Ágústína Þórðardóttir

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Ágústína Þórðardóttir frá Rauðafelli u. A-Eyjafjöllum, húsfreyja á Austari Vilborgarstöðum, fæddist 4. ágúst 1883 og lézt í Eyjum 18. júlí 1966.

Loftur og Ágústína á Vilborgarstöðum um 1950.

Ætt og uppruni

Foreldrar Ágústínu voru Þórður bóndi á Rauðafelli, f. 19. febrúar 1834, d. 8. október 1911, Tómasar bónda og smiðs á Ásólfsskála 3 (1845), f. 1790, d. 1854, Þórðarsonar og konu (14. október 1824) Tómasar bónda, Margrétar húsfreyju, f. 1796, Jónsdóttur, Björnssonar ríka, Jónssonar. Móðir Ágústínu og kona (28. júlí 1865) Þórðar á Rauðafelli var Guðrún húsfreyja, fædd í Ásólfsskálasókn 7. desember 1843, d. 1. apríl 1927, Tómasar bónda í Varmahlíð 1845 og 1870, f. 1809, d. 1890, Sigurðssonar stúdents, Jónssonar og konu Tómasar í Varmahlíð, Sigríðar húsfreyju, f. 1812, d. 1876, Einarsdóttur, Högnasonar.

Lífsferill

Ágústína var hjá foreldrum sínum að Rauðafelli 1890, var vinnukona í Selkoti 1901 og í Skarðshlíð 1910. Húsfreyja í Eyjum var hún frá 1913.
Þau Loftur bjuggu fyrst í Háagarði hjá fósturforeldrum Lofts, þeim Þorsteini Ólafssyni og Ingibjörgu Hjörleifsdóttur, síðan í sambýli við Sigfús og Sesselju í Heiðarhvammi. Þau Loftur fengu byggingu fyrir Austari-Vilborgarstöðum 1930 og reistu nýtt hús frá grunni. Þótti húsið og umhverfið sérlega snyrtilegt alla búaskapartíð þeirra. Á Austari-Vilborgarstöðum ráku þau nokkurn búskap með kúm og sauðfé.
Maður Ágústínu (17. nóvember 1912) var Loftur Jónsson, f. 13. júlí 1891, d. 2. maí 1981.
Barn þeirra:
Guðrún kaupkona, f. 18. júní 1920, gift Herði Sigurgeirssyni ljósmyndara, f. 1914, d. 1978.

Ættbogi í Eyjum

Systir Ágústínu var Vilborg Þórðardóttir húsfreyja í Eyjum 1930, móðir Þórðar Stefánssonar skipstjóra og útgerðarmanns í Haga, síðast í Reykjavík, f. 15. júní 1893, d. 18. nóvember 1980; og hún var móðir Sigríðar Stefánsdóttur, f. 25. janúar 1895, d. 23. júlí 1978, en hún var móðir Stefáns Harðar Grímssonar ljóðskálds og Borgars Tómasar Grímssonar sjómanns, f. 1921, d. 1954, sem fóstraður var hjá Vilborgu Þórðardóttur og Jóni Bjarnasyni.
Önnur systir Ágústínu var Margrét móðir Kjartans Þórarins Ólafssonar fiskimatsmanns, síðast í Reykjavík, f. 2. apríl 1913, d. 25. apríl 1990.
Bróðir Ágústínu var Þórður faðir Jónínu Þórðardóttur, sem var í Klöpp, síðan í Keflavík, en síðast að Brekastíg 10 í Eyjum, f. 12. apríl 1909, d. 16. marz 1994, og Leifs, sem var fósturbarn í Breiðholti í Eyjum 1910, f. 20. júlí 1906, d. 4. maí 1930.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.