Sólveig Pálsdóttir

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Sólveig ljósmóðir.

Sólveig Pálsdóttir fæddist 8. október 1821 á Búastöðum og lést 24. maí 1886. Foreldrar hennar voru séra Páll Jónsson og Guðrún Jónsdóttir. Þessi presthjón voru bæði komin af merkum bænda- og embættismannaættum og sumir forfeður þeirra eru kunnir í sögu þjóðarinnar.

Sólveig ólst upp hjá foreldrum sínum, var hjá þeim 1835 og 1836. Hún var vinnukona hjá Kristínu Snorradóttur ljósmóður á Vilborgarstöðum 1837, á Ofanleiti 1838-1840.
Hún var með fyrstu íslensku konunum sem fóru til Danmerkur til að læra ljósmóðurfræði. Hún útskrifaðist árið 1843 frá Fæðingarstofnuninni í Kaupmannahöfn og var skipuð sama ár ljósmóðir í Vestmannaeyjum. Þar hjálpaði hún Peter Anton Schleisner að útrýma ginklofanum í Vestmannaeyjum.

Þessi unga prestsdóttir á Kirkjubæ hlaut það hlutskipti í lífinu að vera veigamikill aðili að þáttaskiptum í lífi sveitunga sinna á sínum tíma, er hinar sorglegustu sjúkdómsþrengingar herjuðu á Eyjabúa. Sólveig gegndi starfi ljósmóður í Vestmannaeyjum til ársins 1867 en þá fékk hún starf sem ljósmóðir í Reykjavík og gegndi því allt til dauðadags.

Leiðin til náms

Um tvítugt ákvað Sólveig að gerast ljósmóðir eins og móðir hennar. Haustið 1842 hélt Sólveig til Kaupmannahafnar til að leggja stund á ljósmóðurfræði. Hafði hún fengið undanþágu en skilyrði til þess að mega fara í skólann voru að viðkomandi kona væri gift og ætti barn. En brýn nauðsyn var á að fá ljósmóður til Vestmannaeyja þannig að henni var gefin undanþága. Hún fékk styrki frá bæði íslenskum og dönskum yfirvöldum.

Að loknu námi

Árið 1843 lýkur Sólveig náminu og kemur heim til að taka við ljósmóðurstarfinu, aðeins 22 ára að aldri. Þar biðu hennar mörg vandamál því ginklofinn geisaði á þessum tíma. En árið 1847 kom læknirinn Peter Anton Schleisner til Vestmannaeyja með það markmið að útrýma ginklofanum. Var þá stofnað fæðingarheimili og með hjálp Sólveigar tókst á fáum árum næstum að útrýma sjúkdómnum. Schleisner fór aftur til Danmerkur árið 1848 og var þá fæðingarstofan flutt á heimili Sólveigar, en hún hafði gifst þremur árum áður, Matthíasi Markússyni, trésmið. Þegar Schleisner var farinn varð læknislaust um tíma í Vestmannaeyjum og sá þá Sólveig um læknisþjónustu í Vestmannaeyjum. Það var svo árið 1867 að Sólveig var sett ljósmóðir í Reykjavík og gegndi hún því alveg til dauðadags. Sólveig var alltaf mjög hreinlát kona og gekk aldrei í for eða leðju, og einnig ef veður leyfði, meðan hún gekk á milli sængurkvenna og prjónaði sokka eða aðrar flíkur.

Fjölskylda

Sólveig giftist 24. október 1844 Matthíasi Markússyni, trésmið í Vestmannaeyjum. Sólveig og Matthías byggðu íbúðarhús sitt Landlyst árið 1848. Samkvæmt húsvitjanabók sóknarprestsins voru hjónin komin að Landlyst í lok árs 1847.
Sólveig ól ellefu börn. Tvö þeirra dóu úr ginklofa, 1846 og 1847, eitt ,,af Barnaveikindum“ 9 daga gamalt 1851 og andvana drengur, sem var 10. barn hennar, f. 1863.
Sólveig lést árið 1886 í Reykjavík og Matthías 1888. Ein dóttir þeirra var móðir Ásgeirs Ásgeirssonar fyrrverandi forseta Íslands.
Börn þeirra:
1. Matthildur Pálína Matthíasdóttir, f. 22. apríl 1845 í Danskagarði (Garðinum), d. 10. október 1918, ógift og barnlaus.
2. Markús Matthíasson, f. 3. ágúst 1846 í Pétursborg, d. 3. ágúst úr ginklofa.
3. Jón Matthíasson, f. 23. júlí 1847 í Sæmundarhjalli, d. 2. ágúst 1847 úr ginklofa.
4. Karólína Guðrún Matthíasdóttir saumakona í Kaupmannahöfn, f. 16. september 1848 í Landlyst, d. 21. janúar 1942, óg, bl.
5. María Guðrún Matthíasdóttir, f. 30. október 1851 í Landlyst, d. 8. nóvember 1851 „af Barnaveikindum“.
6. María Kristín Matthíasdóttir húsfreyja á Akureyri, f. 20. desember 1852 í Landlyst, d. 4. febrúar 1920.
7. Sigríður Matthíasdóttir ráðskona í Danmörku, óg., bl., f. 9. desember 1855 í Landlyst, d. 25. desember 1940.
8. Jóhanna Markúsína Matthíasdóttir húsfreyja í Borgarnesi og Reykjavík, f. 29. júlí 1858 í Landlyst, d. 4. september 1900.
9. Matthías Matthíasson kaupmaður í Reykjavík, f. 24. ágúst 1861 í Landlyst, d. 28. febrúar 1937.
10. Andvana sveinbarn fætt 7. júlí 1863 í Landlyst.
11. Jensína Björg Matthíasdóttir húsfreyja, f. 1. október 1864 í Landlyst, d. 25. október 1928.


Heimildir


Heimildir

  • Samantekt barneigna o.fl.: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Ljósmæður á Íslandi 1-2. Ritstjóri Björg Einarsdóttir. Ljósmæðrafélag Íslands 1984.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Ragnar Ásgeirsson. Skrudda II. Akureyri: Búnaðarfélag Íslands, 1958.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.