Halldór Ó. Ólafsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
 Halldór Óskar Ólafsson, frá Arnardrangi við Hilmisgötu var fæddur 19. nóvember 1923 á Brekku í Fljótsdal í Múlasýslu og lést 25. nóv. 1985.

Foreldrar hans voru Ólafur Ó. Lárusson (1884-1952) síðar héraðslæknir í Vestmannaeyjum og kona hans Silvía Guðmundsdóttir (1883-1957). Halldór var yngstur í hópi tíu systkina. Foreldrar hans byggðu húsið Arnardrang við Hilmisgötu árið 1928, en í þessi glæsilega 3ja hæða húsi var á jarðhæð rekið einkasjúkrahús um árabil, einkum fyrir erlenda sjómenn, enda vorum umsvif þeirra á Íslandsmiðum mikil á þessum árum. Halldór Ó. lauk gagnfræðaprófi á Akreyri 1941 og verslunarprófi í Reykjavík 1943 og lauk prófi í Loftskeytaskólanum 1948. Halldór var kjörinn formaður Taflfélags Vestmannaeyja 1944 og var formaður þar til hann flutti með fjölskyldu sinni á höfuðborgarsvæðið árið 1947. Fyrri hluta þessa tímabils var öflug starfsemi í Taflfélaginu en dró úr þegar frá leið. Halldór rak sjoppuna Hallóbar við Bárustíg í nokkur ár – en nafnið er dregið af gælunafni Halldórs Óskars. Halldór réðst til Loftleiða 1955 og vann þar sem loftskeytamaður í millilandaflugi og síðar sem eftirlitsleiðsögumaður hjá félaginu til 1972. Eftir það vann Halldór um tíma sem loftskeytamaður í Eyjum eftir goslok 1973. Hann lauk starfsferli sínum sem lofsiglingafræðingur og hleðslustjóri hjá Cargolux í Luxemburg meðan heilsan leyfði. Halldór var kvæntur Helenu Svanhvíti Sigurðardóttir (1924-1988) og bjuggu þau í Arnardrangi í Vestmannaeyjum, í Reykjavík og Luxemburg og eignuðust þau fimm börn.