. Hann tilfærir og sem eitt af því, er heilsu barnanna sé mjög til skaða, hversu illa sé gengið frá naflastrengnum og hann eigi bundinn upp, enda fylgi yfirsetukonan, er orðin sé gömul, úreltum, gömlum venjum og kreddum. Haaland ítrekaði þetta mál um að komið yrði upp fæðingarstofnuninni oftar en einu sinni og lagði sig yfirleitt mjög í framkróka hér um. Stjórnin vildi samt eigi ganga inn á þessar tillögur Haalands, einkum vegna kostnaðarins við rekstur slíkrar stofnunar; höfðu þó Vestmannaeyingar boðizt til að leggja fram allt að 1400 rd. af inneign fátækrasjóðs eyjanna í jarðabókarsjóði. Bar stjórnin og það fyrir, að konur mundu síður hafa börn sín á brjósti, ef þær legðust á fæðingarstofnun, svo að þetta mundi verða til ills eins. Lét stjórnin sér það nægja fyrst um sinn að ráðleggja, að prestar af prédikunarstóli og utanstóls brýndu það alvarlega fyrir konum, að þær hefðu börn sín á brjósti, og gerir ráð fyrir, að gefnar verði út prentaðar leiðbeiningar fyrir sængurkonur, og að heitið verði verðlaunum til mæðra, er eigi eins til tveggja ára börn, sbr. kansellíbréf 15. des.
Haaland læknir beitti sér mjög fyrir því, að komið yrði upp fæðingarstofnun hér. Taldi hann ginklofaveikina smitandi veiki. Fékkst þessu eigi framgengt og málið lá niðri um hríð. Landlæknir lét sér nægja að semja reglur handa yfirsetukonunni hér og ýmsar leiðbeiningar um meðferð sængurkvenna og ungbarna, og síðar (1846) gaf landlæknir út íslenzka þýðingu af handbók prófessors Levy í Kaupmannahöfn fyrir yfirsetukonur, til útbýtingar milli yfirsetukvenna á Íslandi og í Vestmannaeyjum, eins og komizt er að orði.⁵) Haaland fékk lausn frá embætti 27. apríl 1845 með 200 rd. biðlaunum.
Haaland bjó með bústýru í húsinu Ensomhed, er þar síðast við manntal í nóvember 1845. Hann var teiknari ágætur. Til er eftir hann teikning af Heklugosinu 1845. Hann mun og hafa haft áhuga á náttúrufræði. Segir svo, að hjá Haaland lækni í Vestmannaeyjum hafi D.F. Eschricht fengið fræðslu um íslenzka hvali í rit sitt.⁶) 1841 rak andarnefju í Vestmannaeyjum, sem ekki er í frásögur færandi. Rannsakaði Haaland hana nákvæmlega og er mynd af andarnefjunni í nefndu riti, teiknuð af Haaland.
A. Schneider varð eftirmaður hans, veiting hans er frá 28. júlí 1845. Haaland þjónaði hér upp undir ár, unz Schneider kom hingað til embættis síns loks í marz 1846. Schneider var greiddur húsaleigustyrkur, 30 rd. á ári, í stað þess að hafa jörð til ábúðar, og sömu kjara hafði Haaland notið. Schneider var hér aðeins 2 ár. 1848 fór hann alfarinn frá eyjunum.
Haaland hafði haft mikinn áhuga fyrir því að lækna ginklofaveikina, þótt lítið yrði ágengt. Er hann var kominn til Kaupmannahafnar, mun hann hafa hreyft þessum málum við stjórnina, og sennilega mun það hafa verið að hans tilhlutun, að stjórnin nú snéri sér til hins kunna læknaprófessors Levy og bað um álitsgerð hans um ginklofaveikina í Vestmannaeyjum og hversu með skyldi fara. Nú loks komst skriður á þetta mál. Prófessor Levy gaf nýjar upplýsingar um veikina, segir hann hana algengan sjúkdóm í öðrum löndum, og þurfi eigi að leita veikina uppi í Vestmannaeyjum, en þangað muni hún hafa borizt frá útlöndum og orðið síðan landlæg þar sökum aðgerðaleysis. Telur hann sjálfsagt, að koma hér upp sem allra fyrst fæðingarstofnun, svo að konur geti alið börn sín þar, og segir, að erlendis séu slíkar stofnanir alveg nauðsynlegar til útrýmingar veikinni. Nefnir prófessor Levy sem dæmi, að á fæðingarstofnun, sem reist hafi verið í þessu skyni í Dublín á Írlandi, hafi fyrsta starfsár stofnunarinnar dáið úr ginklofa 17% af börnum þeim, er fæddust á stofnuninni, þegar fyrstu 14 dagana eftir fæðingu. En talið var, að hreinlæti hefði verið mjög ábótavant á þessari stofnun og því kennt um hinn mikla barnadauða, því að fljótt eftir að bætt hafði verið úr þessu og gætt meiri þrifnaðar og séð um að gott loft væri í herbergjum sængurkvennanna féll dánartalan niður í 4—5%.
Eftir að prófessorinn hafði svo duglega ýtt undir, hófst stjórnin loks handa með að koma upp fæðingarstofnuninni hér. Var gert ráð fyrir, að fást myndi til kaups timburhús fyrir 600 rd. fyrir stofnunina, með bústað fyrir ljósmóður og lækni, því að ætlazt var til, að sérstakur læknir starfaði við stofnunina. Þá var og gert ráð fyrir sjúkraherbergi, er rúmað gæti 3 sængurkonur í einu. En er eigi var völ á slíku húsi í eyjum, gerði stjórnin ráð fyrir 4000 rd. framlagi til að koma upp húsi fyrir stofnunina, og átti það og að vera þinghús fyrir eyjarnar og fangahús í öðrum enda. Samt var hætt við að leggja út í að byggja hús, en lækninum falið í samráði við sýslumann að ráða fram úr þessu.
P.A. Schleisner, læknir við hinn almenna spítala í Kaupmannahöfn, var að ráði prófessors Levy kjörinn læknir við stofnunina hér. Leiðbeiningarbréf, er honum var fengið í hendur, er dags. 7. apríl 1847.⁷) Lækninum var ætlað að rannsaka á sem ítarlegastan hátt uppruna og einkenni ginklofans, einnig að kynna sér lifnaðarháttu manna hér, híbýli og klæðnað og einkanlega meðferð ungbarna o.fl. Gert var ráð fyrir tveggja eða þriggja ára dvöl hans hér á landi, og ferðast skyldi hann um landið og rannsaka og kynna sér heilbrigðisástand landsmanna yfirleitt. Laun Schleisners voru 100 rd. um mánuðinn og 100 rd. í ferðakostnað, ókeypis íbúð í fæðingarstofnuninni.
Schleisner kom hingað sumarið 1847 og tók þegar að koma fæðingarstofnuninni á laggirnar í húsnæði, er hann hafði leigt í Garðinum, Danska Garði. Stofnunin var nefnd manna á meðal „Stiftelse“. Sagt er, að fyrsta barnið, er þar fæddist, hafi dáið af ginklofa, og að læknirinn hafi rannsakað líkið vandlega og síðan beitt læknisaðgerðum sínum við börn þau, er seinna fæddust, og tók nú skyndilega fyrir allan barnadauða.
Aðallækning Schleisners var í því fólgin, að hann lét bera naflaolíu á nafla barnanna þegar við fæðingu og þar til gróið var fyrir, mjög var og vandað til laugunar og ítrasta þrifnaðar gætt undir ströngu eftirliti læknisins. Ljósmóðurstörfum við stofnunina gætti Solveig Pálsdóttir prests Jónssonar, er við störfum hafði tekið 1843. Kostnaðurinn við stofnunina, þar með legukostnaður sængurkvenna, var greiddur úr jarðabókarsjóði og fátækrasjóði.
Schleisner tókst furðanlega fljótt að yfirstíga ginklofann, er geisað hafði hér fram til þessa, eins og skýrslur sóknarprestsins séra Jóns Austmanns yfir tímabilið 1817—1842 sýna. Af hátt á 4. hundrað börnum, sem fæddust á tímabilinu, dóu rúmlega 2/3 hlutar þegar skömmu eftir fæðingu.
Veikinni er svo lýst, að svo var sem slæðu drægi yfir andlit hinna sjúku barna, bólga kom um naflann og síðan fengu börnin stífkrampa, er fljótt gerði út af við þau. Meðan veikin geisaði sem mest, tóku sumir það ráð að flytja þungaðar konur úr eyjunum til lands, en misjafnlega mun það hafa gefizt, því að allmikil brögð voru og að ginklofaveikinni, að minnsta kosti í nærsveitunum á landi. Sumarið 1847, áður en fæðingarstofnunin tók til starfa í Vestmannaeyjum, er eigi mun hafa verið fyrr en um haustið, ferðaðist Schleisner um Norður- og Austurland til þess að rannsaka heilbrigðisástand þar, og 1848 fór hann um Snæfellsness- og Hnappadalssýslur og um Barðastrandarsýslu til þess að rannsaka ginklofaveiki í þessum héruðum. Sama ár fór hann utan aftur. Skömmu eftir útkomu sína til Kaupmannahafnar varði Schleisner doktorsritgerð við Hafnarháskóla og 1849 gaf hann út rit um læknisfræðilegar rannsóknir sínar á Íslandi.⁸)
Í þessari bók er mikinn fróðleik að finna um heilbrigðisástandið. Hann gerir mikið úr ungbarnadauðanum á Íslandi, segir að af hverjum 1000 börnum, er fæðist, nái aðeins 300 eins árs aldri. Hélzt barnadauðinn áfram. Geysimikill hefir hann oft verið, sjá endurminningar Páls sagnfræðings Melsteds.⁹)
Schleisner gerði tillögur um ýmsar endurbætur á læknaskipun landsins, er stjórnin tók til greina, þar um bréf dómsmálaráðuneytisins 16. júní 1853.
Íslandsferð Schleisners kostaði 3540 rd., en ekki verður með tölum talið hið mikla gagn, er varð af ferð hans hingað.
Þegar 1848 var ginklofanum að mestu útrýmt og á árinu 1849 dó aðeins eitt barn hér af 20 börnum, sem fæddust það ár, úr ginklofa. Stofnunin var nú flutt í húsið Landlyst og hafði Schleisner gert ráð fyrir því, að nýfædd börn væru höfð á stofnuninni nokkrar vikur eftir fæðingu undir umsjón yfirsetukonunnar, og var kostnaður fyrir hvert barn áætlaður 6 rd. og 2 rd. fyrir hverja sængurkonu. Árleg útgjöld fyrir allan rekstur stofnunarinnar voru áætluð rúmir 500 rd., og átti sveitarsjóður Vestmannaeyja að standa straum af kostnaðinum framvegis, en stjórnin, er hafði gefið húsið fyrir stofnunina, neitaði að leggja meira fram. Þetta varð til þess, að héðan af var stofnunin mjög lítið eða ekkert notuð, enda var þess heldur eigi þörf og eigi síðar, svo að þetta spítalamál lognaðist út af. Kemur það þó fram löngu síðar, sbr. stjrbr. 1856, að stjórnin hafði ætlazt til að fæðingarstofnunin starfaði áfram, og tjáðist hafa falið hlutaðeigandi yfirvöldum á Íslandi að sjá um framkvæmd á því, er nauðsynlegt væri að gera í þessu efni, en það hafi komið í ljós, sbr. heilbrigðisskýrslur frá Vestmannaeyjum, að stofnunin hafi alls eigi verið starfrækt eftir 1849 og átelur stjórnin það mjög, að hlutaðeigandi yfirvöld hafi eigi sýnt þessu merkilega máli þá athygli, sem það hefði átt skilið, og að þessu hafi verið þannig háttað án vitundar stjórnarinnar og að enginn íslenzkur embættismaður hefði gert neitt til þess að koma í veg fyrir það, að þessi yrðu afdrif stofnunarinnar í Vestmannaeyjum, er búið var að kosta miklu til. Þess ber hér að gæta, að fæðingarstofnunarinnar var eigi lengur þörf, er búið var að finna upp fullkomið meðal við ginklofaveikinni.
Eftir að Schleisner fór frá Vestmannaeyjum hefir verið læknislaust þar um tíma, og mun þá hafa komið til kasta yfirsetukonunnar Solveigar Pálsdóttur að veita sjúkum læknishjálp, eins og síðar, er læknislaust var hér.
Philip Theodor Davidsen var skipaður héraðslæknir hér 1852 og er það fyrsta fastaskipun héraðslæknis hér. Hann var síðasti danski læknirinn. Hann virðist hafa verið ötull læknir. Honum tókst að ráða niðurlögum barnabólusóttar, er hér kom upp. Voru þá teknar upp sóttvarnir og heftar ferðir manna milli lands og eyja. Davidsen læknir vildi láta breyta fæðingarstofnuninni í almennan spítala, og að efnamenn greiddu legukostnað sinn og sinna, en sveitarsjóður stæði að öðru leyti straum af spítalanum.
Stjórnin aðhylltist þessar tillögur og skyldi sjúkrahúsið og stækkað og kom til tals að kaupa hinn helming Landlystarhússins, en viðbótarbygging við Landlystarhúsið, er notað var undir fæðingarhús hér, sjá stjórnarráðsbréf 20. maí 1856, hafði kostað 445 rd. Ráðgert var, að allir sjúklingar skyldu njóta ókeypis sjúkrahússvistar á spítalanum, en af rekstrinum skyldi sveitarsjóður standa straum eftir því, sem fært væri, en eftirstöðvum kostnaðarins annars jafnað niður á gjaldendur eftir efnum og ástæðum. Var stjórninni allmikið áhugamál, að þessu yrði komið þannig í kring og hafði lagt það til, sbr. nefnt bréf dómsmálaráðuneytisins frá 1855, að sýslumaður og prestur eyjanna tækju sæti í stjórn spítalans og vænti þess, að þeir mundu beita sér fyrir málinu.
Til starfrækslu þessa almenna sjúkrahúss kom samt eigi, enda lögðust sýslumaður og sóknarprestur á móti. Munu þeir hafa óttazt kostnaðinn, er af þessu myndi leiða fyrir sveitarsjóð. Davidsen sótti málið af kappi eins og sjá má af bréfum ráðuneytisins frá þessum tímum. Stjórnin leyfði, fyrir bænarstað eyjamanna, að nota mætti húsið, er fæðingarstofnunin var í, fyrir sýslumannssetur fyrst um sinn, leyfið veitt með bréfi ráðuneytisins 23. júlí 1858.
Davidsen læknir deyði hér í júní 1860, 42 ára að aldri, af innvortisveiki í lungum, eins og segir í kirkjubókinni. Hann og kona h. Rebekka Regine Davidsen bjuggu í húsinu Pétursborg.
Úr sögunni var nú með öllu málið um að koma hér upp almennu sjúkrahúsi. En einkum eftir að siglingar hingað tóku að aukast, varð brýnni þörfin fyrir, að hér væri til sjúkrahús til að taka á móti erlendum sjúklingum, og ágerðist meir eftir því, sem leið á öldina, er samgöngur erlendra fiskimanna við Vestmannaeyjar færðust mjög í vöxt.
Ráðið var samt fram úr sjúkrahússmálinu og á þann hátt, er var sveitarfélaginu alveg kostnaðarlaust. Var það gistihús eyjanna, sem tók að sér að halda erlenda sjúklinga, er fluttir voru á land hér. Leyfisbréf til að reka gistihús var gefið Jóhanni J. Johnsen útvegsbónda af landshöfðingja 17. des. 1878. Hafði Jóhann keypt veitingahús frú Roed, danskrar konu, er fyrst hafði fengið hér veitingaleyfi. Var frú Roed mesta merkiskona, er komið hafði á ýmsum umbótum hér. Hún varð t.d. fyrst til að rækta kartöflur hér í eyjum og tóku eyjamenn upp ræktun kartaflna eftir henni. Frú Roed, er var af merkri danskri ætt, var tengdamóðir Péturs Bjarnasen verzlunarstjóra, föður Nikolai Bjarnasen í Reykjavík og þeirra systkina. — Vínveitingar voru mjög litlar á veitingahúsinu.
Jóhann byggði seinna (1883) nýtt og vandað tvílyft timburhús, stærsta íveruhúsið hér um þær mundir, í stað gamla „Vertshússins“, er hann keypti af frú Roed. Húsið var nefnt Frydendal. Voru í því margar stofur auk íbúðar fyrir heimilisfólk, sem jafnan var mjög margt á stóru útgerðarheimili. Hér var tekið á móti sjúklingum, er settir voru á land af erlendum skipum, árlega nokkrir, því að ógerlegt þótti að flytja slíka sjúklinga til Reykjavíkur. Móti innlendum sjúklingum var og tekið meðan framkvæmdar voru á þeim læknisaðgerðir, því að hér voru þá óvíða annars staðar húsakynni til slíks. Á þennan hátt var séð fyrir brýnustu sjúkrahússþörfum hér í Vestmannaeyjum um aldarfjórðung. Hætt var kringum aldamótin, eins og áður getur, að halda uppi sjúkrahúsi í Frydendal. Var síðan eftir 1904 tekið á móti erlendum sjúklingum í Hlíðarhúsi um nokkur ár hjá frú Soffíu Andersdóttur og að nokkru á Sveinsstöðum hjá frú Guðrúnu Runólfsdóttur. En nú var komið hér sjúkrahús, frakkneska sjúkrahúsið, er þó eigi var tekið til almennrar notkunar fyrr en seinna.
Orð var á því gert, bæði af læknum, sjúklingum og öðrum, hversu vel hefði tekizt um sjúklingahaldið á öllum fyrrnefndum stöðum, bæði um þrifnað og staka reglusemi og aðbúnað yfirleitt. Fjöldi þakkarbréfa sannar þetta. Á heimilunum var þó annríki mikið, búskaparrekstur með vinnufólkshaldi og útgerð mikil.¹⁰) Lærð hjúkrunarkona var hér engin til. Þar til fram um aldamótin síðustu voru hér eigi af lækni viðhafðar svæfingar eða deyfingar við uppskurði, ástungur eða limatöku. Ef um stærri uppskurði var að ræða, var sjúklingurinn á seinni tímum sendur til Reykjavíkur, ef hægt var. Ef gerður var skurður á sjúklingi eða tekinn af fingur eða svipaðar aðgerðir viðhafðar, er oft fóru fram í Frydendal á síðasta hluta 19. aldar, lét læknir jafnan tvo eflda vinnumenn halda sjúklingnum og kvenmaður hélt fati undir blóðboganum og önnur líndúk yfir sárinu. Bárust margir sjúklingar illa af og heyrðust oft kveinstafir þungir og erfið var aðstaða læknisins og húsmóðurinnar á mannmörgu útvegsheimili, en hjúkrunarkonur engar.
Læknislaust hafði verið hér alllengi eftir dauða Davidsens héraðslæknis 1862, en Solveigu Pálsdóttur ljósmóður var með stjórnarráðsbréfi 20. apríl 1863 falið að veita sjúkum læknishjálp, þar til nýr læknir kæmi. Laun hennar voru ákveðin 10 rd. mánaðarlega. Mun það sjaldgæft, að stjórnin hafi falið ljósmóður að gegna eiginlegum læknisstörfum, og tveim árum seinna voru Solveigu aftur falin héraðslæknisstörfin.
Magnús Stephensen cand. med. og chir. var skipaður héraðslæknir í Vestmannaeyjum 11. okt. 1863. Hans naut skammt við hér, lézt úr brjóstveiki 12. febr. 1865. Var Solveigu Pálsdóttur nú aftur með stjrbr. 8. júlí 1865 falið að veita sjúkum hjálp.
Í bréfi, er Magnús Stephensen héraðslæknir skrifaði landlækni Jóni Hjaltalín 24. sept. 1864¹¹) gerir læknirinn mikið úr óþrifnaðinum hér, er honum einkum illa við forirnar, sem hann segir vera rétt við bæjardyrnar, og leggi fýlan úr þeim inn í bæina, sem undir eru fullir af fýludaun og alls konar óþverra. Óhætt er að fullyrða, að þótt þrifnaði hjá mörgum hér hafi í ýmsu verið mjög ábótavant ekki síður en annars staðar hér á landi, voru þó hér mörg þrifnaðar- og myndarheimili og ýmis konar menningarbragur og framfarir á ýmsum sviðum, svo að eyjarnar munu sízt hafa staðið að baki öðrum landshlutum, var nú einmitt að hefjast hér í eyjum eða frá því nokkru eftir miðja öldina, eins og síðar verður getið. Það, sem segir um forirnar, mun hafa átt við lélegustu býlin. Að sjálfsögðu munu það og hafa verið mikil viðbrigði fyrir hinn unga lækni að koma hingað og jafnvel hvar sem var annars staðar hér á landi frá kóngsins Kaupmannahöfn.
Þorsteinn Jónsson héraðslæknir. Veiting hans er frá 31. okt. 1867, en hann hafði gegnt embættinu frá 21. sept. 1865. Þorsteinn var fyrsti læknirinn, er starfaði óslitið og lengi hér. Var honum veitt lausn frá embætti 2. sept. 1906. Þorsteinn læknir hafði lengi forustu bæði í hreppsstjórn og sýslunefnd og lét mjög til sín taka héraðs- og sveitarstjórnarmál eyjanna öll þau ár, er hann var hér héraðslæknir, og þótti ekkert ráð ráðið, nema Þorsteinn læknir væri þar með, enda var hann vitur maður og forsjármaður mikill. Þorsteinn var vel að sér í náttúrufræði og hefir unnið hinum ungu íslenzku náttúrufræðivísindum mikið gagn. Þorsteinn var af stjórninni sæmdur heiðursmerki. Af læknisdómum þótti honum takast bezt að hjálpa sængurkonum. Þorsteinn var þingmaður fyrir eyjarnar 1887— 1889. Kona hans var Matthildur Magnúsdóttir. Börn áttu þau fimm, er upp komust. Þorsteinn dó í Reykjavik 1908.
Jón Rósenkranz var hér settur héraðslæknir frá 1. okt. 1905 til 1. júní 1906.

Anna Gunnlaugsson, kona Halldórs Gunnlaugssonar héraðslæknis.
Halldór Gunnlaugsson héraðslæknir, (d. 1924)

Halldór Gunnlaugsson fékk veitingu fyrir héraðslæknisembættinu hér 17. marz 1906 frá 1. júní s.á. að telja. Hinn nýi læknir var útskrifaður kandídat í læknisfræði frá háskólanum í Kaupmannahöfn og hafði lagt stund á skurðlækningar. Sýslan hér hafði fengið leyfi fyrir nokkrum notum af frakkneska spítalanum, er hér var reistur 1906. Gat héraðslæknirinn starfað þar að skurðlækningum. Alger tímamót mátti segja að væru hér í þessum efnum í læknisaðgerðunum við komu hins nýja læknis. Engin lærð hjúkrunarkona var samt ennþá. Yfirsetukona og sjálfboðaliðar aðstoðuðu við uppskurði. Ungur kaupmaður hér annaðist svæfingar og aðstoðaði lækninn í mörgu. Halldór læknir var viðurkenndur frakkneskur konsúlaragent í Vestmannaeyjum 11. maí 1910. Franska stjórnin sæmdi hann heiðursmerki. Hann hafði sæti í sýslunefnd.
Halldór Gunnlaugsson héraðslæknir drukknaði, er hann var að gegna embættisstörfum, samkvæmt sóttvarnarlögunum, við eftirlitsför í millilandaskip 16. des. 1924. Fórust þá og nokkrir aðrir mætir menn héðan. Halldór læknir var mjög harmdauði eyjabúum. Reistu þeir veglegan minnisvarða á leiði hans og kvenfélagið Líkn gaf til minningar um hann herbergi fyrir Vestmannaeyjastúdent í stúdentagarðinum í Reykjavík. Halldór læknir var kvæntur Önnu Gunnlaugsson (f. Therp).

Ólafur Ó. Lárusson héraðslæknir.
Einar Guttormsson spítalalæknir (núverandi bæjarfulltrúi).
Ólafur Halldórsson læknir.
Leifur Sigfússon tannlæknir, franskur vicekonsúll.

Ólafur Ó. Lárusson. Hann var skipaður hér héraðslæknir 1925 og hafði þjónað lengi við mikinn orðstír sem héraðslæknir á Fljótsdalshéraði. Ólafur læknir hefir sett á stofn sjúkrastofur (Klinik) á neðri hæð í hinu stóra og vistlega íbúðarhúsi sínu, með leyfi stjórnarvalda, fyrir erlenda sjúklinga og aðra aðkomusjúklinga. Ólafur héraðslæknir Lárusson hefir verið sæmdur heiðursmerkjum fyrir störf hans fyrir erlenda sjómenn bæði af frakknesku stjórninni 1932 og þýzka Rauðakrossinum 1936. Ólafur er formaður Vestmannaeyjadeildar Rauðakross Íslands, stofnaðrar hér fyrir fáum árum. Ólafur Lárusson er kvæntur Sylvíu Guðmundsdóttur Ísleifssonar frá Stóru-Háeyri.
Auk héraðslæknis hafa hér á seinni árum verið starfandi oftast einn eða tveir læknar:
Einar Guttormsson spítalalæknir. Hann hefir umsjón með spítala eyjanna. Launaður úr bæjarsjóði. Einar læknir er kvæntur Margréti Pétursdóttur.


ctr


Læknishjónin Páll Kolka og frú Guðbjörg Kolka.


Fyrsti spítalalæknir hér var Páll G. Kolka, nú héraðslæknir í Blönduóshéraði. Páll Kolka var settur héraðslæknir hér um hálfs árs skeið 1925. Hann er kvæntur Björgu Guðmundsdóttur.
Ólafur Halldórsson læknis Gunnlaugssonar er hér starfandi læknir. Kona hans er Erna M. Halldórsson.
Fleiri læknar hafa starfað hér seinni árin lengri eða skemmri tíma.
Leifur Sigfússon tannlæknir, útskrifaður af tannlækningaskólanum í Kaupmannahöfn, rekur tannlækningastofu hér. Hann er frakkneskur vicekonsúll. Kona h. er Ingrid Sigfússon.


Ljósmæður í Vestmannaeyjum.


Um lærðar ljósmæður var eigi að tala fyrr en um miðja 19. öld.
Prestskonurnar gegndu hér oft ljósmóðurstörfum og heldri bændakonur. Framan af 19. öldinni getur hér helzt sem ljósmæðra Guðrúnar Hálfdánardóttur prestskonu á Ofanleiti og Guðrúnar Jónsdóttur konu séra Páls skálda. Þá má og nefna Kristínu Snorradóttur á Vilborgarstöðum, Ingigerði í Dölum og Sesselju Sigurðardóttur í Stakkagerði.
Fyrsta lærða ljósmóðirin hér var Solveig Pálsdóttir prests Jónssonar í Kirkjubæ. Solveig fór utan 1842 til þess að læra yfirsetukvennafræði við fæðingarstofnunina í Kaupmannahöfn. Var Solveig þá ung og ógift og efnileg mjög. Solveig fékk samt eigi aðgang að fæðingarstofnuninni, því að stjórn stofnunarinnar þótti eigi heppilegt val á yfirsetukonu, er eigi hafði sjálf alið barn, og er um þetta bréf í sýsluskjölum. Lá við að Solveig yrði gerð afturreka, en stjórnin féll þó frá þessu síðar og fékk Solveig inngöngu. Lauk hún námi með lofsamlegum vitnisburði og tók síðan við ljósmóðurstörfum hér. Voru henni ákveðin 20 rd. árslaun, sbr. kansellíbréf 3. jan. 1843. Seinna voru launin ákveðin 70 rd., stjórnarráðsbréf þar um 27. júlí 1864. Höfðu nokkru áður verið hækkuð upp í 30 rd. Launin skyldu greidd af spítalahlutum þeim, er til féllu hér, sbr. augl. 24. marz 1863. Solveig gegndi hér og læknisstörfum um tíma. Hún fluttist ásamt manni sínum Matthíasi Markússyni og börnum þeirra til Reykjavíkur 1867 og var þar lengi ljósmóðir. Þótti hún jafnan hin merkasta kona. Meðal barna þeirra hjóna, er öll voru fædd hér í eyjum, var María móðir Matthíasar Einarssonar læknis í Reykjavík.
Lærð ljósmóðir hafði verið fengin frá Hafnarfirði hingað um nokkurn tíma, meðan ginklofinn gekk hér og áður en Solveig tók við ljósmóðurstörfum.¹²) Schleisner segir í áðurnefndri bók sinni, frá 1849, að á Íslandi séu aðeins 3 yfirsetukonur, er lokið hafi fullkomnu námi í yfirsetukvennafræði við fæðingarstofnunina í Kaupmannahöfn, en 34 hafi lært hjá landlækni og héraðslæknum.
Anna Benediktsdóttir prests á Mosfelli Magnússonar lærði yfirsetukonufræði í Kaupmannahöfn og gegndi hér störfum frá því eftir miðja öldina sem leið um 50 ár. Heiðruðu eyjakonur hana með samsæti, er hún lét af störfum. Laun Önnu voru fyrst 5 rd. og voru þeir greiddir af þeim 30 rd. árslaunum, er Solveig Pálsdóttir hafði, áður en hækkað var upp í 70 rd. Árið 1875 voru laun Önnu komin upp í 70 kr. á ári. — Anna Benediktsdóttir var þrígift. Með fyrsta manni sínum, Stefáni Austmann, syni séra Jóns, en þau hjón voru systkinabörn, átti hún Jóhann, er arfleiddi spítalasjóð Vestmannaeyja að eignum sínum.

Sigurður Sveinsson útvegsbóndi og snikkari í Nýborg, (d. 1929).
Þóranna Ingimundardóttir ljósmóðir, (d. 1929), kona Sigurðar Sveinssonar í Nýborg.

Þóranna Ingimundardóttir frá Gjábakka var skipuð ljósmóðir hér 1885 og gegndi störfum mjög lengi.
Ljósmóðurstörfum gegndu hér alllengi eftir aldamótin síðustu Guðrún Magnúdóttir í Fagradal og Matthildur Guðmundsdóttir, ekkja Þorsteins Árnasonar óðalsbónda frá Dyrhólum, og aðstoðuðu við læknisaðgerðir.
Ljósmæður nú: Jóna Kristinsdóttir og Auður Eiríksdóttir.


Vestmannaeyjaspítali, lyfjabúð, hjúkrunarkonur o.fl.


Heilbrigðissamþykkt fyrir Vestmannaeyjar var staðfest 25. júlí 1903, framhaldssamþykkt 6. júlí 1925.
Sóttvarnarnefnd og heilbrigðisnefnd skipa bæjarfógeti og héraðslæknir með þriðja manni.


ctr


Lyfjabúð Vestmannaeyja, Stakkahlíð. Sigurður Sigurðsson frá Arnarholti, lyfsali og skáld, stendur á tröppum hússins.(Mynd úr endurútgáfu).


Jóhannes Sigfússon lyfsali.

Lyfjabúð var hér stofnsett 1913, leyfisbréf 13. febr. s.á. Lyfsali var Sigurður Sigurðsson exam. pharm. (skáld frá Arnarholti). Jóhannes Sigfússon lyfsali keypti lyfjabúðina og rekur hana nú.
Sjúkrasamlag er starfrækt samkvæmt gildandi lögum um alþýðutryggingar. Formaður: Ástþór Matthíasson.

ctr


Sjúkrahús Vestmannaeyja.


Árið 1927 voru vandkvæði Vestmannaeyinga að því er sjúkrahús snerti fyrst leyst. Þetta ár afsalaði Gísli J. Johnsen kaupmaður og konsúll og kona hans með gjafabréfi Vestmannaeyjabæ sjúkrahúsi til fullrar eignar og afnota, er Gísli hafði látið reisa, samanber bréf bæjarstjórans í Vestmannaeyjum 30. desember 1927. Með þessu bréfi bæjarstjóra var gefandanum, Gísla Johnsen, heimilað að láta þinglýsa nokkrum kvöðum á spítalanum, er samþykktar höfðu verið á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja 28. des. s.á. Húsið er mjög vandað, eitt með betri sjúkrahúsum landsins, steinhús, að stærð 19,5x10,5 mtr. Það getur tekið á móti um 40 sjúklingum. Kvenfélagið Líkn gaf spítalanum innanhússmuni.
Til spítalabyggingarinnar hafði borizt nokkuð í gjöfum og samskotafé, sem talið er að numið hafi 1/3 hluta kostnaðarverðsins, en 2/3 hlutar útreiddir af gefanda úr hans eigin sjóði. Mun hér um að ræða eina með stærstu gjöfum, sem gefin hefir verið hér á landi til líknarstarfa.¹³)
Spítalann rekur Vestmannaeyjabær.
Solveig Jesdóttir Gíslasonar var fyrsta lærð hjúkrunarkona hér, gift Haraldi Eiríkssyni kaupmanni.
Guðbjörg Árnadóttir er yfirhjúkrunarkona við spítalann.
Kristjana Guðmundsdóttir skólahjúkrunarkona.
Nuddstofu með sjúkraböðum stofnaði hér fyrst frú Anna Katrine Þorsteinsson 1923. Nuddstofuna rekur nú systir stofnandans, frú Emma á Heygum.
Kvenfélagið Líkn hefir rekið líknarstarfsemi og safnað miklu fé til styrktar fátækum. Fyrsta forstöðukona þess var Ágústa Eymundsdóttir, Jóhanna Árnadóttir lengi og Ingibjörg Theódórsdóttir. Núverandi forstöðukona er Kristín Þórðardóttir.


1) Copieb., nr. 1238—1239, Lovs. IX, 194.
2) Tilsk. 4. des. 1832, Lovs. X, 119.
3) Rentuk.bréf 17. sept. 1836.
4) Om ansættelse af en fast Chirurg paa Vestmanöerne.
5) Resol. 1847.
6) Jagttagelser paa Næbbehvalen eller Islændernes Andarnefja, Færöernes Dögling 1842.
7) Supplement til Bibliotek for Læger 1847.
8) Island undersögt fra lægevidenskabeligt Synspunkt.
9) Ísl. Fræðafélag, 1912.
10) Samkvæmt húsvitjunarbókum Vestmannaeyjaprestakalls voru árið 1889—90 í Frydendal hjá þeim hjónum Jóhanni Johnsen og Sigríði konu hans: 4 vinnukonur og 5 vinnumenn og 1 próventumaður og gömul kona.
11) Blanda II, 243.
12) Saga Hafnarfjarðar e. S. Skúlason, 1933, kansellíbr. 20. jan. 1842.
13) Sjá Vestmannaeyjaspítali, Morgunbl. 1. tbl. 1928, 14. tbl., 18. jan. s.á. Lýsing af spítalanum, er hann var tekinn út af landlækni og húsameistara ríkisins og héraðslækni.

Til baka


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit