Taflfélag Vestmannaeyja
Taflfélag Vestmannaeyja var stofnað árið 1926.
Stofnun félagsins
Stofnfundur Taflfélags Vestmannaeyja var haldinn sunnudaginn 29. ágúst 1926, en um þetta segir í Skeggja 4. september 1926: "Taflfélag var stofnað hér s.l. sunnudag. Meðlimir eru þegar orðnir allmargir." Stjórn félagsins skipa þeir: Hermann formaður, bæjarstjóri Kristinn Ólafsson, Reyni, ritari Magnús Bergsson, Tungu, gjaldkeri, og geta þeir sem vilja gerast meðlimir félagsins snúið sér til þeirra." Stofnendur félagsins voru níu einstaklingar:
- Sigurður Sveinsson, Sveinsstöðum
- Magnús Jónsson, Bergsstöðum
- Kristinn Ólafsson, Reyni
- Magnús Bergsson, Tungu
- Sigurður Þórðarson, Gerði
- Sigurbjörn Sveinsson, Sólbergi
- Halldór Guðjónsson, kennari, Sólbergi
- Hermann Benediktsson, Godthaab
- Ólafur Magnússon, Sólvangi
Ólafur og Kristinn á Reyni, sem þá var hér bæjarstjóri, munu hafa verið frumkvöðlar að stofnun félagsins.
Fyrsti formaður félagsins var kosinn Hermann Benediktsson. Fljótlega bættust fleiri í félagið og 2. september 1926 voru neðangreindir ellefu einstaklingar teknir inn í félagið:
- Þórhallur Gunnlaugsson, Símstöð
- Stefán Guðlaugsson, Gerði
- Jóhann P. Jónsson, Grímsstöðum
- Magnús Sveinsson, Reykholti
- Kjartan Guðmundsson, (ljósmyndari)
- Þorsteinn Steinsson, Sólnesi
- Karl Sigurhansson, Brimnesi
- Gunnar Jónatansson, Stórhöfða
- Hjalti Jónatansson, Stórhöfða (16 ára)
- Jón Bjarnason, Valhöll
- Geir Guðmundsson, Geirlandi
Á fyrsta mótinu, þar sem átta félagsmenn tefldu, urðu Ólafur Magnússon og Halldór Guðjónsson efstir og jafnir með 6 vinninga af 7 mögulegum. Á fundi hinn 13. október 1926 voru samþykkt lög fyrir félagið og er hér til gamans úrdráttur úr þeim: 1. gr. Nafn félagsins er Taflfélag Vestmannaeyja 2. gr. Tilgangur félagsins er að auka og efla útbreiðslu tafllistarinnar í Vestmannaeyjum 13. gr. Ef veðjað er um skákir í félaginu, skal helmingur af veðfénu renna í verðlaunasjóð 15. gr. Um hver áramót skal félagið halda Skákþing Vestmannaeyja. Er taflfélagsmönnum og öllum öðrum búsettum mönnum í Vestmannaeyjum heimil þátttaka. Skulu verðlaun veitt og hlýtur sigurvegarinn nafnbótina Skákkonungur Vestmannaeyja.
Fljótlega komst tala félaga í 44. Á aðalfundi í febrúar 1929 er valin sveit í símakappskák sem háð var við Taflfélag Reykjavíkur 24. febrúar. Þessir tefldu fyrir TV í þeirri keppni:
- Hermann Benediktsson, Godthaab
- Magnús Bergsson
- Halldór Guðjónsson, kennari Sólbergi
- Gunnar Jónatansson, Stórhöfða
- Hjalti Jónatansson, Stórhöfða
- Kristján Kristófersson
- Kjartan Guðmundsson (ljósmyndari)
- Kjartan Jónsson
- Karl Sigurhansson, Brimnesi
- Jóhann Gunnar Ólafsson, (síðar bæjarstjóri)
Stóð skákin frá laugardagskvöldi til kl. 10 á sunnudagsmorgni og unnu Reykvíkingar með 4,5 v á móti 3,5 v.,, en tvær skákir voru óútkljáðar.
Í Víði 1. desember 1928 birtiast svohljóðandi grein skrifuð af Skákvini undir fyrirsögninni Talffjelag Vestmannaeyja: "Fyrir tveim árum stofnuðu nokkrir áhugasamir menn fjelag, er þeir nefndu Taflfjelag Vestmannaeyja. Skáklistin hefur lengi verið iðkuð hjer á landi og nú á síðari árum hefur áhuginn fyrír þessari göfugu íþrótt aukist mikið. — Mun það ekki síst að þakka þeirri nýbreytni, að íslendingar tóku að keppa við aðrar þjóðir í íþrótt þessari og gátu sjer góðan orðstír, með því að sigra Norðmenn. Áhuginn breiddist út um land, og þá var það, að T. V. var stofnað. Óx fjelagi þessu brátt fiskur um hrygg og eftir örstuttan tíma taldi það yfir 30 meðlimi. Síðan hefur meðlimatalan raunar ekki hækkað að mun, en áhuginn hefur haldist, þrátt fyrir ýmsa örðugleika, sem alltaf verða á vegi fámennra og fátækra fjelaga. Taflæfingar hafa verið af skornum skammti, en kappskákir hafa verið háðar árlega. Auk þess hefur T. V. tvisvar teflt símakappskák við Reykvíkinga og einu sinni við Hafnarfjörð. Það er alltaf metnaðarmál fyrir hvern bæ að vinna, og mætti halda, að Vestmannaeyingar hefðu fylgst vel með og haft áhuga fyrir þessu. En því hefur tæpast verið fyrir að fara hjer. Samt kefur T. V. orðið okkur öllum til sóma. Við ofurefli hefur verið að etja, þar sem Taflfjelag Reykjavíkur er, besta skákfjelag landsins. Hafa I. og II. flokks menn þess fjelags keppt við II. og III. flokks menn hjer. Úrslitin hafa verið jafntefli bæði árin. Í fyrra keppti T. V. við Hafnarfjörð, og vann glæsilegan sigur. Næstu sunnudagsnótt fer fram kappskák milli Hafnarfjarðar og Vestmannaeyja. Munu Hafnfirðingar hugsa til hefnda, en líklegt er, að Vestmannaeyingar láti ekki sinn hlut, fyrr en í fulla hnefana."
Í blaðinu Víði, 18. desember 1929 segir: "Taflfjelag Vestm.eyja. Kappskák stendur yfir og er kept um titilinn Taflkonungur Vestm.eyja. Keppendur eru 18. Taflfjel. hefur nú leigt sjer húsnæði að Fífilgötu 5 og eru taflæfingar 4 sinnum í viku."
2. febrúar 1930 var haldinn aðalfundur í félaginu og var stjórnin endurkjörin í einu hljóði en einnig kom fram að stjórnin hefði farið fram á það við TR að 12 menn úr 2. flokki tefldu næstu laugardagsnótt en tekið var fram að ekki væri enn komið svar frá Reykvíkingunum. Þá var samþykkt hverjir myndu tefla í þessari keppni og voru það allir sömu menn og tefldu árinu áður nema Magnús Bergsson en þessir bættust við hópinn:
Upp úr þessu virðist svo sem starf félagsins hafi dalað og margar ástæður sagðar fyrir því, m.a. húsnæðisvandamál, kreppan, útbreiðsla bridge íþróttarinnar, flutningur félagsmanna (Stórhöfðabræðra) upp á land og fleira.
Svo segir í Víði 22. september 1934 undir fyrirsögninni Taflfélag: "... Veðrið er einnig farið að versna svo ekki er hægt að eyða frístundum sínum, — kvöldunum — úti. En hvað á þá að gera til þess að láta tímann líða? Það getur reyndar verið álitamál hvað helst á að gera, en ég er viss um að hverjum einasta manni, sem kann að tefla, þykir tíminn líða fljótast og skemmtir sér best við að sitja og tefla við félaga sína og skáka, máta —, og tapa. En; Nú vill svo illa til, að hér er ekki til neitt taflfélag núna, sem má þó þykja skömm, því að í næstum hverju einasta kauptúni, hvað þá kaupsttöðum á landinu, er til taflfélag og í þeim stytta menn sér hinar ömurlegu kveldstundir að haustinu til. Til þess að reyna að bæta úr þessu hafa nokkrir taflmenn hér tekið sig saman um að reyna að koma upp taflfélagi, en ef þetta á að takast verða allir þeir, sem hafa skemmtun af umræddu, að vera samtaka um að koma og stofna hér félag, sem getur starfað í allt haust, — án þess að vera alltaf með öndina í hálsinum. Þeir, sem ætla sér að vera með í þessu tilvonandi félagi ættu því sem fyrst að gefa sig fram við Karl Sigurhansson, sem allir þekkja og vita hvar er að hitta." Undir þetta er ritað Z.
Sem sagt, þá varð fimm til sex ára hlé á starfsemi félagins frá 1930 og það var ekki fyrr en 1936, hinn 3. september, sem félagið virðist lifna við að nýju, þegar boðað er til fundar að Hótel Berg fyrir það fólk sem áhuga hefði á skáklist.
Blómaskeiðið eftir 1936
Hinn 3. september 1936 er haldinn fundur á Hótel Berg "fyrir það fólk er áhuga hefði fyrir skáklist" eins og segir í fundargerðinni. Á fundinn mættu 10 manns og 8 af þeim ákváðu að vera með "og virtust fundarmenn aðallega hallast að því að Taflfélag Vestmannaeyja, sem búið var að liggja niðri og ekkert hafði starfað frá 1930 yrði lífgað við" eins og stendur í fundargerðinni. Ákveðið var að undirbúa fund og var til þess kosin nefnd sem skyldi finna húsnæði fyrir "taflfundi" og auglýsa síðan fundarhöld. Í undirbúningsnefndina voru kosnir þeir Karl Sigurhansson, Brimnesi, Pálmi Ingimundarson og Gísli Finnsson. Á fundinum voru einnig mættir þeir Hjálmar Theódórsson, Gunnar Magnússon, Anton Jóhannsson, Jónas Lúðvíksson og Karl Jónsson. Hinn 11. október 1936 var síðan haldinn aðalfundur TV og Karl Sigurhansson, Brimnesi kosinn formaður félagsins, en aðrir í stjórn Hjálmar Theódórsson ritari og Gísli Finnsson gjaldkeri. Segir í frétt í Víði 27. febrúar 1937 um endurreisn félagsins haustið 1936, "sem búið er að liggja niðri og ekkert hafði starfað síðan árið 1930".
Taflfélagið var lífgað við á aðalfundinum haustið 1936 og þá voru líka ýmis framfaramál á dagskrá t.d. var samþykkt að senda Skákfélagi Keflavíkur áskorun í keppni og koma á bréfaskákum við önnur skákfélög inn- og útlend. Þá var bókað um að fengist hafi innflutningsleyfi á skákritum fyrir allt að 100 krónur og gilti leyfið til áramóta. Loks var samþykkt að sækja um í Skáksamband Íslands. Heiðursfélagi var kosinn Sigurbjörn Sveinsson, Sólbergi. Sunnudaginn 15. nóvember 1936 tefldi Hjálmar Theódórsson frá Húsavík samtímaskák við 13 menn úr Taflfélagi Vestmannaeyja og vann 9 en tapaði 4 skákum.
Af minnistæðum mönnum sem tefldu með félaginu á árunum eftir 1936 voru nefndir Karl Sigurhansson, sem tefldi skák á vetrum og var einn besti langhlaupari landsins. Hjálmar Theódórsson frá Húsavík var aðaldriffjöðurin í félaginu og hafði, þegar þarna var, gerst ársmaður hjá Helga Ben., hann var mikill félagsmálamaður og kappsamur og varð síðar skákmeistari Norðurlands og komst í landsliðsflokk. Þá er Björn Kalman lögfræðingur minnisstæður en hann hafði teflt í Ameríku um aldamótin og var á fyrstu árum aldarinnar einn af sterkustu skákmönnum þjóðarinnar. Hjalti í Vitanum hafði góðan stíl og Rafn Árnason frá Gröf var mikið efni. Hann gerðist farmaður og féll frá fyrir aldur fram.
Í þessa tíð tíðkuðust símskákir, sem stóðu frá kl. 21 að kvöldi til 8 að morgni eða þegar símstöðin var lokuð og var þá oft glatt á hjalla og Loftur kennari, sem var símstjóri félagsins, lét marga vísuna fljúga eftir línunni. Á þessum árum hafði félagið um tíma aðsetur í herbergi á Vesturhúsum til æfinga.
Símskákin við Keflvíkingana fór fram nóttina 17. október og unnu Eyjamenn með 7,5 á móti hálfum vinningi Keflvíkinganna. Viku seinna var háð símskák við Taflfélag Hafnarfjarðar og unnu TV menn þá viðureign einnig 5,5 á móti 2,5 vinningi. Í Morgunblaðinu 29. október 1936 er sagt frá úrslitum þeirrar viðureignar.
Sveit TV á móti Keflvíkingum var skipuð eftirtöldum:
- 1. borð Hjálmar Theódórsson
- 2. borð Karl Sigurhansson
- 3. borð Halldór Guðjónsson
- 4. borð Hermann Benediktsson
- 5. borð Sigurður Finnsson
- 6. borð Karl Ólafsson
- 7. borð Ársæll Sigurðsson
- 8. borð Þorgrímur Einarsson
Á móti Hafnfirðingum unnu þeir Hjálmar Theódórsson, Halldór Guðjónsson og Hermann Benediktsson sínar skákir en hinr fimm gerðu jafntefli. Fyrir Sigurð og Þorgrím komu þessir inn, en aðrir færðust neðar sem því nam :
- 3. borð Vigfús Ólafsson
- 6. borð Björn Kalman
Á meðlimaskrá félagsins veturinn 1936 til 1937 voru 30 nöfn þessa manna: Hjálmar Theódórsson, Karl Sigurhansson, Vigfús Ólafsson, Loftur Guðmundsson, Ársæll Sigurðsson, Jón Guðjónsson, Arnbjörn Sigurgeirsson, Kristján Kristófersson, Þorsteinn Einarsson, Halldór Guðjónsson, Sigurður Finnsson, Þorvaldur Sæmundsson, Árni Stefánsson, B P Kalman, Björgvin Petersen, Einar Jóhannesson, Arngrímur Ingimundarson, Hinrik Gíslason, Sigurbjörn Árnason, Friðrik Matthíasson, Sigurbjörn rithöfundur og heiðursfélagi TV, Friðrik Sigfússon, Hermann Benediktsson, Karl Ólafsson, Karl Jónsson, Gísli Finnsson, Gísli Johansen, Pálmi Ingimundarson, Jón Hannesson og Jón Jónsson.
Það sýnir best eldhug manna um þetta leyti að í apríl árið 1937 var lagt í það stórvirki að fá þýska skákmeistarann Ludvik Engels, sem staddur var í Reykjavík, hingað til þess að kenna skák í tvær vikur. Hann varð frægur er hann vann skák af heimsmeistaranum Aljekín. Til þess að fá hann hingað var leitað til ýmissa velunnara í bænum og safnað fé til greiðslu kostnaðar af komu Engels og gekk sú söfnun framar öllum vonum. Engels tefldi hér nokkur fjöltefli og það fyrsta við 23 menn úr félaginu, þar sem hann vann 16 skákir, tapaði 5 og gerði 2 jafntefli. Þegar Engels fór var honum haldið kveðjusamsæti á Hótel Berg, 23. apríl 1937. Engels var leystur út með gjöfum, þ.m.t. var honum gefin leirstytta af íslenskum sjómanni og þakkarskjal "... fyrir hingað komu hans í þágu skáklistarinnar ... ". Loftur Guðmundsson, rithöfundur, flutti þakkarávarp bæði á íslensku og þýsku.
Þegar Engels var hér birtist eftirfarandi frétt í Víði 16. apríl 1937: "Luðvig Engels, skáksnillingurinn þýski dvelur hér um tíma og teflir við skákmenn hér og leiðbeinir þeim. Nýverið tefldi hann við bestu menn þeirra á átta borðum. Frammistaða Vestmannaeyinganna mátti kallast góð, þar sem taflfélag hefir ekki verið starfandi í 5-6 ár og lítið verið teflt. Þeir fengu 3,5 vinning, alveg eins og Reykvíkingar fengu er L. E tefldi við þá á jafn mörgum borðum. Væntanlega dvelur L. Engels hér í nokkra daga enn og munu taflfélagar vafalaust hafa gott af því."
Þannig var mikill uppgangur í félaginu allt þar til 1939, þegar svo virðist sem starfið hafi lagst niður á nýjan leik, því ekkert er skráð í fundargerðarbækur þar til 8. október 1944, þegar félagið er endurvakið enn á ný.
Í Víði 15. maí 1937 skrifar Hjálmar Theódórsson kveðju- og hvatningarræðu til skákmanna undir fyrirsögninni Skák ! skák! : "Eina spilið sem ekkert er komið undir keppni er skákin!. Báðir teflendur standa jafnvel að vígi í byrjun. Það verður því aldrei of vel brýnt fyrir byrjendum að athuga vel við hvern þeir eru að leika og sömuleiðis að sjá hvers vegna mótteflandinn leikur þessum leik en eigi öðrum. Á því má best læra skák, auk þess að æfa hana vel, því án æfingar verður enginn góður taflmaður. Sannast þar að enginn verður óbarinn biskup. Skáktaflið táknar tvo herflokka, sem eru jafnsterkir og jafnir að vígi, og reynir hver herflokkurinn fyrir sitt leyti að ná kóngi óvinahersins á vald sitt. Bardaganum er þannig háttað, að sinn maðurinn stjórnar hreyfingum hvers herflokks, og flytja þeir menn sína á víxl, frá einum reit til annars, eftir því sem gangur þeirra mælir fyrir. Herkænska og hugvit teflenda hefur því gott tækifæri tii þess að sýna sig. Þar sem ég er nú á förum héðan úr Vestmannaeyjum, þá vil ég nota tækifærið og þakka öllum meðlimum Taflfélags Vestmannaeyja fyrir samstarfið, og óska þeim alls góðs á sviði skáklistarinnar í náinni framtíð. Með skákkveðju. Hjálmar Theódórsson."
Í lok stríðsins
Á fundinum 8. október 1944 er kosinn stjórn félagsins og kemur þá formannsstarfið í hlut Halldórs Ó. Ólafssonar, en fyrrverandi formaður, Karl Sigurhansson, er gjaldkeri og Vigfús Ólafsson ritari. Á fundinum skýrði Ragnar Halldórsson, tollvörður frá því að hann hafi góða von með að hægt verði að fá skákklukkur frá Akureyri.
Þótt eyður komi í skráða starfsemi félagsins, bæði hluta ársins 1937, allt árið 1938 og aftur 1940 allt fram í október 1944, þá var vitað að alltaf öðru hvoru var verið að tefla á þessum árum. Þó er unnt að ímynda sér að stríðsárin hafi breytt ansi miklu í sambandi við allt félagslíf, því nú verður atvinna það mikil að allir hafa meira en nóg að starfa.
Skömmu eftir fundinn 1944 er byrjað að heyja kappskákir milli austur- og vesturbæjar og er þá teflt á 10 borðum, en ekki er getið um úrslit. Þá er byrjað að skipta mönnum í flokka, í fyrsta flokki eru 9 menn, þá er í öðrum flokki A og B sveit með 8 menn og í þriðja flokki eru 6 menn. Þarna er að myndast sterkur kjarni góðra skákmanna og úr þessum kjarna verður til eitt sterkasta lið, sem Eyjamenn hafa eignast um áraraðir.
Í Víði 2. febrúar 1945 birtist eftirfarandi frétt um Skákþing Vestmannaeyja: "I haust gerðu nokkrir skákmenn hér tilraun til að hefja að nýju starf í Taflfélagi Vestmannaeyja, en það hafði ekki starfað um nokkurn tíma, Tókst þetta vel og hafa teflt í vetur milli 20 og 30 manns. Hefur félagið notið góðvilja Akóges hvað húsnæði snertir og fengið að halda þar fundi. Starfsemi sína síðastliðið ár endaði félagið með að halda skákþing Vestmannaeyja. Var keppt í þremur flokkum pg öllum, sem eiga hér heima heimil þátttaka. Fyrsti flokkur keppti tvískiptur. Í A flokki vann Sigurþór Halldórsson með 4 vinningum af 5 mögulegum. Annar var Angantýr Elíasson með 3,5 vinning. Í B. flokki vann Vigfús Ólafsson með 4 vinningum og vann alla. Annar var Karl Sigurhansson með 2,5 vinning. Kepptu þessir menn svo til úrslita og vann Vigfús alla aftur. Annar var Angantýr. Í 2. flokki vann Helgi Benónýsson með 4 vinningum og vann alla. Í 3. flokki vann Högni Sigurjónsson með 4 vinningum. Hefur nú verið ákveðið að stofna meistaraflokk innan félagsins. Eiga sæti í honum Árni Stefánsson, Friðbjörn Benónýsson, Karl Sigurhansson og Vigfús Ólafsson. Nýlega vann Árni í 1flokki í Reykjavík með ágætri útkomu. Hefur hann skorað á Vigfús í átta skákir og stendur sú keppni nú yfir. Í fyrsta flokki eru efstir Freimóður Þorsteinsson og Angantýr. Skáklistin er ein besta íþrótt, sem menn iðka í frístundum sínum. Ættu allir skákunnendur að ganga í félagið og styrkja þar með skáklíf Eyjanna og reyna að auka hróður þeirra í þessari fögru, en vandlærðu íþrótt."
Hinn 2. júní 1945 fer héðan fríður flokkur skákmanna til að keppa við skákmenn á Suðvesturlandinu. Sagt var frá þessari frægðarför í Víði 22. júní 1945, en umfjöllunin lauk með þessum orðum: "Þessi glæsilega ferð Taflfélags Vestmannaeyja gefur ótvírætt til kynna að skáklíf stendur hér nú með meiri blóma en oft áður og er það vel. Skákin er þroskandi íþrótt, sem flestir ættu að iðka sér til þroska og afþreyingar. Megi skáklíf Eyjanna blómgast um ókomin ár." Farið var með m/b Gísla Johnsen VE 100 og lagt af stað kl. 7 um morguninn til Stokkseyrar og var komið þangað kl. 12 á hádegi. Daginn eftir var keppt við sameinað lið Selfoss og Stokkseyrar og unnu Eyjamenn með 3,5 á móti 2,5 vinningum. Um kvöldið var haldið til Reykjavíkur og 4. júní keppt við Taflfélag Hafnarfjarðar og fóru leikar 4:4. Hinn 5. júní var teflt við vistmenn á Vífilsstöðum og þar vannst sigur með 5,5 vinningum gegn 2,5. Þann 6. júní var teflt við Taflfélag Keflavíkur og vann TV með 9 vinningum á móti 4 og loks var sest hinn 7. júní á móti liði Reykvíkinga og gert jafntefli 4-4. Árangurinn var því stórkostlegur, en liðið var skipað eftirtöldum :
- 1 borð Vigfús Ólafsson
- 2 borð Friðbjörn Benónýsson
- 3 borð Árni Stefánsson
- 4 borð Rafn Árnason, Gröf
- 5 borð Karl Sigurhansson, Brimnesi
- 6 borð Halldór Ó. Ólafsson, Arnardrangi
- 7 borð Gísli Stefánsson
- 8 borð Ragnar Halldórsson
- Varam. Þórður Þórðarson, Fagrafelli
Hingað komu 10 menn úr Taflfélagi Reykjavíkur 1. september 1945 og meðal þeirra Eggert Gilfer sem var einn sterkasti skákmaður landsins þá og tefldi hann m.a. fjöltefli á 17 borðum, vann 12 skákir og tapaði 5. Sveitakeppni sem fór fram milli bæjanna fór þannig að Reykvíkingar sigruðu með 6,5 vinningi á móti 2,5.
Eftir þetta fellur úr heill áratugur, þar sem ekkert er skráð í bækur en hinn 15. september 1957 er skráður stofnfundur Taflfélags Vestmannaeyja haldinn í Breiðabliki.
Þá var það á þjóðhátíðinni 1950 sem fór fram keppni í skák milli íþróttafélaganna Þórs og Týs með lifandi mönnum við mikla hrifningu áhorfenda. Konungur og drottning fyrir Þór voru Bjarni Eyjólfsson, Austurvegi og Svanhildur Guðmundsdóttir, Heimagötu 29, en fyrir Tý voru þau Sigurjón Ingvarsson, Vallargötu 4 og Margrét Ólafsdóttir, Flötum 14. Þegar Svana var drepin sem drottning í þessari skák þá sagði einhver henni að koma, því nú væri hún úr leik. "Nei, það má ég ekki, hann Bjarni þarf kannski að nota mig aftur", ansaði Svana. Skákin stóð í 45 mínútur og endaði með jafntefli, fyrir Þór stýrði Árni Stefánsson hvítu mönnunum en Vigfús Ólafsson fyrir Tý.
Koma erlendra stórmeistara til Vestmannaeyja
Vorið 1968 - upplýsingum saman:
- 9-23. apríl 1937 - Ludvik Engels (Þýskaland) - Háði mörg fjöltefli hér, m.a. við 8 bestu menn úr Taflfélaginu. Engels sigraði með 4,5 - 3,5 vinninga.
- Vorið 1968 - Evgení Vasjúkov (Rússlandi) - Fjöltefli.
- 16. september 1976 - Jan Timman stórmeistari - Fjöltefli á 37 borðum. Vann 35 skákir en gerði jafntefli við þá Jón Sveinsson og Össur Kristinsson formann félagsins.
- 23. febrúar 1978 - Smejkal (Tékkóslóvakía)- Fjöltefli í Alþýðuhúsinu.
Endurreisn félagsins 1957
Taflfélag Vestmannaeyja var endurvakið um miðjan september 1957 eftir 12 ára svefn. Það var strax frá upphafi heilmikill kraftur í félaginu. Fyrsti formaður þess var Kristján Tryggvi Jónasson, rennismiður Hásteinsvegi 56. Félagið fékk aðstöðu fyrir skákæfingar og skákmót voru haldin í Breiðabliki. Það hús byggði Gísli J. Johnsen, kaupmaður og konsúl árið 1908, en hann flutti frá Eyjum í heimskreppunni á fjórða áratug síðustu aldar. Þá var teflt í eldri og yngri flokkum og voru í félaginu nokkrir peyjar við fermingaraldur og yngri. Þar voru t.d. þeir Árni Óli Ólafsson, í Suðurgarði, Sigurgeir Jónsson í Þorlaugargerði, þeir bræður Óli Árni Vilhjálmsson og Þór Í Vilhjálmsson á Burstafelli, Andri Valur Hrólfsson á Landagötunni, Arnar Einarsson á Helgafellsbraut Björn Ívar Karlsson (eldri) sem þá var fluttur í Heiðarhvamm við Helgafellsbraut. Nokkru síðar bættust í hópinn þeir Páll Árnason síðar múrari, Guðmundur Pálsson í Héðinshöfða, Guðni Guðmundsson frá Landlyst, þeir bræður Jóhann Pétur, Þorkell og Valur í Sandprýði og Einar B. Guðlaugsson Hásteinsvegi 20.
Öflugt starf fram að gosi
Mikill kraftur var í félaginu á þessum tíma og t.d. var á árinu 1958 boðið upp á fjöltefli við Vigfús Ólafsson á Hótel HB, sunnudaginn 26. október 1958 og var þátttökugjaldið 10. kr. samkvæmt auglýsingu í Fylki 24 s.m.
Á Haustmóti félagsins 1958 sigraði Gísli Stefánsson í I flokki og færðist upp í meistaraflokk, 2 sæti varð Jón Hermundsson og í 3 sæti Björn Ívar Karlsson (eldri). Í II flokki sigraði Richard Þorgeirsson, í öðru sæti varð Gústaf Finnbogason og í 3 sæti Herbert Sveinbjörnsson. Í unglingaflokki urðu hlutskarpastir Arnar Sigurmundsson og Árni Ólafsson og í einvígi þeirra á milli sigraði Arnar og fluttist upp í II flokk.
Símskák fór fram á milli Taflfélaganna í Vestmannaeyjum og Akranesi 11. janúar 1959 og unnu Eyjamenn með 7,5 vinningum gegn 3,5. Þeir sem tefldu fyrir TV voru þeir Árni Stefánsson (1) (þáv. skákmeistari), Vigfús Ólafsson (0,5) Karl Sigurhansson (0,5) Jón Hermundsson Gísli Stefánsson (1)Gústaf Finnbogason (0,5) (þáv. formaður) Ríkharð Þorgeirsson (1) Arnar Sigurmundsson Björn Ívar Karlsson (eldri) (1) Guðmundur Stefánsson (1) og Borgþór Árnason.
Frá starfi Taflfélagsins segir í Fylki 1. desember 1961 að félagið hafi hafið starfsemi sína í Breiðabliki, 6. október með Haustmóti og hafi þátttakendur verið 20 og tefldar 8 umferðir. Efstu menn voru þeir Gísli Stefánsson 7 vinninga, Jón Hermundsson 6,5 vinninga Gústaf Finnbogason 5 vinninga og Bjarni Helgason með 5 vinninga. Skákþingið hófst 3. desember, en handhafi bikarsins var þá Karl Ólafsson.
Unglingaverðlaun 1963 Einar Óttó Högnason.
Í júní 1968 stóð félagið fyrir komu rússneska stórmeistarans Vasjukow, sem þá sigraði á Reykjavíkurskákmótinu og var boðið upp á fjöltefli, í matstofunni í Drífanda, og kostaði þáttakan 100 kr samkvæmt frétt í Fylki. Sagan um skák Einars Sigurfinnssonar og Vasjukow er skemmtileg þar sem meistarinn drap mann með framhjáhlaupi sem Einar hafði aldrei séð áður, en Helgi Ólafsson horfði á undrun hans vegna þessa.
Í viðtali við Einar B. Guðlaugsson formann félagsins í Fylki í febrúar 1969 segir hann frá starfi félagsins. Á meistaramótinu það ár voru 17 þáttakendur í I og II flokki. Í 2 flokki sigraði Friðrik Guðlaugsson með 6 vinninga, í 2-3 sæti voru þeir Helgi Ólafsson og Guðmundur Guðmundsson með 5 vinninga. Í I flokki urðu þeir Arnar Sigurmundsson og Sigurjón Jónsson með 6 vinninga af 8 og í einvígi þeirra sigraði Arnar. Á hraðskákmóti það ár sigraði Einar B. Guðlaugsson í öðru sæti varð Andri Valur Hrólfsson og þriðji Sigurjón Jónsson. Á þessum tíma tefldu félagsmenn í matstofunni hjá honum Sigurjóni. Spurður um áhugann sagði Einar að áhuginn væri mun minni nú (1969) heldur en þegar félagið var endurreist 1957, en þá voru 25-30 virkir, en nú mun færri og alltof fáir bætist í hópinn.
Sem hugmynd um starfið í félaginu segir svo í auglýsingu um starfsemi Taflfélagsins 1971 í Framsóknarblaðinu 12. nóv. 1971 : "TAFL: Unglingar, sem áhuga hafa á manntafli, eru velkomnir í klúbbinn "Lærið að tefla" í Félagsheimilinu laugard. 13. nóv. kl. 2 — 4 og eftirleiðis á laugardögum á sama tíma. Góðir skákmenn frá Taflfélagi Vestmannaeyja leiðbeina."
Grein Helga Ólafssonar um skáklífið í Eyjum á þessum tíma sem birtist í skákblaðinu í Vestmannaeyjum 2008:
Fyrsti skákviðburðurinn sem ég sótti í Eyjum var fjöltefli Evgení Vasjúkov, sem brá sér til Eyja til að tefla eftir að hafa sigrað ásamt landa sínum Mark Taimanov á Fiske-mótinu. Þetta var vorið 1968 og ég var “a new kid in town” og fór sem slíkur sem áhorfandi ásamt Tómasi syni Jóhannesar í bankanum. Ég held að þátttakendur hafi verið 21 talsins sem var að sögn Arnars Sigurmundssonar “algert skrap”. Einhverjir voru að ná jafntefli en minnistæðast er mér þegar Vasjúkov var að rigsa í kringum Einar “klink” og drap eitt sinn peð með tilþrifum en Einar rak upp stór augu og spurði mig: “Má þetta?” “Veistu ekki hvað þetta er? Þetta er framhjáhlaup,” sagði ég býsna hróðugur.” Nokkuð var liðið á haustið ´68 þegar ég fór á mína fyrstu æfingu í Taflfélagi Vestmanneyja. Þá var teflt á annari hæð í Drífanda-húsinu. Nokkrir piltar aðeins eldri en ég voru þar: Einar Ottó Högnason sem síðar lánaði mér bókina: Svona á ekki að tefla, Óli Þór vinur hans og Guðni Gunnarsson. Þá var þarna líka Friðrik Guðlaugsson bróðir Einars Guðlaugssonar. Ég man að Andri Hrólfsson tók á móti mér. Hann fylgdist aðeins með taflmennskunni en í fyrstu skákunum fórnaði ég mönnum á báðar hendur, enda undir miklum áhrifum af Fléttunni sem ég hafði lesið spjaldanna á milli og var stundum að sýna mönnum “Ódauðlegu skákina” sem ég kunni utan að. Andri benti mér á að sennilega væri affarasælast að fara rólegar í sakirnar. Fyrsta mótið sem ég tók þátt í var unglingaflokkur haustmótsins sem ég vann með 9 ½ vinning af 10 mögulegum. Mér fannst nauðsynlegt að gera eitt jafntefli svo mótstaflan liti betur út. Á einni æfngunni tók ég eftir hóp manna sem var að horfa á kvikmynd inn í litlu herbergi. Ég leit þar aðeins inn en myndin hófst á því að kvikmyndagerðarmaðurinn hermdi eftir Hollywood-ljóninu. Þetta var Páll Steingrímsson. Mikið var hlegið að þessu atriði. Skákþing Vestmannaeyja 1968 - ´69 hófst svo einn sunnudag í desember en meðal áhorfenda var Freymóður bæjarfógeti og er mér minnistætt hversu djúpa rödd hann hafði. Hann var þá að ég held nýkvæntur. Freymóður tók mig tali. Ýmsir ágætir skákmenn voru með á mótinu en áberandi virðulegastir fundust mér Sigurberg Bogason og Gústaf Finnbogason. Ég var í 2. flokki og varð í 2. – 3. sæti ásamt Friðrik Guðlaugssyni. Baráttan i 1. flokki stóð hinsvegar á milli Arnars Sigurmundssonar og Sigurjóns apótekara. Mig minnir að Arnar hafi haft betur en ýmsar skákir sem þeir tefldu þarna skrifaði ég niður og athugaði betur þegar heim var komið. Ég tók t.d. eftir því að Arnar hafði mikið dálæti á franskri vörn en sumum, t.d. Andra fannst stíll hans nokkuð þungur. Þegar skákvertíðinni lauk tók knattspyrnan við, en um sumarið var ég varamarkvörður hjá ÍBV-liðinu en aðalmarkvörður var Ársæll Sveinsson. Miklir snillingar voru í þessu liði auk Ársæls, þ.á.m. Ásgeir Sigurvinsson og Sigurlás Þorleifsson. Ég fylgdist dálítið með skákinni þetta sumar og þó einkum einvígi Spasskí og Petrosjan um heimsmeistaratitilinn en skákir þeirra birtust í einu dagblaðanna. Að áliðnu sumri tefldi fyrrverandi Norðurlandameistari Freysteinn Þorbergsson fjöltefli við nokkra félagsmenn TV. Ég bauð jafntefli eftir 44 leiki sem Freysteinn þáði. Hann spurði mig hve gamall ég væri. Mig grunaði stundum að hann hefði “gefið” þetta jafntefli en morguninn eftir var hann mættur í viðtal hjá föður mínum sem var útibússtjóri Útvegsbankans en Freysteinn var í útgerð. Þegar ég fór yfir skákina mörgum árum síðar kom í ljós að staðan var að öllum líkindum jafntefli, ég var manni yfir fyrir þrjú peð. Haustið 1969 flutti Taflfélagið starfsemi sína í kjallara félagsmiðstöðvarinnar við enda Vestmannabrautar. Ég er ekki frá því að fækkað hafi í hópi þeirra sem tefldu þennan vetur. Arnar vann skákþingið aftur og er mér minnistætt að ein umferð þess fór fram á Hótel Hamri, sem síðar fór undir hraun en Arnar og Andri tengdust eitthvað rekstrinum. Framfarir voru greinilegar og snemma árs 1970 birtist í Fylki sigurskák mín gegn Hrafni Oddssyni úr Skákþingi Vestmannaeyja. Arnar sem stóð á bak við birtinguna hafði orð á því að þetta myndi kannski falla í grýttan jarðveg hjá þeim Oddsson-bræðrum. Um páskaleytið 1970 reyndi ég að komast suður á Skákþing Íslands, sem gekk ekki vel í fyrstu því vart gaf á sjó en svo stytti upp og flaug ég suður á mótið. Ég vann unglingaflokk Íslandsmótsins með 12 vinninga af 12 mögulegum og á forsíðu Vísis mátti lesa fyrirsögnina: 13 ára Vestmanneyingur sigraði alla. Einnig var mynd af undirrituðum í Morgunblaðinu þannig að allt í einu var maður kominn með smá status í samfélaginu. Afreksmenn voru þó nánast á hverju strái í Eyjum á þessum tíma; Erna Jóhannesdóttir var kjörin fegurðardrottning Íslands og yngri flokkar ÍBV röðuðu inn Íslandsmeistaratitlunum. Ekki man ég betur en að Ársæll Sveinsson hafi þá verið kominn í fremstu röð kylfinga landsins, rétt nýfermdur, Halli “gullskalli” var löngu orðinn landsþekktur, svo ekki sé minnst á Ásgeir Sigurvinsson. Um sumarið var ég í sveit á bænum Öxl í Húsavatnssýslu og hjólaði stundum yfir á Leysingjastaði en þar hét bóndinn Jónas Halldórsson, mikill öðlingur og góður skákmaður, margfaldur Skákmeistari Norðurlands. Ég hygg að ég hafi lært mikið af Jónasi. Eitt sinn spurði ég hann af hverju hann tefldi aldrei sikileyjarvörn á móti mér og þá svaraði hann: “Það geri ég bara á móti mönnum eins og Pálma á Akri.” Jónas drukknaði þrem árum síðar í Hópinu og var öllum mikill harmdauði. Á fyrstu æfingu TV haustið 1970 sem fram fór á 2. hæð samkomuhússins við enda Vestmannabrautar vann ég með 11 vinninga af 12 mögulegum. Nú var leikfélagið búið að hertaka kjallarann fyrir búningsaðstöðu, því það átti að setja á svið Kardimommubæinn með Einar rakara í aðalhlutverki. Tveir skólabræður mínir tróðu sér inn í heilmikinn búning og léku ljónið. Nokkrum dögum eftir þessa æfingu hringdi síminn heima hjá mér og þar kynnti sig Björn Ívar Karlsson læknir. Stuttu síðar sótti hann mig og við háðum u.þ.b. 30 skáka hraðskákeinvígi í “Blokkinni” í Eyjum þar sem hann bjó ásamt Helgu konu sinni. Einvígin við Björn fóru fram á stóru tréborði og hann átti hreint frábærlega fallega taflmenn. Hann keypti gos og súkkulaði handa mér en reykti sjálfur Hofnar vindla. Á haustmóti TV 1970 urðu þau úrslit að Einar Guðlaugsson sigraði og hlaut 5 vinninga, en ég varð í 2. sæti ásamt Birni með 4½ vinning. Í innbyrðis skák okkar tókst mér að ná jafntefli upp úr gjörtapaðri stöðu. Á Skákþinginu sjálfu var Björn langfremstur og vann örugglega. Ég hygg að Einar hafi verið í 2. sæti og ég þriðji. Um vorið 1971 hafði ég betur gegn Birni í löngu og ströngu hraðskákeinvígi, 17:15. Björn fór til náms í Bandaríkjunum um sumarið, en að mig minnir hann hafi komið til Eyja gossumarið 1973. Hann átti þá þegar mikið safn skákbóka og hefði örugglega getað náð langt í skákinni sem læknisstörf vitanlega hindruðu, tefldi hinsvegar mikið af bréfskákum og var fremsti skákmaðurinn þegar hann bjó í Eyjum. Haustið 1971 fór að bera á nýjum félagsmönnum, Óskar á Háeyri, Össur Kristinsson, Daníel Willard Fiske Traustason og Laugi í Lyngfelli. Um haustið kom hin fræga skáksveit Útvegsbankans í heimsókn og fór fram keppni á tíu borðum milli bankans og Taflfélags Vestmannaeyja. Ég tapaði fyrir Gunnari Gunnarssyni á 2. borði, en í hraðskákkeppni degi síðar tókst mér að vinna Björn Þorsteinsson og fleiri góða menn. Þarna var ég orðinn bestur í Eyjum enda vann ég Skákþingið 1972 örugglega með 9 vinningum af 11 mögulegum, tapaði þó einni skák fyrir Hrafni Oddssyni sem hefur alltaf neitað því að hafa boðið jafntefli þegar langt var liðið á skákina sem fór í bið eftir mikla rimmu. Staða mín var erfið og sennilega töpuð en hvorki gekk né rak að klára þessa viðureign því Hrafn var á sjónum ásamt Bergvin bróður sínum. Hef ég heyrt að menn hafi verið að rabba um stöðuna í talstöð milli báta og þriðji bróðurinn Guðmundur Oddsson stórkrati úr Kópavogi tengdist eitthvað þessum rannsóknum. Loks dróst Hrafn á að ljúka skákinni og þegar hann settist að tafli tefldi hann hratt og af miklum þunga. Eftir fimm leiki eða svo mátti ég játa mig sigraðan. Mikil eftirvænting ríkti um fyrirhugað einvígi Fischers og Spasskí. Það átti hug minn allan sumarið 1972 en ég hygg að ég hafi séð fimm skákir þess. Arnar Sigurmundsson fór í Laugardalshöllina ásamt fleirum, þ.á.m. Lauga í Lyngfelli sem sagði hárri og hvellri röddu þegar Fischer lék snjöllum leik, 19. ... Dd2, þannig að undir tók í salnum: “Tja, þar fór drottningin.” Um haustið var mikil skákvakning um land allt og einnig í Eyjum. Við Arnar stóðum fyrir fjölmennu skáknámskeiði fyrir börn og unglinga á laugardögum. Á haustmótinu var þátttakan afar góð. Gömul keppni milli Vesturbæinga og Austurbæinga var endurvakin. Ég vann haustmótið með fullu húsi vinninga. Allt fór á sömu leið á Skákþinginu. Skák mín við Andra Hrólfsson í 10. umferð fór í bið. Stormurinn sem hafði geisað fyrr um daginn þann 22. janúar 1973 var nú genginn niður og það var aftur orðið hlýtt í bænum þegar ég gekk heim frá Félagsmiðstöðinni um kvöldið. Ekki grunaði mig þá að nokkrum klukkutímum síðar myndi ég vakna í Tónabíó í miðri kvikmyndinni Midnight cowboy, né heldur að biðskákin við Andra yrði til lykta leidd 20 árum síðar.
Grein Arnars Sigurmundssonar um biðskákina frá 22. janúar 1973, sem tefld var til loka 23. janúar 1993, greinin birtist í 90 ára afmælisriti Taflfélagsina 2016:
Þegar eldgosið hófst á Heimaey aðfaranótt 23. janúar 1973 var skákþingi Vestmannaeyja 1973 rétt að ljúka. Teflt var mánudagskvöldið 22. janúar í Félagsheimilinu við Heiðarveg þar sem nú er Vinaminni ný og glæsileg félagsaðstaða eldri borgara í Eyjum. Teflt var í 1. og 2. flokki og var keppni í öðrum flokki þá nýlokið. Keppendur í 1. flokki voru tólf og þegar gosið hófst voru fjórar skákir ótefldar úr síðustu umferð og einnig átti eftir að klára eina biðskák. Var það skák þeirra Helga Ólafssonar og Andra Hrólfssonar. Engan óraði fyrir kvöldið fyrir gos því að sú skák myndi loks verða kláruð 20 árum síðar! Helgi var kvöldið fyrir gos kominn með 9 vinninga úr níu skákum og þurfti aðeins hálfan vinning úr þeim tveimur skákum sem hann hafði ekki lokið. Össur Kristinsson, var kominn með 9 vinninga en hafði lokið öllum sínum skákum. Af eðlilegum ástæðum var ekki staður né stund til að ljúka Skákþingi 1973 meðan á eldgosinu stóð. Vesturinn 1974 fór starfsemi TV af stað á nýjan leik og lítið minnst á að klára Skákþingið 1973, enda voru keppendur sem áttu eftir að ljúka sínum skákum ekki allir til staðar í Eyjum. Það átti einnig við um þá félaga Andra og Helga. Ég minnist þess að hafa gossumarið 1973 minnst á það við Helga og Andra sem báðir voru þá við störf í Eyjum að klára biðskákina. En sem betur fer varð ekkert úr því. Haustið 1992 kom upp sú hugmynd þegar styttast fór að 20 ár voru liðin frá upphafi eldgossins á Heimaey að klára Skákþing Vestmannaeyja 1973, laugardaginn 23. janúar 1993. Einnig var ákveðið að halda öflugt hraðskákmót sama dag, gekk hvorutveggja eftir og var teflt í fundarsal Sparisjóðs Vestmannaeyja við Bárustíg. Biðskák Helga Ólafssonar og Andra Hrólfssonar vakti mikla athygli í fjölmiðlum og birtist biðstaðan meðal annars í Morgunblaðinu 23. janúar 1993. Á þessum tuttugu árum sem liðin voru hafði Helgi tekið stórstígum framförum og löngu kominn í hóp sterkustu skákmanna Íslands. Við hinir minni spámennirnir sem áttu eftir að tefla við hann voru í besta falli á svipuðum slóðum og kvöldið fyrir eldgos. Helgi vann biðskákina við Andra og einnig skákina við undirritaðann og fékk í mótslok titilinn Skákmeistari Vestmannaeyja 1973 - þótt liðin væru 20 ár frá fyrirhuguðum mótslokum.
Starfið eftir gos
Sem merki um öflug starf félagsins eftir gos er eftirfarandi klausa í Morgunlaðinu 3. júní 1975 undir fyrirsögninni Eyjamenn komu, tefldu og töpuðu : "Nýlega heimsótti skáksveit úr Taflfélagi Vestmannaeyja skákmenn Flugleiða i Reykjavík og háðu sveitirnar keppni. Fyrir Taflfélag Vestmannaeyja kepptu Gústaf Finnbogason, Össur Kristinsson, Magnús Jónsson, Friðrik Guðlaugsson, Arnar Sigurmundsson, Pétur Bjarnason, Einar B. Guðlaugsson, Jón Hermannsson og Steinar Óskarsson. Fyrir Flugleiðir kepptu Björn Theódórsson, Andri Valur Hrólfsson, Hörður Jónsson, Hálfdán Hermannsson, Birgir Ólafsson, Sigurður Gíslason, Sverrir Þórólfsson, Trausti Tómasson og Aðalsteinn Magnússon. Keppnin fór fram í félagsheimili starfsmannafélags Flugfélags Íslands að Síðumúla 11. Tefldar voru 144 skákir og fóru leikar þannig, að Flugleiðamenn sigruðu með 85,5 vinningum á móti 58,5. Frekari samskipti skákmanna frá þessum aðilum eru fyrirhuguð og munu Flugleiðamenn heimsækja Vestmannaeyinga í haust.
Hinn 16. september 1976 stóð félagið fyrir fjöltefli stórmeistarans J. Timman á 37 borðum. Timman vann 35 skákir, en gerði jafntefli við þá Jón Sveinsson og Össur Kristinsson formann félagsins. Frá árinu 1975 hafa félagsmenn TV teflt við skákmenn Flugleiða vor og haust. 16 og 17. október 1976 fór keppni við Flugleiðamenn fram í Reykjavík og var teflt á 10 borðum og sigruðu Flugleiðamenn í "rólegri skák 12-8 og í hraðskák 106,5 - 93,5. Haustmót TV 1976, keppendur 18, sigurvegari var Björn Ívar Karlsson (eldri) með 7,5 vinn., 2. Össur Kristinsson og í 3 sæti varð Ólafur Hermannsson. Fyrsta þátttaka í deildakeppni Skáksambandsins var 1976 og tefldi sveit félagsins í 2 deild og varð neðst í þeirri deild. Skákþing Vestmannaeyja 1977; 1. Kári Sólmundarson 8,5 vinn. 2. Björn Ívar Karlsson (eldri) 8 vinn. 3. Össur Kristinsson 7,5 vinn. Unglingameistari Vestmannaeyja 1977 varð Ólafur Hermannsson. Jólahraðskákmót 30. des. 1977, 18 keppendur. Hraðskákmeistaramót Vestmannaeyja 1977, 18 keppendur. 1. Kári Sólmundarson 16,5 vinn. 2. Arnar Sigurmundsson 11,5 vinn. 3-4. Þórarinn Ingi Ólafsson og Ólafur Hermannsson 11 vinn. Í lok mars 1977 stóð félagið fyrir klukkufjöltefli við tékkneska skákmeistarann dr. Alster á 10 borðum. Alster tapaði einni skák fyrir Birni Ívari Karlssyni.
Í Tímanum 11. mars 1978 segir frá styrk sem félagið fékk af þjóðhátíðargjöf Norðmanna svo : "Þriðja úthlutun fór fram í janúar 1978. 25 umsóknir bárust og var 2,4 milljónum úthlutað í styrki sem ætlaðir eru til að styrkja hópferðir 283 manna og þá fengu : ... Taflfélag Vestmannaeyja (auk 9 annarra félaga og samtaka) ...".
Húsnæðismál 1957-1982
Í september 1957 hóf félagið starfsemi sína að Breiðabliki og var yfirleitt teflt á efri hæð sunnanmegin, en þar var áður kennslustofa. Ef mikil þátttaka var á skákmótum, var brugðið á það ráð að fara með yngri flokka í önnur herbergi í húsinu. Í Breiðabliki var verið í mörg ár. Skákþing Vestmannaeyja 1959 var þó haldið í mötuneyti Vinnslustöðvarinnar að Strandvegi 50, jarðhæð. Árið 1965 fór starfsemin úr Breiðabliki niður á 2 hæð hússins Gefjun við Strandveg. Sá hluti hússins var rifinn 1980. Í Gefjun var verið til 1966 en þá var flutt í matstofuna í hússins Drífanda að Bárustíg 2 og verið þar þar til farið var í félagsheimilið við Heiðarveg 1969 og fékk félagið aðstöðu á gangi hússins til að byrja með, þ.e. á ganginum beint á móti innganginum í bæjarleikhúsið á 2. hæð hússins. Árið eftir lá leiðin niður í sal undir leikssviðinu. Léleg loftræsting var í þessum sal og hann var gluggalaus. Kunnu menn því aldrei almennilega við sig í þessu húsnæði. En 1972 fékk Taflfélagið ágætis aðstöðu í sal á efstu hæð Félagsheimilisins, ýmist í minni salnum eða þeim stærri og fór það eftir þátttöku. Skákkennsla barna og unglinga fór fram í þessum sölum, en á þessum tíma þ.e. 1972 var starfsemi félagsins í miklum blóma. Þegar eldgosið kom upp í Heimaey 23. janúar 1973 var skákþing Vestmannaeyja 1973 rétt að ljúka. Eins og gefur að skilja hafði eldgosið mjög slæm áhrif á starfsemi félagsins. Áhöld félagsins, þ.e. töfl og klukkur voru tekin í notkun af björgunarmönnum og var víða teflt á svefnstöðum björgunarmanna. Týndist meirihluti áhalda félagsins í gosinu, þó ekki fundargerðarbækur o.þ.h. En félagið fékk tjónið bætt úr Viðlagasjóði eftir gosið.
Á tímum hefur gustað um húsnæðismál félagins eins og eftirfarandi dæmi sannar, en svo segir í Framsóknarblaðinu 6. apríl 1966 undir fyrirsögninni Kjánaskrif : "Einhverjum H. B. er att út á ritvöllinn í Fylki, ekki alls fyrir löngu síðan, með aðdróttanir í garð Framsóknarflokksmanna fyrir að skjóta skjólshúsi yfir starfsemi Taflfélagsins s.l. vetur, og þá eingöngu í hagnaðarskyni. Ritstjóri Brautarinnar heggur í sama knérunn, og er það að vonum, að Brautin fylgi móðurskipinu. Mér komu þessi skrif satt að segja, nokkuð kynlega fyrir sjónir. Flokksherbergi okkar á Strandvegi 42 eru ekki til leigu. Hinsvegar var fallizt á að hlaupa undir baggann, er nokkrir skákmenn komu til okkar og kváðust hvergi hafa athvarf til að iðka skákíþróttina. Félagsheimili er hér ekkert til, og í fá hús að venda og ekki er vitað að aðstandendur Brautarinnar og Fylkis hafi lagt sig sérstaklega fram til úrbóta með tómstundaheimili handa bæjarbúum til tómstundaiðkana. Húsið á Strandvegi 42 er gamalt og þarf mikla upphitun. Um það get ég bezt borið. Ég sé, eftir fyrirliggjandi reikningum, þá kostar nokkur hundruð krónur á mánuði hverjum að hita upp þann hluta húsnæðisins, sem skrifstofur okkar eru í, þar við bætist rafmagn. Við kyndum ekki flokksherbergið að staðaldri fyrir eigin afnot. En að sjálfsögðu þarf alltaf að kynda, ef húsnæðið er notað að kalla daglega. Veturinn 1964—1965 fékk Taflfélag Vestmannaeyja leyfi til afnota af flokksherbergi Framsóknarflokksins, og greiddi fyrir það umsamið verð með ljósi og hita. S.l. haust var einnig leitað hófanna um leigupláss af Taflfélaginu, og varð það úr að það var heimilað. En Taflfélagið hefur ekki greitt einn eyri, hvorki fyrir húsleigu, upphitun né rafmagn eftir vetrarstarfið, svo að varla verður sagt, að hart hafi verið gengið að félaginu með útgjöld, og því hefði mátt ætla að kjánalegar aðdróttanir í garð okkar, er skutum skjólshúsi yfir starfsemi félagsins — okkur til óhagræðis — hefðu verið látnar bíða unz einhver litur hefði verið sýndur á greiðslu — þó ekki hefði verið nema fyrir upphitun í vetur. Ólíklegt er, að forráðamenn Taflfélagsins standi að þessum skrifum. Óli Vilhjálmsson hefur verið forsvarsmaður Taflfélagsins í vetur. Hann hefur sýnt sérstaka lipurð í hvívetna, og samstarf við hann hefur verið árekstralaust. En Taflfélagi Vestmannaeyja ann ég svo góðs hlutar, að það fái samastað í rúmgóðu húsnæði á komandi starfsári, og verður skriffinnum Fylkis og Brautarinnar vonandi ekki skotaskuld úr að sjá félaginu fyrir því. Sveinn Guðmundsson."
Þegar félagið hóf aftur starfsemi eftir gos um áramótin 1973-74 var farið rólega af stað. Mikið vantaði af gömlum félögum og skiluðu margir sér ekki til Eyja eftir gosið. Þeir sem komu til baka fóru af stað og var fengið húsnæði í Eyverjasalnum í Samkomuhúsinu 1974. Þessi salur var nýinnréttaður og aðstaða góð, en ekki hugsuð til frambúðar, þar sem salurinn var ætlaður undir aðra starfsemi. Þá var starfsemin flutt í Alþýðuhúsið í lítinn en góðan sal á 2. hæð hússins. Í þeim sal var félagið þar til flutt var að nýju í Félagsheimilið við Heiðarveg 1982.
Níundi áratugurinn
Hér á eftir að koma eitthvað meira. Starf félagsins var oft mjög öflugt á þessum árum. Margir félagar voru mjög öflugir í starfi félagsins á þessum tíma, aðrir fluttu upp á land eða hættu skákiðkun en ávallt komu aðrir inn. Í grein í Dagblaðinu Vísi hinn 25. maí 1983 er fyrirsögnin: Mikið skáklíf í Eyjum. Síðan segir svo frá: Öflugt skáklíf hefur verið í Vestmannaeyjum í vetur. Unglingastarf hefur verið áberandi gott og virðist svo sem fjölmargir skákmenn séu að vaxa úr grasi í Eyjum. Um hvítasunnuhelgina efndi Skákfélag Vestmannaeyja til kaffisamsætis þar sem afhent voru verðlaun fyrir skákmót vetrarins. Sigurvegari í öllum helstu mótum fullorðinna var Guðmundur Búason kaupfélagsstjóri. Hann varð skákmeistari Vestmannaeyja, einnig hraðskákmeistari og hann vann ennfremur Metabo-mótið sem háð var nú um hvítasunnuna. Helstu keppinautar Guðmundar voru þeir Kári Sólmundarson og Óli A. Vilhjálmsson. Leifur G. Hafsteinson var efnilegasti unglingurinn sem Eyjamenn eiga í skákinni í dag.
Sigurvegarar á Metabo skákmótinu: 1983 Guðmundur Búason, 1984 Guðmundur Búason, 1985 Birgir Hrafn Hafsteinsson, 1986 Sverrir Unnarsson, 1987 Sigurjón Þorkelsson, 1988 Þórarinn Ingi Ólafsson, 1989 Sigmundur Andrésson, 1991 Sigurjón Þorkelsson, 1992 Þorvaldur Hermannsson, 1994 Sigurjón Þorkelsson, 1995 Sigurjón Þorkelsson, 1996 Þórarinn Ingi Ólafsson, 1997 Sigurður Frans Þráinsson, 1998 Stefán Gíslason, 1999 Björn Ívar Karlsson, 2000 Björn Ívar Karlsson og 2001 Björn Ívar Karlsson.
Tíundi áratugurinn
Hér á eftir að koma eitthvað frá Stebba Gilla, Sigurjóni og fleirum. Á landsmótinu í skólaskák vorið 2001 varð Björn Ívar Karlsson (yngri) í öðru sæti í eldri flokki. Þá lenti Björn Ívar Karlsson (yngri) í öðru sæti á unglingameistaramóti Íslands sem haldið var á Akureyri í byrjun nóvember 2001. Haustmót 2001: Sigurvegari varð Sverrir Unnarsson, en í öðru sæti urðu þeir Sigurjón Þorkelsson og Ágúst Örn Gíslason jafnir. Á Skákþingi Akureyrar 2002 sigraði Björn Ívar Karlsson (yngri). Í október 2002 kom bandaríski skákmaðurinn og pókerspilarinn Ylon Schwartz til Eyja og sigraði á hraðmóti sem sett var upp í tilefni af komu hans. 31. ágúst 2003 varð Björn Ívar Karlsson (yngri) Norðurlandameistari með Menntaskólanum á Akureyri. Hinn 2. nóvember 2003 Björn Ívar Karlsson (yngri) tók þátt á HM ungmenna.
Þegar Sigmundur Andrésson bakari gaf félaginu skákbækur sínar á páskadag 27. mars 2005, flutti hann eftirfarandi ræðu; Kæru félagar, Það er mér sönn ánægja að koma hér í þetta nýja húsnæði ykkar, sem Taflfélagið nú loks hefur eignast og ræður eftir vild og þörfum. Ég þekki það að húnæðisskortur hefur oft staðið Taflfélaginu fyrir þrifum, þar sem stundum var ekki á vísan að róa og ekki almennilega hægt að koma fyrir þessum fáu hlutum sem við þó áttum. En nú sé ég að það er farið að birta til og stytta upp með bjartari tíma framundan og ég veit að starf ykkar undanfarin ár hefur borið árangur og það sem mest er um vert er að farið er að hlúa að unga fólkinu börnunum, sem nú fá tækifæri til að læra og iðka skák. Og ef æskan vill rétta þér örvandi hönd þá ertu á framtíðarvegi, eins og Þorsteinn Erlingsson sagði í einu kvæða sinna. Ég má heldur ekki gleyma að minnast á þá skákvakningu sem hefur orðið á öllu landinu undanfarin ár með tilkomu Hrafns Jökulssonar, sem hefur gert stórvirki með Hróknum og heimsóknum í alla barnaskóla landsins og nú síðast Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sem orðin er fyrsti kvenforseti Skáksambands Íslands, sem segir skákina verða til þess að örva einstaklinginn til að hugsa sjálfstætt og að það sé bara hann einn sem tekur ákvarðanir um næsta leik. Ennfremur spáir hún því að eftir tíu ár verðum við íslendingar orðnir ein af 10 sterkustu skákþjóðum heims. Gaman ef það rættist, þetta var vel mælt og hafi hún heiður fyrir. Ég var tíu ára gamall er ég lærði mannganginn og fór að tefla, en það kom ekki til af góðu. Ég var í sveit og féll þar af hestbaki og sú bylta átti eftir að valda því að ég varð að liggja á spítala í þrjú og hálft ár. En svo heppinn var ég að lenda á þriggja manna stofu með tveim öðrum drengjum, Birni Svanbergssyni ættuðum frá Grænumýrartungu í Hrútafirði og Guðjóni M. Sigurðssyni úr Reykjavík. Þeir lágu báðir í gifsi með bakið og gátu aðeins lyft höfðinu frá koddanum. Ég var í gifsi með fótinn frá ökla og uppá brjóst. Gaui var 8 ára, ég 10 en Bjössi 12 ára. Og það má segja að við höfðum ekkert gert nema að læra, lesa og tefla. Og það var teflt meira og minna hvern einasta dag. Allir með taflborðin á maganum og leikirnir kallaðir á milli. Ég slapp út nokkuð á undan þeim. Þeir fóru síðar strax í Taflfélag Reykjavíkur og fóru báðir fljótlega í fyrsta flokk. Og svona til að monta mig svolítið þá vorum við allir á svipuðu róli í skákinni, unnum og töpuðum á víxl. Guðjón M. varð síðar einn að sterkustu skákmönnum landsins, Reykjavíkurmeistari og fleira. Björn varð líka vel þekktur skákmaður. Ég fór aftur á móti heim til Eyrarbakka og þar var ekkert teflt. En atvinnu minnar vegna tímdi ég aldrei að fórna tíma í skákina fyrr en ég hætti bakstri og gat farið að taka það rólega. Þá fór ég strax í Taflfélag Vestmannaeyja og naut þess á allan máta að tefla og ekki síður að vera með þessum góðu félögum mínum. Það voru oft skemmtilegar stundir sem við áttum saman, en aldrei man ég eftir því að hafa unnið eitt einasta mót utan eitt Metabómót, það sést í gögnum félagsins. Svona er nú hégómaskapurinn í mér á háu stigi að ég hef stundum gaman að því. Ég vil að lokum þakka samveruna og færi félaginu um leið nokkrar skákbækur og úrklippur frá því 1980 úr bæjarblöðunum, sem bæði ég og aðrir hafa skrifað til dagsins í dag. Og þar má fylgjast með starfi félagsins samfellt yfir 20 ára tímabil. Ég reyni að fylgjast með því sem skrifað er um skák hér í blöðin, sem er mjög vel gert, en ég fæ nú einnig fréttir af helstu málum frá þeim Sigurjóni Þorkelssyni og Stefáni Gíslasyni, en þó mestar frá vini mínum Viktori Sigurjónssyni, sem veit allt um skák bæði hér í bæ, Moskvu, París eða Póllandi og miklu víðar. Ég þakka fyrir mig.
Húsnæðiskaup 2004
Hinn 17. september 2004 festi Taflfélagið kaup á neðri hæð hússins að Heiðarvegi 9A, af Hvassafelli ehf., en þar hafði áður verið til húsa verslun. Ekki þarf að taka fram að þetta var í fyrsta skipti sem félagið var í eigin húsnæði og þarna var því unnt að geyma gögn félagsins og tól. Þessi gjörningur átti sinn þátt í stöðugleika félagsins næstu ár á eftir. Hæðin er 113,5 fermetrar og tók félagið lán kr. 6.260.000 frá Sparisjóð Vestmannaeyja fyrir kaupunum, sem endurgreiðast eiga á 25 árum. Jafnframt þessu þá gerði félagið samning við Vestmannaeyjabæ þar sem bærinn mun styrkja félagið en það annast kennslu grunnskólabarna og í því sambandi var þinglýst kvöð á húsnæðið varandi bann við frekari veðsetningum og sölu eignarinnar.
Tíu ára blómaskeið 2003-12
Á árunum eftir 2003 reis upp mikill áhugi á skák hjá yngri aldurshópum í Vestmannaeyjum og á næstu árum urðu krakkar úr félaginu fremstir á landsvísu ár eftir ár. Reyndar var haldið svokallað sýsluskákmót hér 10. maí 2001 af frumkvæði sýslumannsins. Það má einnig segja að á Jólamóti 2002 hafi margir af þessum strákum mætt á eitt af sínum fyrstu mótum, en á því móti sigraði Alexander Gautason í öðru sæti var Nökkvi Sverrisson í þriðja sæti Sindri Freyr Guðjónsson, í fjórða sæti varð Hallgrímur Júlíusson og í fimmta sæti varð Kristófer Gautason sem reyndar var skráður á leikskólanum Sóla. Þarna voru einnig mættir bræðurnir Bjartur Týr Ólafsson og Ólafur Freyr Ólafsson. Þarna sáust því nöfn þessara sem mest urðu áberandi á næstu árum og héldu uppi árangri í barnaflokkum félagsins næstu 7-9 árin. En það sem mætti segja að hafi markað upphafið af þessum mikla uppgangi er líklega hið svokallaða Skákævintýri, sem haldið var í Eyjum tvö ár í röð; 2004 og 2005 með þátttöku mikils fjölda krakka úr Eyjum og ofan af landi. Frumkvöðlar af þessu öllu saman sem með góðri samvinnu gerðu allt þetta mögulegt voru þeir þrír sem skipuðu stjórn TV á þessum tíma; Magnús Matthíasson, Karl Gauti Hjaltason og Sverrir Unnarsson, sem hver um sig sinnti afmörkuðu sviði uppbyggingarinnar. Árangurinn lét ekki á sér standa, krakkar í Eyjum hópuðust í skák og það var "inn" að rústa skákmótum og má segja að krakkar úr Eyjum hafi um tíma verið skelfingaralda í augum skákkrakka á höfuðborgarsvæðinu, þegar þau mættu á mótin og tóku með sér alla góðmálma sem voru í boði. Hér skal stiklað á nokkrum mótum og viðburðum á þessu tímabili og tekur e.t.v. nokkur tíma að safna þessum upplýsingum saman:
- 2001 Sýsluskákmót Vestmannaeyja, 10. maí, 1-3 bekkur (14), Alexander Gautason, 4-5 bekkur (11), Karl Rúnar Martinsson, 6-10 bekkur (11), Þórhallur Friðriksson.
- 2002 Jólamót barna, haldið í Eyjum, 1. Alexander, 2. Nökkvi, 3. Sindri Freyr 4. Hallgrímur.
- 2003 Skólaskákmót Vestmannaeyja, 1 sæti eldri flokki Sæþór Örn Garðarson, 1 sæti í yngri flokki Bjartur Týr.
- 2003 Kjördæmismót Suðurlands, Vík í Mýrdal, 3 sæti eldri flokki Sæþór Örn Garðarson, 4 sæti í yngri flokki Nökkvi og Sindri Freyr.
- 2004 Unglingameistaramót Vestmannaeyja, 25. apríl, Unglingameistari Vestmannaeyja: Alexander Gautason.
- 2004 Mótaröð barna, Sigurvegari mótaraðarinnar: Ágúst Sölvi Hreggviðsson.
- 2004 Bikarkeppni barna í Eyjum, Sigurvegari Bjartur Týr.
- 2004 Kjördæmismót Suðurlands, Vetmannaeyjum 17. apríl, Yngri flokkur: 2 sæti: Nökkvi, 3 sæti: Alexander.
- 2004 Deildakeppni barna, Fyrsta deildakeppni barna í Eyjum var haldin í desember, fyrirkomulagið var oftast þannig að 8 manns kepptu í 1. og 2. deild, en rest í þeirri 3. Tveir neðstu í 1 deild kepptu næst í 2. deild og tveir efstu í 2 og 3 deild fóru upp um deild. Keppt var yfirleitt 10 eða 15 mínútna skákir sem var breyting frá þessum venjulegu 5 mínútna skákum sem oftast voru tefldar á æfingum : 29 keppendur alls, Sigurvegarar í deildum; 1 deild, Alexander með 7 vinninga af 7. 2 deild, Hannes Jóh. með 5,5 vinninga af 7 og í 3 deild Patrik Rittmuller með 5 vinninga.
- 2005 Íslandsmót barna, 15-16. janúar, 1 sæti, Nökkvi Sverrisson, 50 keppendur, 9 krakkar frá TV.
- 2005 Deildakeppni barna, Deildakeppni barna. Janúar : 24 keppendur. Sigurvegarar í deildum; 1 deild, Sindri Freyr með 7 vinninga af 8. 2 deild, Ólafur Freyr með 5 vinninga af 5 og í 3 deild Jón Inga með 6 vinninga.
- 2005 Íslandsmót barnaskólasveita, 12-13. febrúar, 3 sæti, Barnaskóli Vestmannaeyja með 25 vinn. af 36, Nökkvi, Alexander, Sindri Freyr og Hallgrímur, C sveitin var í 11 sæti með 18 vinn. og B sveitin í 17 sæti með 17 vinn. Alls kepptu 25 sveitir, þar af 3 úr Eyjum, en alls 6 sveitir utan af landi.
- 2005 Deildakeppni barna, Febrúar : 24 keppendur. Sigurvegarar í deildum; 2 deild, Bjartur Týr með 7 vinninga af 7 og í 3 deild Daði Steinn með 6 vinninga af 6.
- 2005 Hraðskákmeistaramót Suðurlands, Selfossi 20. febrúar, 1 sæti eldri flokki Nökkvi, 2 sæti yngri flokki Hafsteinn.
- 2005 Vinamót Sala og Eyja, Kópavogi, 19. mars, Sveitakeppni: 1 sæti, A sveit TV, Nökkvi, Alexander, Sindri Freyr og Hallgrímur 1-2. bekkur: 1 sæti Kristófer, 3-4. bekkur: 1 sæti Sindri Jóhanns.
- 2005 Tívolísyrpa Íslandsbanka, 20. mars, Yngsti flokkur: 1 sæti Sindri Jóhanns.
- 2005 Suðurlandsmót barnaskólasveita, Hella 13 mars, 1 sæti, Barnaskóli Vestmannaeyja A, Nökkvi, Alexander, Sindri Freyr og Hallgrímur 2 sæti, Barnaskóli Vestmannaeyja B, Bjartur Týr, Kristófer, Hannes Jóh. og Sindri Jóh.
- 2005 Deildakeppni barna, Apríl : 24 keppendur. Sigurvegarar í deildum; 1 deild, Alexander og Nökkvi með 6,5 vinninga af 8. 2 deild, Daði Steinn með 6,5 vinninga af 8 og í 3 deild Nökkvi Dan með 4 vinninga.
- 2005 Deildakeppni barna 2004-05, Veturinn 2004-05, 1 sæti með 22 stig Alexander, keppt var í 3 deildum og var keppt mánaðarlega heil umferð (des., jan., febrúar og apríl).
- 2005 Skólaskákmót Suðurlands, Selfossi 24. apríl, 1-7. bekkur: 1 sæti Sindri Freyr Guðjónsson, 3. sæti Hallgrímur Júlíusson
- 2005 Gjöf til félagsins,Páskadagur, Heiðursfélagi Taflfélagsins, Sigmundur Andrésson, færði félaginu skákbókasafn sitt að gjöf ásamt úrklippusafni sínu.
- 2005 Unglingameistaramót Vestmannaeyja, 16. maí, Sigurvegari var Alexander Gautason, unglingameistari Vestmannaeyja 2005
- 2005 Deildakeppni barna, 12. nóvember : 26 keppendur. Sigurvegarar í deildum; 1 deild, Alexander með 6 vinninga af 8. 2 deild, Sindri Freyr með 6,5 vinninga af 8 og í 3 deild Alex Jóhanns. með 5 vinninga af 5.
- 2005 Íslandsmót unglingasveita, Garðabæ 26. nóvember, 6 sæti með 16 vinn., Barnaskóli Vestmannaeyja A, Nökkvi, Ágúst Sölvi, Alexander og Sindri Freyr. B sveitin varð í 12 sæti af 17 sveitum með 14 vinn.
- 2005 Deildakeppni barna,Deildakeppni barna. 27. desember : 16 keppendur. Sigurvegarar í deildum; 1 deild, Sindri Freyr með 5 vinninga af 6. 2 deild, Hallgrímur Júl. með 5 vinninga af 6 og í 3 deild Nökkvi Dan og Baldur með 2,5 vinninga af 3.
- 2006 Íslandsmót barna, Reykjavík 21. janúar, 6-12 sæti Ársæll Ingi, Ólafur Freyr og Baldur með 6 vinn. Ársæll varð efstur í sínum aldursflokki, 1997 og þeir Alex og Baldur urðu báðir í 2 sæti í sínum aldursflokkum, Alex í flokki 1998 og Baldur í flokki 1997. Á mótinu voru 112 keppendur, 11 frá TV.
- 2006 Deildakeppni barna, 16. mars : 18 keppendur. Sigurvegarar í deildum; 1 deild, Nökkvi með 6,5 vinninga af 7. 2 deild, Kristófer með 7 vinninga af 7 og í 3 deild Sigurður Arnar með 4,5 vinninga af 5.
- 2006 Íslandsmót barnaskólasveita, 25-26. mars, 2 sæti, Barnaskóli Vestmannaeyja A með 28,5 vinn. af 36: Nökkvi, Alexander, Sindri Freyr og Hallgrímur. Hallgrímur fékk borðaverðlaun fyrir árangur sinn á 4 borði, en hann fékk 8,5 vinn. af 9 mögulegum. 4 sæti, Barnaskóli Vestmannaeyja B með 21,5 vinn.: Bjartur Týr, Ólafur Freyr, Daði Steinn og Nökkvi Dan. C sveit skólans varð í 15 sæti með 15 vinn. og Hamarsskóli varð í 12 sæti með 16,5 vinn. Alls kepptu 20 sveitir, þar af 4 úr Eyjum, en alls 5 utan af landi.
- 2006 Mótaröð barna, Vorið 2006, 1 sæti með 250 stig Nökkvi, 2 sæti með 240 stig Ágúst Sölvi, 3 sæti með 228 stig Hallgrímur, keppendur voru 32 talsins yfir veturinn.
- 2006 Deildakeppni barna 2005-06, Vesturinn 2005-2006, 1 sæti með 23 stig Nökkvi, 2 sæti með 22,5 stig Alexander, 3 sæti með 22,5 stig Ágúst Sölvi, keppendur voru 30 talsins í 3 deildum og var keppt mánaðarlega heil umferð (nóv., des., jan og mars).
- 2006 Íslandsmót grunnskólasveita, 1-2. apríl, 4 sæti, Barnaskóli Vestmannaeyja A með 21,5 vinn. af 36 mögulegum: Nökkvi, Alexander, Hallgrímur og Sindri Freyr varam: Bjartur Týr
- 2006 Evrópumót barnaskólasveita, Varna í Búlgaríu 21.-28. júní, 5 sæti U12 Barnaskóli Vestmannaeyja með 13,5 vinn. af 28 mögulegum, Nökkvi (2 vinn), Alexander (3,5 vinn), Sindri Freyr (3 vinn) og Hallgrímur (5 vinn) varamaður Kristófer. Sveitin keppti fyrst við A Búlgaríu (1-3), Rússland (1,5-2,5), vann svo B Búlgaríu (3,5-0,5), Hvíta Rússland (1,5-2,5), gerði jafnt við Makedóníu (2-2), sigraði Þýskaland (3,5-0,5) og Kína (0,5-3,5)
- 2006 Íslandsmót unglingasveita, Garðabæ 25. nóvember, 4 sæti, Barnaskóli Vestmannaeyja A, Nökkvi, Bjartur Týr, Alexander, Hallgrímur, og Sindri Freyr. B sveitin var í 8 sæti af 17 sveitum.
- 2007 Fréttapýramídinn, 8. janúar, Taflfélag Vestmannaeyja hlýtur fréttapýramída Eyjafréttar, fyrir framlag til íþrótta.
- 2007 Íslandsmót barna, 27. janúar, 1 sæti með 7 vinn. af 8 mögulegum, Kristófer Gautason, 3 sæti með 6,5 vinn. Daði Steinn Jónsson. Aldursflokkaverðlaun Guðlaugur Gísli Guðmundsson efstur í flokki barna fæddum 2000 með 5 vinn. Á mótinu voru 68 keppendur, 14 keppendur frá TV.
- 2007 Skákmaraþon í Eyjum, 23.-24. febrúar frá kl. 12 til 12 - Þótti þetta nýmæli takast afar vel og var mikil þátttaka og var safnað áheitum til félagsins. Alls voru tefldar 1050 skákir á þessum sólarhring með þátttöku 115 manna og kvenna, en karlar voru 82 en konur 33. Hvítur sigraði í 528 skákum (50,3%), svartur vann í 479 skákum (45,6%) og jafntefli varð í 43 skákum (4%).
- 2007 Íslandsmót barnaskólasveita, 30. mars - 1. apríl, 1 sæti, Barnaskóli Vestmannaeyja A: Nökkvi, Alexander, Sindri Freyr og Hallgrímur með 30,5 vinn af 36. Í 6 sæti, Barnaskóli Vestmannaeyja B með 19,5 vinn. og varð efst B sveita. Á mótinu kepptu 22 sveitir, þar af 2 úr Eyjum, en alls 4 utan af landi.
- 2008 Íslandsmót barna, 26. janúar, 1 sæti með 7,5 vinn af 8 mögulegum, Kristófer Gautason, Þetta er annað árið í röð sem Kristófer vinnur titilinn og er það í fyrsta skipti sem sami krakki vinnur mótið tvö ár í röð. Í 5 sætiÁrsæll Ingi og Tómas Aron með 6 vinn. Þeir Róbert Aron og Ágúst Már urðu efstir í sínum aldursflokki, 1999 og 2000. 100 keppendur voru á mótinu, þar af 18 krakkar frá TV.
- 2008 Skákmaraþon í Eyjum, 22.-23. febrúar - Annað skiptið sem efnt var til skákmaraþons. Nokkur nýmæli fóru af stað svo sem happadrætti og söfnuðust áheit kr. 200 þús. til félagsins. Alls voru tefldar 1352 skákir á þessum sólarhring með þátttöku 102 manna og kvenna, en karlar voru 79 en konur 23. Hvítur sigraði í 637 skákum (47,1%), svartur vann í 634 skákum (46,9%) og jafntefli varð í 81 skák (6%).
- 2008 Íslandsmót barnaskólasveita, 8. -9. mars, 1 sæti, Grunnskóli Vestmannaeyja A: Kristófer, Daði Steinn, Ólafur Freyr og Valur Marvin með 30 vinn af 36. Voru jafnir Rimaskóla A og kepptu bráðabana sem þeir unnu 4,5-3,5. Ólafur Freyr og Valur Marvin fengu borðaverðlaun fyrir árangur sinn á 3 og 4 borði, en þeir fengu 8,5 og 8 vinninga af 9 mögulegum. Á mótinu kepptu 17 sveitir, þar af 1 úr Eyjum en alls 5 utan af landi.
- 2008 Íslandsmót U15 í Eyjum, Haldið í Vestmannaeyjum 18. október, 2 sæti í mótinu í heild og Íslandsmeistari Pilta Nökkvi Sverrisson með 7,5 vinn. af 9. (76 keppendur þar af 62 úr TV) TV sigraði í 7 árgöngum af 10.
- 2008 Íslandsmót unglingasveita, 22. nóvember, 3 sæti, Sveit Taflfélags Vestmannaeyja: Nökkvi, Daði Steinn, Bjartur Týr og Ólafur Freyr.
- 2008 Íslandsmet í þátttöku á stúlknaskákmóti í Eyjum, Slegið var Íslandsmet í þátttöku á stúlknamóti í Vestmannaeyjum 2. desember. Til leiks mættu 65 stúlkur og konur og tefldu sér til ánægju (eldra met 49). Sigurvegari var Thelma Halldórsdóttir.
- 2008 Heimsókn forseta Skáksambandsins til Eyja, 11-12. desember kom Björn Þorfinnsson forseti SÍ ásamt Davíð Kjartanssyni skákkennara til Eyja til kennslu og skoðunar.
Grein eftir Björn Þorfinnsson forseta SÍ, eftir ferð þeirra í desember 2008:
„Næst verðum við lengur“ voru orð Davíðs Kjartanssonar, kennara við Skákskóla Íslands þegar við stigum upp í flugvélina á leiðinni heim eftir velheppnaða tveggja daga heimsókn til Vestmannaeyja. Heimamenn tala um Skákeyjuna og hafa fulla ástæðu til enda er skákstarfið þar í miklum blóma og umgjörðin sem að tekist hefur að skapa er til stakrar fyrirmyndar. Taflfélag Vestmannaeyja heldur uppi afar öflugu starfi með æfingum fyrir alla aldurshópa og fjölbreyttum mótum. Starf sem einkennist af hugsjón og ástríðu og hefur skilað af sér tveimur Íslandsmeisturum í barnaflokki og tveimur Íslandsmeistaratitlum í sveitakeppni barnaskóla síðustu ár. Ég hef dáðst að þessum árangri í fjarlægð en loksins núna skil ég að hann er enginn tilviljun. Á þessari önn hefur Grunnskóli Vestmannaeyja boðið upp á skákkennslu fyrir krakka á barnaskólaaldri og hefur Björn Ívar Karlsson sinnt kennslunni. Öflugri maður í það verk er vandfundinn. Framtak skólans er aðdáunarvert og það var hreint út sagt mögnuð upplifun þegar við Davíð tefldum fjöltefli við ríflega 150 börn á föstudagsmorgni. Allir þátttakendur með undirstöðuatriði skáklistarinnar á hreinu, jafnvel þótt að rétt svo sæist í ennið á börnunum yfir borðbrúnina . Það er ljóst að Eyjamönnum mun ekki skorta efnivið í framtíðinni. Áhugi skólastjórnenda á öflugu skákstarfi virðist vera mikill og þegar það helst í hendur við öflug starf skákfélags í bæjarfélaginu þá eru menn á réttri leið. Í gegnum tíðina þá hefur skákhreyfingin staðið sig illa í því að sinna félagslega þættinum í barna- og unglingastarfi. Það kemur alltaf að því hjá ungum skákmönnum að á einhverjum tímapunkti minnkar áhuginn á íþróttinni tímabundið, það þekki ég af eigin reynslu. Þá þarf maður einhvern annan hvata til að mæta á æfingar eða mót og þá er ekkert jafnsterkt og það að mæta til að hitta vini sína. Það er augljóst að það atriði er í góðu lagi hjá TV því krakkarnir virðast skemmta sér konunglega á æfingum. Einbeitingin og keppnisharkan skín úr hverju andliti en brosið er aldrei langt undan. En hvað getur farið úrskeiðis? Þessir ungu skákmenn þurfa tækifæri og áskorarnir. Þá þarf að hvetja krakkana til að viða sjálf að sér þekkingu í skákbókum og skáksíðum á netinu. Með því að fara yfir og fylgjast með skákum fremstu skákmeistara heims þá lærir maður alveg ótrúlega hratt. Þegar það helst í hendur við mætingu á æfingar og taflmennsku í skákmótum þá eru ungum skákmönnum allir vegir færir – jafnvel þótt að þeir þurfi að taka Herjólf. Ég vil þakka fyrir frábærar móttökur í þessari fyrstu „kennsluferð“ minni til Eyja. Fyrstu en ekki þeirri síðustu því það er afar mikilvægt að Skáksamband Íslands styðji við bakið á þessu frábæra starfi með ráðum og dáð. Næst verðum við lengur.
- 2009 Netskákmót í Eyjum, 5. mars, Eyjar á móti völdu liði ofan af landi og sigruðu Eyjamenn með 7 vinningum gegn 5.
- 2009 Íslandsmót barnaskólasveita, Reykjavík 7. - 8. mars, 2 sæti, Barnaskóli Vestmannaeyja, Daði Steinn, Kristófer, Ólafur Freyr og Valur Marvin, voru efstir í undankeppni allra liða í Rimaskóla með 24,5 vinninga af 28 mögulegum en Rimaskóli var með 21,5 vinn. Fjögur efstu liðin kepptu svo daginn eftir og fór þá svo að við lentum í 2 sæti á eftir Rimaskóla. Þessi tilhögun keppninar með tvo keppnisdaga, þar sem fyrri dagurinn gilti ekkert nema til að komast í úrslit var nýlunda og var sett okkur til höfuðs, eftir gott gengi okkar árin á undan. B sveit Grunnskólans hlaut 9 sæti, C sveitin 12 sæti, D sveitin 27 sæti og E sveitin 14 sæti og varð efst E sveita. Á mótinu kepptu 40 sveitir, þar af 5 úr Eyjum en alls 10 utan af landi.
- 2009 Skákmaraþon í Eyjum, 14.-15. mars - þriðja skiptið sem maraþonið fór fram, nú voru tefldar 1429 skákir sem er met. Söfnuðust áheit kr. 120 þús. til félagsins. Alls tóku þátt 98 manns.
- 2009 Fjöltefli Stuart Conquest, 4. apríl, Vestmannaeyjum, Stuart Conquest (2549) stórmeistari frá Skotlandi hélt hér fjöltefli.
- 2009 Skólaskákmót Suðurlands, Hvolsvelli 24. apríl, 1-7. bekkur: 1 sæti Daði Steinn Jónsson, 8-10 bekkur: 1 sæti Nökkvi Sverrisson.
- 2009 Landsmót í skólaskák, Akureyri 3. maí, 1-7. bekkur: 7 sæti Daði Steinn Jónsson, 8-10 bekkur: 3 sæti Nökkvi Sverrisson.
- 2009 Vestmannaeyjamót stúlkna, 5. maí (28 keppendur), Vestmannaeyjameistari stúlkna: Thelma Halldórsdóttir.
- 2009 Meistaramót Skákskóla Íslands, 24. maí, 14 ára og yngri: 1 sæti Nökkvi, 12 ára og yngri: 1 sæti Kristófer.
- 2009 Norðurlandamót barnaskólasveita í Eyjum, Vestmannaeyjum 18.-20. september, 2 sæti Barnaskóli Vestmannaeyja með 10,5 vinn ; Daði Steinn Jónsson, Kristófer Gautason, Ólafur Freyr Ólafsson og Valur Marvin Pálsson, varamaður: Nökkvi Dan Elliðason Liðsstjóri var Björn Ívar Karlsson (yngri).
- 2010 Íslandsmót barnaskólasveita, Smáralind 21. mars, 2 sæti með 25 vinn. af 32, Barnaskóli Vestmannaeyja, Kristófer, Sigurður Arnar, Róbert Aron og Hafdís. Vegna veðurs gátum við ekki sent fleiri sveitir og margir komust ekki á mótið. Kristófer fékk borðaverðlaun á 1 borði, en hann vann allar sínar skákir.
- 2010 Íslandsmót barna í Eyjum, Vestmannaeyjum, 27. mars, 31 keppandi, 2 sæti Sigurður Arnar 3 sæti Jörgen Freyr.
- 2010 Vestmannaeyjamót stúlkna, 13. apríl (16 keppendur), Vestmannaeyjameistari stúlkna: Indíana Kristinsdóttir.
- 2010 Skólaskákmót Suðurlands, Flúðum 2. maí, 1-7. bekkur: 1 sæti Kristófer Gautason, 8-10 bekkur: 1 sæti Nökkvi Sverrisson.
- 2010 Íslandsmeistaramótið í skólaskák, Reykjavík 7.-9. maí, 1 sæti í yngri flokki Kristófer Gautason með 10 vinn. af 11 mögulegum. Í eldri flokki hlaut Nökkvi Sverrisson 5 sæti með 7 vinn. og Daði Steinn Jónsson 8 sæti með 5,5 vinn.
- 2010 Fjölskylduhelgi í Eyjum, 21. maí, Opið hús í Taflfélaginu.
- 2010 Meistaramót Skákskólans, Reykjavík 28.-30. maí, 32 keppendur. 21 sæti Sigurður Arnar Magnússon með 3 vinn. og 30 sæti Jörgen Freyr Ólafsson með 2 vinn.
- 2010 Vinnslustöðvarmót, 3.-4. september, 26. keppendur, 7 umferðir. 1. sæti Þorsteinn Þorsteinsson TV með 6 vinn, 2. sæti Ægir Páll Friðbertsson TV með 5,5 vinn. 3. sæti Örn Leó Jóhannsson Reykjavík með 5 vinn. Yngri flokki 1. sæti Daði Steinn Jónsson TV með 4,5 vinn.
- 2010 Íslandsmót ungmenna, Reykjavík 30. október, 52 keppendur, 2-3 sæti Daði Steinn Jónsson með 7 vinn.
- 2010 Nóvemberhelgarmót, 14. nóvember, 10 keppendur, 5 umferðir. 1 sæti Björn Ívar Karlsson með 5 vinn.
- 2010 Volcano mótið, Volcano Cafe á gamlársdag 31. desember, 14 keppendur 1. sæti; Björn Ívar Karlsson (yngri) með 9 vinn,. yngri en 15 ára; Kristófer Gautason með 6 vinn., yngri en 12 ára; Róbert Aron Eysteinsson með 3,5 vinn.
- 2011 Íslandsmót barna, janúar, 4 sæti með 6 vinn., Eyþór Daði Kjartansson sem var eini keppandinn frá Eyjum að þessu sinni.
- 2011 Björn Ívar Suðurlandsmeistari Í byrjun febrúar fór fram Suðurlandsmeistaramót í Þingborg í Árnessýslu. Nokkrir keppendur fóru frá Eyjum, en það fór svo að Björns Ívars kom sá og sigraði með 6 vinninga af 7. Keppendur voru 26 víða að af landinu.
- 2011 Fjórar sveitir í deildakeppninni Í ár sendi Taflfélag Vestmannaeyja 4 sveitir til leiks á Íslandsmótið í skák. A-sveit tefldi í 1 deild, B-sveitin í 2 deild, C-sveitin í 3 deild og D-sveit félagsins í 4 deild. Markvert var að á meðan C sveitin féll úr 3 deild, þá komst D sveitin upp úr 4 deildinni.
- 2011 Vormót TV, apríl-maí. 1 sæti Björn Ívar Karlsson (yngri) með 5 vinn. Keppendur voru 10.
- 2011 Íslandsmót barnaskólasveita, 2.-3. apríl í Rimaskóla. 4 sæti, Barnaskóli Vestmannaeyja A: Sigurður Arnar, Róbert Aron, Jörgen Freyr, Eyþór Daði og Guðlaugur Gísli með 24 vinn. B sveitin var þunnskipuð, aðeins tveir keppendur, þau Daníel Má og Hafdísi, en það kom ekki í veg fyrir að Hafdís hlaut borðaverðlaun á 2 borði með 8 vinninga af 9. Á mótinu kepptu 41 sveit.
- 2011 Björn Ívar flytur frá Eyjum Hinn 31 maí fór fram síðasta æfing undir stjórn Björns Ívars, en hann er að flytja frá Eyjum. Ástæðan er sú að hann missir stöðu sína sem kennari við Grunnskólann í Eyjum.
- 2011 Nökkvi í 5 sæti í Búdapest Í júní tók Nökkvi Sverrisson þátt í First Saturday mótinu í Búdapest og náði hann 5 sæti og hækkaði um 31 stig.
- 2011 Firmakeppni TV, Fór fram 1 desember og voru að 48 fyrirtæki sem tóku þátt. Vinnslustöðin varð sigurvegari, en fyrir þá tefldi Nökkvi Sverrisson.
- 2011 Volcano mótið, Volcano Cafe á gamlársdag 31. desember og rann allur ágóði til styrktar Steingrími Jóhannessyni fótboltamanni í veikindum hans, 1. sæti; Björn Ívar Karlsson (yngri), yngri en 15 ára; Kristófer Gautason, yngri en 12 ára; Sigurður Arnar Magnússon.
- 2012 Skólaskákmót Suðurlands, Selfossi 2. maí, 1-7. bekkur (8 kepp): 1 sæti Sigurður Arnar Magnússon með 7 vinn., 4 sæti Hafdís Magnúsdóttir með 3 vinn. 8-10 bekkur (7 kepp): 1 sæti Kristófer Gautason með 6 vinn. 3 sæti Daði Steinn Jónsson með 4 vinn.
- 2012 Vinamót Álfhóls og Eyja, Vestmannaeyjum 18.-19.maí. Þá komu Íslandsmeistarar Álfhólsskóla í Kópavogi og öttu kappi við skákkrakka í Vestmannaeyjum. Sett var upp mót þar sem sveitir kepptu allir við alla og fór það svo að Álfhólsskólakrakkar sigruðu með 14,5-5,5 vinn. Sveit Eyja skipuðu þeir Sigurður Arnar Magnússon, Jörgen Freyr Ólafsson, Eyþór Daði Kjartansson, Guðlaugur Gísli Guðmundsson og Daníel Már Sigmarsson.
- 2012 Nökkvi á Skoska meistaramótið. Í júlí tók Nökkvi Sverrisson þátt í skoska meistaramótinu. Hann stóð sig mjög vel, náði 5 vinningum og hækkaði um 39 stig.
- 2012 Haustmót TV. Mótinu, sem lauk í desember var hnífjafnt og spennandi, en alls tóku 7 manns þátt. Sigurvegari var Nökkvi Sverrisson með 4 vinn., og mikið var um óvænt úrslit, t.d. sigraði Karl Gauti báða feðgana Nökkva og Sverri, en hann lenti í 3 sæti með 3,5 vinn.
- 2012 Volcano mótið, Volcano Cafe á gamlársdag 31. desember. Keppendur voru 14. 1. sæti; Einar K. Einarsson með 11 vinn., yngri en 15 ára; Kristófer Gautason, með 8 vinn.
- 2013 Fjöltefli í Akóges. Í tilefni af 40 ára afmælis Heimaeyjargossins var haldið fjöltefli á vegum TV og mættu 27 manns til leiks, mest grunnskólabörn. Helgi Ólafsson stórmeistari vann allar skákirnar en gerði jafntefli við Nökkva Sverrison og Karl Gauta Hjaltason.
Félagið og skólarnir í Eyjum náðu um árabil flestum þeim titlum sem unnt var að vinna, m.a. Suðurlandsmeistaratitlum, Íslandsmeistaratitlum og tvisvar urðu sveitir héðan í 2 sæti á Norðurlandamótum og náðu að auki 2007 fimmta sætinu á EM í Varna í Búlgaríu.
Íslandsmeistaratitlar í barnaflokkum:
- 2005 Nökkvi Sverrisson, Íslandsmeistari barna
- 2007 Barnaskóli Vestmannaeyja Íslandsmeistari barnaskólasveita, Nökkvi Sverrisson, Alexander Gautason, Sindri Freyr Guðjónsson og Hallgrímur Júlíusson.
- 2007 Barnaskóli Vestmannaeyja, 2 sæti á Norðurlandamótinu í Örsundsbro í Svíþjóð (sama sveit) Liðsstjóri Helgi Ólafsson, stórmeistari.
- 2007 Kristófer Gautason, Íslandsmeistari barna
- 2008 Barnaskóli Vestmannaeyja, Íslandsmeistari barnaskólasveita, Kristófer Gautason, Daði Steinn Jónsson, Ólafur Freyr Ólafsson og Valur Marvin Pálsson og þátttaka á Norðurlandamótinu á Álandseyjum það haust, liðsstjóri Björn Ívar Karlsson (yngri).
- 2008 Kristófer Gautason, Íslandsmeistari barna
- 2008 Nökkvi Sverrisson,, Íslandsmeistari Pilta
- 2009 Barnaskóli Vestmannaeyja, 2 sæti á Norðurlandamótinu í Eyjum (sama sveit) liðsstjóri Björn Ívar Karlsson (yngri).
- 2010 Kristófer Gautason, Íslandsmeistari í Skólaskák, yngri flokki
- 2013 Nökkvi Sverrisson,, Meistari Skákskóla Íslands
Þátttaka ungmenna frá Vestmannaeyjum á NM, EM og HM
- 2000 NM - Espen, Finnlandi Björn Ívar Karlsson (yngri) Í C flokki með 2,5 vinn.
- 2004 NM - Karlstad, Svíþjóð Björn Ívar Karlsson (yngri) Í A flokki með 1,5 vinn.
- 2005 NM - Ósló Björn Ívar Karlsson (yngri) Í A flokki með 2,5 vinn.
- 2007 NM - Reykjavík, Nökkvi Sverrisson í D flokki með 2,5 vinn. og Kristófer Gautason í E flokki með 1 vinn.
- 2007 NM - Örsundsbro, Svíþjóð, Sveit barnaskóla Vestmannaeyja keppti fyrir Íslands hönd og lenti þeir í 2 sæti með 13,5 vinn. Sveitina skipuðu þeir Nökkvi Sverrisson, Alexander Gautason, Sindri Freyr Guðjónsson, Hallgrímur Júlíusson og Kristófer Gautason, liðsstjóri var Helgi Ólafsson stórmeistari.
- 2008 NM - Tjele, Danmörku, Kristófer Gautason í E flokki með 3 vinninga.
- 2008 NM - Álandseyjum, Finnlandi, Sveit barnaskóla Vestmannaeyja keppti fyrir Íslands hönd og lenti þeir í 5 sæti með 8,5 vinn. Sveitina skipuðu þeir Kristófer Gautason, Daði Steinn Jónsson, Ólafur Freyr Ólafsson og Valur Marvin Pálsson, liðsstjóri var Björn Ívar Karlsson (yngri).
- 2009 NM - Færeyjum, Nökkvi Sverrisson í C flokki.
- 2009 NM - Vestmannaeyjum, Sveit barnaskóla Vestmannaeyja var önnur tveggja sveita sem keppti fyrir Íslands hönd og lentu þeir í 2 sæti með 10,5 vinn. Sveitina skipuðu þeir Daði Steinn Jónsson, Kristófer Gautason, Ólafur Freyr Ólafsson, Valur Marvin Pálsson og Nökkvi Dan Elliðason, liðsstjóri var Björn Ívar Karlsson (yngri).
- 2009 HM - Tyrklandi, 12.-22. nóvember Kristófer Gautason 4,5 vinn. í 12 ára og yngri.
- 2010 NM - Vesterás, Svíþjóð, Kristófer Gautason í D flokki með 3 vinn. og Róbert Aron Eysteinsson í E flokki með 2,5 vinn.
- 2011 NM - Ósló, Noregi, Nökkvi Sverrisson 3 sæti í B flokki með 4 vinn.
- 2012 NM - Espoo, Finnlandi, Nökkvi Sverrisson keppti í A flokki með 2 vinn.
- 2013 NM - Bifröst, Íslandi, Nökkvi Sverrisson keppti í A flokki með 2,5 vinn.
- 2014 NM - Billund, Danmörku, 14.-16. febr. Nökkvi Sverrisson 3 sæti í A flokki með 3,5 vinn.
Eins og áður sagði var upphafið af blómaskeiði í unglingastarfinu 2003-2010 án nokkurs vafa þegar forsvarsmenn TV ákváðu haustið 2003 að blása til stórmóts fyrir börn og unglinga á grunnskólaaldri. Undirbúningur fór strax á fullt skrið. Meðal annars var gerður sérhannaður verðlaunapeningur fyrir mótið og fengju allir þátttakendur pening til minningar, sem var algjör nýjung á skákmótum og átti vafalítið þátt í vinsældum mótsins. Þá var gefið út sérstakt skákblað sem einnig var einstakt á barnaskákmótum. Mótið hófst á fjöltefli við Helga Ólafsson stórmeistara.
Fyrsta skákævintýrið fór fram vorið 2004 og var keppt í 5 flokkum einstaklinga auk þess sem sá keppandi sem fékk hæst vinningshlutfall var útnefndur Ævintýrakóngur. Þá var keppni í teikningum sem tengdust mótinu og Eyjum, pílukasti og spurningakeppni á lokahófinu samanstóð af glæsilegri verðlaunaafhendingu með mikilli viðhöfn. Keppendur voru 88 sem var framar öllum vonum og mikill fjöldi krakka úr Eyjum tók þátt. Hingað komu allir sterkustu skákkrakkar á landinu og fengu krakkarnir í Eyjum verðugt verkefni, sem þurfti og átti auðvitað að leysa. TV hlaut þó aðeins tvenn verðlaun, silfur og brons í yngsta flokknum, en það snérist heldur betur við næsta ár, enda uppsveiflan rétt að hefjast. Árið eftir var mótið stækkað enn frekar, bætt við einum einstaklingsflokki, sveitakeppni í tveimur flokkum og bætt við leikjakeppnum s.s. boltakasti, skákþrautakeppni og skákorðakeppni og ýmislegt annað útfært nánar. Mótið hófst á fjöltefli við Henrik Danielsen stórmeistara í TV.
Og það var eins og við manninn mælt; mótið 2005 var risamót með 110 keppendum og það sem meira var að Eyjamenn sigruðu eftirminnilega í yngstu aldursflokkunum og hlutu 3 gull, 2 silfur og 2 brons og unnu sveitakeppni yngri liða sem og brons í þeim flokki. Þetta var byrjunin á uppgangi þeirra krakka sem áttu eftir að láta mikið að sér kveða næstu árin í barnaskákmótum.
Skákævintýri 2004:
- 1-2 bekkur (14) 1. Hrund Hauksdóttir, Hróknum, 2. Ólafur Freyr Ólafsson TV, 3. Kristófer Gautason TV.
- 3-4 bekkur (38) 1. Mikael Luis Gunnlaugsson, Hróknum.
- 5-6 bekkur (20) 1. Hjörvar Steinn Grétarsson, Hellir.
- 7-8 bekkur ( 7) 1. Ingvar Ásbjörnsson, Hróknum.
- 9-10 bekkur ( 9) 1. Atli Freyr Kristjánsson
- Spurningakeppni skákliða 1. Taflfélag Vestmannaeyja.
- Ævintýrakóngur : Mikael Luis Gunnlaugsson, Hróknum (94% vinn.)
Um þetta fyrsta skákævintýri var skrifað í Morgunblaðið ; TAFLFÉLAG Vestmannaeyja kom sér með eftirminnilegum hætti inn á kortið í unglingastarfi taflfélaganna með glæsilegri skákhátíð um síðustu helgi. Þetta lofsverða framtak Eyjamanna virtist nánast spretta upp úr engu og með stuttum fyrirvara. Engu að síður var framkvæmdin til fyrirmyndar líkt og slíkar skákhátíðir væru daglegt brauð í Eyjum. Sér til liðsinnis fékk Taflfélag Vestmannaeyja Ísfélagið og Vinnslustöðina. Skákævintýri í Eyjum hófst á föstudagskvöld með fjöltefli stórmeistarans Helga Ólafssonar. Þar mætti stórmeistarinn 77 andstæðingum og náðu tveir þeirra jafntefli við meistarann, Davíð Arnarson frá Skákfélagi Akureyrar og Hörður Aron Hauksson frá Skákfélaginu Hróknum Í aðalmótinu voru keppendur 88 frá 7 skákfélögum víðsvegar að af landinu. Meðan á mótinu stóð var einnig keppt í ýmsum þrautum, s.s. skákþrautakeppni, pílukasti, boltakasti og teiknimyndasamkeppni. Í lokahófinu skemmtu þátttakendur og aðstandendur þeirra sér við tónlistaratriði, dansatriði og spurningakeppni milli taflfélaga. Þar voru einnig veitt verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í öllum flokkum alls 15 verðlaun. Allir þátttakendur fengu verðlaunapening fyrir þátttökuna, upphleypta mynd af Heimakletti með letruninni Skákævintýri í Eyjum. Einnig voru veitt verðlaun fyrir leikjakeppnirnar og spurningakeppni. Bestum árangri á mótinu náði Mikael Luis Gunnlaugsson, skákfélaginu Hróknum, og var hann útnefndur Ævintýrakóngurinn og hlaut að launum uppstoppaðan lunda sem hvíldi með annan fót á riddara sem stóð á taflborði.
Skákævintýri 2005:
- 1-2 bekkur (15) 1. Kristófer Gautason TV, 9 vinn., 2. Ársæll Ingi Guðjónsson TV 7,5 vinn, 3. Nökkvi Dan Elliðason TV, 6,5 vinn.
- 3 bekkur (26) 1. Daði Steinn Jónsson TV, 7 vinn., 3. Valur Marvin Pálsson TV, 6,5 vinn.
- 4 bekkur (14) 1. Brynjar Ísak Arnarson TG, 8,5 vinn.
- 5 bekkur (16) 1. Alexander Gautason TV, 7 vinn., 2. Hallgrímur Júlíusson TV, 6,5 vinn.
- 6-7 bekkur (27) 1. Hjörvar Steinn Grétarsson Helli, 8 vinn.
- 8-10 bekkur (12) 1. Sverrir Þorgeirsson, Haukum, 7,5 vinn.
- Sveitakeppni 1-6 bekkjar (16): 1. Taflfélag Vestmannaeyja A 18 vinn/20.
- Sveitakeppni 7-10 bekkjar ( 8): 1. Fjölnir A 22,5 vinn/28.
- Spurningakeppni skákliða ( 8) 1. Hellir.
- Ævintýrakóngur : Kristófer Gautason, TV (100% vinn.)
Þátttaka félagsins á Evrópumótinu í Varna 2006
Í apríl 2006 var efstu sveitum á Íslandsmóti barnaskólasveita gefin kostur á að taka þátt í fyrsta Evrópumóti í skólaskák og var Barnaskóli Vestmannaeyja þar á meðal. Strax vaknaði mikill áhugi á að taka þátt í mótinu og aðallega til þess að öðlast keppnisreynslu fyrir komandi misseri, ef félagið hefði hug á því að stefna hátt. Taflfélagið fékk leyfi Barnaskólans til að sjá um ferðina og allt sem henni viðkom. Hafist var handa við að safna farareyri því ljóst var að Taflfélagið gæti ekki þurrausið sína sjóði í slíka ferð. Óhætt er að segja að söfnunin hafi tekist afar vel og fyrirtæki og einstaklingar í Vestmannaeyjum studdu vel við bakið á skákstrákunum svo í lokin tókst að fjármagna ferðina. Vert er að lýsa enn og aftur yfir þakklæti fyrir þennan gífurlega stuðning og þá jákvæðni sem Eyjamenn sýndu þessu framtaki. Þeir sem fóru voru með í ferðina voru þeir Sverrir Unnarsson sem liðsstjóri og Karl Gauti Hjaltason og Guðjón Hjörleifsson sem fararstjórar. Keppendur voru þeir Nökkvi Sverrisson, Alexander Gautason, Sindri Freyr Guðjónsson, Hallgrímur Júlíusson og Kristófer Gautason. Ferðin tókst í alla staði mjög vel og þarna styrktust bönd þeirra ungmenna sem síðar héldu á lofti merki félagsins og ekki síður þeirra sem héldu utan um drengina. Ekki síður sáu þeir í þessari ferð að þeir stóðu fyllilega jafnfætis jafnöldrum sínum í öðrum löndum.
Keppt var í U12 ára flokki fyrir þá sem eru fæddir eftir 1. janúar 1994. Í þeim flokki mættu 10 lið og var keppt eftir Svissnesku kerfi, 7 umferðir. Hver skák var 2x90 mínútur og að auki 30 sekúntur á hvern leik. Liðin í þessum flokki voru 3 lið frá Búlgaríu, tvö lið frá Hvíta Rússlandi, Íslandi, Þýskalandi, Makedóníu, Rússlandi og gestalið frá Kína. Sverrir skipaði í lið og var Nökkvi á 1 borði, Alexander á 2 borði, Sindri Freyr á 3 borði og Hallgrímur á 4 borði, Kristófer var varamaður.
Í fyrstu umferð lentum við á móti liði frá Búlgaríu - Rakovski, sem síðar lenti í efsta sæti Evrópuþjóða. Nökkvi náði ágætri stöðu, en var ragur og tapaði, Alexander átti vinningsleik sem hann sá ekki og Sindri Freyr átti jafna skák sem hann lék niður. Hallgrímur vann sinn andstæðing eftir ónákvæmni í byrjun. Greinilega var um ofmat að ræða hjá okkar mönnum og tap 1-3 varð niðurstaðan þrátt fyrir að ljóst var að við áttum alla möguleika á ágætri byrjun á mótinu. Í annari umferð lékum við á móti Rússunum – Gimnazija, sem lenti í 3 sæti Evrópuþjóða og ætluðum við nú að standa okkur betur. Nökkvi tefldi ágæta og langa skák og gerði jafntefli. Alexander tapaði og Sindri virtist vera að vinna en lék af sér hrók og tapaði, en Hallgrímur vann þrátt fyrir að fá erfiða stöðu í byrjun. Úrslit því 1,5-2,5. Í þriðju umferð áttumst við við lið frá Búlgaríu og er skemmst frá því að segja að okkar strákar virtust vera að ná sér á strik og unnu á 2-4 borði. Nökkvi lenti skiptamun undir en náði að snúa taflinu í jafntefli. Stórsigur 3,5 – 0,5 og við komnir í 5 sætið. Í 4 umferð fengum við lið frá Hvíta Rússlandi og gerðu strákarnir á 1-3 borði allir jafntefli, en Hallgrímur missteig sig og tapaði sinni fyrstu skák á mótinu. Tap 1,5-2,5. Í fimmtu umferð tefldum við við Makedóníu. Hallgrímur vann sína skák tiltölulega fljótt og Nökkvi tapaði. Hinar skákirnar urðu langar en Alexander innbyrti sigur um síðir, en Sindri tapaði. Jafnt í viðureigninni 2-2. Í næst síðustu umferð áttumst við við Þýska liðið og var þar um einvígi milli Vestur-evrópulandanna. Nú var hart barist um hvern vinning því ljóst að mjótt yrði á mununum á efstu liðum. Strákarnir börðust sem hetjur og unnu hver á fætur öðrum á 2. borði átti Alexander stórgóða skák og Sindri og Hallgrímur unnu líka sínar skákir og Nökkvi gerði sitt fjórða jafntefli, 3,5-0,5 sigur og komnir í 3-4 sæti á mótinu. Hallgrímur var nú komin með 5 vinninga af sex og átti góða möguleika á borðaverðlaunum. Nú var um að gera að lenda ekki á móti Kína sem voru efstir á mótinu, einnig áttum við eftir að tefla við Búlgarskt lið sem var á botninum og hitt liðið frá Hvíta Rússlandi sem var neðarlega. Því valt allt á því að við yrðum heppnir, en svo varð þó ekki og síðasta viðureignin var við Kína, sem leiddi mótið örugglega. Í síðustu umferðinni mættu strákarnir ofjörlum sínum frá Kína og töpuðu hver af öðrum, nema Sindri Freyr sem átti góða möguleika í sinni skák, en samdi jafntefli til þess að tryggja okkur 5 sæti meðal Evrópuþjóða. Stærsta tap okkar á mótinu 0,5 – 3,5. Um kvöldið var verðlaunaafhending í Ráðhúsi borgarinnar. Niðurstaðan því fimmtasæti Evrópuþjóða og nákvæmlega í miðju mótinu, sem var framar okkar vonum. Engin spurning að strákarnir eiga fullt erindi á mót sem þetta.
Íslandsmót skákfélaga
Skáksamband Íslands stendur fyrir Íslandsmóti skákfélaga í tveimur hlutum yfir veturinn þar sem skákfélög senda sveitir sínar til keppni. Um nokkurt skeið hefur verið teflt í 4 deildum og hefur Taflfélag Vestmannaeyja yfirleitt teflt fram 3-4 sveitum. A sveitin, sem skipuð er 8 mönnum, hefur um nokkurt skeið keppt í 1 deild og náð þar góðum árangri. Helsti burðarás sveitarinnar um langt skeið hefur verið stórmeistarinn Helgi Ólafsson, en einnig Björn Ívar Karlsson (yngri), Þorsteinn Þorsteinsson sem hefur verið liðsstjóri sveitarinnar frá því haustið 2008, Páll Agnar Þórarinsson og Henrik Daníelsen stórmeistari auk þess sem félagið hefur á stundum styrkt liðið með erlendum stórmeisturum. Á árabilinu 2004 til 2015 keppti TV alls 11 sinnum í fyrstu deild og lagði oft mikið undir, árangurinn var sá að 4 sinnum lentum við í 2 sæti og jafnoft í 3 sæti en aldrei tókst að landa tiltlinum sjálfum. Árangurinn er þó undraverður að ganga frá borði 8 sinnum með verðlaun af 11 skiptum !
Árangur A sveitar á Íslandsmótinu
- 1999 - 2001 (2 deild)
- 2002 6 sæti (2 deild)
- 2003 2 sæti (2 deild) - upp um deild
- 2004 4 sæti (1 deild)
- 2005 3 sæti (1 deild)
- 2006 2 sæti (1 deild) - B sveitin sigraði 4 deild.
- 2007 2 sæti (1 deild)
- 2008 8 sæti (1 deild - fall í 2 deild)
- 2009 1 sæti (2 deild); Luis Galego, Jan Johansson, Þorsteinn Þorsteinsson, Páll A Þórarinsson, Sævar Bjarnason, Björn Ívar Karlsson og Lárus Knútsson (sh).
- 2010 2 sæti (1 deild); Alexey Dreev (sh), Helgi Ólafsson, Michael Hoffmann (fh), Igor A Nataf, Sebastian Maze, Nils Grandelius (sh), Páll A Þórarinsson, Þorsteinn Þorsteinsson, Björn Ívar Karlsson, Sævar Bjarnason (fh) og Björn Freyr Björnsson (fh).
- 2011 2 sæti (1 deild); Mikhail Gurevich (fh), Jon L Hammer, Tomi Nyback (sh), Jan Gustafsson (sh), Kamil Miton (sh), Helgi Ólafsson, Sebastian Maze (fh), Igor A Nataf (fh), Ingvar Þór Jóhannesson, Páll A Þórarinsson, Kristján Guðmundsson, Þorsteinn Þorsteinsson og Björn Ívar Karlsson.
- 2012 3 sæti (1 deild); Mikhail Gurevich (fh), Jon L Hammer (sh), Helgi Ólafsson, Henrik Danielsen, Sebastian Maze (sh), Ingvar Þór Jóhannesson, Masha Klinova (fh), Páll A Þórarinsson, Kristján Guðmundsson, Þorsteinn Þorsteinsson og Björn Ívar Karlsson.
- 2013 4 sæti (1 deild); Jon L Hammer (fh), Tomi Nyback (sh), Kamil Miton (fh), Helgi Ólafsson, Nils Grandelius (sh), Sebastien Maze, Rafal Antoniewski (fh), Henrik Danielsen, Sigurbjörn Björnsson, Ingvar Þór Jóhannesson og Björn Ívar Karlsson.
- 2014 3 sæti (1 deild); Eduardas Rozentalis, Nils Grandelius, Helgi Ólafsson, Henrik Danielsen, Sigurbjörn Björnsson, Ingvar Þór Jóhannesson, Björn Ívar Karlsson, Þorsteinn Þorsteinsson og Nökkvi Sverrisson (fh).
- 2015 3 sæti (1 deild); Niels Grandelius, Matthieu Cornette, Helgi Ólafsson, Henrik Danielsen, Ingvar Þór Jóhannesson, Sigurbjörn Björnsson, Björn Ívar Karlsson, Þorsteinn Þorsteinsson, Björn Freyr Björnsson, Kristján Guðmundsson, Ægir Páll Friðbertsson og Kjartan Guðmundsson.
- 2016 4 sæti (4 deild) - drógum félagið út úr 1 deild vorið 2015.
- 2017 2-3 sæti (4 deild) - Upp í 3 deild. Sveitina skipuðu 12 manns, m.a. þeir Ægir Páll Friðbertsson, Lúðvík Bergvinsson, Kristófer Gautason, Alexander Gautason, Arnar Sigurmundsson og Karl Gauti Hjaltason.
- 2018 10 sæti (3 deild).
- 2019 2 sæti (3 deild) - Upp í 2 deild. Í A-sveit tefldu þeir Ægir Páll Friðbertsson, Nökkvi Sverrisson, Sigurjón Þorkelsson, Sverrir Unnarsson, Kristófer Gautason, Lúðvík Bergvinsson, Aron Ellert Þorsteinsson, Alexander Gautason og Hallgrímur Steinsson. Í B-sveitinni tefldu þeir Arnar Sigurmundsson, Andri Valur Hrólfsson, Ólafur Hermannsson, Karl Gauti Hjaltason, Páll Magnússon, Stefán Gíslason, Einar Sigurðsson, Páll J. Ammendrup, Bjartur Týr Ólafsson og Sindri Freyr Guðjónsson.
Formannatal T.V.
Félagið hefur starfað óslitið frá árinu 1957, en fyrir þann tíma komu nokkur ár þar sem starfið lagðist alveg niður í nokkur ár í senn. Alls hafa 22 menn gegnt formennsku í félaginu miðað við 2021. Formannstíð Karls Gauta frá 2007 til 2013 eða í 6 heil ár er lengsta samfellda formannstíð í sögu félagsins. Bæði Sigurjón Þorkelsson og Arnar Sigurmundsson gegndu embættinu í rúm 5 ár (1990 og 2015), en bæði Össur Kristinsson (frá 1974) og Einar B. Guðlaugsson (frá 1967) gegndu því í tæp 5 ár. Sá sem hefur gegnt embættinu lengst allra er Sigurjón Þorkelsson eða í 12 ár samanlagt á fjórum aðskildum tímabilum. Fjórir hafa gegnt formennsku tvisvar, þeir Arnar Sigurmundsson (samtals 8 ár), Stefán Gíslason (samtals 3 ár), Sævar Halldórsson (samtals 2 1/2 ár) og Karl Gauti Hjaltason (samtals meira en 6 ár). Meira en hálf öld leið milli þess sem Arnar Sigurmundsson tók við formennsku í félaginu, hann var fyrst kjörinn 7. október 1962 og svo aftur tæpum 53 árum seinna eða 5. september 2015 og líklega geta fá félög státað af slíkri hliðhollustu.
- 29. ágúst 1926 Hermann Benediktsson, Godthaab
- 11. október 1936 Karl Sigurhansson, Brimnesi
- 8. október 1944 Halldór Ó. Ólafsson, Arnardrangi
- 15. september 1957 Kristján Tryggvi Jónasson
- 21. september 1958 Gústaf Finnbogason
- 7. október 1962 Arnar Sigurmundsson
- 12. september 1965 Óli Á. Vilhjálmsson
- 1. október 1967 Einar B. Guðlaugsson
- 13. september 1972 Andri Valur Hrólfsson
- 5. október 1974 Össur Kristinsson
- 20. september 1979 Ólafur Hermannsson
- 22. september 1982 Guðmundur Búason
- 15. september 1984 Sævar Halldórsson
- 9. mars 1986 Ágúst Ómar Einarsson
- 28. september 1986 Sævar Halldórsson
- 17. september 1987 Sigurjón Þorkelsson
- 16. september 1989 Stefán Gíslason
- 27. september 1990 Sigurjón Þorkelsson
- 13. október 1995 Stefán Gíslason
- 22. september 1997 Sigurjón Þorkelsson
- 18. september 1998 Ágúst Örn Gíslason
- 19. september 1999 Sigurjón Þorkelsson
- 15. september 2003 Magnús Matthíasson
- 5. júní 2007 Karl Gauti Hjaltason
- 5. júní 2013 Ægir Páll Friðbertsson
- 5. september 2015 Arnar Sigurmundsson
- 2. febrúar 2021 Hallgrímur Steinsson
- 1. júní 2023 Karl Gauti Hjaltason
Heiðursfélagar
- 11. október 1936 Sigurbjörn Sveinsson, Sólbergi.
- 21. september 1988 Sigmundur Andrésson bakari.
- 9. september 2023 Arnar Sigurmundsson
- Í tilefni af kjöri Arnars sem heiðursfélaga flutti Karl Gauti formaður félagsins eftirfarandi ræðu á Goslokamótinu 9. september 2023: Það er með mikilli ánægju sem ég tilkynni að stjórn Taflfélags Vestmannaeyja hefur kjörið Arnar Sigurmundsson sem heiðursfélaga í félaginu. Arnar er því sá þriðji sem hlýtur slíka útnefningu í rúmlega 97 ára sögu félagsins, en það var stofnað 29. ágúst 1926 og verður brátt aldargamalt. Áður hlutu útnefninguna þeir Sigurbjörn Sveinsson, Sólbergi árið 1936, en Sigurbjörn var einnig heiðursborgari Vestmannaeyjabæjar, kennari, skákdæmahöfundur, ljóðskáld og orti ma. Ljóðið fagra sem hefst með orðunum : Yndislega Eyjan mín, en hvað þú ert morgunfögur. En Sigurbjörn var ekki síst þekktur sem barnabókarhöfundur og stundum nefndur sem rithöfundur barnanna. Árið 1988 var Sigmundur Andrésson bakari, útnefndur heiðursfélagi Taflfélagsins, en hann var um áratugaskeið mjög virkur í starfi félagsins og á mikinn þátt í því að hafa haldið utan um sögu félagsins og færði félaginu að gjöf skábókasafn sitt og úrklippusafn árið 2005 og ræða hans af því tilefni sem hann flutti er eftirminnilegt og unnt að finna á Heimaslóð, en þar kemur fram hvernig það kom til að Sigmundur hóf skákiðkun vegna slyss sem hann lenti í ungur, en einnig hve mjög Sigmunur unni skáklistinni og Taflfélaginu. Arnars er fyrst getið í bókum Taflfélagsins 1958, þegar hann 14 ára gamall sigraði unglingaflokk félagsins á Haustmótinu 1958. Á þessum tímum voru háðar símaskákir milli félaga og Arnar tók einmitt þátt í einni slíkri 1959, þegar Eyjamenn sigruðu Akurnesinga með 7,5 vinningi gegn 3,5. Arnar getur kannski frætt okkur hvernig nákvæmlega slíkar keppnir fóru fram, ef einhvern tíma getur reynst nauðsynlegt að taka þann háttinn upp, ef veður hamlar för ofan af landi. Síðan þá er óhætt að segja að hann hafi tekið virkan þátt í starfi félagsins, bæði þegar félagið hefur verið í sókn og starf þess öflugt og stórkostlegt eins og stundum hefur verið, en einnig og ekki síður þegar starfsemi þess hefur verið í lægð og erfitt að fá menn til að iðka þessa göfugu íþrótt. Arnar virðist aldrei hafa verið svo önnum kafinn að hann hafi ekki geta gert einhver viðvik í þágu félagsins. Arnar varð fjórum sinnum skákmeistari Vestmannaeyja 1964, 1969, 1970 og 1979. Þá varð Arnar formaður Taflfélags Vestmannaeyja á árunum 1962-1965 og það ótrúlega gerðist sem fá félög geta státað af að 53 árum eftir að hann var kjörinn formaður tók hann að nýju við formennsku 5. september 2015. Mér er til efs að mörg félög geti státað að slíkri hollustu og enn er hann sístarfandi fyrir félagið eins og þið öll sjáið. Arnar er sannarlega vel að þessum heiðri kominn. Innilega til hamingju með nafnbótina og megir þú áfram lifa við góða heilsu, minn kæri vinur og félagi.
Skákmeistari Vestmannaeyja
Í upphafi var sá sem sigraði í Skákmeistaramóti Vestmannaeyja, kallaður Taflkonungur Vestmannaeyja eins og greindi í fyrstu lögum félagsins frá 1926. Þannig segir í grein í Skeggja, 23. desember 1926 (bls. 103): "Kappskák var háð hér nýlega og fóru leikar svo, að stud. med. Ólafur Magnússon varð hlutskarpastur og hlaut, auk verðlauna, nafnið "Taflkóngur Vestmannaeyja", hafði hann 14 vinninga, næstur var Daníel Sigurðsson 10 vinninga og 3 Guðni Jónsson, Vegamótum („Guðni í Ólafshúsum“) stud. theol. 9,5 vinn".
Þá segir í minningargrein um Ólaf Magnússon, Sólvangi að hann hafi oftast verið Taflkonungur Vestmannaeyja frá stofnun félagsins til andláts síns 1930. Vitað er að hann sigraði 1926, en ekki hafa fundist óyggjandi heimildir um árin 1927, 28, 29 og engar um sigurvegara 1930, sem hefur þá varla verið Ólafur.
Í Víði segir um Skákþingið 6. mars 1937 "Flokks skákþingi Taflfélags Vestmannaeyja er nú lokið. Teflt var í fyrsta, öðrum og þriðja flokki. Í fyrsta flokki keptu 3 menn og voru tefldar 3 umferðir. Sigurvegari varð Hjálmar Theódórsson með 4,5 vinning, næstir honum voru Vigfús Ólafsson með 3,5 og Karl Sigurhansson með 1 vinning."
Í Víði 2. febrúar 1945 er fjallað um Skákþingið 1944 : "Í haust gerðu nokkrir skákmenn hér tilraun til að hefja að nýju starf í Taflfélagi Vestmannaeyja, en það hafði ekkí starfað um nokkurn tíma, Tókst þetta vel og hafa teflt í vetur milli 20 og 30 manns. Hefir félagið notið góðvilja Akóges hvað húsnæði snertir og fengið að halda þar fundi. Starfsemi sína síðastliðið ár endaði félagið með að halda skákþing Vestmannaeyja. Var keppt i þremur flokkum og öllum, sem eiga hér heima, heimil þátttaka. Fyrsti flokkur keppti tvískiptur. Í A flokki vann Sigurþór Halldórsson með 1 vinningum af 5 mögullegum. Annar var Angantýr Elíasson með 3 vinninga. Í B. flokki vann Vigfús Ólafsson með 4 vinningum og vann alla. Annar var Karl Sigurhansson með 2,5vinning. Kepptu þessir menn svo til úrslita og vann Vigfús alla aftur. Annar var Angantýr. Í 2. flokki vann Helgi Benónýsson með 1 vinninga og vann alla. Í 3flokki vann Högni Sigurjónsson með 4 ninningum. Hefur nú verið ákveðið að stofna meistaraflokk innan félagsins. Eiga sæti í honum Árni Stefánsson, Friðbjörn Benónýssion, Karl Sigurhansson og Vigfús Ólafsson. Nýlega vann Árni í 1 flokki í Reykjavík með ágætri útkomu. Hefur hann skorað á Vigfús í átta skákir og stendur sú keppni nú yfir. í fyrsta flokki eru efstir Freymóður Þorsteinsson og Angantýr. Skáklistin er ein besta íþrðtt, sem menn iðka í frístundum sínum. Ættu allir skákunnendur að ganga í félagið og styrkja þar með skáklíf Eyjanna og reyna að auka hróður þeirra í þessari fögru, en vandlærðu íþrótt.
Í Eyjablaðinu 30. janúar 1963 er fjallað um Skákþing Vestmannaeyja árið 1962 : "Skákþingi Taflfélags Vestmannaeyja fyrir árið 1962, sem hófst í haust, lauk hinn 18. janúar. Þátttakendur voru 8. Úrslit urðu þau, að skákmeistari Vestmannaeyja varð Jón Hermundsson, Heiðarvegur 35. Hann hlaut 5,5 vinninga. Annar varð Arnar Sigurmundsson, Vestmannabraut 25, með 5 vinninga, og þriðji varð Karl Ólafsson, Karl Ólafsson, Sólhlíð 26, með 4,5 vinning.
Alls hafa 26 menn borið þennan eftirsótta titil miðað við árið 2024. Sá sem oftast hefur orðið meistari er Sigurjón Þorkelsson, eða 16 sinnum, en næstir koma þeir Kári Sólmundarson, 9 sinnum, Björn Ívar Karlsson, 5 sinnum, en þeir Einar B. Guðlaugsson, Sverrir Unnarsson, og Arnar Sigurmundsson, hafa unnið titilinn 4 sinnum hver.
Lengstur tími frá því sami maður vann titilinn fyrst og síðan aftur er hjá Sigurjóni Þorkelssyni, eða fyrst 1986 og síðast 2023 eða 37 ár, næstur kemur Arnar Sigurmundsson, (fyrst 1964 og síðast 1979) eða 15 ár) síðan kom tveir sem hafa gert þetta á áratug, þeir Kári Sólmundarson (1975 og 1985) og Björn Ívar Karlsson (2001 og 2011).
Þrír menn hafa unnið titilinn fjórum sinnum í röð, en það eru þeir Einar B. Guðlaugsson 1965-68, Kári Sólmundarson 1975-78 og Björn Ívar Karlsson (yngri) 2008-11.
Þá er gaman að segja frá því að meðal meistara má sjá nokkur skyldmenni, t.d.Björn Ívar Karlsson (yngri) og Björn Ívar Karlsson (eldri), en sá yngri er sonarsonur þess eldri, einnig má finna þarna feðgana Sverri Unnarsson og Nökkva Sverrisson.
- 1926 Ólafur Magnússon, Sólvangi
- 1927-29 Ólafur Magnússon, Sólvangi (óvíst um fjölda titla Ólafs)
- 1936 Halldór Ólafsson,
- 1937 Hjálmar Theódórsson,
- 1944 Vigfús Ólafsson,
- 1957 Árni Stefánsson, Stórhöfða ? ath
- 1958 Árni Stefánsson, Stórhöfða
- 1959 Árni Stefánsson, Stórhöfða
- 1960 Karl Ólafsson
- 1961 Bjarni Helgason
- 1962 Jón Hermundsson
- 1963 Jón Hermundsson
- 1964 Arnar Sigurmundsson
- 1965 Einar B. Guðlaugsson
- 1966 Einar B. Guðlaugsson
- 1967 Einar B. Guðlaugsson
- 1968 Einar B. Guðlaugsson
- 1969 Arnar Sigurmundsson
- 1970 Arnar Sigurmundsson
- 1971 Björn Ívar Karlsson (eldri)
- 1972 Helgi Ólafsson
- 1973 Helgi Ólafsson
- 1974 Össur Kristinsson
- 1975 Kári Sólmundarson
- 1976 Kári Sólmundarson
- 1977 Kári Sólmundarson
- 1978 Kári Sólmundarson
- 1979 Arnar Sigurmundsson
- 1980 Kári Sólmundarson
- 1981 Kári Sólmundarson
- 1982 Kári Sólmundarson
- 1983 Guðmundur Búason
- 1984 Kári Sólmundarson
- 1985 Kári Sólmundarson
- 1986 Sigurjón Þorkelsson
- 1987 Stefán Þór Sigurjónsson
- 1988 Sigurjón Þorkelsson
- 1989 Sigurjón Þorkelsson
- 1990 Ágúst Ómar Einarsson
- 1991 Sigurjón Þorkelsson
- 1992 Sigurjón Þorkelsson
- 1993 Sigurjón Þorkelsson
- 1994 Ægir Óskar Hallgrímsson
- 1995 Ægir Óskar Hallgrímsson
- 1996 Sigurjón Þorkelsson
- 1997 Sigurjón Þorkelsson
- 1998 Ágúst Ómar Einarsson
- 1999 Sverrir Unnarsson
- 2000 Sverrir Unnarsson
- 2001 Björn Ívar Karlsson (yngri)
- 2002 Sigurjón Þorkelsson
- 2003 Sigurjón Þorkelsson
- 2004 Ægir Páll Friðbertsson
- 2005 Sverrir Unnarsson
- 2006 Sigurjón Þorkelsson
- 2007 Sverrir Unnarsson
- 2008 Björn Ívar Karlsson (yngri)
- 2009 Björn Ívar Karlsson (yngri)
- 2010 Björn Ívar Karlsson (yngri)
- 2011 Björn Ívar Karlsson (yngri)
- 2012 Nökkvi Sverrisson
- 2013 Nökkvi Sverrisson
- 2014 Nökkvi Sverrisson
- 2015 Stefán Gíslason
- 2016 Ekki teflt
- 2017 Sigurjón Þorkelsson
- 2018 Sigurjón Þorkelsson
- 2019 Hallgrímur Steinsson
- 2020 Sigurjón Þorkelsson
- 2021 Sigurjón Þorkelsson
- 2022 Hallgrímur Steinsson
- 2023 Sigurjón Þorkelsson
- 2024 Benedikt Baldursson
Jólamót TV á jóladag
- 2001 Björn Ívar Karlsson (yngri),
- 2002 Björn Ívar Karlsson (yngri),
- 2003 Sigurjón Þorkelsson,
- 2004 Sigurjón Þorkelsson,
- 2005 Björn Ívar Karlsson (yngri),
- 2006 Björn Ívar Karlsson (yngri),
- 2007 xx xxxxson,
- 2008 Björn Ívar Karlsson (yngri) með 10 vinn. (17 keppendur)
- 2009 Björn Ívar Karlsson (yngri) með 8,5 vinn. (18 keppendur)
- 2010 Björn Ívar Karlsson (yngri) með 11 vinn. (16 keppendur)
- 2011 Sverrir Unnarsson með 8 vinn. (9 keppendur)
- 2012 Einar Sigurðsson (jaxl) með 6 vinn. (8 keppendur)
- 2013 Nökkvi Sverrisson með 7,5 vinn. (6 keppendur)
Hafrenningur
Á sjómannadaginn hefur skapast sú hefð að Landmenn og Sjómenn tefli sveitakeppni í skák og hefur keppnin hlotið nafnið Hafrenningur. Yfirleitt hefur verið teflt á 10 borðum, en það hefur reyndar farið svolítið eftir þátttöku. Þessi siður var fyrst tekin upp 1986 og hefur haldist allt fram á þennan dag, nema hvað keppnin féll niður árið 1987 og 2011.
Sigurvegarar í keppninni hafa verið þessir:
- 1986 Landmenn, gef. Glófaxi VE 300
- 1987 Ekki teflt
- 1988 Landmenn
- 1989 Landmenn
- 1990 Landmenn, gef. Hótel Þórshamar
- 1991 Landmenn
- 1992 Landmenn
- 1993 Landmenn, gef. Ísf. Vestm.eyja
- 1994 Landmenn
- 1995 Sjómenn
- 1996 Landmenn
- 1997 Landmenn
- 1998 Landmenn
- 1999 Landmenn, gef. Glófaxi VE 300
- 2000 Sjómenn
- 2001 Landmenn, 16-4.
- 2002 Landmenn, 10-4.
- 2003 Sjómenn, 9-7.
- 2004 Landmenn, 13-3.
- 2005 Landmenn
- 2006 Landmenn
- 2007 Landmenn
- 2008 Landmenn
- 2009 Landmenn
- 2010 Landmenn
- 2011-13 Ekki teflt
Heimildir
- Samantekt skrifaði Karl Gauti Hjaltason
- Endurreisn 1957 og húsnæðismál 1957-82 er tekið úr greinum eftir Arnar Sigurmundsson
- Fyrstu kaflarnir eru teknir úr Afmælisriti TV 1982
- Fróðleikur um Árna Stefánsson frá Stórhöfða er úr grein e. Björn Ívar Karlsson eldri í Dagskrá 17. apríl 1998
- Víðir, 15. nóvember 1930, Minningargrein
- Skeggi, 4. september 1926, Fréttabálkur
- Skeggi, 23. desember 1926, Fréttabálkur