Peter Anton Schleisner

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Doktor Peter Anton Schleisner fæddist 16. júní 1818 í Lyngby, norðvestan við Kaupmannahöfn. Hann var sonur Christiane Grüner og Gottlieb Schleisner, sem var verksmiðjueigandi.

Hann útskrifaðist frá Borgerdydskolen i Christianshavn árið 1835 og sama ár hóf hann háskólanám. Peter Anton lauk cand. med. & chir.-prófi árið 1846 með fyrstu einkunn (173 1/9) og doktorsprófi árið 1849. Með konunglegri tilskipun, dagsettri þann 12. mars 1847, var hann sendur til Íslands til að kynna sér heilbrigðisástand en einkum þó ginklofann í Vestmannaeyjum. Hann dvaldist á Íslandi í eitt ár en sneri þá aftur og skrifaði skýrslu til stjórnvalda um skipan heilbrigðismála en jafnframt skrifaði hann doktorsritgerðina, „Forsög til en Nosographie af Island“ og um ástand heilbrigðismála á Íslandi, „Island undersögt fra et lægevidenskabeligt Synspunkt“. Næstu tvö árin var hann í Frakklandi og Englandi. Árið 1851 var hann skipaður hverfislæknir í fimmta umdæmi í Kaupmannahöfn en gegndi því starfi einungis í tvö ár. Árið 1853 var Peter Anton skipaður yfirmaður heilbrigðismála í Slésvík og flutti til Flensborgar og gegndi því starfi þar til Prússarnir ráku hann í burtu árið 1864. Þá starfaði hann um stund sem læknir í Kaupmannahöfn en var árið 1865 skipaður bæjarlæknir og gegndi því starfi til ársins 1886 er hann fékk lausn. Peter Anton Schleisner var skipaður í heilbrigðisráðið árið 1872, varð etatsráð árið 1877 og kommandör af Dannebrog árið 1897. Rúmlega áttræður að aldri lést Peter Anton Schleisner, þann 26. febrúar 1900 í Kaupmannahöfn. Saga Schleisners er órjúfanlega tengd sögu Íslands á 19. öld þótt hann starfaði nær allan sinn starfsaldur í Danmörku en framlag hans er einnig mikilvægt í alþjóðlegu samhengi.


Heimildir

  • Guðlaugur Gíslason: Eyjar gegnum aldirnar. Frásagnir af mannlífi og atburðum í Vestmannaeyjum frá gamalli tíð og nýrri. Reykjavík, 1982.