Saga Vestmannaeyja I./ XIII. Herfylking Vestmannaeyja, 3. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 1. september 2011 kl. 21:49 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 1. september 2011 kl. 21:49 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit




4. flokkur.
Flokksforingi: Árni Einarsson.
1. deild 2. deild
1. Sighvatur Sigurðsson 8. Jón Árnason
2. Ólafur Benediktsson 9. Tíli Oddsson
3. Bjarni Ólafsson 10. Erlendur Ingjaldsson
4. Guðlaugur Diðriksson 11. Guðmundur Erlendsson
5. Jón Austmann 12. Þorleifur Sigurðsson
6. Eyjólfur Jónsson 13. Páll Einarsson
7. Enginn 14. Enginn
Korði Árna Einarssonar alþingismanns á Vilborgarstöðum.

Flokksforinginn við 4. flokk, Árni Einarsson bóndi á Vilborgarstöðum, alþingismaður og meðhjálpari, d. 19. febr. 1899, kv. Guðfinnu Jónsdóttur prests Austmanns á Ofanleiti, d. 1897. Börn þeirra: 1) Einar Árnason kaupmaður í Reykjavík, kv. Guðrúnu Knudsen. Börn þeirra: Rósa, Lúðvík málarameistari og Árni kaupmaður, öll ógift. Fósturdætur nefndra hjóna: Katrín Knudsen og Anna Einarsdóttir ritstjóra Gunnarssonar. — 2) Jón Árnason kaupmaður í Reykjavík, kv. Juliane Bjarnasen, sjá áður. — 3) Sigfús Árnason bóndi á Löndum, póstafgreiðslumaður og alþingismaður, kv. Jónínu Brynjólfsdóttur prests Jónssonar á Ofanleiti. Börn þeirra: Ragnheiður yfirhjúkrunarkona við stjórnarspítala í Oteen í North Carolina í U.S.A., Brynjólfur kaupmaður, kv. Ingrid, f. Einarsson, fyrri kona hans var Guðrún Þorgrímsdóttir, Árni kaupmaður og útgerðarmaður, kv. Ólafíu Árnadóttur, Leifur tannlæknir og franskur konsúll, kv. Ingrid, f. Steensgaard, allir í Vestmannaeyjum. — 4) Lárus Árnason stúdent, lyfsali í Grand Forks í U.S.A. —5) Þórdís Árnadóttir kona Guðlaugs Vigfússonar bónda á Vilborgarstöðum, barnlaus. — 6) Kristmundur Árnason í Los Angeles í California. — Stjórnin sæmdi Árna Einarsson á Vilborgarstöðum heiðurspeningi 17. jan. 1859, sbr. konungsúrskurð 28. febr. 1829 og 12. júlí 1840, um minnispeninga ætlaða íslenzkum dugnaðarmönnum.
1) Sighvatur Sigurðsson, d. 1874, kv. Björgu Árnadóttur. Börn þeirra: 1) Friðrika kona Vigfúsar Schevings Pálssonar bónda á Vilborgarstöðum. Þeirra börn: Sigfús Scheving skipstjóri og fyrrv. bæjarfulltrúi, kv. Sesselju Sigurðardóttur. Sonur þeirra: Helgi Scheving stúdent, drukknaði í Vestmannaeyjum 1934. Ágúst Scheving, kv. Friðriku Einarsdóttur. Pálína Vigfúsdóttir Scheving, gift Gunnlaugi Bárðarsyni í Reykjavík. Sonur Pálínu: Hermann Steingrímsson stud. art., deyði í skóla í apríl 1935. Jóhann Scheving bóndi á Vilborgarstöðum, kv. Nikólínu Halldórsdóttur. Dóttir Friðriku Sighvatsdóttur og unnusta hennar, Þorsteins Björnssonar á Vilborgarstöðum, d. 1883, er Sigríður kona Matthíasar Finnbogasonar járnsmíðameistara í Vestmannaeyjum. — 2) Pálína Sighvatsdóttir, gift í Kaupmannahöfn. — 3) Sigríður Sighvatsdóttir kona Jóns bónda Eyjólfssonar í Kirkjubæ. Börn þeirra: Loftur bóndi á Vilborgarstöðum, kv. Ágústínu Þórðardóttur, Kjartan og Björgvin. Dóttir Sigríðar og Sigurðar Sveinssonar í Nýborg: Júlíana, kona Péturs Lárussonar á Búastöðum Jónssonar hreppstjóra. — 4) Loftur, d. 1890. — 5) Björg kona Erlendar Árnasonar trésmíðameistara á Gilsbakka í eyjum. Dætur þeirra: Dagmar kona Ólafs St. Ólafssonar forstjóra h.f. Magna hér og Júlíana kona Ragnars Jónssonar veitingamanns, nú í Reykjavík. — Dóttir Sighvats Sigurðssonar á Vilborgarstöðum var og Kristín, er fór til Ameríku.
2) Ólafur Diðrik Benediktsson prests á Mosfelli Magnússonar, snikkari í Sjólyst, d. 1860, kv. Guðríði Sigurðardóttur. Sonur þeirra Sigurður Ólafsson, kv. Guðrúnu Þórðardóttur Einarssonar frá Vilborgarstöðum, sjá áður. Þeirra sonur Ólafur Diðrik Sigurðsson á Strönd, kv. Guðrúnu Guðmundsdóttur.
3) Bjarni Ólafsson, síðar bóndi í Svaðkoti, drukknaði 16. júlí 1883, ásamt Ólafi syni sínum og þrem mönnum öðrum, í blíðskaparveðri, og talið, að stórfiskur (illhveli) hefði grandað. Kona Bjarna var Ragnheiður Gísladóttir. Börn þeirra: 1) Steinunn, gift í Reykjavík. — 2) Guðríður kona Jóns Jónssonar Jónssonar hreppstjóra í Dölum. — 3) Ólafur, drukknaði eins og áður segir. — 4) Gísli, hrapaði ungur í Ofanleitishamri á hvítasunnu 1883. — 5) Halla, giftist Jóni Guðmundssyni og bjó í Dýrafirði, seinna í Reykjavík, látin þar.
4) Guðlaugur Diðriksson vinnumaður á Miðhúsum, d. 1860.
5) Jón Austmann Jónsson prests á Ofanleiti Austmanns, bóndi í Þorlaugargerði, d. 1888. Jón sigldi og lærði beykisiðn. Kona hans var Rósa Hjartardóttir. Börn þeirra: 1) Hjörtur bóndi í Þorlaugargerði, kv. Guðríði Helgadóttur frá Stóra-Gerði, hrapaði í Hellisey 23. ágúst 1883. Dóttir þeirra Rósa. — 2) Jóhanna kona Frederiksens bakarameistara í Reykjavík.
Börn þeirra: Edward bakari í Reykjavík, kv. Guðrúnu Þorgrímsdóttur, þau skildu, Rósa kona Lauritz Jörgensens málarameistara í Reykjavík, síðar í Danmörku, Hjörtur, búsettur í Danmörku, og Inger forstöðukona fyrir barnahæli í Danmörku. — 3) Guðrún Austmann rithöfundur, búsett í Chicago í U.S.A. Guðrún var gift norskum iðnmeistara í Chicago, Christiansen. Börn þeirra: Henry Christiansen, merkur læknir í Chicago. Hann var herlæknir í styrjöldinni miklu og var sæmdur heiðursmerki fyrir frábæran dugnað í starfi sínu. Ester Christiansen útvarpssöngkona í Chicago. Gervinafn hennar er Peggy Richards. Guðrún Austmann Christiansen, er 1939 á lífi í Chicago, 84 ára gömul.
Henry Christiansens læknis er eigi getið í Minningarritinu um íslenzka hermenn 1914—1918. Þar er heldur eigi getið meðal íslenzku hjúkrunarkvennanna ungfrúar Ragnheiðar Sigfúsdóttur Árnasonar, yfirhjúkrunarkonu fyrrnefndrar, en hún hafði þann starfa um skeið á stríðstímanum við sérstaka deild við Harward-háskólann í Bandaríkjunum að hafa yfirstjórn við kennslu hjúkrunarkvenna, er sendar voru til vígstöðvanna. Einnig vantar í Minningarritið nafn Odds Jónssonar Sighvatssonar, bóksala í Vestmannaeyjum, er var í Bandaríkjahernum í heimsstyrjöldinni. Oddur á nú heima í Detroit í Bandaríkjunum. Í Minningarritinu er nefndur John sonur Guðmundar Símonarsonar frá Litlabæ í Landeyjum, en líklegt að eigi að vera Litlabæ í Vestm.eyjum. Maður þessi, John Simonsson, gekk í Bandaríkjaherinn 1915 og hlaut heiðurspening sem bezta skytta í California. Var hann seinna sendur til herþjónustu á Philipseyjum.¹⁵)
6) Eyjólfur Jónsson í Eyjólfshúsi, kv. Guðrúnu Jónsdóttur. Börn þeirra: 1) Jóhanna og 2) Þóra.
8) Jón Árnason, síðar bóndi í Þorlaugargerði, kv. Þuríði Oddsdóttur. Þau fluttu til Reykjavíkur. Börn þeirra: 1) Ingigerður, 2) Magnús og 3) Þórarinn, er lengi var utanbúðarmaður við Zimsens-verzlun. — Dætur hans eru: Rósa, ekkja Haraldar Sigurðssonar forstjóra Elliheimilisins, og Lilja skrifstofustúlka.
9) Tíli Oddsson bóndi í Norðurgarði, drukknaði með Bjarna bónda í Svaðkoti 1883, sjá áður. Kona Tíla var Guðríður Jónsdóttir, barnlaus.
10) Erlendur Ingjaldsson, drukknaði við Bjarnarey 12. janúar 1887, kv. Ingigerði Þorsteinsdóttur. Börn þeirra: 1) Jóhanna og 2) Markús, fluttist til Ameríku.
11) Guðmundur Erlendsson, d. 1875, kv. Unu Guðmundsdóttur. Börn þeirra: 1) Þorsteinn, drukknaði á þilskipinu Jósefínu frá Vestmannaeyjum 1888. — 2) Þórunn kona Helga Jónssonar trésmíðameistara í Steinum. — 3) Þórdís.
4) Magnúsína kona Magnúsar Ísleifssonar trésmíðameistara frá Kanastöðum. — 5) Helga, ógift, rekur þvottahús og straustofu í Kaupmannahöfn. Helga Guðmundsdóttir styrkti til náms í Kaupmannahöfn frændkonu sína Jónínu Sæmundsdóttir frá Nikulásarhúsum, listakonu, Nínu Sæmundsson.
12) Þorleifur Sigurðsson vinnumaður í Nýja Kastala, dó 1861. Fólk hans fluttist til Ameríku.
13) Páll Einarsson í Þorkelshjalli, kv. Þuríði Sigurðardóttur. Fluttust undir Eyjafjöll 1864.

Drengjaflokkurinn.
1. flokkur.
Flokksforingi: Ólafur Magnússon.
1. deild 2. deild
1. Magnús Gíslason 7. Jón í Steinmóðshúsi
2. Ólafur Ólafsson 8. Árni Árnason
3. Ellert (Eilertur) Þorkelsson 9. Jón Eiríksson
4. Bjarni Helgason 10. Enginn
5. Jes Abel 11. Jóhann Johnsen
6. Enginn 12. Enginn

Flokksforinginn, Ólafur Magnússon, lengi formaður í Vestmannaeyjum, deyði háaldraður. Sonur Ólafs og Málfríðar Eiríksdóttur frá Gjábakka, systur nr. 9, var Árni Ólafsson, er fluttist til Ameríku með móður sinni.
1) Magnús Gíslason, seinna bóndi í Norðurgarði, kv. Ingveldi Sigurðardóttur. Börn þeirra: 1) Gísli, deyði af voðaskoti, og 2) Þorbjörg kona Ólafs Helgasonar. Magnús Gíslason fór með fjölskyldu sína til Ameríku 1892. Þangað fóru þau og Ólafur og Þorbjörg. Eiga heima í Spanish Fork, Utha.
2) Ólafur Ólafsson frá Dölum, vinnumaður í Frydendal, er hrapaði í Elliðaey sumarið 1867.
3) Ellert Schram Þorkelsson frá Kokkhúsi, kallaður Lerti, vinnumaður á Ofanleiti, d. 1892.
4) Bjarni Helgason bónda Jónssonar í Kornhól, vinnumaður á Ofanleiti, d. 1869.
5) Jes Abel, sonur Jens Christians Abels kaupmanns í Vestmannaeyjum. Jens Chr. Abel var sonur kammerráðs Abels sýslumanns. Kona Jens Abels var Jóhanna Jónsdóttir, systir þeirra Ragnheiðar Jónsdóttur á Ofanleiti og Jóns Salómonsens, sjá áður. Auk sonarins Jes áttu þau hjónin Jens Chr. Abel og Jóhanna þrjár dætur. Tvær þeirra bjuggu í Bandaríkjunum, giftust þar dönskum lyfsölum, bræðrum, að nafni Vinholt.
7) Jón Jónsson í Steinmóðshúsi og Guðrúnar Guðmundsdóttur. Jón var kallaður Guðrúnarson. Hann var drykkjumaður mikill og deyði af ofdrykkju. Hann var einn af þeim, sem fólk sagði um, „að logað hefði upp úr“.
8) Árni Árnason, seinna bóndi á Vilborgarstöðum, drukknaði 13. marz 1874 á sexæringnum Gauk. Kv. Vigdísi Jónsdóttur. Þeirra sonur: Árni Árnason (Grund), kv. Jóhönnu Lárusdóttur hreppstjóra á Búastöðum Jónssonar.
9) Jón Eiríksson Hanssonar bónda á Gjábakka, drukknaði 21 árs með föður sínum á sexæringnum Blíð, er fórst á Breka milli Elliðaeyjar og Bjarnareyjar í útilegunni 26. febrúar 1869.
11) Jóhann Jörgen Johnsen útvegsbóndi og kaupmaður í Vestmannaeyjum, sonur J. Johnsens kaupmanns í Flensborg í Hafnarfirði og Guðfinnu Jónsdóttur prests Austmanns á Ofanleiti, d. 1893. Kv. Sigríði Árnadóttur Þórarinssonar frá Hofi í Öræfum, síðar á Oddsstöðum. Jóhann gekk á verzlunarskóla erlendis um 1865. Börn þeirra hjóna: 1) Gísli kaupmaður og konsúll í Vestmannaeyjum, síðar stórkaupmaður í Reykjavík, kv. Ásdísi, d. 1945, Gísladóttur Stefánssonar kaupmanns.
— 2) Lárus verzlunarfulltrúi, hollenzkur vicekonsúll, d. 1930, kv. Halldóru Þórðardóttur Guðmundssonar frá Hól í Reykjavík. — 3) Sigfús bæjarfógeti í Vestmannaeyjum, kv. Jarþrúði Pétursdóttur prests Jónssonar á Kálfafellsstað. — 4) Guðni útvegsmaður og kaupmaður í Ásbyrgi hér, kv. Jóhönnu Erlendsdóttur Árnasonar trésmíðameistara í Reykjavík. Guðni dó 1921.
— 5) Árni bóndi og kaupmaður í Suðurgarði, kv. Margréti Jónsdóttur Guðmundssonar frá Suðurgarði.

2. flokkur.
Flokksforingi: Árni Helgason.
1. deild 2. deild
1. Jósef Sveinsson 7. Rósenkranz Eiríksson
2. Björn Runólfsson 8. Jónas Helgason
3. Jón Gíslason 9. Einar Árnason
4. Enginn 10. Oddur Þórarinsson
5. Runólfur Runólfsson 11. Hannes Jónsson
6. Magnús Jónsson 12. Enginn

Flokksforingi Árni Helgason bónda Jónssonar í Kornhól, bróðir nr. 4 í 1. fl., kv. Sesselju Vigfúsdóttur Einarssonar í Miðhúsum, er flutti til Ameríku 1888. Árni bjó í Norðurgarði og fór þaðan til Ameríku 1886. Árni Helgason hafði þótt röggsamlegur sem foringi. — Helgi Jónsson í Kornhól, Garðfjósi, drukknaði við Elliðaey 17. júní 1864.
1) Jósef Sveinsson, sonur Sveins bónda Sveinssonar í Háagarði, nr. 4 í 2. fl., sjá áður, þess er drukknaði 1869. Jósef drukknaði 21 árs gamall með föður sínum 26. febr. 1869.
2) Björn Runólfsson, sonur Runólfs Magnússonar bónda í Stóra-Gerði og Ingiríðar Björnsdóttur. Björn var smiður ágætur. Flutti til Ameríku 1887. Deyði þar um áttrætt 1934. Kv. Sigríði Sigvaldadóttur úr Skagafirði.
3) Jón Gíslason, sonur Gísla Jónssonar hreppstjóra í Presthúsum, er varð fyrir grjóthruni í Stórhöfða á fýlaferðum sumarið 1861. Jón fór til Noregs og kvæntist þar. Var hann lengi skipstjóri á norskum skipum og í förum milli landa.
5) Runólfur Runólfsson, sonur Runólfs Magnússonar í Stóra-Gerði, albróðir nr. 2. Runólfur fór til Utha í Bandaríkjunum 1881 ásamt konu sinni Valgerði Níelsdóttur. Varð Runólfur lúterskur trúboðsprestur í Spanish Forks í Utha um 1891, síðar í Jersey og Ballard, Wash. Séra Runólfur kom aftur til Íslands löngu seinna og varð sóknarprestur að Gaulverjabæ í Árnessýslu nokkur ár, en sagði af sér embætti og fór aftur vestur um haf. Börn þeirra séra Runólfs og Valgerðar konu hans, fædd í Vestmannaeyjum, voru: 1) Árni, 2) Loftur, 3) Sigríður, 4) Níels og 5) Karl. Loftur Runólfsson var faðir Alberts Runólfsson, er var í sjóher Bandaríkjanna í heimsstyrjöldinni, og hlaut hann heiðursmerki fyrir hugrekki og snarræði. Hann var skipaður aðstoðarskipstjóri á herskipi.¹⁵) Sigríður dóttir séra Runólfs giftist í Spanish Fork Katli Eyjólfssyni Guðmundssonar Ketilssonar frá Illugastöðum á Vatnsnesi.
6) Magnús Jónsson, sonur Jóns Samúelssonar á Löndum, forsöngvara við Landakirkju, og Evu dóttur séra Páls Jónssonar skálda. Magnús deyði 7. júní 1866, viku seinna en faðir hans.
7) Rósenkranz Eiríksson, bóndason frá Gjábakka, albr. nr. 9 í 1. fl., drukknaði 18 ára á sexæringnum Blíð 26. febr. 1869.
8) Jónas Helgason bónda Jónssonar í Kornhól, bróðir nr. 4 í 1. fl. og flokksforingja 2. fl. Jónas varð síðar bóndi í Nýjabæ. Börn hans og Steinvarar Jónsdóttur: 1) Jóhanna kona Sigurðar Þorsteinssonar í Nýjabæ, 2) Soffía og 3) Kristín.
9) Einar Árnason bónda og alþingismanns á Vilborgarstöðum Einarssonar, flokksstjóra 4. fl., síðar kaupmaður í Reykjavík, sjá áður.
10) Oddur Þórarinsson var sonur Þórarins Hafliðasonar, fyrsta mormónans hér, er drukknaði 1852, og konu hans Þuríðar Oddsdóttur, er síðar átti Jón bónda Árnason í Þorlaugargerði, sjá nr. 8 í 4. fl. Oddur fluttist síðar til Reykjavíkur með móður sinni og stjúpa.
11) Hannes Jónsson Hannessonar og Margrétar Jónsdóttur í Kastala. Hannes var bóndi í Miðhúsum, formaður mjög lengi og með þekktustu skipstjórnarmönnum hér á landi. Hann gegndi hafnsögumannsstarfinu í Vestmannaeyjum lengi. Hannes var fæddur 21. nóv. 1852 og deyði sumarið 1937. Lifði hann lengst Herfylkingarmanna, er kunnugt er um hér á landi. Kona hans var Margrét Brynjólfsdóttir Halldórssonar í Norðurgarði, sjá nr. 2 í 1. fl. Börn þeirra: 1) Jórunn kona Magnúsar Guðmundssonar kaupfélagsstjóra og bónda í Vesturhúsum, síðar á Helgafelli. Foreldrar Magnúsar voru Guðmundur Þórarinsson bóndi og sýslunefndarmaður í Vesturhúsum og kona hans Guðrún Erlendsdóttir, systir Guðmundar Erlendssonar í London, sjá bls. 300. — 2) Jóhannes verkstjóri, látinn, var allra manna hæstur, kv. Guðrúnu Jónsdóttur. — 3) Hjörtrós, látin, fyrri kona Tómasar Guðjónssonar kaupmanns, sjá nr. 3 í 1. fl. — Hannes var sæmdur riddarakrossi Fálkaorðunnar.

Vopnasmiðir Herfylkingarinnar voru:


1) Ólafur Guðmundsson í Kirkjubæ, kv. Guðrúnu Pálsdóttur prests Jónssonar. Þau skildu, voru barnlaus. Margrét dóttir Ólafs var bústýra hjá Kohl sýslumanni. Sonur hennar og Ólafs Gíslasonar var Eggert í Götu. Hann átti Margréti Markúsdóttur Vigfússonar frá Hólshúsi. Eggert fór til Vesturheims 1887. Um Davíð son Ólafs Guðmundssonar er áður getið, sjá nr. 5 í 3. fl.
2) Matthías Markússon prests á Álftamýri Þórðarsonar, trésmíðameistari í Landlyst. Kona hans var Solveig, dóttir séra Páls Jónssonar skálda. Börn þeirra: 1) Pálína, dó ógift í Reykjavík. — 2) Guðrún, ógift í Kaupmannahöfn. — 3) María kona Einars Pálssonar verzlunarstjóra á Akureyri. Þeirra börn: Matthías Einarsson læknir í Reykjavík, Solveig kona Bjarna Jónssonar fyrrv. bankastjóra á Akureyri, Páll kaupmaður á Húsavík og Snorri trésmiður í Ameríku. — 4) Jóhanna Magnúsína. — 5) Sigríður, ógift í Kaupmannahöfn. — 6) Matthías Matthíasson vátryggingarstjóri í Holti í Reykjavík, d. 1937, kv. Ragnheiði Thorarensen. Börn þeirra: Solveig símamær í Reykjavík, Bjarni bókari, Ragna, gift í Reykjavík, Matthías málari og Steingrímur loftskeytamaður. — 7) Jensína Björg kona Ásgeirs Eyþórssonar kaupmanns. Börn þeirra: Ásgeir bankastjóri, fyrrv. ráðherra, Ásta, gift í Reykjavík, Ragnar garðyrkjumaður, Árni sjómaður í Boston í U.S.A., Kristín, látin, Matthías garðyrkjuráðunautur í Reykjavík og Kormákur sjómaður í Boston.

Um áramótin 1857—1858 var Herfylking Vestmannaeyja skipuð eins og að framan er lýst. Voru í henni 62 fullorðnir menn að meðtöldum yfirmönnum. Í drengjasveitinni voru 19 auk flokksforingjanna tveggja. Eins og áður segir voru vopn þau, er stjórnin sendi 1855, eigi nema handa helmingi hersveitarmannanna, svo að hinn helmingurinn mátti láta sér lynda að nota trévopn. Úr þessu var síðar bætt og vopn fengin öllum.
Sýslumaðurinn, kapteinn von Kohl, hafði sjálfur á hendi alla aðalstjórn Herfylkingarinnar. Þjálfun foringja og liðsmanna var og hans verk og lagði hann í það mikla vinnu. Fyrst eftir að Herfylkingin var stofnuð var venja að fylkja liðinu á grasgrundunum vestur af Löndum og þar voru æfingarnar haldnar.
Þegar búið var að koma upp þinghúsi Vestmannaeyja var liðinu stefnt þangað, er því var safnað til heræfinga.
Þinghúsi Vestmannaeyja var komið upp fyrir frábæran dugnað og áhuga Kohl sýslumanns. Gamla þinghúsið á Hvítingum var fyrir löngu úr sögunni. Voru þinghöldin venjulegast hjá hreppstjóra, þannig alllengi í Nýjabæ hjá Magnúsi Austmann. Kohl hófst handa til byggingar hins nýja þinghúss, og voru allir ráðandi menn hér því máli mjög fylgjandi. Veitti sveitarsjóður Vestmannaeyja lán af inneign sinni í jarðabókarsjóði, 600 rd., upp í kostnað við byggingu þinghússins. Hafði Kohl útvegað leyfi stjórnarinnar til þessarar lántöku og gekk um það bréf dómsmálaráðuneytisins 16. febr. 1859.¹⁶) Þetta lán var seinna gefið eftir, sbr. bréf ráðuneytisins frá 1866. Þinghúsið var fullbyggt 1858. Það var að lengd 20 álnir og 10 álnir á breidd. Grjótveggir undir og austurgaflveggur hlaðinn af grjóti. Standþilgafl að vestan með vængjahurðum og bogagluggi yfir dyrum og að auki sinn bogaglugginn hvorum megin þeirra, 4 gluggar á veggjum, einn bogagluggi á austurgafli. Þak úr timbri. Á vesturgafli var 8 daga sigurverk, að ofanverðu slíður fyrir 12 byssur og merkisstöng. Þingstofan var í vesturenda hússins, stór stofa með hvelfingu. Þar var borð og útskornir stólar, 2 hvílubekkir og 2 ljósastikur, hrákadallar með veggjum o.fl. Í salnum var safn af uppdráttum ýmsra landa. Á töflu, er hékk frammi, voru ritaðar reglur, er gæta skyldi innanhúss. Í þinghússborðinu voru geymd ritföng og bækur voru þar, er menn gátu lesið í í tómstundum. Var þetta fyrsti vísir að bókasafni hér. Í austanverðu húsinu var bálkur mikill og breiður, uppi á honum voru bekkir, en undir bálka þessum voru 3 fangaklefar og gengið í þá að utanverðu inn um dyr á austurgafli. Þinghúsið var notað mikið í þágu Herfylkingarinnar og þar í húsinu var vopnabúrið. Voru byssurnar reistar umhverfis stöpul, ásamt hermerkjunum. Á flaggstöngina á burstinni var vitaflaggið undið upp, er hermennirnir skyldu mæta. Yfir aðaldyrum þinghússins og eins yfir dyrum á norðurveggnum var kórónumerkið. Það smíðaði Magnús Eyjólfsson silfursmiður. Á vesturgaflinum voru með stórum stöfum dregin upp einkunnarorðin: Þinghús Vestmannaeyja. Ártalið 1858 var á vindhana á burstinni.
Þinghúsið varð fljótt eins konar miðstöð fyrir samkomur og mannfundi hér. Þótti það hið prýðilegasta í alla staði, svo að annað eins hús, að frátalinni kirkjunni, hafði eigi sézt hér eða í nærhéruðunum á landi.
Eins og áður segir var herliðinu safnað saman fyrir framan þinghúsið, og var þar fylkt liði. Síðan hafin herganga inn á Flatirnar við Brimhóla. Þar voru sléttar og harðar valllendisgrundir og mjög hentugar fyrir æfingar. Í hvert sinn, er æfingar voru haldnar, var gefin út skrifleg fyrirskipun um það samkvæmt flokksreglunum. Fyrirskipunina undirritaði fylkingarstjórinn og með honum yfirflokksforinginn. Við yfirflokksforingjastöðunni hafði Jón Salómonsen fljótt tekið í forföllum Kristjáns Magnússonar. Í fyrirskipununum var ætíð getið, hvar æfingarnar áttu að fara fram.
Liðinu var fylkt þannig, að fyrst var mynduð bein röð og voru þá tveir og tveir saman, síðan myndaðar fjórar raðir, eins og flokkarnir voru margir, að viðhöfðu sérstöku fyrirkalli. Með því að Herfylkingin hafði í fyrstu engan lúðurþeytara, varð fylkingarstjórinn að gefa tákn með blístru, svo sem „Charger“ með einu löngu hljóði, „Holdt“ með tveim löngum tónum og „Hold inde med Chargeringen“ með þrem löngum hljóðum. Merki, er táknuðu áfram og til baka, voru gefin með bumbunni. Flokksforingjarnir skyldu fylgjast vel með höfuðbeygingum öllum, merkjum og táknum, er fylkingarstjórinn gaf, og kenna undirmönnum sínum, hvað hvert merki táknaði. Herflokkurinn hafði bezta aðstöðu til að starfa seinni part sumars eftir að aðalannir voru úti um haustið og fyrri part vetrar áður en vertíð og vertíðarundirbúningur hófst. Æfingar voru í hverri viku einu sinni eða tvisvar. Mestur tíminn fór til æfinga og líkamsþjálfunar margs konar, og þaulæft vopnaburður, vopnfimi og skotfimi. Þess á milli voru haldnar hergönguæfingar og á sunnudögum hergöngur til skemmtunar og tóku eyjabúar almennt þátt í þeim, og gekkst Herfylkingin fyrir útiskemmtunum, er haldnar voru fyrir almenning hér í Herjólfsdal. Stundum gerði hersveitin mönnum heimsóknir og þáðu góðgerðir. Skemmtanirnar í Herjólfsdal frá þessum tímum munu hafa orðið vísirinn að þjóðhátíð eyjamanna í Herjólfsdal.
Hergöngur hófust eins og áður segir frá þinghúsinu, en það var opnað einni klukkustund áður en liðið safnaðist þar. Til hergöngu og heræfinga var boðað með því að draga flagg að hún á þinghúsinu. Það annaðist yfirflokksstjórinn. Fyrst hafði hersveitin óvandað grátt flagg, en brátt eignaðist Herfylkingin löggilt hersveitarflagg með fangamarki Friðriks konungs VII. Æfingarnar stóðu oft yfir um 4 stundir og lengur. Að enduðum æfingum var flaggið dregið niður. Þingstofan var notuð sem eins konar varðstofa og þar lágu heræfingareglurnar frammi. Þangað hafði Kohl útvegað ýmsar bækur, bæði er lutu að heræfingum og ýmsar almennar fræðibækur og sögur. Var þetta eins og áður getur fyrstu drögin að almenningsbókasafni hér. Herfylkingarmenn, en það voru nær allir karlmenn eyjanna, komu saman til fundahalda í þinghúsinu. Þar hvatti Kohl menn mjög til að eyða frístundum sínum við bókalestur og æfa sig í skrift og reikningi, heldur en að híma við búðarborðin, eins og mjög hafði tíðkazt hér. Húsið var vel um gengið og hirt.
Fangahúsið var eins og áður segir í öðrum enda þinghússins. Með þeirri röggsamlegu lögreglustjórn, er nú var hafin, og ótrauðu baráttu gegn alls konar drykkjuskaparóreglu, kom það einatt fyrir fyrstu árin á vertíð og kauptíð að nota varð fangahúsið til að geyma þar óróaseggi. En fljótt gerðist þessa minni þörf eftir að bindindishreyfingin var hafin í Vestmannaeyjum, er kom í mjög góðar þarfir. Oft var kvartað yfir drykkjuskap hér, eins og áður segir. Finnst þess getið bæði á 17. og 18. öld og framan af 19. öldinni, og óknyttir og agaleysi í sambandi þar við, sbr. stiftamtmannsbréf, svo að erlendir kaupmenn og skiparar færðust jafnvel undan því að sigla til eyjanna.¹⁷) 1831 kærði sóknarprestur eyjanna fyrir sýslumanni ósæmilegt framferði drukkinna manna í Landakirkju á gamlárskvöld nefnt ár og svo aftur á nýjársdag. Þeir, sem kærðir voru, hlutu sektir og var þeim eftir þetta, sem og öðrum, er kunnir voru að drykkjuskap, bannað sæti í kór. Mennirnir voru Geirmundur Ólafsson á Oddsstöðum, Ólafur Jónsson í Dölum og Sigurður Sigurðsson vinnumaður í Hólmfríðarhjalli.
Herfylkingarmennirnir höfðu félagsskap með sér, eins og kom fram í ýmsu. Til þeirra skyldi öðrum framar leita um aðstoð og hjálp, ef á þurfti að halda, svo sem ef veikindi bar að. Það var og skylda allra, sem í Herfylkingunni voru, að fylkja sér undir merki og mæta við jarðarfarir látinna félaga. Mætti Herfylkingin undir fána með fylktu liði við jarðarfarirnar og mikil viðhöfn sýnd. Sá fyrsti, er lézt af mönnum Herfylkingarinnar, var Einar Guðmundsson bóndi á Steinsstöðum, er hrapaði í Ofanleitishamri vorið 1858. Greftrunardag hans var Herfylkingarmönnum boðið að safnast saman og fylkja sér við þinghúsið. Var síðan hafin ganga þaðan að Steinsstöðum, hálfrar klukkustundar veg. Sorgarflagg var borið fyrir. Foringjar mættu í einkennisbúningum og liðsmenn báru hersveitareinkenni sín. Síðan fylgdi flokkurinn til kirkju og báru félagarnir kistuna í kirkjugarð. Með svipuðum hætti var um jarðarfarir annarra félaga.

Heimildir neðanmáls í þessum hluta:
15) Minningarrit íslenzkra hermanna 1914—1918, Winnipeg 1923, bls. 96, 258.
16) Stiftamtsskjalasafn í Þjóðskjalasafni í Reykjavík.
17) Sýsluskjöl Vestmannaeyjasýslu IV, I, Þjóðskj.s.

4. hluti

Til baka


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit