Matthías Markússon

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Matthías Markússon í Landlyst, trésmiður fæddist 3. júní 1810 í Dýrafirði og lést 5. maí 1888.
Foreldrar hans voru Markús Þórðarson prestur í Dýrafjarðarþingum, f. 1779, d. 24. mars 1839, og kona hans Þorbjörg Þorvaldsdóttir húsfreyja, f. 1784, d. 16. júlí 1862.

Matthías lærði trésmíðar í Danmörku, fékk sveinsbréf 1838, starfaði m.a. í Þýskalandi og var farandsmiður þar um skeið, en fluttist til Eyja 1841. Hann var aðkominn í Frydendal 1842, ,,snikkari" þar 1843, vann að smíðum í Eyjum og kenndi iðnina, en einnig var hann ,,assistent“ á Tanganum um skeið.
Þau Sólveig giftu sig í kirkju 1844, bjuggu á Kornhól 1844 og 1845, í Sæmundarhjalli 1846, en voru komin í Landlyst í lok árs 1847 og þar bjuggu þau meðan þau voru í Eyjum.
Þau byggðu síðan við hana það, sem átti að vera fæðingarstofnun (,,Stiftelsið“). Hún hafði verið stofnuð og rekin í Danska-Garði, (Garðinum) eftir komu Schleisners til Eyja. Áhugi fólks á fæðingum í Landlyst reyndist lítill og starfsemin lagðist niður. Solveig kona hans starfaði við fæðingar í heimahúsum og við eftirlit með mæðrum. Einnig var henni falin læknisþjónusta í viðlögum.
Þau fluttust til Reykjavíkur, Solveig 1867 til að taka við annarri ljósmóðurstöðunni, sem hafði losnað þar, en Matthías fluttist þangað 1868 með börnin.
Þau byggðu húsið Holt í Skólavörðuholtinu og bjuggu þar síðan.
Sólveig lést 1886 og Matthías 1888.

Kona Matthíasar, (24. október 1844), var Sólveig Pálsdóttir húsfreyja, ljósmóðir, f. 21. september 1821 á Búastöðum, d. 24. maí 1886 í Efra-Holti í Reykjavík.
Börn þeirra:
1. Matthildur Pálína Matthíasdóttir, f. 22. apríl 1845 í Danska-Garði (Garðinum), d. 10. október 1918, ógift og barnlaus.
2. Markús Matthíasson, f. 3. ágúst 1846 í Pétursborg, d. 3. ágúst úr ginklofa.
3. Jón Matthíasson, f. 23. júlí 1847 í Sæmundarhjalli, d. 2. ágúst 1847 úr ginklofa.
4. Karólína Guðrún Matthíasdóttir saumakona í Kaupmannahöfn, f. 16. september 1848 í Landlyst, d. 21. janúar 1942, óg, bl.
5. María Guðrún Matthíasdóttir, f. 30. október 1851 í Landlyst, d. 8. nóvember 1851 „af Barnaveikindum“.
6. María Kristín Matthíasdóttir húsfreyja á Akureyri, f. 20. desember 1852 í Landlyst, d. 4. febrúar 1920.
7. Sigríður Matthíasdóttir ráðskona í Danmörku, óg., bl., f. 9. desember 1855 í Landlyst, d. 25. desember 1940.
8. Jóhanna Markúsína Matthíasdóttir húsfreyja í Borgarnesi og Reykjavík, f. 29. júlí 1858 í Landlyst, d. 4. september 1900.
9. Matthías Matthíasson kaupmaður í Reykjavík, f. 24. ágúst 1861 í Landlyst, d. 28. febrúar 1937.
10. Andvana sveinbarn fætt 7. júlí 1863 í Landlyst.
11. Jensína Björg Matthíasdóttir húsfreyja, f. 1. október 1864 í Landlyst, d. 25. október 1928.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Ljósmæður á Íslandi 1-2. Ritstjóri Björg Einarsdóttir. Ljósmæðrafélag Íslands 1984.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Ragnar Ásgeirsson. Skrudda II. Akureyri: Búnaðarfélag Íslands, 1958.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.